Staða hitameðaltala

Fyrir tæpu ári síðan (21. nóvember 2012) birtist pistill sama efnis á hungurdiskum. Hér er hann uppfærður til mánaðamótanna september/október 2013.

Hlýindin miklu sem einkennt hafa veðurlag hér á landi undangengin 15 ár halda enn sínu striki. Síðustu 12 mánuðir (október 2012 til september 2013) eru að vísu 0,5 stigum kaldari í Reykjavík heldur en 12-mánaða tímabilið sem endaði með september í fyrra. Lítillega kaldara var á 12-mánaða tímabilinu mars 2006 til febrúar 2007 heldur en nú.  Október 2012 og 2013 virðast ætla að enda með ámóta meðalhita. Nóvember í fyrra var ekki sérlega hlýr en það var desember hins vegar. Ef hitafar verður svipað (miðað við meðallag) síðustu tvo mánuði ársins 2013 og verið hefur undanfarna mánuði verður árið í ár kaldara heldur en 2013.

Hér að neðan er miðað við meðalhitatölur úr Stykkishólmi, en meðalhitasveiflur þar eru oftast nærri því sem gerist fyrir landið í heild. Við tökum landsmeðalhitann fyrir síðar. Við leyfum okkur til gamans að skarta 2 aukastöfum - en varlega skal tekið mark á þeirri nákvæmni.

Meðalhiti síðustu 12 mánaða í Stykkishólmi er 4,42 stig, á sama tíma í fyrra var talan 5,03 stig. Hér munar 0,61 stigi í Stykkishólmi 2012 í vil. Tólf mánaða meðalhitinn náði upp í 5,19 stig í lok febrúar en hefur verið á siglingu niður á við síðan þá. Mjög líklegt er að 12-mánaða hitinn hrapi talsvert í janúar og febrúar 2014 því þessir tveir mánuðir 2013 voru sérlega hlýir.

Meðalhiti síðustu sextíu mánaða (5 ár) stendur nú í 4,80 stigum en á sama tíma í fyrra var hann 4,91 stig hefur lækkað lítillega.

Meðalhiti síðustu 120 mánaða (10 ár) stendur nú í 4,75 stigum, á sama tíma í fyrra var 10-ára meðalhitinn 4,89 stig. Meðalhitinn í september 2002 til ágúst 2012  var hæsta 10-ára meðaltal allra tíma í Stykkishólmi, 4,90 stig. Við erum því nú aðeins komin framhjá toppnum. Á næstunni harðnar á dalnum fyrir 120-mánaða meðaltalið því út úr því eru að detta ólíkindaárin 2003 og 2004 og ólíklegt er að næstu mánuðir eða jafnvel ár nái því að verða jafnhlý og þessi ofurár.

Það var í lok apríl 2008 sem 120-mánaða hitinn fór í fyrsta sinn yfir hæsta gildið á hlýindaskeiðinu fyrir miðja 20. öld (4,45 stig) og er nú 0,30 stigum hærri en sú  tala.

Á sama tíma í fyrra stóð 360-mánaða (30-ára) meðalhitinn í 4,14 stigum. Nú hefur hann þokast upp í 4,20 stig. Kaldir mánuðir ársins 1983 hafa verið að detta út og hlýrri mánuðir 2013 komið í staðinn.
Þó hlýindin nú séu orðin langvinn hafa þau ekki staðið nema í um hálfan annan áratug. Þrátt fyrir það er 360 mánaða hitinn í Stykkishólmi nú búinn að jafna hæsta 360-mánaða gildi fyrra hlýskeiðs Það var frá og með mars 1931 til og með febrúar 1961 að hitinn varð hæstur þá.

Hlýjasta 12-mánaða tímabilið í Stykkishólmi var september 2002 til ágúst 2003 með 5,88 stig. Sama tímabil var einnig það hlýjasta í Reykjavík með 6,61 stig og á Akureyri með 5,77 stig. Árið í ár verður kaldara en hlýjast hefur verið.

Fleiri pistlar um langtímameðaltöl eru í pípunum (en hvert þær liggja er ekki vitað).


Bloggfærslur 27. október 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.7.): 124
  • Sl. sólarhring: 176
  • Sl. viku: 1332
  • Frá upphafi: 2486241

Annað

  • Innlit í dag: 104
  • Innlit sl. viku: 1170
  • Gestir í dag: 91
  • IP-tölur í dag: 90

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband