Færsluflokkur: Vísindi og fræði
21.12.2024 | 13:16
Fyrstu tuttugu dagar desember 2024
Fyrstu 20 dagar desembermánaðar eru í svalara meðallagi. Meðalhiti í Reykjavík þó ofan frostmarks, +0,2 stig, -0.9 stigum undir meðallagi sömu daga á árunum 1991-2020 og -0.7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 16. hlýjasta sæti (af 24) á öldinni, hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2016, meðalhiti þá 5,6 stig, en kaldastir voru þeir árið 2011, meðalhiti -2,8 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 81. sæti (af 151). Kaldastir voru dagarnir 20 árið 1886, meðalhiti þá -5,6 stig.
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 20 daga desember -1,6 stig og er það -1,2 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en -0,7 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Miðhálendinu, þar raðast hitinn nú í 12.hlýjasta sæti aldarinnar, en kaldast að tiltölu hefur verið á Vestfjörðum og Austfjörðum þar sem hiti raðast í 19. hlýjasta sæti aldarinnar. Á einstökum stöðvum hefur að tiltölu verið hlýjast við Setur, hiti +0,7 stigum ofan meðallag síðustu tíu ára, en kaldast að tiltölu hefur verið á Hornbjargsvita, hiti -1,7 stig neðan meðallags.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 57,8 mm og er það í meðallagi. Á Akureyri hafa mælst 19,5 mm og er það um 40 prósent meðalúrkomu. Á Dalatanga hefur úrkoman mælst 88,0 mm og er það nærri meðallagi.
Sólskinsstundir hafa mælst 9,1 í Reykjavík og er það í meðallagi. Sólarlaust hefur verið á Akureyri, eins og oft í desember (meðaltalið er 15 mínútur).
16.12.2024 | 13:15
Hálfur desember 2024
Hálfur desember 2024. Í svalara meðallagi. Meðalhiti í Reykjavík er +0,4 stig, -0,6 stigum neðan meðallags sömu daga 1991 til 2020, en -0,2 neðan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 14. hlýjasta sæti (af 24) á öldinni. Dagarnir 15 voru hlýjastir árið 2016, meðalhiti þá 6,2 stig, en kaldastir voru þeir 2011, meðalhiti -3,4 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 74. sæti af 151. Kaldastir voru dagarnir 15 árið 1893, meðalhiti -5,9 stig.
Á Akureyri er meðalhiti dagana 15 -0,8 stig. Það er -0,6 stigum neðan meðallags 1991 til 2020, en +0,4 ofan við meðallag síðustu tíu ára.
Að tiltölu hefur verið einna hlýjast á Miðhálendinu og á Austurlandi að Glettingi. Hiti þar raðast í 11. hlýjasta sæti (af 24), en kaldast er við Breiðafjörð, á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra og á Austfjörðum þar sem hiti raðast í 15. hlýjasta sæti aldarinnar.
Miðað við síðustu tíu ár hefur verið hlýjast á Sauðárkróksflugvelli, hiti þar +1,5 stigum ofan meðallags, en kaldast hefur verið á Hornbjargsvita, -1,4 stig neðan meðallags.
Úrkoma hefur mælst 49,0 mm í Reykjavík, rétt ofan meðallags. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 17,2 mm, um helmingur meðalúrkomu. Á Dalatanga hefur úrkoman mælst 61,9 mm og er það nærri meðallagi.
Sólskinsstundir hafa mælst 7,4 í Reykjavik og er það í meðallagi. Sólarlaust hefur verið á Akureyri - eins og oft í desember, enda hverfur sól þar bak fjalla á mælistað í kringum þann 9. og sést ekki aftur fyrr en rétt eftir áramót.
12.12.2024 | 20:49
Hitaspönn nóvembermánaðar með mesta móti
Óskar J. Sigurðsson fyrrum vitavörður á Stórhöfða í Vestmannaeyjum vakti athygli á óvenjumiklum mun á hæsta hámarkshita og lægsta lágmarkshita nóvembermánaðar á Grímsstöðum á Fjöllum. Hann var 40,6 stig. Óskar hefur sérlega næma tilfinningu fyrir því sem óvenjulegt er í veðri og kann ritstjóri hungurdiska honum bestu þakkir fyrir ábendinguna.
En þetta vakti auðvitað frekari forvitni. Hversu óvenjulegur er þessi munur innan sama mánaðar? Gagnagrunnur Veðurstofunnar gaf greið svör. Gögnin skiptast þó á nokkrar töflur. Fyrirspurn í töfluna sem inniheldur mælingar mannaðra stöðva sýndi að aldrei hefði þar jafnmikill eða meiri munur orðið á hæsta hámarki og lægsta lágmarki stöðvar í nóvember. Taflan nær aftur til 1949 og fundust tvö tilvik þar sem munurinn var lítillega meiri en nú, en bæði í mánuðum sem í eru 31 dagur. Þetta var í mars 1998 þegar munurinn var 41,4 stig á Staðarhóli í Aðaldal og í desember 1995 þegar hann varð 41,2 stig í Möðrudal. Tafla með eldri gögnum fann að auki 41,3 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal í janúar 1918.
Þvínæst var að svara spurningunni fyrir sjálfvirku stöðvarnar. Þar er stöðvum Vegagerðarinnar haldið sér m.a. vegna þess að reglur um hámarks- og lágmarksmælingar eru örlítið aðrar en á öðrum stöðvum. Í ljós kom að í mars 1998 var munurinn á stöðinni við Mývatn 43,3 stig - og telst það mesti munur hámarks og lágmarks sama mánaðar hér á landi. Síðan kom í ljós að Grímsstaðir voru ekki eina stöðin með svo öfgakenndan mun í nýliðnum nóvember. Þar voru líka Ólafsfjörður (42,7 stig), Staðarhóll (40,7 stig) og vegagerðarstöðvarnar Kaldakinn (41,1 stig) og Fljótsheiði (40,8 stig). Allt saman mjög óvenjulegt.
Sú spurning kemur eðlilega upp (hjá forvitnum) hver sé þá minnsti munur hámarks- og lágmarkshita í sama mánuði. Það reynist vera í Litlu-Ávík í júlí árið 2015. Þá var hæsti hiti mánaðarins 8,8 stig, en sé lægsti 4,0 stig, munurinn aðeins 4,8 stig. Leit í gögnum sjálfvirku stöðvanna skilar ekki lægri tölu. Sú lægsta þar er 5,1 stig, frá Fonti á Langanesi í júlí 2010 og Skagatá 5,2 stig í júlí 2015.
Á Stórhöfða var mestur munur hámarks- og lágmarkshita sama mánaðar 26,5 stig, í apríl 1968, en minnstur 5,3 stig í ágúst 1981 og 1995. Í mars 1892 var munur á hæsta og lægsta hita í Vestmannaeyjakaupstað 30,9 stig.
Í Reykjavík er mesti munur sem við þekkjum, 30,9 stig. Það var í janúar 1918, minnstur munur var í júlí 1972, 7.8 stig. Á Akureyri var munurinn mestur í nýliðnum nóvember, 36,1 stig, en minnstur í júlí 2015, 12,4 stig.
Þetta er allt mjög nördalegt - og eins gott að týna sér ekki alveg, gæti endað í slæmu gagnafyllerí eða jafnvel gagnatúr, en þolið býður varla upp á slíka hegðan lengur. Við höldum samt aðeins áfram og bergjum á fleiri veigum.
Spurt er hver sé mesti munur á hæsta og lægsta hita ársins á veðurstöð - og hvaða ár? Árið hlýja 2004 mældist hæsti hiti við Mývatn 28,3 stig, en lægstur varð hitinn þar sama ár -29,7 stig. Munurinn er 58,0 stig. Á mönnuðu stöðvunum er það Brú á Jökuldal sem á mestan mun, 56,5 stig. Það var 1988 (25,0 stig og -31,5 stig). Engin fulláreiðanleg tala frá fyrri tíð slær þetta út.
Minnsta mun á hæsta og lægsta hita ársins á veðurstöð finnum við í Seley árið 2016, 19,8 stig (14,2 stig og -5,3 stig). Litlu munar að Stórhöfði í Vestmannaeyjum næði þessu bæði 1972 og 1983 þegar munur á hæsta og lægsta hita ársins var aðeins 20,0 stig.
Í Reykjavík hefur mestur munur á hæsta og lægsta hita sama árs á tíma samfelldra hámarks- og lágmarksmælingar orðið 40,1 stig. Það var árið 2008, má segja að hitabylgjan mikla það ár hafi séð um það. Á Akureyri var munurinn mestur árið 1975, 47,3 stig (27,6 stig og -19.7 stig). Á Stórhöfða er mesti munurinn 33,0 stig, það var 1966 (19,0 stig og -14,0 stig). Minnstur munur á hæsta og lægsta hita ársins í Reykjavik er 24,8 stig. Það gerðist árið 1926 (16,6 stig og -8,2 stig). Á Akureyri var munurinn minnstur árið 2001 32,8 stig (20,2 stig og -12,6 stig).
Við viljum líka vita hvaða veðurstöð á stærstu spönnina á öllum sínum athugunartíma. Þar flækist fyrir að hámarkshitamælingar í Möðrudal voru mjög óáreiðanlegar á fyrri tíð - við getum ekki trúað öllu þar. En að því slepptu er það Mývatn sem nær mestu spönninni, 63,0 stig, frá -34,7 stiga frosti upp í 28,3 stiga hita. Reykjahlið er í efsta sæti mönnuðu stöðvanna með 59,4 stig.
Við látum þessa yfirferð duga i bili. Stekkjarstaur (ritstjóri hungurdiska leikur það hlutverk í dag) hefur þar með reynt að sjúga ærnar (gagnagrunn Veðurstofunnar) - en staurfætur í augum (hvað sem það nú merkir) flækjast fyrir.
Í gær var hér á hungurdiskum fjallað um óvissu í spám í næstu viku - hugsanleg lægð gæti þá komið mjög langt sunnan úr höfum og dýpkað mikið hér við land - nú, eða ekki.
Hér er til gamans spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar nú frá hádegi (fimmtudag 12.desember 2024).
Miðstöðin hefur greinilega (að þessu sinni) ákveðið að gera alvöru úr (sem ekki var í gær). Kortið gildir um hádegi á miðvikudaginn kemur (18.desember). Líklegt er að við fáum að sjá allskonar hringl í spánum næstu daga. Kortið lítur ekki vel út, en höfum samt í huga að auðvitað er enn ekkert að marka þessa spá. Bandaríska veðurstofan er t.d. mun mildari, setur lægðina austar þannig að hún komi lítt við sögu hér á landi. En ritstjórinn er samt ánægður með að hans eigin órar skuli geta komið fram í reiknilíkönum - vonar þó jafnframt innilega að þetta muni hallast að skárri niðurstöðu.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 20:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
11.12.2024 | 14:47
Óvissudæmi
Undanfarna daga hefur verið óvissa af skemmtilegra taginu í spám reiknimiðstöðva. Það er alltaf óvissa, oftast af óljósum ástæðum, en stundum mjög áberandi. Þannig er staðan einmitt nú. Taka verður fram að vel má vera að þessi ástæða sem hér er gerð að umfjöllunarefni verði horfin í næstu spárunum, strax í dag, en svo getur hún líka orðið viðvarandi næstu daga.
Lítum á nokkur spákort (myndin batnar sé hún stækkuð).
Þetta eru klippur úr hefðbundnum norðurhvelsháloftakortum. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, af þeim ráðum við vindstyrk og stefnu í miðju veðrahvolfi, en þykkt er sýnd i lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Bláu litirnir sýna kalt loft, en þeir gulu og brúnu hlýtt.
Fyrsta kortið (efst til vinstri) sýnir stöðuna í dag, miðvikudaginn 11.desember. Vindrastir háloftanna hlykkjast um kortið, meginröstin liggur frá miklu lægðardragi yfir Norður-Ameríku um Ísland og austur til Síberíu. Nokkrir hlykkir eru á röstinni, áberandi bylgja (merkt c) á kortinu er við Ísland og veldur sunnanátt hennar rigningu og hlýju veðri hér á landi í dag, en berst hratt til austurs og öllu kaldara loft fylgir síðan á vesturhlið hennar. Mikil framsókn af hlýju lofti er austan við ameríska lægðardragið (þar sem merkt er með bókstafnum a). Þessi framsókn ryður upp nýjum hrygg sem hingað verður kominn á laugardag (kortið efst til hægri).
Það skiptast á hryggir og lægðardrög í röstinni. Langflestar bylgjurnar brotna fram yfir sig, þannig að þær hafa tilhneigingu til að loka kalda loftið úr næstu bylgju á undan inni fyrir sunnan röstina. (Heldur færri bylgjur brotna hins vegar aftur fyrir sig - þá lokast hlýtt loft inni á norðurslóðum). Röstin er sum sé svo óstöðug að hún er ýmist að loka inni hlýtt loft norðar en það á erindi, en kalt sunnar. Sá er munur á þessum afskornu hæðum og lægðum að hæðirnar eru hlýjar, en lægðirnar kaldar.
Kaldar afskornar lægðir hafa verið viðvarandi við Miðjarðarhaf í haust, loftið í þeim hefur sífellt verið endurnýjað - að norðan, en lokast af vegna atgangs rastarinnar í norðri. Á korti dagsins (efst til vinstri) má sjá svona lægð, hún er merkt með bókstafnum b.
Á kortinu efst til hægri hefur lægð þessi þokast til vesturs og er á laugardag komin vestur fyrir Kanaríeyjar. Hún er þá ekki eins köld og áður, hlýr sjórinn hefur yljgað henni og er að belgja hana frekar út af raks.
Óvissan sem minnst var á í upphafi fylgir þessari suðlægu og hlýnandi lægð. Á síðasta kortinu, því sem er í neðra horni til vinstri og gildir á þriðjudag í næstu viku virðist lægðin vera að ná sambandi við enn eitt lægðardragið sem meginröstin er að bera til austurs. Úr getur orðið innskot í röstina úr suðri, rakaþrungið og hlýtt. Hitti það vel í kalda bylgju úr vestri getur orðið umtalsverður vöxtur úr. Hitti ekki í lokast lægðin annað hvort af aftur (og eyðist smám saman) - eða hún straujast sem ritstjórinn kallar sem svo - tætist í sundur á suðurjaðri vindrastarinnar, án þess að ná nokkrum vexti, en styrkir röstina sem heild.
Undanfarna daga hafa spár verið með ýmsum hætti. Evrópureiknimiðstöðin kom með fyrstu hugmynd um samband rastar og lægðar, en bandaríska veðurstofan afneitaði slíku gersamlega. Reiknimiðstöðin linaðist þá heldur - en þá fór sú bandaríska að gera sig líklegri - en ekki svo mjög.
Ritstjóra hungurdiska finnst svosem líklegast að ekki verði mikið úr, en mun þó fylgjast spenntur með til lokadags því hlutirnir eru fljótir að gerast. Önnur óvissa - óþekkt gæti þó orðið á undan til að breyta öllu. Slíkt er alvanalegt.
11.12.2024 | 13:33
Fyrstu tíu dagar desembermánaðar 2024
10.12.2024 | 22:16
Af reykjavíkurhitanum
Við höfum endrum og sinnum hér á hungurdiskum litið á stöðu 12-mánaðakeðjuhitameðaltala. Í apríl í fyrra, 2023 var síðast drepið niður fæti í Reykjavík og er það sem hér fer á eftir bein framlenging á því. Ástæðan e.t.v. sú að nú er útlit fyrir að við fáum kaldasta ár í Reykjavík í tæp 30 ár. Það er töluverður tími, það var t.d. ekki fyrr en komið var fram á síðasta hluta níunda áratugarins að ritstjóri hungurdiska gat farið að tala um að hann myndi meir en 30 ára veðurlag. Það sama mun eiga við um þá sem nú eru á fertugsaldri, að þeir muna ekki vel veður langt aftur fyrir aldamót. Hitafar í ár hlýtur því að marka nokkur tíðindi í tilfinningu þeirra veðurgleggri í þeirra hópi, þótt við gamalmennin látum okkur fátt um finnast (eins og venjulega).
Fyrri myndin sýnir 12-mánaðakeðjur hita frá aldamótum. Í kringum þau hlýnaði verulega frá því sem verið hafði áratugina á undan og hafa nær öll ár síðan verið hlý. Hlýnunin kom eiginlega öll í einu þrepi á árunum 2002 til 2004. Síðan hefur ekkert hlýnað, en verulega köld ár hafa þó ekki látið sjá sig fyrr en e.t.v. nú, en það er þó ekki kaldara en svo að það er í meðallagi áranna 1966 til 1995. Bláu súlurnar á myndinni sýna 12-mánaða keðjumeðaltöl hitans á þessum tíma. Fyrsta gildið er sett við janúar 2001, það er hiti tímabilsins febrúar 2000 til janúar 2001. Síðan er haldið áfram. Síðasta gildið nær til desember 2023 til nóvember 2024.
Rauði ferillinn er settur inn til gamans (gerir myndina ólæsilegri að vísu). Þetta er samskonar ferill fyrir 24 ár (tæp) á hlýskeiðinu fyrir miðja 20. öld. Hann byrjar á meðaltali mánaðanna febrúar 1925 til janúar 1926, en endar á desember 1948 til nóvember 1949. Síðara hlýja tímabilið er heldur hlýrra en það fyrra - rauði ferillinn er oftast neðan við þann gráa.
Á fyrra tímabilinu er hlýjast um 1929, 1939, 1941 og 1946, en á því síðara 2003, 2004, 2010, 2014, 2016 og 2019. Á síðara tímabilinu er einna kaldast 2015 og 2018, og svo nú. Á fyrra tímabilinu er kalt 1930, í kringum 1936, 1943 og síðan langkaldast 1949. Segja má að sá kuldi hafi staðið þar til í lok árs 1952 og jafnvel lengur. Eftir það komu nokkur mjög hlý ár (aðallega hlýir vetur) þar til að kólnaði snögglega 1965 eins og alkunna er. Stærð sveiflna á milli ára er ekkert ósvipuð á tímabilunum tveimur - ræðast aðallega af tíðni vindátta og uppruna þess lofts sem um landið leikur á hverjum tíma.
Síðari myndin sýnir 30 ára keðjumeðaltal hitans eins og það blasir við í baksýnisspeglinum á hverjum tíma. Síðasta gildið á bláa ferlinum tekur til tímabilsins desember 1994 til nóvember 2024, en það fyrsta á við febrúar 1971 til janúar 2001. Á rauða ferlinum á fyrsta gildið við febrúar 1896 til janúar 1926, en það síðasta frá desember 1919 til nóvember 1949. Á báðum tímabilunum er 30-ára hitinn smám saman að hrista af sér kulda fortíðarinnar og hækkar eftir því sem á líður, heldur örar á því síðara heldur en því fyrra. Hlýnunin er í báðum tilvikum mjög mikil. Halli rauða ferilsins samsvarar 2,8°C/öld, en þess bláa 3,5°C/öld. Ef við rýnum í ferlana sjáum við að meiri sveigjur eru á bláa ferlinum, hlýnunin var sérlega snörp í kringum hann miðjan, þegar árin ofurköldu í kringum 1980 voru að hverfa út úr honum og ofurhlý ár að taka við. Á síðustu árum hefur heldur minni munur verið á þeim árum sem detta út og þeirra sem hafa komið inn. Þannig hagar til að næstu 4 til 6 ár gæti blái ferillinn haldist í svipaðri stöðu (jafnvel þótt fleiri ámóta köld ár og það núlíðandi komi inn). Aftur á móti mun hann eiga erfitt með hækkun eftir það, því þá þurfa methlý ár að koma inn í stað hinna gríðarhlýju ára eftir 2002. Yngri og miðaldra veðurnörd geta fylgst spennt með því, við, þau elstu förum að týna tölunni úr þessu.
Við vitum auðvitað um framhald rauða ferilsins, hæsta gildi hans kom um 12 árum eftir þann enda sem við sjáum hér, hann toppaði í júnílok 1961 (frá júlí 1931, rauð strikalína) - eftir það fór hann niður á við og náði lágmarki í októberlok 1995 (grá strikalína), en hefur hækkað síðan. Fór síðan framúr fyrra hæsta hámarki í ágúst 2016 (blái ferillinn), og hefur verið ofan við það síðan.
Bláa strikalínan neðarlega á myndinni sýnir stöðu 30-árakeðjunnar í lok árs 1895, meðaltal áranna 1866 til 1895. Hún er um 0,6 stigum neðan við þá gráu (kaldasta 30-ára meðaltal síðara kuldaskeiðs). Má segja að það muni hnattrænni hlýnun - gróflega.
Ritstjóri hungurdiska mun vonandi halda áfram að gefa þróuninni gaum (á ýmsa vegu).
9.12.2024 | 14:28
Hlýtt kvöld og nótt
Mjög hlýtt varð um stund sums staðar um landið norðan- og austanvert í gær og nótt (eins og gert hafði verið ráð fyrir). Sýnist í fljótu bragði að hiti hafi hæst komist í 17,6 stig á Sauðanesvita og Siglufirði milli kl.20 og 21 í gær. Trúlega eru nú mestu hlýindin gengin hjá. Þegar talin eru tilvik sem þessi er í fyrstu umferð gjarnan leitað að hæsta hita hvers desembermánaðar aftur í tímann. Við eigum nú á lager fjóra desembermánuði með hámarki hærra en 17,6 stig. Þar fer auðvitað fremst í flokki desemberíslandsmetið sjálft, 19,7 stig, sett á Kvískerjum 2. desember 2019, síðan koma 18,4 stig frá Sauðanesvita 14. desember 2001 - merkilegt fyrir það að það var jafnframt hæsti hiti ársins á þeim stað. Þann 15.desember 1997 fór hiti í 18,2 stig á Skjaldþingsstöðum og í 18,0 stig á Seyðisfirði þann 14. árið 1988. - Síðan kemur desember nú (sem er auðvitað ekki liðinn). Átján stigin á Seyðisfirði 1988 slógu eldra met, 16,6 stig, sem þá höfðu mælst í þremur fyrri desembermánuðum, fyrst 1933. Við bíðum enn eftir 20 stigum í desember, en þau liggja einhvers staðar í leyni í framtíðinni.
Við lögreglustöðina á Akureyri fór hiti nú í 14,6 stig, við vitum af þremur hærri tölum frá Akureyri í fortíðinni, 14,8 stig við lögreglustöðina við Þórunnarstræti þ.15. 1997 og 15,1 stig þegar stöðin var við Smáragötuna þann 21. árið 1964. Hæsta talan er 15,5 stig sem mældust 2. desember 2019 (þegar metið var sett í Kvískerjum). Nú fór hiti hins vegar í 16,1 stig við Krossanesbrautina, og er það næsthæsti hiti sem mælst hefur í desember á Akureyri. Hiti mældist 16,5 stig við Krossanesbrautina áðurnefndan 2. desember 2019.
Í beinu framhaldi af þessu má spyrja hver sé lægsti hámarkshiti einstaks desembermánaðar. Lægstu tölurnar eru reyndar frá því tímaskeiði þegar stöðvar voru mjög fáar, og að auki ekki staðsettar á stöðum þar sem hárra talna er að vænta. En í okkar minni eru 7,9 stig sem mældust á Dalatanga 11.desember 1985 trúlega lægsta hámark af þessu tagi í minni núlifandi manna - og er í 10. sæti á listanum.
Á seinni árum hefur það aðeins gerst einu sinni að lágmarkshiti í byggðum landsins hefur ekki farið niður í -15 stig í desember, að minnsta kosti einu sinni. Það var í hinum sérlega hlýja mánuði árið 2002 að lægsta byggðarlágmarkið varð -12,5 stig (mældist á Torfum í Eyjafirði). Hálendið gerði betur, -17,5 stig mældust þá í Þúfuveri. Í desember 1933 mældist mesta frost desembermánaðar -11,3 stig, það var á Eiðum í Eiðaþinghá.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 14:31 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
7.12.2024 | 22:10
Skammvinn hlýindi
Þetta er skrifað að kvöldi laugardagsins 7.desember 2024. Á morgun er spáð skammvinnum hlýindum á landinu með allmikilli úrkomu og vindi úr suðri. Síðan snýst til suðvestlægrar og vestlægrar áttar og kólnar eitthvað aftur.
Kortið sýnir stöðuna annað kvöld (sunnudagskvöld). Þá eru hlýindin í hámarki. Við sjáum hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) og þykktina (sýnd í lit). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs og á að fara í um 5520 metra þegar mest verður (sumarhlýindagildi). Svona hlýtt loft heimsækir okkur endrum og sinnum í desember. Skyndifletting stingur upp á að það gerist á 7-8 ára fresti að jafnaði (en ójafnt samt).
Ekki eru nema fimm ár síðan ámóta - eða lítið eitt hlýrra - loft fór hjá í desember. Þá urðu þau tíðindi að landsmánaðarhitamet var sett í Kvískerjum í Öræfum og hiti á fleiri stöðvum varð hærri heldur en áður hafði mælst í mánuðinum. Um það má lesa í gömlum pistli hungurdiska.
Ekkert kort fylgdi pistlinum 2019 þannig að við lítum á það hér. Þetta er auðvitað svipað að útliti, heldur efnismeira þó 2019 heldur en nú. Að þessu sinni stendur hlýja loftið líka styttra við og þarf að takast á við bæði klaka og snjó (sem er orkufrekt) þannig að varla er von á stórtíðindametum, en dægurmetahrina er næsta vís á fjölda stöðva (ekki víst að landsdægurmet verði slegin).
Sumir muna e.t.v. að í desember 2019 þurfti ekki að bíða nema viku frá hlýindunum eftir einu versta veðri síðari ára hér á landi. Þeir sem urðu fyrir því gleyma ekki, en líklega eru samt flestir aðrir farnir að ryðga - og þurfa að leggjast í minnisuppgröft.
Þótt skyndihlýindi á þessum tíma árs séu raunar sjaldnast mikið fagnaðarefni hagar þó þannig til nú víða um sunnan- og vestanvert landið að illur en þunnur klaki liggur á gangstéttum og plönum, gott væri að losna við hann. Hvað þessum skammvinnu hlýindum verður ágengt í því verður bara að koma í ljós. Svo óheppilega hagar til að frost hefur hlaupið nokkuð í jörð og verður viðvarandi hætta á frostrigningu (eða einu af afbrigðum hennar) hér eftir - eða allt þar til sankti-Pétur setur vermisteininn í jörðina á messu sinni 22.febrúar. Af einhverjum illskiljanlegum ástæðum er þessarar dagsetningar ekki lengur getið í Almanaki Háskólans - og er það gagnrýnivert (alveg satt). Annars þarf langvinna hláku (margra daga hlýindi) til að bjarga málum. Skyndihlýindum á frosna jörð fylgja oft furðumiklir vatnavextir því svampeiginleikar jarðvegarins njóta sín ekki - allt rennur á yfirborði (sem er eins og stálskúffa - minnir mig að Sigurjón Rist hafi einhverju sinni sagt undir svipuðum kringumstæðum). Vonandi verður úrkoma þó í einhverju hófi - en rétt að gefa henni gaum.
3.12.2024 | 22:13
Smávegis af nóvember 2024
Eins og margir muna var veðurfar í nýliðnum nóvember alveg tvískipt. Fyrri hluti mánaðarins [3. til 14.] var sérlega hlýr, en síðan kólnaði að mun og fáeinir dagar urðu meira að segja óvenjukaldir. Svipað á við um dreifingu úrkomu um landið. Þetta þýðir að mánuðurinn varð ekki fjarri meðallagi í heild. Um hita á einstökum stöðvum og margskonar meiri fróðleik má lesa í yfirliti Veðurstofunnar (á vef hennar).
Við lítum (eins og oft áður) á stærri drætti.
Hér má sjá hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir). Hlýindi voru að meðaltali ríkjandi á nær öllu því svæði sem kortið nær yfir. Aðeins smáblettur yfir Grænlandi þar sem þykktin (hiti) var lítillega undir meðallagi. Neikvæða vikið er heldur meira áberandi á hitavikakorti 850 hPa-flatarins, rétt eins og í október. Þrátt fyrir hið tvískipta eðli mánaðarins var vindátt mjög eindregið úr vestri, yfir meðallagi raunar. Sunnanþátturinn var nærri meðallagi mánuðinn í heild.
Ef taka má mark af greiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar var sjór nokkuð kaldur á allstóru svæði fyrir norðan og austan land. Þetta má sjá á kortinu að neðan.
Á ljósgulu og ljósbláu svæðunum er hiti nærri meðallagi (ómarktækt ofan eða neðan við). Hitavikin sem sett eru á hin hefðbundnu hafíssvæði vestur undir Grænlandi eru óviss (það er erfitt að reikna áreiðanleg meðaltöl á slíkum svæðum). Ritstjórinn hallast að því að litli blái bletturinn undan Suðvesturlandi sé raunverulegur - af þá völdum uppdráttar sjávar í norðanáttinni síðari hluta mánaðarins. Ekki er gott að segja hvað veldur þessum neikvæðu hitavikum fyrir norðan og austan. Því miður sjást ekki neinar mælibaujur inni á þessu svæði - þær sem sjást eru austar. Ritstjórinn treystir sér því ekki til að vera með neinar ágiskanir um ástæður vikanna, en þær ástæður gætu verið af margvíslegum toga. Á heildina litið er hiti á kortsvæðinu vel yfir meðallagi árstímans.
Loftþrýstingur var vel ofan við meðallag í mánuðinum sem var nokkuð illviðrasamur, ekki þó nærri metum hvað þetta tvennt varðar.
Taflan hér að ofan sýnir að hann var í kaldasta þriðjungi nóvembermánaða á öldinni vestan- og suðvestanlands, en annars í meðallagi. Á Austurlandi að Glettingi var hann mjög nærri því að komast í hlýjasta þriðjung - og þar með teljast hlýr. Athugum þó að hér er reiknað fyrir heil spásvæði - einstakar veðurstöðvar kunna að raðast á annan hátt (sjá yfirlit Veðurstofunnar).
Þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
30.11.2024 | 20:52
Kosningaveðurspár
Til gamans lítum við nú á spár evrópureiknimiðstöðvarinnar um kosningaveðrið undanfarna tíu daga. Ritstjórinn gerir sér auðvitað fulla grein fyrir því að nú þegar kosningar eru afstaðnar hefur eiginlega enginn áhuga á slíku. Þetta er því mest fyrir hann sjálfan og einhverja örfáa sérvitringa.
Á fyrri myndinni er raðað upp spám reiknimiðstöðvarinnar á 12 klst fresti alla síðustu tíu daga, en þá kom veðrið á hádegi í dag, kosningadaginn 30.nóvember fyrst inn í spárnar. Rétt að benda á að myndirnar verða skýrari séu þær stækkaðar - og fyrir þá örfáu sem vilja í raun og veru skoða þær allar er mun skýrara eintak lagt í pdf-skrá í viðhengi.
Fyrsta spáin er efst til vinstri og kom frá reiknimiðstöðinni síðdegis þann 20.nóvember. Sú spá telst mjög röng. Sú næsta á eftir var líka nokkuð röng og næstu daga var töluvert flökt í spánum. Þær voru þó sammála um að skörp skil og úrkomusvæði væri við landið, oftast yfir því. Í einu tilviki var farið með skilin alveg vestur fyrir land. Það hefði táknað hláku á landinu, nema e.t.v. á Vestfjörðum.
Frá og með síðasta mánudegi (rauður rammi á myndinni) varð þó úr að skilin sjálf yrðu fyrir suðaustan land. Munurinn frá degi til dags fólst í lítilsháttar hliðrun á úrkomusvæðinu, úrkomumagninu og vindhraðanum. Þrátt fyrir þetta suð má segja að reiknimiðstöðin hafi eftir þetta haldist í farvegi sem síðan reyndist réttur. Neðsta kortið synir stöðuna um hádegi í dag (úrkoman er ekki teiknuð). Ritstjórinn er gamall í hettunni og þykir þessi fimm daga spár reiknimiðstöðvarinnar undragóð - sérstaklega vegna þess að ekkert sem heitir var vikið frá henni á tímabilinu. En auðvitað kemur þrátt fyrir það upp alls konar vafi. Það skiptir máli hver vindáttin nákvæmlega er og hversu mikil úrkoman er - og hver hitinn er. Finna má vik í öllum þessum atriðum auk þess sem mat manna á því sem sést á kortum af þessu eða ámóta tagi er alltaf eitthvað misjafnt.
Auk þessara spáa barst auðvitað fjöldi annarra, en í öllum aðalatriðum má segja að þessu veðri hafi verið allvel spáð síðustu dagana.
Síðari mynd dagsins er líka nokkuð ofhlaðin, en vel þess virði samt að líta á aðalatriðin. Betra eintak má einnig finna í áðurnefndu viðhengi.
Það er háloftarit frá Keflavíkurflugvelli sem er til vinstri á myndinni. Hita má finna á lárétta ásnum - og jafnhitalínur liggja þaðan skáhalt upp til hægri - frostmarkslínan er örlítið þykkari en hinar. Á lóðrétta ásnum má sjá þrýstihæð, þar eru hefðbundnir þrýstifletir, 1000 hPa, 850 hPa, 700 hPa og svo framvegis. Rekja má hita mælingarinnar með því að fylgja rauðu línunni. Það kólnar hratt alveg neðst - upp í um 1 km hæð. Þar taka við hitahvörf þar sem hiti fellur lítið næsta kílómetrann. Síðan tekur við ákveðið hitafall sem verður hraðara þegar ofar kemur. Við 300 hPa (eða þar um bil) hættir hitafallið að mestu og hiti er nánast sá sami í öllum hæðum eftir það, svo langt sem línuritið nær. Bláa línan sýnir daggarmarkið. Með því að bera saman hita og daggarmark sjáum við rakastig loftsins. Séu línurnar tvær nærri hver annarri er loftið rakt, en sé bilið langt er loftið þurrt.
Lengst til hægri á myndinni má greina vindörvar. Þar sjáum við vindstyrk og stefnu á hefðbundinn hátt. Við getum nú mjög gróflega greint fjögur meginloftlög í athuguninni. Neðst er köld norðaustanátt - með fremur miklum raka. Þeir sem horfðu til vesturs á suðvesturhorninu í dag máttu greina smáa bólstra í fjarska yfir sjónum. Í hitahvörfunum þar yfir er staðan blönduð, áttin enn úr norðaustri neðst, og dregur úr raka eftir því sem ofar dregur. Þetta er heimskautaloft norrænnar ættar, trúlega komið af svæðinu austan Grænlands. Þar fyrir ofan er komið í lag sem merkt er b. Þurrt og vindur er hægur úr norðri, eða jafnvel norðvestri. Þurrkurinn bendir til niðurstreymis. Trúlega er þetta loft búið að fara yfir Grænland og hefur það leitað niður austan þess.
Síðan komum við upp í loft sem merkt er með bókstafnum c. Þar er vindur úr suðvestri og loftið mun rakara heldur en neðar. Þetta loft er af suðrænum uppruna. Ofan á því liggja veðrahvörfin. Þar er suðvestanátt, skammdegisröst heiðhvolfsins er smám saman að ná sér á strik nú þegar sólar nýtur ekki lengur til að hita upp óson og fleiri geislunarnæmar lofttegundir heiðhvolfsins.
Til hægri á myndinni má sjá gervihnattamynd sem tekin er um hádegi í dag. Þar má sjá mikinn skýjabakka yfir landinu. Þar er suðræna loftið sem við minntumst á, við sjáum líka niður í smábólstrana fyrir vestan land - þá sem tilheyra neðsta laginu. Jaðar skýjabakkans var oft fagur á að líta bæði í dag og í gær. Sömuleiðis sjáum við ís í Grænlandssundi á myndinni. Hann er væntanlega nýmyndaður, þunnur og örlög óljós.
Þar neðan við er kort úr 500 hPa-fletinum. Þar sjáum við það sama. Hlýja suðvestanáttina yfir landinu og, lægðardrag við vesturströndina og jökulkalt loft fyrir norðan land.
Sannleikurinn er sá að sáralitlu hefur mátt muna að mikla hríð gerði um nær allt land og þá verst um landið suðvestanvert. Örlítið öflugra lægðardrag þurfti til, örlítið meira aðstreymi norðanlofts - eða örlítið kaldara yfirstreymi yfir Grænland til að hræra upp í hitahvörfunum og lyfta þeim þannig að úrkoma næði að myndast.
Gott hjá reiknimiðstöðinni að ná þessu svona vel.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (21.12.): 120
- Sl. sólarhring: 148
- Sl. viku: 955
- Frá upphafi: 2420770
Annað
- Innlit í dag: 111
- Innlit sl. viku: 843
- Gestir í dag: 106
- IP-tölur í dag: 105
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010