12.10.2024 | 21:18
Meira af kulda (í Möðrudal)
Síðastliðna nótt (aðfaranótt 12. október) mældist frost -17,7 stig í Möðrudal (á Efra-Fjalli - eins og sagt var hér áður fyrr). Veðurstöðin er hæsta byggðastöð landsins 452 metra yfir sjávarmáli. Góð skilyrði eru þar til myndunar grunnstæðra hitahvarfa - til þess að gera sléttlent. Stöðin á 124 af 366 landsdægurlágmarksmetum landsins - þar af þrjú með Grímsstöðum á Fjöllum. Flest þessara meta eru frá tíma mönnuðu stöðvarinnar, en sjálfvirka stöðin er þó - á okkar hlýindatímum - búin að hirða tíu (metið í nótt það tíunda). Í kyrrstöðutíðarfari eru sett 2 til 4 ný landsdægurlágmarksmet á ári, en þeim hefur áberandi fækkað í þeim hlýindum sem hafa verið ríkjandi síðustu áratugi.
Á síðari árum hafa stöðvar bæst við til fjalla, mun hærra í landi heldur en byggðir ná. Þær stöðvar hafa auðvitað náð í mörg dægurmet, en það er ákveðin tregða hjá ritstjóra hungurdiska að telja þær með í langtímasafni byggðastöðvanna. Möðrudalur á samt enn 94 landsdægurlágmarksmet á samkeppnislista allra stöðva.
Nokkur árstíðasveifla er í metasækni Möðrudals. Stöðin er líklegri til að setja landsdægurmet að vetrarlagi heldur en á sumrin. Eftir að sól hefur brætt allan snjó á vorin hitar hún jarðveginn sem síðan sér um að forða metum yfir blásumarið - svona yfirleitt, Möðrudalur á þannig aðeins fjögur landsdægurlágmarksmet í júlí og tvö í júní - þau ættu að vera tíu í hvorum mánuði dreifðust þau jafnt á alla mánuði ársins.
Hitamælisaga Möðrudals er býsna köflótt. Byrjað var að athuga þar í júlí 1886, en fjölmargar eyður eru í mæliröðinni, sumar langar, t.d. frá því í apríl 1902 til mars 1903. Árið 1907 lenti athugunarmaður upp á kant við dönsku veðurstofuna og féllu þá athuganir niður í tvö ár.
Verstu götin komu þó á tímabilinu 1930 til 1944 og síðan aftur frá 1964 til 1976. Eftir það voru gerðar mannaðar mælingar til 2010. Sjálfvirkar mælingar byrjuðu síðan árið 2003 þannig að nokkur ár eru til samanburðar. Sáralítill munur var á ársmeðalhita sjálfvirku og mönnuðu stöðvanna, reiknast 0,0 stig, en lítilsháttar munur er á mánaðarmeðaltölum, ástæðan fellst trúlega í ónákvæmni í dægursveifluáætlun fyrir mönnuðu stöðina. Ætti að vera að hægt að leiðrétta hann þegar farið verður í endurskoðun reikninga á meðalhita stöðvarinnar.
Í nótt (12.október) var einnig mikið frost á Grímsstöðum á Fjöllum, -15,8 stig. Hefði það orðið nýtt landsdægurmet hefði Möðrudalur ekki gert enn betur. Eldra metið var -13,9 stig, sett í Möðrudal 1996. En -14,4 stig mældust við Setur sunnan Hofsjökuls 1999. - Nýja metið í Möðrudal hirti því stig af hálendinu í dægurmetakeppninni (sem nördin fylgjast spennt með - alla daga).
Þetta (-17,7 stig) er óvenjumikið frost svo snemma hausts. Við vitum um tvö eldri tilvik með meira frosti í Möðrudal fyrr. Það var 27. september 1954 þegar frostið mældist -19,6 stig. Þykir jafnvel ótrúlegt, því þótt sérlega kalt hafi verið um þær mundir munar nokkru á þessari tölu og þeirri næstlægstu. Við lítum nánar á það hér að neðan. Hitt tilvikið var 9. október 1892 þegar frostið mældist -18,2 stig - við lítum líka nánar á það hér að neðan. Litlu munar á mælingunni nú og þeirri úr Svartárkoti 3.október 2008, -17,4 stig, í hrunkuldanum svokallaða. Um hann má lesa í gömlum hungurdiskapistli.
Við skulum (sumum e.t.v. til gamans - en öðrum til þrautar) líta á athuganir í Möðrudal dagana köldu í september 1954 og október 1892. Um þessi ár almennt má lesa í yfirliti hungurdiska (1954) og (1892).
Skeytabókin úr Möðrudal í september 1954 er nokkuð snjáð - athugunarmaður (Jón Jóhannesson) ekki lagt í hreinritun - enda er stundum varasamt að standa í slíku. Myndina má stækka.
Möðrudalur var skeytastöð á árinu 1954, sendi skeyti fjórum sinnum á dag - og gerði athugun kl.21 að kvöldi þar að auki. Hver athugun náði þvert yfir opnu í skeytabókinni - hita- og úrkomumælingar (og fleira) á vinstri síðu, en skeyti á þeirri hægri. Í efstu línu er hitamæling kl.21 þann 26. september. Þá sýnist hiti vera 64 stig. Í skeytalykli þess tíma var ekki hægt að senda mínusmerki. Það var leyst með því að draga 50 frá hitanum (og sleppa svo mínusmerkinu: -14-50=-64, sent sem 64). Flestir athugunarmenn skrifuðu þó þá tölu aðeins í skeytadálkinn (við sjáum hann ekki) - en hér hefur Jón notað 64 fyrir -14. Starfsmaður Veðurstofunnar hefur síðan krotað í það með rauðu - sett mínus fyrir framan og krotað töluna 1 ofan í 6. Heildarmyndin verður því subbulegri en hún var í frágangi athugunarmanns - og gerir allt ólæsilegra nú 70 árum síðar.
Í næstu línu er athugunin kl.9 að morgni þess 27. Í fyrsta dálki er hiti á loftvog (sem ekki var notuð - en kannski er þetta hitinn inni í húsinu í Möðrudal, líklega 11,5 stig. Síðan kemur hitinn -18,0 stig og nokkrum dálkum þar aftan við er lágmarkshitinn, -20,0 (eða 70 eins og athugunarmaður ritar). Hámarksaflestur er þar aftan við, 55,0 stig, eða -5,0. Neðan við lágmarkshitatöluna (í sviga) er síðan svokölluð sprittstaða lágmarksmælisins. Það er sá hiti sem mælirinn sýnir þegar athugun er gerð, 68,4 stig (-18,4). Í hinum fullkomna heimi á hún að vera sú sama og hiti þurra mælisins (aðalmælis) sýnir, en munar 0,4 stigum í þessu tilviki, sprittstaðan er -0,4 stigum lægri (en hún ætti að vera. Þessi munur er reiknaður á hverjum degi í gegnum mánuðinn. Þá fæst út líkleg leiðrétting á lágmarksmælinn - og svo vill til að í þessum mánuði er meðalskekkjan einmitt 0,4 stig. Stigin -20 sem lesin voru af lágmarksmælinum verða þannig að -19,6 stigum - það er mettalan. Lægsti hiti sem mælst hefur á Íslandi í september.
Við sjáum af þessum tölum öllum að ekki er ástæða til að efast um að afspyrnukalt hafi verið þessa nótt, en aftur á móti er engin von til þess að fullyrða að lágmarkstalan hafi einmitt átt að vera -19,6. Yfirferð á athugununum sýnir að tilhneigingar gætir til að lesa af öllum mælum með 1 stigs nákvæmni (ekki er það þó alveg regla). Sú nákvæmni er alveg nægileg til að reikna mánaðarmeðalhita, en neglir ekki met á tíundahluta. Hefði sjálfvirk stöð verið í Möðrudal eru talsverðar líkur á að lokatalan hefði orðið önnur heldur en -19,6 - en ekki langt í frá þó.
Handritið úr Möðrudal frá 1892 lítur allt öðru vísi út.
Afskaplega hreint og snyrtilegt allt saman hjá Stefáni Einarssyni. Greinilegt afrit, sem undirritað var 1. apríl 1893. Við tökum strax eftir því að enginn lágmarksmælir var á staðnum - og að lesið er í heilum stigum. Danska veðurstofan hefur strikað með rauðu undir lægsta og hæsta hita mánaðarins. Þann 4. og 5. fór hiti í +5 stig kl.14. Hvaða klukku Stefán notaði vitum við ekki - líklega sólina á þessum tíma árs, líklega er þetta þá um kl.15 að okkar tíma. Að morgni þess 9. mældist hitinn -18 stig.
Hér er því við sama vanda að etja og áður. Talan er ekki nákvæm nema upp á eitt stig, hvort stöðin sem er á staðnum í dag hefði mælt nákvæmlega -18,0 er mjög óvíst, raunar ólíklegt.
Þess má geta að október 1892 var almennt talinn hagstæður og stilltur mánuður, þó árið í heild sé eitt það kaldasta sem við vitum um.
Þeir sem rýna í blaðið geta séð blýantsfærslur í aftasta dálki og sömuleiðis skrifað t -0,2 (neðst til hægri á myndinni). Við vitum að það er leiðrétting sem danska veðurstofan notar á hitann. Kannski könnuðu þeir mælinn áður en hann var sendur á stöðina. Lægsta tala mánaðarins verður þannig -18,2, og landsdægurlágmarksmet þ.9. sem staðið hefur allt til okkar daga.
Tölurnar í aftasta dálki sýna meðaltal þriggja athugana á dag. Sumar veðurstofur notuðu slík bein meðaltöl við reikninga mánaðarmeðaltala. Danska veðurstofan gerði það ekki, þar á bæ var leiðrétt fyrir skorti á næturathugun - rétt eins og enn er gert. Bandaríska Smithsonian-stofnunin var áskrifandi að klukkumeðaltölum dana og reiknaði meðaltöl fyrir íslenskar stöðvar sem beint meðaltal - rétt eins og við sjáum í blýantsdálkinum hér. Vetrarhelming ársins er ekki mikill munur á slíkum reikningum og þeim aðferðum sem danska veðurstofan notaði (og þeim sem Veðurstofan notar í dag). Á sumarhelmingi ársins er hins vegar vel marktækur munur, svo mikill að bandaríska veðurstofan (og aðrir aðilar vestra) þurfa að leiðrétta allar eldri tölur frá Íslandi (eins og auðskilið hlýtur að vera) til að ná samræmi við mælingar síðustu áratuga. Sumarhiti fortíðarinnar eru þannig lækkaður. Margir fást ekki til að skilja nauðsyn þessarar ákveðnu leiðréttingar.
Vísindi og fræði | Breytt 13.10.2024 kl. 02:47 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
12.10.2024 | 02:47
Kalt - en hversu óvenjulegt?
Það er heldur svalt þessa dagana. Ritstjóri hungurdiska lítur alloft á töflur sem sýna tíðni mismunandi þykktar yfir landinu. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs, því lægri sem hún er, því kaldara er loftið. Þessi þykktarmælikvarði getur hins vegar verið nokkuð langt frá réttu lagi þegar kemur að hita á einstökum veðurstöðvum. Þar geta staðbundin hitahvörf ráðið mjög miklu, sérstaklega á björtum og hægum nóttum.
Myndin - sem við lítum á okkur veðurnördum til hugarhægðar (við þurfum lítið) sýnir tíðni þykktargilda yfir landinu samkvæmt era5-endurgreiningunni fyrri hluta októbermánaðar. Hún nær hér til tímabilsins 1940 til 2022 - og mælt er á 6 klst fresti, 4980 mælingar alls. Núna - þegar þetta er skrifað - er þykktin um 515 dekametrar (5150 metrar) - við sjáum á myndinni að það er mjög lágt (merkt með lóðréttri strikalínu), en langt frá lágmarksmetinu, sem sett var 1971. Þá kom alveg sérlega kaldur dagur. Árið 1971 var síðast hafísáranna svonefndu - og satt best að segja væntu menn þess að 1972 yrði líka hafísár - svo skæð kuldaköst gerði þegar vindur snerist til norðurs þetta haust. En ekkert varð úr því, veturinn varð í hópi þeirra hlýrri, einn fárra hlýrra vetra á kuldaskeiðinu sem við enn minnumst.
Það eru alls 76 tilvik sem eru jafnlág eða lægri heldur en það sem við nú upplifum - aðeins um 1,5 prósent allra tilvika. Þau dreifast langt í frá jafnt - koma í klösum og eru flest raunar úr miklu og nokkuð langvinnu kuldakasti í fyrri hluta október 1981 (sem eldri nörd muna vel). Mun færri eru úr áðurnefndu kasti 1971 og síðan svona á stangli gegnum árin. Raunar voru nokkur (samliggjandi auðvitað) tilvik í fyrra, en annars ekki síðan 2010 og 2009.
Dreifingin hegðar sér annars nokkuð skikkanlega. Hún er þó skökk - halinn kaldara megin er mun lengri heldur en sá hlýi. Er þess að vænta hér á landi - kuldaköst tengjast kuldapollum eða köldum lægðardrögum en hlýindi hlýjum hæðum eða hæðarhryggjum. Meiri fyrirferð er í þeim síðarnefndu heldur en lægðunum og lægðardrögunum - sem eru að jafnaði snarpari.
Það er skemmtilegt þrep í dreifingunni á milli 523 og 524 dekametra og raunar e.t.v. annað hinumegin á milli 549 og 548 dam. Eitthvað raunverulegt sjálfsagt við þessi þrep.
11.10.2024 | 13:07
Fyrstu tíu dagar októbermánaðar 2024
8.10.2024 | 22:52
Tíu stiga syrpur (tíu árum síðar)
Það var í fyrradag (sunnudaginn 6.október) sem hámarkshiti á landinu náði ekki tíu stigum. Haustið 2014 birtist hér á hungurdiskum stuttur pistill þar sem fjallað var um slík tímamót - og lengd samfelldra tímabila daga þar sem landshámarkshiti er tíu stig eða meira. Í þessum gamla pistli er fjallað um alls konar vandamál tengd slíkri mælingu - rétt er að vísa þeim sem eru sérstaklega áhugasamir um slíkt í gamla pistilinn.
En nú eru allt í einu liðin 10 ár (fyrirvaralaust) og e.t.v. rétt að athuga hvað gerst hefur síðustu tíu árin. Meginvandamálið við tímaröð sem nær til landsins alls er einfalt: Stöðvakerfið er alltaf að breytast - og ekkert víst að kerfið sem var við líði fyrir 60 árum hefði mælt sömu lengdir tímabila og kerfið gerir í dag - nánast öruggt að það gerir það ekki. Hitamælistöðvum hefur fjölgað - og þar með hafa líkur aukist á því að hitta á 10 stig einhvers staðar - sérstaklega í blábyrjun og bláenda samfelldra tímabila.
Súlurnar sýna lengd lengsta tíustigakafla hvers árs, en rauða línan er 10-árakeðja. Lengst lifðu 10 stigin á landsvísu 2001 og 1961 - þau sumur fá samt engin sérstök verðlaun í gæðametingi - og við sjáum að nýliðið sumar, 2024, skorar vel, með 169 daga, 27 dögum fleiri en langtímameðaltalið (1949-2024). Sumarið 2021 sker sig úr nýliðnum sumrum með aðeins 103 daga. Þá kom einn spillidagur, 13. júní - hefði tekist að mæla 10 stig þann dag hefði lengdin á samfellunni orðið 147 dagar - slefað meðallagið. Við sjáum af þessu að lítil von er til þess að við getum notað stök ár í greiningu sem þessari í umræðum um veðurfar.
Hins vegar sjáum við að 10-árakeðjan hefur svipaðar hneigðir og hitafar almennt. Köldu áratugirnir mynda dæld - 10-ára meðaltalið fer niður í 128 daga (1969-1978) og upp í 160 (2004 til 2013).
Í gamla pistlinum litum við líka á Reykjavík. Þar hófust samfelldar hámarkshitamælingar árið 1920.
Við sjáum hér svipaða hluti. Kalda tímabilið sker sig nokkuð úr á milli þeirra hlýju. Meðaltal alls mæliskeiðsins er 81 dagur. Í ár, 2024, fengum við 74 samfellda daga með tíu stiga hámarkshita eða meira, svipað og þrjú árin næst á undan. Styst var tímabilið 1983 - sundurklippt með mest 11 daga samfellu. Lengsta samfellan var 2009, 133 dagar og litlu færri 2017 (131).
Tíudagasamfellur eru áberandi styttri á Akureyri heldur en í Reykjavík. Dagar með norðanátt eru kaldir - gefa lítinn möguleika á tíu stigum. Meðallengd lengstu syrpu ársins er aðeins 44 dagar (1938 til 2024). Í sumar var lengd syrpunnar 34 dagar, tíu færri en að meðaltali. Lengsta syrpan var sumarið 2018, 89 dagar, en styst 1963, aðeins 16 dagar, sem er þó lengra heldur en 11 dagasyrpan í Reykjavík 1983. Það vekur athygli að á tímabilinu 1956 til 1990 nær varla nokkurt ár langtímameðaltalinu, nema 1976, en frá og með 1991 fjölgar löngum syrpum og hæsta 10-ára meðaltalið er 64 dagar (2005 til 2014).
Kannski segir þetta einhverjum eitthvað (og kyndir e.t.v. einhverja nördaelda).
5.10.2024 | 21:28
Hugsað til ársins 1944
Árið 1944 var talið umhleypingasamt, en miðsumarið þótti sérlega gott. Mjög umhleypingasamt var í janúar, haglítið var vestanlands og sunnan og tíð þar óhagstæð - svipað var fyrir norðan, en góð tíð var á hluta Austurlands og snjólétt þar. Febrúar var einnig umhleypinga- og úrkomusamur, lengst af snjóþungt og gæftir slæmar. Mars var umhleypingasamur á Suðurlandi, en hagstæðari fyrir norðan og austan. Gæftir nokkuð góðar. Þokkaleg tíð var í apríl, nema sums staðar norðaustanlands og gæfir dágóðar. Kalt var með köflum í maí, en betri kaflar á milli. Gróðri fór seint fram, en gæftir voru þokkalegar. Júní var kaldur, þurr og gróðurlítill í fyrstu, en síðan varð hlýrra og votviðrasamara og þá spratt vel. Tíð var óvenjugóð í júlí, sérlega þurrt var þá norðaustanlands. Nýting heyja með afbrigðum góð víðast hvar. Í ágúst varð öllu votviðrasamara heldur en í júlí, en nýting heyja þó sæmileg. September var umhleypinga- og votviðrasamur, einkum síðari hlutinn. Uppskera úr görðum var góð. Október og nóvember voru mjög umhleypingasamir, heldur kalt í nóvember. Desember þótti nokkuð umhleypingasamur.
Við förum yfir helstu veðurtíðindi ársins eins og þau komu fram í blöðum (timarit.is) og í Veðráttunni, tímariti Veðurstofunnar - og nýtum að venju gagnagrunn Veðurstofunnar. Við vitnum óvenjuoft í yfirlit veðurathugunarmanna - vegna fréttaleysis í blöðum. Við leyfum okkur að stytta textana og oftast er stafsetningu hnikað til nútímahorfs. Vonandi sætta höfundar sig við það. Mikið var um sjóslys á árinu, trúlega tengdust sum þeirra stríðinu á einhvern hátt og verður hér ekki gerð grein fyrir þeim öllum - það hefur verið gert betur annars staðar.
Stríðið hafði mikil áhrif á fréttaflutning - fréttir af veðri voru oft nokkuð takmarkaðar - síðan var eitt langt blaðaverkfall á árinu. Það stóð, má segja, allan októbermánuð og rétt rúmlega það.
Dagana 18. til 22. júlí gerði óvenjulega hitabylgju um stóran hluta landsins. [Í gömlum hitabylgjupistli á hungurdiskum má sjá hana talda þá fjórðumestu á landinu frá 1924 til 2011] Það var misjafnt eftir stöðvum hvaða dagur varð hlýjastur. Hæst komst hitinn í 26,7 stig í Síðumúla í Borgarfirði þann 21. og sama dag mældist hitinn 26,5 stig á Þingvöllum. Þetta reyndist hæsti hiti ársins. Í Reykjavík fór hitinn þessa daga hæst í 22,3 stig og 23,1 stig á Víðistöðum í Hafnarfirði. Mánuði áður, þann 23.júní hafði hiti komist í 26,0 stig á Akureyri. Veðurathugunarmaður í Papey segir hámarkshita þar hafa komist í 22,0 stig þann 19.júlí - en ekki hefur það staðið lengi, slíkur hiti er mjög óvenjulegur þar um slóðir. Dægursveifla hitans var mikil þessa daga inn til landsins. Veðurathugunarmaður á Hallormsstað segir t.d. þann 17. að kartöflugras hafi skemmst. Lágmarkshiti næturinnar þar var 0,2 stig, en hámarkshiti dagsins varð 25,0 stig. Aðra mjög væna hitabylgju gerði snemma í ágúst. Nokkrir óvenjuhlýir dagar komu líka í september og fyrsti nóvember varð einnig óvenjuhlýr.
Í lok júlímánaðar, eftir að hitabylgjunni lauk komu fáeinar mjög kaldar nætur og fraus jafnvel á nokkrum stöðvum. Mesta frostið mældist -4,0 stig í Núpsdalstungu að morgni þess 27. Sama morgun fór hiti niður í 0,5 stig á Akureyri, það næstlægsta sem þar hefur nokkru sinni mælst í júlímánuði. Næturfrost gerði einnig í byggð í ágúst.
Tíðarfarið í janúar var umhleypingasamt og skiptust á frost og spilliblotar. Áfreði og klaki var víða til vandræða svo óvenjulegt þótti. Gæftir voru slæmar. Við lítum fyrst á nokkrar athugasemdir veðurathugunarmanna. Við tökum eftir því að flestir kvarta, en þó var besta tíð og nær alauð jörð austur á Héraði:
Síðumúli (Ingibjörg Guðmundsdóttir): Janúarmánuður var slæmur, sífelldar snjókomur og rigningar, frost og stormar. Nú er meiri snjór hér, en komið hefir um nokkurra ára skeið.
Stykkishólmur (Magnús Jónsson). Umhleypingar og úrkoma, ýmist snjókoma eða rigning. Jarðlaust fyrir allar skepnur, snjóþyngsli eru ekki mikil, en jörð er svo klakarunnin, allir flóar og sund ein klakabreiða.
Lambavatn (Ólafur Sveinsson). Það hefir verið kalt og umhleypingar svo allt hefir hlaupið í svell. Því allstaðar jarðlítið og jarðlaust yfir allan mánuðinn. 18. mánaðarins gerði stórgerðan vestangarð og festist þá svo mikill krapi á símalínuna vestur yfir Skersfjallið að hún slitnaði í sundur. Er það í fyrsta sinn síðan síminn var lagður að hann hefir bilað nokkuð að teljandi sé.
Suðureyri (Kristján A. Kristjánsson): Sönn vetrarveðrátta í harðara lagi, snjókoma - umhleypingar - hjarn - kuldi - hvassviðri með köflum og jarðbönn fyrir fénað. Mildari kafli um miðbik mánaðarins orkaði litlu. Sjógæftir fáar og lélegar. Afli góður.
Blönduós (Þuríður Sæmundsen): Tíðarfarið í mánuðinum umhleypingasamt og kalt. Víða t.d. til dala með öllu jarðlaust fyrir hross. Útlitið mjög harðindalegt og slæmt.
Siglunes (Jón Þórðarson): Tíðarfar í þessum mánuði hefir verið með afbrigðum óstillt og umhleypingasamt og svellalög með fádæmum og að kvöldi þ.30. gerði slyddu og regn sem hljóp í svellstorku um leið svo nú er illfært milli húsa fyrir hálku. 26. gerði ofsaveður með mikilli fannkomu. Veðrið náði hámarki um kl.8 að kvöldi og mun veðurhæð hafa komist upp í 10 þegar hvassast var.
Sandur (Friðjón Guðmundsson): Óstöðug og stormasöm vetrarveðrátta, en frekar snjóa- og frostlítil. Hagi fremur slæmur vegna harðfennis.
Reykjahlíð (Pétur Jónsson): Heldur stirð veðurátta þennan mánuð. Allmikil snjókoma bæði fyrst og seinast, en hlákur litlar um miðjan mánuð. Svo litlar að jörð varð aldrei hrein alltaf svelluð rót.
Nefbjarnarstaðir (Jón Jónsson): Tíðarfar í mánuðinum var fremur kalt og tíð óstöðug. Úrkomur litlar og góðir hagar.
Hallormsstaður (Páll Guttormsson): Það var snjólaust, jörð alauð nema seinustu 3 daga mánaðarins. Þá varð alhvítt.
Fagurhólsmýri (Helgi Arason): Nokkrir snjóbyljir komu í mánuðinum. 26. var mikill bylur og jukust þá mjög fannir. Í mörg undanfarin ár hafa hér ekki komið aðrar eins fannir.
Loftsalir (Guðbrandur Þorsteinsson): Um tíð er það eitt að segja að hún hefur verið bara slæm. Umhleypingar með stormum og snjókomum miklum, einkum síðustu daga mánaðarins sem og allmiklu frosti við og við. Samt teljum við eldri menn tíðarfarið svokallaðar hafhörkur. Samt ekkert skeð til skaða eða skemmda hér í nálægðinni.
Sámsstaðir (Klemenz Kr. Kristjánsson): Tíðin óvenju óhagstæð allan mánuðinn. Frost, snjóar og byljaveður verið daglegt veðurfar. Öllum fénaði varð að gefa, því beit varð engin að kalla. Janúar með köldustu mánuðum sem komið hafa nú um langt skeið.
Grindavík (Jón Engilbertsson): Þann 11. allan daginn ofsaveður. Snemma morguns rauf járn af einu íbúðarhúsi, nokkrar plötur. Nokkur pakkhús og fiskhús löskuðust, 2 járnplötur fuku af kirkjuþakinu og fleiri smærri skemmdir.
Janúar var mikill sjóslysamánuður. Versta slysaveðrið gerði þann 10. til 11. Þá strandaði flóabáturinn Laxfoss við Örfirisey, mannbjörg varð, en skipið laskaðist mikið, en varð þó bjargað um síðir. Átta árum síðar strandaði Laxfoss svo aftur og þá endanlega. Þ.11. Lentu bátar frá Vestmannaeyjum og Keflavík í hrakningum. Þök fuku af húsum í Grindavík. Símabilanir urðu og fjallvegir tepptust. Elliðaárnar stífluðust af snjó, og rafstöðin rofnaði úr sambandi. Erlent skip strandaði við Lundey skammt frá Geldinganesi. Mannbjörg varð. Togarinn Max Pemberton fórst út af Snæfellsnesi með allri áhöfn.
Morgunblaðið segir frá skíðaferðum 4.janúar:
Fjöldi reykvíkinga notaði hátíðisdagana um nýárið til að fara á skíði í nágrenninu. Á nýársdag voru um 200 manns á Hellisheiði við Skíðaskálann, þar af voru um 70 með Skíðafélagi Reykjavíkur. Fimmtíu manns gistu í skálanum. Skíðafæri var gott á nýársdag (8 stiga frost). Á sunnudag fór að skafa og í gær var harðfenni þar efra. Milli 10 og 20 manns voru á skíðum í gær. Snjór er ekki mjög mikill. Lítill snjór á háfjöllum og skafið milli hrauns og hlíða, en víða má samt finna ágætis skíðabrekkur.
Myndin sýnir flóabátinn Laxfoss við bryggju í Borgarnesi. Rétt að taka fram að ritstjórinn veit ekki hver tók myndina, líklega hefur hún birst í einhverju almennu prenti - liturinn bendir til þess. Upplýsingar um uppruna myndar eru vel þegnar.
Morgunblaðið segir frá Laxfossstrandinu þann 11.janúar. Effersey = Örfirisey, 7 1/2 er sennilega hálfátta frekar en hálfsjö (en er ekki alveg viss). Takið eftir því hversu margir voru um borð - efni í stórkostlegt slys:
Laxfoss strandaði í gærkvöldi [10.] á skeri norður af Effersey kl. 7 1/2 (ath). Farþegar, um 100 manns, náðust í land um og eftir miðnætti. Mikill sjór kom í skipið strax eftir strandið. Óvíst er um björgun þess. Veður var mjög dimmt, hríð og hvassviðri mikið.
Morgunblaðið segir líka frá ófærð 11.janúar:
Morgunblaðið átti í gærkvöldi tal við Mjólkurbú Flóamanna og spurði um orsakir fyrir erfiðleikum við flutninga mjólkur hingað til bæjarins, kvað bústjórinn engar bifreiðir að austan hafa komist til Reykjavíkur í dag. Urðu þær allar að snúa við til Kolviðarhóls vegna þess að efst í Svínahrauni varð algerlega ófært. Bifreiðir, sem fengnar voru frá Reykjavík, til þess að reyna að komast til Kolviðarhóls, sátu fastar neðst í Svínahrauni. Það var þetta, sem stöðvaði mjólkurflutninga í gær.
Daginn eftir, 12.janúar segir Morgunblaðið frá fleiri óhöppum og vandræðum:
Miklar símabilanir hafa orðið víðsvegar um land í hríðarveðrinu. Er ekki enn fullkunnugt hve miklar þær eru, en í gærkvöldi var ekki samband við Vestur- og Norðurland og heldur ekki austur. Gott samband var við Vestmannaeyjar og Selfoss, en lengra austur mun ekki hafa verið samband. Ekki var samband við Borgarnes né Akranes.
Morgunblaðið segir af öðru slysi á sundunum við Reykjavík í pistli 13.janúar:
Í fyrradag [11.] bárust fregnir um það til hafnsögumanna hér, að skip hefði rekið upp í Lundey, sem er norðaustur af Geldinganesi. Magni var þegar sendur inn eftir til að athuga þetta. Með Magna voru, auk skipshafnarinnar og skipstjórans, Björns Guðmundssonar, Einar Jónasson hafnsögumaður og nokkrir verkamenn frá höfninni. Í Lundey voru 25 erlendir skipbrotsmenn. Hafði skip þeirra rekið upp í eynni, sennilega um líkt leyti og Laxfoss strandaði. Komust skipverjar í land og höfðust þeir við í kofa einum um nóttina, og leið þeim illa þar og urðu fyrir talsverðu volki.
Vísir segir frá símslitum 13.janúar:
Símasamband er komið á til Norðurlandsins, en enn sem komið er er það ekki gott. Vestfjarðalínurnar eru óslitnar, en sambandið við Vestfirði er samt mjög slitrótt og veldur því aðallega bilun í Borgarfirði, sem enn er ekki búið að gera við. Hún er á milli Hvalfjarðar og Geitabergs. Símasamband við Grindavik er rofið. Höfðu línur þar í grennd farið illa, en nú er verið að koma þeim í lag. Á línunni austur slitnaði síminn á Breiðamerkursandi. Átti að gera við hann í gær, en ekki hægt að komast austur á sandinn vegna stíflu í á, sem er á leiðinni.
Nokkra daga tók fyrir fréttir að berast af langversta slysinu í þessu illviðri. Morgunblaðið segir frá 14.janúar:
Menn eru farnir að verða kvíðnir um afdrif togarans Max Pemberton, sem var væntanlegur hingað af fiskveiðum síðastliðinn þriðjudag [11.], en sem ekkert hefir heyrst til síðan snemma á þriðjudagsmorgun s.l. er skipið var statt undan Malarrifi á Snæfellsnesi. Þrjátíu menn eru á skipinu. Skipstjóri er Pjetur Maack. Útgerð skipsins fékk skeyti frá togaranum klukkan 6 síðastliðinn mánudag, þar sem skipstjórinn sagði, að hann myndi koma til Reykjavíkur um miðnætti það kvöld. En klukkan 19:40 um kvöldið kom annað skeyti, þar sem skýrt var frá því, að skipið myndi ekki koma til hafnar fyrr en næsta dag, þriðjudag. Var þá veður farið að spillast mjög. Þetta var sama kvöldið, sem Laxfoss strandaði.
Vélbáturinn Austri, sem reri héðan frá Reykjavík síðastliðið sunnudagskvöld og sem menn voru farnir að óttast um, er hann kom ekki að á þriðjudag, komst heilu og höldnu til Vatneyrar við Patreksfjörð. Vél bátsins bilaði aðfaranótt mánudags og lenti báturinn í afspyrnu veðri. Skipið ýmist rak, eða skipverjar sigldu vestur með landinu og var þetta svaðilför hin mesta.
Morgunblaðið segir af hrakningum á Sléttu 15.janúar:
Frá fréttaritara vorum. Séra Hallgrímur Jósefsson sóknarprestur á Raufarhöfn, lenti nú fyrir helgina [sunnudagur 9.] í miklum hrakningum: Skall á hann stórhríð, er hann var á ferð á leið sem í sæmilegu færi tekur aðeins fjórar klukkustundir. Varð séra Hallgrímur að grafa sig í fönn, og hafðist þar við í l1 klukkustundir samfleytt, en alls hafði hann tuttugu og tveggja klukkustunda útivist. Þegar sr. Hallgrímur loks fékk komist til bæja eftir hrakninga þessa, var hann allþjakaður og nokkuð kalinn en líður nú vel eftir atvikum. Sr. Hallgrímur var ríðandi, og hefir hestur hans síðan fundist ásamt farangri þeim, er prestur hafði meðferðis.
Morgunblaðið segir loks 16.janúar frá slysinu mikla og hrakningum annars togara:
Öll von er úti um það, að togarinn Max Pemberton sé ofansjávar. Hann er talinn af og hafa með honum farist 29 sjómenn.
Togarinn Egill Skallagrímsson kom af veiðum í gærmorgun. Á heimleiðinni hreppti hann versta sjó út af Malarrifi, svo að skipsmenn áttu fullt í fangi með að verja skipið. Einn hásetinn slasaðist. Skipstjórinn, Lúðvík Vilhjálmsson skýrði blaðinu þannig frá: Það var klukkan rúmlega 3 síðdegis á föstudag, að við komum á þessar slóðir. Var sjórinn þá svo erfiður og viðsjáll að ég ætlaði að snúa við og halda dýpra. En það var ekki viðlit að snúa skipinu við. Öldurnar komu úr öllum áttum og myndaðist einskonar svelgur, því að feikna straumur er þarna út. Við urðum að halda áfram og tók það okkur fulla sex tíma, að komast út úr þessum sjó. Sú sjóleið er þó vafalaust ekki yfir 10 sjómílur. Hefi ég sjaldan eða aldrei átt eins erfitt með að verja skip og að þessu sinni. Einn hásetinn slasaðist í þessari viðureign. Hann heitir Jón Kristján Jónsson, frá Ísafirði; hann lærbrotnaði. Þessi vondi sjór á þessum bletti, er ekki nýtt fyrirbrigði fyrir okkur sjómenn, segir Lúðvík. En ég bjóst ekki við svona vondum sjó núna, því annars hefði ég haldið dýpra og reynt að verða fyrir utan verstu straumröstina. En eftir að skipið var komið inn í svelginn, var gersamlega ómögulegt að snúa við. Það þurfti að verjast sjóum, ýmist úr þessari eða hinni áttinni.
Djúp og kröpp lægð fór yfir landið þann 16., en ekki fréttist af tjóni. Önnur lægð fór hratt norður með vesturströndinni þann 17., en í kjölfarið kom dýpsta lægðin. Varð þrýstingur þá sá lægsti sem mældist á árinu, 941,9 hPa (á Eyrarbakka 18.). Engin loftvog var vestast á Snæfellsnesi og er líklegt að þrýstingur þar hafi farið niður fyrir 940 hPa að morgni þess 18. Sími fór viða í ólag. Morgunblaðið segir frá 20.janúar:
Talsímasambönd sem hafa víða bilað í ofviðrinu í fyrradag, en tekist hefir að gera við flestar smærri bilanir. En sambandslausar eru þessar línur: Suðurlandslínan er biluð við Jökulsá á Sólheimasandi, munu nokkrir staurar hafa brotnað. Vestfjarðalína: Símabilunin þar er aðallega við Ísafjarðardjúpið milli Arngerðareyrar og Skálavíkur.
Kl.8:50 á þriðjudagsmorgun [18.] varð bærinn skyndilega rafmagnslaus, bæði Ljósafossstöðin og Elliðaárstöðin fóru úr sambandi við bæjarkerfið. Orsökin var þó á Sogslínunni, en Elliðaárstöðin var nothæf eftir sem áður. ... Strax og samband rofnaði við Ljósafoss voru gerðar mælingar á því hvar bilunin væri á línunni og reyndist hún 4 km frá Ljósafossi eða rétt hjá Villingavatni í Grafningi. Um kl. 10 fóru nokkrir vélamenn til þess að reyna að gera við bilunina, en hún reyndist vera þessi: Tveir stálvírar eru efst í toppi stólpanna. Eru þeir til þess að verja línuna eldingum. Höfðu þeir slitnað og fallið niður yfir rafleiðsluvírana, og þannig myndast samband milli þeirra og skammhleypt þá. Svo mikill var veðurofsinn austur í Grafningnum, að sendimennirnir frá stöðinni voru um 6 klst að komast þessa fjóra kílómetra, komu á bilunarstaðinn kl. 4 e.h. Var tilætlunin að þeir reyndu að klippa niður þessa eldingavíra, og hefði sambandið þá komist í lag. En þetta verk var ekki hægt að framkvæma, vegna þess að til þess hefði þurft að fara upp á allmarga staura, en það ekki hægt vegna veðurofsans. En stálvírar þessir höfðu dregist til í allmörgum staurabilum. Um kl. 1 e.h. á þriðjudag voru línumenn frá Rafveitunni tilbúnir að fara austur með öll viðgerðartæki. Þeir lentu í versta veðri og ófærð. Þeir voru komnir upp í Skíðaskála kl.6 1/2. Þá var bíll þeirra bilaður, og komust þeir ekki lengra að svo stöddu. Var nú fenginn handa þeim snjóbíll. Á honum komust línumennirnir yfir fjallið og að Villingavatni komu þeir kl.6 á miðvikudagsmorgun. Höfðu þeir lokið við viðgerðina kl.10 um morguninn og var komið rafsamband frá Ljósafossi kl. 10:25. Sjálfar raftaugarnar slitnuðu ekki, enda hafa þeir aldrei slitnað, sagði Jakob Guðjohnsen. ... Einu sinni áður hafa eldingavarnavírar slitnað. En þá rufu þeir ekki straum línunnar. Og straumvírarnir hafa sem sagt aldrei slitnað, ekki einu sinni þegar staurar brotnuðu hér um árið, og þungir staurabútar hengju í þeim. Rafmagnsleysið á þriðjudaginn olli vitanlega miklu og margvíslegu tjóni og óþægindum fyrir bæjarbúa, er allur vélarekstur, sem byggist á bæjarrafveitunni, lagðist niður. Blöð komu ekki út, hvorki síðdegis á þriðjudag né á miðvikudagsmorgun.
Næstu lægðir voru ekki eins afgerandi, en ollu hins vegar snjókomu og hríð og allt hljóp í svell eftir blotann. Morgunblaðið segir fréttir að norðan 26.janúar:
[Úr Akureyrarbréfi]. Tíðarfarið hefir verið mjög óstillt framan af árinu. Hafa skipst á hlákur og hríðar, stillur og rok. Mikil svellalög á vegum gera bifreiðaumferð erfiða og þegar ofsarok er í tilbót, er bifreiðum tæpast fært um þá. Hafa margar bifreiðar runnið út af vegunum, þegar verst hefir viðrað. Eitt kvöldið voru 4 bifreiðar taldar utan við veginn á stuttum kafla í Kræklingahlíð, sumar mjög skemmdar. Örðugt er um fjárbeit vegna harðviðra og hálku og fiskur sjaldséður á sölutorginu, meðfram vegna ógæfta.
Vísir segir af samgöngutruflunum 28.janúar:
Mjög lítil mjólk var til í bænum í morgun. Þó náðust bílarnir þrír, sem sátu fastir við Skíðaskálann í fyrrakvöld hingað í gærkveldi, fyrir aðstoð snjóýtu. Úr Borgarfirði fékkst ekki nein mjólk í gær vegna þess að samgöngur um héraðið voru tepptar. Í morgun lagði bátur af stað til Borganess til að sækja mjólk, en honum hlekktist á í höfninni og varð að snúa við. Sæbjörg var send í hans stað kl. 1 i dag. Hellisheiðin sjálf er ófær sem stendur og sitja þar þrír mjólkurbílar fastir. Ekki er ólíklegt að það takist að losa þá í dag og ryðja veginn austur yfir fjall, ef veður versnar ekki. Bílfært var í morgun upp í Skíðaskála.
Tíðarfarið í febrúar var lengst af óhagstætt og umhleypingasamt. Stormasamt var, snjóþungt og mikil svellalög. Búfé var víðast á fullri gjöf. Gæftir voru stopular, en dágóður afli þegar gaf á sjó. Í kringum góubyrjun [konudagur 20.febrúar] skipti nokkuð um veðurlag. Gríðarlegt háþrýstisvæði myndaðist skammt fyrir suðaustan land. Mældist þá hæsti þrýstingur ársins, 1046,3 hPa, á Akureyri þann 25. Rétt í mánaðarlokin gaf hæðin eftir og þá gekk í snarpa norðanátt sem stóð í fáeina daga fram í mars. Varð hlaupársdagurinn sérlega kaldur og hvass - keppir við hlaupársdaginn 1924 um kulda.
Þ.3. (febrúar) fauk þak af húsi í Berufirði og skemmdir urðu á vindrafstöðvum á Djúpavogi. Í ofviðrinu þ.12. fórust þrír vélbátar, Freyr og Njörður frá Vestmannaeyjum og Óðinn frá Gerðum, með allri áhöfn, samtals 14 mönnum. Vélbátnum Ægi hvolfdi út af Garðskaga, og drukknaði einn maður. Nokkrir aðrir bátar skemmdust og veiðarfæratjón varð gífurlegt. Stýrið brotnaði á strandferðaskipinu Esju, en skipið komst til Reykjavíkur af eigin rammleik. Þ.14. fauk þak af húsi á Höllustöðum í A-Húnavatnssýslu. Nóttina milli 17. og 18. var færeyskt skip hætt komið út af Reykjanesi, en var dregið til hafnar af erlendu skipi. Veðurathugunarmenn kvarta flestir og sumir segja frá tilviljanakenndu foktjóni:
Síðumúli: Febrúar var mjög umhleypingasamur, og slæm veðrátta til þ. 20. Eftir það var góð tíð. Jörðin er nú alhvít, en þó mjög snjólétt, en nokkuð svelluð.
Lambavatn: Það hefir verið mjög breytilegt. Um miðjan mánuðinn voru stórgerðir umhleypingar. Allt á kafi af svellum. Seinustu viku mánaðarins var stillt og milt veður. Þiðnaði þá mjög mikið í byggð, svo snjó var nærri horfinn á láglendi. Hér er alltaf óslitin innistaða fyrir sauðfé.
Suðureyri: Stórgert og breytilegt bæði um átt og hitastig. Hlýindakafli vann nokkuð á hjarninu, en eigi kom upp hagi nema snöp á stöku stað.
Blönduós: Tíðarfar mjög umhleypinga- og stormasamt. Á að heita nokkur jörð hér niður við sjó, en jarðlaust og mikill gaddur fram til dala. Slys hafa engin orðið hér, en nokkrar skemmdir í veðrinu þ.14. Þar á meðal t.d. fauk að mestu þak af nýbyggðu íbúðarhúsi á Höllustöðum og fleiri smáskemmdir urðu.
Siglunes: Í þessum mánuði hafa verið tíð stórviðri, en tjón af völdum þeirra hefir ekkert orðið svo ég viti. Svellalög hafa verið mikil svo ég man ekki neitt þvílíkt. Brim hefir aldrei orðið mikið í þessum mánuði og er það mjög sjaldgæft.
Sandur: Tíðarfar óstöðugt og stormasamt en milt lengst haf. Snjór lítill á jörð og allgóðir hagar.
Húsavík (Jóhann Björnsson): Jarðskjálftinn 4. febrúar var allsnarpur hér, t.d. færðust borð og stólar til - hlutir duttu niður af hillum, t.d. í verslunum en þó urðu hér ekki neinar skemmdir til skaða. Í einu húsi rifnaði veggpappi frá lofti og niður eftir veggnum svo töluvert hefir húsið gengið til. 6. Febrúar Jarðskjálfti kl.16:06 - 6 stig. Þennan jarðskjálfta töldu sumir snarpari en þann sem kom 4.febrúar, en ég get ekki gert neinn mun á þeim. Hlutir duttu niður af hillum og færðust til en skemmdir urðu engar.
Reykjahlíð: Fremur rosafengin veðrátta þennan mánuð. Þó voru blíðir fyrstu 3 dagar góu, en eftir það skipti um svip. Þó að nokkrar hlákur hafi komið hér hefur snjó tekið lítið, en nú er þó komið hjarn. Þann 14. var hér stór veður [suðsuðaustan] og fauk allt sem fokið gat. Urðu þó engir stórskaðar.
Fagridalur (Oddný S. Wiium): Tíðin fremur köld og stormasöm, en landátt oft ríkjandi. Snjólétt og jarðsælt. Góð tíð.
Hallormsstaður: Síðustu daga mánaðarins gjörði stórviðri af norðri eitt hið mesta síðan 1918. Fyrrihluta mánaðarins lagði Lagarfljót sterkum og traustum ís.
Teigarhorn (Jón Kr. Lúðvíksson): Óstöðugt tíðarfar. 3. þessa mánaðar stormur á tímabili kl. hálfsex. Fauk þak af íbúðarskúr áföstum við íbúðarhús og eyðilagðist með öllu á Djúpavogi. Aðrar smávægilegar skemmdir.
Loftsalir: Ég tel óhætt að segja tíðarfar fram til þess 20. mánaðarins bara vonda tíð. Snjókoma mikil og frost æði kalt eftir vana, en um 20., nefnilega með góukomu, brá mjög vel til betra svo að ágætt má kalla út mánuðinn.
Sámsstaðir: Svipar til janúar en frost ekki eins jöfn. Tíðin óhagstæð fénaðarhöldum og hann oftast verið á fullri gjöf.
Þ.4. kl.17:32 varð allsnarpur jarðskjálftakippur norðanlands. Fannst hann bæði á Akureyri og Húsavík, á síðarnefnda staðnum duttu munir úr hillum. Kl.17:57 fannst vægur kippur á Húsavík og smáhræringar voru þar af og til næstu nótt. Þ.6. kl.16:06 varð annar kippur á sömu stöðum. Fannst hann einnig á Akureyri og Húsavík og mun hafa verið álíka sterkur og kippurinn þ.4. kl. 07:32. Kl.16:09 fannst smákippur á Húsavík, og lítils háttar hræringar síðar um daginn. Þessir jarðskjálftar fundust einnig á Hólsfjöllum, í Kelduhverfi og Bárðardal. Þ.10. kl.02:20 varð enn vart við jarðskjálfta í nágrenni Húsavíkur. Fólk vaknaði allvíða.
Aðfaranótt 3. febrúar brann Hótel Ísland í Reykjavík til grunna. Síðdegis þann 2. hafði hvesst mjög af norðri og norðnorðvestri í Reykjavík, vindur fór í 9 vindstig kl.17 og mjög kólnaði. Þegar bruninn varð var frostið komið í -10 til -11 stig og enn var strekkingshvasst. Einn maður fórst í brunanum og má telja vel sloppið. Morgunblaðið segir fréttina strax 3.febrúar - hún er auðvitað löng og ítarleg og má lesa á timarit.is.
Hótel Ísland brann til grunna í nótt og var þetta einn mesti eldsvoði, sem orðið hefir hér í bæ um margra ára skeið.
Fram til 20. var órói í veðri og allmargar lægðir fór hjá. Kröpp lægð fór norðaustur Grænlandshaf þann 12. og olli slæmum slysum á sjó. Enn dýpri og meiri lægð fór svo hjá þann 14. Morgunblaðið segir frá 13.febrúar:
Suðvestan ofsaveður gerði skyndilega á Suður- og Vesturlandi í gærmorgun [12.]. Voru þá allir bátar úr verstöðvunum á sjó og hrepptu mestu hrakninga. Einn Bátur sökk, en mannbjörg. Öðrum hvolfdi og drukknaði einn maður. Nokkra báta vantaði í gærkvöldi. Feikna veiðarfæratjón hjá flestum bátum.
Morgunblaðið segir frá þann 15.febrúar:
Vestmannaeyjabátarnir tveir, sem vantaði á laugardagskvöld [12.] úr ofsaveðrinu, eru taldir af og með þeim hafa farist 9 manns. Hefir þegar rekið úr öðrum bátnum á Landeyjarfjörum. Þá er óttast um vélbátinn Óðinn frá Gerðum, sem ekkert hefir til spurst síðan á laugardag. Á honum voru fimm menn. Það er því óttast að alls hafi 15 sjómenn drukknað í laugardagsveðrinu og fimm bátar farist.
Vélbáturinn Ægir, sem hvolfdi s.l. laugardag [12.], en rétti við aftur, hefir nú fundist rekinn í Melasveit í Borgarfjarðarsýslu. Hefir báturinn rekið inn allan Faxaflóa og lent upp í fjöru í Melasveit. Ekki er blaðinu kunnugt um, hve mikið báturinn er brotinn eða hvort hægt muni að ná honum út. Tvo báta rekur á land í Keflavík. Í gærborgun rak tvo báta á land í Keflavík, vélbátinn Geir og Júlíus Björnsson. Geir slitnaði frá hafnargarðinum og lenti upp í dokkina rétt við garðinn. Var gerð tilraun til þess að ná honum út á flóðinu í gærkveldi og tókst það. Verður báturinn dreginn í slipp í dag, en hann virtist lítið brotinn og lak lítið. Júlíus Björnsson slitnaði upp frá legunni og rak á land í fjörugrjót rétt fyrir neðan dráttarbraut Keflavíkur hf. Einnig var gerð tilraun til þess að ná honum út í gærkveldi, en dráttartaugin slitnaði og varð að hætta við svo búið. Ef veður leyfir í dag mun Óðinn gera tilraun til þess að ná honum út. Álitið er að Júlíus Björnsson sé nokkuð mikið brotinn. Esja lenti stýrislaus í ofveðrinu. Esjan var á leið frá Patreksfirði á laugardag er ofveðrið skall á á laugardaginn. Erlendur dráttarbátur var í fylgd með Esju og dró hana. Er skipin komu í Breiðafjörðinn, skall veðrið á. Slitnaði brátt taugin milli skipanna og var ekki viðlit að koma henni á milli aftur í veðrinu. Esja komst samt heilu og höldnu til Reykjavíkur. Esja hefir tvær skrúfur og tók skipstjóri það ráð, að stýra skipinu með skrúfunum. Sýndi skipstjóri og skipshöfn hans mikla sjómannshæfileika og dugnað með þessu. Esja kom hingað klukkan 2 aðfaranótt sunnudagsins.
Morgunblaðið segir frá enn fleiri slysum í sama veðri 16.febrúar:
Mb Óðinn frá Gerðum er nú talinn af. Á bátnum voru fimm menn. Ekkert hefir spurst til bátsins frá því um hádegi á laugardag [12.], en þá andæfði hann við bauju út af Sandgerði. Í ofsaveðrinu á laugardaginn hafa því farist 15 sjómenn. Níu menn, er fórust með Vestmannaeyjabátunum Nirði og Frey. Sigurður Björnsson, er tók út af mb Ægi og skipshöfn mb Óðins.
Vísir segir af harðindum 17.febrúar:
Harðindi eru nú um land allt, að því er Steingrímur Steinþórsson búnaðarmálastjóri hefir tjáð Vísi og meira eða minna jarðbann víðast hvar á landinu. Hér er þó ekki um að ræða mikið fanndýpi á jörð, heldur klamma eftir þráláta blota og snjókomu til skiptis. Einna best hefir veðráttan verið á Austfjörðum í vetur, en annars má segja að tíðarfar hafi verið með afbrigðum erfitt það. sem af er vetrarins. Samkvæmt bréfum og skeytum sem Vísi hafa borist víðsvegar úr nærsveitum og úr Borgarfirði, er óvenjulega mikill klammi á jörðinni. Hefir víða verið um algera innistöðu á fé að ræða, svo vikum skiptir, þar sem á venjulegum vetrum hefir verið ágætis beit lengst af vetrar. Annarsstaðar segjast menn ekki muna aðra eins klakahellu á jörð áratugum saman.
Vísir segir enn af ísalögum 25.febrúar:
Samkvæmt upplýsingum vestan af Mýrum eru þar nú svo mikil ísalög á jörðu, að enn er alger innistaða á sauðfénaði og jafnvel hrossum líka, og hefir það verið þannig i heilan mánuð. Blotinn, sem verið hefir undanfarna daga, hefir ekki megnað að þíða ísalögin nema um neðri hluta Mýranna, en strax og nær dregur fjöllunum er allt í hellu og algert jarðbann.
Kortið sýnir hæð 1000-hPa þrýstiflatarins 22.febrúar. Þá situr hæðin nærri landinu. Þrýstingur í miðju er meiri en 1040 hPa (320m = 1040 hPa).
Um 20.febrúar urðu mikil umskipti. Skrúfað var fyrir lægðagang um sinn og gríðarleg hæð myndaðist. Hún var fyrst staðsett fyrir suðaustan land en tók síðan nokkur skref vestur á bóginn. Hér á landi varð þrýstingur hæstur síðdegis og að kvöldi þ.25. Eftir það hallaði vindur sér til norðurs og á hlaupársdaginn gekk í mjög harða norðanátt austanlands (það veður sem Páll á Hallormsstað nefndi í skýrslu sinni). Eftir það hörfaði hæðin lengra burt, en mestallan mars var þrýstingur þó fremur hár, og hæstur að tiltölu fyrir sunnan land. Hin þráláta vestanátt sem byrjaði með myndun hæðarinnar miklu varð nægilega mikil til að stífla framrás hafíss um Grænlandssund og kom allmiklum hafísspöngum til landsins. Bæði að vestanverðum Vestfjörðum (sem er harla óvenjulegt) og síðan langt austur með Norðurlandi. Heildarísmagnið virðist þó ekki hafa verið mjög mikið. Sennilega var alauður sjór eða ís mjög gisinn lengra undan landi. Nokkur vandræði stöfuðu af þessu þótt ísinn stæði stutt við nema við Melrakkasléttu austanverða. Talsverð líkindi eru með þessu veðurlagi og veðurlagsins í febrúar og mars 1965, fyrsta mikla hafísárið. Ámóta var einnig um svipað leyti árs 2005 - en þá var ísmagn hins vegar svo lítið að lítið varð úr, jafnvel þótt ísinn kæmist þá vel austur fyrir Langanes og stakir jakar suður á móts við Austfirði norðanverða. Sýna þessi tilvik hvað langir vestanáttarkaflar geta ráðið miklu um ísrek við landið.
Kortið sýnir meðalloftþrýsting og þrýstivik i febrúar 1944. Á bakvið það eru reyndar tvö nokkuð ólík tímabil. Eins og áður sagði færðist hæðin mjög í aukana um þann 20. og kom nær landinu - og fór að lokum vestur fyrir. Vel sést þó hversu langt frá meðallagi staðan í Grænlandssundi var - aukin suðvestanátt hefur stíflað hina venjulegu framrás hafíssins um sundið.
Þessi afbrigðilegu suðvestanvik héldu áfram í mars. Kortið sýnir meðalþrýsting og vik marsmánaðar. Veður voru þó mun betri heldur en var framan af febrúar og tíðarfarið í mars var frekar milt nema tvo fyrstu daga mánaðarins. Á Suðurlandi var umhleypingasamt, en hagstæðara á Norður- og Austurlandi. Háþrýstisvæði var lengst af fyrir sunnan land og yfir Bretlandseyjum, en öðru hverju gerði norðanátt.
Gæftir voru yfirleitt góðar og afli með betra móti. Allmikill hafís var úti fyrir Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum mestallan mánuðinn. Tálmaði hann siglingum norður fyrir land og olli veiðafæratjóni víða á Vestfjörðum. Þ.7. varð Esja, sem var á leið norður fyrir Langanes, að snúa aftur vegna hafíss. Þ.12. ætlaði togarinn Vörður frá Patreksfirði suður fyrir Látrabjarg, en varð að snúa aftur vegna þess hve ísinn var kominn nærri landi. Næsta dag lokaðist fjörðurinn alveg af þéttri ísbreiðu, en hún hvarf aftur eftir þrjá daga. Þ.16. fylltist Bolungarvík af ís og næstu daga barst ísinn víðar inn í Ísafjarðardjúp og var Djúpið ófært nokkra daga. Í lok mánaðarins lokaði ísinn alveg höfninni á Raufarhöfn.
Þ.1. rak færeyskt fisktökuskip á land í Djúpavogi og laskaðist það talsvert. Reykjavík var lengst af rafmagnslaus þessa daga vegna þess að krap stöðvaði rennsli að rafmagnsvélum á Ljósafossi. Þ.7. strönduðu þrjú erlend skip milli Veiðióss og Nýaóss í V-Skaftafellssýslu, og fórust fjórir menn, en 39 komust til byggða. Sama dag skemmdust brýrnar á Tungufljóti í Skaftártungu og Geirlandsá á Síðu vegna vatnavaxta. Einnig urðu skemmdir á smábrúm undir Eyjafjöllum, og í Mýrdal. Þ.10. fauk bátur í Ögurnesi,og hús skemmdust á Eyri í Seyðisfirði. Þ. 23. hrepptu bátar við Faxaflóa illviðri, og varð mikið tjón á veiðarfærum.
Veðurathugunarmenn greina frá veðri í sínum sveitum. Þar á meðal eru allmiklar hafísfregnir, en daglegar ísfréttir trúlega leyndarmál - að mestu. Tíð var víðast góð.
Síðumúli: Marsmánuður var yfirleitt góður og þurrviðrasamur. Jörð mikið til auð.
Lambavatn: Það hefir verið oftast sæmileg tíð. Gripið skarpt til frosta en oftast snjólétt. 12. mánaðarins kom hafíshella hér upp að og varð ísinn landfastur frá Töngum og inn í Patreksfjörð að Hafnarmúla. Ísinn rak frá aftur eftir tvo daga.
Flateyri (Hólmgeir Jensson): Veðurfar í þessum mánuði hefir verið fremur milt. Úrkoma lítil. 10. og 11. kom hafís hér uppí fjarðarmynnið og einstaka jaki inní fjörðinn. Eftir 1-2 daga rak ísinn burt svo skipaferðir tepptust í stuttan tíma. Lítill snjór á láglendi.
Suðureyri: Hafís landfastur um miðbik mánaðarins og mun hafa rekið inn á alla Vestfirði. Hamlaði hann ferðum og róðrum. Gæftir allgóðar og góður afli. [11. Hafís á grunnmið. 13. Ís fastur í Kóp-Kögur. 15. Bátar komast aðeins út í fjarðarmynni. 16. Barst íshroði inn í fjörðinn. 17. Ísinn fjarlægist. 20. Ísinn úr augsýn.
Siglunes: Veðráttan var mjög umhleypingasöm í þessum mánuði og vestanátt yfirgnæfandi og ofsarok þann 10. Engar skemmdir urðu þó af því veðri hér í nágrenni svo ég viti. Þann 13. sást héðan hafís vestan og ofan við Grímsey á að giska það sem mest var og næstu daga rak hann frá aftur án þess að hann yrði landfastur. Og nú í seinni tíð hefir ekkert sést til hafíss héðan.
Grímsey (Sigrún Óladóttir): 1. sést til stórra jaka. 2. Ísinn kominn allt í kring, en lónaði aftur frá, en umkringdi svo aftur um þann 13. Var svo með hann á sífelldum hrakningi fram og aftur til loka mánaðarins.
Sandur: Tíðarfar óstöðugt og vindasamt, en mjög milt, úrfellalítið og snjólétt. Hagar góðir um allar sveitir.
Húsavík: Um miðjan mánuð, 13/3, var ísinn fyrir öllu hafinu svo langt sem sást, bæði austur og vestur og eins til hafs. Þá var besta skyggni. Hann var þá kominn upp undir land hér á Tjörnesi.
Reykjahlíð: Harðneskjustórhríð 1.mars og næstu nótt. Síðan yfirleitt góð veðurátta til mánaðarloka.
Raufarhöfn (Rannveig Lund): Fyrstu daga af mánuðinum norðvestan hríðarveður. Kom þá ís töluverður hér upp að Sléttunni. Virtist hann þó ekki mjög þéttur og rak til og frá. Nú í lok mánaðar rak ísinn hér inn á höfnina og er hún nú lokuð af hafís og lagís. Var sú breiða langt út úr höfninni, en autt að sjá fyrir utan. Veður hafa verið góð, þíðviðri og stillur. [5. Ísbreiðan hér útaf svo langt sem sést].
Skálar (Þorlákur Árnason): Í byrjun mánaðarins og fram til þess 7. var mikill hafís norðanvert við Langanes og náði langt suðaustur af. Lítið eitt barst inn með nesinu að sunnanverðu. Sigling skipa var mjög tvísýn flesta þessa daga og suma alveg ófær. Síðasta mars sást nokkuð af stanglís eða einstökum jökum norður og norðaustur af Langanesi.
Höfn í Bakkafirði (Halldór Runólfsson): [4. til 6. Ís sést í hafi].
Fagridalur: Ágæt tíð, mikið suðlæg átt, þó nokkur norðaníhlaup. Að mestu auð jörð og mjög úrkomulítið. [5. Hafís sést langt út í Vopnafjarðarflóanum].
Nefbjarnarstaðir: Yfirleitt má tíðin teljast óvenjugóð um þetta leyti árs. Var úrkomulaust nær allan mánuðinn og jörð nær alauð - aðeins lítilsháttar fannir í brekkum.
Hallormsstaður: Mánuðurinn var mjög sólríkur. Alautt var hérumbil allan mánuðinn. Ofsaveður af norðri var fyrstu daga mánaðarins. Það var svo hvasst að sandur þyrlaðist og möl fauk til hér við Lagarfljót.
Sámsstaðir: Mánuðurinn fremur kulsamur. Allmikill klaki í jörð í mánaðarlokin.
Hér má sjá kort Veðurstofunnar sem gert var um hádegi 1.mars 1944. Norðanhvassviðri ríkir um nær allt land - verst þó um það austanvert. Hörkufrost er í hvassviðrinu og olli vandræðum, þar á meðal truflunum í orkuverinu við Ljósafoss. Morgunblaðið segir frá 2.mars:
Á miðvikudagsmorgun [1.mars] settist krap í rafmagnsvélarnar við Ljósafoss, svo að þær stöðvuðust. Síðan var mestur hluti Reykjavíkur rafmagnslaus þar til klukkan 6 í gærkveldi. Þó var hægt að setja vélarnar í gang í 3 klukkutíma á miðvikudagskvöld, eða frá kl. um 9 til klukkan rúmlega 12. Rafmagnsleysið kom mikilli truflun á í bænum, sem vonlegt er, og t.d. gátu dagblöð bæjarins ekki komið út í gærmorgun, eða gærdag. Rafmagnsleysið stafaði, eins og fyrr er sagt af krapi sem myndaðist í lóninu við Ljósafoss og sest í vélarnar, þannig að þær geta ekki gengið. Þetta krap myndast aðeins undir sérstökum veðurskilyrðum, eða þegar vatnið er um 0 stig, en nær ekki að leggja. Krapið eru smáir ískristallar, á stærð við gróft salt. Þessir ískristallar koma með vatninu gegnum inntakið og setjast í túrbínurnar, festast þar og hlaðast upp þar til túrbínan stíflast með öllu.
Alþýðublaðið segir frá því sama 3.mars:
Aðfaranótt miðvikudags [1.] gerði mikið frost og ofsarok. Var veður ákaflega vont og frostharkan mikil við Ljósafoss. Undir morguninn stöðvuðust vélarnar og kom í ljós að ísnálar eða krap hafði sest í vélar stöðvarinnar og varnað vatnsrennslinu. Stafaði þetta af frostinu og því að rokið var svo mikið að vatnið lagði ekki. Þegar í stað voru allir verkfærir menn við stöðina, sem hægt var að koma við, settir til að reyna að hreinsa ísnálarnar eða klakastykkin burtu. Var þetta ákaflega erfitt verk og illvinnandi, einnig vegna þess að líklegt var að það væri unnið fyrir gýg. Reyndist það og svo. Þegar mennirnir höfðu unnið sleitulaust frá því snemma á miðvikudagsmorgun og fram á kvöld, var búið að hreinsa svo mikið, að hægt var að setja vélarnar í gang og setja strauminn á bæinn. En strax sótti í sama horfið, nýjar ísnálar mynduðust og allt stöðvaðist enn að nýju. Var vinnunni enn haldið áfram án nokkurrar hvíldar. Veðrið lægði mjög við Ljósafoss um hádegisbilið í gær, og varð þá hægara um vik og meiri vonir um að vinnan yrði ekki til einskis, og kl. 5:48 í gær var straumnum hleypt á bæinn.
Reykjavíkurbær var rafmagnslaus undanfarinn 1 1/2 sólarhring. Hvarf rafmagnið kl. rúmlega 8 á miðvikudagsmorgun, kom um stund kl. 9 um kvöldið, en hvarf aftur um miðnætti og kom ekki aftur fyrr en kl. tæplega 6 í gærkvöldi. Allur iðnaður í bænum stöðvaðist, engin blöð komu út, nær öllum greiðasölustöðum var lokað og fjöldamörgum skrifstofum, þar á meðal opinberum skrifstofum t. d. skrifstofum stjórnarráðsins.
Vísir segir af vatnavöxtum 10.mars:
Leiðin milli Kirkjubæjarklausturs og Reykjavíkur varð ófær bifreiðum síðastliðinn þriðjudagsmorgun [7.], er vatnavextir grófu undirstöðuna undan stöplum brúarinnar á Tungufljóti í Skaftártungu, svo að brúin fór í kaf. Vísir talaði við Júlíus Lárusson í Kirkjubæjarklaustri í morgun og innti hann eftir þessum atburði og frekara tjóni af völdum þessara vatnsflóða. Hann skýrði svo frá: Undanfarið höfðu gengið hér mikil frost, en um síðustu helgi brá til þíðviðris sem orsakaði mikla vatnavexti í flestum vatnsföllunum. Ruddu þau af sér ísnum, sem var orðinn talsvert þykkur, eftir langvarandi frost, og orsakaði það jakaburð í fljótunum og ánum jafnframt vatnsvextinum. Þetta varð ofraun fyrir brúna á Tungufljóti í Skaftártungu, sem er trébrú með járnbitum, en haldið uppi af tréstólpum. Gróf fljótið undan þessum tréstólpum svo að brúin fór i kaf. Brúin tengir saman leiðina milli Kirkjubæjarklausturs og Reykjavíkur og er sú leið nú algerlega ófær bifreiðum. Auk þess reif Geirlandsáin burtu uppfyllingu við nýju brúna, sem gerð var í fyrra og er sú leið austur frá Klaustri einnig ófær þangað til gert hefir verið við þær skemmdir. Það er tilfinnanlegt tjón að missa brúna af Tungufljóti því að án hennar er ekki unnt að halda uppi neinum samgöngum, sem heitið geta, til Reykjavikur. Er vonandi að fljótt verði brugðið við, með því að setja nýja brú á fljótið.
Vísir heldur áfram með flóðafregnir 11.mars:
Miklir vatnavextir hafa orðið víðsvegar um land í þíðviðrinu. Víða hafa orðið allmiklar skemmdir á brúm og vegum bæði norðanlands og austan. M.a. tók af litla brú á Reykjadalsá hjá Laugaskóla, og á veginum undir Eyjafjöllum urðu skemmdir hjá Bakkaholtsá, Holtsá og Svarfbælisá, ennfremur urðu töluverðar skemmdir á brúnni yfir Deildará í Mýrdal. Unnið hefir verið að viðgerðum á þessum stöðum og er vegurinn austur í Mýrdal orðinn fær. Mishermi var það hinsvegar í blaðinu i gær að brúna á Tungufljóti hefði lekið af. Brú þessi er um 100 m löng og stendur á nokkuð mörgum stöplum. Einn þessara stöpla, sem steyptur er hefir sigið í sandinn, og dregið með sér tvö brúaropin. Væntanlega tekst að lyfta þeim áður en langt líður og gera brúna færa umferð á næstunni. Brúna á Geirlandsá sakaði heldur ekki neitt sjálfa, en sogast hafði undan uppfyllingu á veginum við brúna og þannig orsakast allmiklar skemmdir.
Morgunblaðið segir 10. og 11. mars frá sjóslysum:
[10.] Á þriðjudaginn [7.] strönduðu þrjú smáskip á Fossfjöru á Síðu og fórust fjórir menn. Einn mannanna drukknaði, en hinir þrír létust eftir að þeir komu í land, en ekki er vitað hvort dauðaorsök þeirra var meiðsli, eða vosbúð. Staðurinn, þar sem skipin strönduðu er langt frá byggð og var ekki vitað um skipströndin fyrr en á miðvikudag, en strandmenn komu til bæja á Brunasandi, sem er milli Fljótshverfis og Síðu. Hreppsstjóri og læknir fóru þegar til hjálpar mönnunum. Voru þrír strandmannanna allþjakaðir, en ekki er vitað með vissu, hve veikir þeir eru. Dimmviðri mun hafa verið og rosi í sjó, er skipin strönduðu.
[11.] Frá Kirkjubæjarklaustri bárust blaðinu í gærkveldi nánari fregnir a£ skipastrandinu á Fossafjöru. Á þriðjudagsmorgun kl. 9, í þoku og rigningu, strönduðu þrjú erlend skip á Fossafjöru. Eitt strandaði á rifi í brimgarðinum og fyllti þar af sjó. Skipshöfnin komst í land að undanteknum einum manni, er drukknaði í lendingu. Í rúman sólarhring reikaði skipshöfnin um í fjörunum.
Skutull segir frá 11.mars. Kröpp lægð fór til hratt til austurs skammt fyrir norðan land:
Aftakaveður gerði aðfaranótt föstudagsins 10. mars og urðu nokkrar skemmdir af völdum þess. Þannig fauk bátur í Ögurnesi og einnig skemmdust hús að Eyri í Seyðisfirði.
Skutull segir af hafís 18.mars:
Að undanförnu hefir hafísinn verið skammt undan Vestfjörðum. Um skeið hefir hann ýmist lagst upp að landi eða vikið frá aftur, og hefir það þó verið von manna hverju sinni, að íshættan væri um garð gengin að þessu sinni. Það hefir líka glætt þessa trú, að seinustu vikuna var veðurátt suðlæg og hlýviðri á degi hverjum. En íshættan var ekki afstaðin. Síðastliðinn laugardag [11.] nálgaðist ísinn enn með ískyggilegum hraða, svo að fjöldi báta missti lóðir sínar undir ísinn. Varð lóðatapið gífurlegt, því sumir bátar misstu um 80100 lóðir í þessari einu sjóferð. Esja var þá stödd hér á leið til Norðurlands, en komst ekki norður fyrir Horn í nokkra daga. Með skipinu var m.a. fólk, sem farið hafði með því seinustu ferð þess austur fyrir land og ætlaði þá leið til Akureyrar. En þá varð Esja að snúa við, þar sem hún komst ekki vegna hafíss fyrir Langanes. Hafði sumt af fólki þessu verið fullan hálfan mánuð í skipinu, er það var hér. Á miðvikudagsmorgun [15.] vék ísinn svo frá, að Esja komst norður fyrir Horn og leiðar sinnar til Norðurlandsins. En daginn eftir, þann 16. mars barst fregn um það, að Bolungarvík væri orðin full af ís. Nokkrum klukkustundum siðar fréttist, að Hnífsdalsvík væri einnig orðin þéttskipuð hafjakaþröng. Og nú leið aðeins stutt stund þar til ísbreiðan kom í ljós fram undan Hnífsdalsvöllum og teygði sig fyrir fjarðarmynnið. Nokkrir fiskibátar, sem voru að veiðum í Djúpinu, komust ekki til Ísafjarðar vegna íssins. Einn þeirra fór á Álftafjörð, inn fyrir Langeyri. Annar lenti í ísnum um nóttina og komst loks i gegn um hann og til Ísafjarðar föstudaginn þann 17. mars. Þann dag var Skutulsfjörður fullur af hafís allt inn undir kaupstað. Þó komust bátar gegn um ísinn frá Álftafirði seinnipart dagsins. Var hann þá farinn nokkuð að gisna. Þó að ískyggilega horfði að morgni þess seytjánda, breyttist útlitið nokkuð til hins betra, er það fréttist, að nú væru allir firðirnir vestur um íslausir og ísinn að hverfa af Bolungavík.
Morgunblaðið segir af veiðarfæratjóni 24.mars. Djúp lægð var á Grænlandshafi:
Bátar frá verstöðvunum við Faxaflóa hrepptu yfirleitt vonskuveður í gær og biðu mikið veiðarfæratjón. í gærkvöldi seint voru enn margir bátar frá Sandgerði og Keflavík ókomnir að landi. Akranesbátar voru aftur á móti allir komnir að.
Tíðarfarið í apríl var með mildara móti nema rétt fyrstu daga mánaðarins. Tíð var þó mjög óhagstæð víða á Austurlandi og inn til landsins norðaustanlands vegna mikillar snjókomu, þeirri mestu á vetrinum í Vopnafirði. Gæftir voru dágóðar og afli sæmilegur.
Eins og venjulega héldu óhöpp á sjó áfram. Þ.21. strandaði vélbáturinn Rafn við Hornafjarðarós og sökk, mannbjörg varð. Suðvestan stormur sunnan lands þ.26. Þá slitnaði vélbátur upp af bátalegu og sökk á Skerjafirði.
Hafís var landfastur kringum Raufarhöfn mestan hluta mánaðarins. Í byrjun mánaðarins varð ís landfastur við Siglunes, en hvarf aftur á þriðja degi. Um miðjan mánuð rak hafís upp að Horni og voru allar víkur suður með Ströndum fullar af ís til mánaðarloka. Íshrafl sást suðaustur af Dalatanga þ.3.
Veðurathugunarmenn eru ekki sammála um tíðarfarið - meira að segja ekki innan sömu landshluta:
Síðumúli: Apríl var mildur, og má kallast mjög góður. Hlaðvarpar orðnir grænir.
Lambavatn: Það hefir verið þurrt og kalt. Jörð oftast auð. En austan- og norðaustanblástur oftast og á milli hvassviðri. Gróður nær enginn í mánaðarlok.
Horn í Hornvík (Kristinn Grímsson): Stöðug norðaustanátt helst allan mánuðinn. Kalt í veðri og snjókomur. Hafís rak upp að landi um mánaðamótin og lá við allan mánuðinn fyrir austan Horn, náði austur að Ófeigsfirði hef ég heyrt, voru allar víkur fullar útfyrir og um ystu annes. Pláss þetta gat engar samgöngur fengið á sjó allan mánuðinn og kom það mjög bagalega þar er stóð á úthlutan matvæla um aprílbyrjun.
Siglunes: Tíðarfar í þessum mánuði hefir verið mjög óstillt og rosasamt, austan- og norðaustanátt og hríðaráhlaup. Hafís varð landfastur hér 1. apríl, en rak frá aftur þann 3. Engin ofsaveður hefir gert hér í þessum mánuði.
Sandur: Tíðarfar frekar milt og hægviðrasamt. Lengst af nokkurt snjóföl á jörð, en hagar víðast góðir.
Reykjahlíð: Aprílmánuður þótti nokkuð vondur hér að þessu sinni. Stöðug austanátt með bleytusnjóum og úrkomum.
Raufarhöfn: Kalsaveðrátta. Hafís landfastur kringum Raufarhöfn mestan hluta mánaðarins. [29. Höfnin að mestu auð af ís].
Fagridalur: Suðaustlæg og austlæg átt mest og mikil snjókoma. Snjórinn hefur lagst ákaflega misjafnt á þann hátt að í sömu sveitinni er næstum autt á köflum en annars staðar mikill snjór. Hér er snjódýpt mikil síðan 10. og algjörlega jarðlaust hér og í öllu nágrenni. Og er þetta mesti snjór sem komið hefir nú lengi. [Snjólaust var að kalla til 10. - þá mældist snjódýpt 24 cm, fór í 41 cm þann 12 og mest í 46 cm þann 15. Þann 30. var snjódýptin 14 cm].
Loftsalir: Yfir mánuðinn apríl tel ég frekar ömurlegt tíðarfar, alloft stormar með krapa og kalsahríðum, ýmist af austri og vestri og alltaf kalt í veðri, þó hins vegar sé ekki orð á gerandi sjókomu eða frostum. Að sönnu snjóaði í heiðum talsvert æði oft, en frost að kalla lítil eftir kulda í veðri en allur fénaður í hirðing mánuðinn út, samt er nú gróður vel á veg kominn og komið að sleppa sauðfé.
Dagur birti 19.apríl bréf úr Austur-Húnavatnssýslu:
Úr Austur-Húnavatnssýslu er skrifað: Veturinn hefir lengst af verið mildur. Tíð var ágæt frá veturnóttum til jóla. Þann tíma leið útigangspeningi vel og jafnaði hann sig nokkuð eftir hrakviðri haustsins, Fé var víða ekki tekið á gjöf fyrr en seint í nóvember. Eftir sólstöður brá til umhleypinga, er héldust til þorraloka. Í janúarmánuði skiptust á blotar og fannkomur með allmiklu frosti. Var áttin oftast suðvestlæg, en norðanhríðar engar, sem þó er sjaldgæft um þennan tíma ársins. Fannkomur voru því mestar í framsveitum sýslunnar, þar sem veðrátta er venjulegast mildust og að jafnaði snjóléttast. Í nokkrum sveitum varð með öllu haglaust, og er jörð þar nýlega komin undan fönn. Tíð hefir verið ágæt, síðan í fyrstu viku góu, og örísa í lágsveitum.
Lægð fór austur yfir landið þann 26. Morgunblaðið segir frá óhappi 28.apríl:
Í suðvestanrokinu í fyrradag [26.] slitnaði bátur upp af bátalegunni fyrir framan Grímsstaði á Grímsstaðaholti og sökk báturinn. Bátur þessi, sem var um 5 smálestir að stærð, var eign þriggja ungra manna á Grímsstaðaholti, þeirra Bjarna Guðjónssonar, Óskars Pálmasonar og Viktors, uppeldissonar Andrjesar á Grímsstöðum. Hafa þeir piltarnir orðið fyrir tilfinnanlegu tjóni, því báturinn mun ekki hafa verið tryggður.
Það er óttast, að hrognkelsaveiðimenn við Skerjafjörð hafi orðið fyrir all-tilfinnanlegu tjóni í veðrinu í fyrradag. Áttu sumir 2030 net úti. Hefir ekki verið hægt að vitja neinna ennþá, til að athuga, hvað kann að hafa týnst af þeim, eða skemmst.
Tíð í maí var köld með köflum. Gróðri fór seint fram, og mikil vanhöld voru á lömbum. Gæftir voru dágóðar og afli sæmilegur. Snjór var nokkur framan af mánuði og um tíma til trafala á vegum fyrir norðan. Öxnadalsheiði varð ófær - og var ekki rudd vegna verkfalls vegavinnumanna. Tvö afleit hrakviðri gerði. Það fyrra 11. til 13. en það síðara 24. til 26. Veðurathugunarmaður á Húsavík segir að stórhríð hafi verið þar þann 12. og frostið var þá meira en -4 stig um miðjan dag. Þessa daga fór lægð norðaustur yfir landið. Var hún komin norðaustur í haf aðfaranótt 13., en þá kom kalt lægðardrag úr vestri inn á landið og varð jörð alhvít í Reykjavík að morgni þess dags. Ekki kom aftur alhvítur maímorgunn í Reykjavík fyrr en 1963. Blöðin þegja nær alveg. Síðara hretið byrjaði sem hvöss austanátt þann 24., lægðir (fleiri en ein) voru fyrir sunnan land, en vindur snerist smám saman til norðausturs og það kólnaði. Mest snjóaði austanlands þann 26. Allgóð tíð var á milli hretanna tveggja.
Mjög mikil úrkoma var á Suðausturlandi í síðara hretinu. Sólarhringsúrkoma í Hólum í Hornafirði mældist 106,1 mm að morgni þ.25. maí, sem er með því mesta sem þar gerist (ekki met þó). Það er skemmtileg tilviljun að sólarhringsúrkoman að morgni 28. nóvember þetta ár mældist líka 106,1 mm - hvort tveggja mesta sólarhringsúrkoma ársins á landinu. Vissara þótti að athuga hvort þetta gæti verið rétt - og svo reyndist vera.
Veðurathugunarmenn lýsa maítíðinni:
Síðumúli: Maímánuður var mjög kaldur fram yfir þ. 13. Aðfaranótt þess dags setti niður snjó, svo mikinn, að hýsa þurfti fé. Lá snjórinn í nokkra daga. Seinni partur mánaðarins var mjög góður. Nú er jörð óðum að grænka og gróa. Í dag (1.júní) voru kýr látnar fyrst út og nú er hér verið að setja kartöflur í garða.
Lambavatn: Fram í miðjan mánuðinn var mjög kalt og alveg gróðurlaust. Leit þá illa út með gróður fyrir skepnur. Þá gerði viku vætu og hlýindi svo gróðri fór töluvert fram í túnum. Svo gerði aftur kuldanæðinga svo að jörð sýndist hvítna. Tvo síðustu daga mánaðarins hefir verið blíðviðri.
Hraun á Skaga (Steinn L. Sveinsson): Óstöðugt og kalt veðurfar mestan hluta mánaðarins með frost á nóttum. Þann 11. og 12. gerði norðan stórhríð, sem hélst báða dagana. Urðu nokkrir fjárskaðar hjá þeim er búnir voru að sleppa fé sínu. Síðustu daga hans var stillt veður og léttskýjað.
Siglunes: Veðráttan hefir verið mjög köld og umhleypingasöm í þessum mánuði. 25. gerði storm og kalsaveður og 12. gerði blindhríð og hlóð niður fönn svo taka varð hross á gjöf.
Sandur: Tíð ákaflega þurrviðrasöm og köld öðru hvoru. Gerði hret fyrir miðjan mánuð með snjó. Jörð að öðru leyti auð í byggðum en allmikil fönn til fjalla.
Nefbjarnarstaðir: Þessi mánuður hefir verið mjög kaldur og þurrviðrasamur. Vegna hinna stöðugu næturfrosta er aðeins lítill gróðurvottur í mánaðarlokin. Þann 27. gerði snögglega áfelli með töluverðri fannkomu svo að fé fennti sumstaðar og fórst í hættum. [27. snjódýpt 26 cm].
Teigarhorn: Mánuðurinn má kallast fremur kaldur og óhagstæður landbúnaði. Sáralítill góður allan mánuðinn. Sérstaklega varð veður slæmt frá 23. til 26. Þessa daga gránaði af snjó alveg niður í byggð. 26. var veður þó sérstaklega slæmt. Um kvöldið milli 7-10 gerði norðaustanblotaslyddu (snjókomu), varð þá snjódýpt 4 cm og skyggnið aðeins tæpur km.
Fagurhólsmýri: 23. til 25. gerði hér í sveit aftaka austnorðaustanveður með rigningarblota og mikilli snjókomu til fjalla. Talsvert mun hafa farist af lömbum um alla sveitina. Sjávarflóð varð óvenjumikið.
Loftsalir: Tíðarfar yfir maí mánuð köld ... Þótt yfir tæki það ógnarveður 24. til 27. er var bæði að roki og úrkomu ægilega vont, enda orðið til skaða á sauðfé yngra og eldri, einkum í Álftaveri og í Meðallandi, lítið hér í Mýrdal þó talsvert fall á unglömbum.
Tíðarfarið í júní var kalt og þurrviðrasamt, einkum framan af mánuðinum, og óhagstætt öllum gróðri, en hlýnaði síðari hlutann og spruttu tún þá óvenju fljótt. Mjög hlýtt varð norðanlands upp úr þeim 20., en um Jónsmessuna gerði afleitt norðankast, sem stóð þó stutt.
Veðurathugunarmenn segja frá:
Síðumúli: Júnímánuður hefir verið mjög þurrviðrasamur og stundum kaldur. Seinustu dagarnir hafa verið yndislega góðir, en jörðina vantar vatn, og grasspretta er ekki góð.
Lambavatn: Fyrri hluta mánaðarins var tíð þurr og köld svo gróðri fór mjög lítið fram. Þá um miðjan mánuðinn gerði vætu og hlýindi. Spratt þá mikið. En samt lítur ekki vel út með grassprettu að minnsta kosti verður síðsprottið.
Siglunes: Fyrripart mánaðarins var tíðarfarið mjög kalt og þurrt. Þann 17. brá til landáttar og hlýnaði og 22. komst hitinn upp í rúm 20 stig, en svo kólnaði aftur og er grasspretta hér mjög bágborin af þeim ástæðum að úrkoma hefir verið svo lítil. Aðfaranótt 26. stímaði mótorskipið Harpa frá Ísafirði á opinn vélbát og fórust 3 menn sem á honum voru, en einn bjargaðist, mennirnir voru frá Færeyjum. 29. kom fyrsta hafsíldin til Siglufjarðar á þessu sumri.
Sandur: Tíð þurrviðrasöm og frekar köld lengst af. Gróðurfar og grasspretta frekar hægfara. Þó var í mánaðarlok víða góður stofn á túnum og flæðiengjum.
Dalatangi (Vilhjálmur Helgason) Veðrátta mjög köld í þessum mánuði fram til 17. Þá gerði góða tíð sem hélst til 24. Þá brá aftur til norðaustanáttar með miklum kulda. Gróður er lítill og kom óvenjulega seint.
Nefbjarnarstaðir: Afar köld tíð um þetta leyti árs - einkum fyrri hluta mánaðar. Svo komu hlýir dagar frá 16. til 23, eftir það kalt. Gróður í rýrasta lagi.
Hallormsstaður: Skógurinn var útsprunginn 22. júní, en það er í síðasta lagi nú síðustu 20 árin.
Sámsstaðir: Sólríkur, þurr og fremur hlýr. Hlýindi jöfn og góð en gróðri fór óvenju seint fram vegna vöntunar á vætu.
Vísir segir 2.júní frá jarðskjálfta í Reykjavík:
Í nótt um kl. 5 varð allsnarpur jarðskjálftakippur hér í Reykjavík, og fáeinum mínútum síðar annar kippur miklu minni. Var fyrri jarðskjálftakippurinn svo snarpur, að fólk vaknaði víða og þótti nóg um. Sagði Þorkell Þorkelsson veðurstofustjóri blaðinu í morgun, að ekki væri byrjað að rannsaka það, hvar kippurinn hefði átt upptök sin, en líklegt væri, að það væri ekki langt frá bænum, aðeins fáeina kílómetra.
Rigningin á Þingvöllum á lýðveldisdaginn 17.júní er vafalítið þekktasta veður ársins. Veðurkortið á myndinni sýnir veðrið kl.8 að morgni þess dags.
Jafnþrýstilínur eru heildregnar, vindörvar sýna vindátt og vindraða, rauðar tölur hita. Að auki er veðurs, skýjafars og loftþrýstings getið. Þarna um morguninn eru skil skammt vestan við landið. Þau komu inn á land og fóru austur um. Mest rigndi þegar þau fóru yfir - á Þingvöllum einmitt við lýðveldisstofnunina. Kl.17 hafði var þar gengið í skúraveður. Hiti um landið sunnanvert var yfirleitt á bilinu 9 til 10 stig, en hlýtt var nyrðra. Á Akureyri var t.d. 18 stiga hiti í sunnanþey kl.17. Lægð fór til norðausturs um Grænlandssund.
Þetta var ekkert sérlega dæmigert veður fyrir mánuðinn í heild - eins og lýsingar veðurathugunarmanna benda á.
Þann 23. kom snarpt lægðardrag inn yfir landið úr norðvestri. Því fylgdi talsvert hret og þ. 24. urðu talsverðar skemmdir á kartöflugörðum á Eyrarbakka í hvassviðri. Aðfaranótt 26. fórust þrír Færeyingar af opnum vélbát nálægt Siglufirði. Varð árekstur milli bátsins og stærra skips. Þ.27. drukknaði maður í Dýrafirði.
Kortið sýnir veðrið að morgni 24.júní, þegar kuldakastið stóð sem hæst. Þá var aðeins 3 stiga hiti á Akureyri og 1 stig á Grímsstöðum á Fjöllum. Hvasst er um mestallt land. Þetta stóð ekki lengi. Daginn áður hafði hiti komist í 26,0 stig á Akureyri.
Skutull segir af kuldakastinu 24.júní:
Í morgun 24. júní fengu Ísfirðingar að líta fannkrýnd fjöll umhverfis Skutulsfjörð, er þeir risu úr rekkju, enda er nú norðan hvassviðri og kuldi, sem stingur mjög í stúf við hlýviðri seinustu daga.
Vísir segir af tjóninu á Eyrarbakka í pistli 1.júlí:
Fréttaritari Eyrarbakka í morgun. Aðfaranótt laugardags og laugardaginn 24. þ.m. gerði stórviðri á vestan og norðvestan á Eyrarbakka. Veðrið lægði um kvöldið. Í veðri þessu hafa jarðeplagarðar hreppsbúa farið illa. Sumstaðar skemmst að öllu leyti. Þar liggja kartöflur þær, sem sáð var, ofan á sandinum. Í öðrum görðum hefir rokið rifið kartöflugrösin alveg í burtu, eða snúið svo upp á þau, að þau eru alveg dauð. Sumir garðarnir eru svartir að líta, eins og eftir mikið frost. Í sumum görðum, sem sáð var í fræi, sést ekki nokkurt stingandi strá. Meiri hluti garðanna er þó lítið eða ekkert skemmdur. Þeir er vel hafa vit á, meta þetta tjón á jarðeplagörðunum á allt að 20 þúsund krónur, en af öðrum er þessi upphæð talin of lág, því búast má við því, að allir garðarnir hafi eitthvað liðið. Skemmdir á húsum urðu ekki, en til marks um veðurhæðina má geta þess, að garður hlaðinn og límdur úr vikursteini valt um í einni hrinunni.
Tíðarfarið í júlí var óvenju gott um mestallt land og nýting heyja með afbrigðum góð. Eins og áður var minnst á gerði mjög mikla hitabylgju í kringum þann 20., hiti varð óvenjuhár í Borgarfirði og sjálfsagt annars staðar um landið vestanvert. Þessi hitabylgja varð pistlahöfundi Alþýðublaðsins, Hannesi á horninu, tilefni til eftirfarandi skrifa [1.ágúst]:
Fyrir nokkru gengu mestu hitar hér á Suðurlandi, sem menn muna eftir. Bændur um sjötugt, sem ég hef hitt, segjast aldrei hafa vitað jafn mikinn hita og hið sama segja gamlir menn hér í bænum. Einn daginn sá ég að brekkurnar á Arnarhóli voru orðnar gular eins og þær væru að komast í flag. Ég spurði Gísla gamla, sem gætir hólsins eins og sjáaldur auga síns hverju þetta sætti. Hann svaraði að grasið brynni svona af því að ekki væri hægt að vökva það. ... Fólk veiktist í þessum miklu hitum og var til dæmis flutt hingað til bæjarins veikt af sumargistihúsum. Það er víst líka óhætt að segja að við íslendingar kunnum ekki að lifa í svona miklum hitum. Við erum ekki vanir slíku góðgæti. Fólk kann sér ekki hóf þegar slíkir hitar eru. Mér datt í hug að nauðsynlegt væri að gefa út á einhvern hátt leiðbeiningar til fólks um það hvernig það ætti að haga sér í mikilli sól og miklum hitum. Fólk skaðbrenndist í hitunum og það varð veikt í höfði. Sumt fólk svaf í hitanum og sólinni og vaknaði ringlað og veikt. Svona er allt. Jafn vel mestu dásemdir lífsins er hægt að misnota. Að líkindum koma ekki svona miklir hitar aftur í sumar, en fólk ætti að gæta hófs og muna það vel til dæmis af sofa ekki úti í brennandi sólarhita.
En - eins og vill verða - endaði hitabylgjan með snörpu kuldakasti. Næturfrost varð víða á landinu. Kartöflugrös gjörféllu í Eyjafirði og víðar í næturfrostunum undir lok mánaðarins.
Veðurathugunarmenn segja frá júlítíðinni:
Síðumúli: Júlímánuður var indæll að veðurfari. Dagarnir 20. og 21, voru heitastir, þá var of heitt fyrir fólkið, sem vinnur úti. Það var mjög þvingað af hita og sumir brunnu mjög af sólarhitanum. Heyskapurinn hefir gengið ágætlega, en tún eru ekki vel sprottin.
Lambavatn: Það hefir mátt heita óslitið stilla og blíðviðri allan mánuðinn. Það leit víða mjög illa út með grasvöxt í lok júní, en yfir júlí hefir það mikið lagast. Sumstaðar orðin sæmileg spretta. Þurrkur hefir verið með köflum svo hey hafa ekki skemmst það sem af er.
Suðureyri: Mjög skemmtilegt tíðarfar. Heitt - þurrt- stillt - bjart. Besta júlíveðrátta í mörg ár.
Siglunes: Tíðarfar í þessum mánuði hefir verið mjög stillt og úrkomulítið, svo grasspretta á votlendi er mjög rýr. Sólskin hefir verið mjög mikið og suma dagana hefir aldrei dregið fyrir sól, er það mjög óvenjulegt hér.
Reykjahlíð: Mjög góð veðurátta allan þennan mánuð. Jörð spratt vel fyrri hluta mánaðar en þurrkar drógu úr sprettu síðari hluta hans. Túnsláttur gekk með afbrigðum vel og heybirgðir í besta lagi. Frostnóttin 27. stórskemmdi kartöflugras hér í sveit.
Nefbjarnarstaðir: Tíðarfar má heita gott. Grasspretta fremur léleg fram undir mánaðarlok, en má þó teljast orðin í meðallagi. Nýting góð.
Hallormsstaður: [17. Kartöflugras skemmdist af völdum frosts].
Sámsstaðir: Óvenju hlýr og góður, en of þurr. Heyskapartíðin mjög hagstæð, sólfar mikið og miklir hitar.
Tíminn birti 18.júlí tíðarfarsbréf úr Loðmundarfirði, m.a. vorhretunum:
Fréttabréf úr Loðmundarfirði. Örðugt tíðarfar undanfarin missiri. Það, sem fyrst og fremst veldur mörgum hér um slóðir þungum áhyggjum, eru hinir sífelldu kuldar. Vorið og sumarið í fyrra var sérstaklega kalt og greri seint, raunverulega ekki fyrr en upp úr Jónsmessu, en vaxtartíminn var mjög stuttur og heyskapartíminn einnig og eftir að leið á sumarið, var mjög örðugt að fást við heyskap og fór hey undir snjó í september, en náðist mest í október. Í september lagði mikinn snjó á fjöll og var mjög erfitt að komast með fé til lógunar yfir Hjálmarsdalsheiði til Seyðisfjarðar, og þeir sem fyrr fóru, urðu dagþrota á miðri heiði og er það annað haustið í röð, sem þannig gengur að koma fé yfir hana, sem annars er ekki nema þriggja til fjögra tíma ferð. Annars voru snjóalög ekki mikil fram yfir hátíðar og gekk fé víðast að mestu sjálfala fram undir áramót, en um það leyti byrjuðu flestir að leiða til ánna og var þá hýst úr því. Frosthörkur voru allverulegar í nóvember og desember, og eftir hátíðar og fram í marslok voru alltaf öðruhverju hörkufrost og urðu svellalög mjög mikil og var víða illt að komast með fé á haga þeirra vegna. Einnig fylgdu þeim miklir stormar. En hagar voru að heita úrtakalaust allan tímann fram í marslok enda kom það flestum betur, því hey voru víða lítil eftir sumarið, en mikið var gefið af fóðurbæti, aðallega síldarmjöli.
Þann 29. mars breyttist veðrátta mjög og næstu daga kyngdi niður snjó og svo komu krapahríðar í fleiri daga um páskana [páskadag bar upp á 9.apríl] og varð með öllu haglaust allan aprílmánuð, og gekk þá fóður mjög til þurrðar og var útlitið að verða viðsjárvert, þegar snjóa fór að leysa fyrstu daga maí, en þá hlýnaði í nokkra daga og komu brátt góðir hagar, og bjargaðist því fénaður vel fram. Héldust góðveður fram um miðjan maí, en svo gerði rosaveðráttu vikuna fyrir hvítasunnu [28.maí] og á föstudag í þeirri viku [26.maí] gekk í kafaldsbyl, og hefði ekki miklu mátt við bæta, svo að alveg hefði orðið haglaust, en á laugardag birti upp og var sólskin þá í nokkra daga á eftir og fór snjórinn fljótt úr byggð. Fyrir þetta áfelli var æðarfugl farinn að koma í vörp, en þetta dró mjög úr varpinu. Fuglinn því sem nær fennti í kaf og svo sótti vargur svo að honum. að hann hafði engan frið í varpinu, rændi vargurinn eggjum og jafnvel drap fuglinn, þótt ekki væru mikil brögð að því. Síðustu ár hefir varp mjög gengið saman og veldur því kalt og óhagstætt tíðarfar, ásókn af vargi og svo hefir fuglinn drepist í stórum stíl á veturna af völdum olíu í sjónum. Líðandi vor hefir verið mjög kalt allan sauðburðartímann, hafa verið látlausir kuldar norðanstormar og þokuloft, hefir því gróið mjög seint og er enn mjög lítill gróður og má segja að þunglega horfi með grasvöxt, ef þessu heldur áfram, því enn er mikið frost í jörðu, þar eð hlýindi hafa verið lítil og óvenjumikil frost s.l. vetur. Enn mun víða ekki nema um stungulag á frost.
Þegar þetta er ritað, er kominn 25.júní. Í gær var Jónsmessa, var þá aftaka hríðarveður af norðri, snjóaði langt niður í hlíðar um hádag og var krapaslydda í byggð, sem þó ekki festi. Veður þetta stóð um sólarhring og hefir létt til, en sama norðanáttin ríkir enn með þung og hvít norðan ský á lofti. Er því ekki hægt að segja að útlit lagist verulega með grassprettu á þessu sumri og er því fyrirsjáanlegt að fénaður stórfækkar á næsta hausti, en má þó illa við því, frá því sem er.
Dagur segir af tíð í Mývatnssveit 20.júlí:
Úr Mývatnssveit: Vorið og sumarið allt til júníloka hefir verið frámunalega kalt. Frost, meira og minna flestar nætur. Úrkoma mjög lítil, kuldi og þurrkur jöfnum höndum hamlað gróðri. Fullkominn grasbrestur virst fyrir dyrum. Viku þá, sem nú er af júlí, hafa veður verið hlý og regn nokkurt. Spretta hefir því loksins komist ögn á skrið, hversu sem úr rætist. Það er óséð enn. Horfur munu nokkru betri í lágsveitum. Nú um tólftu sumarhelgi eru fáir byrjaðir á slætti, og á graslitlum túnum, þeir fáu, sem byrjað hafa. En nú mun sláttur hefjast almennt. Einstöku hlýindadagar komu af og til, jafnvel snemma í vor, og fékk því sauðfé gróðurbragð, svo að lambfé lá ekki mjög þungt á, og hefir gengið vel fram. Studdi þar mjög að, hve tíð var úrkomulítil og að hin verstu kuldaköstin stóðu ekki lengi í senn.
Hitabylgjan í kringum þann 20. er meðal þeirra öflugustu sem við þekkjum. Bæði náði hún til mikils hluta landsins, varð áköfust um landið sunnan- og vestanvert og stóð þar að auki í marga daga. Hún tengdist mjög hlýrri háloftahæð sem var nærri landinu. Endurgreiningar eru ekki alveg sammála um þar hversu öflug hæðin var, en sú greining sem almennt er talin best , hin nýlega ERA5 segir hæðina yfir landinu vera þá næstmestu í júlí á tímabilinu frá 1940 að telja. Svipað hafi verið í mikilli hitabylgju snemma í júlí 1991. Þykktin náði hins vegar ekki alveg hæstu hæðum, en hún er þrátt fyrir allt ekki alveg ein um að ákvarða hitann. Það gera líka hagstæðar vindáttir, sólfar og fleira.
Kortið sýnir hita annan af bestu dögunum, þann 20.júlí. Hann er um 25 stig á stóru svæði um landið sunnan- og vestanvert, er meira að segja 23 stig í Grindavík og 20 stig í Stykkishólmi. Eins og áður er getið fór hitinn hæst í 26,7 stig í Síðumúla í Borgarfirði þann 21.júlí.
Eins og áður er getið um lagðist köld norðanátt (þó ekki hvöss) yfir landið fáeinum dögum síðar og mældist allmikið næturfrost víða (sjá viðhengið) - aðfaranótt þ.27. varð með kaldari júlínóttum.
Skutull segir af blíðri tíð 22.júlí:
Veðurblíða nálega óminnileg hefir nú verið hér vestanlands fast að mánuði. Logn og blíða, sólskin og hlýviðri upp á hvern dag. Gróðri hefir fleygt fram, svo að spretta hefir víða orðið í betra meðallagi. Voru þetta mikil umskipti og góð eftir kalt vor og allstrangan vetur.
Tíðarfarið var með hlýrra móti í ágúst, en næturfrost voru þó sums staðar norðan lands og austan síðari hluta mánaðarins. Heldur var votviðrasamara en í júlí, en hey nýttust þó sæmilega. Gæftir dágóðar en afli tregur.
Aðfaranótt þess 9. strandaði síldveiðiskip í svartaþoku á Skaga, en náðist út aftur. Sama dag strandaði annað síldveiðiskip út af Vatnsnesi á Húnaflóa. Var það einnig dregið út aftur skömmu síðar, lítið skemmt.
Veðurathugunarmenn lýsa tíðinni:
Síðumúli: Ágúst var nokkuð votviðrasamur, en þó komu þurrkakaflar á milli, svo hey hafa náðst. Heyskapur yfirleitt góður eftir mannafla, sem víðast er mjög lítill.
Lambavatn: Það hefir verið óslitin votviðri, nema 5 daga um miðjan mánuðinn var góður þurrkur. Náðu þá allir inn heyjum. Nú lítur út fyrir að skipt hafi um veðurlag með höfuðdeginum. Heyskapur hefir gengið fremur illa vegna votviðra.
Flateyri: Veðurfar hefir verið gott. Hlýindi nótt sem dag fram að 27. Hiti til dala mun hafa suma daga náð 15-20 stigum. Nýting á heyjum góð. Grasvöxtur í góðu meðallagi. Sama má segja um kartöflugarða. Nokkuð tók að kólna síðustu dagana. Snjóaði daglega í fjöll.
Skriðuland (Kolbeinn Kristinsson): Mánuðurinn með ágætum þurr og staðviðrasamur. Hey voru hirt af ljánum nema dagana 20. til 27. Þá var lengst af suðvestlæg átt með skúrum - hæfileg sláttarrekja.
Siglunes: Tíðarfar í þessum mánuði var mjög gott fram yfir miðjan mánuð, en úr því fór að skipta um til hins verra og nú síðustu dagana hefir verið norðaustan stormur og éljagangur og skúrir. Heyskapur hefir gengið með afbrigðum vel, en grasspretta var fyrir neðan meðallag þar til núna síðustu daga að vætan kom.
Sandur: Tíðarfar yfirleitt milt, þurrviðrasamt og hagstætt til heyskapar. Veðurbókin fyrir júlímánuð tapaðist, get þess vegna ekki sent þá skýrslu. Tíðarfar þann mánuð allan einmunagott og þurrkar meiri og stöðugri en komið hafa um margra ára skeið.
Reykjahlíð: Þótti góð heyskapartíð hér allan ágúst. Einkennilegt var það að hinn 15. rigndi hér 17,5 mm á tæpum klukkutíma. Regn þetta náði ekki til næstu bæja. Sunnan við Mývatn var góður þurrkur allan daginn.
Fagridalur: Norðaustlæg átt mest ríkjandi, hægviðri og oft fremur óþurrkasamt, en engin stórúrkoma. Þá hefir tíðarfarið verð fremur til tafa við heyskap, en enginn stórhrakningur orðið á heyjum. Þ.29. var næturfrost -0,1 stig hér út við sjó en inn til tala var það svo mikið að kartöflugras féll að mestu.
Menn beindu stöðugt augum að Kötlu. Morgunblaðið segir frá 12. og 13. ágúst:
[12.] Seint í gærkvöldi bárust blaðinu þær fréttir frá Ásgarði í Grímsnesi að bjarmi sæist á lofti í austurátt og bæri yfir Eyjafjöll. Einnig var vart við eldflugur á lofti í sömu stefnu og svipaðar því, er sáust 1918, þegar Katla gaus. Blaðið hafði samband við Vík í Mýrdal, Varmahlíð í Vestur-Eyjafjallahreppi og Kirkjubæjarklaustur í gærkvöldi. Í Varmahlíð hafði orðið vart við rauðan bjarma á lofti, er virtist helst koma utan af hafi. en annars ekki vel gott áð atta sig á því. Í Vík hafði líka orðið vart við einhvern ljósagang en aðeins lítilsháttar. Aftur á móti hafði ekki orðið vart við neitt slíkt á Kirkjubæjarklaustri.
[13.] Eins og skýrt var frá í blaðinu í gær, urðu menn víða austanfjalls varir við eldbjarma eða ljósagang í lofti aðfaranótt laugardags og giskuðu sumir á, að hér væri upphaf að eldgosi. Ef um slíkt er rætt, dettur manni fyrst í hug Katla hér sunnanlands. Sást þetta af svo stóru svæði, að eigi gat verið um að ræða neitt sem skeð hefði af mannavöldum, skipsbruna, skothríð í hafi eða þess háttar. Í gær átti blaðið tal við Gísla Sveinsson sýslumann í Vík. Hann sagði, að fullvíst væri að þetta hefðu verið skrugguljós. Mikill skýjabakki var yfir hafinu skammt frá landi, og gerði skruggur í því skýjaþykkni, en bjarma af eldingunum lagði á skýin svo mikinn, að hann hefir sést um allt Suðurlandsundirlendi. Sagði Gísli, að slíkur bjarmi gæti verið svipaður bjarma þeim, er legði upp af eldfjöllum, þegar gos eru á ferðinni.
Tíðarfarið var frekar umhleypingasamt og votviðrasamt í september, einkum síðari hluta mánaðarins. Uppskera úr görðum var víðast hvar góð. Veðurathugunarmenn lýsa tíðinni:
Síðumúli: September var votviðrasamur, en þó sjaldan stórfeld væta. Síðasti heyskapurinn hér um slóðir náðist í mánaðarlokin. Var það hey lengi búið að hrekjast. Kartöflu og gulrófuuppskera var yfirleitt góð og náðust kartöflur upp ófrosnar, en það hefir ekki skeð í mörg ár.
Lambavatn: Fyrstu viku mánaðarins var þurrt og stillt veður. Síðan hefir verið mjög vond tíð. Sífelld votviðri og stórgerðir umhleypingar svo aldrei getur heitið að hafi þornað af grasi. Þeir sem áttu þá úti hey eftir það eiga það úti enn. Heyskapur er yfirleitt ekki meiri en í meðallagi. Spretta í görðum víðast góð.
Suðureyri: Fyrstu 8 daga mánaðarins hlýtt, bjart og stillt. Síðan úrkoma, óþurrkar - óstöðug vindátt - stormur og snjókoma með köflum. Varð alhvítt 28. Gæftir allgóðar.
Siglunes: Tíðarfar í þessum mánuði hefir verið mjög misjafnt, fyrri helmingur hans var mjög hagstæður til lands og sjávar, oftast stillt og stundum bjart veður, en upp úr miðjum mánuðinum skipti um veður til hins vera og síðustu dagana hefir verið vetrarveður oftast brim og útnorðan snjór.
Sandur: Gott tíðarfar og hagstætt fyrir haustverk. Heyskaparlok og nýting heyja með ágætum.
Grímsstaðir (Sigurður Kristjánsson): Góð tíð þennan mánuð, en dálitlar hríðar í mánaðarlokin, en úrkomulítið. Þann 17. kl.11-14 var allhvasst á suðsuðvestan og allmikið öskufall. Varð sporrækt.
Nefbjarnarstaðir: Má telja góða tíð. Úrkomur litlar og mjög þurrviðrasöm tíð. Hlýindi um miðbik mánaðarins, en brá til norðanáttar undir mánaðarlokin með kælu. Heyskapur vel í meðallagi, en garðuppskera víða með minnsta móti.
Teigarhorn: Fyrstu dagana var einmuna heyjatíð til 11. Þann 17. rigndi mikið, vegir spilltust af vatnagangi.
Loftsalir: Ég held óhætt að telja yfirleitt gott veðurfar yfir septembermánuð. Þurrkakaflar góðir og þar af heyfengur yfirleitt í besta lagi og uppskera úr kálgörðum með afbrigðum góð. Hins vegar hefur rignt nokkuð mikið með köflum, eins og til dæmis 11. til 12., enda skemmdu þá bæði brýr og vegi er hindruðu samgöngur í nokkra daga, einkum vegna bilunar á Hafursárbrú.
Sámsstaðir: Mánuðurinn fremur svalur og rigningasamur. Erfitt með heyskap, en þó náðust öll hey sæmilega verkuð í mánuðinum.
Fyrstu viku mánaðarins var hæglátt og meinlaust veður. Það bar þó til tíðinda að brúin yfir Ölfusá gaf sig og olli það auðvitað miklum vandkvæðum á Suðurlandi. Reyndar hafði í nokkurn tíma verið ljóst í hvað stefndi og búið að takmarka að nokkru þungaflutninga um brúna - og fleira. Ný brú var reist, en það tók meir en ár. Um og upp úr 10. gerði mikla sunnanátt með úrhelli um landið sunnanvert. Flóð urðu í nokkrum ám. Morgunblaðið segir frá 13.september (og þetta með báruna í lokin vísar auðvitað á Ölfusárbrúna):
Hitar og rigningar hafa undanfarin dægur gengið um vissan hluta Suðurlands, Mýrdal og Eyjafjöll. Jökulbráð hefir verið óvenjumikið, svo að hlaup hefir komið í jökulsár. Svo mikið óx í fyrrinótt og gærdag í ánni Klifandi í Mýrdal, að gróf undan vesturenda svo mjög, að brúin laskaðist og seig allmikið og tepptist bílaumferð þar algerlega. Brúin í hættu og hefir henni verið lokað, óvíst hvernig eða hvenær tekst að gera við hana. Áin er að öðru leyti ekki fær bílum. Í Jökulsá á Sólheimasandi kom mikið hlaup með jakaburði og töldu menn í gær að hætta væri við skemmdum ef áin legðist með þunga við austuröldurnar, en þar hefir hún áður grafið undan brúnni. Undir Eyjafjöllum varð vatnsaginn svo mikill, að flóði yfir bakka og runnu utan við brýrnar, svo að illfært var yfir. Má því segja að eigi sé ein báran stök nú hér á Suðurlandi, að því er samgöngur snertir.
Vísir segir frá 13.september - vandræði vegna brúarfallsins koma vel fram:
Svo miklir vatnavextir eru nú í Ölfusá, að menn telja ekki fært að fara yfir hana á báti og hafa þess vegna allir flutningar yfir hana stöðvast. Kemur þetta harðast niður á mjólkurflutningunum, því að engin mjólk berst nú að austan til Reykjavíkur, nema úr úthreppunum. Mikillar óánægju gætir meðal manna austan Ölfusár út af efndum á loforðum um kláfferju. Í slíkum vatnavöxtum sem þessum mundi kláfferja geta annað öllum mjólkurflutningum, ef hún væri fyrir hendi. Var henni lofað fyrir nokkrum dögum, en ennþá bólar ekkert á framkvæmdum í því máli, að því er fréttaritari Vísis á Selfossi hefir tjáð blaðinu.
Aðrir vatnavextir. Vegna hita og rigninga, sem gengið hefir yfir Mýrdal og Eyjafjöll undanfarna daga, hefir vöxtur hlaupið í margar ár þar eystra, einkum jökulsárnar. Hafursá í Mýrdal óx svo mikið i fyrrinótt, að brúin laskaðist og er nú í mikilli hættu. Öll umferð yfir brúna hefir stöðvast og óvíst hvenær hægt verður að kippa því i lag. Mikið hlaup með jakaburði kom í Jökulsá á Sólheimasandi. Telja menn hætt við skemmdum á brúnni, ef ekki lækkar í ánni. Undir Eyjafjöllum uxu allar ár svo, að flóði yfir bakka og er þar mörgum brúm hætta við skemmdum.
Þann 17. fór kröpp lægð til norðausturs um Vestfirði. Uppruna hennar má tengja hitabeltisstormi 7 þetta ár, sem var reyndar óvenjuöflugur 5.stigs fellibylur sem olli miklu tjóni á austurströnd Bandaríkjanna nokkrum dögum áður [talað um hann sem The great Atlantic Hurricane of 1944]. Mjög hvasst varð hér um landið norðvestanvert, en tjón varð lítið - og harla tilviljanakennt. Öskufallið sem athugunarmaður á Grímsstöðum getur um þennan dag hefur vafalítið verið sandfok af hálendinu - en þaðan bárust auðvitað engar veðurfregnir.
Kortið sýnir það sem kalla má leifar fellibylsins áðurnefnda á leið yfir landið. Leifarnar höfðu farið meðfram austurströnd Kanada, yfir Nýfundnaland og hitt þar mjög vel í bylgju í vestanvindabeltinu. Endurgreiningin segir miðjuþrýsting rétt innan við 970 hPa og mun það nærri lagi. Vísir segir frá 18.september:
Í gærdag [17.] eftir hádegið hvessti skyndilega á Siglufirði. Rauk hann upp af suðvestri af þvílíkum ofsa á örfáum mínútum, að fá dæmi eru til slíks. Vildi það slys til, að sjóflugvél hf Loftleiða, sem hefir haft aðsetur á Siglufirði í sumar, hvolfdi á Miklavatni. Voru tveir flugmenn í vélinni og sluppu þeir nauðulega ómeiddir. Skemmdir urðu svo miklar á flugvélinni, að ógerningur er að ráða bót á þeim þar nyrðra. Mun vélin verða tekin sundur þar og flutt suður við fyrsta tækifæri. Nokkur skip munu einnig hafa misst báta sína af völdum stormsins, en blaðið hafði ekki nánari fregnir af því í morgun. Þá vildi það slys til, að síldveiðiskipið Alsey braut stýri sitt er það var á leið til Siglufjarðar. Komst skipið þó til hafnar án frekari óhappa.
Morgunblaðið segir frá sama óhappi 19.september:
Um hádegi í fyrradag kom það óhapp fyrir, að sjóflugvél Loftleiða hf hvolfdi á Miklavatni í Fljótum. Kristján Jóh. Kristjánsson, framkvæmdastjóri félagsins, skýrði blaðinu frá því gær, að flugvélin hafi verið að hefja sig til flugs í ágætu veðri og nær því logni. Rétt þegar hún var að sleppa vatninu, skall yfir í einni svipan ofstopa veður. Skrúfaðist vélin fyrst upp í loftið, en hrapaði síðan og hvolfdi i vatnið. Tveir flugmenn voru í vélinni. Tókst þeim að komast út úr vélinni upp á flothylkin, en þar héldust þeir við í tvo tíma þar til flugvélin rak á land. Var flugmönnunum ekki meint af volkinu. Ekki var vitað með vissu, hve skemmdir urðu miklar á vélinni, en ekki er hægt að fljúga henni eins og hún er nú á sig komin. Er ætlunin að taka hana í sundur þarna fyrir norðan og flytja hana síðan suður. Veðurofsinn var valdur að ýmsu meira tjóni þarna fyrir norðan, t.d. fuku þök af húsum, hey fauk og síldveiðibátar misstu nótabáta sína.
Lægð kom inn á landið þ.22. og fór síðan austur fyrir og olli nokkuð snörpum norðanhvelli. Morgunblaðið segir frá 26.september:
Akureyri, mánudag [25.]. Frá fréttaritara vorum. Síðastliðinn laugardag [23.] kl.14 fóru tveir 18 manna bílar frá Bifreiðastöð Akureyrar frá Fjöllum í Kelduhverfi áleiðis til Húsavíkur. Er þetta venjulega tveggja tíma keyrsla, en bílarnir voru 26 tíma á leiðinni yfir Reykjaheiði vegna afarmikillar snjókomu. Annar þessara bíla hafði farið yfir heiðina þremur tímum áður og það án allrar tafar. Bílar frá Húsavík voru sendir á móti Akureyrarbílunum og komu þeir með fólkið til Húsavíkur kl.8 á sunnudagsmorguninn.
Dagur segir af sama atviki í nokkru lengra máli 28.september:
Óskar Sigurðsson bílstjóri héðan úr bænum er nýkominn heim úr sögulegri för austur á land. Lenti hann í ofviðrinu sem geisaði á fjöllum s.l. laugardag og varð að hafast við í bílnum og í sæluhúsinu á Hólssandi í heilan sólarhring, matar- og svefnlaus, áður en hjálp barst. Tíðindamaður blaðsins hafði tal af Óskari í gær og bað hann að segja lesendum blaðsins af ferðinni.
Ég fór héðan s.l. föstudag [22.] með farþega til Seyðisfjarðar. Gekk sú ferð að óskum og varð ekki söguleg. Komum til Seyðisfjarðar um nóttina laust eftir kl.3. Bar það helst til tíðinda þar, að okkur var neitað um gistingu á hótelinu, eina gististaðnum þar. Var framkoma gistihússeigandans heldur lítið kurteisleg. Af þessum ástæðum urðum við að hýrast í síldarverksmiðjunni það sem eftir var nætur, og var heldur lítið um svefn þar. Á laugardagsmorguninn hélt ég af stað heim. Veður var þá gott fyrir austan og sólskin á Héraðinu. Veður mátti heita gott allt til Grímsstaða, þótt smáél gengju yfir annað slagið. Ég fór frá Grímsstöðum um kl.1 og í Hólsseli tók ég einn farþega, Friðrik Jónsson póst frá Kraunastöðum. Lögðum við síðan á Hólssand. Gekk ferðin vel framan af, en þó gekk á með hríðaréljum. Vegurinn er þarna allur niðurgrafinn og fylltist fljótt af snjó. Var færðin brátt mjög erfið. Ekki var um annað að gera en halda áfram. Ómögulegt að snúa við þarna. Veður fór nú ört versnandi og um kl.2:30 var komin iðulaus stórhríð og mikil fannkoma. Stöðvaðist bíllinn þá algjörlega. Ekki vissum við gjörla hvar á Sandinum við vorum staddir. Hírðumst við í bílnum um nóttina allt til kl.7 á sunnudagsmorgun. Birti þá til. Fórum við þá að leita að sæluhúsinu og fundum það eftir talsverða leit. Urðum við því fegnir, því að þar var hægt að kveikja upp eld í ofni, en ekkert var þar matarkyns. Við höfðum engan mat í bílnum og því orðnir máttfarnir af hungri og svefnleysi Við dvöldum í sæluhúsinu til kvölds. Í rökkurbyrjun bar þar að Pál Sigtryggsson bílstjóra. Hafði hann farið frá Austara-Landi til þess að leita okkar. Er hann hafði fundið okkur hljóp hann niður í Austara-Land, lét senda okkur kaffi til hressingar. Var síðan ekið á móti okkur í bíl frá Austara-Landi, en við gengum úr sæluhúsinu til móts við hann. Komumst við í Austara-Land um nóttina og gistum þar. Leið okkur þar ágætlega.
Tíðarfarið var óstillt og umhleypingasamt í október. Blöð komu ekki út vegna verkfalla frá 2.október og fram yfir mánaðamót - og lítið var um fréttir. Mest er á stuttorðum lýsingum veðurathugunarmanna að byggja. Mesta illviðri mánaðarins gerði þann 27., af norðri. Fennti þá fé og símabilanir urðu víða. Þak fauk af fjárhúsi í Vatnsdal í Húnavatnssýslu og rafstöðin á Blönduósi skemmdist. Gríðarlegt brim gerði víða við norðurströndina. Ritstjóri hungurdiska þykist muna að hafa lesið eða heyrt frásagnir af vandræðum við höfnina á Húsavík - en finnur því miður ekkert um slíkt í fyrirliggjandi heimildum. Veðurathugunarmaður getur illviðrisins að vísu, en segir ekkert af tjóni eða hættu. Svo virðist sem hafnarframkvæmdir hafi verið í gangi á Húsavík um þessar mundir. Borgarís var á sveimi við landið. Um miðjan mánuðinn sást jaki á Miðfirði og þ.19. sást stór borgarísjaki á siglingaleið austnorðaustur frá Fagradal í Vopnafirði.
Kortið sýnir illviðrislægðina sem dýpkaði snögglega við landið 26.október. Mjög mikill norðanstrengur vestan lægðarinnar þokaðist síðan austur um og varð veðrið verst daginn eftir, þann 27. Mikið snjóaði á norðanverðum Vestfjörðum síðdegis þann 26. (þegar kortið gildir). Ekki var mikið um fréttir af þessu veðri í blöðunum, en margir veðurathugunarmenn geta þess sérstaklega í mánaðarpistlum sínum.
Veðurathugunarmenn lýsa októbertíðinni:
Síðumúli: Október var umhleypingasamur. Oft skiptist á snjókoma og rigning, rok og kuldi. Kýr voru alveg teknar inn í byrjun mánaðarins.
Lambavatn: Það hefir verið óstöðugt veður og stórgert yfir mánuðinn. Sífelldar rigningar en oftast fremur hlýtt. [5. Féllu skriður og skemmdu vegi, 9. Sökk trillubátur á Patreksfirði, annan rak yfir fjörðinn og brotnaði.
Suðureyri: Sæmilega hlýtt fyrri hlutann. Óstöðug átt - oft endurtekin - svipuð veðrátta - eins og í apríl, en nú meira norðlæg. Úrkoma afarmikil 11. og 27. með allramestu sólarhringsúrkomu sem mæld hefur verið hér. [26. kaffenni í kvöld].
Núpsdalstunga [Jón Ólafsson]. [15. Einn hafísjaki kom inn Miðfjörð].
Blönduós: Tíðarfar frekar gott, nokkuð úrkomusamt. Þ.27. gerði mikla norðanhríð og var þá ekki farið að hýsa fé almennt. Ekki er kunnugt um verulega fjárskaða en mjög víða hafa drepist nokkrar kindur í fönn, t.d. 11 á Gilsstöðum í Vatnsdal. Annars eru ekki komnar fréttir allstaðar að því símabilanir urðu víða t.d. brotnuðu 14 símastaurar hjá Bólstaðarhlíð og grennd, þak af fjárhúsum yfir 180 fjár fauk í Grímstungu í Vatnsdal og víða urðu smáskemmdir á húsum. Blönduós varð rafmagnslaus í 2 sólarhringa o.fl. smábilanir urðu.
Hraun á Skaga: Tíðarfar umhleypingasamt með talsverðri úrkomu, einkum fyrri hluta mánaðarins. Aðfaranótt þess 27. gerði ofsaveður af norðnorðaustri með mikilli snjókomu og sjógangi. Sjór gekk á land og braut báta í naustum. Nokkrir skaðar urðu á sauðfé. Sumt fennti en sumt flæddi í sjóinn af völdum brimsins.
Skriðuland. [5. Stórflóð í ám. 6. Enn meira flóð og skemmdir. 27. Fennti fé víða].
Siglunes: Tíðarfar í þessum mánuði hefir verið mjög óstillt og umhleypingasamt. Setti niður nokkurn snjó í kringum þann 14. sem bráðnaði þó aftur. Þá gerði vonda hríð þann 27. og varð að mestu jarðlaust fyrir storku og klaka.
Sandur: Veðrátta frekar óstöðug, en að öðru leyti yfirleitt mild og hagstæð hausttíð. Aðfaranótt 27. gerði norðanáhlaup og sumstaðar stórhríð og fennti víða fé til heiða og dala.
Reykjahlíð: Sæmileg veðurátta í þessum mánuði. Allvond hríð hér í sýslu 27., fennti þá fé á nokkrum stöðum. Fannst bændum sárt í þessu tilfelli að fá ekki veðurfregnir því víða hefði verið hægt að smala fé daginn áður hefði verið kunnugt um að óveður væri í nánd.
Hallormsstaður: Mánuðurinn var óvenjulega þurr og veðrið oft blítt.
Sámsstaðir: Október hlýr eftir hætti, en mjög úrkomusamur fram að 15. Frá 20. til 26. rigndi mjög mikið en svo þurrara síðustu 5 dagana.
Vísir segir frá brimi á Ólafsfirði í pistli 15.nóvember - örugglega er átt við það sem gerðist 27.október. Þetta veður virðist hafa verið í flokki sígildra veðra. Djúp og köld lægð var á Grænlandshafi, en inn í hana gekk vaxandi lægðarbylgja langt suðvestan úr höfum. Hún fór til norðausturs við suðausturströndina og skall þá á norðanstormur um mestallt land. Í blaðinu segir:
Fyrir skömmu gerði aftaka brim á Ólafsfirði, meira en dæmi eru til síðustu 20 árin. Skýrði Þorsteinn Símonarson, lögreglustjóri á Ólafsfirði, blaðinu svo frá, að þetta hafi borið svo skjótt að, að ógerningur hefði verið að bjarga vélbátaflotanum, sem lá í höfn, ef ekki hefði verið skjólgarður sá, sem byggður hefir verið þar í sumar, en bátarnir lágu í vari við hann. ... Hafa mannvirki þessi þegar fengið eldskírnina, því í lok s.l. mánaðar gerði stórbrim í Ólafsfirði og er talið að það sé mesta brim, sem þar hefir komið í 20 ár. Nokkrar skemmdir urðu á útbrjótnum, enda voru ekki tök á því að ganga svo tryggilega frá honum sem skyldi, þar eð ekki voru fyrir hendi tæki til vinnslu og flutnings stórgrýtis. Hinsvegar telja Ólafsfirðingar sennilegt, að sjór hefði gengið á land og brotið skip þeirra, þar sem þau standa á malarkambinum, ef þessa fyrsta kafla öldubrjótsins ekki hefði notið við.
Tíðarfarið í nóvember var umhleypingasamt og fremur kalt. Snjór var óvenjuþrálátur í Reykjavík, alhvítt var 21 dag í mánuðinum, snjór var þó aldrei mjög mikill. Þann 1. var óvenjuhlýtt fyrir norðan og austan. Hiti fór þá í 17,8 stig á Teigarhorni og 16,8 í Fagradal við Vopnafjörð.
Þ.4. eða 5. hreppti línuveiðarinn Rúna frá Akureyri aftakaveður í Straumnesröst og laskaðist talsvert. Víða varð ófærð á fjallvegum. Þ.10. var Goðafossi sökkt með tundurskeyti á Faxaflóa, 24 manns fórust en 19 var bjargað. Þ.17. strandaði vélbáturinn Gísli Johnsen á fjörunum hjá Knarrarnesvitanum, en náðist út aftur sama dag nærri óskemmdur.
Borgarísjakar sáust við Austfirði. Þeir virðast hafa farið nokkuð hratt hjá. Þetta er harla óvenjulegt. Upplýsingar um jakana eru aðallega frá veðurathugunarmönnum eystra.
Stór borgarísjaki sást 46 sjómílur austur af Dalatanga þ.6. og þ.7. sást stór ísjaki frá Vattarnesi og strandaði hann við Seley út af Reyðarfirði. Þ.8. sáust þrír borgarísjakar út af Berufirði.
Veðurathugunarmenn lýsa tíð í nóvember:
Síðumúli: Nóvembermánuður var mjög misjafn að veðurfari, snemma í mánuðinum setti niður svo mikinn snjó í Hvítársíðu, að haglaust varð víða fyrir sauðfé, um tíma, en snjóinn tók upp aftur og allir slepptu fé sínu. Varð þá mild og góð veðrátta fram undir mánaðarlok að aftur tók að snjóa og fé er nú hýst á ný.
Lambavatn: Það hefir verið sæmileg tíð yfir mánuðinn. Ein vikan var stillt og blíðviðri.
Suðureyri: Stórum hagstæðari til lands og sjávar en september og október. Milt og stillt og ágætar gæftir 9. til 25. Óvenjulega kyrr sjór um þetta leyti árs.
Blönduós: Veðráttan fremur köld í samanburði við síðustu ár - en stillur. Þann 27. gerði suðaustanveður og var mjög hvasst í Vatnsdal og Þingi, fauk af heyjum og þak af íbúðarhúsi í Miðhúsum. Hér á Blönduósi var aldrei yfir 5 vindstig þennan dag.
Siglunes: Tíðarfar í þessum mánuði hefir verið fremur gott og engin stórviðri og fremur úrkomulítið eftir því sem oft er í þessum mánuði.
Sandur: Tíðarfar yfirleitt frekar svalt, en lengst af staðviðrasamt og hagstætt. Dálítill snjór á jörð, en hagar þó víða góðir og ástöðuveður góð.
Reykjahlíð: Mild og góð veðurátta allan þennan mánuð. Óvenju hvasst varð hér austan að kveldi 27.
Nefbjarnarstaðir: Tíðarfar má teljast fremur gott, en þó heldur kalt og umhleypingasamt.
Dalatangi 6.nóvember: Stór borgarísjaki 4-6 sjómílur austur frá Dalatanga.
Teigarhorn: Nóvember má heita fremur góður fyrir landbúnað. Þann 8. þessa mánaðar sá ég frá Teigarhorni tvo borgarísjaka úti af Berufirði. Það var kl.9-15 er þeir sáust héðan. Frá Breiðdalsvík sáust sama dag 3 borgarísjakar.
Papey (Gísli Þorvaldsson): Þann 8. sást héðan hvítur drangur upp úr sjónum á að giska í suður frá Skælishorni. Hann virtist hærri en stórt seglskip. Mér datt í hug stór ísjaki.
Sámsstaðir: Mánuðurinn óvenjukaldur og óhagstæður fénaðarhöldum. Oftast slæm beit vegna snjóa og áfreða.
Djúp lægð fór yfir landið eða rétt fyrir sunnan það 3. til 5. Vísir segir frá 7.nóvember:
Ísafjörður í morgun. Línuveiðarinn Rúna frá Akureyri kom til Ísafjarðar í gær [6.] , eftir að hafa hreppt aftaka veður í Straumnesröst. ... Borðstokkur skipsins á stjórnborða dalaðist, 3 borðstokksstoðir brotnuðu, matarkista losnaði og grindverk á bátadekki brotnaði. Auk þessa skaddaðist raflýsing skipsins. Segist skipstjórinn á Rúnu aldrei hafa lent i þvílíku veðri sem þessu, auk þess sem svarta myrkur var og blindhríð.
Morgunblaðið segir frá sjóskaða 7.nóvember - þetta virðist hafa gerst í veðrinu mikla 27.október:
Færeyski kútterinn Verðandi frá Saltangirá, er Slysavarnafélagið lýsti eftir s.l. laugardag 4.nóvember er talinn af. Með skipinu fórust 13 menn, en ekki sex, eins og skýrt var frá í sunnudagsblaðinu, allt Færeyingar. Ekkert hefir spurst til skipsins síðan það fór frá Siglufirði, þann 25. október og ætlaði til Reykjavíkur. Afspyrnu veður var fyrir Norður- og Vesturlandi um þetta leyti og urðu skip fyrir miklum skemmdum á þeim slóðum.
Dagur segir af tíð í Bárðardal í pistli 9.nóvember:
Úr Bárðardal. Þeir, sem minnast sumarsins 1944 muna það vart, að hafa lifað nokkurt annað jafn sólríkt og blítt. Tíðargæðin hafa verið lík um allt land og er sá sósíalismi máttarvaldanna með fágætum. Hér í Bárðardal ber þó einn skugga á árgæskuna. Grassprettan var sein og treg og fremur lítil. Engi og tún voru víða til skaða kalin og alveg sérstaklega sumir túnblettir með ódæmum illa farnir. Heymagnið er því, að slætti loknum, ekki að sama skapi mikið, sem heyskapartíðin var hagstæð, þegar aldrei kom einu sinni óvæntur skúr á þurrkdegi, en heygæðin eru í fullu samræmi við sumarið. Síðastliðið vor var kalt, svo sem kunnugt er og greri því seint. En vegna þess hve sumarið var hlýtt, þá óx nýgræðingur lengi fram eftir uppi í hálendinu og var sauðfé því með afbrigðum vænt í haust, það sem heilsu hafði.
Vísir segir 11.nóvember fyrst frá ófærð, en síðan er einnig frétt um síldarrannsóknir. Þar koma fram ýmsar athyglisverðar upplýsingar:
Fjallvegir eru nú orðnir víða ófærir, svo að leggja hefir orðið niður ýmsar áætlunarferðir bifreiða. M.a. er orðið ófært til Ólafsvíkur, Hólmavíkur, yfir Öxnadalsheiði, ennfremur leiðin fyrir austan Húsavík. Ennþá er fært til Stykkishólms, en leiðin er orðin mjög slæm. Póststjórnin heldur nú uppi póst- og farþegaflutningum á milli Reykjavíkur og Akureyrar, með bifreiðum á milli Akraness og Sauðárkróks, en með skipi á milli Sauðárkróks og Akureyrar. Mun línuveiðarinn Ármann annast ferðirnar á milli Akureyrar og Sauðárkróks í vetur, og fer hann alla þriðjudaga og föstudaga frá Akureyri, en miðviku- og laugardaga frá Sauðárkróki. Sömuleiðis fara bifreiðirnar alla þriðju- og föstudaga frá Akranesi, en næsta dag aftur frá Sauðárkróki. Sem stendur er víða ófærð á norðurleiðinni og verður að moka snjónum, bæði á Holtavörðuheiði og Vatnsskarði, og enn fremur á Hrútafjarðarhálsi og í Langadal.
Golfstraumurinn hefir verið óvenju sterkur hér við land. [úr frétt um síldarrannsóknir Árna Friðrikssonar] Eitt af aðaleinkennum sumarsins, sem nú er liðið, hefir verið hinn mikli styrkur Golfstraumsins hér við land. Eins og kunnugt er, hefir sjávarhiti í Norðurhöfum verið meiri síðustu 2 áratugi en áður var. S.l. 34 árin hefir sótt aftur í gamla horfið hér við Ísland, einkum á veturna, enda sýndi síðastliðin vetrarvertíð greinilega breytingar á fiskgöngum í sambandi við það. Framan af sumri var sjávarhiti við Norðurland hærri en nokkurt annað ár, sem okkar rannsóknir ná til, og komst allar götur upp i 13 stig, en lækkaði þó verulega þegar dró að lokum júlímánaðar. Óbeinlínis vitnishurð um þunga Golfstraumsins höfum við einnig í hvalagengd, óvenjulegu makrílmagni hér við land, að ógleymdri hinni frægu heimsókn túnfisksins.
Desember var tíðindalítill - ef marka má fréttir (fréttaleysi). Tíðarfarið var nokkuð umhleypingasamt en frekar milt. Í kringum þann 10. varð þó mikil ófærð um landið sunnanvert og vegir tepptust illa um tíma. Getið er um óvenjumikinn snjó í Papey. Þ.23. strandaði vélskipið Búðaklettur á Reykjanesi. Skipshöfnin bjargaðist en tveir farþegar fórust. Veðurathugunarmenn lýsa tíðinni:
Síðumúli: Desembermánuður var fremur mildur og úrkomulítill. Veðráttan yfirleitt sæmilega góð.
Lambavatn: Það hefir verið breytilegt, en oftast austlæg átt. Sjaldan hægviðri en snjólítið. Aldrei áfreði á jörð fyrr en nú, að svell eru að myndast.
Suðureyri: Mjög óstöðugt. Einkum síðari hluta mánaðarins. Endurtekin ótíð, hringlandi af fleiri áttum daglega. Frostvægt og snjólétt. Stórsjór 22.-23. Fáar gæftir.
Siglunes: Tíðarfar í þessum mánuði hefir verið mjög óstillt, en engin stórviðri og með afbrigðum snjólítið.
Sandur: Tíðarfar yfirleitt frekar óstöðugt og úrkomusamt, en að öðru leyti nálægt meðallagi. Nokkur snjór á jörð oft frekar illt til jarðar og beitarveður stopul. Ísalög talsverð og nokkur gaddur.
Nefbjarnarstaðir: Tíðarfar fremur umhleypingasamt - oft með talsverðum kuldum. Þó voru nokkrir hlýir dagar eftir miðjan mánuðinn.
Papey: Að kvöldi 1. snjóaði hér, þó mest 4. til 5. og mun það vera þriðji mesti snjór sem hér hefur komið í 44 ár. Hver skepna varð að vera þar sem hún var komin nema að troða og moka fyrir því. Það er nýtt hér í Papey að gefa fé á jólaföstu. [Snjódýpt þ.5. 90 cm, 50 cm snjódýpt var á Teigarhorni].
Sámsstaðir: Veðrasamt tíðarfar og snjóalög töluverð fram að 12., svo þíður kafli með allmikilli rigningu til 23. en svo frost og snjókoma flesta daga. Vegna þessa var tíðarfar í versta lagi fyrir fénaðarhöld og útiverk.
Dagur talar vel um sumar og hausttíðina í pistli 14.desember, m.a. er minnst á vindrafstöðvar:
Tíðarfar hefir mátt telja mjög gott s.l. sumar og haust og það sem af er vetrinum. Margir heyjuðu mjög vel, þrátt fyrir lítið lið og nýting heyja var yfirleitt góð. Fé var vænt í haust og fallegt undan sumrinu. Í stórhríð þeirri er gjörði aðfaranótt 27. október fennti fé allvíða hér um slóðir, meginið af því fannst þó með lífi næstu daga á eftir, en allmargar kindur mun þó hafa fennt til dauða. Góð hláka kom strax á eftir þessum hríðarhvelli, svo að jörð kom upp og er nú víða búin að vera góð jörð um lengri tíma, annars staðar sæmileg og allsstaðar eitthvert bragð. Mild staðviðri hafa verið hér nú dögum saman, til óþæginda og angurs þeim er hafa vindrafstöðvar á heimilum sínum, en hinum þykir lognið gott og aldrei um of.
Morgunblaðið segir 24.desember frá vandræðum við flutninga í Faxaflóa. Eins og menn muna strandaði Laxfoss í upphafi árs - mótorskipið Sigríður leysti hann af um þessar mundir. Einhverjir Borgnesingar munu sjálfsagt hafa verið orðnir stressaðir - svona rétt fyrir jólin:
Vegna veðurs og brims hefir m.s. Sigríður ekki komist til Borgarness undanfarna daga, en þangað átti skipið að fara s.l. fimmtudag [21.] með póst og annan flutning, en varð að snúa við. Einnig varð gerð tilraun til þess að komast uppeftir á föstudag [22.], en fór á sömu leið, en í morgun kl.7 mun skipið hafa gert eina tilraun enn til þess að komast uppeftir.
Þjóðviljinn segir frá 28.desember:
Eins og frá var skýrt í síðasta tbl. Þjóðviljans strandaði vb Búðaklettur við sunnanvert Reykjanes s.l. laugardagsmorgun. Skipshöfnin bjargaðist, en 2 farþegar fórust.
Skömmu eftir stríð fylgdi einblöðungur með Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands. Á honum var yfirlit um hafísathuganir breska hersins við Ísland á stríðsárunum. Svo er að sjá að blað þetta hafi ekki fylgt ljósmyndun Veðráttunnar á timarit.is,
Um árið 1944 stendur þetta:
Áttunda apríl var hafís fyrir Norðurlandi og Vestfjörðum 20-25 sjómílur norður af Horni og Melrakkasléttu. 10. apríl var hrönglís við því sem næst alla norðausturströndina, en þann 14. fjarlægðist ísinn og siglingarleið opnast fyrir Eyjafjörð. Milli Raufarhafnar og Rauðanúps var landfastur ís hálfa aðra sjómílu á sjó út. 18. og 19. apríl var mikill hrönglís 60-70 sjómílur norðnorðvestur af Kögri og 55-60 sjómílur norðnorðaustur af Hraunhafnartanga. Þá sást 100 feta hár borgarísjaki 50 sjómílur norðaustur af Langanesi. Það sem eftir var mánaðarins hélt hafísinn sig í svipaðri fjarlægð. Fyrri hluta maímánaðar var hafísröndin á svipuðum slóðum og síðari hluta apríl, en engar fregnir bárust af ís seinni hluta maímánaðar.
Þessar lýsingar virðast benda til þess að ísinn sem var hér við land hafi fremur verið hrafl úr meginísnum, en ekki mikill að magni til.
Lýkur hér samantekt hungurdiska um veður og tíðarfar á árinu 1944. Þakka blöðum og blaðamönnum auðvitað fyrir þeirra elju þetta merka og minnisstæða ár. Að vanda eru fjölmargar tölur og ýmsar fágætar upplýsingar í viðhenginu.
1.10.2024 | 16:50
Smávegis af september 2024
September er nú liðinn (rétt einu sinni). Að þessu sinni var hann í svalara lagi. Yfirleitt sá næstsvalasti á landinu það sem af er þessari öld. Nokkru kaldara var í september 2005.
Á Austurlandi að Glettingi og á Miðhálendinu raðast mánuðurinn nú í 21. hlýjasta sæti (3 kaldari) og á Suðausturlandi í 22. hlýjasta - á þessum spásvæðum er september 2005 líka kaldastur.
Það er stutt öfganna milli. Loftþrýstingur í ágúst var að meðaltali sá lægsti sem við vitum um (mælingar í 200 ár), en þrýstingur í september var aftur á móti á meðal þess hæsta sem gerist - í 11. sæti að ofan talið (af 203) og hefur ekki mælst jafnhár síðan 1976 - en munurinn á þrýstingi nú og í september 2002 er þó ómarktækur.
Staðan í háloftunum var líka harla óvenjuleg - á sinn hátt.
Hér má sjá meðalhæð 500 hPa-flatarins í september og vik frá meðaltalinu 1981-2010. Áttin er ákveðin úr vestri - (og rétt norðan við vestur). Lægðasveigja er á jafnhæðarlínum - en liggur frá Grænlandi - sem slær á úrkomumöguleika. Það er óvenjulegt að hæðin sé þrátt fyrir þetta ofan meðallags - í svona mikilli lægðasveigju. Trúlega stafar þetta óvenjulega mikla jákvæða vik á kortinu af almennri hlýnun lofthjúpsins - hún hækkar 500 hPa-flötinn almennt.
Það kemur líka á óvart - þrátt fyrir svalann - að þykktarvikin skuli vera jákvæð yfir landinu (litir). Þykktin mælir sem kunnugt er hita í neðri hluta veðrahvolfs - hiti þess hafur verið í eða yfir meðallagi þrátt fyrir norðan- og vestanáttina - og lægðasveijguna. Ritstjórinn man varla eftir svona nokkru - (en verður að játa að hann hefur ekki enn leitað af sér allan grun).
Það er fyrst þegar komið er niður í 850 hPa-flötinn (í um 1500 metra hæð) sem kuldinn er farinn að gera vart við sig. Vikið við Norðurland er um -1 stig. Í Grímsey var hitavikið í mánuðinum -1,1 stig - miðað við 1981-2010 (viðmiðunartímabil kortsins). Eins og fjallað var um á hungurdiskum í gær er hitavikið í sjávaryfirborði heldur meira á þessum slóðum. Annars hefur yfirleitt verið mjög hlýtt á því svæði sem kortið sýnir - nema helst í Baskahéruðum Spánar.
Svo er ákveðin rúsína í pylsuendanum. Á landinu í heild var september í ár kaldari heldur en maímánuður, munaði um 0,5 stigum. Þetta á ekki við allar stöðvar - nægilega margar þó til að koma fram í meðaltalinu. Þetta er ekki mjög algengt, gerðist síðast (með naumindum þó 1990), en 1985 var munurinn svipaður og nú. Mestur var þessi munur 1918. Í Reykjavík munar nær engu á mánuðunum, september rétt sjónarmun kaldari þó (0,04 stigum). Gerðist síðast (með meiri mun) 1990 - og mestur var munurinn 1918. Á Akureyri munar nú meir en 2 stigum á maí og september. Fara þarf aftur til 1991 til að finna þvílíkt og annað eins, en það að september sé kaldari heldur en maí er heldur algengara á Akureyri heldur en í Reykjavík. Við þökkum BP að vanda fyrir kortagerðina.
Hvað verður svo næst tíðinda?
Vísindi og fræði | Breytt 2.10.2024 kl. 00:01 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.1.): 34
- Sl. sólarhring: 288
- Sl. viku: 2413
- Frá upphafi: 2434855
Annað
- Innlit í dag: 30
- Innlit sl. viku: 2140
- Gestir í dag: 28
- IP-tölur í dag: 28
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010