Færsluflokkur: Vísindi og fræði
26.5.2025 | 21:20
Í flatneskju - (og augun hvarfla til norðurs)
Nú er hitabylgjan mikla alveg frá. Í stað hennar hefur lægri þrýstingur tekið við, en engar afgerandi lægðir alveg við landið, þær öflugustu ganga nú til norðausturs nærri Bretlandseyjum. Á austurvæng hverrar lægðar er hlýtt loft og sullast eitthvað af slíku í átt til okkar þegar hver lægð fer hjá, en á móti kemur að lægðirnar draga einnig á eftir sér slóða af kaldara lofti úr norðri. Óljóst hvor aldan, sú suðræna eða sú norræna skilar meiru hverju sinni. Erfitt að halda utan um það þegar lægðirnar eru að minnsta kosti þrjár.
Þótt kuldinn á norðurslóðum sé á venjubundnu vorundanhaldi tregðast hann við yfir Norður-Íshafi, þar er varnarþing hans að sumarlagi. Eftir því sem meginlöndin hlýna þrengir meira að honum, það sem eftir er af kuldanum safnast saman í afmarkaðar háloftalægðir, kuldapolla.
Spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar gildir síðdegis á miðvikudag, 28.maí 2025. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, af þeim ráðum við vindstyrk og stefnu í miðju veðrahvolfi. Mikil flatneskja er við Ísland, en öflug röst úr vestri stefnir á Bretland (ein af lægðunum áðurnefndu). Litirnir sýna þykktina, en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Í hitabylgjunni vorum við inni í gulum og brúnum lit - en þeir eru nú fjarri. Þykktin hefur minnkað um rúma 200 metra (hiti fallið um 10 stig). Ámóta hæð og var hér fyrir viku er nú nærri Úralfjöllum, en þó hlýrri, eins og vera ber yfir meginlandi. Eins eru mikil hlýindi austarlega í Síberíu og vestarlega í Kanada.
Á norðurslóðum eru hins vegar þrír afgerandi kuldapollar. Sá eini sem við þurfum að fylgjast vel með er sá við Norðausturgrænland, þykktin í miðju hans er ekki nema 5090 metrar, hávetur á smábletti. Flatarhæð og þykktarmynstur eru nokkurn veginn sammiðja þannig að ekki er auðvelt að ráða í hvaða stefnu pollurinn tekur - taki hann á annað borð á rás. Við höfum ekki mikinn áhuga á að fá hann hingað - en það er samt alveg jafnlíklegt og hvað annað. Spá reiknimiðstöðvarinnar á hádegi gerir reyndar ráð fyrir því að svo verði - og að þar með verði fullhefnt fyrir blíðuna.
Við getum samt ekki látið einhverjar líkanhótanir valda okkur teljandi áhyggjum - við bíðum alla vega áreiðanlegri frétta - það er mjög margt sem getur riðlað spánum, margt sem líkönin ekki sjá. Bandaríska veðurstofan er með allt aðrar hugmyndir - og mun viðkunnanlegri - alla vega sem stendur.
25.5.2025 | 21:21
Enn af hitabylgjunni
Nú er maíhitabylgjunni miklu lokið. Eins og fram kom í yfirliti Veðurstofunnar er þetta langmesta hitabylgja sem við vitum um í maímánuði - þótt nákvæmur samanburður við eldri tilvik sé að vísu nokkuð erfiður þegar leitað er langt aftur í tímann. Landsmet var sett í maíhita og langflestar veðurstöðvar landsins skiluðu nýjum maímetum, þar af nokkrar þar sem mælt hefur verið mjög lengi. Þótt ákefðin væri mikil var það þó ekki síður úthaldið sem var óvenjulegt. Hiti komst yfir 20 stig einhvers staðar á landinu tíu daga í röð og daginn sem útbreiðslan var mest, þann 18., fór hiti í 20 stig á meir en helmingi stöðva í byggðum landsins, og daginn eftir á nærri helming stöðva. Aðeins sárafáar hásumarhitabylgjur skila hærra hlutfalli.
Ritstjóri reiknar (sér til hugarhægðar) meðalhita sólarhringsins í byggðum landsins. Þann 17. reiknaðist hann 13.5 stig og 13.2 stig þann 18. Þetta er um einu stigi meira heldur en við höfum áður séð í maí á því tímabili öllu sem við eigum auðveldan samanburð við (aftur til 1949) er (1,5 stigum hærra en hæsta meðaltal sjálfvirku stöðvanna 1997 til 2024 og 1,4 stigum hærra heldur en meðaltal mannaðra stöðva (1949-2012)).
Meðalhámarkshiti á landinu stendur sig enn betur. Hæsti meðalhámarkshitinn nú (19,4 stig) er um þremur stigum hærri heldur en við vitum um áður í maímánuði og lendir reyndar meðal tíu efstu sólarhringa á ársgrunvelli líka.
Annað er að segja um lágmarkshitann. Hann var að vísu mjög hár og hæsta sólarhringslágmarkið nú var 14,2 stig (á Skrauthólum þann 17.). Það er lítillega (en þó ómarktækt) hærra en hæstu sólarhringslágmörk sem við þekkjum í maí (14,0 stig). Slík lágmarksmet voru nú sett á rúmlega 40 stöðvum sem athugað hafa í 15 ár eða meira, það er lægra hlutfall heldur en hlutur nýrra hámarksmeta. Meðallágmarkshitinn nú var hæstur þann 17., 6,9 stig og er það langt neðan mets. Þótt nætur væru hlýjar meðan á hitubylgjunni stóð, voru þau hlýindi ekki nærri því eins almenn og hlýindin að deginum.
Þetta kemur líka í ljós þegar við athugum hvaða klukkustundarmet voru slegin. Við athugum hver er hæsti hiti (ekki hámarkshiti) sem mælst hefur á hverri heilli klukkustund (1997 til 2025). Kemur þá í ljós að öll eldri met allra klukkustunda frá 8 að morgni til 22 að kvöldi féllu, en aftur á móti engin yfir nóttina. Að vísu höfðu hlýindi þann 7. maí áður slegið út metið kl.5.
Línuritið sýnir hæsta hita hverrar klukkustundar í maí á sjálfvirkum veðurstöðvum í byggð. Annar ferillinn (blámerktur) sýnir hvernig metum var háttað á tímabilinu 1997 til 2024, en efri ferillinn sýnir breytinguna sem varð nú í maí. Metið sem skráð er kl.5 var sett þann 7., en hin ýmist þann 15., 17. 18. og 20. Engin ný met af þessu tagi voru sett yfir blánóttina, kl.8 var eldra met jafnað, kl.9 og 10 munaði nánast engu, og aftur kl.20 og 21. Aftur á móti var eldra met kl.16 slegið um nærri 4 stig. Hægt væri að fabúlera um þetta séreinkenni þessarar hitabylgju, en hér verða lesendur ekki þreyttir með slíku.
Rekist ritstjórinn á einhverjar athyglisverðar viðbótarupplýsingar um hitabylgjuna sem ekki hefur þegar verið getið um mun hann frekar bæta þeim við hér heldur en stofna nýja pistla.
21.5.2025 | 13:47
Fyrstu 20 dagar maímánaðar 2025
Fyrstu 20 dagar maímánaðar 2025 hafa verið alveg sérlega hlýir, sérstaklega þó síðasta vikan rúm. Meðalhiti í Reykjavík er 9,1 stig og er það +3,1 stigi ofan meðallags sömu daga 1991 til 2020 og +3,8 stig ofan meðallags síðustu tíu ára. Er þetta langhlýjasti slíkur kafli það sem af er öldinni. Meðal aldarbræðra voru sömu dagar 2015 kaldastir, meðalhiti þá 3,7 stig. Á langa listanum (151 ár) er hiti nú í næsthlýjasta sæti, það var lítillega hlýrra fyrstu 20 daga maímánaðar 1960, meðalhiti í Reykjavík var þá 9,3 stig, en lækkaði um 0,5 stig til mánaðamóta og endaði í 8,7 stigum. Hlýjasti maí í Reykjavík er 1935, meðalhiti þá endaði í 8,9 stigum. Kaldastir voru þessir sömu dagar árið 1979, meðalhiti þá var aðeins 0,5 stig.
Á Akureyri hefur verið enn hlýrra heldur en í Reykjavík. Meðalhiti fyrstu 20 dagana er 10,7 stig og er það +5,4 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +5,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Við getum reiknað meðalhita hluta mánaða á Akureyri 90 ár aftur í tímann og eru þessir dagar nú þeir langhlýjustu meðal almanaksbræðranna, nærri 2 stigum hlýrri heldur en hlýjast var áður (1936). Að vísu er hlýjasti maímánuður sem við þekkjum á Akureyri 1933, en við eigum meðaltöl stakra sólarhringa hans ekki á lager til reikninga (enn sem komið er). Sá mánuður endaði í 9,4 stigum - þannig að eitthvað borð er fyrir báru fyrir kólnandi tíð nú undir lok mánaðar.
Í Stykkishólmi er sama staða. Þar er meðalhiti fyrstu 20 dagana 8,7 stig, 0,9 stigum hærri en mest hefur verið sömu daga áður, en það var reyndar árið 1889.
Ljóst er að víða um land verður þetta hlýjasti maímánuður allra tíma - en höfum samt í huga að 11 dagar eru eftir, rétt rúmur þriðjungur mánaðarins. Sem stendur eru dagarnir 20 þeir hlýjustu á öldinni á öllum spásvæðum landsins. Mest víkur frá meðaltölum á fjöllum og heiðum eystra. Trúlega á tvennt þátt í því, annars vegar fjarlægð frá sjó (kælandi áhrif hans einskorðast við neðstu lög loftsins, hins vegar er snjór trúlega nokkru minni heldur en í meðalári. Varmaorka hefur því nýst betur til hitunar lofts en ella - það er dýrt að bræða snjó. Mest er vikið á Hallormsstaðahálsi, +7,6 stig, en minnst í Surtsey, +2,0 stig - þar eru áhrif sjávarins auðvitað mikil.
Sem stendur er meðalhiti hæstur á Hallormsstað, +11,0 stig, og 10,7 á Egilsstöðum og Akureyri og Torfum.
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 33,4 mm og er það í tæpu meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman aðeins mælst 5,6 mm og er það um þriðjungur meðalúrkomu. Austur á Dalatanga hefur úrkoman mælst aðeins 3,3 mm sem er tuttugasti hluti meðalúrkomu - og hefur sjaldan verið minni sömu daga. Á það einnig við stóran hluta Austurlands.
Sólskinsstundir hafa mælst 179 í Reykjavík, um 43 umfram meðallag, en hafa oft mælst fleiri í maí. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 189,7 og er það 81 stund meira en í meðalári - nokkuð langt í met samt.
Það er einnig athyglisvert að fylgjast með hitastöðu ársins til þessa. Í Reykjavík situr það í næsthlýjasta sæti (frá 1949), en talsvert langt er upp í það efsta, 1964 og er utan seilingar í þessum mánuði. Auk þess þarf að keppa við árið 1929 - sem er líka ofar. Árið 2025 hefur gengið nokkuð hratt upp listann á Akureyri og miðað við tímann frá 1949 er það nú í 3. til 4. hlýjasta sæti (á eftir 1964 og 1974). Á Dalatanga er það líka í 3. hlýjasta sæti sama tímabils - en aðeins sjónarmun neðan 1964 og 1974 - mjög litlu munar á 5 efstu sætunum.
20.5.2025 | 22:01
Molar úr hitabylgjunni
Hitabylgjunni er ekki alveg lokið - og uppgjörs varla að vænta fyrr en þá. En þó má þegar nefna nokkur sundurlaus atriði.
Ritstjórinn heldur úti lista um hámarkshita hvers almanaksdags á landinu (dægurhámarksmet). Rétt að taka fram að þetta er ekki opinber listi, sjá má þar fáeinar vafasamar tölur sem mætti nota hreinsiefni á, en það er líka ágætt að láta þessar gömlu tölur berjast fyrir tilveru sinni og verjast í lengstu lög. Eins og fram hefur komið var sett nýtt landshitamet fyrir maímánuð á dögunum og mun Veðurstofan trúlega lýsa því yfir opinberlega fljótlega. En ný dægurmet hafa nú verið sett átta daga í röð, það er einsdæmi. Við vitum af fáeinum 5 daga syrpum, en ekki átta. Og það er ekki þannig að eldri met hafi verið naumlega slegin, tvo daga munar meir en fimm stigum á gömlu og nýju landsmeti.
Hér á landi eru hitasveiflur meiri á vetrum heldur en að sumarlagi, vik frá meðallagi eru því að jafnaði meiri á vetrum. Mestu vikin nú eru á háfjallastöðvum á Austur- og Norðurlandi (sjávaráhrifa gætir þar síst). Mesta vikið var á Gagnheiði í gær (19.maí). Meðalhiti sólarhringsins var þá 14,6 stig yfir meðallagi síðustu tíu ára og daginn áður, þann 18. var vikið nær hið sama, 14,5 stig. Vik yfir 13 stig hafa verið á Hallormsstaðahálsi, Vaðlaheiði og Austurárdalshálsi í Húnavatnssýslu.
Upplagt var að bera þetta saman við það mesta sem við vitum um frá aldamótum. Allra mesta jákvæða vikið á því tímabili var 14,8 stig á Torfum í Eyjafirði þann 18.nóvember 2018, síðan koma Gagnheiðarvikin. Fáeinar stöðvar aðrar eiga staka daga með meiri vikum en +13 stigum, þar af eitt tilvik í apríl, á Kollaleiru 3.apríl 2007.
Allnokkur fjöldi er af stærri neikvæðum vikum, þau eru öll að vetrarlagi, mest -23,4 stig við Mývatn 25.janúar 2002. Leit hefur ekki farið fram í eldri gögnum. Trúlega mun hún skila enn stærri neikvæðum vikum, en óvissara er með þau jákvæðu.
Frést hefur af nýjum maímetum á stöðvunum á Norðaustur-Grænlandi og á Jan Mayen.
Ritstjóri hungurdiska hefur undanfarin ár skilgreint og talið sumardaga í Reykjavík. Að meðaltali er tæplega einn sumardagur í Reykjavík í maí, þegar þetta er skrifað (20.maí) eru þeir orðnir sjö í röð. Röðin nær aftur til 1949 og flestir hafa sumardagar í maí, áður, orðið fimm. Það var í árið 2002 og þeir voru fjórir í maí 1960. Árin 1991 til 2020 voru að meðaltali 28 slíkir dagar á ári í Reykjavík. Síðasta vika hefur því skilað fjórðungi meðaltalsins og fleiri heldur en ýmis fyrri sumur alls, t.d. 1995 og 1989, svo ekki sé talað um 1983 þegar aðeins einn slíkur dagur skilaði sér í hús allt árið.
Það er alltaf verið að spá kólnandi veðri og má segja að nú fari átakanlega að skorta einhverja úrkomu. Sumarið í framhaldi af því er flestum (eða kannski réttara, öllum) hulið.
Hitabylgjunnar gætir ekki svo mjög í háloftaathugunum yfir Keflavík. Þó var hitamet maímánaðar jafnað í 925 hPa-fletinum, hiti mældist þar 11,6 stig að kvöldi þess 16., sama og 14.maí 2005. Þess verður þó að geta að aðgengileg mæliröð fyrir 925 hPa nær aðeins aftur til 1993 og samkeppni um met því minni en fyrir aðra staðalfleti háloftaathugana. Þess má geta að hiti í 400 hPa þann 12. (rétt áður en hitabylgjan hófst) komst inn á topp-tíu hitalista flatarins.
Vísindi og fræði | Breytt 21.5.2025 kl. 18:08 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
18.5.2025 | 23:04
Sígur á seinni hlutann
Nú fer að síga á seinni hluta þeirrar óvenjulegu hitabylgju sem gengið hefur yfir landið síðustu daga. Ekki alveg tímabært að fara í uppgjör en það er samt hægt að fullyrða með nokkurri vissu að þetta sé mesta hitabylgja sem við höfum séð í maímánuði frá upphafi mælinga og í fljótu bragði er hún enn óvenjulegri fyrir það að hvað lengd og útbreiðslu varðar virðist hún öflugri heldur en nokkur hitabylgja sem við höfum séð í júní í að minnsta kosti 80 ár. Þær áköfu júníhitabylgjur sem við höfum þó séð hafa verið styttri og ekki náð jafn mikilli útbreiðslu og þessi.
Það er erfitt að svara því til fullnustu hvað veldur. Margar tilviljanir koma þar við sögu. Fyrst er það staða veðurkerfa. Hún hefur verið í óvenjulegra lagi. Síðan má efalítið telja snjóleysi, búið að bræða mestallan vetrarsnjó af stórum svæðum landsins. Sjávarhiti er þar að auki í hærra lagi miðað við árstíma.
Á hinu almenna veðurkorti sést staðan vel.
Hringrás lofts á norðurhveli er mjög rofin. Í stað sæmilega hreinnar vestanhringrásar í kringum kulda norðurslóða hefur mikil og hlý hæð skotist norður á bóginn við Ísland og legið þar í friði í nokkra daga. Sunnar er vestanáttin mjög slitrótt - fjölmargar smábylgjur á ferð og valda sumar þeirra kulda langt suður á bóginn - greiðsla fyrir hlýindin hér. Enn eru þrír nokkuð öflugir kuldapollar yfir íshafsslóðum, en gera sig ekki líklega til að angra okkur í bili. En hæðin endist ekki endalaust - að henni sækir kaldara loft, en til allrar hamingju úr suðvestri. Það þýðir að þótt talsvert kólni þegar hæðin brotnar verður ekki hægt að tala um að hret taki við - heldur venjulegur maíhiti.
Flettingar sýna að þessi hæð er með öflugra móti, við eigum kannski tvær eða þrjár ámóta á lager síðustu 80 ára - ekki meir. Þykktin sem fylgir (hún mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs) er mikil líka, en er þó ekki við met. Hlýindin eru við það að vera þau mestu sem búast má við við þessa þykkt. Þannig að það er eitthvað fleira sem kemur við sögu. Sólin er auðvitað mjög öflug á þessum árstíma, landið þurrt og heppilegt niðurstreymi hefur komið í veg fyrir að skúrir tækju að myndast.
Ljóst er að almennar líkur á atburði sem þessum eru mjög litlar - en hann gerðist samt. Gaman væri ef einhverjir góðir aðilar tækju að sér að finna uppruna þessa lofts - en ritstjóri hungurdiska er orðinn of gamall í slíka leynilögreglurannsókn. Hann mun þó á næstunni reyna að henda upp einhvers konar talnasamanburði - en ekki fyrr en þessu linnir.
16.5.2025 | 20:07
Óvenjuleg hlýindi
Óvenjulega hlýtt er víða um land þessa dagana. Eins og fram hefur komið í fréttum var sett nýtt maíhitamet fyrir landið allt í gær (15.maí 2025) þegar hiti komst í 26,6 stig á Egilsstöðum. Veðurstofan á að vísu eftir að staðfesta metið - nauðsynlegt er að kanna hvort stöðin sé í lagi. Staðbundin met hafa verið sett á fjölmörgum stöðvum - og auðvitað dægurmet í hrönnum. Ritstjóri hungurdiska mun þó bíða með að gera einhverja grein fyrir þessum metum - þar til mestu hlýindin eru liðin hjá.
Í dag (16.maí) mældist hiti yfir 20 stig í Reykjavík. Er svo hár hiti sárasjaldgæfur í borginni. Aðeins er vitað um 3 eldri tilvik af hærri hita en 20 stigum frá upphafi mælinga. Það var árin 1901, 1905 og 1960. Árið 1901 stóðu hlýindin í nokkra daga og náðu til fleiri hluta landsins. Austri á Seyðisfirði segir að þar í bæ hafi hitinn farið í 26 stig - en við getum ekki tekið þá mælingu bókstaflega - fróðleg engu að síður. Árið 1905 og 1960 náðu hlýindin ekki jafnvíða um landið. Um þessi tilvik öll má lesa í eldri pistlum hungurdiska. Í öllum þessum tilvikum þremur vildi svo til að þessi maíhámörk urðu jafnframt hæsti hiti ársins í Reykjavík. Sumrin 1905 og 1960 voru þó hagstæð í heild, en 1901 varð aftur á móti rigningasumar um landið suðvestanvert.
Árið 1972 mældist hæsti hiti ársins í Reykjavík líka í maí, en var þó ekki nema 16,3 stig. Sýnir að ekki er á vísan að róa með hlýja daga þar á bæ.
Á mjög mörgum stöðvum öðrum en Reykjavík hefur það gerst að hæsti hiti ársins hefur orðið í maímánuði. Þannig var t.d. 1987, en þá gerði langa hitabylgju sem víða um land átti hæsta hita ársins. Sumarið 1987 var þó mjög hagstætt. Á Akureyri varð hiti hæstur í maí þetta ár. Hámarkshitamælingar hófust ekki á Akureyri fyrr en 1938. Hæsti hiti ársins hefur fjórum sinnum mælst í maí á þessu tímabili, 1987 - eins og áður sagði, en líka 1985, 1956 og 1951.
Það er sjaldgæfara að hæsti hiti ársins á landinu öllu mælist í maí. Gögn sýna það aðeins þrisvar, en yngsta tilvikið, frá 1962 er almennt talið vafasamt (sjá pistil um það ár). Hin tilvikin tvö eru svo gömul að stöðvakerfið var svo gisið að við getum varla fullyrt að þetta sé marktækt. En þau gögn sem til eru segja það hafa gerst 1907 og 1890.
Síðara árið var einmunatíð frá því um 20. mars og út maí, jörð greri óvenjuvel og allt í blóma. Þá gerði mikið áfelli snemma í júní, þann 5. var sagt frá ökklasnjó í Vestmannaeyjum. Eftir hretið var tíð bærileg - en hitinn náði samt aldrei sömu hæðum og um vorið. Árið 1907 var óvenjulegt á marga vegu. Hlýindin í maí mjög skammvinn, sumarið sérlega kalt - en jafnfram fádæma þurrt á Suðurlandi.
En veðrið er aldrei eins frá ári til árs og hlýindin nú segja ekkert um sumarið að öðru leyti en því að sólin hitar landið og það geymir í sér hluta varmans og þannig séð verða líkur á hlýjum dögum því heldur meiri - ef ytri skilyrði önnur leyfa.
16.5.2025 | 14:20
Fyrri hluti maímánaðar 2025
12.5.2025 | 21:59
Hlýindi framundan?
Fyrir nokkrum dögum fékk ritstjóri hungurdiska fyrirspurn erlendis frá um það hvort nýrra landshitameta fyrir maímánuð væri að vænta. Ástæðan var sú að óvenjuhlýju veðri er spáð í vikunni. Svarið sem ritstjórinn gaf var að sjálfsögðu það venjulega í stöðunni: Jú, það væri mögulegt, en kannski ekki endilega mjög líklegt samt. Síðan fylgdi mettalan svarinu [25,6 stig sem mældust á Vopnafirði 26.maí 1992] og að sjálfsögðu hin fasta rolla um fjölgun stöðva, hina kviku nútímamælihólka og allt það.
Það er þrennt sem hefur hingað til verið ábending um hlýindi í veðurspám. Í fyrsta lagi auðvitað hinar beinu spár reiknilíkana um hita á einstökum veðurstöðvum eða reitum reikninetsins. Þar hefur ekki (enn) sést tala sem er hærri heldur en mettalan. Það er ekki langt síðan beinar hitaspár af þessu tagi fóru að verða það áreiðanlegar að taka mætti mark á þeim nema kannski einn eða tvo sólarhringa fram í tímann (í allra mesta lagi). Í öðru lagi er margnefnd þykkt oft allgóður hitavísir - enda eiga reiknilíkön auðveldara með að spá henni heldur en hita á veðurstöðvum. Hún hefur þó þann ókost að hún segir aðeins hver meðalhiti á milli tveggja þrýstiflata er, í hinu venjulega tilviki milli 1000 hPa og 500 hPa-flatanna. Hún veit ekkert af grunnstæðum hitahvörfum í lægri lögum. Þau geta verið býsna snörp, úrsvöl hafgola getur spillt hlýindum stórlega. Þykktin veit ekkert af henni - og þar að auki eru líkur á hafgolu heldur meiri við mikla þykkt heldur en litla (jú). Í þriðja lagi er gjarnan notast við spár um hita í 850 hPa-fletinum. Hann er að jafnaði í um 1400 metra hæð (á góðum dögum). Sem vísir hefur hann að sjálfsögðu sama ókost og þykktin - hann veit ekki af hafgolu - og ekki heldur af mjög grunnum útgeislunarhitahvörfum yfir landi - og ýmislegt fleira getur líka truflað þessa tvo vísa.
Á síðustu árum er evrópureiknimiðstöðin einnig farin að gefa út ábendingar um óvenjulegt hitafar - svonefnda útgilda og halavísa.
Útgilda - og halavísir evrópureiknimiðstöðvarinnar fyrir hita. Gildir fimmtudaginn 15.maí 2025. Dökku svæðin sýna eins konar líkur á metum (miðað við samanburðartímabil líkansins). Á dekksta svæðinu er mjög líklegt að hitamet verði slegin - minni líkur á ljósari svæðunum. Heildregnar línur sýna svokallaðan halavísi - hæsta talan er 4,3 - sem er mjög óvenjulegt fyrir hita (algengara á úrkomukortum). Það er athyglisvert að líkanið telur ekki mjög miklar líkur á metum meðfram suðausturströndinni - þar er líklega skýjað og súld í líkaninu. Reykjavík er inni í næstdekksta svæðinu og sömuleiðis innan við ystu jafngildislínu halavísisins - ekki mjög miklar líkur á meti - en samt. Viðmiðun er ekki allur maí heldur hálfur mánuður í kringum dagsetninguna. Rétt að taka fram að ritstjórinn hefur takmarkaða reynslu í túlkun þessa vísis - veit bara að hann er alls ekki út í hött.
Allir þessir vísar - gamlir og nýir sýna hlýindi næstu vikuna - en enginn þeirra er samt í methæðum. Við höfum séð hærri hita í 850 hPa í maí heldur en spáð er - og sömuleiðis meiri þykkt. Við höfum kannski ekki fylgst nægilega lengi með vísum evrópureiknimiðstöðvarinnar til að vita nákvæmlega hvað þeir eru að segja - en háir eru þeir.
Fyrirspyrjandinn erlendi vissi auðvitað af öllum þessum vísum, þeirra vegna var hann að spyrja. En eftir að hann hafði lesið hið staðlaða svar ritstjórans kom frá honum annað bréf. Þar samsinnti hann hinum loðnu svörum sem hann fékk, en vildi samt fá að vita til viðbótar hvort líklegt væri að ný met í næturhlýindum yrðu sett, hvort næturlágmark hitans yrði hærra heldur en áður væri þekkt.
Auðvitað veit ritstjóri hungurdiska hver þau met eru, en en reynsla í að nýta vísa sem hjálpartæki í slíkum vangaveltum er afskaplega takmörkuð - alla vega í reynsluheimi ritstjórans. Út af fyrir sig er þetta athyglisverð spurning, en því er samt ekki að neita að ákveðinnar þreytu gætir hjá ritstjóranum gagnvart mesta metaáhuganum. Sannleikurinn er sá að lengi er hægt að finna ný met sé nægilega leitað. En látum samt vera að kvarta. Þetta varð tilefni annars svars - enn loðnara en þess fyrra. Áherslan á ábendingu um það hvað teldist óvenjulegt og hvað ekki í þessum efnum.
Fyrirspyrjandi taldi réttilega að lengd hlýindanna (gangi spár eftir) væri líklega óvenjuleg á þessum tíma árs. Hann spurði þó ekki beinlínis hvort hún væri nýtt met. Kannski langaði hann að vita það. Hér verður ritstjórinn að setja stopp - alla vega mun hann ekki reyna að svara þeirri spurningu fyrr en hlýindin eru liðin hjá - en ekki meðan þeim er bara spáð. Það gæti orðið athyglisvert - en ekki fyrirfram.
Hiti nær oft 20 stigum í maímánuði. Síðustu 145 ár hefur það að meðaltali átt sér stað annað hvort ár - sennilega oftar því mælingar voru framan af mjög gisnar. Fyrsti 20 stiga hiti í maí á skrá í gagnagrunni er frá 20.maí 1882 - árinu sem sumarið kom ekki á Norðurlandi. Mælingin var þó gerð á Hrísum í Eyjafirði - sem slapp við ísagoluna þann daginn.
Á þessari öld hefur hiti farið í 20 stig eða meira í 15 maímánuðum af 25 - og 8 sinnum síðustu 10 árin. Síðasti tuttugustigalausi maímánuðurinn var 2020. Þótt 20 stig séu þannig til þess að gera algeng eru 23 stig það ekki og 25 stig eða meira hafa aðeins mælst tvisvar. Á Vopnafirði 26.maí 1992 - eins og áður sagði og 25,0 stig á Egilsstöðum árið áður, 28.maí 1991. Spurningin er hvort við náum svo háum tölum nú. Hvernig hittir í?
Hæstu maínæturlágmörkin eru 14,0 stig, trúlega nærri lagi (þótt varla sé lesið með nákvæmni upp á 0,1 stig), sett annars vegar á Húsavík 28.maí 1991 (sama dag og 25,0 stiga hámarkið mældist á Egilsstöðum - því trúlegra en ella). Sömu nótt var lágmarkshiti á Sandi í Aðaldal 13,6 stig - bætir í trúverðugleika beggja talna. Hitt 14,0 stiga tilvikið er frá Fagradal í Vopnafirði þann 31.maí árið 1955. Ekki hefur ritstjórinn reynt að staðfesta það (eða afskrifa).
Allar lágmarkshitatölur hærri en 12,0 stig í maí eru óvenjulegar - nördin geta eytt næstu dögum í að fylgjast með þeim. Í Reykjavík liggja mörk hins óvenjulega enn neðar, metið er 11,4 stig, sett 14.maí 1988 og í öðru sæti eru 11,2 stig, sett 15.maí 1960. Sjálfvirka stöðin á Veðurstofutúni á hæst 11,2 stig 30.maí 2004. Það er óvenjulegt að fá sólarhring í Reykjavík í maí þar sem hiti fer ekki niður fyrir 10 stig. Evrópureiknimiðstöðin nefnir ekki slíkar nætur í Reykjavík næstu vikuna. Hún segir lágmarkið alla daga undir 9 stigum - en þarf auðvitað ekki að vera rétt.
Vænsta hitabylgja maímánaðar - á landsvísu (að vísu eru hitabylgjur sárasjaldan á landsvísu) gekk yfir 20. til 26. maí 1987. Ef eitthvað verður úr hlýindum nú ættum við kannski að líta til hennar varðandi lengdarsamanburð - en bara kannski.
11.5.2025 | 13:44
Fyrstu tíu dagar maímánaðar 2025
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 16:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.5.2025 | 19:23
Óþarflega djúp - og köld - lægð
Fyrirsögnin tekur kannski óþarflega djúpt í árinni, en samt - lægðin á að verða um 975 hPa í miðju í fyrramálið (föstudaginn 9.maí) - og það er í dýpra lagi á þessum árstíma. Sömuleiðis á þykktin að fara niður fyrir 5200 metra - sem er alla vega óþarflega kalt - en auðvitað langt, langt frá meti. Loftið er kalt og óstöðugt þannig að kuldinn dreifist vel um veðrahvolfið allt - þykktin mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs - ein og sér veit hún ekki hvort kuldinn er jafndreifður eða ekki. Staða þar sem mun kaldara er neðst, en hlýrra ofar getur þannig sýnt sömu þykkt og sú sem vænta má á morgun. Þá væri mun kaldara í mannheimum heldur en þykktin ein segir til um. Á morgun erum við því um það bil í þeim hita sem þykkt upp á 5200 metra getur gefið mestan. (Umhugsunarvert - en vel þess virði að hugsa aðeins).
Hér má sjá spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins, vindafar og hita í fletinum kl.06 í fyrramálið, föstudaginn 9.maí.
Frostið er mest við Vestfirði -39 stig, það er í meira lagi í maí, metið er þó aðeins neðar, neðan við -40 stig.
Ef hann gengi til norðurs í kjölfarið yrði mjög kalt - en reiknimiðstöðvar segja það ekki eiga að gerast að þessu sinni. Það hlýni fljótt aftur og þetta verði því ekki alvarlegt hret, aðeins örstutt sýnishorn.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (29.5.): 6
- Sl. sólarhring: 125
- Sl. viku: 1443
- Frá upphafi: 2471748
Annað
- Innlit í dag: 6
- Innlit sl. viku: 1334
- Gestir í dag: 6
- IP-tölur í dag: 6
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010