11.8.2025 | 14:00
Fyrstu tíu dagar ágústmánaðar 2025
9.8.2025 | 23:52
Enn af árstíðasveiflum
Ritstjóri hungurdiska er stöðugt að skrifa eitthvað um árstíðasveiflur veðurþátta. Flest af því sem hér fer á eftir hefur þannig borið við áður á þessum vettvangi - en stundum finnst ritstjóranum bara ekki veita af að rifja það upp. Fyrsta myndin hefur þó ekki sést áður - alla vega ekki í þessu formi.
Hún sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins yfir Íslandi (blár ferill) og meðalþykkt yfir landinu (rauður ferill). Gögnin eru úr endurgreiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar á tímabilinu 1940 til 2022. Lárétti ásinn sýnir tíma - í 18 mánuði - byrjar 1. janúar - en fer fram yfir áramót til að allur veturinn komi fram í heilu lagi - og síðan haldið áfram til 30.júní.
Lóðrétti kvarðinn er merktur í dekametrum, 1 dekametri er 10 metrar. Sem kunnugt er mælir þykktin hita í neðri hluta veðrahvolfs. Um það bil 1 stig á hverja 2 dekametra (20 metra). Lægstu meðaldagsgildi vetrarins eru í kringum 520 metra, en þau hæstu um 546 dekametrar. Það munar um 26 dekametrum, eða um 13 stigum á hita vetrar og sumars. Auðvitað geta ítrustu tölur á báða vegu verið allt aðrar, lægsta þykkt sem sést hér við land er um 490 dekametrar, en sú hæsta í kringum 566 - það munar um 76 dekametrum, eða 38 stigum á hlýjasta og kaldasta loftinu sem yfir okkur er.
Á myndinni má sjá gráa lóðrétta strikalínu, hún sýnir sólstöður á sumri, 21.júní. Þá eru bæði hæð 500 hPa-flatarins og þykktin á leið upp á við. Einnig má sjá rauða strikalínu, hún er við 9. ágúst (dagurinn sem pistillinn er skrifaður). Við sjáum að bæði hæð og þykkt eru farin að falla frá hámörkum sínum, en vantar nokkuð upp á að ná sömu gildum og á sólstöðum. Rauð strikalína merkir meðalþykktina við sólstöðurnar og fylgjum við henni að þeim stað sem hún sker þykktarlínuna síðara sinnið sjáum við að kominn er 1.september. Ef við miðum sumarið við þykktina á sólstöðum, endar það 1.september. Miðum við sumarbyrjun við 1.júní lengist sumarið til 21. september (grá strikalína sýnir þann möguleika).
Í dag, 9. ágúst er því enn nokkuð eftir af sumri. Ef við látum sumarið enda við verslunarmannahelgi hlýtur það hins vegar að byrja um 17.júlí - stutt sumar það. Þeir sem telja sumarið fylgja hitanum hljóta að telja að lengra en 2 til 3 vikur.
Við tökum eftir því á myndinni að misgengi er á milli ferlanna tveggja, mun lengra er á milli þeirra að sumarlagi heldur en að vetri og er munurinn mestur á vorin. Þetta sjáum við eimmitt á næstu mynd - munurinn kemur nefnilega fram í þrýstingi við sjávarmál. Þrýstingur við sjávarmál segir okkur af hæð veðrahvarfanna (sem hæð 500 hPa-flatarins er góður fulltrúi fyrir) og hita í neðri hluta veðrahvolfs. Stundum erfitt að greina að hvort er hvort - frá degi til dags.
Lárétti kvarðinn er sá sami og á fyrri mynd, en lóðrétti kvarðinn sýnir meðalþrýsting við sjávarmál. Við notfærum okkur 200 ár af mælingum - sem skilar hreinni ferli. Á ferlinum eru alls konar vendipunktar. Síðari hluti vetrar byrjar hér 10.febrúar. Þá fer þrýstingur að rísa - sólin fer að skína á norðurslóðum. Þrýstingurinn stígur nokkuð reglulega allt fram á sumardaginn fyrsta. Þá dregur úr vestanátt áloftanna og vetur lætur undan á heimskautasvæðunum. Þrýstingur er nú svipaður í um það bil 6 vikur - vorið - oft (en ekki alltaf) tími sólskins og næðinga. Segja sumir að nafn mánaðarins hörpu vísi til þess - herpings og harðinda. Ekki tekur ritstjóri hungurdiska afstöðu í því álitamáli.
Eftir það fer þrýstingur að falla - hann gerir það síðan í aðalatriðum samfellt allt þar til um mánaðamótin nóvember/desember. Línuritið sýnir þó (sé farið í smáatriði) ýmsar vendingar. Í kringum höfuðdaginn herðir um hríð á fallinu, en um mánuði síðar dregur óvænt úr því aftur. Við getum bara giskað á ástæðurnar - og látum það vera í bili. En það sem gerist um mánaðamótin nóvember/desember er nær örugglega tengt skammdegisvindröstinni miklu í heiðhvolfinu - þeirri sem í tísku er á átakanlegum tvítsíðum meginlandssnjóaspámanna á síðari árum (en við skulum láta þá í friði hér). Í dag nægir okkur að taka eftir höfuðdeginum á þessari mynd. Norðuríshafið og kuldapollar þess taka þá að sameinast að nýju eftir linkind og hrakninga sumarsins. Sömuleiðis snýst vindátt í heiðhvolfinu úr austri í vestur.
Aukin virkni þeirra sést einnig á næstu mynd. Hún sýnir svokallaðan þrýstióróa, mismun á loftþrýstingi frá degi til dags - allt aftur til 1823. Mjög afgerandi mynd. Ekki er mikill munur á þessum ferli á hinni köldu 19. öld og nú á dögum. Það hefur ekkert afgerandi gerst í hringrásinni allan þennan tíma. Jú, það er ekki alveg satt - haustið, október og nóvember eru með einhverja óreglu (tíminn þegar hausthikið er í þrýstifallinu á fyrri mynd) - ekki gott að segja hvað veldur. Sumarið er hins vegar nánast nákvæmlega eins. Það dregur mjög úr óróa í kringum sumardaginn fyrsta (hörpu) - síðan minnkar hann hægar þar til lágmarki er náð, hér 5. ágúst (ekki alveg sami dagur á öllum tímabilum). Ferill sem sýnir illviðratíðni er nærri því nákvæmlega eins og þessi og sömuleiðis ferill sem sýnir meðalþrýstibratta yfir landinu (mismun á hæsta og lægsta þrýstingi landsins). Við skulum nú stækka út sumarhluta myndarinnar - og ýkja aðeins.
Við sjáum vel hina hröðu breytingu í kringum sumardaginn fyrsta - veður róast þá mjög. Síðan kemur eitthvað hik í minnkun óróleikans í júní, en eftir sólstöður tekur við eitthvað sem við gætum (ef við vildum) talið sérstakt tímabil. Það stendur á þessari mynd hreint og klárt til 22. ágúst - þá gerist eitthvað (vindátt snýst í heiðhvolfi). Þessar dagsetningar eru auðvitað ekki alveg bókstaflegar, en að 200 ára mæliröð skuli sýna þær verður samt að teljast merkilegt.
Að lokum lítum við á mynd sömu ættar.
Í mjög fljótu bragði virðist um sömu mynd að ræða, en svo er þó ekki. Hér má sjá meðalhitabreytingu frá degi til dags (morgunhiti) í Stykkishólmi 1949 til 2024. Mynd sem sýnir breytileika þykktarinnar frá degi til dags á sama tíma er nærri því eins.
Við viljum hér draga þá ályktun að miðum við sumarið við hitafar er lítið vit í því að fara að minnast á haust fyrr en komið er vel fram í september, en ef við horfum á veðrakerfið viðurkennum við kannski að einhver hausthristingur í norðri fari að gera vart við sig upp úr 20. ágúst. Við ættum líka að sjá að verulegt vit er í hinni gömlu skiptingu ársins í tvö (nokkurn veginn) jafnlöng misseri - og að dagsetningar þeirrar skiptingar eru ákaflega skynsamlegar.
Um þetta hefur verið fjallað oft áður á hungurdiskum Þeir sem nenna að lesa gætu gripið í viðhengin tvö.
5.8.2025 | 17:35
Smávegis af júlí 2025
Enn og aftur urðu mikil umskipti í veðurlagi við mánaðamót júní/júlí. Júní hafði verið svalur (sérstaklega fyrstu tíu dagarnir), kom á eftir alveg sérlega hlýjum maímánuði. Eins var með júlí, hann varð alveg sérlega hlýr og reiknast sá hlýjasti sem vitað er um í byggðum landsins, allt frá upphafi mælinga, en almanaksbróðir hans 1933 var reyndar jafnhlýr. Eins og fram hefur komið í yfirliti Veðurstofunnar var þó ekki alls staðar um methita að ræða.
Taflan hér að ofan sýnir hvernig hiti mánaðarins á spásvæðunum raðast meðal júlímánaða þeirra 25 ára sem liðin eru af þessari öld. Hann var hlýjastur þeirra allra á Austurlandi að Glettingi, Austfjörðum og Suðausturlandi, en næsthlýjastur á Miðhálendinu, á Vestfjörðum, Ströndum og Norðurlandi vestra og Norðurlandi eystra. Að tiltölu var hann svalastur við Faxaflóa og á Suðurlandi, raðast þar í 4 og 5 hlýjasta sæti - mjög hlýr þó.
Kort evrópureiknimiðstöðvarinnar sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir). Þykktin er yfir meðallagi á nær öllu svæðinu, mest þó við vesturströnd Noregs þar sem var alveg sérlega hlýtt, dagar þegar hiti náði þar 30 stigum óvenjulega margir. Jafnhæðarlínurnar segja okkur að suðlæg átt hafi verið ríkjandi hér á landi. Háloftasunnanáttin var óvenjustríð miðað við árstíma, sú þriðjamesta í júlímánuði frá upphafi háloftamælinga. Hún var mun stríðari en nú í hinum illræmda júlímánuði 1955, - en sá mánuður keppir raunar í flokki þeirra allrahlýjustu á Austurlandi. Sunnanáttin var svipuð eða lítillega stríðari en nú í júlí 2018. Ekki hlaut sá mánuður sérlega væn eftirmæli. Vestanáttin var hins vegar ekki fjarri meðallagi í júlí og hefur það forðað því að mánuðurinn lenti í flokk með úrhellismánuðum um landið suðvestanvert.
Kortið sýnir yfirborðssjávarhitavik í júlí (miðað er við 1981 til 2010) - eins og reiknimiðstöðin sér þau, Eins og sjá má er sjávarhiti langt ofan meðallags við landið, sérstaklega fyrir norðan. Tvennt verður þó að hafa í huga þegar horft er á kort sem þetta. Annars vegar er um yfirborðshita að ræða. Fyrir kemur að hann er í raun ekki mjög dæmigerður, segir aðeins frá allra efsta laginu. Sé um slíkt að ræða geta fáeinir vindasamir dagar breytt útliti kortsins mjög - kaldari sjór undir blandast þá upp í yfirborðið. Hins vegar er mjög lítið að marka meðaltölin á hafíssvæðunum við Austur-Grænland. Þegar ís er á svæðinu er yfirborðshiti illa skilgreindur - ekki mikið að marka hlýjar eða kaldar tungur og svæði á þeim slóðum.
Þegar vindur fer að aukast í haust kemur hið sanna ástand sjávarhitans mun betur í ljós. En auðvitað hafur hinn hái yfirborðshiti við landið norðaustanvert áhrif á hitafar við ströndina - meðan hann varir.
Þótt fyrstu ágústdagarnir hafi verið mjög hlýir á Norðaustur- og Austurlandi (hiti langt ofan meðallags), er samt ekki hægt að segja að útlitið næstu daga sé sérlega hlýindalegt. Alls ekki er þó hægt að tala um kulda, að svo stöddu að minnsta kosti. Hinir hlýju kaflar í maí og júlí - og kuldinn í júní - hittu mjög vel í mánaðamót að þessu sinni. Hefðu þau skipst öðru vísi á mánuðina - verið t.d. hálfum mánuði fyrr eða síðar en að öðru leyti eins hefði ekki verið um nein sérstök met að ræða. Met geta þannig verið býsna tilviljanakennd.
Eins og fram kom í yfirliti Veðurstofunnar er árið það sem af er í fimmtahlýjasta sæti alla mælitímabilsins. Í Stykkishólmi hefur ekkert ár frá upphafi mælinga byrjað jafnhlýlega og á Akureyri hafa aðeins tvö ár verið hlýrri - fyrstu sjö mánuðina og í Grímsey aðeins eitt ár.
Þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 17:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
3.8.2025 | 21:02
Hitaþankar (vegna hins óvenjuhlýja júlímánaðar)
Eins og fram hefur komið í fréttum reyndist nýliðinn júlí (2025) sá hlýjasti sem vitað er um á landinu - ásamt júlímánuði 1933. Meirihluti landsmanna - þeir sem búa og dveljast öllum stundum á suðvestanverðu landinu upplifðu þó ekki metið. Fyrir sex árum tók ritstjóri hungurdiska saman pistla um hæsta mánaðarmeðalhita á landinu og annan um hæsta meðalhámarkshita á landinu. Hinir fádæma hlýju mánuðir, júlí og ágúst 2021 úreltu þessa tvo pistla að nokkru og krafsaði ritstjórinn eitthvað í þær úreldingar 2021, en telur nú rétt - vegna þessarar endurtekningar nú - að fara aftur yfir málin. Sumt í pistlunum frá 2019 stendur þó enn fyrir sínu og varla ástæða til að tyggja það upp aftur. Þar á meðal er klausa um háar (vafasamar) tölur frá árunum 1926 og 1927.
Í ágústbyrjun 2019 var staðan þannig að júlí 1933 var hlýjasti júlí sem við vissum þá um á landinu í heild. Meðalhiti hans var 12,0 stig. Við vissum um einn almanaksmánuð með hærri meðalhita. Það var ágúst 2003, landsmeðalhiti (í byggð) var þá 12,2 stig. Síðan 2019 hefur það gerst að ágúst 2021 jafnaði fyrra hitamet ágústmánaðar, meðalhitinn þá reiknaðist 12,2 stig og nú (2025) jafnaði júlí fyrra júlímet, reiknaðist 12,0 stig, eins og 1933. Nú er það svo - eins og margoft hefur verið tekið fram - að þessir meðaltalsreikningar eru ekki mjög nákvæmir.
Hlýindin í nýliðnum júlí náðu til svæðisins frá Breiðafirði í vestri austur til Austur- og Suðausturlands. Ný met voru sett á fjölmörgum stöðvum (þó alls ekki öllum). Hæst voru meðaltölin á Fljótsdalhéraði, meðalhiti á Egilsstöðum og Hallormsstað urðu 14,2 stig, Þetta er hæstu mánaðarmeðaltöl sem við vitum um á þessum stöðvum. Í júlí 2021 varð meðalhiti hins vegar lítillega hærri á mönnuðu stöðinni á Akureyri og á þeirri sjálfvirku á Torfum í Eyjafirði (14,3 stig) - stendur það landsmet því enn. Í júlí 2021 varð meðalhiti á Hallormsstað 14,1 stig og í ágúst 2021 varð hann 14,2 stig vestur á Bíldudal. Þessi Bíldudalstala þarfnast þó nánari athugunar við.
Myndin er líklega tekin á Egilsstaðaflugvelli 23.september árið 1960. Þá var flugstöðvarbyggingin á myndinni ný og verið var að flytja loftvogina á vellinum þangað. Sennilega var það Þórir Sigurðsson veðurfræðingur sem tók myndina, hún fannst í hrúgu í kassa í skjalasafni Veðurstofunnar, en fylgdi ekki ferðaskýrslunni. Saga stöðvarinnar á Egilsstöðum er nokkuð flókin og hefur hún alloft verið flutt. Sjálfvirkar athuganir hófust þar 1998 og lögðust hefðbundnar mannaðar athuganir þá af - en sérathuganir þó áfram gerðar vegna flugs.
Nú er það svo að talað er um að umhverfi stöðvanna, bæði á Hallormsstað og á Egilsstaðaflugvelli hafi breyst frá því að sjálfvirku stöðvarnar voru settar upp. Gróður sé orðinn óþægilega mikill á Hallormstað og breytingar hafi einnig orðið á Egilsstaðaflugvelli. Þótt ritstjóri hungurdiska sé ekki trúaður á að þessar breytingar skipti miklu máli, gætu þær samt hæglega hnikað meðaltölum lítillega til - og þar með haft áhrif á röðun á listum þar sem aðeins munar 0,1 til 0,2 stigum á sætum. Má heita regla að það sé alltaf einhver vafi uppi þegar um ítrustu met er að ræða.
Gríðarlegar breytingar hafa orðið á stöðvakerfi Veðurstofunnar á undanförnum 30 árum. Mannaðar mælingar hafa verið lagðar af, en sjálfvirkar komið í þeirra stað. Það er almenn reynsla (samanburðarmælingar hafa verið gerðar) að gott samræmi sé á milli meðaltala gamalla og nýrra aðferða. Einhver samræming verður þó að eiga sér stað vegna breytinga á reiknireglum og mæliháttum. Í sumum tilvikum hefur ekki verið kostur á því að halda sjálfvirku mælingunum á sama stað og þeim mönnuðu. Það hefur sýnt sig að þessir flutningar búa til hnik í mæliröðum - stundum eru þau sáralítil, en stundum nokkur og í fáeinum tilvikum meiri heldur en vænta mátti.
Fyrir um 20 árum lagðist ritstjóri hungurdiska í mikla samræmingar- og samanburðarvinnu. Í henni var látið sem mönnuðu mælingarnar hefðu haldið áfram. Eitt af því sem gera þarf á næstu árum er að snúa þessu við. Ganga út frá sjálfvirku mælingunum sem viðmiði - og endurreikna mönnuðu raðirnar með tilliti til þeirra nýju.
Ein þeirra stöðvaraða sem spilltist við tilkomu sjálfvirku mælinganna var sú við Mývatn. Munur á meðalhita í Reykjahlíð og nýju stöðinni við Neslandatanga er nokkur - meiri en svo að hægt sé að nota sjálfvirku mælingarnar í beinu framhaldi af hinum - án leiðréttinga. Mælt var á báðum stöðum í nærri 15 ár. Það var hlýrra allt árið í Reykjahlíð, munurinn reyndar ívið minni að sumarlagi heldur en á vetrum. Meðalhiti á Neslandatanga í júlí 2021 var 13,93 stig. Fimmtán ára meðalmunur á Reykjahlíð og Neslandatanga í júlí var 0,42 stig. Trúum við því að sá munur hefði einnig komið fram 2021 hefði verið mælt á báðum stöðum hefði meðalhiti í Reykjahlíð væntanlega verið 14,35 = 14,4 stig. Það væri þá hæsta júlítala á landinu. En í þeim 15 júlímánuðum sem mælt var á báðum stöðvum var munurinn aldrei sá sami. Hann var minnstur 0,17 stig, en mestur 0,87 stig. Hver skyldi meðalhiti í Reykjahlíð hafa verið í júlí 2021?
Furðumikill munur var á meðalhita mönnuðu og sjálfvirku stöðvanna á Grímsstöðum á Fjöllum í júlí 2021. Á mönnuðu stöðinni var meðalhitinn 14,2 stig, en ekki nema 13,5 stig á þeirri sjálfvirku. Þetta er miklu meiri munur heldur en venjulega er á stöðvunum tveimur í júlí, munurinn var yfirleitt minni en 0,1 stig. Hvað veldur veit ritstjórinn ekki.
Eins og nefnt var hér að ofan keppir júlí 2025 við almanaksbróður sinn 1933 um efsta sæti hlýrra júlímánaða á landinu í heild. Þá voru hlýindin mest austan til á Norðurlandi, en ekki var mælt á Egilsstöðum og ekki heldur á Hallormsstað. Hefði verið mælt á þessum stöðvum hefði landsmeðalhitinn í þeim mánuði e.t.v. náð 12,1 stigi?
Í pistlum hungurdiska árið 2019 var einnig fjallað um meðalhámarkshita mánaða. Fyrst var fjallað um vandamál tengd hámarkshitamælingum en síðan gerð grein fyrir hæsta meðalhámarkshita sem þá var vitað um.
Hæsta tölurnar sem ritstjórinn gat þá sætt sig við voru 18,7 stig, þetta er meðalhámarkshiti júlímánaðar bæði 2008 og 2019 í Hjarðarlandi í Biskupstungum. Meðalhámarkshiti sjálfvirku stöðvarinnar á sama stað var lítillega lægri. Sá munur stafar væntanlega af svonefndum tvöföldum hámörkum, hámarkshiti lekur á milli daga vegna þess að skipt er milli sólarhringa kl.18 en ekki kl.24 - eins og er í sjálfvirku mælingunum.
Nú gerðist það hins vegar bæði í júlí 2021 og júlí nú að hámarkshitameðaltöl reyndust hærri en þetta. Allt í einu eigum við þrjár hærri tölur frá mönnuðum stöðvum (að vísu eru þær nú mældar með sjálfvirkum mælum) og 24 tölur frá sjálfvirkum stöðum, langflestar mældar í júlí 2021 og 2025, en ein tala í júní 2023 og þrjár í ágúst 2021. Þetta eru svo mikil tíðniumskipti að óhjákvæmilegt er að hrökkva við. Er hér tilviljun á ferð (eftir 100 ára hámarkshitamælingar) - eða aukin þéttni mælinga - eða eðlisbreyting mælinga - eða alræmdar og umtalaðar hnattrænar veðurfarsbreytingar? Sem stendur getur hver valið sér ástæðu - en ætti e.t.v. að hika hóflega við að svara.
En hæstu meðalhámarkshitatölurnar eru nú þessar: Júní (18,7 stig, Egilsstaðaflugvöllur, 2023), júlí (20,5 stig, Hallormsstaður 2021), ágúst (Ásbyrgi 19,0 stig 2021).
Fyrstu tveir dagar júlímánaðar 2025 voru svalir, en eftir það náði hiti 20 stigum einhvers staðar á landinu flesta daga. Tuttugustigadagarnir urðu alls 28 í mánuðinum (sjá yfirlit Veðurstofunnar). Í júlí 2021 náði hiti 20 stigum alla daga mánaðarins nema einn.
Það var merkilegt að 19 daga mánaðarins komst hiti í 20 stig eða meira á Egilsstaðaflugvelli. Þetta er einum degi fleiri heldur en mest hefur áður orðið í einum mánuði á íslenskri, sjálfvirkri veðurstöð (18 sinnum á Reykjum í Fnjóskadal, á Hallormsstað og við Kröflu í júlí 2021). Á mönnuðu stöðinni á Grímsstöðum á Fjöllum var einnig 20 stiga hámarkshiti 19 daga í júlí 2021 - en 17 daga í sama mánuði á sjálfvirku stöðinni á sama stað - trúlega um tvö tvöföld hámörk að ræða - sem bæta í fjöldann). Það er sjaldgæft að hiti fari oftar en tíu sinnum í sama mánuði í 20 stig eða meira á veðurstöðvum hér á landi.
Eðlilegt er - í framhaldi af þessu - að spyrja um lágmarksmeðalhitann. Ekki voru sett nein ný landsmet að þessu sinni. Hæsti mánaðarmeðallágmarkshiti er sem fyrr 11,6 stig, á Bíldudal í ágúst 2021. Hæstu tölur eru langflestar úr ágústmánuði - og þá frá stöðvum nærri sjó á Suðvestur- og Vesturlandi. Við bíðum enn eftir því að lægsti lágmarkshiti mánaðar á veðurstöð sé ofan við 10 stig - næst því komst stöðin í Surtsey í ágúst 2021, lægsta lágmark í mánuðinum mældist þá 9,6 stig.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (4.9.): 6
- Sl. sólarhring: 214
- Sl. viku: 1722
- Frá upphafi: 2495924
Annað
- Innlit í dag: 4
- Innlit sl. viku: 1508
- Gestir í dag: 4
- IP-tölur í dag: 4
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- September 2025
- Ágúst 2025
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010