Nokkra daga að jafna sig

Veðrakerfi yfir N-Atlantshafi taka nú fáeina daga í að jafna sig á lægðinni miklu sem hungurdiskar hafa fjallað um í síðustu tveimur pistlum. Lægðin grynnkar óðfluga, ruðningur er enn á köldu lofti í átt til vesturstrandar Evrópu en lítið virðist gerast í námunda við Ísland.

Kortið að neðan sýnir stöðuna í 500 hPa-fletinum um hádegi á morgun, mánudag (21. janúar).

w-blogg210113

Jafnhæðarlínur eru heildregnar og sýna hæð 500 hPa-flatarins í dekametrum (1 dam = 10 metrar). Þykktin er sýnd með rauðum strikalínum, því meiri sem hún er því hlýrri er neðri hluti veðrahvolfs.

Blá ör bendir á 516 dam jafnþykktarlínuna en hún hringar sig í kringum háloftalægðina - og svæði suður af henni. Það er fremur óvenjulegt að svona kalt loft nái suður á þessar slóðir úr vestri (frekar úr norðri). Það er komið yfir Norður-Atlantshafsstrauminn (Golfstrauminn) og hitar yfirborð sjávar nú loftið baki brotnu. Líkanið segir að ekki verði búið að útrýma svæðinu innan við 516 dam línuna fyrr en kl. 6 á þriðjudagsmorgun. Gríðarlegir skúra- og éljaklakkar fylgja kalda loftinu og má búast við illri færð á spænskum og jafnvel Portúgölskum heiðum og í fjallaskörðum næstu daga.

Ísland er hér áfram verndað af fyrirstöðuhæð fyrir austan land - hún er ekki sterk en dugar samt í nokkra daga til viðbótar. Grábleiku svæðin sýna iðuhámörk - iðan er hér mest í löngum borðum sem ekki hreyfast mikið. Við látum frekari umfjöllun um þá bíða betri tíma (eða sleppa þeim alveg).

Þó er skemmtilegt að minnast á það að næsti borði sem berst til Íslands á samkvæmt líkaninu að koma frá Danmörku, þar sem ör bendir á hann. Hann á að renna til norðvesturs meðfram hæðinni og koma upp að landinu á þriðjudag - kannski bætir í úrkomu suðaustanlands - kannski gerist nákvæmlega ekki neitt.

En góður skammtur af kulda er enn yfir Kanada og leitar til austurs. Næsta meginlægð á að verða eitthvað minni en sú síðasta - en síðan fylgja fleiri í kjölfarið.


Bloggfærslur 21. janúar 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 20
  • Sl. sólarhring: 504
  • Sl. viku: 2029
  • Frá upphafi: 2466718

Annað

  • Innlit í dag: 17
  • Innlit sl. viku: 1876
  • Gestir í dag: 17
  • IP-tölur í dag: 16

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband