Færsluflokkur: Vísindi og fræði

Sumarhiti á Akureyri - (það er alla vega fyrirsögnin hér)

Myndin sem sjá má hér að neðan sýnir sumarhita (júní til september) á Akureyri 1808 til 2024. Eins og sjá má eru ýmsar eyður í gögnunum. Samfelldar mælingar á vegum dönsku veðurstofunnar hófust haustið 1881 og síðan tók Veðurstofa Íslands við mælingunum 1920. Margt er þó óljóst í sögu stöðvarinnar. Það er einlæg ósk ritstjóra hungurdiska að einhver honum yngri taki að sér að rannsaka þessa sögu - og gera síðan tilraun til að laga mæliröðina og jafnvel fylla upp í eyður - eins og frekast er unnt. Ritstjórinn hefur - (kannski ekki með allrabestu samvisku) reynt að fylla eitthvað í, en ekki treyst sér til þess að ganga svo langt að gefa röðina út.

w-blogg230325a

Dagbækur um veðurfar í Eyjafirði eru til frá degi til dags aftur á miðja 18. öld, lengra heldur en í nokkru öðru héraði landsins. Framan af eru mælingar þó engar svo vitað sé. Það varð ekki fyrr en danskir landmælingamenn settu upp höfuðstöðvar á Akureyri síðsumars 1807 að það gerðist - og var mælt þar samfellt til síðsumars 1813. Eyða er í mælingar á svæðinu þar til 1826 en þá byrjaði Grímur Jónsson amtmaður að mæla á Möðruvöllum. Dagbækur voru enn haldnar - og jafnvel fleiri en á einum stað samtímis - en án mælinga. Eyður eru í athuganir Gríms, sem lögðust síðan alveg af um það leyti sem hann hvarf á braut 1833. Ljóst er að eftirmaður hans, Bjarni Thorarensen hafði yfir hitamæli að ráða, en ekki liggur fyrir hvort hann gerði reglulegar mælingar. Bjarni var mikill áhugamaður um veður en ekki er víst að hann hafi ritað reglulega hjá sér. Hafi svo verið hefur það ekki komið fram. 

En Bjarni varð bráðkvaddur (1841) og ekki er vitað um mæli þar í grennd næstu árin. En 1846 tók Eggert Jónsson (Johnsen) læknir og fékk tæki frá Vísindafélaginu danska. Hann gerði nokkuð ítarlegar athuganir næstu árin eða til ársins 1854. Líklega var hann hættur athugunum þegar hann lést af slysförum skömmu síðar - eða kannski komust síðustu athuganir hans ekki til skila. Árið 1854 hóf Séra Björn Halldórsson í Laufási athuganir, en af einhverjum óþekktum ástæðum voru það aðeins loftþrýstimælingar sem komust í veðurbók hans. Þó virðist hitamælir hafa verið á staðnum - en Björn hefur e.t.v. ekki treyst honum(?). 

Mikil eyða er í hitamælingar á Akureyri frá 1854 þar til 1881. Þó er vitað um mæla á svæðinu, og e.t.v. er hægt að tína þær saman úr dagbókum - og nota reglubundnar mælingar frá öðrum stöðum til eftirlits og inníbætinga. 

Árið 1873 tók Hendrik Schiöth að sér athuganir fyrir dönsku veðurstofuna. En las þó aðeins af loftvog (og þar með hita í stofu sinni). Á sama tíma var sett upp stöð í Grímsey, en þar var ekki loftvog. Loftþrýstiathuganir á Akureyri voru þá birtar í sömu töflu og athuganir úr Grímsey - eins og Akureyrarstöðin væri hluti hennar. 

Þessu einkennilega fyrirkomulagi lauk svo haustið 1881 að Schiöth fór líka að mæla hita og gera aðrar athuganir fyrir dönsku Veðurstofuna. Því hélt hann síðan áfram til ársins 1918. Að auki var sett upp stöð á Möðruvöllum 1889 þar sem Stefán skólameistari athugaði þar til 1905. Síðan tóku aðrir við þar og var athugað nær samfellt til ársins 1927. 

Síminn kom til Akureyrar haustið 1906 og var þá sett upp önnur stöð, skeytastöð á Akureyri. Það er hún sem hefur verið starfrækt síðan. Hún var lengst af við símstöðina, en nú skortir ritstjóra hungurdiska mjög staðkunnáttu til að fylgja hreyfingum stöðvarinnar allt fram til þess að lögreglan tók hana (höndum) 1943 og fór að athuga við Smáragötu. Mikið ólag var á athugunum símstöðvarinnar og óvissa er í hitamælingum, þótt þær hafi aldrei fallið niður á þeim tíma. Um tíma var reynt að athuga við Gróðrarstöðina, en það gekk ekki upp - hvað sem veldur. Báðar tilraunir (önnur um 1910 og hin um 1925) mistókust. 

Athugað var við Smáragötu til 1968. Þá var flutt í Þórunnarstræti. Þar hefur reyndar gengið á ýmsu í nágrenni stöðvarinnar. Að lokum var síðan farið að athuga samhliða með sjálfvirkum mælum við Krossanesbraut. Sólskinsmælingarnar hafa verið gerðar á víð og dreif um bæinn, á stöðum þar sem vel sést til sólar og nærumhverfi skyggir ekki á. 

Afskaplega ánægjulegt væri ef einhver áhugamaður um veður og veðurfar tæki nú að sér það mikla verk að fara í gagn um sögu veðurathugana á Akureyri og komast fyrir vafamál og villur. 

Ástæða þess að sumarhiti var valinn á línuritið er sú að aðeins fleiri sumur eru í gögnunum heldur en heil ár. Tölurnar eru í samræmi við aðrar mælingar, sýna nokkuð ákveðna hlýnun yfir allt tímabilið, en köld og hlý skeið skiptast á á óreglulegan hátt. 


Fyrstu þrjár vikur marsmánaðar

Fyrstu þrjár vikur marsmánaðar 2025 voru hlýjar á landinu. Meðalhiti í Reykjavík var +3,1 stig, +2,3 stigum ofan meðallags sömu daga 1991 til 2020 og +1,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Raðast hitinn í 6. hlýjasta sæti (af 25) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2004, meðalhiti þá +4,8 stig, en kaldastir voru þeir 2023, meðalhiti -2,8 stig. Á langa listanum raðast hiti nú í 17. hlýjasta sæti (af 153). Hlýjast var 1929, meðalhiti þá +6,3 stig, en kaldast var 1891, meðalhiti -5,4 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú +2,6 stig, +3,0 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +2,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Vestfjörðum og á Ströndum og Norðurlandi vestra, þar eru þessir dagar þeir næsthlýjustu á öldinni. Kaldast að tiltölu hefur verið á Suðurlandi þar sem hitinn raðast í sjöundahlýjasta sæti aldarinnar.
 
Á einstökum veðurstöðvum hefur jákvætt vik miðað við síðustu tíu ár verið mest á Fljótsheiði, þar hefur hiti verð +3,7 stig ofan meðallags síðustu tíu ára, en kaldast hefur verið í Árnesi, hiti þar +0,1 stig ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 70,5 mm og er það um fjórðung umfram meðallag. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 52,1 mm, og er það um 50 prósent umfram meðallag. Á Dalatanga hefur úrkoman mælst aðeins 14,8 mm sem er innan við fimmtungur meðalúrkomu og hefur ekki mjög oft mælst jafnlítil sömu almanaksdaga. Enn minni úrkoma hefur mælst sumstaðar á Norðaustur- og Austurlandi, en þær lágu tölur eru óstaðfestar.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 64,8 í Reykjavík og er það nærri meðallagi. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 78,5 eða 32,9 umfram meðallag.

Hlaupið yfir árið 1997

Tíð var yfirleitt hagstæð á árinu 1997. Janúar byrjaði vel, en síðan var vinda- og umhleypingasamt. Snjór var ekki mikill, en nokkur svellalög. Tíð var rysjótt í febrúar og víða var mikill snjór, einkum í lok mánaðarins. Í mars var sæmileg tíð, allmikill snjór var framan af mánuðinum og færð þá erfið. Svell voru á túnum. Nokkuð góð tíð  var í apríl, jörð auð í mánaðarlok og gróður farinn að lifna um landið sunnanvert. Í maí var óhagstæð til fram yfir miðjan mánuð, frostnætur tíðar og gróðri fór lítið fram. Eftir 20. tók gróður vel við sér. Sauðburður gekk vel. Kal var í túnum norðaustanlands. Í júní gerði óvenju snarpt hret snemma í mánuðinum sem var í heild fremur kaldur og tíð stirð. Í júlí var tíð úrkomusöm og erfið til heyskapar um landið sunnanvert, verst þó suðaustanlands. Spretta var góð. Hlýtt var í veðri nema á annesjum á Austfjörðum. Þar var kalt og þokusælt. Ágúst var úrkomusamur um meginhluta landsins og gekk heyskapur treglega á Suðaustur- og Austurlandi. Berjaspretta var undir meðallagi. Vætusöm tíð var í september, en hlý. Uppskera úr görðum var misjöfn eftir frostskemmdir um miðjan mánuð. Berjaspretta var léleg. Í október var milt og vindar hægir. Vætusamt norðaustanlands. Góð tíð var í nóvember. Mikil hlýindi síðari hluta mánaðarins og lítið var um stórviðri. Búfénaður var á beit allan mánuðinn og gæftir voru góðar. Sama má segja um desember. Mikil hlýindi voru um land allt og snjólaust að mestu. Tún voru sums staðar græn fram yfir áramót.

Í textanum hér að neðan er leitast við að rifja upp helstu veðurviðburði ársins. Mun ítarlegri lýsingu á vindáttum, gangi veðurkerfa og þess háttar er auðvitað að finna í Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands sem aðgengilegt er á timarit.is. Hér er mjög byggt á fréttum dagblaðanna, Morgunblaðið var drýgst á þessu ári og er aðstandendum þess og annarra blaða þakkað að vanda. Í fáeinum tilvikum hafa augljósar prentvillur verið leiðréttar og stafsetningu í stöku tilviki hnikað til - vonandi að meinalausu.  

Þrýstingur var hár fyrstu viku janúar og vindur hægur. Kalt loft laumaðist að úr norðri þann 8. og næstu daga gerði ákveðna austan- og norðaustanátt, hvassast varð þann 11. DV segir frá illviðrinu í pistli 13.janúar:

Í hvassviðri sem gekk yfir Mýrdalinn síðastliðinn laugardag [11.] brotnaði 25 metra hátt fjarskiptamastur Pósts og síma sem er á Reynisfjalli. Í mastrinu voru endurvarpar fyrir Ríkisútvarpið, rás 1 og 2, Sjónvarpið og bæði farsímakerfin. Þegar mastrið féll datt því endurvarp allra þessara miðla út, en það náði til Víkur og hluta sveitarinnar í kring.

Slide1

Þann 19. skipti aftur yfir í sunnan- og suðvestanátt sem urðu nokkuð ákafar um skeið. Langverst varð veðrið þann 23., sjá kortið að ofan. Þá var djúp lægð á leið norðaustur með austurströnd Grænlands. Óvenjuleg hlýindi voru í hvassri sunnanáttinni, en seint um kvöldið og um nóttina gengu mjög skörp skil yfir - vind lægði um stund og það kólnaði að mun, en síðan gerði allsnarpan útsynning. Tjón varð nokkuð í þessu veðri. Morgunblaðið segir frá 24.janúar:

Björgunarsveitir voru í viðbragðsstöðu vegna hvassviðrisins en ekki urðu verulegar skemmdir á eignum, samkvæmt upplýsingum frá lögreglu. Hjálparsveitir aðstoðuðu lögreglu við Möðrufell í Reykjavík í gærkvöldi en þar hafði þakefni losnað af húsi í viðgerð og þá fuku bílar til við Engihjalla. Jafnframt fór sendibifreið út af veginum við Aratún í Hafnarfirði og lenti á tveimur ljósastaurum. Slökkviliðið í Reykjavík var kallað út til þess að taka niður umferðarljós á mótum Suðurlands- og Vesturlandsvegar sem höfðu losnað. Á landsbyggðinni fauk bíll út af veginum við Ós i gærdag, að sögn lögreglu á Akranesi, og þá brotnaði rúða í íbúðarhúsi í Borgarhreppi. Á Ísafirði skemmdist flotbryggja í gærkvöldi og ökumenn lentu í erfiðleikum. Vart varð við rafmagnstruflanir á Hvolsvelli.

Ísafjörður. Morgunblaðið. „Bíllinn fór eina eða tvær veltur og stöðvaðist á hvolfi. Ég hef aldrei lent í neinu slíku áður og er þó búinn að aka um veginn í 33 ár. Ég held að beltin og Guð hafi bjargað mér,“ sagði Valdimar Lúðvík Gíslason, sérleyfishafi á leiðinni milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur. Hann lenti í þeirri óhugnanlegu lífsreynslu rétt eftir kl.13 í gærdag, að bifreið hans fauk út af veginum um Óshlíð og stöðvaðist í fjöruborðinu, um 40-50 metrum fyrir neðan veginn. Bifreið Valdimars Lúðvíks, Toyota HiAce, er gjörónýt, en hann slapp með skrámur og mar. „Ég var í Seljadalnum, á svipuðum slóðum og vindurinn hafði feykt tveimur öðrum bifreiðum stuttu áður. Það var fljúgandi hálka og miklir sviptivindar og því sneri ég við og ætlaði aftur inn á Ísafjörð. Ég mætti bíl og þurfti því að fara aðeins utar á veginn. Ég náði ekki bílnum á réttan vegarhelming og á sama augnabliki kom mikil vindhviða og nánast feykti bílnum fram af veginum," sagði Valdimar Lúðvík.

DV segir af sama veðri 24.janúar:

Upp úr klukkan níu í gærmorgun fauk strætisvagn í mikilli hálku í svokölluðum Hreggnasa í Hnífsdal með þeim afleiðingum að hann fauk fram af háum vegkanti og hafnaði á stóru timburhúsi sem stendur þar fyrir neðan. Strætisvagninn var að koma frá Ísafirði í mikilli hálku og sterkum sviptivindum. Skipti engum togum er komið var í brekkuna í Hreggnasanum að vagninn fauk til og lenti út af veginum en þarna er nokkuð hár bakki fram af veginum. Rann vagninn nokkra tugi metra niður brekkuna og hafnaði með framendann inni i eldhúsi á Húsinu Hreggnasa 3, sem margir þekkja undir nafninu Græni Dalur. Enginn farþegi var þó í bílnum er óhappið átti sér stað og ekki urðu heldur slys á bílstjóranum. Í húsinu búa þau Ásgeir Bjarni Ingólfsson og María Dröfn Erlendsdóttir ásamt börnum sínum tveim. María var ásamt öðru barna sinna uppi í rúmi á annarri hæð þegar mikil vindhviða kom og skömmu seinna skall strætisvagninn á húsinu með miklum látum. Húsið er mikið skemmt en þau Ásgeir og María höfðu verið að vinna að endurnýjun á eldhúsinu þar sem strætisvagninn lenti. Er eldhúsið mikið brotið sem og gólf og einnig em skemmdir á annarri hæð hússins. Ásgeir Ingólfsson sagðist í samtali við blaðið vera búinn að búa í húsinu í fimm ár. Sagði hann húsið óíbúðarhæft eftir óhappið. Aðeins er um eitt ár síðan sami strætisvagn ók á hús í Sundstrætinu á Ísafirði í mikilli hálku. Það var þann 15. janúar 1996. Það hús skemmdist mikið og er húseigandinn nú langt kominn með að byggja nýtt hús við hlið þess gamla. -HK

Ökumaður flutningabíls missti stjórn á bíl sínum í vindhviðu á Hafnarfjarðarvegi skammt sunnan við Arnarnes í gær. Bíllinn lenti á tveimur ljósastaurum og klippti annan þeirra í sundur. Ökumaður slapp ómeiddur en flutningabíllinn skemmdist nokkuð. -RR

Febrúar var mjög órólegur. Þann 5. gekk allkröpp, en ekki stór lægð til norðurs um landið vestanvert. Hún olli snjókomu og ófærð, - og óvæntu foki í Ólafsfirði. DV segir frá 6.febrúar:

DV, Akureyri: „Við erum vön því að það komi svona hnútar í austanáttinni sem kemur hérna einu sinni til tvisvar á ári. Hnútarnir koma úr fjallaskörðunum og eru alveg hábölvaðir, þeir geta tekið heilu húsin,“ segir Andrés Kristinsson, bóndi á Kvíabekk í Ólafsfirði, en þak fauk af fjárhúsi hjá honum í mikilli vindhviðu í gærmorgun. Andrés segir að nokkrir slíkir hnútar hafi komið í gærmorgun [5.] og einn þeirra hafi verið svo öflugur að hann hristi og skók íbúðarhúsið þar sem heimilisfólkið var. Mikill hávaði fylgdi í hviðunum og varð Andrés sem var inni í bæ ekki var við þegar þakið fauk af fjárhúsinu og það uppgötvaðist ekki fyrr en síðar. „Þetta gat farið verr því það voru engar skepnur i húsinu, þær voru allar úti og sakaði ekki. Þakið á fjárhúsinu er hins vegar handónýtt enda mölhrotið fram um alla sveit,“ sagði Andrés. Einn hestur fannst dauður við háspennustaur í túninu skammt frá bænum. Lögreglan á Ólafsfirði segir að annaðhvort hafi þakplata lent á hestinum eða hann hafi hreinlega fokið á staurinn og drepist þannig. -gk

Morgunblaðið segir frá áhrifum lægðarinnar 6.febrúar (við styttum pistilinn):

Samgöngur fóru úr skorðum á Suðvesturlandi þegar kröpp lægð gekk yfir landið með mikilli snjókomu aðfaranótt miðvikudags [5.] og fram eftir degi í gær. Innanlandsflug lá að langmestu leyti niðri og truflanir urðu á millilandaflugi en margir nýttu sér almenningssamgöngur og skildu bíla sína eftir heima. Þó var nokkuð um að lögregla þyrfti að fjarlægja vanbúna bíla þar sem þeir lokuðu vegum eða hindruðu starf snjómokstursmanna sem eru í stöðugri vinnu við að opna götur og vegi. Um 40 björgunarsveitarmenn á höfuðborgarsvæðinu tóku þátt í að aðstoða bíleigendur og við að koma skólabörnum heim úr skóla og sett var upp sérstök aðgerðarstjórn í lögreglustöðinni í Reykjavík til þess að sinna þeim málum. ... Vilberg Ágústsson, yfirverkstjóri í snjómokstursdeild Gatnamálastjóra, segir að versta veðrið hafi skollið á rétt upp úr miðnætti aðfaranótt miðvikudags en upp úr kl. 4 hafi dregið úr mesta vindinum og tekið að snjóa mikið frameftir morgni. „Það er eiginlega ekki hægt að taka neinn einn stað út úr, það hefur verið jafnt fannfergi um alla borgina. Það hefur verið lítið verra í úthverfunum en í vesturbænum,“ sagði Vilberg.

Slide2

Lægðir gerðust nú mjög djúpar. Kortið sýnir stöðuna að kvöldi þess 9. en á morguninn eftir varð mesta flóðhæð um langt skeið í Reykjavík. Tjón varð þó minna en vænta mætti. Morgunblaðið segir frá 11.febrúar:

Engin stórvægileg óhöpp urðu í gærmorgun [10.] á Suður- og Suðvesturlandi í mestu flóðhæð sem þar hefur orðið frá því reglulegar mælingar hófust. Vatn flæddi víða yfir bryggjur í höfnum á Suðvesturlandi án þess að tjón hlytist af, en um miðnætti í fyrrinótt sökk smábátur í Reykjavíkurhöfn, þar sem flóðhæðin var mest og fór hún í 5,09 metra. Að sögn hafnsögumanna hafði báturinn verið fullur af snjó og illa frá honum gengið. Alls skemmdust fjórir bátar til viðbótar í Reykjavíkurhöfn um og eftir hádegi í gær og voru þeir allir bundnir við flotbryggjuna, en vindur stóð beint á hana. Gat kom á skrokk tveggja smábáta og einn bátur slitnaði frá bryggjunni og rak upp í fjöru og skemmdist nokkuð, og sá fimmti skemmdist vegna núnings við bryggjuna. Að sögn Hilmars Helgasonar, forstöðumanns Sjómælinga Íslands, er þetta mest flóðhæð sem mælst hefur í Reykjavík frá því reglulegar mælingar hófust árið 1951. Flóðhæðin hefur nokkrum sinnum mælst 4,9 metrar og 1991 komst flóðhæðin í 4,97 metra. Hilmar sagði að flóðhæð yrði mikil fram eftir vikunni og menn ættu því að hafa varann á sér og fylgjast með veðurspá.

Talsverður viðbúnaður var síðdegis í fyrradag og í fyrrinótt af hálfu gatnamálastjórans í Reykjavík vegna flóðahættu og var hreinsað frá niðurföllum á lægstu stöðum í borginni. Úrkoma varð hins vegar mun minni en búist hafði verið við og vindur lítill þannig að hvergi varð teljandi tjón af völdum flóða. Vatn flæddi þó upp um niðurföll á húsi við Skeljagranda snemma í gærmorgun og aðstoðaði slökkviliðið við að dæla vatni þaðan í burt og um hádegisbilið aðstoðaði slökkviliðið við að dæla vatni sem lekið hafði inn í hús við Granaskjól. Í fyrrinótt mældist mesti vindhraði sem mælst hefur í Vestmannaeyjum í vetur eða 82 hnútar [42,2 m/s] að meðaltali, en að sögn Óskars Sigurðssonar vitavarðar fór vindhraðinn upp í 111 hnúta [57,1 m/s] í verstu hviðunum. Engar skemmdir urðu í Vestmannaeyjum af völdum veðursins sjór stóð mjög hátt og flæddi m.a. yfir Bæjarbryggjuna.

Lögreglan í Reykjavík þurfti að aðstoða borgarbúa um hádegi í gær, þegar vindur rauk upp. Algengt var að fólk óskaði aðstoðar í norðurhluta borgarinnar, þar sem gluggar fuku upp í verstu hviðunum. Þá losnaði þakplata af húsi og hafnaði á Sæbrautinni, þar sem hún teppti umferð. Þakplötur losnuðu einnig af húsi við Bauganes, en þær voru festar snarlega áður en þær fóru á flug. Á Patreksfirði fuku þakplötur af hluta þaksins á Félagsheimilinu. Að sögn lögreglu hurfu þær út í sjó.

Slæmt veður var á Hellisheiði í gær og lentu margir ökumenn í vandræðum af þeim sökum. Verst var veðrið fyrir hádegi og segist Stefán Þormar, veitingamaður á Litlu kaffistofunni, sjaldan hafa séð það blindara. Hjá honum leitaði fjöldi vegfarenda skjóls meðan versta veðrið gekk yfir. Tveir flutningabílar lentu þversum á veginum og lokuðu honum í svokölluðum Skerðingum fyrir neðan Litlu kaffistofuna. Veðrið skall á á tíunda tímanum í gærmorgun og var að sögn Stefáns snarvitlaust fram til klukkan hálfeitt. „Það sá hreinlega ekki út úr augum. Það voru 30-40 bílar stopp hérna rétt fyrir ofan en sumir komust við illan leik inn á planið hér hjá kaffistofunni, þannig að fólk sat ýmist fast hér inni eða í bílunum. Þegar Vegagerðin loksins komst á staðinn og fór að greiða úr flækjunni datt veðrið fljótlega niður,“ sagði Stefán.

Skriða féll í Mýrdal, Morgunblaðið segir frá 13.febrúar:

Mikil skriða féll úr fjallinu Pétursey í Mýrdal í gær [12.] og stöðvuðust mannhæðarhá björg aðeins um 100 metra frá íbúðarhúsinu á bænum Eystri-Pétursey, sem stendur undir fjallinu. „Mér fannst ég heyra þrumu, leit út um gluggann og sá þá björgin koma veltandi niður hlíðina," segir Sigurjón Eyjólfsson, bóndi á Eystri-Pétursey. Hann segir að hrunið hafi úr klettabelti ofarlega í fjallinu, sem er úr móbergi, um 275 metra hátt. „Það er grasi gróin hlíð alveg upp að hömrunum, en björgin hafa rifið grasþekjuna upp á 30-40 metra breiðum kafla og sums staðar stungist djúpt niður í jörðina," segir Sigurjón. Að hans sögn kom minni skriða úr fjallinu fyrir tveimur árum, en hún féll vestar og grjótið var ekki í líkingu við björgin, sem nú komu niður. Skriðan skemmdi ekki tún fyrir Sigurjóni og bæði fólk og fénaður sluppu með skrekkinn.

Ekki er ljóst hvort veður átti beinan þátt í óhappi því sem Morgunblaðið segir frá þann 14.febrúar:

Talið er að tjón sem varð þegar slippkanturinn í höfninni á Akureyri féll niður á nokkurra tuga metra kafla í gærmorgun [13.] nemi tugum milljóna króna. Líklegt er að fylling hafi grafist undan stálþili og fylling innan þess farið út fyrir þilið með þeim afleiðingum að steypt þekja bryggjunnar féll niður. Ekki er vitað hvað olli þessu.

Slide3

Þann 17. fór sérlega djúp lægð til norðurs fyrir austan land. Kortið sýnir stöðuna kl.6 að morgni þess 18., en þá var miðja hennar komin norður fyrir. Næstu daga fór lægðin síðan til vesturs og suðvesturs að strönd Grænlands vestast á Grænlandshafi, en lægðin sem á kortinu suðaustur af Nýfundnalandi fór svipaða leið og sú fyrri, dýpkaði mjög fyrir suðaustan og austan land og kom síðan upp að Norðausturlandi. 

Slide4

Kortið sýnir stöðuna seint að kvöldi þess 19. febrúar. Þá er eldri lægðin vestast á Grænlandshafi, en sú yngri á norðvesturleið fyrir austan land. Norðanlands og á Vestfjörðum gerði mikla hríð. Lægðin grynntist síðan á svipuðum slóðum, en hríðin hélt áfram. Vindátt var þá lengst af vestan við norður - og sló jafnvel í vestur. Ekki algengt, en reynslan sýnir að snjóflóðahætta er þá viðvarandi á norðanverðum Vestfjörðum og á Tröllaskaga utanverðum. Enda féllu óvenjuleg snjóflóð í Bolungarvík og sömuleiðis varð skæð snjóflóðahrina í Siglufirði, þótt flóðin á síðarnefnda staðnum væru minni heldur en vestra.  

Morgunblaðið segir frá 22.febrúar:

Tvö snjóflóð féllu í Bolungarvík og þrjú á Siglufjarðarveg með stuttu millibili í gærkvöldi. Veðurstofa íslands lýsti yfir viðbúnaðarstigi í Bolungarvík og á Siglufirði og mælti fyrir um að hús skyldu rýmd á hættusvæðum. Einnig var lýst yfir viðbúnaðarstigi á Ísafirði, Flateyri og Súðavík. Um sextíu hús voru rýmd í Bolungarvík og yfir fimmtíu á Siglufirði. A Veðurstofu var í nótt ennfremur fylgst grannt með stöðu mála annars staðar á norðanverðum Vestfjörðum.

Tvö snjóflóð féllu úr hlíðum Traðarhyrnu í Bolungarvík í gærkvöldi á tvö hús efst í byggðinni við Dísarland. Fyrra flóðið féll um áttaleytið á efsta hús götunnar en olli engu tjóni. Seinna flóðið féll á tíunda tímanum á hús við sömu götu, braut glugga og fyllti stofuna. íbúar voru að heiman þegar þetta gerðist. Almannavarnanefnd í Bolungarvík rýmdi um sextíu hús í efri bænum ofan Völusteinsstrætis og meðfram hlíðinni. Björgunarsveitin Ernir í Bolungarvík fylgdist með hættusvæðinu í nótt. Á Siglufirði féllu þrjú misstór snjóflóð á Siglufjarðarveg á milli Selgils og Strákaganga um kvöldmatarleytið í gærkvöldi. Af þessum sökum var vegurinn lokaður um óákveðinn tíma. Almannavarnanefnd Siglufjarðar vann hörðum höndum að því seint í gærkvöldi að skipuleggja rýmingu húsa á stóru svæði efst í bænum eftir að Veðurstofan hafði tekið ákvörðun um rýmingu. Fyrstu aðgerðir nefndarinnar miðuðu að því að beina þeim tilmælum til 140 íbúa í 56 húsum að rýma húsin. Íbúum stóð m.a. til boða að
gista í hótelinu og á gistiheimilum.

Morgunblaðið heldur áfram 23.febrúar:

Morgunblaðið. Siglufirði Viðvarandi snjóflóðahætta var enn ríkjandi á Siglufirði um miðjan dag í gær. Mörg smærri flóð og spýjur höfðu fallið í hlíðinni fyrir ofan bæinn, á Ströndinni sunnan við Strákagöng og í svo kölluðum skriðum. Ekki hafði hlotist tjón af. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands var veðurútlit skömmu eftir hádegi í gær svipað og verið hefur undanfarinn sólarhring á Siglufirði og á Vestfjörðum og engar frekari rýmingar fyrirhugaðar, að óbreyttu. Rúta með nemendum úr Fjölbrautaskólanum á Sauðárkróki, sem voru á leið í skíðaferðalag, slapp naumlega þegar snjóflóð féll á veginn fyrir framan hana á Ströndinni á föstudagskvöld. Flóðið reyndist um 3 metra hátt og um 30 metra breitt og var mjög hart í því. Rútan náði að bakka inní Strákagöng og bíða þar uns flóðinu var rutt burt. Veginum frá Siglufirði var lokað, þar sem mörg flóð féllu þar og mikil hreyfing virtist vera í fjöllunum. Fimmtíu og sex hús við Háveg, Hólaveg, Fossveg, Norðurtún, Laugaveg og Suðurgötu með 144 íbúum voru rýmd í fyrrakvöld og gekk sú rýming hratt og vel fyrir sig. Fólkið dvaldi á Hótel Læk og Gistiheimilinu Hvanneyri, þrjár fjölskyldur hafast við í togara við bryggjuna og aðrir voru hjá vinum og ættingjum. Fólki var meinað að fara í hús sín nema í fylgd björgunarsveitarmanna og með snjóflóðaýlur og allar ferðir inn og út af hættusvæðinu voru skráðar hjá lögreglu. Að sögn Guðna Sveinssonar, lögregluvarðstjóra á Siglufirði, höfðu margir orð á því að nú þætti þeim virkileg ástæða til að yfirgefa heimili sín. Sagði hann að um tvö leytið í fyrrinótt hefðu fallið fjögur smáflóð úr Gimbraklettum og námu þau staðar 100 til 150 metrum fyrir ofan byggð. Ennfremur féllu sjö til átta smá spýjur úr fjalli norðan við Hvanneyrará en þau náðu ekki að byggð. Morgunblaðið/Þorkell

Umtalsverðar skemmdir á húsum á Bolungarvík eftir að snjóflóð féllu í fyrrakvöld. Sigurgeir Jóhannsson sem býr í efsta húsinu kom hlaupandi og sagði snjóflóð hafa fallið á húsið sitt og rúður brotnað. Við hringdum í nágrannana til að aðvara þá og í bæjarstjórann, en strax að því loknu fórum við út og skömmu síðar féll flóðið á húsið okkar. Sem betur fer lést enginn eða meiddist, en eignartjónið er gríðarlegt," segir Stefanía Birgisdóttir, sem flúði heimili sitt í Dísarlandi 10 í Bolungarvík í fyrrakvöld ásamt eiginmanni sínum, Olgeiri  Hávarðarsyni, og þremur börnum á aldrinum 9 til 16 ára. Um 150-180 manns var gert að yfirgefa heimili sín á Bolungarvík í fyrrakvöld, í samræmi við rýmingaráætlun. Einnig voru hús í Hnífsdal rýmd svo og við Grænagarð og Seljaland á Ísafirði, ellefu íbúar þurftu að yfirgefa hús sín í eldri hluta Súðavíkur og fjörutíu og níu íbúar neyddust til að fara úr húsum sínum á Flateyri.

Snjóflóðið féll á hús Sigurgeirs Jóhannssonar gröfustjóra í Dísarlandi 14 og hús nágranna hans númer 13 um klukkan 19:30. Hann var að moka snjó niðri í bæ þegar Guðlaug Elíasdóttir kona hans hringdi og lét vita. Sigurgeir sagði fréttaritara að það hefði verið sitt fyrsta verk, þegar hann kom upp í Dísarland og sá hvers kyns var, að hafa samband við nágranna sína í húsum nr. 10 og 12 og almannavarnanefnd. Síðar um kvöldið, eða um klukkan 21.30, fór Sigurgeir ásamt syni sínum að heimili þeirra til að sækja bíl og búnað. Voru þeir í húsinu um stund og var Sigurgeir í símasambandi við bæjarverkstjórann er seinna flóðið féll og varð af því mikill hvellur. Það mikill að viðmælandi hans á hinum enda símalínunnar heyrði hann greinilega. Það flóð náði ekki til húss Sigurgeirs en hreif hins vegar bíl sem stóð á hlaðinu og þeytti honum upp að húsinu, um 2 metra. Olgeir Hávarðsson kannaði skemmdir lauslega í gærmorgun ásamt bæjarstjóra, og kom þá í ljós að svefnherbergisálma húss hans er mjög illa farin, að sögn Ólafs Kristjánssonar bæjarstjóra. „Svo virðist sem loftþrýstingurinn á undan flóðinu hafi mölvað rúðurnar þannig að snjórinn átti greiða leið inn. Svefnherbergin þrjú eru nánast full af snjó og milliveggir hafa látið undan,“ segir Ólafur. Einnig sprakk langur skjólveggur fyrir ofan húsið.

Snjór fór jafnframt inn í einingahús við hlið þeirra, í Dísarlandi 8, og er um sjötíu sentimetra þykkt lag af snjó í stofunni þar, auk þess sem flóðið ruddi til húsgögnum og braut glerið í svalahurð. „Ég held að fólk eigi almennt erfitt með að gera sér grein fyrir kraftinum,“ segir Stefanía. Þau hjónin hafa búið í húsinu á sautjánda ár og hefur aldrei staðið nein ógn af snjóflóðahættu til þessa. „Við þurftum að rýma húsið þegar snjóflóðin féllu á Súðavík og í Tungudal, en annars aldrei, og höfum ekki leitt hugann mikið að þessari hættu. Miðað við það sem við höfum heyrt gæti flóðið nú verið af því tagi sem fellur á þúsund ára fresti." „Við þökkum bara fyrir að þessi spýja kom um áttaleytið á efsta húsið og veitti okkur viðvörun, þannig að við höfðum vit á að flýja húsið. Snjóflóðaeftirlitsmaður og fulltrúar almannavarna voru þarna um tveimur tímum áður og töldu enga hætta á ferð,“ segir hún.

Í sama blaði er einnig frétt af ráðstefnu um Gjálpargosið haustið 1996:

Ráðstefna um gosið í Vatnajökli. Jarðfræðafélag Íslands gekkst í gær fyrir ráðstefnu um eldgosið í Vatnajökli síðastliðið haust og var á ráðstefnunni kynnt sitthvað af rannsóknum jarðvísindamanna á eldsumbrotunum og afleiðingum þeirra. Flutt voru 25 erindi um skjálfta, eldgos, hlaup, jarðefnafræði, landmótun og samgöngur og sýnd veggspjöld til skýringar. Meðal þess sem fram kom á ráðstefnunni í gærmorgun er að vísindamenn telja talsverðar líkur á því að á umbrotasvæðinu í Vatnajökli verði næstu áratugir viðburðaríkari en þeir sem nýliðnir eru. Þá kom fram að efnasamsetning ísúrs gjóskulagsins úr gosinu 1996 er svipuð og á tímabilinu 1885-1889 og hugsanlega 1938, en önnur en ísúrra gjóskulaga sem talin eru ættuð frá Grímsvatnakerfinu. Því sé umhugsunarefni hvort nýr kafli í gossögu Vatnajökuls hafi byrjað með ísúra gosinu milli 1885 og 1889 og hvort eldstöðvakerfi milli þeirra tveggja sem virkust hafa verið sé að vakna af dvala.

Fyrstu daga marsmánaðar urðu mikil sjóslys, mannskaði varð, en þó minni en á horfðist vegna vasklegrar framgöngu þyrlusveitar Landhelgisgæslunnar. Fyrst strandaði flutningaskipið Vikartindur, síðan fórst Dísarfell og að lokum fiskiskipið Þorsteinn GK. Pistlarnir hér að neðan eru mjög styttir - en mikil illviðri gengu þessa daga en þau ollu ekki miklu tjóni á landi.  

Morgunblaðið segir frá 6.mars:

Nítján manna áhöfn þýska flutningaskipsins Vikartinds var bjargað af þyrlu Landhelgisgæslunnar, TF-LÍF, í gærkvöldi [5.mars], þegar skipið strandaði í fjörunni fyrir neðan Þykkvabæ laust fyrir klukkan 20:30. Skipið hafði þá verið í nauðum um hálfa aðra sjómílu frá landi síðan í gærmorgun. Varðskipið Ægir fékk á sig brot þegar reynt var að koma dráttartaug á milli skipanna, og skemmdist mikið, og er eins skipverja saknað. Fjörur voru gengnar í gærkvöldi og í nótt í leit að manninum. ... Skömmu eftir hádegi í gær barst Landhelgisgæslunni tilkynning frá Vikartindi, sem er 9.200 tonn að stærð og hefur verið í leigu hjá Eimskip frá lokum júlí í fyrra. Þá var skipið um sex sjómílur frá landi útaf Þjórsárósum, í suð-vestan hvassviðri, eða um 8-9 vindstigum, og náði ölduhæð þá allt að tólf metrum. Skipið rak að landi með tveggja og hálfrar sjómílu hraða þegar tilkynningin barst.

Slide5

Mikill órói var í veðri þessa daga og sjólag afleitt. Kortið sýnir dýpstu lægðina í syrpunni. Hún gekk yfir austanvert landið þann 6. mars og olli töluverðri snjókomu vestanlands, en ofan í hana gerði síðan mikla hláku þegar önnur lægð fór til norðausturs fyrir vestan land aðeins tveimur dögum síðar.

Slide6

Kortið sýnir síðari lægðina. Morgunblaðið segir af illviðrum 9.mars:

Þungfært var víða um land í gærdag [8.] og lá allt innanlandsflug niðri vegna ókyrrðar og ísingar í lofti. Í gærmorgun var sunnanátt og níu til tíu vindstig, rigning og hlýnandi veður víða um land, en eftir hádegi dró úr vindi. Á norðanverðu Snæfellsnesi og um Kerlingaskarð og Fróðárheiði voru vegir ófærir. Einnig var ófært um Holtavörðuheiði. Á sunnanverðum Vestfjörðum var ófært um Kleifaheiði, Mikladal og Hálfdán, en á norðanverðum Vestfjörðum var ófært um Óshlíð vegna snjóflóða og beðið átekta með mokstur þar. Þá var þungfært um Ísafjarðardjúp og Steingrímsfjarðarheiði og suður frá Hólmavík í Hrútafjörð. Að öðru leyti voru aðalvegir landsins færir, þó víða væri hálka. Fólksbíll fauk út af veginum á móts við Hvammsvík um sjöleytið í gærmorgun og endaði á hvolfi um þrjátíu metra utan vegar, að sögn lögreglunnar í Reykjavík. Ökumaður bílsins slapp svo til ómeiddur.

Mikill vatnselgur myndaðist á götum Reykjavíkur í gær og unnu borgarstarfsmenn að því fram eftir degi að hreinsa snjó og rusl úr niðurföllum. Slökkviliði Reykjavíkur barst tilkynning um vatnsleka í tvö hús í Kópavoginum í gær vegna vatnselgsins. Skemmdir voru óverulegar. Töluvert stórt snjóflóð og nokkur lítil féllu á Óshlíðarveg milli Ísafjarðar og Bolungarvíkur í fyrrinótt og gærmorgun. Talið er að fyrsta og stærsta flóðið hafi fallið skömmu eftir miðnætti, eða um eittleytið. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Bolungarvík er harla ólíklegt að nokkur umferð hafi verið á veginum þar sem veður hafi verið mjög slæmt og færð miður góð. Vegurinn var ruddur snemma í gærmorgun en þegar ruðningsmenn voru á leið aftur til Bolungarvíkur hafði nýtt snjóflóð fallið. Samkvæmt upplýsingum Vegagerðarinnar í hádeginu í gær var óvíst hvenær tækist að opna veginn. Í dag er útlit fyrir suðvestanátt og slydduél um sunnan- og vestanvert landið en léttskýjað á Norðausturlandi.

DV segir frá Dísarfellsslysinu 10 mars (mikið stytt hér):

Skömmu fyrir klukkan fjögur í fyrrinótt kom tilkynning til Landhelgisgæslunnar frá Reykjavikurradíói um að slagsiða væri komin á Dísarfellið, 20-30 gráða halli og 15 gámar hefðu losnað og farið í sjóinn. Skipið var statt nánast miðja vegu á milli Íslands og Færeyja, 100 sjómílur suðsuðaustur af Hornafirði. Klukkan 4:51 kom tilkynning um að hallinn á skipinu væri orðinn 60 gráður, fjórir gámar til viðbótar höfðu þá farið í sjóinn, svo og annar tveggja björgunarbáta skipsins. Þá kallaði stjórnstöð Landhelgisgæslunnar út áhöfn þyrlunnar. ...

Og daginn eftir, 11.mars segir DV frá óförum Þorsteins GK:

Það var um klukkan 14:46 í gær að haft var samband við stjórnstöð Landhelgisgæslunnar úr Þorsteini GK, 178 tonna stálskipi úr Grindavík, og tilkynnt að báturinn hefði fengið veiðarfæri í skrúfuna tæpa sjómílu undan Krísuvíkurbergi. Veður var vont og rak bátinn með landinu. Akkeri voru látin falla til öryggis og áhöfn þyrlunnar, TF-LÍF, var beðin að vera í viðbragðsstöðu. Þegar í ljós kom að báturinn ætti í vandræðum með akkerin var þyrlan send strax á staðinn. Um klukkan 16:40 rak Þorstein að landi án þess að bátar, sem þá vora komnir á staðinn, næðu til hans og eftir að hafa fylgst með bátnum berjast í briminu er óhætt að fullyrða að næsta lítið standi eftir af honum eftir nóttina. Með hverjum hálftímanum sem leið fylgdust menn með því hvernig skipið brotnaði meir og meir undan þunga sjávarins. TF-LÍF, þyrla Landhelgigæslunnar, hefur nú á tæpri viku bjargað 39 mönnum úr sjávarháska. -sv

Flutningabíll með tengivagn fór út af veginum í Kollafirði í Strandasýslu í nótt. Ökumaður missti stjórn á bílnum í vonskuveðri með þeim afleiðingum að hann valt út fyrir veginn en ökumaður slapp ómeiddur. Í tengivagninum voru um 20 tonn af rækju og fór hún öll út úr vagninum. Björgunarsveitin Dagrenning á Hólmavík var kölluð að slysstað vegna blindbyls og ófærðar. Ekki vildi betur til en að snjóflóð féll á bíl björgunarsveitarinnar í svokölluðum Grindarkrók á Hvalsárhöfða og stöðvaðist bíllinn á vegarbrúninni. Ekki urðu slys á fólki. RR

Eftir þetta róaðist veður nokkuð, en talsverður snjór var þó í byggðum landsins. Morgunblaðið segir 18.mars frá vandræðum við Þjórsá:

Selfossi. Morgunblaðið. Þjórsá flæðir nú yfir bakka sína í Villingaholtshreppi og virðist sem klakastífla hafi myndast í ánni með þeim afleiðingum að áin rennur úr farvegi sínum og flæðir inn á land. Þjórsá hefur rofið skarð í veginn fyrir neðan Egilsstaðakot og er hann nú í sundur á þremur stuttum köflum. Áin flæðir inn á lönd kartöflubænda og í gegnum varnargarða sem reistir voru til þess að verjast flóðum sem þessum. Að sögn Guðsteins Hermundssonar, bónda á Egilsstöðum, er ekki um stórflóð að ræða en upphlaup sem þessi eru samt óvenjuleg við þær aðstæður sem eru núna, ekki mikið um leysingar og ennþá kalt í veðri. „Svo virðist sem mikil klakamyndun sé orsök þess að áin hafi breytt um farveg. Áin er einnig óvenju vatnsmikil og kann að vera að samspil þessara þátta orsaki þessi flóð,“ sagði Guðsteinn. Hann taldi jafnvel mögulegt að um væri að kenna miklu streymi frá virkjanasvæði Landsvirkjunar og það er ekki gott ef rétt er,“ segir Guðsteinn.

Áin flæðir nú yfir landið í Syðri-Gróf, sem er töluvert neðar en Egilsstaðir. Þar eru engir varnargarðar og umlykur vatnið bæinn og kartöflugeymslur eru í hættu vegna vatnsins. „Þetta er mjög slæmt mál, þeir hjá Landsvirkjun hafa aukið vatnsrennslið í Þjórsá og það er ástæðan fyrir þessum flóðum. Menn verða að vita hvað þeir eru að gera, það þýðir ekki að dæla vatninu endalaust af hálendinu, það verður að skila sér rétta leið til sjávar," segir Bjarni Jónsson, bóndi í Syðri-Gróf. Þjórsá flæddi síðast á svipuðum slóðum árið 1977 og þá vora reistir varnargarðar til þess að stöðva framrás árinnar. Þeir gera sitt gagn svo langt sem þeir ná en ekki halda þeir þó öllu vatninu í skefjum. Að sögn Valgerðar Gestsdóttur, húsfreyju í Mjósyndi, var flóðið 1977 mjög mikið og vatnið rann heim að bæjum. Það olli tjóni og nú virðist sem sagan sé að endurtaka sig. Þorsteinn Hilmarsson, upplýsingafulltrúi Landsvirkjunar, sagði aðspurður um fullyrðingar Guðsteins að síðustu daga og vikur hefðu engar sveiflur orðið á vatnsrennsli í Þjórsá. „Þessar fullyrðingar koma okkur á óvart. Rennsli í ánni ræðst af framleiðslu í Búrfellsvirkjun og hún er stöðug. Staðreyndin er sú að miðlun vatns veldur stöðugu rennsli en dregur jafnframt úr hættu á ísstíflu og þrepahlaupum," sagði hann. Þorsteinn sagði að hugsanlega mætti rekja tildrög flóðsins til frosthörku síðustu daga en það kynni að leiða til þess að áin bólgnaði út.

En fljótt dró úr flóðinu. Morgunblaðið 19.mars:

Mikið hafði dregið úr vatnselgnum við bæi í Villingaholtshreppi í gær en Þjórsá flóði yfir bakka sína þar í fyrradag. Bjarni Pálsson, bóndi í Syðri-Gróf, segir að mun meira vatnsrennsli sé í Þjórsá en náttúran geri ráð fyrir vegna virkjanaframkvæmda en ekkert hafi verið gert til þess að breyta farvegi árinnar. Vatnið fór yfir lönd Forsætis, Syðri-Grófar og Mjósunds. Bjarni segir að vetrarrennsli Þjórsár hafi aukist mjög mikið. „Það þarf að hanna virkjanir með það fyrir augum að vatnið komist alla leið til sjávar. Tuttugu ár eru síðan síðasta flóð kom sem var mjög svipað að um fangi og núna. Í kjölfar þess voru byggðir varnargarðar hjá Mjósundi, næsta bæ fyrir neðan Syðri-Gróf, og hann hefur bjargað mjög miklu núna,“ sagði Bjarni. Bjarni segir að flóðið í fyrradag sé þó í raun aðeins brot af öllu vatnsmagninu sem er í Þjórsá. Við verstu hugsanlegu aðstæður gæti allt það vatnsmagn farið yfir lönd bænda og út í það þyrðu menn ekki að hugsa. Bjarni sagði að hugsanlega gæti flóðið nú valdið kalskemmdum á túnum ef langvarandi frost fylgdu á eftir og auk þess verða skemmdir á girðingum.

Í apríl og maí var lítið um tíðindi í veðri. Lýsingu má finna í Veðráttunni. Næst dró til verulegra tíðinda snemma í júní þegar óvenjulegt hret gerði. Frá hretinu er greint í sérstökum bloggpistli hungurdiska. Júníhretið 1997. Fróðlegur lestur. 

Í hretinu, sem stóð 4. til 8. - og var viðloðandi lengur, sá víða á gróðri. Óvenjumikill munur var á hita þ.3. og 4., víða vel yfir 20 stig norðanlands fyrri daginn, en frost þann síðari. Mjög víða snjóaði og snjó festi um mestallt norðan- og austanvert landið. Ekki hefur mælst meira frost í Vestmannaeyjum í júní, en mælingar hófust þar 1877. Að morgni þess 8. var alhvít jörð á Eyrarbakka og Lækjarbakka. Þann 15. var alhvít jörð í Skagafirði, snjódýpt mældist 15 cm í Litlu-Hlíð og 4 cm á Nautabúi.

Júlí þótti votviðrasamur sunnanlands og heyskapartíð erfið. Þann 11. júlí gerði mikið þrumuveður í Hornafirði. DV segir frá því 14.júlí:

DV.Höfn: „Það var alveg óskaplegur hávaði hér í þrumuveðrinu og ljósagangurinn eftir því. Það nötraði allt þegar mest var og ein eldingin kom í túnið hér skammt framan við bæinn,“ sagði Svanhvít Kristjánsdóttir í Árnanesi. Holan sem kom í túnið þegar eldingunni laust niður er einn og hálfur metri á dýpt og átta minni holur eru í kringum hana. Svanhvít sagði að börnin hefðu verið skelfilega hrædd meðan þrumuveðrið gekk yfir enda hefðu þau aldrei kynnst nokkru þessu líku. Þrumuveðrið sem gekk yfir Hornafjörð á föstudagskvöldið stóð yfir í tæpa klukkustund og muna menn ekki eftir slíku óveðri sem hefur staðið svo lengi með sífelldum þrumum og ljósagangi allan tímann. Rafmagnslaust varð í sveitunum allt suður í Öræfi þegar 5 dreifispennar skemmdust. Nokkra klukkutíma tók að koma rafmagninu á, einkum í Öræfum, Suðursveit og Mýrum. Öræfingar urðu símasambandslausir og erfitt reyndist að fá varahluti á staðinn vegna þess að ekki var hægt að fljúga til Hornafjarðar og þá var vænlegast að fá þá til Egilsstaða og með bíl þaðan. Áætlað tjón RARIK af völdum þrumuveðursins er áætlað 1,5-2 milljónir króna. Heyrst hefur að mörg rafmagnstæki á heimilum hafi skemmst. JI

Fyrri hluti ágústmánaðar bauð upp á ólíka stöðu veðurkerfa, með afskaplega ólíku veðri. 

Slide7

Kortið sýnir 500 hPa hæð og þykkt um hádegi miðvikudaginn 6. ágúst. Í háloftunum er óvenju köld suðvestanátt yfir landinu. Þessa daga var ritstjóri hungurdiska á lítilli ráðstefnu veðursagnfræðinga í Reykjavík. Þann 7. var haldið á Þingvöll í sérlega hryssingslegu, en eftirminnilegu veðri. Þykktin er stöku sinnum minni en þetta fyrri hluta ágústmánaðar, en nær eingöngu í norðlægum áttum. 

Slide8

Vindur snerist síðan um stund til norðurs og það kólnaði enn frekar á landinu. Kortið hér að ofan gildir að morgni þess 9. Þá snjóaði á Grímsstöðum á Fjöllum í hita nærri frostmarki og hiti var ekki nema 4 til 5 stig á láglendi um mikinn hluta Norðurlands. En á aðeins örfáum dögum skipti rækilega um. 

Slide9

Þann 12. ágúst var mikið háþrýstisvæði yfir landinu og hlýtt loft allt um kring. Vandinn var sá að vindur var svo hægur að illa gekk að hreinsa leifar kalda loftsins burt. Hlýjast varð því inn til landsins og á heiðum uppi. Á Hvanneyri í Borgarfirði fór hiti í 30 stig, en viðurkennist ekki sem met. Rökstuðning með og á móti má lesa í pistli hungurdiska um hæsta hita á Íslandi - smáflettingar þarf áður en komið er að atvikinu 11. ágúst 1997. Á kortinu má sjá að þykktin norðan við land er meiri en 5640 metrar, óvenjulega hátt. Í sumum greiningum þess tíma mátti meira að segja sjá 5700 metra þykkt í niðurstreyminu við austurströnd Grænlands. Hvort þeirri ævintýralegu tölu hefur verið náð í raun og veru vitum við ekki. 

Slide10

Á landinu í heild náði hitabylgjan hámarki þann 13. Þá komst hiti í 27,0 stig á Grímsstöðum á Fjöllum (sjá kortið að ofan) og mjög hlýtt var um nær allt land. Hiti á mestöllu hálendinu yfir 20 stig og komst meira að segja í meir en 25 stig á Holtavörðuheiði. 

Morgunblaðið segir af heyskaparhorfum 13. ágúst:

Þrálátir óþurrkar á Suður- og Vesturlandi hafa valdið bændum miklum erfiðleikum við heyskap. Jón Vilmundarson, ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Suðurlands, sagði að allmargir bændur á Suðurlandi hefðu verið skammt á veg komnir um síðustu helgi þegar þriggja vikna óþurrkakafla lauk. Það sem af er þessari viku hefur verið mjög góð heyskapartíð um allt land og bændur hafa því keppst við. Jón sagði að bændur sem væru vel tækjum búnir, með rúlluvélar eða öfluga súrþurrkun, væru að verða búnir með fyrri slátt. Aðrir væru mjög stutt á veg komnir. Bændur sem byggju eingöngu með sauðfé eða hross hefðu ekki sömu þörf fyrir að slá grasið í snemma og kúabændur og þeir væru því almennt styttra komnir með sinn heyskap. „Kúabændur sem ekki hafa annaðhvort rúlluvélar eða heita súrþurrkun eru í vondri stöðu,“ sagði Jón. Jón sagði að hey hefðu víða hrakist mikið í sumar og væru því léleg að gæðum. Gras væri einnig úr sér sprottið eftir óhemju góða sprettutíð í júlí, en þá fóru saman miklar rigningar og hátt hitastig. Jón sagði að bændur kepptust við í heyskap þessa dagana. Allar horfur væru á að staðan myndi því batna verulega ef þurrt yrði í veðri út þessa viku.

En þrátt fyrir rýra þurrka mátti samt segja að það slyppi til með heyskapinn. Tíð var bærileg síðari hluta ágústmánaðar og fram í september. Mest var kvartað suðaustanlands. Næturfrost um miðjan september spilltu garðauppskeru nokkuð. 

Morgunblaðið segir þann 10.september af sandstormi á Mýrdalssandi, alldjúp lægð fór hratt til austurs fyrir norðan land og fylgdi henni hvöss vestlæg átt:

Fagradal - Mikill sandstormur var á Mýrdalssandi allan síðastliðinn mánudag [8.], af þeim sökum var vegurinn yfir sandinn lokaður þar til vindinn lægði á mánudagskvöld. Einar Sveinbjörnsson hjá Veðurstofu íslands segir orsökina vera hvassa vestnorðvestanátt og mjög þurrt loft ættað frá Grænlandi. Hann sagði loftrakann á Norðurhjáleigu í Álftaveri hafa verið 23%, sem er óvenju þurrt loft. Bændur á Suðurlandi hafa átt í erfiðleikum með heyskap vegna stöðugra óþurrka og áttu margir því töluvert aflausu heyi á túnum vegna þess að það spáði þurrki sem reyndar stóðst en rokið olli því að heymagnið ódrýgðist töluvert því að um leið og heyið þornaði fór það að fjúka. Girðingar og skurðir fylltust af heyi og bændur áttu í mesta basli með að ná því sem eftir var af heyi úr girðingum og skurðum í gærmorgun.

Óvenjulega hlýtt varð á Norður- og Austurlandi þann 23. Hiti mældist þá 21,5 stig á Akureyri, sá hæsti svo seint í mánuðinum. Síðan þá hefur hiti tvisvar náð 20 stigum sléttum á Akureyri síðar, þann 24. árið 2019 og 25. árið 2022. 

Slide11

Undir lok september kom sérlega djúp lægð að landinu, ein sú dýpsta sem vitað er um í þeim mánuði. Kortið sýnir stöðuna seint að kvöldi þess 28. Þó lægðin kæmi þá sömu slóð og gamlir fellibyljir sem til Íslands koma fara hefur ekki tekist að tengja hana slíku - vel má þó vera að einhver „hvarfbaugshroði“ (eins og ritstjóri hungurdiska kallar þessi suðrænu kerfi) hafi verið á ferð. Nokkurt tjón varð í þessu veðri.

Morgunblaðið segir frá 30.september:

Mikil röskun varð í óveðrinu á innanlandsflugi, rafmagnsstaurar brotnuðu í Hjaltastaðaþinghá og í Jökulsárhlíð, hlaða sprakk á Borgarfirði eystra og plötumar fuku um allt, bílar skemmdust þegar vinnupallar hrundu ofan á þá við flugturninn á Reykjavíkurflugvelli og kanadísk herflugvél fór út af brautinni á Keflavíkurflugvelli. Einar segir að lægðin, sem var mjög djúp og vatnsþrungin, hafi komið upp að landinu á sunnudag með suðaustan- og austanátt. Lægðarmiðjan hafi svo farið norður með fyrir vestan landið í fyrrinótt og vindur snúist til vestanáttar, fyrst sunnanlands. Síðan hafi vind hert af alvöru í gærmorgun um land allt, og víða farið í 9-10 vindstig og sumstaðar jafnvel 11, einkum til fjalla. „Þar sem þessi vestanátt slær sér niður hlémegin fjalla verður vindur oft mjög byljóttur, eins og í Skagafirði, víða á Austfjörðum og í Jökulsárhlíð," segir hann. Lægðarmiðjan fyrir norðan landið fór að grynnast síðdegis í gær og dró þá kaldara loft inn á Vestfirði, þar sem fór að snjóa um hádegisbilið og var víða hált á vegum.

Víða á hálendinu var mikið moldrok og sandfok. Af þeim sökum var til dæmis ekki nema um 500 metra skyggni á Grímsstöðum á Fjöllum um miðjan dag í gær. Einar gerði ráð fyrir að veðrið myndi ganga niður í nótt og í morgun, og verða skaplegt víðast hvar á landinu í dag en þó rigning allra syðst. Í kvöld myndi svo ganga í norðanátt með kólnandi veðri. Næstu daga er útlit fyrir nokkuð rysjótt veður. Mikil röskun varð á flugi innanlands í gær. Snemma í gærmorgun flugu þó vélar frá Íslandsflugi til Akureyrar, Sauðárkróks, Ísafjarðar og Bíldudals en önnur vél sem lagði af stað á Ísafjörð eftir hádegið varð að snúa við og lenda í Reykjavík. Undir kvöld var flogið á Sauðárkrók og frá Vestmannaeyjum og til baka en öðru flugi var aflýst. Flugfélag Íslands fór eina ferð til Akureyrar í gærmorgun og aðra á Ísafjörð um hádegið en úr því var ekkert hægt að fljúga fyrr en undir kvöld. Þá stóð til að fara til Vestmannaeyja og á Sauðárkrók og jafnvel á Húsavík og Hornafjörð.

Í gærmorgun varð ófært yfir Mýrdalssand vegna sandfoks en um miðjan dag var aftur orðið fært. Þá var ófært yfir Möðrudalsöræfi vegna mikils sandroks og þar voru jafnvel steinar á flugi í 9-10 vindstigum, að sögn Pálma Jónssonar, vegaeftirlitsmanns hjá Vegagerð ríkisins. Á Holtavörðuheiði var einnig verulega hvasst um miðjan dag í gær, eða 10-11 vindstig. Staurastæða í stofnlínunni frá Lagarfossvirkjun til Vopnafjarðar, nánar tiltekið í Jökulsárhlíð, brotnaði um tíuleytið í gærmorgun í norðvestanhvassviðri. Erfitt var að vinna að viðgerð í gær vegna veðurs en að sögn Sigurðar Eymundssonar, umdæmisstjóra RARIK á Austurlandi, var Vopnafjarðarsvæðinu séð fyrir rafmagni með díselvélum. Unnið var að því að flytja efni á staðinn í gær og undirbúa viðgerð, sem ráðgert var að hefja snemma í morgun. Sigurður sagði vonir standa til að viðgerð yrði lokið um hádegi í dag. Á sunnudag féll einnig staur um koll í Hjaltastaðaþinghá og orsakaði straumleysi þar í sveit í á þriðju klukkustund. 

Á bænum Bakka í Borgarfirði eystra sprakk hlaða bókstaflega í loft upp í gær og dreifðust járnplötumar um allt þorp og jafnvel út á sjó. Ekkert hey var í hlöðunni. Guðmundur Sveinsson, bóndi á Bakka, telur að plata hafi losnað af hlöðunni rokmegin og þar sem hlaðan hafi verið þétt hinumegin hafi eitthvað orðið að láta undan. „Þannig að hún hreinlega sprakk og steyptur sjö metra hár stafn lagðist út af, rétt eins og maður leggur aftur Morgunblaðið,“ sagði Guðmundur. Hann tók fram að veggurinn hefði verið rammlega járnbentur og hefði átt að standast jarðskjálfta en hlaðan hefði ekki staðist allt þetta loft, sem blés inn í hana af miklum krafti en komst hvergi út. Þá lenti danskur ferðamaður í hremmingum á Skeiðarársandi í hávaðaroki um hádegi á sunnudag þegar rör úr ræsi kom fjúkandi á fleygiferð á eftir honum. Að sögn Önnu Maríu Ragnarsdóttur, hótelstjóra á Hótel Skaftafelli, gaf maðurinn í en það dugði ekki til, rörið náði honum, klippti afturbrettið af bílnum og skemmdi hann mikið.

Flugmenn kanadískrar herþotu lentu í erfiðleikum eftir lendingu í suðvestanrokinu í gærmorgun. Þegar verið var að aka vélinni inn á flughlað eftir lendingu misstu flugmennirnir stjórn á henni með þeim afleiðingum að vélin hafnaði úti í móa og sat þar föst. Slökkviliðsmenn voru fljótir til og lögðu bílum sínum áveðurs til að verja hana frá því að fjúka aftur auk þess sem þeir settu loftpúða undir vængina. Að sögn Haralds Stefánssonar slökkviliðsstjóra má telja fullvíst að með því móti hafi tekist að verja vélina frá verulegum skemmdum. Vélin, sem er af tegundinni CL-60, var að koma frá Kanada og millilenti á Keflavíkurflugvelli. Í henni voru 5 manns og sakaði engan. Mjög hvasst var af suðvestan þegar óhappið varð. Vélin lenti á braut 29 sem liggur frá austri til vesturs. Henni var síðan ekið eftir akstursbraut flugvéla sem liggur meðfram norður-suður flugbrautinni. Þar misstu flugmennirnir vélina út af til hægri og þegar þeir keyrðu hana inn á akstursbrautina aftur flaug hún nánast út af hinum megin. Slökkviliðið náði vélinni upp síðdegis með því að lyfta henni upp með loftpúðum og síðan var hún dregin upp á brautina aftur. Talið er að litlar sem engar skemmdir hafi orðið á vélinni.

„Ég hef aldrei séð svona áður, en hef þó orðið vitni af mörgum veðrabrigðum," sagði Snæþór Vernharðsson vélstjóranemi við Verkmennaskólann á Akureyri, en hann var ásamt skólabræðrum sínum um borð í Sólbak EA við Fiskihöfnina á Akureyri þegar þeir urðu vitni að því að hvirfilbylur gekk yfir frá Tryggvabraut og austur yfir Eyjafjörð síðdegis í gær. Á leið sinni austur yfir olli hvirfilbylurinn nokkrum skemmdum á þaki íþróttaskemmunnar, lausamunir á skrifstofu aðstoðarslökkviliðsstjóra fóru af stað og tvær rúður í bíl Siglingastofnunar Íslands brotnuðu. Þá tókust 6 smábátar sem stóðu upp á bakka við Skipatanga á loft og skemmdust mismikið. Einn hafnaði í sjónum, annar á hvolfi, tveir fóru á hliðina og aðrir tveir færðust úr stað. Plötur á þaki verbúða þeyttust af og lentu úti í sjó. Ingi Björnsson framkvæmdastjóri Slippstöðvarinnar var úti í glugga og sá þegar ósköpin gengu yfir og bátarnir tókust á loft. „Það var hreint ótrúlegt að sjá þetta, strókurinn hélt svo áfram austur yfir fjörðinn og sjórinn hreinlega lyftist upp undan honum,“ sagði Ingi. Vélstjóranemarnir stóðu aftan við brúna á Sólbak og um tíma fannst þeim bylurinn stefna á sig, en Snæþór sagði að engin hræðsla hefði gripið um sig í hópnum. „Þetta var ekki stór hvirfilbylur, en greinilega aflmikill. Það var skrýtið að horfa á þetta. Bátarnir lyftust upp og plötumar af húsunum rifnuðu af og fylgdu bylnum og lentu út í sjó. Þetta var eiginlega bara eins og maður sér í bíó eða sjónvarpinu," sagði Snæþór.

Lægðin sem gekk yfir landið á sunnudag og í gær er sú dýpsta sem hingað hefur komið í september síðan árið 1900, samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar. Hún olli mikilli röskun á samgöngum í lofti, láði og á legi og víða um land varð tjón á eignum.

Október varð meinlaus að mestu. Morgunblaðið segir 6.nóvember frá aurskriðum sem féllu í Hrunamannahreppi þann 31. í kjölfar mikillar úrkomu á Suðurlandi:

Nokkrar aurskriður féllu í hlíðum Kotlaugafjalls aðfaranótt föstudagsins sl. Aðfaranótt föstudagsins 31.október féllu margar aurskriður hér í hreppnum [Hrunamannahrepp]. Langflestar féllu úr Kotlaugafjalli eða nær 20 ef allar smáspýjur eru taldar með. Sú stærsta fór aðeins tvo metra frá vatnsbólinu við bæinn Kotlaugar. Þá hafa fallið 9 skriður í Kópsvatnsásum við bæinn Kópsvatn, einnig má sjá að minni skriður hafa fallið víðar svo sem í Berghylsfjalli. Þessar skriður, sem eru eðlilega mismunandi stórar, hafa valdið allnokkru tjóni á gróðri og eftir þær eru ljót sár í hlíðum. Mikið vatnsveður gekk yfir daginn á undan og þessa umræddu nótt. Þetta er ekki óalgengt fyrirbrigði að slíkar aurskriður komi þegar jarðvegur hefur safnað miklu vatni í fremur grunnan gróður ofan á bergi. Elstu menn muna þó ekki eftir að svo margar og stórar skriður hafi fallið hér um slóðir. Morgunblaðið/Sigurður Sigmundsson

Slide12

Þann 2.nóvember gerði fjárskaðahríð í Vestur-Skaftafellssýslu. Hana bar nokkuð óvænt að og Veðurstofan gagnrýnd. Kortið að ofan sýnir stöðuna síðdegis daginn áður, 1.nóvember. Sumarlegt ástand myndu margir segja. Afskaplega grunnar lægðir fyrir sunnan land, greiningin finnur þrjár, engin þeirra er dýpri en 1020 hPa. Fyrir 70 árum hefði verið mjög erfitt að átta sig á hættunni í þessari stöðu, en árið 1997 hafði tölvuspám farið svo fram að þær sýndu töluverða dýpkun á þessu lægðakerfi, á háloftakortum er staðan talsvert ákveðnari, allsnarpt lægðardrag undan Grænlandi suðaustanverðu á leið austur. Á þessu korti gætir þessa lægðardrags ekki - það er barmafullt af köldu lofti, en hlýtt loft sækir á móti sunnan úr hafi. Örin sýnir hreyfingu þeirrar miðju sem varð að aðallægðinni. Hún dýpkaði næsta sólarhringinn um hátt í 30 hPa, það köllum við óðadýpkun. Þrýstispönn yfir landið fór upp fyrir 25 hPa, eins og í (næst-) verstu veðrum. Nú man ritstjórinn auðvitað ekki glöggt hversu mikilli dýpkun spár gerðu ráð fyrir, en örugglega var hún ekki fjarri sanni. Annar vandi var líka á ferð, til þess að gera hafði farið vel með veður og það var ekki sérlega kuldalegt. Nú fór - eins og stundum. Hin mikla úrkoma - öll mynduð sem snjór - var nægilega mikil til þess að loftið sem hún féll niður í kólnaði fljótt niður að frostmarki eða rétt niður fyrir það - og úr varð mikil hríð.

Slide13

Kortið að ofan sýnir stöðuna síðdegis 2.nóvember. Hiti er vel ofan frostmarks á Vestfjörðum, við Breiðafjörð og suður á Faxaflóa, en úrkoma er í Reykjavík og hiti þar um 1. stig. Slydduhríð eða jafnvel snjókoma er um mestallt Suðurland. Eins og áður sagði olli veðrið miklum fjársköðum, staðbundið. Morgunblaðið segir frá 5.nóvember:

Menn úr þremur björgunarsveitum og bændur í Skaftártungu í Vestur-Skaftafellssýslu leituðu í gær að fé, sem talið er að hafi drepist þegar fennti yfir það á sunnudagskvöld [2.]. Ekki er vitað hvað margar kindur hafa drepist, en í gær höfðu um 120 kindur fundist dauðar og talið er að margar séu enn ófundnar. Kindurnar fennti í kaf í roki og snjókomu, sem gerði á sunnudagskvöld. Bændur fundu dautt fé á mánudag og í gær voru björgunarsveitir kvaddar á vettvang til að hjálpa til við leitina. Sigurður Pétursson, bóndi á Búlandi í Skaftártungu, sagði í gær að leit gengi ágætlega, en hægt vegna þess hvað giljótt væri og seinlegt að athafna sig. „Snjórinn er allur í giljunum því að þetta var svo sterkt veður“ sagði Sigurður. „Það hafa sennilega 14 kindur fundist dauðar af mínum bæ og það er eitthvað á nánast öllum bæjum.“ Hann sagði að verið væri að reyna að smala fyrir myrkur og kvaðst ekkert geta sagt til um það hvað margar myndu ekki skila sér, féð væri það dreift. „Það fé, sem við höfum fundið lifandi, er ekki mjög hrakið,“ sagði hann. „Við fundum eina lifandi í skafli og þrjár dauðar." Kvaðst hann telja að sú, sem fannst lifandi, myndi ná sér. Hann sagði að kindurnar hefðu sennilega hrakist ofan í vatnselg því að allir lækir væru uppblásnir og bólgnir af snjó og krapa. Hann sagði að bændurnir í Skaftártungu hefðu gert sér grein fyrir því hvað málið var alvarlegt þegar á mánudag og þá hefðu þeir þegar verið farnir að finna dautt fé, en þeir hefðu viljað kanna aðstæður áður en gripið yrði til stóraðgerða. Hann taldi hins vegar að það hefði ekki verið hægt að ná fleiri kindum lifandi þótt farið hefði verið fyrr af stað.

Oddsteinn Sæmundsson, bóndi á bænum Múla, kvaðst ekki vita hvað hann hefði orðið fyrir miklu tjóni, en í gær hafði hann grafið milli 50 og 60 kindur úr fónn og þar af væru 14 dauðar. Hann sagði að snjórinn hefði verið mjög blautur og kindurnar hefðu kafnað: „Þær drepast á skömmum tíma þegar snjórinn er þungur og sígur skart.“ Erfitt er að átta sig á því hvað fjárskaðinn er mikill og það kemur í fyrsta lagi fram í dag. „Það vantar mikið í þessari sveit,“ sagði Oddsteinn. „Það eru fleiri hundruð fjár sem eru farin það er alveg vitað. Það er hálfu verra hér innar í sveitinni." Hann sagði að leitin gengi hægt: „Þetta er svo sem enginn snjór en það eru nógu stórir skaflar þar sem þeir eru. Þetta var slíkt hvassviðri að féð hraktist ofan í lautir og læki. Það voru milli 30 og 40 í einum haug í sama skaflinum hjá mér [á mánudag] og það var á þriðja metra niður á sumt af því.“ Oddsteinn sagði að þetta hefði verið á litlum bletti og hefðu kindurnar fundist með því að notaðar voru stangir. „Það sást í eina kind út úr skaflinum,“ sagði hann. ,Af því vissi maður að þarna voru kindur enda hafði fennt áður í þessari laut.“ Oddsteinn kvaðst muna eftir öðru eins rétt eftir 1960, en það hefði verið mánuði síðar: „Þá gerði grenjandi byl með miklu meiri snjó og þá urðu miklir fjárskaðar hér um allt.“

Talið var að nautgripir hefðu einnig drepist í veðrinu, en síðdegis í gær fundust geldneytin á lífi. Að sögn Harðar tóku menn úr björgunarsveitunum Kyndli á Kirkjubæjarklaustri og Víkverja úr Vík í Mýrdal þátt í leitinni auk a.m.k. eins manns úr Álftaveri. Einnig tóku bændur þátt í henni og taldi Davíð að orðið hefði skaði á hverjum einasta bæ í Skaftártungu. Veðrið brast á að kvöldi sunnudags og virtist að sögn Harðar sakleysislegt. Klukkan tíu í gærmorgun var haft samband við hjálparsveitina Kyndil. Sagði hann að smala ætti þar til dimma tæki í gærkvöldi, en ekki væri hægt að leita eftir myrkur.

Ásgeir Sigurðsson, bóndi á Ljótarstöðum, var búinn að finna 31 kind dauða í gær, en hann átti rúmlega 300 kindur. Hann sagðist ekki gera sér grein fyrir hvað hann hefði misst margar kindur í veðrinu, en þær væru mun fleiri en þessar sem þegar hefðu fundist. Líkurnar á því að bjarga fleiri kindum úr fönninni færu minnkandi vegna þess að það hefði rignt á mánudag og frosið í kjölfarið. Skaflarnir væru því afar harðir og lítið loft kæmist niður í fönnina. Skömmu áður en veðrið skall á setti Ásgeir lömbin inn í fjárhús og sagði hann að það hefði bjargað miklu því búast mætti við að þau væru flest dauð ef þau hefðu verið úti. Hann sagði að stór hópur kinda hefði hrakist undan veðrinu ofan í krapatjörn og drepist þar. Flestar kindur sem hefðu náðst lifandi úr sköflunum myndu hafa það af. Ein kind hefði þó drepist eftir að hún kom í hús. Ásgeir sagðist ekki vera allskostar ánægður með frammistöðu Veðurstofunnar. Hún hefði spáð súld eða rigningu og síðan vaxandi suðaustanátt og rigningu um kvöldið. Bændur hefðu því ekki talið ástæðu til að smala.

Daginn eftir voru frekari fréttir. Morgunblaðið 6.nóvember:

Svo virðist sem bærinn Ljótarstaðir hafi farið verst út úr óveðrinu, sem brast á að kvöldi sunnudags með þeim afleiðingum að sennilega drápust að minnsta kosti 224 kindur á átta bæjum í Skaftártungu í Vestur-Skaftafellssýslu. 31 kind hefur fundist dauð á bænum og 43 er saknað, en í gær gerðust þau óvæntu tíðindi að tvær fundust lifandi í djúpum skafli.

[Valur Oddsteinsson í Úthlíð] sagði að áhlaup á auða jörð væri það versta, sem gæti gerst. Hann hafði fundið 10 kindur dauðar í gær, en saknaði sjö. Hann sagði að eftir mikið óveður árið 1961, þegar varð nokkur fjárskaði, þótt ekki hefði verið jafn mikill og nú, hefði hann heitið því að láta slíkt ekki koma fyrir aftur. Síðan hefði hann ávallt haft varann á og oft smalað í fjárhús án þess að þess hefði verið þörf. Á sunnudag hefði verið kraparigning og gránað í rót, en hann hefði metið stöðuna þannig að ekki bæri að aðhafast, enda hefði því verið spáð að frekar myndi hlýna. Um kvöldið hefði hins vegar gert öskubyl. Veðurspá gaf ekki tilefni til aðgerða Ásgeir á Ljótarstöðum gagnrýndi veðurspána. Spáð hefði verið hlýnandi veðri, en síðan gert slíkt bál að fé fennti á túninu við bæinn. Hann sagði að skyggni hefði ekki verið nema nokkrir metrar. Benti því til staðfestingar á heyrúllur rétt fyrir utan eldhúsglugga sinn og sagði að vart hefði mátt greina þær.

Eftir þetta áfall var tíð lengst af góð í nóvember, hlýindi og gróður jafnvel í sprettu. Desember var einnig hlýr og óvenju snjóléttur. Veður voru lengst af góð. 

Slide14

Hlýindin náðu hámarki um miðjan mánuð. Morgunblaðið segir frá 16.desember:

Hlýindi hafa staðið um allt land síðustu daga, sjaldgæf en ekki einstök að sögn Unnar Ólafsdóttur veðurfræðings hjá Veðurstofu Íslands. Hún sagði suðaustlægar áttir ríkja áfram, heldur hægari þó, og að veður færi heldur kólnandi þegar liði á vikuna. Unnur sagði hlýindakafla sem þessa sjaldgæfa en ekki einstaka, þeir kæmu stöku sinnum að vetrarlagi. Opinbert hitamet var þó slegið í Vopnafirði á sunnudag þar sem mældist 18,2 stiga hiti á Skjaldþingsstöðum. Árið 1988 mældist 18 stiga hiti á Seyðisfirði sem er einn mesti hiti í desember. Í Reykjavík mældist mest 10 stiga hiti í gær og víða á Austurlandi hefur verið 12-14 eða jafnvel 16 stiga hiti síðustu daga. Unnur sagði hæð austan við landið og lægð vestan við valda þessum hlýindum og suðlægum vindum sem kæmu lengst sunnan úr höfum. Hún sagði suðaustlægar áttir ríkja næstu daga, úrkoman færi minnkandi og hitinn myndi einnig lækka og jafnvel gæti orðið frost í vikulokin.

Skriður féllu á vegi á nokkrum stöðum á Austfjörðum og Vestfjörðum í hlýindum og vatnagangi um helgina. Þegar frost fór úr fjallshlíðum í skyndilegri þíðunni undanfarna daga losnaði um aur og grjót og sigu skriður niður á vegi. Hvergi mun hafa orðið alvarlegt tjón né heldur verulegar tafir. Á Austurlandi féllu grjótskriður á þjóðveginn í Þvottár- og Hvalnesskriðum, svo og lítils háttar í Kambanesskriðum. Páll Elísson, rekstrarstjóri Vegagerðarinnar á Austurlandi, sagði að umferð hefði lítið truflast þar sem skriðurnar hefðu fallið aðfaranætur sunnudags og mánudags og fljótlegt hefði verið að ryðja grjótinu burt. Ekki sagði hann að teljandi skemmdir hefðu orðið á vegunum. Páll sagði að í blíðunni undanfarið hefðu starfsmenn Vegagerðarinnar unnið dæmigerð vorverk, m.a. farið yfir stikur, lagfært þær og sett upp nýjar þar sem vantaði. Þægilegt væri að vinna slík verk í 14-15 stiga hita.

Akureyri: Fólksbíll skemmdist nokkuð er þak af vinnuskúr í Giljahverfi fauk á bílinn í hvassviðri skömmu eftir hádegi í gær. Einnig fuku tunnur af flutningabíl og skemmdu fólksbíl. Töluvert hvassviðri var á Akureyri í gær og á sunnudag og fór ýmislegt lauslegt af stað, auk þess sem jólatré og skreytingar skemmdust. Lögreglan á Akureyri hafði þó ekki haft spurnir af miklu tjóni né meiðslum á fólki seinni partinn í gær. Jólatré við Akureyrarkirkju fauk í gær. Þá brotnaði toppurinn af hinu stóra jólatré Akureyringa á Ráðhústorgi á sunnudag.

Slide15

Hlýindin ríktu allt fram yfir jól, en nokkuð kólnaði milli jóla og nýárs. Þá fór mjög djúp lægð til norðurs vestur af landinu, en tjón varð lítið í hvassviðrinu sem fylgdi lægðinni. Morgunblaðið segir frá sjávarflóði 31.desember:

Sjór flæddi inn í hús í Vík í Mýrdal á háflóði í gærkvöldi [30.], en sjávarhæð var óvenju mikil. Að sögn Reynis Ragnarssonar lögregluvarðstjóra flæddi inn í kjallara Víkurprjóns og að Víkurskála. Sjór hefði einnig náð inn á syðstu götuna í bænum. Mjög vont veður var fram eftir degi í gær, en það hafði gengið niður á háflóði og því varð ekki verulegt tjón í flóðinu.

Lýkur hér frásögn hungurdiska um veður og tíðarfar á árinu 1997. Ýmsar tölulegar upplýsingar eru í viðhenginu. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Vendipunktar

Við lítum nú á skrýtið línurit ritstjóra hungurdiska - eingöngu til gamans. Einhverjir skilja það sjálfsagt ekki (beðist er velvirðingar á því) - en aðrir skilja það kannski of vel - og fara að draga ályktanir sem svo ekki standast. 

w-blogg170325a

Lárétti ásinn sýnir ártöl, frá 1821 til loka árs 2024. Lóðrétti ásinn er torskiljanlegri en við hann stendur „vikasumma - afrétt“. Hvað skyldi það vera? Grunnurinn er reiknaður mánaðarmeðalhiti í byggðum landsins allt frá því í desember 1821 þar til í desember 2024. Meðalhiti og staðalvik hvers almanaksmánaðar (janúar til desember) er síðan reiknaður fyrir tímabilið 1931 til 2010 (80 ár). Hitavik hvers mánaðar frá þessu meðaltali er nú reiknað og sömuleiðis staðalvik. Staðalvikin eru nú lögð saman frá upphafi til enda, mánuði fyrir mánuð bætt við. Vegna þess að við höfum valið tiltölulega hlýtt tímabil sem grunn (1931 til 2010) skilar 19. öldin lengst af neikvæðum gildum (þá var kalt miðað við síðari tíma). Þegar kom fram á 20.öld fór jákvæðum gildum fjölgandi (en á árabilinu 1931 til 2010 voru þau auðvitað um það bil jafnmörg og þau neikvæðu). Lokasumman varð mjög neikvæð. 

Til að myndin yrði lesanlegri var ákveðið að rétta ferilinn af, hann byrjar og endar í núlli. Tilgangurinn er eingöngu sá að leita að vendipunktum, mánuðum eða árum þar sem hneigðin hefur breyst. Við hefðum getað valið einhver önnur tímabil til viðmiðunar, sömuleiðis hefðum við rétt eins getað notað hitavikin sjálf, en ekki staðalvikin. Séu staðalvikin valin eins og hér er gert vega sumarmánuðir jafnþungt og aðrir mánuðir - jafnvel þótt hitavik séu þá mun minni heldur en að vetri. Á öðrum myndum væru aðrar tölur á lóðrétta ásnum, en útlit ferilsins er nærri því sá sami - vendipunktar nærri því þeir sömu. 

Á köldum tímabilum hrapar ferillinn, en á hlýjum rís hann mjög ört, á skeiðum þegar hiti er svipaður og hann var að meðaltali 1931 til 2010 er hann flatari. Við eigum ekki ágiskanir um hita á landsvísu lengra aftur (og óvissa í tölunum er reyndar mjög mikil fyrir 1875). Ágiskaðar eldri tölur sýna þó kaldara skeið heldur en fyrstu árin sem ná inn á línuritið. 

Við sjáum allgóð merki um hlýskeið 19. aldar á myndinni. Við getum látið sem að því hafi lokið í mars 1858 (sem er auðvitað allt of nákvæm dagsetning, nema í veðurfarskemmtanabransanum - þar sem við slökum á skynseminni). Eftir það hrapar ferillinn í hinu mikla kuldaskeiði sjöunda áratugar 19.aldar. Stjórnlaust hrap heldur áfram allt þar til í mars 1893 - nema hvað smáhik er í kringum 1870 - líklega raunverulegt. 

Frá og með 1893 er hallinn á ferlinum ekki eins mikill og áður - en niðurleiðin heldur samt áfram. Sú skoðun kom fram á sínum tíma að verstu harðindunum hefi lokið með árinu ofurkalda 1892, veðurfar hafi eftir það orðið mildara - en samt ekki eins milt og var á hlýskeiðinu næst á undan, þegar ferillinn varð nánast flatur um skeið. 

Mesti viðsnúningur á línuritinu öllu varð í febrúar 1925. Kuldaskeiðinu langa var lokið. Ferillinn tekur á stökk upp á við. Minniháttar hik varð í kringum 1950, en síðan hélt leiðin upp á við áfram eins og ekkert hefði í skorist, þar til í júní 1964. Þá varð enn vending. Næstu áratugir urðu ströggl. Vendipunkturinn í lokin er ekki alveg hreinn. Viðsnúningur varð eftir janúar 1984, en strögglið hélt áfram, kannski allt fram til júní 1997. Eftir það hefur leiðin legið upp á við. 

Þessi síðasta brekka hefur verið samfelld hlýnun, ekkert hik að sjá - enn sem komið er að minnsta kosti - aldrei nema rétt einn og einn stakan mánuð eða tvo. Hér sést vonandi vel að tal um að hægt hafi á hlýnun síðustu 10-12 árin er einfaldlega ekki rétt - slíkt myndi hafa komið skýrt fram sem hik á ferlinum, þá svipað og við sjáum greinilega í kringum 1950 - það hefði ekki leynt sér. 

Hvort slíkt hik er svo yfirvofandi vitum við auðvitað ekki - framtíðin er frjáls sem fyrr - en það hefur ekki látið sjá sig. 

Hugsanlegt er að við lítum á fleiri línurit af þessu tagi síðar - hafi ritstjórinn þrek til þess. 


Heldur óvenjulegt

Þegar litið er á 500 hPa norðurhvelsþykktarkort dagsins í dag, 16.mars 2025 er þar engan fjólubláan lit að finna. 

w-blogg160325a

Þetta er heldur óvenjulegt fyrir jafndægur að vori. Varla þó einstakt, en hefur ekki sést síðan farið var að framleiða kort reglulega með þessum litakvarða á Veðurstofunni fyrir 13 árum. Mörkin milli fjólubláu og bláu litanna var sett við 4920 metra þykkt, en hver litur þekur 60 metra. Oft eru tveir, þrír eða jafnvel fjórir fjólubláir litir á kortum á þessum tíma vetrar. 

Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, fjarlægðin milli 1000 og 500 hPa-flatanna er notuð sem hitamælir, loftið þenst út við vaxandi hita og er ekki fjarri að 20 metra bil jafngildi einu stigi. Allgott samband er á milli þessa hita sem þykktin er vísir um og hita í mannheimum. Þó ber við að talsvert kaldara getur verið í neðstu lögum heldur en þykktin segir til um - þá liggja hitahvörf yfir, hlýrra loft er ofan á köldu. Samband hita í mannheimum og þykktar er best hér á landi yfir háveturinn. Þá er mestur munur á hita lofts og sjávar og sjávarylurinn leitast við að eyða hitahvörfum, nema í þeim tilvikum sem loftið berst mjög langt sunnan að, eða hefur lent í áköfu niðurstreymi austan Grænlands. Þegar á heildina er litið eru slík tilvik þó ekki mörg og spilla langtímasambandi hita og þykktar ekki svo mjög. 

Sambandið er verra inni í sveitum heldur en við sjávarsíðuna. Til að blanda hitahvörfum þar er vindur að jafnaði nauðsynlegur. Hið almenna samband er því verra í hægum vindi heldur en miklum.

Hér við land er sjávarhiti hærri en lofthiti meginhluta ársins. Við Suður- og Vesturland er sjór að meðaltali kaldari en loft aðeins fáeinar vikur yfir hásumarið - einmitt þá getur svalur vindur af hafi kælt neðstu lög loftsins yfir landinu og lækkað hita umtalsvert frá því sem þykktin segir að hann ætti að vera, sérlega algengt í júní, júlí og framan af ágúst. Við Austurland er tíminn þegar sjór er kaldari en loftið heldur lengri en annars staðar - austfjarðaþokan er þekktari heldur en aðrar þokur - þótt hennar gæti ekki svo mjög inni á fjörðum eins og nafnið gæti gefið tilefni til að ætla. 

Á kortinu að ofan eru jafnhæðarlínur heildregnar að vanda. Af þeim má ráða vindstyrk og stefnu. Sunnanátt er nú ríkjandi yfir landinu. Hlý hæð er fyrir sunnan og suðaustan land og beinir hingað lofti langt sunnan úr höfum. Þykktin er meiri en 5400 metrar. Meðalþykkt í mars er um 5240 metrar, við sjáum af því að hiti í neðri hluta veðrahvolfs er um 8 stigum yfir meðallagi við landið - ekki mjög fjarri hitavikum á veðurstöðvum. Hitavik sólarhringsins nær þó varla svo háum tölum yfirleitt - ýmsir þættir svo sem bráðnun snævar og uppgufun lækkar hita - auk þess sem einhver varmi fer í að hækka yfirborðshita jarðar - bræða jarðklakann sem er ábyggilega nokkur eftir kalda mánuði fyrr í vetur.

Þessi staða á ekki að breytast mikið næstu daga, einhverjir svalari dagar þó innan um. Svo fylgjumst við með því hvort norðurslóðakuldapollarnir taka sig eitthvað saman í andlitinu og verða fjólubláir að nýju. Þeir gætu það vel því ef ekki kemur loft að sunnan til að hræra upp í þeim er sól enn það lágt á lofti að töluvert svigrúm er til frekari kólnunar gefist friður til þess. Taki kuldapollar sig upp eru þeir til alls vísir - þótt líkur á að einstök svæði á okkar breiddarstigi verði fyrir þeim séu greinilega minni nú heldur en stundum áður. Það eru heldur færri kaldir miðar í vorlotteríinu heldur en venjulega kringum jafndægrin.  


Fyrri hluti marsmánaðar 2025

Fyrri hluti marsmánaðar hefur verið mildur. Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 15 dagana er +2,0 stig, +1,5 stigum ofan meðallags 1991-2020 og +1,2 stig ofan meðallag síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 9. hlýjasta sæti aldarinnar (af 25). Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2004, meðalhiti þá +6,0 stig, en kaldastir voru þeir 2023, meðalhiti -3,2 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 38. hlýjasta sæti (af 153), Hlýjast var 1964, meðalhiti sömu daga þá +6,6 stig. Kaldastir voru þeir 1891, meðalhiti -7,7 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú +1,2 stig, +1,8 stigum ofan meðallags 1991-2020 og +1,9 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Hlýindum er nokkuð misskipt (að tiltölu). Hlýjast hefur verið við Breiðafjörð, á Vestfjörðum og Ströndum og Norðurlandi vestra, þar er fyrri hluti mars nú sá þriðjihlýjasti á öldinni, en á Suðurlandi er hann aftur á móti í 13. hlýjasta sæti.
 
Á einstökum veðurstöðvum hefur verið hlýjast að tiltölu við Upptyppinga, hiti þar +3,3 stig ofan meðallags, en kaldast hefur verið í Árnesi þar sem hiti hefur verið -1,0 stig neðan meðallags síðustu tíu ára.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 52 mm og er það um 20 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 47 mm og er það um 80 prósent umfram meðallag. Á Dalatanga hafa mælst aðeins 10 mm og er það um 6. hluti meðalúrkomu sömu daga.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 52,6 í Reykjavík og er það í meðallagi. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 58,2 og er það 29 stundum umfram meðallag.

Hlaupið yfir árið 1986

Tíð á árinu 1986 var lengst af talin hagstæð. Í janúar var nokkuð hrakviðrasamt á Suðausturlandi og snjóþungt norðaustanlands, en annars var tíð góð. Góð tíð var í febrúar, en nokkuð umhleypingasamt í mars. Allgóð tíð var í apríl, en maí var víðast hvar talinn óhagstæður. Í júní var votviðrasamt á Suður- og Vesturlandi, en hagstæð tíð norðaustanlands, einkum þegar á leið. Í júlí, ágúst og september var hagstæð tíð. Október var nokkuð rysjóttur nema að tíð var talin góð á Norðaustur- og Austurlandi. Nokkuð rysjótt tíð var síðustu tvo mánuði ársins. 

Í textanum hér að neðan er leitast við að rifja upp helstu veðurviðburði ársins. Mun ítarlegri lýsingu á vindáttum, gangi veðurkerfa og þess háttar er auðvitað að finna í Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands sem aðgengilegt er á timarit.is. Hér er mjög byggt á fréttum dagblaðanna, Morgunblaðið var drýgst á þessu ári og er aðstandendum þess og annarra blaða þakkað að vanda. Í fáeinum tilvikum hafa augljósar prentvillur verið leiðréttar og stafsetningu í stöku tilviki hnikað til - vonandi að meinalausu. 

Fyrri hluta janúar gengu lægðir aðallega fyrir sunnan land (ekki þó alveg). Veður hélst skaplegt fyrstu tíu dagana, dagana þar á eftir fóru tvær sérlega djúpar lægðir til austurs fyrir sunnan landið og norðaustur um Færeyjar. Talsvert hvessti meðan lægðirnar gengu hjá og vandræðaveður gerði um landið suðaustanvert. 

Slide1

Kortið sýnir síðari lægðina, 945 hPa í miðju, ekki langt fyrir sunnan land. Morgunblaðið  segir frá 14.janúar:

Miklar rafmagnstruflanir hafa orðið á Austurlandi í vondu veðri sem gekk yfir aðfaranótt laugardags [11. janúar, fyrri lægðin] og aftur í gær, mánudag [sjá kortið]. Að sögn Erlings Garðars Jónassonar rafveitustjóra á Egilsstöðum slitnaði raflínan á 500 metra kafla í 600 metra háu klettabelti sem heitir „Skessa" og er á línunni milli Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar. Ekki þykir ráðlegt að reyna viðgerð fyrr en veður hefur gengið meira niður og þarf ugglaust að leita aðstoðar þyrlu við viðgerðina. Þá varð bilun á raflínunni frá Djúpavogi í gær og urðu staðir norðan við Stöðvarfjörð og Fáskrúðsfjörð rafmagnslausir en vonir stóðu til að hægt yrði að lagfæra þessa bilun í gærkveldi. Bilun varð á raflínum í N-Þingeyjarsýslu milli Kópaskers og Þórshafnar og varð nyrsti hluti sýslunnar, Bakkafjörður og sveitin í kring, rafmagnslaus af þeim sökum og var gripið til díselstöðvar fyrir þéttbýlið. Hjá Veðurstofunni fengust þær upplýsingar að búast mætti við minnkandi norðaustanátt um allt land og kólnandi veðri með um 5 til 7 vindstigum en í óðveðrinu sem gekk yfir landið í gær mældust 8 til 12 vindstig í Æðey, á Stórhöfða, undir Eyjafjöllum og á Fagurhólsmýri.

Austri segir frá sama veðri í pistli 16.janúar:

Aftakaveður gekk yfir Austurland á mánudag [13.] og aðfaranótt þriðjudags [14.] og olli bæði tjóni og erfiðleikum. Flugstöð þeirra Fáskrúðsfirðinga fauk, til að mynda. Húsið er svolítill vegavinnuskúr, og í því tæki sem viðkoma flugi og munu þau hafa skemmst eitthvað. Rafmagnsleysi hefur víða valdið vandræðum. Á laugardag slitnaði línan milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, en á hádegi á mánudag fór línan milli Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar vegna ísingar og um kvöldið fór línan milli Stöðvarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar sömu leið. Staðirnir voru því einangraðir og notuðust við díselstöðvar með mikilli skömmtun. Eftir hádegi á þriðjudag mun rafmagn hafa verið komið á aftur. Ísing olli víðar rafmagnsleysi svo sem í Fljótsdal og á Bakkafirði. VS

Í því fárviðri sem gekk yfir Austurland á mánudag [13.] varð það óhapp á Höfn að togarinn Þórhallur Dan skemmdist mikið þegar verið var að færa hann til við höfnina. Um tíma virtist veðrið lægja svo farið var að flytja togarann frá viðlegukantinum að ískajanum. Þegar ein taugin losnaði átti að snúa aftur til baka, þá rauk veðrið upp og stóð á síðu togarans sem lagðist undan og sjór tók að fossa inn í hann. Þegar vélarnar voru settar áfram, stóð gírinn eitthvað á sér og hélt skipið fulla ferð afturábak, tætti af sér allar taugar sem lágu í land og bakkaði fullaferð yfir álinn. SA/VS

Næstu vikuna á eftir hélst úrkoma um landið suðaustanvert og ísing á raflínum og mikil snjókoma ollu áframhaldandi vandræðum. Morgunblaðið segir frá 23.janúar:

Slæmt veður hefur verið á austanverðu landinu undanfarna daga. Flestir vegir á austan- og norðanverðu landinu eru ófærir og víða rafmagnstruflanir. Veðrið gekk að mestu niður í gær, en éljagangi er spáð á þessu svæði í dag. Daglegt líf fólks fór nokkuð úr skorðum í sumum bæjum á þessu svæði vegna rafmagns- og vatnsleysis og samgönguörðugleika. Á þriðja tug rafmagnsstaura brotnuðu í fyrradag [21.] og staurasamstæða í Suðurlínu brotnaði við Almannaskarð austan við Höfn, að sögn Erlings Garðars Jónassonar rafveitustjóra Austurlands. Rafmagn komst á Höfn eftir miðnættið með díselvélum en sveitirnar eru að mestu rafmagnslausar. Í gærkvöldi [22.] var enn rafmagnslaust í stórum hluta Hornafjarðar, Lóni, Nesjum, Suðursveit og Öræfum. Einnig varð rafmagnslaust um tíma á Djúpavogi og rafmagn skammtað eftir að díselvélamar voru settar í gang. Erling sagði að staurarnir hefðu brotnað vegna mikillar ísingar sem hlóðst á línumar.

Haukur Þ. Sveinbjörnsson fréttaritari Morgunblaðsins á Höfn sagði að þar hefði gert brjálað veður á þriðjudagsmorgun [21.] og daglegt líf fólks farið úr skorðum. Rafmagn og vatn fór á bænum en komst aftur á um miðnættið, síminn datt að mestu út og skólahald féll niður. Þá urðu götur bæjarins ófærar. Albert Kemp fréttaritari á Fáskrúðsfirði sagði að snjórinn þar væri með því mesta sem komið hefði undanfarin ár. Hann sagði að veðrið hefði verið verst á þriðjudag en slotað í gær. Götur bæjarins væru ófærar nema hvað aðalleiðum væri haldið opnum til að fólk kæmist til og frá vinnu. Rafmagnið fór aðeins af Fáskrúðsfirði á þriðjudag [21.] og sagði Albert að mikið hefði verið um rafmagnstruflanir þar undanfarnar vikur. Ólafur Guðmundsson fréttaritari á Egilsstöðum sagði að þar hefði gengið í hvassa austanátt í fyrrinótt með nokkurri ofankomu og þegar menn hefðu verið að tygja sig til vinnu hefði gengið á með dimmum éljum og götur orðið ófærar. Flestir nemendur hefðu þó komist í skólann. Nokkrar rafmagnstruflanir hefðu orðið en veðrinu farið að slota um hádegið. Hann sagði að fjallvegir í grennd væru ófærir og ekki hefði verið flogið til Egilsstaða, frekar en annarra staða á Austurlandi, undanfarna daga.

Slide2

Kröpp lægð fór hratt til norðurs undan Vesturlandi að kvöldi 25.janúar og varð þá mikið tjón austur á Stöðvarfirði. Morgunblaðið segir frá því 4.febrúar:

Aðfaranótt sunnudagsins 26.janúar varð þó nokkurt tjón í suðaustan roki á Stöðvarfirði. Félagar úr Björgunarsveitinni Björgólfi voru fyrst kallaðir út skömmu eftir miðnætti, en þá höfðu m.a. fokið járnplötur af húsum, rúður brotnað og ýmislegt fleira gengið úr lagi. Um kl.2 hafði verið lokið við lagfæringar á helstu skemmdunum og var þá mikið farið að lægja. Bjuggust flestir við því að eiga náðugar stundir það sem eftir lifði nætur. En það var bara lognið á undan storminum því um.kl.5 sömu nótt hvessti hann aftur. Var áttin þá austlægari og sýnu hvassara en í fyrra áhlaupinu. Fyrst fauk stór hluti útihúsa og í sömu rokunni þeyttist lítill árabátur 2—300 m og gjöreyðilagðist. Höfðu þó festingar hans verið treystar fyrr um nóttina. Brak úr útihúsunum mun hafa skemmt 2 íbúðarhús og bíl, en rúður brotnuðu í nokkrum farartækjum. Mesta tjónið varð þó við höfnina, en þar skemmdust 2 bátar, sem stóðu uppi á landi. Tókst þó að afstýra frekara tjóni með dyggri framgöngu smábátaeigenda og björgunarsveitarmanna, sem voru á þönum þar til veðrið fór að lægja. Ekki urðu teljandi skemmdir á smábátum þeim, er voru á floti í höfninni. Félagar úr björgunarsveitinni unnu allan sunnudaginn meðan að birtu naut við að tína saman járnplötur og hreinsa til eftir óveðrið. Steinar

Tíð var lengst af hæglát í febrúar og meðalloftþrýstingur í hærri kantinum. Undir miðjan mánuð gerði ákafa sunnanátt um stund með óvenjumikilli úrkomu um landið vestanvert. 

Ingibjörg Andrésdóttir í Síðumúla segir um febrúar og mars:

Tíðarfar febrúar var með fádæmum gott. Minnti frekar á vor og haust en þorra og góu. 4 daga var snjór á jörð, en að öðru leyti var autt og hagar góðir.

Seinnipart mánaðarins [mars] var snjóþungt og oft skafrenningur. Nokkur ófærð varð í innsveitum og varð að ryðja nokkrum sinnum fyrir mjólkurbíla. Nú um mánaðamót er jörð alhvít með djúpum sköflum. Haglaust er með öllu.

Athugunum lauk í Síðumúla um miðjan apríl eftir rúmlega 50 ára samfellda sögu.

Slide3

Hér má sjá veðurkortið þegar úrkoman stóð sem hæst. Úrkomumælingar voru í fáein ár gerð í Borgarnesi og sólarhringsúrkoman mældist aldrei meiri heldur en að morgni þess 13. 

Slide4

Hér má sjá Íslandskort sem gildir á sama tíma og yfirlitskortið að ofan. Á Hvanneyri mældust 82,3 mm að morgni þess 13. og er það það mesta þar á síðari skeiði úrkomumælinga þar (1963-1997), en á fyrra skeiði (1923-1943) mældist tvisvar meiri sólarhringsúrkoma (mest 30.nóvember 1941 - 101,1 mm). Í Reykjavík mældist þriðja mesta úrkoma í febrúar og fjórða mesta í Straumsvik - allt árið. Nokkur flóð urðu:  

Dagblaðið segir frá 13.febrúar:

Elliðaárnar flæddu yfir bakka sína í nótt og rufu skarð í veginn rétt við Elliðavatnsstífluna. Lögreglan í Reykjavík og Kópavogi fór þegar á vettvang svo og starfsmenn Reykjavíkurborgar því talið var að hesthús í Víðidal gætu verið í hættu. Er þar um að ræða hesthús í svonefndum Kardemommubæ sem standa neðst í hesthúsabyggðinni í Víðidal. Eigendur húsanna voru látnir vita um hættuna en er leið á nóttina varð ljóst að óþarfi yrði að flytja hrossin á braut. Þau standa því enn í húsunum sem eru umleikin vatni. Veginum við Elliðavatnsstífluna var lokað í nótt og þegar leið á morguninn voru uppi ráðagerðir um að loka einnig gömlu Elliðaárbrúnum þar eð vatnsflaumurinn var orðin ískyggilegur. Þá eru sumarbústaðir í Víðidal og upp með Hólmsá umflotnir vatni. Flóð sem þessi eru árlegur viðburður við Elliðaárnar og hætt að koma hestum jafnt sem hestamönnum á óvart. Að sögn lögreglunnar hafa þau þó oft verið meiri en nú. -EIR

Morgunblaðið segir frá því sama 14.febrúar:

Vatnsmagnið í Elliðaánum í flóðinu í fyrrinótt og gærmorgun var á tímabili svipað og meðalrennsli Sogsins, eða um 100 rúmmetrar á sekúndu. Meðalrennsli Elliðaánna er um 4 rúmmetrar á sekúndu, en í stórflóðunum 1968 og 1982 fór rennslið vel yfir 200 rúmmetra á sekúndu, að sögn Hauks Pálmasonar, aðstoðarrafmagnsstjóra Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Það er árviss viðburður í febrúar eða mars að Elliðaárnar flæði yfir bakka sína, en oftast er vatnsmangið ekki meira en 40-50 rúmmetrar á sekúndu. Vatnselgurinn gróf sundur vegi á tveimur stöðum og olli minniháttar skemmdum á öðrum í flóðinu í gær. Fyrir neðan hesthús Fáks í Víðidal gróf vatnið sér leið um 80 metra breiðan malarvegskafla við brúna á mótum Ofanbyggðavegar og Elliðavatnsvegar, og ennfremur á kafla fyrir ofan Hólmsá, í sumarbústaðahverfi. Skeiðvöllur Fáks fór allur undir vatn, og er talið að skemmdir á honum séu nokkrar. Sumarbústaðir í Víðidal og upp með Hólmsá voru umflotnir vatni, og komst vatn sums staðar að þeim.

Nokkrum dögum síðar féll skriða undir Eyjafjöllum. Morgunblaðið 21.febrúar:

Holti undir Eyjafjöllum, 20. febrúar. Grjótskriða féll úr fjalli hjá bænum Núpi [18.febrúar]. Stórir steinar og björg eru nú í kringum bæina að Núpi. Guðmundur Guðmundsson bóndi að Núpi sagði aðspurður að algengt væri að steinar brotnuðu úr berginu, en nú virtist sér þetta væri í stærra mæli. Sprungur hefðu myndast í bergið og von gæti verið á miklu hruni. Um daginn hefi hann verið að mjólka þegar drunur miklar heyrðust og jörðin nötraði og fjósið eins og skalf. Þegar út kom blasti við stærðar grjót um það bil einum metra frá fjósinu. Það væri með ólíkindum að aldrei hefði orðið tjón af þessu grjóthruni. Hjá nágranna hans, Guðjóni Jónssyni, hefði stærðar bjarg stöðvast við rakstrarvélina, — jú, reyndar, hann myndi eftir því að hestur hefðu orðið fyrir steini og drepist. Guðjón Jónsson, bóndi að Núpi, sagðist trúa á vernd bæjarins. Sér hefði þó brugðið í vetur þegar sonur hans varð næstum fyrir steini sem kom fljúgandi rétt við skemmuvegginn. Aðspurður sagðist Guðjón nýlega hafa tætt upp garðinn hjá sér og ætla að setja niður nokkrar kartöflur. Þetta yrði enginn vetur héðan af og rétt væri að fara að huga að spíringu kartaflna. Fréttaritari.

Tæpum mánuði síðar féll svo skriða við Steina undir Eyjafjöllum. Morgunblaðið segir frá því 11.mars:

Skriða féll niður Steinafjall hjá Steinahelli kl.9:00 í morgun [10.mars]. Að því er best verður séð er hér um að ræða hrun vegna rigningarinnar úr skriðunni sem féll 1979 og aftur 1984. Lækur sem kemur niður hlíðina á þessum stað í vatnavöxtum hefur komið skriðunni af stað og komist á þann hátt í sinn gamla farveg. Mjólkurbílar komu vestan að til Steina kl. 9:10 í morgun en nokkrum mínútum síðar fór bíll austan að og kom þá að skriðunni sem var um 2 metrar á hæð á veginum á um 50 metra löngum kafla. Stór björg hafa hrunið niður hlíðina á milli staura í rafmagnslínunni, sem liggur þarna um og stendur heil. Fljótlega eftir hádegi var vegurinn opnaður af vegagerðinni en lækurinn og rigningin orsakar að leiðin er alls ekki örugg. Skriðan gæti haldið áfram að falla niður hlíðina. Fréttaritari.

Mikil úrkoma var á sunnanverðu landinu í fyrrinótt og fram eftir degi í gær. Mest mældist hún á Kirkjubæjarklaustri eða 41 mm, sem telst mjög mikið, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Ný lægð með svipaðri úrkomu nálgast landið sunnan úr hafi og verður hennar farið að gæta á sunnanverðu landinu síðdegis og aðra nótt. Skil sem fóru fremur hægt austur með suðurströndinni ollu þessari miklu úrkomu sem var að meðaltali 20 til 30 mm um sunnanvert landið. Sem dæmi má nefna að rigningin mældist 24,2 mm í Reykjavík sem telst mikið. Um það leyti sem aurskriðan féll milli Varmahlíðar og Steina undir Eyjafjöllum um níuleytið í gærmorgun gekk þar yfir suðaustan hvassviðri með stórrigningu sem olli leysingum í sjö stiga hita. Þjóðvegurinn var opnaður fyrir allri umferð á ný skömmu eftir hádegi. Suðurlandsvegur fór aftur sundur seinna um daginn fyrir austan Mýrdalssand, skammt sunnan við Laufskálavörðu, vegna vatnavaxta. Samkvæmt upplýsingum frá vegagerðinni verður gert við veginn í dag. Að öðru leyti var góð færð um allt land.

Slide5

Fram að þessu hafði veturinn verið mjög snjóléttur í Reykjavík og nágrenni. Þann 18. brá út af þegar lægð fór til norðvesturs yfir landið. Ritstjóri hungurdiska minnist óformlegs mælingaleiðangurs sem mældi snjódýptina á allmörgum stöðum, niðri í miðbæ, á Klambratúni og í Öskjuhlíð. Hún reyndist alls staðar nær hin sama. Morgunblaðið segir frá 19.mars:

Geysimiklum snjó kyngdi niður á Suður- og Suðvesturlandi í fyrrinótt og olli töluverðum samgönguerfiðleikum í gærmorgun. Kennsla féll niður í grunnskólum vegna ófærðar. Snjódýptin mældist 30 sentímetrar. Einungis tvívegis í 65 ár hefur mælst dýpri snjór i marsmánuði í Reykjavík. Árið 1921 var snjódýptin 36 sentímetrar og 35 árið 1949. Mesta snjódýpt sem mælst hefur var frá 1921 var 51 sentímetri í janúarmánuði 1937. Snjókomunni olli djúp lægð sem fór norðvestur yfir landið. Sunnan og vestan við hana var fremur köld vestanátt með sjókomu og éljagangi. Fyrir austan var hins vegar suðaustanátt, hlýindi og rigning. Um tíma mældist 8 stiga hiti á Austfjörðum. Veðrið gekk niður sunnan- og vestanlands í gærmorgun og um hádegið var blíðskaparveður í höfuðstaðnum, sól, logn og hiti. Snjóþyngslin á götum Reykjavíkur og nágrennis ollu töluverðum samgönguerfiðleikum, einkum snemma í gærmorgun.

Færð var víða slæm á vegum úti suðvestanlands í gærmorgun, en um tíuleytið opnuðust Þrengslin og var fært milli Selfoss og Reykjavíkur á vel útbúnum bílum. Snjókoman náði nokkuð austur fyrir Hvolfsvöll, og þangað var ófært nema mjög vel búnum bílum, en frá Vík og austur á firði var góð færð. Færð var víða slæm á vegum úti suðvestanlands í gærmorgun, en um tíuleytið opnuðust Þrengslin og var fært milli Selfoss og Reykjavíkur á vel útbúnum bílum. Snjókoman náði nokkuð austur fyrir Hvolsvöll, og þangað var ófært nema mjög vel búnum bílum, en frá Vík og austur á firði var góð færð. Hins vegar var ekki fært í Hvalfjörð um hádegisbilið og kolófært á Snæfellsnesi, enda vonskuveður þar og mikill skafrenningur.

Vorinu miðaði vel í apríl og jörð orðin græn syðst á landinu og gróður farinn að lifna nyrðra. Morgunblaðið segir frá 6.maí:

Nýliðinn vetur er sá snjóléttasti í Reykjavík frá 1978 þrátt fyrir að mars hafi verið einhver sá snjóþyngsti um 20 ára skeið samkvæmt upplýsingum frá veðurstofunni. Veðurfar vetrarins var annars hagstætt um allt land.

Maí var heldur svalur og þyrrkingslegur og norðaustanátt ríkjandi. Ekki voru þó vandræði af veðri - nema það óhapp sem sagt er frá í frétt DV 22.maí:

Flugvél í eigu Mýflugs fauk á hvolf á Reykjahlíðarflugvelli í fyrradag. Vélin, sem er af gerðinni Cessna 172 M, fjögurra sæta, er talin ónýt. Það var ekki mjög slæmt veður þegar óhappið varð. Þetta er mikið tjón fyrir Mýflug þar sem nota átti flugvélina í útsýnisflug í sumar. Þá var flugvélin notuð í kennsluflug. Ómar Ragnarsson átti flugvélina áður. -sos

Í júní 1986 var rigningasamt á Suður- og Vesturlandi en hlýtt og gott norðaustanlands. Flestir voru vissir um að nú væri enn eitt rigningasumarið í undirbúningi - en það varð ekki þrátt fyrir blauta byrjun. Hrökk nú veðurlag í þann gír að bjóða upp á hálf rigningasumur í stað heilla sem hafði verið tíska frá 1969 að telja. Flestum þótti það framför. 

Slide6

Níundi júní var sérlega kaldur dagur, kl.18 var hámarkshiti frá kl.9 í Reykjavík 4,1 stig. Það er það lægsta sem vitað er um í júnímánuði í Reykjavík. Köld lægð gekk til vesturs og síðan suðvesturs yfir landið norðanvert (kortið að ofan). Næsta nótt var óvenjuleg. DV segir frá 10.júní:

Snjókoma var í Reykjavík klukkan þrjú í nótt og hiti þá við frostmark, samkvæmt upplýsingum Veðurstofu. Jörð var hvít á höfuðborgarsvæðinu fram til klukkan sex í morgun. Á öllu landinu nema Suður- og Suðausturlandi hefur orðið vart snjókomu síðasta sólarhring. Á norðanverðu landinu var slydda um miðjan dag í gær.

Slide7

Mjög óvenjulegt er að hvít jörð sjáist á Veðurstofutúninu í júní. Ekki entist snjóhulan þó til kl.9 að þessu sinni þannig að dagurinn telst ekki alhvítur. 

Júlímánuður var talinn hagstæður um nær allt land. Það bar helst til tíðinda að hafís var viðloðandi utanvert Húnaflóasvæðið og náði landi við Drangaskörð þ.7. Andaði köldu af hafísnum. Gott dæmi um það er veðurlag kl.15 þann 24.júlí og sjá má á kortinu hér að neðan.

Hiti kl.15 var 1,6 stig á Hrauni á Skaga. Þetta er lægsti hiti sem mælst hefur við sjávarsíðuna á þessum tíma dags í júlí, allt frá 1949 að minnsta kosti. Hiti var þá 2,6 stig á Bergstöðum, en 4,4 á Hveravöllum. 

Slide8

Hiti kl.15 var 1,6 stig á Hrauni á Skaga. Þetta er lægsti hiti sem mælst hefur við sjávarsíðuna á þessum tíma dags í júlí, allt frá 1949 að minnsta kosti. Hiti var þá 2,6 stig á Bergstöðum, en 4,4 á Hveravöllum. 

Slide9

Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur) og sjávarhitavik í júlí 1986. Mjög kalt er undan Norðurlandi. Ritstjóri hungurdiska tekur þó hóflegt mark á sjávarhitavikakortum sem þessu. 

Hagstæð tíð var í ágúst - hæglát og fremur sólrík. Vatnavextir urðu í Öræfasveit fyrir miðjan mánuð. Morgunblaðið segir frá 13.ágúst:

Austurlandsvegur í Öræfasveit opnaðist á ný um klukkan átta í gærmorgun. Hann hafði þá verið ófær á kafla vegna vatnavaxta í réttan sólarhring.

Bæði september og október voru tíðindalitlir. Tíð var hagstæð í september, en talin rysjótt sunnanlands í október. Lítið bar til tíðinda, nema þetta: Morgunblaðið segir frá 4.september [hvasst var af suðvestri]:

Flugvél fauk um koll á Sauðárkróki aðfaranótt gærdagsins [3.]. Flugvélin, TF-HRO, sem er sex sæta, var fyrir framan flugskýlið á Sauðárkróksflugvelli og þegar siðast sást til hennar á þriðjudagskvöld var hún með öll hjól á jörðu. Í gærmorgun brá mönnum nokkuð í brún, því þá var vélin með hjólin upp í loft. Er það álit manna að vindurinn hafi breytt stöðu vélarinnar svo mjög. Ekki er enn búið að meta skemmdir á vélinni.

Nóvember fékk ekki slæma dóma þó ekki væri skaðalaus. Enn fauk á flugvelli, sömuleiðis í hvassri suðvestanátt - óvenjulegt á Selfossi. DV segir frá 6.nóvember:

Þak fauk af flugskýli á Selfossi í gærmorgun [5.] í kröppum hvirfilvindi sem fór yfir völlinn, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Selfossi. Að sögn lögreglunnar sviptist mestur hluti þaksins af í einu vetfangi. Í skýlinu voru þrjár flugvélar en þær skemmdust ekki. Enginn maður var í flugskýlinu þegar þessi atburður varð en nærstaddur maður varð sjónarvottur að þessu óhappi. -ój

Leiðindaveður var helgina 8. til 9. nóvember. Að ýmsu leyti óvenjulegt veður og olli mannskaða (þótt hann flokkist undir tilviljun). Morgunblaðið segir frá þann 8.nóvember:

Flateyri. Rafmagnslaust varð í sveitinni á Ingjaldssandi og í Önundarfirði í gær eftir að rafmagnslínur á Tannanesi og Selabólsurð slitnuðu í óveðri. Einnig varð rafmagnslaust á Flateyri og Suðureyri en þar voru varaaflstöðvar gangsettar. Ekki er búist við að viðgerð ljúki fyrr en seinni part dagsins í dag. Óveðrið skall á í Önundarfirði og eins og áður sagði hádeginu í gær, og mikil ísing lagðist þá á rafmagnslínumar sem slitnuðu að lokum undan þunganum. Ekki hafði tekist í gærkvöldi að kanna a fullu tjón á rafmagnsleiðslunum -EFG.

Slide10

Djúp lægð kom upp að suðvesturlandi þann 6. og 7. Skil hennar fóru norður fyrir land, en sneru aftur þegar lægðin fór til austurs fyrir sunnan land. Snarpur norðanstrengur skall á landinu og náði hámarki síðdegis þann 8. (kortið að ofan). 

Slide12

Myndin sýnir þrýstisírita Reykjavíkur þessa daga. Skil lægðarinnar fara yfir að kvöldi 6., en loftvog heldur áfram að falla. Lægðin er síðan við Suðvesturland mestallan þann 7. en síðan stígur loftvog ákveðið. Þrýstiferillinn er mjög órólegur síðdegis þann 8. og þann 9., stórar bylgjur sem tengdar eru fjallabylgjum (flotbylgjum) sem ganga yfir höfuðborgarsvæðið. 

Slide11

Íslandskortið gildir kl.15 þann 8.nóvember. Takið eftir því að vindur er mjög hvass norðvestan við línu sem liggur frá vestanverðu Suðurlandi norðaustur um til Melrakkasléttu. Loftvog stígur ákveðið í Reykjavík, en fellur talsvert norðaustanlands, mynstur sem hert hefur mjög á vindinum. Slæmt eftirbragð er af þessu veðri í minni ritstjórans. 

Morgunblaðið segir frá banaslysi í pistli 9.nóvember (tveir létust):

Tveir menn festust undir rútu, sem fauk út af veginum á Hellisheiði í gær og var annar maðurinn látinn, þegar Morgunblaðið hafði fréttir síðast síðdegis. Í rútunni voru auk ökumanns, sex farþegar, fimm fullorðnir og eitt barn. Fjórir farþegar og ökumaður voru fluttir til Selfoss. Ökumaðurinn var enn í myndatöku í sjúkrahúsinu á fimmta tímanum í gær, en samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Selfossi munu hann og farþegarnir fjórir hafa sloppið án meiriháttar meiðsla. Mikil veðurhæð og hálka voru á Hellisheiði í gær. Á seinni tímanum í klukkan þrjú var Selfosslögreglunni tilkynnt um það, að áætlunarbifreið frá Landleiðum hefði fokið út af Hellisheiðarveginum, í efri Hveradalabrekkum. Bifreiðin var á leið frá Reykjavík austur í Hrunamannahrepp og virðist að sögn lögreglunnar á Selfossi sem rútan hafi feykst til, þegar hún kom efst í Hveradalabrekkumar, snúist til og fokið út af veginum og á hliðina og síðan oltið yfir á hina hliðina.

Vestfirska fréttablaðið segir frá 13.nóvember:

Það hefur víst ekki farið framhjá neinum íbúa Vestfjarða að hið versta veður gekk yfir fjórðunginn um síðustu helgi. Samgöngur lágu niðri og víða urðu truflanir á rafmagni. Samkvæmt upplýsingum Orkubús Vestfjarða urðu hvergi neinar stórfelldar skemmdir en staurar brotnuðu og línur slitnuðu á nokkrum stöðum. Rafmagnslaust var á Ingjaldssandi í rúmlega einn og hálfan sólarhring. Lína slitnaði í Súgandafirði og fór straumur af hitaveitunni. Var farið að kólna nokkuð þegar rafmagn komst á að nýju.

Morgunblaðið segir frá fleiri sköðum í sama veðri 14.nóvember:

Nokkrir bændur urðu fyrir fjárskaða í því óveðri sem gekk yfir Austur-Húnavatnssýslu um síðustu helgi. Ennfremur fuku járnplötur af iðnaðarhúsinu Votmúla á Blönduósi og tveggja manna í bíl var leitað. Síðastliðin helgi var annasöm hjá björgunarsveitarmönnum á Blönduósi og komu þeir víða við í leitar- og björgunarstörfum. Um miðjan dag á laugardag [8.] kom fyrsta útkallið þegar járn fór að fjúka af iðnaðarhúsinu Votmúla á Blönduósi. Aðfaranótt sunnudagsins var hafin leit að tveimur mönnum framan úr sveit sem ætlað höfðu á Blönduós. Þeir fundust skömmu seinna heilir á húfi um 10 kílómetrum sunnan við Blönduós og höfðu þá beðið í 6 klukkustundir í bíl sínum. Bíllinn hafði farið út af veginum og þeir gert það sem réttast var; beðið eftir aðstoð. Um miðjan dag á sunnudag [9.} aðstoðuðu björgunarsveitarmenn bóndann á Sölvabakka, Áma Jónsson, við að grafa 50 kindur úr fönn og voru allar lifandi nema ein. Á mánudaginn voru 15 kindur grafnar úr fönn á Sölvabakka og voru 7 dauðar. Alls missti Sölvabakkabóndinn 8 kindur í þessu veðuráhlaupi. Valdimar Guðmannsson í Bakkakoti telur að 20 kindur hafi hrakist undan veðrinu og hrapað fyrir björg og drukknað í sjónum. Víðar í héraðinu grófu menn fé lifandi úr fönn og enn eru ekki öll kurl komin til grafar eftir þetta óveður. Björgunarsveitarmenn voru fengnir til að ná í tvö hross fram í Norðurárdal og drógu þeir hrossin á sleða í hús. Annað hrossið drapst fljótlega eftir að þangað var komið. Óveðrið um helgina hafði ýmis önnur óþægindi í för með sér. Til dæmis þurfti að aflýsa hinum árlega Styrktarsjóðsdansleik og rafmagnslaust var á Blönduósi um tíma á laugardagskvöldið.

Enn urðu skaðar. Vestfirska fréttablaðið 27.nóvember:

Skemmdir urðu á raflínum Orkubús Vestfjarða frá Mjólká í vonskuveðri sem gekk yfir Arnarfjörð og Dýrafjörð á mánudag [21.]. Urðu af þessum sökum truflanir á orkuflutningi á svæðinu frá Flateyri til Súðavíkur. Orkubú Vestfjarða deildi þeirri orku sem til var eftir kúnstarinnar reglum og var að sögn Kristjáns Haraldssonar orkubússtjóra tekin sú stefna að reynt var að halda atvinnufyrirtækjum gangandi fram eftir degi. Þá voru hús með rafhitun látin ganga fyrir húsum með hitaveitu. Rafmagn komst svo á að nýju um klukkan 20:30 um kvöldið, Kristján vildi taka fram vegna óánægjuradda sem heyrst hefðu, að við aðstæður sem þessar væru götuljósin látin hafa forgang. Þó einhverjum þætti það bruðl þá liti Orkubúið svo á að hér væri um öryggisatriði að ræða. Einnig brotnuðu nokkrir staurar í Nauteyrarhreppi í veðrinu og kom vinnuflokkur frá Hólmavík til viðgerða. Það var sem fyrr segir óveður sem braut nýrri línuna í Arnarfirði en einangrari gaf sig í þeirri gömlu.

Slæm veður gengu yfir í desember, sérstaklega um og fyrir miðjan mánuð:

Dagur segir frá 4.desember:

Á Siglufirði, eins og víðar á Norðurlandi, hefur verið mjög slæmt veður undanfarna tvo sólarhringa eða svo. Viðmælandi blaðsins sagðist ekki muna eftir öðru eins veðri og var þar á Siglufirði í fyrrinótt. Síðdegis á þriðjudaginn fauk bíll út af veginum við Sauðanes. Bíllinn sem var mannlaus valt alla leið niður í fjöru og gjöreyðilagðist. Hann náðist ekki upp og er nú að öllum líkindum horfinn í sjóinn. Í gærmorgun fauk síðan annar mannlaus bíll og lenti á hliðinni. Hann skemmdist töluvert. Mikið fannfergi er nú á Siglufirði en síðdegis í gær var veður heldur tekið að lægja. ET

DV segir frá illviðri í Hornafirði í frétt 8.desember:

Júlía Imsland, DV, Höfn; Mikið tjón varð á bænum Stapa í Nesjum í óveðrinu sem gekk yfir í vikunni. Einn fjórði hluti fjósþaksins fauk, gömul fjárhús tók hreinlega upp og eitt af þrem samstæðum fjárhúsum á bænum fauk. Þá fór mikið af þakjárni af öðrum húsum. Snjó skóf inn á kindur og kýr og inn í hlöðuna. Valgerður húsfreyja á Stapa sagði að þetta hefði verið aftakaveður en enginn hefði meiðst, hvorki menn né skepnur. Húsin eru ekki vátryggð. [Þetta var líklega þann 3. en þá náði vindstyrkur 12 vindstigum af norðaustri í Hjarðanesi og í Hólum. Djúp lægð fór austnorðaustur skammt frá landi].

Austri segir frá 11.desember:

Rafmagnslaust varð á Borgarfirði [eystra] sl. laugardagskvöld [6.] þegar rafmagnslína þangað gaf sig í Hraundalnum utan við Hraundalsána. Línan yfirísaðist og brotnuðu 20 staurastæður í austanhvassviðri sem gekk yfir samfara ísingunni. Jafnframt fór rafmagnið á nokkrum bæjum í Eiðaþinghá meðan verið var að aftengja Borgarfjarðarlínuna.

Djúp lægð kom að landinu þann 10. og í kjölfar hennar fóru athyglisverðar smálægðir yfir landið. Þær ollu ekki tjóni - en við leggjum inn aukaumfjöllun hér aftast í pistilinn. 

Þann 12. ti 15. komu tvær gríðardjúpar lægðir að landinu. Sú fyrri var grynnri (líklega um 935 hPa í miðju) fór til vestnorðvesturs fyrir suðvestan land þann 12. og olli ekki tjóni nema undir Eyjafjöllum. Síðari lægðin varð metdjúp, stungið er upp á 914 hPa í lægðarmiðju. Það merkilega var að þessari ofurdýpt var ekki illa spáð með 2 til 3 daga fyrirvara í líkönum þess tíma þannig að hún gat valdið ákveðnu fjölmiðlafári. Ofurdjúp lægð hlaut að valda óvenjulegum ofsa. Veðrið varð mjög vont, en olli fjölmiðlum samt „vonbrigðum“ - veðurfræðingar sakaðir um að gera of mikið úr og svo framvegis. Tjón varð þó töluvert þegar upp var staðið. Á þessum árum var mikilvæg veðurathugunarbauja á Grænlandshafi. Þrýstingur á henni fór niður í 920 hPa. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að hún var forrituð þannig að lægri tölum var hafnað - og er það miður því líklegt er að lægðarmiðjan hafi farið yfir baujuna um þær mundir sem hún var dýpst. Talan 914 hPa verður því aldrei staðfest beint. 

Morgunblaðið segir af fyrri lægðinni 13.desember:

Holti. Aftakaveður gerði undir Eyjafjöllum um hádegið í gær og stóð mesti ofsinn í um tvo tíma. Svona veðri er erfitt að lýsa, það lægir í milli en síðan koma byljir með magnþrungnum ofsa þannig að ekkert laust er óhult. Ókeyrandi var i byljunum í dag og víða fauk á bæjum. Mesta tjónið sem vitað er um varð í Hvammi, en þar fauk í einu lagi þak af fjárhúsi. Þakið var mörg tonn að þyngd og niðurnjörvað með járnbindingum í steypta veggi. Magnús bóndi Sigurjónsson í Hvammi sagðist hafa af tilviljun séð þak fjárhússins eins og skrúfast langt upp í loft og berast síðan um 150 metra frá húsinu. Síðan hefði brakið úr því fokið í burtu. Fréttaritari

Slide12

Næstu daga bárust fréttir af tjóni í veðrinu sem kom mjög misjafnt niður. Velta mætti vöngum yfir því - en grafast þyrfti nánar fyrir um aðstæður í háloftum til að skýringar fáist. Tilvitnunin í pistla Morgunblaðsins 16.desember byrjar í Grindavík - en þar er alvanalegt að austanáttin valdi einhverju foktjóni. Fréttirnar frá Ísafirði eru óvenjulegri og sömuleiðis tjón í þessari átt á Seyðisfirði og í Norðurárdal. 

Grindavík. Ofsaveður gekk yfir Grindavík á sunnudagskvöldið [14.] en olli óverulegu tjóni. Lögreglan og Björgunarsveitin Þorbjörn voru á þönum allt kvöldið og fram á nótt til að koma í veg fyrir, eins og hægt var, að járnplötur fykju af húsþökum. Gamla Flaggstangarhúsið var bundið niður áður en járnið fauk utan af því. Rafmagnslaust varð í rúmar tvær klukkustundir í bænum og olli vandræðum á símakerfi lögreglunnar. Kópurinn GK kom svo í höfn upp úr miðnættinu í mesta hamaganginum, öllum á óvörum, þrátt fyrir rokið og brim í innsiglingunni. Lögreglunni barst aðvörun frá Almannavörnum ríkisins, fyrir milligöngu Jóns Eysteinssonar bæjarfógeta, um klukkan 17 að mjög djúp lægð væri á hraðri leið að landinu og færi mesti veðurhamurinn yfir Grindavík. Sigurður Ágústsson yfirvarðstjóri lögreglunnar bað björgunarsveitina Þorbjörn að vera í viðbragðsstöðu og hringdi í forráðamenn allra fyrirtækjanna og bað þá að huga að öllu lauslegu í kring um vinnustaði. Um kvöldmatarleytið var orðið allhvasst og mátti sjá hvar menn komu lausum körum og brettum í hús og bundu niður ýmislegt lauslegt sem kynni að fjúka. Um klukkan 20.30 byrjaði síðan síminn á lögreglustöðinni að hringja látlaust þar sem fólk bað um aðstoð við að hemja lausa hluti hjá fólki sem ekki var heima. Meðal annars fór tjaldvagn af stað og skemmdist og annars staðar fauk ruslakassi utan í bíl. Klukkan 21 var tilkynnt um að þakplötur væru að fjúka af raðhúsalengju í smíðum við Hólavelli og var björgunarsveitin þá kölluð út. Tókst að negla niður plötur sem vora að losna áður en fleiri fuku um nærliggjandi íbúðarhverfi. Þá var talsvert um að járn væri að losna í Eyjabyggðinni en ekki hlaust tjón af enda neglt jafn harðan. Gömul steinsteypt rúst austan við höfnina splundraðist í átökunum. Þá fuku nokkrar plötur af íbúðarhúsi og komst vatn í eitt herbergi og olli skemmdum.

Ísafirði. „Ég var búinn að sjá vindhraðamælinn slá nokkrum sinnum upp í 110 hnúta á meðan ég var að taka niður tæki í flugturninum sem ég vildi forða undan hugsanlegu tjóni. En þegar mælirinn var kominn í botn á 120 hnútum, sjórokið með klakahröngli og grjótkasti buldi á rúðunum sem svignuðu ógurlega, þá stakk ég mér undir borðið og beið þess sem verða vildi“, sagði Grímur Jónsson flugumferðarstjóri á Ísafirði, en fárviðri geisaði í innanverðum Skutulsfirði aðfararnótt mánudags. Grímur mætti á vakt í turninn kl.7 um morguninn, en það tók hann um stundarfjórðung að komast 10 metra leið úr bílnum og inn í flugstöðvarbygginguna vegna roksins. Í flugturninum eru tveir vindhraðamælar, annar með sírita, sem ritar bæði stefnu og hraða vindsins. Hann mælir mest 90 hnúta og hafði nálin á honum lamist föst í botni en síritinn mældi samt áfram. Samkvæmt honum var veðurhæðin hæst á milli kl.7 og 8 um morguninn en upp úr því fór að hægja og á hálftíma breyttist veðrið úr stormi í logn. Samkvæmt almanaki Háskólans mældist mesti vindhraði á Íslandi við Þyril í Hvalfirði 16. febrúar 1981, 222 kílómetrar á klukkustund en eftir því sem næst verður komist eru 120 hnútar um 228 km/klst, svo fljótt á litið virðist þetta mest vindstyrkur sem mælst hefur á landinu. Skömmu fyrir miðnætti fuku fjórar vængjahurðir af flugskýlinu á vellinum. Ein hurðin lagðist inn á gólfíð, án þess þó að skemma þær tvær flugvélar sem í skýlinu voru og er með ólíkindum hvernig það gat gerst. Önnur liggur brotin hlémegin við flugskýlið. Hornið á þeirri þriðju sást standa upp úr sjónum í 100-200 metra fjarlægð, en sú fjórða er ennþá ófundin. Um svipað leyti fauk lítil sendibifreið sem stóð á bílastæði við flugstöðina á hliðina og rann um 10 metra. Tókst að koma henni á hjólin og draga í skjól við flugstöðina en í nótt fór hún aftur af stað, rann eftir bílastæði upp á snjóruðning og hafnaði að hluta úti í tjörn vestanvert við bygginguna. Í fjórum gluggum á flugstöðinni brotnuðu ytri rúður en hvergi fór innri rúða svo ekkert tjón varð innan dyra á flugvellinum. Í bíl sem stóð áveðurs brotnuðu þær rúður sem á móti vindi snéru og var bíllinn hálf fullur af möl og klakahröngli þegar að var komið.

Að sögn Hrafns Guðmundssonar lögregluvarðstjóra virðist hvergi hafa verið stórviðri á Ísafirði nema á flugvellinum og í Holtahverfi, en þar fauk þakjárn af húsi og einhver klæðning utan af öðru. Rafmagn fór tvisvar af bænum, fyrst upp úr miðnætti og síðan um níu en þar var um að ræða truflun á byggðalínu en staurar brotnuðu á milli Borgarfjarðar og Hrútafjarðar. Einhver takmörkun gæti orðið á rafmagnsdreifingu næstu tvo dagana en ekki ætti þó að koma til vandræða, að sögn Jakobs Ólafssonar deildarstjóra hjá Orkubúi Vestfjarða. 
Skip á Vestfjarðarmiðum leituðu öll vars í nótt, mörg voru undir Grænuhlíð og innar í Ísafjarðardjúpi og á Dýrafirði en Vestfjarðaskipin leituðu flest til hafnar. Ekki er vitað um nein óhöpp hjá þeim. Úlfar.

Lögreglan í Reykjavik var með nokkurn viðbúnað vegna veðursins sem gekk yfir um helgina. Bjarki Elíasson yfirlögregluþjónn sagði að lögreglan hefði einbeitt sér að fyrirbyggjandi aðgerðum og taldi að það hefði meðal annars komið i veg fyrir að meira tjón varð. Bjarki sagði að lögreglan hefði tekið á leigu fjóra jeppa með drifi á öllum hjólum og útbúið á þá menn í óveðursgöllum. Kannaðar hefðu verið ábendingar frá fólki um hluti sem hugsanlega gætu fokið. Þá hefðu þeir stöðvað bíla í að fara á Hellisheiði á meðan þar var ófært. Hann sagði að lítil umferð fólks hefði verið í borginni og fólk brugðist vel við. Þá sagði hann að 20 menn úr björgunarsveitinni Ingólfi hefðu verið lögreglunni til halds og trausts. Trilla slitnaði upp í Reykjavíkurhöfn aðfaranótt mánudags og voru lögreglumenn lengi að reyna að færa hana í var. Slóst hún upp að garðinum og sökk að endingu.

Seyðisfirði. Í óveðrinu sem gekk hér yfir í fyrrinótt fauk hluti af þaki verksmiðjuhúss loðnubræðslu Ísbjarnarins á Seyðisfirði. Hurðir á viðgerðarverkstæði Fiskvinnslunnar hf. fuku upp og vatn fór þar inn. Þetta var upp úr klukkan tvö um nóttina. Að sögn verkstjóranna Helga Valgeirssonar og Jóns Torfa Þorvaldssonar hjá Ísbirninum voru það 180 fermetrar sem fóru af þakinu. Fór þetta allt í einu lagi líkt og sprenging hefði átt sér stað. Verksmiðjan var í fullum gangi. Theodór Blöndal verksmiðjustjóri sagði að ekkert tjón hefði orðið á tækjum verksmiðjunnar, en vinnsla hefði verið stöðvuð og fólk sent heim vegna hættuástandsins sem var á meðan veðrið var að ganga yfir. Theodór sagði að viðgerð hæfist
strax á þakinu og verksmiðjan var sett í gang um hádegið í gær. Óskar Þórarinsson verkstjóri hjá Fiskvinnslunni hf sagði að hurðirnar á viðgerðarverkstæðinu hefðu fokið upp um klukkan tvö. Slagbrandar sem voru innan á hurðunum hefðu gefið sig og vatn farið inn á gólfin. En skemmdir á tækjum á verkstæðinu hefðu engar orðið. Vinnsla hófst þar á réttum tíma í gærmorgun. Garðar Rúnar

Borgarnesi. Í óveðrinu á sunnudagskvöld fauk helmingur fjárhúsþaks á bænum Klettstíu í Norðurárdal. Sviptist þakið af með járni og sperrum. Að sögn húsfreyjunnar, Margrétar Jómundsdóttur, voru um 150 kindur í fjárhúsinu en sakaði þær ekki. Sagði hún að veðrið hefði verið verst um 11 leytið og hvasst fram undir klukkan 3 um nóttina. —TKÞ.

Byggðalína Landsvirkjunar bilaði í óveðrinu á sunnudagskvöldið þegar fjögur stálmöstur brotnuðu á Grjóthálsi í Borgarfirði. 20 manna viðgerðarflokkur fór á staðinn seinni partinn í gær og var búist við að viðgerð lyki í kvöld, ef veður yrði skaplegt. Möstrin brotnuðu um klukkan 22 á sunnudagskvöldið á Grjóthálsi. Að sögn Guðmundar Helgasonar rekstrarstjóra hjá Landsvirkjun hafði þetta litlar truflanir í för með sér en þó varð að skammta ótryggt rafmagn til verksmiðja í gær meðan mesta álagið var. Rafmagnslínur stóðust óveðrið víðast hvar á landinu. Þó varð rafmagnslaust undir Eyjafjöllum á sunnudaginn og tókst ekki að gera við bilunina fyrr en klukkan 3 um nóttina þegar mesta veðrið var gengið niður. Sú bilun var í tengivirki við Hvamm. Í gærmorgun varð rafmagnslaust í tvo klukkutíma í Kellingardal og Höfðabrekku í Mýrdal og kom í ljós að rafmagnsstaurar á Höfðabrekkuhálsi höfðu brotnað og brunnið. Einnig brotnuðu staurar í Landeyjum en rafmagnið hélst. Á Vestfjörðum og Vesturlandi stóðust rafmagnslínur óveðrið, að því er rafveitustjórar vissu best í gær.

Keflavík. Engir stórskaðar eða slys urðu í Keflavík og næsta nágrenni af völdum illviðrisins, sem gekk yfir aðfaranótt mánudags. Að sögn lögreglu var tjón óverulegt. Eitthvað var um að járnplötur og lauslegt dót fyki.

Morgunblaðið birti 17.desember nánari fréttir af fokinu í Hvammi undir Eyjafjöllum, en eins og fram kom hér að ofan átti það sér atað í „fyrri lægðinni“.

„Ég horfði á þakið af útihúsunum, 100 járnplötu þak, rifna af og fjúka i heilu lagi í um það bil 50 metra hæð og brotlenda síðan á annað hundrað metra fyrir norðan bæinn,“ sagði Magnús Sigurjónsson bóndi í Hvammi, Vestur-Eyjafjöllum, en í fárviðrinu um helgina urðu nokkrar skemmdir á bæjum undir Fjöllunum, mest i Hvammi en einnig nokkrar á fjórum öðrum bæjum. „Þetta var gjörningaveður eins og stundum kemur til undir Fjöllunum,“ sagði Magnús í Hvammi, „það mun láta nærri að vindhraðinn hafi legið í 15 vindstigum eins og á Stórhöfða, en í verstu byljunum var um hreina fellibylji að ræða og það var í einum slíkum sem þakið a fjárhúsunum og hlöðunni fauk í heilu lagi. Síðar kubbuðust rafmagnsstaurar og á þriðja degi valt skammt frá Hvammi stór flutningabíll frá Egilsstöðum. Ökumanninn sakaði ekki. Það var sérkennilegt að sjá þakið rifna upp, þetta stóra þak, þyrlast upp í loftið og splundrast síðan í jörð. Þetta maskaðist svo að það var eins og maður væri að taka upp gúanómél úr fiskimjölsverksmiðju, svo smátt kurlaðist timbrið. Seinna um daginn feykti vindurinn járnplötu heim að bæ og ég brá mér út upp á von og óvon, en plötunni náði ég og kom henni inn í hús, því ég tel ella víst að hún hefði brotið einhverja af hinum stóru rúðum á íbúðarhúsinu. Það voru sem betur fer engar skepnur í útihúsunum, en einnig fauk þakið af minni fjárhúsum á jörðinni. Vindar geta blásið all-sérkennilega á þessu svæði. Í mikilli austanátt slær vindinn að sjálfsögðu vestur fyrir bæinn, en þar beygir hann upp til hægri í hlíðinni og kemur til baka, beint á móti áttinni. Þetta var feiknarlegur vindhraði og rafmagnsstaurarmir kubbuðust við jörð þótt frostlaust væri. Átökin því verið mikil." Magnús sagðist ekki verða fyrir fjárhagslegu tjóni vegna skaðans þar sem hann hefði allt tryggt, en því væri nú þannig farið undir Fjöllunum að menn tækju fremur foktryggingu en brunatryggingu og segði það sína sögu. Guðjón hafði á orði að það henti þegar þvottur gleymdist á snúrum og austanátt gerði snögglega, að menn leituðu ekki að þvottinum fyrir vestan bæinn, heldur fyrir austan í stórgrýti sem þar er, þannig pottur er vindbelgurinn á svæðinu."

Morgunblaðið segir af ágangi sjávar í Reyðarfirði í pistli 17.desember:

Vont veður var hér aðfararnótt mánudagsins [15.], mikið rok og rigning. Þjóðvegurinn, sem liggur meðfram sjónum hér á Reyðarfirði, fór mjög illa. Stærðar grjóthnullungar og möl gengu upp á veginn og vegkantar voru svo illa farnir að menn hafa verið að keyra uppfyllingaefni í skörðin, sem mynduðust í veðrinu. Rokið var samt svo mikið að gámar fóru af stað niður við höfn og síldartunnur, fullar af síld, fuku niður í fjöru hjá Bergsplani. Víða rann vatn inn í hús og stóð fólk við að vinda það upp fram eftir morgni. Veðrið gekk niður um kl.10:00 á mánudagsmorgun. Gréta

Morgunblaðið segir 21.desember frá tjóni í Húnaþingi í öðru tilviki þann 16. en í hinu í aðalillviðrinu, aðfaranótt 15:

Ábúendur á Uppsölum í Sveinsstaðahreppi urðu fyrir stórfelldu tjóni í veðurofsa helgarlægðarinnar. Á Hjallalandi í Sveinsstaðahreppi fauk þak af fjárhúsum sl. þriðjudag [16]. Báðir þessir bæir eru staðsettir í utanverðum Vatnsdal sinn hvoru megin við Vatndalsá. Virðist sem vindhraðinn hafi orðið hvað mestur á þessum slóðum í Austur-Húnavatnssýslu, þó víða hafi hressilega blásið.

Að sögn Önnu Helgadóttur húsfreyju á Uppsölum þá gjöreyðilagðist vélageymsla sem stendur skammt fyrir norðan íbúðarhúsið, gömul hlaða hvarf algjörlega og um 70 rúmmetrar af heyi sem í henni vori. Ennfremur fuku plötur af 2 metra breiðu bili af fjósþakinu. Anna Helgadóttir sagði í samtali við Morgunblaðið að veðrið hefði verið verst um klukkan hálf eitt aðfaramótt mánudagsins [15.] en hefði verið farið að ganga niður um klukkan fimm. Anna sagðist hafa búið á Uppsölum í 40 ár og aldrei fyrr upplifað annan eins veðurofsa og þann sem var aðfaranótt mánudagsins. Anna sagði ennfremur að vindáttin hefði verið austlæg sem mjög sjaldan er slæm á Uppsölum en venjulegast er suðvestanáttin langverst.

Á Hjallalandi fuku járnplötur af fjósþakinu. En á þriðjudagsmorgun [16.] fauk þakið af fjárhúsunum á Hjallalandi af í heilu lagi og fylgdu garðarnir með. Af þessum sökum hafa ábúendur á Hjallalandi þurft að flytja um 110 kindur að bænum Hnausum í Sveinsstaðahreppi. Að undanförnu hefur verið mjög vindasamt í Húnaþingi en mjög bundið staðháttum hversu illskeytt veðrið hefur verið. Jón Sig.

Tíminn segir af sjóslysi 20.desember:

Tjaldur ÍS-116 fórst á Ísafjarðardjúpi á fimmtudagskvöld [18.desember]. Þriggja manna áhafnar bátsins er saknað. Báðir gúmmíbjörgunarbátar Tjalds fundust mannlausir í gær og einnig brak úr bátnum. Veður var fremur'gott á svæðinu þegar báturinn fórst. Giskað hefur verið á að báturinn hafi fest veiðarfæri í botni og bátnum hafi hvolft, a.m.k. þykir ljóst að slysið hafi orðið mjög snögglega.

Mikil sjóslys og eftirminnileg urðu um jólin. Flutningaskipið Suðurland fórst djúpt norðaustur af Langanesi, sex menn fórust, en fimm var bjargað á jóladag. Á annan jóladag fórust 12 menn er breskt skip strandaði og sökk við Skrúð.

Slide13

Kortið sýnir veðrið á aðfangadagskvöld jóla þegar Suðurlandið sökk. Mjög kröpp lægð gekk þar yfir og ekki víst að endurgreiningin sem kortið er gert eftir sýni fullan styrk veðursins.

Morgunblaðið segir af sjóslysunum miklu í pistlum 28.desember:

Þórshöfn, frá fréttamönnum Morgunblaðsins Árna Johnsen og Agnesi Bragadóttur. Átta skipverjar af Suðurlandi, sem sökk á jóladagsnótt í hafinu milli Íslands og Noregs, komust í gúmbjörgunarbát við illan leik. Laskaðist hann mikið í hafróti við skrokk skipsins sem var komið á hvolf og við það að sökkva. Þá kom gat á botn bátsins og yfirbreiðslan rifnaði öll í tætlur. Í þessu rekaldi höfðust skipbrotsmennirnir við hátt á elleftu klukkustundir.

Öll áhöfn breska tankskipsins Syneta, 12 manns, drukknaði aðfaranótt annars dags jóla eftir að skipið strandaði við klettinn Skrúð í mynni Fáskrúðsfjarðar laust fyrir miðnætti á jóladagskvöld. Níu menn fundust á floti í sjónum og náðust sjö þeirra um borð í skip og báta, sem stefnt var á strandstað. Einn skipverjanna var með lífsmarki en meðvitundarlaus er hann fannst. Hann lést skömmu síðar. Sex mannanna voru látnir þegar þeir náðust. Syneta strandaði við norðausturhorn Skrúðs er það var á leið til Eskifjarðar frá Liverpool á Englandi til að lesta loðnulýsi, sem sigla átti með til Rotterdam í Hollandi og Dunkirk í Belgíu.

Lýkur hér umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1986. Allskonar talnanefni er í viðhenginu. Hér að neðan er pistill um smálægðir sem gengu yfir landið aðfaranótt 11. desember þetta ár - úr hillulager ritstjóra hungurdiska - en eru í raun aukaatriði. 

Slide13

Þann 9. desember var mjög djúp lægð suðaustan við Grænland, hún þokaðist eftir það til norðausturs og grynntist. Kortið sýnir stöðuna snemma morguns þann 11. Takið eftir því að jafnþrýstilínur liggja jafnt í kringum lægðarmiðjuna, endurgreiningin sér enga smásveipi.

Slide14 

Hitamyndin hér að ofan sýnir stöðuna síðdegis þann 10. Þá var lægðin farin að grynnast. Sjá má skýjasveipi - og benda örvar á þá. Einn skýjabakki fer reyndar á undan, hann er merktur (dauft) með bókstafnum A. Skýjasveipir þessir verða til þegar lægðin fer að grynnast. Hin stóra hringhreyfing lægðarinnar brotnar þá upp í smærri einingar vegna þess að iða kerfisins varðveitist þótt þrýstikraftar geti ekki haldið loftinu í hinni stóru hringhreyfingu lægðarinnar. Ritstjóri hungurdiska vitnar gjarnan í Formúlu eitt kappaksturinn í þessu sambandi. Stöku sinnum renna bílar þar til í breiðum og löngum beygjum. Núningskraftar og stýrisbúnaður bílsins halda þeim á brautinni. Missi hjólin tak við brautina fara bílarnir skyndilega að snúast í kringum miðju sína, jafnvel marga hringi nái þeir ekki festu eða lendi á einhverju. Mjög algengt er að sjá svipað gerast í stórum lægðum - þegar þær grynnast skiptast þær upp í margar smærri einingar. 

Það sem hins vegar var óvenjulegt í þessu tilviki var að sveipirnir tveir (1 og 2) lögðu báðir leið sína beint yfir Reykjavík snemma að morgni þess 11. - einmitt þegar kortið af ofan gildir. 

Slide15

Glöggt má sjá þá á þrýstirita Reykjavíkurstöðvarinnar. Loftvog féll mjög mikið á í hverjum sveip um sig og steig jafnharðan. Í síðara tilvikinu um 14 hPa á 3 klst. Talsvert hvessti, en ekki varð þó tjón.

Slide16 

Á kortinu hér að ofan má sjá braut þrýstistigsins sem fylgdi síðari sveipnum - og þar með braut hans. Hann kom að fullu afli inn yfir Reykjanesskagann milli kl.6 og 7 (rauðar jafn- eða samtímalínur), en heildregnu línurnar sýna hversu mikið loftþrýstingur hækkaði á 3 klukkustundum eftir að sveipurinn fór yfir. Mest var hækkunin í Reykjavík, 14 hPa, eins og áður sagði, 11 hPa á Keflavíkurflugvelli, en aðeins 5 norður á Akureyri. 

Skemmtilegt dæmi sem fannst í hrúgunni hjá ritstjóra hungurdiska. Spurning hvernig líkön nútímans tækju á þessum sveipum - er líklegt að réttar þrýstispár myndu ofmeta vindinn? 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

Fyrstu tíu dagar marsmánaðar 2025

Þó sjór hafi umturnast við Suðvesturland fyrstu daga mánaðarins hefur það verður (ekki enn) náð inn á hina hefðbundnu illviðralista ritstjóra hungurdiska - einn dagurinn (3.) þó alveg á mörkunum - kannski hann nái inn þegar endanlegt uppgjör liggur fyrir. Sýnir bara að „efni“ var í mun meira flóð og tjón hefði veður verið verra. Slíkt veður liggur víst og bíður síns tíma og óþægilegt að vita af því.
 
Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 10 daga marsmánaðar 2025 er +1,1 stig. Það er +0,8 stigum ofan meðallags áranna 1991 til 2020 og +0,33 stig ofan meðallag síðustu tíu ára. Raðast hitinn í 12, hlýjasta sæti á öldinni (af 25). Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2004, meðalhiti þá +6,3 stig, kaldastir voru þeir 2009, meðalhiti þá -2,1 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 57. sæti (af 153). Hlýjastir voru sömu dagar 2004, en kaldastir 1919, meðalhiti þá -9,9 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu daga mánaðarins +0,3 stig, +1,3 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +1,1 stigi ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Hiti á spásvæðunum raðast í 8. til 13. sæti. Hlýjast að tiltölu á Vestfjörðum, en kaldast á Suðurlandi. Á einstökum stöðvum er vikið mest í Svartárkoti, hiti þar +2,6 stig ofan meðallags síðustu tí ára, en kaldast (að tiltölu) hefur verið í Árnesi, hiti þar -1,1 stigi neðan meðallags.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 50 mm og er það um 70 prósent umfram meðalúrkomu. Á Akureyri hefur úrkoma nælst 48 mm, meir en tvöföld meðalúrkoma sömu daga og á Dalatanga hefur hún hins vegar aðeins mælst 9,6 mm, fjórðungur meðalúrkomu.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 38,8 í Reykjavík, rétt ríflega meðaltal og á Akureyri hafa mælst 22,8 stundir - og er það líka rétt yfir meðallagi.

Dægursveifla tekur við sér í mars

Í skammdeginu er dægursveifla hita og vindhraða lítil, sveiflur þeirra ráðast nær eingöngu af stöðu lægða og hæða. Sólarhringslágmarkshiti er alloft lægstur um miðjan dag og hámarkshiti verður að oft nóttu. Þegar kemur fram í febrúar fer þetta að breytast og í mars er að jafnaði orðið áberandi hlýrra á daginn heldur en á nóttunni - þótt enn geti að sjálfsögðu brugðið út af einstaka daga þegar veðrakerfi takast á. Að meiri festa komist í vindhraðann er ekki eins áberandi - en það er samt þannig að meðalvindhraði er ívið meiri yfir daginn í mars heldur en að nóttu. 

Við lítum nú á dæmi um þetta. Viðfangsefnið hefur áður komið við sögu á hungurdiskum, en samt er ekki um algjöra endurtekningu að ræða.

w-blogg090325a

Fyrsta myndin sýnir dægursveiflu hita (grár ferill) og vinds (rauður ferill) í mars í Reykjavík á árunum 1997 til 2024. Athugið að kvarðarnir eru (tölulega) ekki þeir sömu og sjálf talnagildin skipta litlu máli - það er sveifla þeirra yfir sólarhringinn sem við erum að kanna. 

Lárétti kvarðinn sýnir klukkustundir sólarhringsins. Af gráa ferlinum merkjum við að kaldast er að jafnaði kl.7 að morgni, skömmu fyrir sólarupprás, en eftir það fer hiti hækkandi og nær hámarki um kl.15. Meðaldægursveifla hitans er 2,5 stig. Það er auðvitað sólarylurinn sem sér um að knýja sveifluna. Sólin vermir yfirborð jarðar sem aftur vermir loftið ofan við - eftir kl.15 fer útgeislun aftur að hafa vinninginn. Við megum athuga að útgeislun jarðaryfirborðs er því meira eftir því sem það er hlýrra. Varmatapið er því meira þegar yfirborðið er hlýjast heldur en þegar það er kaldast - en sólarylurinn hefur sum sé betur þar til kl.15 - þá er sól farin að lækka á lofti. 

En vindhraðinn sveiflast líka (rauði ferillinn - hægri kvarði). Lögun hans er öðru vísi að því leyti að vindhraði er svipaður alla nóttina, allt frá því um kl.20/21 til 6/7, en minnkar ekki á þeim tíma sem hiti er þá að lækka. Hann vex hins vegar ákveðið frá morgni og rétt fram yfir hádegi (sól er hæst á lofti um kl.13:35). Talið er líklegast að það sé aukin blöndun lofts í neðstu lögum sem þessu veldur. Lóðrétt hreyfing verður meiri, loft sem er á mjög hægri hreyfingu í allra neðstu lögum (núningur er þar mjög mikill) lyftist vegna kviku (bólumyndunar) og kemst í snertingu við loft sem er á ívið meiri hreyfingu og blandast því. Úr þessu verður blanda þar sem skriðþungi að ofan hefur blandast nær jörðu - niður í þá 10 metra hæð sem vindhraðamælingar eru gerðar í. Núningurinn nær síðan aftur öllum tökum þegar sól lækkar á lofti. 

w-blogg090325b

Á næstu mynd berum við saman dægursveiflu hita á alskýjuðum og léttskýjuðum dögum í Reykjavík. Grái ferillinn á við skýjuðu dagana. Þá er almennt talsvert hlýrra heldur en þegar bjart er (suðlægar áttir ríkjandi í skýjuðu, en norðlægar í björtu). Dægursveiflan er nokkru minni en að meðaltali þegar skýjað er (samanber fyrri mynd). Sólarylurinn skiptir minna máli, en hans gætir þó. Erfitt er að finna hvenær sólarhringsins lágmarkið er. Til að finna það með réttu þyrftum við að jafna út þá hneigð að alskýjaður dagur í mars byrjar kaldari heldur en honum lýkur - væntanlega vegna þess að aðstreymi er af hlýju lofti - og þrátt fyrir allt hlýnar dálítið frá upphafi til enda marsmánaðar. 

Í björtu veðri sést dægursveiflan miklu betur, hún er þá líka nærri tvöföld á við það sem hún er að meðaltali (sjá fyrri mynd). Kaldast er kl. 7/8 og hlýjast kl. 15/16. Það er líka aðeins kaldara í lok sólarhringsins heldur en í upphafi hans. Sólin nær ekki að halda í við kuldann. 

w-blogg090325c

Hér má sjá dægursveiflu vindhraðans í alskýjuðu og björtu veðri. Það að hvassara er í skýjuðu veðri hefur væntanlega ekkert með dægursveifluna að gera - lægðakerfi eru í óða önn að bera hlýtt og skýjað loft úr suðri til landsins. Dægursveifla vindsins í björtu veðri er hins vegar heldur meiri en að meðaltali, en útlit sveiflunnar er svipað. 

w-blogg090325d

Í fljótu bragði virðist þessi mynd ekki sýna neitt - en hún er samt mikilvæg. Hér höfum við reiknað meðalvigurvind hverrar klukkustundar, en vigurvindur á sér bæði stærð og stefnu. Hver vindmæling er þáttuð í austan- og norðanþætti og meðaltal hverrar klukkustundar í marsmánuði reiknað. Hér setjum við niðurstöðurnar í einskonar vindrós. Punktahneppið sem við sjáum sýnir að meðalvigurvindáttin í Reykjavík í mars er nokkuð föst í sömu stöðu allan sólarhringinn - rétt norðan við suðaustur - ekki fjarri útjöfnuðum landhalla á höfuðborgarsvæðinu. Að sumarlagi - tíma hafgolunnar - sveiflast vigurvindáttin umtalsvert. Þessi mynd sýnir okkur að þrátt fyrir sveiflu í vindstyrk hefur hafgolan ekki tekið við sér í marsmánuði. Það er bragðmunur á þessu tvennu, sá aukni skriðþungi lofts sem við upplifum sem hafgolu er ekki bara sóttur til loftstrauma rétt ofan við eins og í mars heldur verður til við flóknari hringrás. Við gætum kannski spurt athuganir hvenær hafgolan byrjar að vorlagi? Hún er komin á fullt skrið í maí. 

Við höfum ekki minnst á eitt mikilvægt atriði til viðbótar, en það er það sem ritstjóri hungurdiska kýs að kalla festu hita og vinds. Vindfesta er hlutfall á milli vigurvindhraða og vindhraða. Festan er því meiri sem vindurinn er stöðugri á áttinni. Festuhlutfallið í meðaltölum þeim sem hér er fjallað um er mjög lítil, ekki nema um 0,2. 

w-blogg090325e

Á síðustu myndinni sjáum við að það sem sagt hefur verið hér að ofan á akki aðeins við um Reykjavík heldur einnig meðaltal allra veðurstöðva landsins. Blái ferillinn (vinstri kvarði) sýnir dægursveiflu hitans. Hún er nánast eins og í Reykjavík (þótt spönn og meðaltal sé annað). Sama á við um vindinn (rauður ferill, hægri kvarði). 

Full ástæða er til að ætla að þessar sveiflumyndir væru þær sömu ef við ættum gögn frá landnámsöld - meðaltölin e.t.v. ekki nákvæmlega þau sömu, en allt annað á sínum stað. 


Beyglast teppið?

Eftir umhleypingana að undanförnu lítur út fyrir góðviðri víðast hvar á landinu næstu daga. Háþrýstisvæði hefur komið sér fyrir fyrir suðvestan land. Þetta háþrýstisvæði er þó ekkert sérstaklega öflugt og sætir engum tíðindum þannig séð - ekki enn að minnsta kosti. Það virðist bara hafa verið þannig að ekki hafi fleiri illviðri verið á lager - í bili. 

Það má þó alltaf sjá eitthvað athyglisvert ef vel er að gáð. Háþrýstisvæðið er af hlýju gerðinni, það nær í gegnum allt veðrahvolfið og yfir því eru veðrahvörfin hærri en umhverfis. Norðvestanátt er því yfir Grænlandi. Norðvestanátt liggur hins vegar þvert á bæði Grænlandsströnd og Grænlandssund - sem ekki gengur vel. Vindur nærri sjávarmáli vill heldur blása um sundið annað hvort úr suðvestri eða norðaustri - og það er eiginlega sama úr hvorri áttinni blæs í neðstu lögum að loftið sem á ferðinni er er kaldara heldur en það sem kemur niður af Grænlandi - eftir að hafa farið yfir háhrygginn - og hlýnað verulega í niðurstreyminu austan hans. Þetta hlýja loft á því ekki greiða leið niður til yfirborðs - og þar með til Íslands og á bágt með að ylja okkur. Það leggst því eins og teppi ofan á kalda loftið og verða til mjög öflug hitahvörf. Í þessu tilviki verður þó um einhverja blöndun að ræða þannig að hitahvörfin smyrjast út á nokkur hundruð metra bil. 

Ofan hitahvarfanna er mjög hlýtt loft, jafnvel 6 til 8 stiga hiti, en neðan við er hiti lægri og þar sem vindur er hægur yfir landi er frost, jafnvel mikið. Sé vindur hægur er varla nokkur von til þess að teppið beyglist og hitinn ofan við blandist niður. 

En við skulum líta á kort sem skýrir stöðuna betur.

w-blogg080325a

Kortið gildir kl.18 síðdegis á mánudag, 10.mars 2025. Jafnþykktarlínur eru heildregnar, þykktin mælir sem kunnugt er hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þykktarlínan sem liggur yfir Ísland sýnir 5400 metra og enn meiri þykkt er undan austurströnd Grænlands, 5460 metrar - við erum hér á mörkum þess að tala um sumarhita. Meðalþykkt yfir landinu í mars er um 5240 metrar. Hún er því um 160 metrum hærri en meðaltalið á þessu korti. Það samsvarar því að hiti sé um það bil 8 stig yfir meðallagi í neðri hluta veðrahvolfs. Við fáum alloft að sjá hærri tölur á þessum árstíma, en oftast standa þær stutt við, hluta úr degi eða þá kannski 1 til 2 sólarhringa. Trúum við spánum er nú reiknað með 4 til 5 daga dvalartíma hlýja loftsins á svæðinu, og í hádegisreiknirunu reiknimiðstöðvarinnar á hún að toppa yfir landinu á þriðjudag eða miðvikudag - í 5450 hPa - og hitavikið þá komið í 10 stig. 

Litirnir á kortinu sýna hita í 850 hPa-fletinum, hann er þessa dagana í um 1500 metra hæð. Marsmetið yfir Keflavíkurflugvelli er 7,8 stig. Að þessu sinni er það met varla í hættu, en svo virðist sem næstu daga verði 3 til 5 stig viðloðandi yfir landinu í 1500 metra hæð. 

Það þýðir að komi einhverjir kaflar þar sem háloftavindur nær að slá sér niður - handan fjalla um norðan- og austanvert landið gætum við fengið að sjá býsna háum hitatölum bregða fyrir stund og stund. Líkurnar hvað mestar á suðaustanverðu landinu. Eins og sjá má á kortinu hér að ofan gætir niðurstreymis yfir Suðausturlandi - þar er áberandi, staðbundið hámark hita í 850 hPa, 5,8 stig - og enn hærri tölur eru í niðurstreyminu undan Grænlandsströndum. 

Til þess að hita að ofan gæti í mannheimum þarf teppið að beyglast. Við sjáum - eins og oft áður - að það má búa til töluverða spennu út úr því sem virðist vera harla óspennandi leikur - alla vega gerum við nördin það, feitustu og bestu bitarnir liggja oft á víðavangi þar sem enginn tekur eftir þeim. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • w-blogg230325a
  • Slide15
  • Slide14
  • Slide13
  • Slide12

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.3.): 385
  • Sl. sólarhring: 419
  • Sl. viku: 1600
  • Frá upphafi: 2455542

Annað

  • Innlit í dag: 356
  • Innlit sl. viku: 1440
  • Gestir í dag: 335
  • IP-tölur í dag: 326

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband