Vitameinlaust smáatriði

Hér að neðan er fjallað um mjög algengt veðurfyrirbrigði sem stöku sinnum rífur sig upp í skaðræðisveður. Að þessu sinni er það svo ómerkilegt að það tekur varla nokkur maður eftir því. Eitthvað hefur verið minnst á þetta á hungurdiskum áður - en ástæða er til að hamra á því meðan beðið er eftir stóra dæminu.

w-blogg110113a

Fyrsta kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um sjávarmálsþrýsting, úrkomu og hita í 850 hPa-fletinum föstudaginn 11. janúar kl. 18. Jafnþrýstilínur eru heildregnar, jafnhitalínur eru strikaðar og má m.a. sjá -10°C línuna sveigjast langt til austurs fyrir sunnan Grænland. Úrkoma síðustu 6 klukkustundir er sýnd með grænum og bláum litum. Dökkblái bletturinn sem rauða örin bendir á táknar 15 til 20 mm á 6 klukkustundum.

Úrkomusvæðið yfir vestanverðu Íslandi sýnir að skilin sem hafa verið að fara fram og til baka yfir landið í dag (fimmtudag) og í gær verða enn viðloðandi á föstudagskvöld.

En úrkomuhnúturinn sem örin bendir á er umfjöllunarefni dagsins. Þar er mjög hvöss norðnorðaustanátt næst jörð - en snýst fyrst í norðvestur og síðan suðvestur eftir því sem ofar dregur yfir norðurhluta hnútsins. Sunnar er háloftaáttin af austsuðaustri. Hverjar eru nú reglur um hlýtt og kalt aðstreymi?

Í hlýju aðstreymi snýst vindur sólarsinnis með vaxandi hæð. Snúningurinn norðnorðaustur (20°) til austsuðausturs (110°) er þannig sunnan til í úrkomuhnútnum og þar er því hlýtt aðstreymi. Í köldu aðstreymi snýst vindur andsólarsinnis með vaxandi hæð. Í hnútnum er snúningurinn norðantil úr norðnorðaustri (20°) til norðvesturs (320°) og yfir í suðvestur (230°) - þar er því kalt aðstreymi. Þar sem hlýtt og kalt aðstreymi kallast á skerpir á hitabratta (jafnþykktarlínur þéttast).

Af þessu má sjá að einmitt við þessar aðstæður geta hlutir gerst. En við fylgjum nú hnútnum í 12 klukkustundir, næsta kort gildir kl. 06 að morgni laugardags.

w-blogg110113b

Þarna sést að hnúturinn (rauða örin bendir enn á hann) hefur hreyfst nokkurn spöl til norðausturs. Með góðum vilja má fylgja honum allt til Færeyja en spáin segir hann verða þar á sunnudag (14. janúar) - það sýnir blá strikaör í grófum dráttum. Lægðin við Írland fer suður á Miðjarðarhaf og litla lægðin á Grænlandshafi fer til austsuðausturs á sama tíma.

Hvað með þetta? Jú, fáeinar af verstu illviðralægðum hér við land eru einmitt orðnar til á þennan hátt. Lítum á 500 hPa-kort sem gildir á sama tíma.

w-blogg110113c

Hér eru jafnhæðarlínur svartar, vindörvar sýna vindhraða og stefnu og litafletir hita í 500 hPa. Gulu litirnir tákna hlýtt loft en bláir kaldara. Rauða örin bendir á þann stað sem úrkomuhnúturinn okkar er staddur. Stórt S er sett í söðul á kortinu. Söðlar eru eins konar fjallaskörð í þrýstisviðinu. Þar mætast allar vindáttir. Brúna strikalínan er sett við dálítið lægðardrag sem er á austurleið.

Við endurtökum að fáeinar af verstu illviðralægðum hér við land eru einmitt orðnar til við söðulaðstæður suður eða suðvestur í hafi. Skammtur af hlýju lofti á norðurleið austan söðuls hittir fyrir kalt sem gengur til austurs eða austsuðausturs fyrir norðan hann. Sé tímasetningin rétt (hittir í hann) geta afdrifaríkir hlutir gerst.

En nú gerist ekkert. Tímasetningin er ekki rétt og loftið að vestan og norðvestan ekki alveg nógu kalt og auk þess á hlýja loftið lítið bakland - stutt er í aðra háloftalægð rétt austan við.

Á þessu korti sér einnig í fyrirstöðuna fyrir austan land sem hefur tekið þátt í að móta veðrið hér síðustu daga. Hún hörfar heldur - sjá má hvernig kalt loft frá meginlandinu (bláa örin) er að hringa hana og þar með verður hún úr sögunni fyrir okkur. Auk þess sækir brúnstrikamerkta lægðardragið á úr vestri.

Næstu fyrirstöðumyndun er spáð hér við land á þriðjudaginn. Er sú miklu veigaminni heldur en fyrri spár gáfu sumar til kynna. Samt hefur hún veruleg áhrif á veður hér á landi (og miklu víðar) fram eftir næstu viku. En líta má á það mál síðar.


Bloggfærslur 11. janúar 2013

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (14.5.): 19
  • Sl. sólarhring: 521
  • Sl. viku: 2028
  • Frá upphafi: 2466717

Annað

  • Innlit í dag: 16
  • Innlit sl. viku: 1875
  • Gestir í dag: 16
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband