Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Komið að snjóhulunni

Þá er komið að snjóhulunni (á línuritafylleríinu). Það er eins með hana og úrkomuna að athugunarstöðvum hefur farið óþægilega fækkandi á síðustu árum og óvissa þar með aukist. Fari svo sem horfir verður ekki hægt eftir tíu ár að skrifa pistil sem þennan með nýjum gögnum. Jú, það verður (með mjög mikilli fyrirhöfn) hægt að splæsa saman eldri gögn og gervihnattaathuganir, en hver skyldi vilja greiða fyrir það og hver vinna þrælavinnuna? Þessi staða er því óskiljanlegri fyrir það að við lifum á breytingatímum í náttúrunni og mikilvægt er að fylgjast með slíkum breytingum (eða er það kannski misskilningur hjá ritstjóra hungurdiska - eru breytingarnar allar reiknanlegar í líkönum?).

Hvað um það, fyrsta línuritið sýnir meðalsnjóhulu í byggðum landsins frá 1924 til 2024. Meðaltalið nær hér reynda ekki til ársins (janúar til desember) heldur frá september að hausti til ágúst að sumri. Það köllum við snjóár. Það er raunar álitamál hvort setja eigi þessi áramót við mánaðamót ágúst og september eða mánuði síðar. Fyrsta árið sem hér eru upplýsingar um er því september 1924 til og með ágúst 1925, það síðasta byrjaði í september 2023 og endaði í ágúst síðastliðnum (2024). 

w-blogg180125a

Lárétti ásinn sýnir árin (merkt við síðara ártal snjóársins). Lóðrétti ásinn sýnir prósentur. Snjóhula er athuguð þannig að ýmist er alautt (snjóhula 0 prósent), alhvítt (snjóhula 100 prósent) eða jörð er flekkótt (snjóhula 50 prósent). Sumir veðurathugunarmenn hafa komist upp með það að nota 25 og 75 prósent líka - við höfum ekki áhyggjur af því, vegna þess að ritstjóri hungurdiska hefur gert viðeigandi samanburð. Meðaltal er reiknað fyrir mánuðinn og síðan fyrir allt árið. Í ársmeðaltalinu er (rétt eins og í meðalhitareikningum) gert ráð fyrir því að allir mánuðir séu jafnlangir - febrúar hefur því aðeins of þungt vægi miðað við janúar og mars - en það skiptir í raun mjög litlu. 

Meðalsnjóhula ársins í byggðum landsins er 29 prósent. Það eru um 3,5 mánuðir, safnað saman, en dreifist auðvitað í raun á miklu lengri tíma, bæði alhvítt og flekkótt. Blá lína liggur um myndina þvera við meðaltalið. Við sjáum að snjóhula var lítillega yfir meðallagi veturinn 2023 til 24. Það eru töluverð tímabilaskipti. Veturinn 1928-29 virðist hafa verið sá snjóléttasti síðustu 100 árin. Áberandi snjóavetur komu í kringum 1950 og sérlega snjólétt var um nokkurra ára skeið rúmum áratug síðar. Það voru reyndar mótunarár ritstjórans og hélt hann þá að svona væri þetta á Íslandi. Mikil breyting varð síðan um miðjan sjöunda áratuginn og allt önnur snjóatíð tók við - og stóð linnulítið til vors árið 2000 (margir muna enn hinn snjóþunga mars það ár). Síðan var mjög lítill snjór í nokkur ár - en eftir það hafa skipst á snjólitlir vetur og meðalvetur, helst að veturinn 2019-20 falli í flokk snjóþungra vetra. 

Flestar stöðvar athuga einnig snjóhulu í fjöllum. Miðað er við 500 til 700 metra hæð, dálítið misjafnt eftir staðháttum og útsýni. Ekki var farið að athuga fjallasnjóhuluna reglulega fyrr en árið 1935. Fyrsta árið í þeirri röð er því 1935-36.

w-blogg180125b

Nokkur líkindi eru með þessum tveimur línuritum. Meðaltalið er um 54 prósent (6,3 mánuðir). Snjór var mjög lítill í fjöllum í kringum 1960, en hafði náð hámarki veturinn 1948-49. Munar þar mestu að vorið þá var sérlega snjóþungt og leifar af snjó héldust um landið norðanvert langt fram eftir júnímánuði. Snjóléttast í gagnaröðinni var veturinn 1941-42. Þá var mjög hlýtt í veðri. Lítill snjór var í fjöllum 2002-03 og lengst af hefur snjór í fjöllum verið undir meðallagi á þessari öld, lítillega yfir því þó 2023-24 og einnig báða veturna 2013-14 og 2014-2015. Tveir síðastnefndu veturnir teljast snjóþungir á fjöllum. Snjóþyngsti vetur köldu áranna var 1982-83, en litlu munar þó á honum og þremur öðrum vetrum (ómarktækur munur). 

Við sjáum að samband er á milli snjóhulu í byggð og í fjöllum. Lítum aðeins nánar á það.

w-blogg180125c

Hér er snjóhula í byggð á lárétta ásnum, en í fjöllum á þeim lóðrétta. Fylgjast þessar mælitölur vel að. Tölurnar eiga við síðara ártal snjóársins. Tvö ár skera sig dálítið úr, veturna 1941-42 og 1945-46 var snjóhula í fjöllum enn minni heldur en snjóhula í byggð ein og sér gefur til kynna. Einnig sjáum við að árið 2013-14 er á jaðrinum hinu megin, þá var snjóhula á fjöllum í mesta lagi miðað við snjóhulu í byggð (en sker sig samt kannski ekki sérstaklega úr). Jafnan sem sjá má (og ritstjórinn gleymdi að þurrka út) er aðfallslínan. Af henni má sjá að verði snjólaust í byggð má enn búast við meir en þriggja mánaða snjóhulu í fjöllum og öfugt, verði alhvítt allt árið á fjöllum er snjóhula í byggð tæpir tíu mánuðir. En við skulum hafa í huga að hefðu slík aftök átt sér stað er viðbúið að þau hefðu ekki endilega gerst á aðfallslínunni. 

Eðlilegt er, í framhaldi af þessu, að spyrja hvort ekki sé samband á milli hita og snjóhulu. Svo reynist vera.

w-blogg180125d

Við sjáum hér samband meðalsnjóhulu í byggð og hita í Stykkishólmi. Ártöl á þessari öld hafa verið lituð rauð. Við tökum strax eftir því að ekkert rautt ártal er í vinstri hluta myndarinnar - þrátt fyrir almannaróm um kulda. Reikna má halla aðfallslínunnar og segir hún okkur að fyrir hvert stig í auknum hita styttist alhvíti tíminn um 22 dag - sama ef kólnar um eitt stig, þá lengist alhvíti tíminn sem því nemur. Tökum við þetta bókstaflega (sem er e.t.v. varasamt) færi alhvíti tíminn upp í rúma 6 mánuði ef ársmeðalhitinn færi niður í núll (sem er alveg innan mögulegrar dreifingar hita - alla vega í eldra veðurfari). Á hinn bóginn - til að fá alveg alautt þarf meðalhitinn að fara upp í 8,7 stig. Gríðarlega mikið þarf að hlýna til að snjólaust verði á láglendi Íslands (athugið að hér verðum við þá líka að gera ráð fyrir óbreyttri árstíðasveiflu - breytist hún breytast forsendur allar). 

w-blogg180125e

Það sama má gera fyrir snjóhulu í fjöllum. Alhvíti tíminn styttist um 19 daga fyrir hvert stig í hlýnun, og lengist, kólni að sama skapi. Fari ársmeðalhitinn niður í núll verður snjóhula á fjöllum í kringum 9 mánuðir, en ársmeðalhiti þarf að fara í 14 stig til að losna alveg við vetrarsnjó af hálendinu - ekki beinlínis líklegt. 

Við vitum ekkert um það hversu mikið hlýna mun hér á landi á næstu áratugum (þótt líkindi séu á þeirri hliðinni frekar en hinni). Tveggja stiga hlýnun (sem er reyndar dálítið í lagt) myndi geta stytt alhvíta tímann um tæpan einn og hálfan mánuð, úr þremur og hálfum niður í rúma tvo. Slíkt væri umtalsverð breyting, og á fjöllum myndi alhvíti tíminn fara úr 6,3 mánuðum niður í rúma fimm. Við látum vera að fylgja slíkum vangaveltum frekar. Leitni í snjóhulu í byggð og í fjöllum hefur ekki verið teljandi síðustu 100 árin - þrátt fyrir hlýnun. Breytileiki milli ára og áratuga er svo mikill að lengri tíma athugana þarf til slíkra reikninga. Vonum bara að athuganir á snjóhulu haldi áfram. 

Fyrir rúmum 20 árum tók ritstjóri hungurdiska saman ritgerð um snjó og snjóhulu. Auðvitað hefur margt gerst síðan, en almennar upplýsingar í ritgerðinni standa þó enn fyrir sínu. 


Busl og skvamp

Hinir stóru kuldapollar norðurhvels hafa ekki mjög angrað okkur það sem af er vetri. Nokkur gangur var þó á dögunum í Síberíu-Blesa sem sendi sérlega kalt loft suður um Mansúríu, Kóreu og olli því gríðarlegri snjókomu norðanvert í Janpan. Nú er allt í einu hreyfing á Stóra-Bola (sem við höfum kallað svo). Hann hefur verið til þess að gera rólegur í Norður-Íshafi, en heldur nú suður í átt að Hudsonflóa austanverðum og sendir þar með gríðarkalda slummu langt suður í Bandaríkin og er spáð sérlega köldu veðri í námunda við vötnin miklu. Þegar suður til Bandaríkjanna er komið lendir öllu saman við heimskautaröstina sem skerpist og hrekkur til og liggur við að sjá megi bæði busl og skvamp næstu daga austur um allt Atlantshaf af þessum sökum.

w-blogg170125ha

Kortið er hefðbundið, heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins og má af þeim ráða vindstefnu og styrk í miðju veðrahvolfi. Miðja Stóra-Bola er þarna yfir norðanverðum Labradorskaga og fyrir vestan hana er kalda loftið á leið suður og síðar austur. Þessi framsókn sveigir síðan allar jafnhæðarlínur langt austur á bóginn næstu daga - eins og þegar belti eða svipu er sveiflað - og eitthvað af kalda loftinu ryðst austur á Atlantshaf nokkuð sunnan Grænlands. Þykktina má sjá í lit, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Mjög hlýtt hefur verið undanfarna daga á norðanverðum Bretlandseyjum og í sunnanverðri Skandinavíu, enda er þykktin þar í íslenskum sumarhæðum og rúmlega það. Mjög leiðinlegur kuldapollur er hins vegar yfir Miðjarðarhafi vestanverðu og hlýtur að valda miklu úrhelli þar um slóðir. Hér við Íslend er lægðarbylgja rétt sunnan við land - en atburðir í vestri sparka henni austur á bóginn þannig að hún verður alveg úr sögunni á þriðjudag. 

Ekkert samkomulag er síðan um framhaldið í næstu viku. Spár reiknimiðstöðvarinnar eru alveg sitt á hvað frá einni spárunu til annarrar. Ýmist er þar ekki mjög mikið um að vera - rétt eins og skvampbylgjurnar leggist öfugar ofan á hver aðra og eyðist - eða þá að þær magna hver aðra upp (já, þær eru margar). Mjög erfitt virðist vera að reikna út stærð hverrar bylgju og þar með hraða. Spáin sem gerð var á hádegi gerir ráð fyrir 940 hPa lægð vestan við Skotland eftir viku, en spáin frá miðnætti sýnir ekkert slíkt. Amerísku spárnar eru ámóta fjörugar - ýmist svosem ekki neitt - eða allt í botni. En í veðrinu gerast svona hlutir ekki á jarðfræðilegum tímakvarða þannig að staðan skýrist ekki seinna en á gildistíma spánna - og trúlega áður. 

Best fyrir okkur væri auðvitað að buslið skilaði okkur hóflega hlýju lofti með hægum vindum og góðviðri í eina til tvær vikur - en ætli sé ekki þar með verið að fara fram á allt of mikið. 


Af úrkomubreytileika síðustu 24 árin

Áframhald á línuritafylleríinu, þó þannig að við lítum nú aðeins til úrkomumælinga á þessari öld. Meginástæða þess að við bíðum með að horfa til lengri tíma er sú að mönnuðum úrkomumælingum hefur mjög fækkað og allar heildartölur því orðið óáreiðanlegri. Vonandi kemur að því að hægt verður að sameina gögn frá fjölmörgum sjálfvirkum stöðvum þessum mönnuðu mælingum þannig að betri samanburður fortíðar og nútíðar náist. 

Hér er því áhersla frekar lögð á breytieika frá ári til árs nú upp á síðkastið - og þá í formi einfaldra línurita. Fyrsta ritið er e.t.v. vafasamast.

w-blogg160125a

Það sýnir „meðalúrkomu“ á landinu frá árinu 2001 til 2024. Við höfum hugtakið í gæsalöppum því hér er örugglega ekki um meðalúrkomu landsins að ræða í hinum venjulega skilningi. Súlurnar sýna 12-mánaðakeðjur þannig að breytileiki milli ára komi sem best fram. Það gæti sýnst sem úrkoman fari minnkandi - en við tökum ekkert mark á slíku. Í fyrsta lagi er tímabilið mjög stutt og í öðru lagi gæti verið að stöðvum þar sem úrkoma er að jafnaði mikil hafi fækkað meira en stöðvum þar sem hún er lítil. 

Við sjáum þó að um greinilega toppa og dali er að ræða. Topparnir eru þar sem úrkoma hefur verið mikil, en dalirnir þar sem þurrt hefur verið í veðri. Mest áberandi er þurrkurinn mikli á árinu 2010, og svo hefur aftur verið mjög þurrt nú í ein tvö ár - sé eitthvað að marka gögnin. Þetta er reyndar í takt við tilfinningu ritstjórans og líklega líka lóna Landsvirkjunar. 

w-blogg160125b

Næsta mynd sýnir nærri því það sama, en hér er þó hugsanlegur ójöfnuður vegna fækkunar stöðva þurrkaður út (að mestu). Reiknað er hlutfall úrkomu hvers mánaðar á veðurstöð af ársúrkomu á tímabilinu 1971 til 2000. Þetta tímabil var valið vegna þess að þá voru stöðvar sem flestar og auðveldast að skálda í stakar eyður í gögnum. Leitnin sem var áberandi á fyrri mynd er nú vægari. Talan 100 segir að úrkoma sé í meðallagi. Það hefur sýnt sig á einstökum veðurstöðvum að þurrkur er orðinn alvarlegur á einhvern hátt þegar ársúrkoman er ekki nema 75 prósent af meðalúrkomu. Þetta á enn frekar við landið í heild og lægstu 12-mánaða tölurnar fara niður undir 80 prósent, janúar til desember 2010 niður í 80 prósent, og tímabilið júlí 2023 til júní 2024 niður í 83 prósent. Þetta styður hugmyndir um þurrk, jafnvel þótt gögnin mættu vera betri. 

w-blogg160125c

Síðasta myndin er aðeins öðru vísi. Við teljum þá daga sem úrkoma er 0,5 mm eða meiri á öllum úrkomumælistöðvum og reiknum hlutfall þeirrar tölu af heildarfjölda stöðva. Þessi kvarði versnar auðvitað líka fækki stöðvum mjög, en þó eru þær enn það margar á landinu í heild að truflun ætti ekki að vera veruleg (en auðvitað hugsanleg). Við sjáum að venjulega mælist úrkoma 0,5 mm eða meiri á nærri helmingi veðurstöðva sama daginn (úrkomur eru þrálátar á Íslandi). Við sjáum líka að þótt hlutfallsleg hæð toppanna á þessari mynd sé ekki alveg sú sama og á fyrri myndum eru þeir samt hinir sömu. Það sama má segja um dalina. Þurrkarnir á síðastliðnu ári, árið 2010 og árið 2010 skera sig úr sem fyrr. 

Vonandi getum við síðar litið á lengra tímabil - og hugsanlega einstaka landshluta, en við hinkrum að minnsta kosti þar til yfirlit Veðurstofunnar verður birt, þá verður ritstjórinn aðeins rólegri gagnvart gögnunum og getur hreinsað upp eigin subbuskap. 

En þetta setur stöðuna nú samt í eitthvað samhengi (þótt óöruggt sé). 


Fyrstu fimmtán dagar janúarmánaðar 2025

Fyrstu fimmtán dagar janúar 2025. Hitinn hefur dálítið rétt sig af og er meðaltalið í Reykjavík nú -0,6 stig, -1,3 stigum neðan við meðaltal sömu daga 1991 til 2020 og -1,1 stig neðan meðallags síðustu tíu ára. Raðast hitinn nú í 19. hlýjasta sæti (af 25) á öldinni. Hlýjastir voru þessir dagar árið 2002, meðalhiti þá 4,2 stig, en kaldastir voru þeir 2023, meðalhiti -3,2 stig. Á langa listanum lendir hitinn í 86. hlýjasta sæti (af 153). Hlýjast var 1972, meðalhiti +5,9 stig, en kaldast 1918, meðalhiti -9,5 stig.

Á Akureyri er meðalhitinn nú -3,2 stig, -2,5 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -2,8 stig neðan meðallags sömu daga síðustu tíu árin og í 63. hlýjasta sæti síðustu 90 ára. Kaldast var 1959, -9,2 stig (álíka og í Reykjavík 1918).

Að tiltölu hefur verið kaldast á Suðausturlandi þar sem dagarnir 15 eru þeir næstköldustu á öldinni. Á Vestfjörðum raðast þeir í 16. hlýjasta sætið.

Á einstökum veðurstöðvum hefur verið kaldast að tiltölu á Egilsstaðaflugvelli, en þar hefur hiti verið -3,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hiti hefur hins vegar verið í meðallagi á Þverfjalli - og líka í Ólafsvík.

Úrkoma hefur mælst 27,5 mm í Reykjavík og er það um tveir þriðju hlutar meðalúrkomu. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 15,9 mm, um helmingur meðaltals og á Dalatanga hefur hún mælst 50 mm og er það ríflega helmingur meðaltals.

Sólskinsstundir hafa mælst 15,2 í Reykjavík, ívið fleiri en að meðaltali. Á Akureyri hafa til þessa mælst 1,2 stundir - eins og algengt er í fyrri hluta janúar.

Nota tækifærið og minni á gamlan pistil hungurdiska um veðrið sem olli Súðavíkurflóðinu fyrir 30 árum.

 


Enn úr línuritasafninu - loftþrýstingur í þetta sinn

Við lítum nú á tvö langtímalínurit - bæði tengd loftþrýstingi. Annars vegar er það meðalsjávarmálsþrýstingur ársins en hins vegar þrýstióróavísir sem er mælikvarði á breytileika þrýstingsins frá degi til daga. Þetta eru öllu torræðari veðurfarsbreytur heldur en hitinn - og mikil vandræði hvað lítið er um þær fjallað í umræðum um veðurfarsbreytingar. Ritstjóri hungurdiska hefur fjallað um þessar tímaraðir áður, en hér eru þær uppfærðar. 

w-blogg140125a

Þrýstingur er mjög breytilegur frá ári til árs, munar meir en 10 hPa á ársmeðaltölum. Þótt það reiknist lítilsháttar leitni niður á við er hún samt varla marktæk. Tíu ára meðaltöl hafa þó haldist nokkuð lág í hátt í 40 ár. Við getum með góðum vilja séð einhverja áraklasa, en ekki þó svo að hald sé í. Samband er á milli þrýstings á Íslandi og hita á meginlandinu. Lágur þrýstingur á Íslandi vísar á sterka vestanvinda að vetrarlagi yfir Evrópu og þá hlýindi þar. Háþrýstingur aftur á móti segir frá kuldum í Evrópu, sérstaklega á Norðurlöndum. Hæstur var ársþrýstingurinn árið 1812 - eða þannig reiknast hann. Talan er þó ekki sérlega áreiðanleg - en benda má á að þetta var einmitt árið sem Napóleon lenti í hvað mestum vandræðum í Rússlandi. 

Hlýindi voru í Evrópu milli 1860 og 1870, þegar kuldinn var hvað mestur hér á landi. Þá var þrýstingur hér sérlega lágur. Þrýstingur var einnig sérlega lágur um 1990, þá var mjög hlýtt í Evrópu - en kalt hér. Sé þrýstingur mjög lágur hér á landi er yfirleitt kalt á Grænlandi, en öfugt sé þrýstingur hár. Árið 2010 var mjög kalt í Skandinavíu (vegna norðanátta), en þá var methlýtt á Vestur-Grænlandi.

Lítið samband er á milli þrýstings og hita hér á landi, hár þrýstingur vísar ýmist á hita eða kulda eftir því hvers eðlis háþrýstingurinn er. Í lágum þrýstingi er hiti oftar nær meðallagi, vegna þess þá að vindátt er mjög breytileg þegar lægðir renna hjá. Þrálátur lágþrýstingur er þó mjög kaldur. Við bíðum enn eftir slíku ári, með norðanátt og lágþrýstingi. Það kemur fyrr eða síðar, hvað sem hnattrænni hlýnun af mannavöldum líður, rétt eins og hlýir vetur með háum þrýstingi koma endrum og sinnum á kuldaskeiðum.

w-blogg140125b

Við reiknum breytingu sjávarmálsþrýstings frá degi til dags og finnum síðan ársmeðaltal breytinganna. Það er samband á milli þrýstings og breytileikans, því hærri sem þrýstingurinn er því minni vill breytileikinn verða, þrýstingur er stöðugri í háþrýstisvæðum heldur en lægðum. Þetta er þó ekki algilt. Einnig virðist vera samband á milli breytileikavísisins og illviðratíðni. Ár þegar vísirinn er hár eru að jafnaði illviðrasamari heldur en hin. Við vitum þó ekki nægilega mikið um illviðri fyrri tíðar til að geta fullyrt hvort slíkt samband hafi haldist stöðugt eða ekki öll þau 200 ár sem við höfum verið að mæla. Við vitum þó að árið 1854, óróamesta ár 19. aldar var í raun illviðrasamt. Við vitum hin síðari ár að 2015 og 2020 voru bæði illviðrasöm, en árið 2010 ekki. 

Eins og áður var minnst á er hægt að nota meðalþrýsting á Íslandi sem vísi á hitafar á mjög stóru svæði frá Labrador í vestri langt austur í Evrópu. Óróleikavísirinn segir einnig af hitafari í nágrannalöndunum, en áhrifasvæði hans er minna um sig heldur en áhrifasvæði þrýstingsins. Þegar órói er mikill hér á landi er hlýtt í Evrópu, en kalt á Vestur-Grænlandi - og öfugt. 

Ritstjóri hungurdiska gerir þá (að honum finnst) eðlilegu kröfu til veðurlíkana sem reyna að spá um framtíðina að þau fari ekki út af sporinu í þrýsti- og óróleikamálum. Allt of lítið er um það fjallað hver sú hegðan er. Kannski er hún komin í lag? 


Fleiri hitatengd línurit - hitamunur milli landshluta og þessháttar

Við lítum enn á nokkur línurit af lager ritstjóra hungurdiska, í dag er aðaláherslan á breytileika hitamunar milli landshluta (hver hefur svosem áhuga á slíku?).

w-blogg130125a

Fyrst verður fyrir munur á ársmeðalhita í Reykjavík og á Akureyri. Við getum með góðri samvisku farið aftur til ársins 1882 (og sömuleiðis eru fáein ár um 1850 þar sem athugað var á báðum stöðum samtímis). Á árunum 1991 til 2020 var meðalmunurinn 0,9 stig sem er ívið minna heldur en áður. Við sjáum að á hafísárunum frá 1965 og þar á eftir rauk munurinn upp og varð nærri því 2 stig árið 1968. Þetta var alveg raunverulegt ástand sem varði öll hafísárin 1965 til 1971, en síðan sló af. Það er ákveðið skemmtiatriði að bandaríska veðurstofan trúir ekki svona nokkru - að hitamunur geti ár eftir ár verið meiri en venjulega á milli stöðva þar sem stutt er á milli (á heimskvarða). Viðbragðið varð því að lækka hitann í Reykjavík sem þessari óþekkt nam. Ekki veit ritstjórinn hvort þetta hefur verið leiðrétt til baka eða ekki. Það hefur einu sinni gerst á þessum 140 árum rúmum að ársmeðalhiti á Akureyri var hærri heldur en í Reykjavík. Það var 1984, en þá var rigningasumar á Suðurlandi, en í hlýrra lagi norðaustanlands. Svipað var 1976 og sumarið 1933 er frægt hlýindasumar í Eyjafirði og víðar norðanlands. Við sjáum þetta viðbragð ekki sumarið hlýja 2021 - þótt hlýindin væru langmest á Norður- og Austurlandi var ekki kalt suðvestanlands. Á eldri tíð má benda á árið 1848, en febrúar það ár var fádæma kaldur á landinu (út úr takti við annað þau árin). Reykjavík var betur varin fyrir kuldanum þeim, en hans gætti t.d. mjög í Stykkishólmi rétt eins og á Akureyri. Árið 1892 var mikið kuldaár, en heldur mildara var suðvestanlands heldur en annars staðar. 

w-blogg130125b

Þessi mynd hefur sést á hungurdiskum áður - en er uppfærð hér. Hún sýnir mismun á ársmeðalhita í Grímsey og á Stórhöfða í Vestmannaeyjum. Hér má sjá ákveðið þrep um 1920 og síðan aftur þrep til aukins munar á hafísárunum. Hefðu hafísárin ekki komið hefði verið tilhneiging til að telja hinn mikla mun eldri tíðar vera mælavandamál (svipað viðbragð og við lýstum áður hjá bandarísku veðurstofunni). Í því ljósi má segja að hin hreinu umskipti hafísáranna hafi verið mikil fengur, hinar eldri athuganir eru mun trúverðugri fyrir vikið. Meðalmunur á árunum 1991 til 2020 var 2,0 stig. Árið 1984 sker sig úr (eins og á fyrri mynd), en einnig syrpa áranna 2014 til 2018, munur á hita milli norður- og suðurstrandar landsins hefur aldrei verið jafnlítill mörg ár í röð. Árið 1902 var mesta hafísár 20. aldarinnar - þá komst ís meira að segja til Vestmannaeyja og hefur það aldrei borið við síðan. Árið 1968 komst ísröst vestur að ósum Kúðafljóts. Árið 1943 sker sig aðeins úr - þónokkur hafís var síðari styrjaldarárin úti af Norðurlandi, þótt ekki væri það í líkingu við það sem síðar varð. En ritstjóri hungurdiska hefur stundum kallað þessi ár „litlu hafísárin“. Þess má einnig geta að ís var nokkur 1998, og hefur ekki orðið jafnmikill síðar, nema kannski 2005 (en það ár sker sig ekki úr). 

w-blogg130125c

Hér má efnislega sjá það sama og á fyrri mynd, en við notum aðrar stöðvar og sýnum þar með að meginlínur eru ekki háðar hringli í mælingum einstakra stöðva. Reiknaður er munur á meðalhita Reykjavíkur og Stykkishólms annars vegar og Teigarhorns og Grímseyjar hins vegar. Reykjavík er langbest varin áhrifum hafíss. Hér er þrep um 1920 ekki alveg jafn áberandi og á fyrri mynd, en hafísárin skera sig enn úr. Ártölin fara að verða kunnugleg. Mun kaldara var fyrir norðan og austan 1882 og 1902. Árið 1920 var kalt, en um land allt. Umhleypingaár, kannski eitthvað skylt árinu 2018 sem einnig er sérmerkt á myndinni. Þarna er líka 1998 og síðan 1932 (ekki 1933). Hlýrra var þá um landið vestanvert heldur en eystra. Hafíss gætti raunar þá um vorið eftir alveg fádæma hlýjan febrúar - svipað og 1965, en síðara árið var hafísinn miklu meiri. 

w-blogg130125d

Hér höfum við til gamans reiknað mun á hita í Grímsey og á Grímsstöðum á Fjöllum. Ársmeðalhiti í Grímsey er að meðaltali (1991 til 2020) 2,1 stigi hærri heldur en á Grímsstöðum. Munurinn virðist hafa aukist, meira hefur hlýnað í Grímsey (hlýrri sjór) heldur en á Grímsstöðum. Við skulum þó ekki gera mikið úr einhverri leitni. Hér eru ártölin ekki þau sömu og áður, nema hafísárið mikla 1902. Þá hefur verið mjög kalt í Grímsey miðað við Grímsstaði. Ekki er alveg ljóst hvað ártölin 1945 og 1971 eru að segja okkur, en þau eru þó bæði í lok hafísatburða, hafísáranna og hafísáranna litlu sem áður voru nefnd. Árin 1966 og 1979 voru bæði heldur skárri í Grímsey heldur en á Grímsstöðum. Sjórinn hefur eitthvað mildað. Sömuleiðis urðu einhver umskipti 2008. Ekki er ritstjóranum ljóst hvað þar er á seyði. Það kemur kannski í ljós síðar. 

w-blogg130125e

Hér lítum við líka þversum yfir landið, frá Fagurhólsmýri í suðaustri og til Vestfjarða í norðvestri. Flutningar stöðvanna á Vestfjörðum kunna að vera vandamál hér og einnig er ákveðið þekkt vandamál í hitaröðinni á Fagurhólsmýri - en við látum sem ekkert sé. Meðalhitamunur á milli staðanna (1991 til 2020) er 1,6 stig. Þegar farið var í landshlutagreiningu á hlýnuninni miklu um síðustu aldamót kom í ljós að hún var meiri um landið vestanvert heldur en á Austurlandi. Ástæðuna mátti finna í fortíðinni. Kuldaskeiðið sem stóð linnulítið frá 1965 fram yfir 1995 skiptist í þrennt. Hafísárin sjö komu fyrst, síðan komu nokkur ívið mildari ár, þau voru mildari austanlands heldur en vestan og þegar kólnaði aftur kólnaði meira vestanlands heldur en eystra og varð sá hluti sá kaldasti af hlutunum þremur á Vesturlandi. Þriðji kaldi hlutinn (1989 til 1995) varð einnig kaldari vestanlands heldur en eystra. Hlýnunin - þegar hún svo kom - byrjaði í kaldari stöðu á Vesturlandi heldur en eystra - og sýndist því meiri (þótt hún væri ekki meiri væri miðað við kuldaskeiðið allt). Í nágrannalöndunum byrjaði hin mikla hlýnun meir en tíu árum áður en hennar gætti hér á landi - en Austurland var nær þeirri hlýnun heldur en Vesturland og má sjá það á þessu línuriti (ef við vitum hvernig málum var háttað).

w-blogg130125f

Síðasta mynd dagsins er kannski sú tíðindaminnsta. Sýnir hitamun út og innsveita. Að meðaltali munar hér 1,6 stigum á hita stöðvaparanna sem valin eru. Talan fer auðvitað eftir vali stöðva. Við sjáum þó að við sjáum hér enn sömu ártöl og hafa komið fram á öðrum myndum. Því hærri sem talan er (munurinn meiri) því kaldara er inn til landsins miðað við sjávarsíðuna á Suður- og Norðurlandi. 

Þetta dugir flestum í bili - og væntanlega miklu meira en það hjá flestum. En fleiri myndir bíða birtingar á næstunni. 


Leitilausi hitinn - og fleira (endurtekið) efni

Á nýársdag litum við hér á hungurdiskum á línurit sem sýndi ársmeðalhita í Stykkishólmi á árunum 1798 til 2024. Þar kom vel fram hversu mikið hefur hlýnað á þessu tímabili. Leitnin á því línuriti er heldur meiri heldur en ritstjórinn reiknaði fyrst fyrir um 25 árum. Þá tók hann sig fyrst til og dró leitnina frá árshitanum og fékk út nýja hitaröð, leitislausan hita. Hann hefur síðan haldið uppteknum hætti (án þess þó að breyta þeirri leitni sem þá reiknaðist). Við höfum áður litið á myndina hér að neðan, en hún hefur nú verið uppfærð til loka ársins 2024.

w-blogg120125a

Kosturinn við að nema á brott hina almennu leitni er helst sá að köld og hlý tímabil koma vel fram - eitthvað sem við getum kannski frekar tengt „náttúrulegum“ breytileika, án þeirrar miklu hlýnunar sem nú á sér stað í heiminum. Hlýskeiðin þrjú síðustu 200 árin rúm koma fram á „jafnréttisgrundvelli“ 0g kuldaskeiðin sömuleiðis. Við sjáum aðeins í endann á því fyrsta, kannski stóð það frá því um 1780 og fram yfir 1815 (við vitum það ekki glöggt, sjá þó gamlan hungurdiskapistil). Næsta kuldaskeið varð mjög langt, stóð frá því seint á sjötta áratug 19.aldar rétt fram yfir 1920, 60 ár rúm. Þriðja kuldaskeiðið stóð síðan frá 1965 þar til því rétt um aldamótin síðustu. 

Við skulum hafa í huga að sá mikli breytileiki sem er sjáanlegur frá ári til árs á fyrri hluta tímabilsins getur verið tvenns konar. Annars vegar er hann alveg raunverulegur, breytileiki er meiri á kuldaskeiðum heldur en hlýskeiðum, en á tímabilinu fyrir 1850 kann að vera að skýringuna sé að einhverju leyti að finna í því hvernig hitaröðin er búin til - breytileikinn sýnist heldur meiri en hann í raun og veru var. Enginn sérstakur efi er þó á því að aðferðin finnur köld og hlý ár - og tímabil. 

Enga reglu er að sjá, jú, það skiptast í raun og veru á köld og hlý tímabil á mjög eindreginn hátt, en lengd þeirra er óregluleg. Við getum alla vega ekki með nokkru móti búið til einhverja reglubundna sveiflu sem gengur í gegnum allt línuritið. Hér má líka nota tækifærið til að benda á að þau línurit sem veifað er á netinu og kennd eru við AMO eða AMV eru líka leitnilaus - rétt eins og þetta, hinni almennu hlýnun er þar sleppt til þess að sú sveifla sem sýna á sjáist betur. AMO línuritum ber ekki saman við þetta línurit nema á stuttu skeiði. 

Það sem við einnig sjáum er að hverju kulda- og hlýskeiði um sig má skipta í styttri tímabil. Tíuárakeðjan sem hér er notuð gerir það fyrir okkur (ef við notuðum t.d. 7 eða 15 ára keðjur í staðinn kæmi skipting eftir þeim tímaalengdum einnig í ljós). Alvarlegasti hikstinn í fyrsta hlýskeiðinu kom fram á árunum 1834 til 1836. Þá komu nokkur mjög köld ár með miklum hafís inn í hlýja skeiðið. Almennt má segja að þetta fyrsta hlýskeið hafi verið aðeins öðru vísi en þau síðari að þessu leyti. Hafís var meiri - og þótt vetur, vor og sumur væru hlý var mjög lítið um hlý haust - sjálfsagt er það eins og flest annað tilviljun. 

Næsta hlýskeið var lengst á vetrum, sumar- og hausthlýindi hófust síðar en vetrarhlýindi og sumarhlýindunum lauk mun fyrr en öðrum hlýjum árstíðum. Mesti hiksti í þau hlýindi kom fram á árunum 1948 til 1953. Héldu þá sumir að hlýskeiðinu væri lokið. Sumarhlýindum var að vísu lokið (að mestu), en vetrarhlýindin (sérstaklega) héldu síðan áfram eins og ekkert hefði í skorist. 

Nýliðið ár, 2024, er alvarlegasti hiksti sem komið hefur í núverandi hlýskeið, en við „njótum“ auðvitað hinnar undirliggjandi hlýnunar. Meðalhiti í Stykkishólmi 2024 var 3,7 stig, en án þessarar undirliggjandi hlýnunar hefði hann verið 2,4 stig - og e.t.v. enn lægri hefði þá hafís verið við land - sem er líklegra við 2,4 stig heldur en 3,7. 

w-blogg120125e

Næst lítum við á breytingu hitans í Stykkishólmi frá ári til árs. Þar sést vel hinn mikli breytileiki á 19. öld. Ákveðin breyting virðist verða 1892. Það heyrðist sagt að það hefði verið síðasta harðindaárið - í gömlum stíl. Síðan hefur breytileikinn almennt verið minni, en hann kemur fram þegar kalt ár fylgir hlýju - eða öfugt. Síðasti mikli toppurinn var á milli áranna 2015 og 2016, þegar mjög hlýtt ár fylgdi fremur köldu. Áberandi lítill breytileiki var í kringum aldamótin og sömuleiðis upp úr 1920.

w-blogg120125c

Munur á hlýjasta og kaldasta mánuði ársins hefur einnig farið minnkandi, eins og myndin að ofan sýnir. Munurinn er mestur þegar sérlega kaldir vetrarmánuðir sýna sig, eins og 1859, 1881 og 1918. Síðari tveir veturnir fengu báðir viðurnefnið „frostaveturinn mikli“ og sá 1859 var helst kallaður „álftabani“. Munurinn er hins vegar sérlega lítill þegar vetur er hlýr, en sumar svalt, eins og var t.d. 1851 og 1922. Á síðari árum var þessi munur minnstur árið 2015. Við megum taka eftir því að á fjórða áratug síðustu aldar, um og upp úr 1930 var ársspönnin meiri en verið hefur síðan, fór t.d. yfir 16 stig árið 1936 - þótt á hörðu hlýskeiði væri. 

w-blogg120125b

Síðasta mynd dagsins segir frá hitaflökti frá degi til dags í Stykkishólmi. Þær tölur höfum við aftur til 1846 og getum reiknað mun á morgunhita frá einum degi til annars og meðaltal ársins. Það er athyglisvert að þetta flökt er meira á kuldaskeiðum heldur en hlýskeiðum. Fáein ár fyrsta hlýskeiðsins sýna meira að segja ámóta lágar tölur og við höfum verið að sjá á þessari öld. Hafísárin svokölluðu í upphafi kuldaskeiðs tuttugustu aldar koma einnig mjög vel fram sem eindreginn toppur í breytileikanum. 

Við lítum fljótlega á fleiri línurit úr garði ritstjóra hungurdiska. Kannski hafa ekki margir áhuga á svona línuritum, en minna má á að líkur á því að sjá ámóta rit annars staðar eru nánast engar - svo mikil er ritstjórasérviskan. 


Fyrstu tíu dagar janúarmánaðar 2025

Janúar 2025 fer mjög kuldalega af stað. Meðalhiti í Reykjavík er -3,8 stig, -4,6 stigum neðan meðallags sömu daga áranna 1991-2020 og -4,8 stig neðan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er næstkaldasta janúarbyrjun á öldinni í Reykjavík (hún var kaldari 2001 þegar meðalhiti var -4,7 stig. Hlýjastir voru þessir tíu dagar árið 2019, meðalhiti -4,9 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 133 sæti (af 153). Hlýjast var 1972, meðalhiti þá +6.7 stig, en kaldast 1903, meðalhiti -7,7 stig.

Á Akureyri eru dagarnir enn kaldari að tiltölu. Meðalhiti þeirra er -7,1 stig, -6,5 stigum undir meðallagi 1991 til 2020 og -7,3 stig neðan meðallags síðustu tíu ára. Þetta er kaldasta janúarbyrjun á Akureyri síðan 1970. Kaldasta byrjun síðustu 90 ára á Akureyri var hins vegar 1963, meðalhiti þá -9,3 stig.

Á flestum spásvæðum er þetta kaldasta janúarbyrjun aldarinnar, við Faxaflóa, á Vestfjörðum og á Suðurlandi þó sú næstkaldasta (eins og í Reykjavík).

Á einstökum veðurstöðvum er neikvætt vik miðað við síðustu tíu ár mest á Þingvöllum þar sem hiti hefur verið -7,9 stigum neðan meðallags. Minnst er vikið á Hornbjargsvita, -2,9 stig.

Úrkoma hefur mælst 9,7 mm í Reykjavík og er það um þriðjungur meðalúrkomu. Á Akureyri hafa mælst 12,3 mm og er það ríflega helmingur meðallags. Á Dalatanga hafa mælst 43,6 mm um 80 prósent meðallags.

Sólskinsstundir hafa mælst 15 í Reykjavík, 10 fleiri en í meðalári. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 0,8 og er það í meðallagi.


Víkur kuldinn?

Fyrsta vika ársins 2025 hefur verið köld á landinu, hiti yfirleitt 4 til 6 stigum undir meðallagi á landinu. Nú gera spár hins vegar ráð fyrir hlýnandi veðri. Spár segja hita kominn upp fyrir frostmark um landið suðvestanvert um hádegi á föstudag og um sólarhring síðar á Austurlandi. Fyrst er kuldanum í háloftunum stuggað burt en síðan fara suðlægir vindar að reyna að hreinsa það kalda loft sem lægra liggur burt - eða blanda það hlýrra lofti - kannski er síðari hátturinn heppilegri.

w-blogg080125a

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins og þykktina um hádegi á föstudag. Þá er kaldasta loftið í neðri hluta veðrahvolfs horfið á braut og fremur hægur suðvestlægur vindur ber hlýrra loft (meiri þykkt) í átt að landinu. En ekki eru læti í þessu til að byrja með þannig að kaldasta og kyrrasta loftið í dölum landsins þrjóskast eitthvað við - kannski fer það burt, en eins og áður er minnst á gæti það líka blandast loftinu sem kemur að sunnan - og þá gengur hlýnunin hægar fyrir sig. 

Við tökum eftir gríðarlega snörpum kuldapolli nyrst á kortinu. Þykktin er minni en 4800 metrar þar sem hún er minnst. Við þurfum alltaf að hafa auga á svona kulda - þessum er reyndar spáð til austurs og þar með út af þessu korti, en það er þó þannig að það sem af er vetri hefur farið illa um kuldapolla norðurslóða og sá vestlægi (sem við höfum oft kallað Stóra-Bola) hefur ekki almennilega komist í sitt venjubundna bæli norðarlega í Kanada, hefur alltaf hrakist burt þaðan eftir skamman tíma. Óvenjuleg hlýindi hafa því verið á þeim slóðum um langa hríð. Spár eru auðvitað ekki sammála um hvernig fer með þau mál, en vísbendingar eru þó um að þessir hrakningar haldi áfram og að þessi meginkuldi norðurhvelsins geti tregðast við að yfirgefa austurgrænlandssvæðið - þótt hlýindi sæki nú að - að sinni. 


Af dægurmetauppskeru (að mestu endurtekið efni)

Hér fer endurtekið efni - uppfært þó - í tilefni þess að árið 2024 var það kaldasta til þessa á öldinni. Við lítum á talningar dægurhitameta á sjálfvirkum veðurstöðvum landsins - afskaplega nördalegt viðfangsefni. Dægurhámarksmet er hæsti hiti (hámark) sem mælst hefur á viðkomandi stöð ákveðinn almanaksdag og dægurlágmarksmet lægsta lágmarkið. Nýgengi þeirra fer bæði eftir því hversu lengi stöð hefur mælt hita, en almennt tíðarfar hefur einnig nokkuð að segja. Líkur eru á að fleiri dægurhámarks falli í hlýju ári heldur en köldu og öfugt þá í köldu. Væri veðurlag stöðugt gætum við að jafnaði búist við um 12 dægurmetum á hverju ári. Fyrir landið hefur verið athugað mun lengur og dægurmet fyrir landið allt eru sjaldséðari sem því munar.

Þótt fréttir að utan geri oft mikið úr dægurmetum (sérstaklega þeim amerísku) segja einstök met samt harla lítið - þó þau geti falið í sér skemmtileg tíðindi. Hafi verið mælt mjög lengi á stöðinni verða þessi tíðindi eftirtektarverðari. Svipað má segja um mjög miklar metahrinur - daga þegar dægurmet falla um stóra hluta landsins.

Talning leiðir í ljós að alls féllu 3226 hámarksdægurmet á almennu sjálfvirku stöðvunum hér á landi á árinu 2024 - séu þær stöðvar sem athugað hafa í 5 ár eða meira aðeins taldar með. Lágmarksmetin urðu hins vegar 5143 - talsvert fleiri en hámarksmetin - og mun fleiri heldur en undanfarin ár - enda var um svalt ár að ræða. En fjöldi metanna er líka háður fjölda stöðva - og þeim hefur farið fjölgandi þau 30 ár sem við lítum hér á. Því er hagkvæmara að líta á hlutfall hámarks- og lágmarksmeta, það er mjög breytilegt frá ári til árs og hlýtur að segja okkur eitthvað. Meir en 72 þúsund dægurmet hvorrar tegundar eru skráð alls á tímabilinu frá 1995 til 2024.

Lítum nú á línurit sem sýnir hlutfall hámarksdægurmeta af heildinni frá ári til árs.

w-blogg070125ha

Aðeins þarf að doka við til að skilja myndina - lárétti ásinn sýnir ár tímabilsins. Lóðrétti ásinn til hægri og rauðstrikaða línan sýna landsmeðalhita. Hlýjust eru árin 2003, 2014 og 2016, en 2015 og nýliðið ár voru hins vegar ámóta köld og árin fyrir aldamót.

Lóðrétti ásinn til vinstri sýnir hlut hámarksdægurmeta af summu útgildametanna (hámarks og lágmarks). Hlutur lágmarksmetanna fæst með því að draga frá einum. Við sjáum að allgott samband er á milli hámarksmetahlutarins og landsmeðalhitans. Í hlýjum árum er hlutur hámarkshitameta yfir 0,5 (50 prósent) og fer enn hærra þegar hlýjast er. Í köldum árum, eins og t.d. 2015 og 2024 verða lágmarksmet mun fleiri en hámarksmet, árið 2015 fór hámarksmetahluturinn niður í 0,31 og 2024 niður í 0,39. Árið 2016, fór hann hins vegar upp í 0,73 - og lágmarkshitahluturinn því aðeins 0,27.

Eftir því sem árunum fjölgar verður erfiðara að slá metin 72 þúsund (þeim fjölgar svo þegar stöðvum fjölgar). Þrátt fyrir það er á þennan hátt hægt að fylgjast með veðurfarsbreytingum. Skyndileg breyting á veðurlagi á hvorn veg sem er - nú eða í átt til öfga á báða bóga - kæmi fram við samanburð hegðunar metanna síðastliðin 30 ár. - En því nenna nú fáir nema útnörd - eins og ritstjóri hungurdiska - varla að slíkt eftirlit verði í forgangi hjá því opinbera (þrátt fyrir tal um veðurfarsbreytingar).

Við skulum næst líta á línurit sem sýnir samband hámarksmetahlutarins og landsmeðalhitans.

w-blogg070125hb

Lárétti ásinn markar hámarksmetahlutinn, en sá lóðrétti meðalhitann. Punktadreifin raðast vel og reglulega í kringum beina línu - því fleiri sem hámarkshitametin eru miðað við þau köldu, því hlýrra er árið. Fylgnistuðull er 0,92, nánast hægt að mæla landsmeðalhitann með því að reikna hlutfallið. En við skulum ekki venja okkur á að líta alveg hugsunarlaust á dreifirit sem þetta - athugum t.d. að hlutur hámarksmeta getur ekki orðið hærri en 1,0. Skyldi árið þegar landsmeðalhiti nær 6,16 stigum verða algjörlega lágmarksmetalaust? - eða árið þegar landsmeðalhitinn fellur niður í 2,34 stig - skyldu þá nákvæmlega engin hámarkshitamet verða sett? Árið 1979 fór landsmeðalhitinn niður í 1,75 stig, en hámarksmetahluturinn var þó 0,12. 

Ef rýnt er í myndina sést að hámarksmetahlutur ársins 2024 er nokkru hærri heldur en meðalhiti þess gefur til kynna. [Kannski árið hafi verið hlýrra en við reiknum?]

Í eldri pistlum um þetta efni höfum við stundum getið þeirra daga sem skila flestum metum (miðað við fjölda stöðva í rekstri) - en aðeins fyrir sjálfvirka kerfið. Í ljós kemur að bæði hitabylgjur og kuldaköst ná frekar til landsins alls að vetri heldur en sumri. Þetta kemur í sjálfu sér ekki á óvart, skýjahula og sólfar sér til þess.

Engar breytingar hafa orðið á toppsætum nú í nokkur ár. Sá dagur sem nú á mest metfall er 17. nóvember 2018. Þá féllu hámarksdægurmet á 88 prósent stöðva landsins. Þessi dagur vakti hvað mesta athygli á sínum tíma fyrir gríðarmikla úrkomu, t.d. varð met í Reykjavík fyrir tveggja sólarhringa úrkomusummu. Sá er munur á „hitabylgjum“ að sumarlagi að þær ná mun síður til landsins alls. Sá sumardagur sem nær hæstu hlutfalli er sá eftirminnilegi 30.júlí 2008, dægurmet féllu þá á 68 prósent veðurstöðva.

Á lágmarksmetahliðinni er það enn 30.apríl 2013 sem á hæstu methlutfallstöluna, 95 prósent. Um þann dag var ritað á hungurdiskum á sínum tíma. Óvenjukaldur dagur.


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 12
  • Sl. sólarhring: 183
  • Sl. viku: 2459
  • Frá upphafi: 2434569

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 2184
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband