9.2.2025 | 21:19
Vattarneshviður (og hugtökin snúði og snælda)
Ritstjóri hungurdiska þykist hafa séð fréttir af foktjóni í miklum vindhviðum við Vattarnes í illviðrinu á dögunum. (Illa gengur þó að finna fréttir um það á netinu - ábendingar vel þegnar). Á Vattarnesi var sett upp sjálfvirk veðurstöð árið 2000 og hefur athugað síðan. Fyrir löngu, á árunum 1931 til 1944 var þar skeytastöð, athugunarmenn þeir Þórarinn Grímsson Víkingur (1931-1941) og síðan Sigurbjörn Guðjónsson. Skeytasendingum var síðan haldið áfram á Djúpavogi, 1944 til 1961 og á Kambanesi 1961 til 1992, en þar var þá sett upp ein fyrsta af sjálfvirkum stöðvum Veðurstofunnar. Tókst þannig allan þennan tíma að halda uppi skeytasendingum frá stöðvum á sunnanverðum Austfjörðum þar sem sá á haf út.
En veðrið á dögunum var mjög hart víða á Austfjörðum, eftir fréttum að dæma varð mest tjón í Stöðvarfirði, en einnig fauk á Vattarnesi. Þar hefur ritstjóri hungurdiska aldrei komið og á síðari árum er staðurinn kominn mjög úr alfaraleið. Ritstjórinn fékk senda ábendingu um frétt af tjóni í veðrinu á Vattarnesi - og kann sendanda bestu þakkir fyrir.
Kortaklippunni hér að ofan er nappað úr atlaskortasafni Landmælinga Ísland og sýnir Vattarnes og nágrenni. Við þykjumst strax sá að um hviðuvænan stað er að ræða, fjallshryggur með bröttum tindum og hafið þar fyrir utan. Hviðurnar gætu svosem verið af fleiri en einni gerð.
Línuritið tekur saman vind á veðurstöðinni frá því kl.1 aðfaranótt miðvikudagsins 5. febrúar (2025) til kl.16 laugardaginn 8. Bláu súlurnar sýna mesta 10-mínútna meðalvind hverrar klukkustundar. Það vekur athygli að hann er ekki sérlega hár, fór mest í 21,5 m/s að kvöldi þess 5. Rauði ferillinn les aftur á móti vindhviðurnar. Þær eru ógurlegar, allmargar fara upp fyrir 50 m/s og sú stríðasta sem mældist fór upp í 54,8 m/s. Menn reikna gjarnan svokallað hviðuhlutfall. Hægt er að skilgreina það á fleiri en einn veg, en hér reiknum við hlutfallið á milli hámarksvinds klukkustundar (10-mínútur) og mestu hviðu sömu klukkustundar (hægri kvarði á línuritinu, grænir punktar). Oft er hviðuhlutfallið hærra en 3, vindhraði í mestu hviðu er meir en þrisvar sinnum meiri heldur en meðalvindurinn. Hér er mikið í lagt. Algengasta hviðuhlutfall er 1,2 til 1,4, en tölur um 2 og þar rétt fyrir ofan má einnig teljast algengt, en tíðni á hærri tölum er töluvert minni.
Fleiri en ein ástæða getur verið fyrir hviðum af þessu tagi. Oftast er talað um að vindi úr efri loftlögum (þar sem vindur er mun meiri en nær jörðu) slái niður vegna kviku vegna bylgjumyndunar eða bylgjubrots við fjöll. Í sjálfu sér ekki ólíklegt hér.
Fyrir mjög mörgum árum fór ritstjóri hungurdiska að fylgjast með vindhviðum við Borgarnes. Það var auðvelt, fjörðurinn blasti við út um glugga á heimili foreldra hans og hviðurnar sáust sem særok, og var særokið oft í til þess að gera kröppum hvirflum sem bárust með vindinum, en í hvirflunum sjálfum var vindhraði mun meiri heldur en utan við. Hvirflar þessir héldu loft lögun og afli kílómetrum sama og ef þeir komu inn á Nesið fuku lausir hlutir gjarnan til.
Eftir að hafa fylgst með þessu árum saman fór ritstjórinn að taka eftir því að langflestir sveipirnir (ekki alveg allir þó) höfðu vinstrihandarsnúning - öfugt við snúning jarðar og þann sem er í kringum lægðir. Þessi hegðan var svo áberandi að leita varð skýringa. Ekki gott að segja hvort sú skýring sem hér er gripið til er sú rétta, en það má reyna að nota hana. [Það sem hér fer á eftir flokkast sem fimbulfamb - er við fárra hæfi].
Núningur á milli vindstrengsins við Austfirði annars vegar og fjallshlíðar/strandar hins vegar býr til (hægri) iðu yfir ströndinni. Í grófum dráttum er hægt að segja að margfeldi vindhraða og iðu varðveitist. Þetta margfeldi heitir á erlendum málum helicity. Ritstjórinn vill, með góðu eða illu, hafa íslensk nöfn á hugtökum. Eftir töluverð vandræði datt honum í hug að kalla þetta snúða upp á íslensku. Nafnið ber þá í sér einhverja tilvísun til snúnings.
Það er snúðinn sem varðveitist. Þegar vindstrengurinn sterki er kominn fyrir Hafnarnesið missir hann aðhald landmegin, úr honum dregur, en við það losnar um iðuna, hún fær að leika lausum hala sem skrúfvindar og rokur, nánast logn á milli, en fárviðri í byljunum. Þessa kenningu (ef kenningu skyldi kalla) mætti kanna með því að telja hlutfall hægri og vinstrisnúnings á hvirflunum yst í Reyðarfirði - í sunnanátt. Sé hlutfall hægrisnúnings mun hærra heldur en vinstrisnúnings (öfugt við það sem er á Borgarfirði) vaxa mjög líkur á að eitthvað sé til í þessari kenningu. Sé hlutfallið jafnt eru önnur ferli líklegri sem skýring - sé vinstrisnúningur algengari gætu aðrir landslagsþættir komið við sögu.
Fyrst að búið er að nefna snúðann er freistandi að fullgera brandarann með því að nefna einnig hugtakið snældu - því tengist annað ótrúlegt (en næsta raunverulegt) varðveislulögmál. Hér er snælda þýðing á erlenda hugtakinu enstrophy. Iða er vigureigind eins og áður sagði. Jörðin snýst í hægrisnúningi, jarðiðan er skilgreind sem jákvæð, vinstrihandarsnúningur neikvæður. Snælda er skilgreind sem iða í öðru veldi (deilt með tveimur) - og mælir því magn iðunnar - hvort sem hún er neikvæð eða jákvæð. Snælda er því mælikvarði á beygjumagn (sem er miklu ljótara orð). Komi kröpp beygja á loft - verður að rétta úr einhvers staðar nærri - segir lögmálið. En til huggunar má segja að snældulögmála er aðeins getið í örfáum veðurfræðitextum - ritstjóri hungurdiska vill bara eiga þýðinguna á lager - aldrei að vita hvenær hún kemur að gagni (eins og Hans klaufi sagði gjarnan).
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 21:54 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.2.2025 | 23:47
Smávegis af illviðrinu á dögunum
Illviðrið á dögunum skoraði mjög hátt á öðrum illviðravísi ritstjóra hungurdiska, þeim sem hann kennir fremur við snerpu heldur en úthald. Úthaldsvísirinn var að vísu nokkuð hár líka, en það spillti fyrir honum (ef svo má segja) að veðrið var ekki nema rúmlega sólarhrings langt, skiptist á tvær dagsetningar, hefði skorað betur hefði það hitt betur í. Úthaldsvísirinn mælir meðalvindhraða sólarhringsins í byggðum landsins. Til að vera listatækur þarf meðalvindurinn að ná 10,5 m/s. Hann var 12,0 m/s miðvikudaginn 5., en 11,2 m/s fimmtudaginn 6.
Til að verða listatækur á snerpulistanum þarf hámarksvindur (10-mínútna meðaltal) að ná 20 m/s á að minnsta kosti fjórðungi veðurstöðva í byggð. Það hefur hann gert þrjá daga það sem af er febrúar, þann 1. fór hlutfallið í 36 prósent, en 69 prósent þann 5. og 64 prósent þann 6. Svo háar tölur sjást aðeins á 3 til 5 ára fresti.
Á myndinni eru tveir ferlar. Sá rauði (hægri kvarði) sýnir meðal-hámarksvindhraða í byggðum landsins á klukkustundar fresti dagana 28. janúar til 6.febrúar. Við sjáum nokkur vindhámörk þessa daga, mestu topparnir eru þann 1, þegar klukkustundargildið nær 15 m/s og síðan í veðrinu mikla þegar meðal-hámarksvindhraðinn nær 19,4 m/s.
Dökki ferillinn (bláar súlur) sýnir hins vegar þrýstispönn landsins, mun á hæsta og lægsta þrýstingi sömu klukkustundar. Það kemur varla á óvart að ferlarnir tveir falla saman að mestu, enda ræður bratti þrýstisviðsins mestu um vindhraða. Mest fer þrýstispönnin í 33,6 hPa síðdegis á miðvikudag. Þessi einfaldi kvarði hefur þann ókost að hann segir ekkert til um fjarlægðina sem spönnin nær yfir. Sambandið er því ekki alveg það sama í vestlægum/austlægum áttum og norðlægum/suðlægum vegna þess að landið er lengra frá austri til vesturs heldur en frá norðri til suðurs. Með lipurri forritun mætti þó lagfæra þennan ókost.
Þótt þétting þrýstiathuganakerfisins á undanförnum 20 árum valdi því að spönnin vaxi lítillega getum við samt notað það samband sem við finnum nú til að meta ýmis eldri veður, óháð öðrum upplýsingum, jafnvel langt aftur í tímann, áður en vindhraðamælingar urðu jafn áreiðanlegar og samfelldar og nú er.
Við minnum á metingspistil Veðurstofunnar um illviðrið, þar má einnig lesa um vel heppnaðar spár. Við notum einnig tækifærið til að minna á gamlan pistil hungurdiska um halaveðrið svokallaða, en í dag, 8. febrúar eru einmitt 100 ár frá því það gekk yfir landið.
6.2.2025 | 21:59
Eldingaábendi
Þrumuveðrið sem gekk yfir vestan- og sunnanvert landið í gær (miðvikudag 5.febrúar) fór ekki framhjá ritstjóra hungurdiska, hann minnist þess varla að hafa að vetrarlagi séð svo marga eldingarglampa á stuttum tíma. En hafa verður í huga að hann svaf af sér hið mikla eldingaveður sem gekk yfir snemma morguns þann 15.febrúar 1959 - óskiljanlegt - því aðrir íbúar hússins vöknuðu - og eldingu sló niður í Borgarneskirkju sem þá var í byggingu og olli nokkru tjóni. Kannski var þetta atvik eitt þeirra helstu sem kveiktu áhuga verðandi veðurnörds?
Það sem kom e.t.v. enn meira á óvart að þessu sinni var að eldingaveðri þessu var reyndar spáð með meir en tveggja sólarhringa fyrirvara. Spáð já, en sú spá þurfti samt ákveðna túlkun því spár af þessu tagi eru svo nýtilkomnar í því veðurlagi sem hér ríkir að ef vel á að vera þarf reynslu til að spárnar verði nýtingarhæfar. Þá reynslu hefur ritstjórinn ekki. Það kemur í hlut annarra að gera grein fyrir þessu ákveðna eldingaveðri og þeim spám sem hefði mátt nota til að segja fyrir um það.
En nú ber svo við að eldingaábendi þetta er einnig að gera ráð fyrir allmiklum líkum á eldingum um landið vestanvert í kringum hádegi á morgun (föstudaginn 7.febrúar) og enn og aftur síðla nætur aðfaranótt laugardags. Ekki treystir ritstjóri hungurdiska sér þó til þess að taka mark á þessu - né hafna möguleikanum. Hann hefur einfaldlega ekki þá reynslu sem til þarf, en vonandi er að einhverjir unglingar grípi boltann.
Ritstjórinn mun hins vegar á næstunni klóra sér eitthvað í höfðinu yfir ástæðum þrumuveðursins í gær. Eins og eitt uppáhaldsorðtak hans segir: Það er mjög auðvelt að finna skýringar, en mjög erfitt að finna réttar skýringar. Það er auðvelt að finna eyju á Breiðafirði, en rétt eyja - það er allt annað mál - og krefst þekkingar.
6.2.2025 | 21:26
Stöðvarfjörður
Mikið illviðri hefur gengið yfir landið undanfarna daga, einkum í gær (miðvikudag 5.febrúar) og í dag (fimmtudaginn 6.). Svo virðist sem einna mest tjón hafi orðið í Stöðvarfirði. Meðan við bíðum eftir því að allar tölur berist á ritstjórnarskrifstofu hungurdiska (og veðrametingur geti hafist þar) skulum við rifja upp fáein illviðri sem komið hafa við sögu í firðinum. Til að fletta notar ritstjórinn atburðaskrá hungurdiska - töflu sem hann tók saman fyrir um áratug. Unnið hefur verið að þéttingu skrárinnar á undanförnum árum, en lítið er þar þó um nýlega viðburði. Ritstjóranum finnst einhvern veginn að önnur nörd (eða jafnvel opinberir aðilar) geti þar bætt um betur - en e.t.v. hefur enginn eða ekkert áhuga á slíkri vinnu.
Hvað um það. Ekki er mikið um illviðratíðindi frá Stöðvarfirði fyrr en um miðja síðustu öld. Ekki er þó hægt að ætla að þar hafi verið illviðralaust með öllu því við eigum til prýðilega lýsingu á vindum í firðinum. Höfundur hennar er séra Magnús Bergsson sóknarprestur í Stöð og er hún dagsett á gamlársdag 1839 (nálgast 200 árin). Magnús var því fljótur að svara tilmælum sem Hið íslenska bókmenntafélag beindi til klerka víðs vegar um land. Voru þessi tilmæli í spurningaformi. Beðið var um lýsingar á sóknum og háttum manna. Átta spurningar voru sérstaklega um veður. Svör Magnúsar eru meðal þeirra ítarlegustu í safninu.
[Kortaklippunni er stolið af vef danska þjóðskjalasafnsins. Það kom út í Frakklandi 1833].
Við rifjum hér upp svar Magnúsar við 22. spurningu í lista félagsins - og dáumst að orðfæri hans [xxii: Er þar veðrasamt? Og af hvörri átt og um hvörn tíma árs, mest eður minnst?]:
Í hreinni landátt er sveitin að kalla veðrasæl því sögn manna er að þar sjaldan sem aldrei komi stórveður af norðri, því er þar oft blíðalogn eða lítil kylja af þessari átt þegar í sveitunum hvoru megin, einkum Breiðdal, er grenjandi gustur af norðri. Hér leiðir það líka að í snjóvatíð rífur þar aldrei til jarðar, þar einungis þotvindur setur snjóinn í harðfennisfergjur, og yfir höfuð oftast í hörðustu vetrum minnstir landvindar.
Af hafaustri, austri, norðaustri, norðri og vestri koma þar engin veður er telja megi en af suðri, eður öllu fremur landsuðri, koma þar veður hin ógurlegustu, það standa stundum af miðjum fjöllunum sunnan megin fjarðarins og eru þá hörðust út í sveitinni en stundum standa þau fyrir andnes sömu fjalla; standa þau þá inn fjörð og eru hörðust á innsveitinni. Harka og afl þessara veðra framúrskarandi og ógurlegt, þau taka fjörðinn frá ysta til innst í einlægt rok upp á móts við tinda, flytja stundum steina úr stað, sem eru meðalmanns tak, rykkja jafnvel hálffreðnum þökum af húsum, kippa króm og hjöllum frá veggjum og endog rífa naglföst borð af húsræfrum. Um afl og óstjórn veðra þessara eru margar sögur, sem ótrúlegar virðast mættu, hvörra hér verður ei getið. Af því þetta ætíð eru þíðuveður fylgist og með þeim áköf stórrigning er eykst af vatnsdrífi því sem stormurinn með sér flytur, endog upp til dala, svo að þó áfrör og snjóar liggi á jörðu verður á skömmum tíma öríst. Þetta eru kölluð landsynningsveður og stendur á þeim dægrið, hálft annað og mest tvö dægur í senn, oftar linnir þeim upp á þann máta að hann snýr sér til norðvesturs og skírist þá loftið, en oft stendur ei nema litla stund á hvíld þeirri, mest tvo til þrjá daga.
Líka ber við að af norðvestri koma veður sem lítið gefa eftir landsynningnum að hörku nema hvað þau jafnvel fara fram með enn sviplegri rykkibyljum. Þessi veður eru oftast milli frosts og hláku en og stundum frostveður, en þó ber við að þau hafa snjóburð með sér. Þessi norðvestanveður sýnast því að vera sama átt sem landsynningur því á þeim stendur skamma stund og þegar hann gengur úr þeim gengur upp með landsynningsveðrið; sjaldan eru landsynningsveður nema í bestu vetrum en það er merkilegt að þau byrja með hausttímanum og hætta með vortímanum. Þeirra verður aldrei vart á sumri og það er ei þó hann sé að sunnan og útsunnan enda mundu þau þá og gjöra bráðan og óbætanlegan skaða á heyjum og fleiru.
Vafalítið má telja að þessi lýsing séra Magnúsar eigi enn vel við vindafar í firðinum - geri aðrir betur.
Síðan segir fátt af vindum í Stöðvarfirði fyrr en tjóns í hvassviðri er getið árið 1956. Þann 1. febrúar það ár gerði aftakaveður á landinu - um það má lesa í sérstökum pistli hungurdiska. Þar á meðal er stutt frétt um tjón í Stöðvarfirði:
Tíminn 3.febrúar 1956: Stöðvarfirði í gær. Í fárviðrinu í fyrrinótt urðu talsverð spjöll í Stöðvarfirði. Á Háteigi, sem er sveitabýli í firðinum fuku fjárhús og hlaða. Missti bóndinn þar talsvert af heyi og varð fyrir tilfinnanlegu tjóni. Það verður þó að teljast mikil heppni, að kindur, sem voru í fjárhúsinu sakaði ekki. Stóðu þær allar eftir lifandi í fjárhústóftunum, þegar húsin sjálf höfðu fokið ofan af þeim. Í Stöðvarfirði var veðrahamurinn mestur eftir hádegi í fyrradag og lengi nætur í fyrrinótt.
Næstu stórfréttir af foki í firðinum urðu haustið 1963. Þá gerði annað aftakaveður sem hungurdiskar hafa líka fjallað um sérstaklega. Við rifjum hér upp frásögn Morgunblaðsins sem birtist 26. október:
Stöðvarfirði, 25.október. Á miðvikudaginn [23.] brast hann á með sunnan- og suðvestan roki. Annað eins veður hefur hér ekki komið í mörg ár. Fuku margar járnplötur af húsum og þrír bátar, sem lágu á legunni sukku. Það voru 2 trillubátar og einn 9 tonna dekkbátur. Kafari var fenginn frá Norðfirði og vann hann að því í dag að ná dekkbátnum upp. Haft er eftir kafaranum, að bátnum hafi hvolft, því bæði möstrin væru brotin. Síðdegis i dag tókst að ná dekkbátnum upp og var hann talsvert skemmdur. Trillubátunum tókst að ná upp í gær. Það verk unnu eigendur þeirra með aðstoð hjálpfúsra. Bátarnir voru lítið skemmdir. Tíðarfar hefur verið fjarska umhleypingsamt í haust, en sumarið var yfirleitt ágætt. Stefán.
Árið 1972 varð stórtjón vegna sjávargangs á Austurlandi - þar á meðal í Stöðvarfirði. Frá þessu veðri er sagt í samantekt hungurdiska um árið 1972. Í fregnum frá Stöðvarfirði er tekið fram að ekki hafi verið tiltakanlega hvasst þegar sjávarflóðið varð. Við látum því nægja að vísa í fyrri pistil - þar er lýsing á aðstæðum.
Í mars 1976 varð tvisvar foktjón í Stöðvarfirði, fyrst þann 5. og síðan þann 21. Djúpt virðist á fregnum af þessu tjóni í blöðum, við vitnum hér í smáklausu í Veðráttunni, tímariti Veðurstofunnar. Þar segir: [5.] urðu allmiklar skemmdir á húsum í Stöðvarfirði, járn fauk af þökum og þak fauk í heilu lagi, og [21.] skemmdir urðu á hafnarmannvirkjum i Stöðvarfirði og Breiðdalsvík. Járn fauk af húsum og vinnupallur fauk. Kannski var fréttamat annað heldur en nú er.
Foktjón varð einnig tvisvar á Stöðvarfirði í desember 1982, þann 1. og 19. Fyrra veðrið var þar mun verra en hið síðara (en það síðara mun verra á landsvísu): Morgunblaðið segir frá 2.desember 1982:
Stöðvarfirði, 1.desember. Sunnan óveður gekk yfir Stöðvarfjörð í dag og urðu miklar skemmdir á húsum og bílum. Hvessa tók upp úr hádegi, en verst var veðrið um klukkan 16:00. Þakjárn fauk af mörgum húsum, stór hurð fauk af frystihúsinu og einnig fauk hurð af skemmu við síldarbræðsluna. Bílar fuku út í skurði og einnig brotnuðu rúður í nokkrum bílum og rúða brotnaði í barnaheimilinu og voru börnin send heim. Veðrið gekk fljótt yfir og um sexleytið í dag var farið að lygna aftur. Ekki er vitað um heildartjón i bænum, en ljóst að tjón hefur orðið talsvert. S.G.
Ekki þurfti að bíða mörg ár eftir næsta foktjóni á Stöðvarfirði, Morgunblaðið segir frá 4. febrúar 1986:
Stöðvarfirði, 27.janúar. Aðfaranótt sunnudagsins 26. janúar. sl. varð þó nokkurt tjón í suðaustan roki á Stöðvarfirði. Félagar úr Björgunarsveitinni Björgólfi voru fyrst kallaðir út skömmu eftir miðnætti, en þá höfðu m.a. fokið járn- plötur af húsum, rúður brotnað og ýmislegt fleira gengið úr lagi. Um kl.2 hafði verið lokið við lagfæringar á helstu skemmdunum og var þá mikið farið að lægja. Bjuggust flestir við því að eiga náðugar stundir það sem eftir lifði nætur. En það var bara lognið á undan storminum því um kl.5 sömu nótt hvessti hann aftur. Var áttin þá austlægari og sýnu hvassara en í fyrra áhlaupinu. Fyrst fauk stór hluti útihúsa og í sömu rokunni þeyttist lítill árabátur 2300 m og gjöreyðilagðist. Höfðu þó festingar hans verið treystar fyrr um nóttina. Brak úr útihúsunum mun hafa skemmt 2 íbúðarhús og bíl, en rúður brotnuðu í nokkrum farartækjum. Mesta tjónið varð þó við höfnina, en þar skemmdust 2 bátar, sem stóðu uppi á landi. Tókst þó að afstýra frekara tjóni með dyggri framgöngu smábátaeigenda og björgunarsveitarmanna, sem voru á þönum þar til veðrið fór að lægja. Ekki urðu teljandi skemmdir á smábátum þeim, er voru á floti í höfninni. Félagar úr björgunarsveitinni unnu allan sunnudaginn meðan að birtu naut við að tína saman járnplötur og hreinsa til eftir óveðrið. Steinar.
Á þessari öld er þess tvívegis getið í atburðaskránni að gámar hafi fokið í Stöðvarfirði og valdið skemmdum. Það var 6.janúar 2002 og 6.nóvember 2011.
Við látum þessa upprifjun duga að sinni.
Vitnað var í: Múlasýslur: Sýslu- og sóknalýsingar Hins íslenska bókmenntafélags 1839-1874, Reykjavík, Sögufélagið, 2000, s.447-448
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 22:04 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
4.2.2025 | 01:22
Smávegis af janúar
Janúar var kaldur - miðað við það sem verið hefur á þessari öld. Taflan sýnir hvernig hiti á spásvæðum raðast - röðin nær til 25 ára.
Þetta reyndist kaldasti janúarmánuður það sem af er öldinni á Norðurlandi eystra, Austurlandi að Glettingi og Austfjörðum. Að tiltölu var mildast á Miðhálendinu og við Breiðafjörð. Þar raðast hitinn í 19. hlýjasta sætið. Á landsvísu eru þrír janúarmánuðir síðustu 25 ára lítillega kaldari heldur en sá nýliðni. Næstu 25 árin á undan voru 13 janúarmánuðir kaldari heldur en sá nýliðni.
Það er svipað og að undanförnu að hlýtt er við mestallt norðanvert Atlantshaf, sérstaklega vestan við okkur.
Kortið hér að ofan sýnir þetta vel. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, jafnþykktarlínur eru strikaðar (daufar), en þykktarvik eru sýnd í lit. Hér er miðað við tímabilið 1981 til 2010, sem var nokkru kaldara heldur en það sem af er öldinni. Meðalhiti á landinu í nýliðnum janúar var -0,6 stigum neðan þessa meðaltals (1981-2010), nokkru neðar heldur en vikin voru í neðri hluta veðrahvolfs (+0,5°C). Þetta er í takt við stöðuna að undanförnu, neikvæðu vikin hafa einkum gert sig gildandi í allra neðstu 1500 metrum lofthjúpsins.
Vestanáttin í háloftunum var lítillega undir meðallagi, en sunnanáttin í slakasta þriðjungi dreifingarinnar - undir meðallagi sum sé. Skýrir það væntanlega hin neikvæðu hitavik.
3.2.2025 | 18:56
Óvenjudjúp lægð
Í dag komst loftþrýstingur við sjávarmál niður í 940,9 hPa á Siglufirði (óstaðfest tala). Þetta er óvenjulág tala og virðist vera sú lægsta sem mælst hefur á spásvæðinu Strandir og Norðurland vestra í febrúar. Við verðum þó að hafa í huga að þótt þrýstimælingar hafi staðið á landinu samfellt í rúm 200 ár var athugunarkerfið lengi vel mjög gisið - og þar að auki var ekki athugað þétt í tíma. Upplýsingar okkar um lágþrýstimet eru því ekki fullkomnar.
Líkan dönsku veðurstofunnar segir þrýsting í lægðarmiðju hafa komist niður í 936 hPa. Það verður þó seint staðfest.
Síðast fór þrýstingur lægra á landinu þann 15. febrúar 2020, þá var lægsta talan 932,9 hPa í Surtsey. Mikið illviðri gekk þá yfir landið og víða varð talsvert tjón. Veðrið varð reyndar einna verst þann 14. Lægðarmiðjan gekk ekki yfir landið, en greiningar giskuðu á að hún hafi verið á bilinu 919 til 922 hPa í miðju þegar verst lét. Tveir pistlar hungurdiska fjölluðu um þessa lægð.
Næst á undan mældist þrýstingur undir 940 hPa þann 30. desember 2015, sannkölluð ofurlægð sem gekk norður yfir landið, lægstur varð þrýstingurinn 930,2 hPa á Kirkjubæjarklaustri. Um þetta var fjallað á hungurdiskum. Eftirminnilegasta tjónið var e.t.v. af völdum sjávargangs á Austfjörðum. Sama ár, 2015, fór þrýstingur á Gufuskálum niður í 939,0 hPa þann 7. janúar, sömuleiðis getið á hungurdiskum.
Næstu fjögur tilvik á undan voru í janúar (1999, 1995, 1993 og 1990), mikil skaðaveður. Á aðfangadag 1989 fór þrýstingur á Stórhöfða niður í 929,5 hPa, og sama ár hafði hann farið niður í 931,9 hPa þann 5.febrúar. Vindur mun hafa haft töluverð áhrif til lækkunar þrýstings á stöðinni í þessum tilvikum báðum, slík vindhrif koma ekki fram í greiningum í líkönum. Í desembertilvikinu 1989 var vindhraði 48,9 m/s, en 46,8 m/s í febrúar (komst þá mest í 49,4 m/s).
Hér að neðan er einungis fjallað um febrúar. Næsta febrúartilvik á undan því 2020 var 8.febrúar 1982. Eftirminnilegt ritstjóranum, enda á vaktinni. Þrýstingur fór niður í 937,0 hPa á Keflavíkurflugvelli og var það þá lægsti þrýstingur sem mælst hafði á landinu frá 1942 að telja. Mannskaði varð í þessu veðri er bifreið fauk af vegi, en annars varð tjón minna en útlit hafði verið fyrir.
Þótt þrýstingur hafi ekki komist niður í 937 hPa frá 1942 þar til 1982 fór hann samt nokkrum sinnum niður fyrir 940 hPa á tímabilinu. Í febrúar þarf hins vegar að leita allt aftur til þess 8. árið 1925, í Halaveðrið svokallaða. Þá fór þrýstingur í Stykkishólmi niður í 934,1 hPa. Í febrúar 1922 mældist þrýstingur í Grindavík 935,2 hPa þann 19. Ekki var mikið tjón í því veðri, en þó eitthvað.
Tvær mjög djúpar lægðir fóru yfir landið seint í febrúar 1903. Á veðurstöð varð þrýstingur lægstur í Vestmannaeyjum þann 24., 932,3 hPa, en hafði farið niður í 933,0 hPa í Reykjavík nokkrum dögum áður á hinni opinberu veðurstöð. Jónas Jónassen landlæknir fylgdist vel með loftvog sinni og segir að hún hafi komist niður í 931,3 hPa bæði þann 20. og þann 24.febrúar, ekki er sérstök ástæða til að efast um það - en um nákvæmni loftvogar Jónasar er ekki vitað. Eitthvað var um tjón í þessum veðrum, einkum fjárskaða, en svo virðist sem þessar lægðir hafi verið búnar að brenna það versta úr sér þegar þær komu að landinu. Kannski hafa þær verið enn dýpri.
Á árunum 1822 til 1826 mældi Jón Þorsteinsson fjórum sinnum afarlágan loftþrýsting, í öll skiptin í febrúar. Þrisvar var þrýstingurinn neðan við 930 hPa, 926,5 hPa þann 8. febrúar 1822, 923,8 hPa þann 4. febrúar 1824 og 920,4 hPa þann 13. febrúar 1826. Danska vísindafélagið taldi síðastnefndu töluna ranga, en viðurkenndi þá næstlægstu og stóð hún (og stendur víða enn sem lægsta tala sem mælst hefur á veðurstöð á landi við Norður-Atlantshaf) - þrjósk tala. Jón var ágætur veðurathugunarmaður, en við vitum ekki nákvæmlega hversu hátt yfir sjávarmáli mælir hans var - þannig að aldrei verður vitað hverjar þessar tölur eru nákvæmlega. En ástæðulaust er að taka ekkert mark á þeim, þrýstingur hefur vafalítið verið sérlega lágur þessa daga. Tvisvar síðar mældi Jón lægri þrýsting heldur en 940 hPa, það var 5. mars 1834 og 21. janúar 1852. Eftir það þurfti að bíða 28 ár eftir næstu 940 hPa - en höfum gisið net og gisinn athugunartíma í huga.
Nú er gert ráð fyrir erfiðri tíð næstu daga, bæði með skakviðrum og úrhelli. Kannski fjöllum við eitthvað um það - telji ritstjórinn ástæðu til.
2.2.2025 | 16:03
Hitamet fellur
Hiti fór í 11,7 stig í Stykkishólmi seint í fyrrinótt (1.febrúar). Hámarkshitamælingar eru til í Stykkishólmi í gagnagrunni Veðurstofunnar aftur til 1854. Þetta er hæsta hámark sem mælst hefur þar í febrúar allan þennan tíma (172 ár). Næsthæsta hámarkið er frá því í febrúar 1942, 11,0 stig.
Í Reykjavík fór hið opinbera hámark í 9,7 stig. Það er reyndar dægurhámark - hæsti hiti sem mælst hefur 1.febrúar. Mánaðarmetið er hins vegar 10,2 stig, sem mældust þann 25. árið 2013, og tvisvar hafa mælst 10,1 stig, 8. febrúar 1936 og 16. febrúar 1942 (í sama veðri og gamla Stykkishólmsmetið). Nú gerðist það hins vegar að hiti fór í 10,3 stig á Reykjavíkurflugvelli, en þar var hin opinbera stöð einmitt staðsett á árunum 1950 til 1973. Það telst samt ekki methiti í Reykjavík - miðað við núverandi metaafgreiðsluhætti. Eiga slík formsatriði að ráða úrslitum í svona keppni?
En höfum í huga að metametingur af þessu tagi (stök met á einstökum stöðvum) telst frekar vera skemmtiefni heldur en alvara. Alvaran fellst hins vegar í stórfelldum breytingum á meðalhita - eða ítrekuðu metafalli á stórum svæðum.
1.2.2025 | 14:18
Djúp lægð?
Þótt skemmstu spár hafi staðið vel fyrir sínu þessa síðustu daga hefur hringl verið með mesta móti í 3 til 4 daga spám. Dæmi um það er lægðin sem á að koma að landinu á sunnudagskvöld. Í fyrradag (á fimmtudag) var hún að vísu talin verða nokkuð gerðarleg, en átti að fara yfir landið austanvert um 960 hPa í miðju - og ekki valda teljandi veðri að sögn evrópureiknimiðstövðarinnar.
Síðan hafa ýmis afbrigði birst, eiga það þó sameiginlegt að gera lægðina mun dýpri heldur en áður hafði verið reiknað með. En enn er þó reiknað með að aðkoma hennar að landinu verði ekki af verstu gerð - miðað við dýptina sem í nýjustu spá reiknimiðstöðvarinnar á að vera 937 hPa í miðju. Þar með er komið niður í það sem verður að teljast óvenjulegt - og það er enn óvenjulegra að þessi lægsta tala á að vera í lægðinni norðan við land.
Við sjáum hér spákort sem gilda á um hádegi á morgun, sunnudag. Þá er sunnanátt á landinu, en mjög vaxandi lægðasvæði fyrir sunnan land. Fyrri lægðin virðist ekki ætla að ná sér verulega á strik - hefur eitthvað mistekist við stefnumót það sem myndaði hana. Þá er það spurning hvað gerist með aftari lægðina, dýpkunin mikla byggir á því að þessar lægðir geti á einhvern hátt sameinast. Það gerist þá helst þannig að aftari lægðin tekur fram úr þeirri fyrri - rétt austan við hana - þannig að hún nái að grípa hana með sér, en jafnframt hægir á - svo allt kerfið þýtur ekki langt norðaustur í haf - eins og vel gæti gerst. Fyrri lægðarmiðjan á nú að fara í stefnu á Suðvesturland, en sú síðari í stefnu yfir landið austanvert og dýpka verulega yfir landinu. Kannski þrýstingur komist niður fyrir 950 hPa á einhverri veðurstöð landsins.
Rúmum sólarhring síðar, kl.18 síðdegis á mánudag hafa lægðirnar sameinast og eru 937 hPa í miðju. Þótt spár séu ekki sérlega grimmar varðandi vind og úrkomu er samt allur varinn góður í stöðu sem þessari - ekki síst vegna þess hringls sem verið hefur í spánum. Það er furðuhlýtt í þessari lægð og sé það raunverulegt dregur það úr áhættu varðandi hana.
En það er ekki oft sem 937 hPa lægðir sjást á þessum slóðum, þær eru algengari sunnan við land. Eitthvað óvenjulegt á ferð - og rétt að gefa gaum.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.4.): 1
- Sl. sólarhring: 152
- Sl. viku: 1582
- Frá upphafi: 1
Annað
- Innlit í dag: 1
- Innlit sl. viku: 1435
- Gestir í dag: 1
- IP-tölur í dag: 1
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010