Hlý nótt

Síðastliðin nótt (aðfaranótt 26.ágúst 2025) var óvenjuhlý víða um land - þar á meðal í Reykjavík. Næturlágmarkið sem var skráð kl.9 í morgun var 14,4 stig. Við vitum ekki enn hvert sólarhringslágmarkið verður. Það kemur í ljós eftir að mælt hefur verið kl.18. Líklega heldur þó þetta lágmark - og verður þar með að sólarhringslágmarki, sem kemst á lista yfir hæstu lágmörk í Reykjavík.

Samfelldar lágmarksmælingar hófust í Reykjavík í maí 1920 og hefur sólarhringslágmarkið aðeins fjórum sinnum verið hærra en nú, og þrisvar jafnhátt. Langhæst var lágmarkið að morgni 31.júlí 1980, 18,2 stig - eiginlega „út úr kortinu“ - eins og sagt er.

Næsthæst var lágmarkið þann 8.júní 1929, 15,5 stig og 15,4 stig þann 11.ágúst 2004. Þann 28.júlí 1936 var það 14,5 stig.

Jafnt lágmarkinu nú (14,4 stig) var það 25.júlí og 3.september 1939 sem og 8.júlí 1991.

Það flækir málið að á sjálfvirkum veðurstöðvum er farið að miða við „réttan“ almanakssólarhring (kl.0 til 24). Það þýðir að á sjálfvirku stöðinni þurfum við að bíða til kl.24 til að sjá sólarhringslágmarkið. Hiti hefur reyndar ekki enn farið niður fyrir 14,5 stig - en spár segja að hann geri það fyrir kl.24 í kvöld. Meðan sólarhringslágmark mönnuðu stöðvarinnar verður meðal þeirra hæstu gæti svo farið að sólarhringslágmark þeirrar sjálfvirku verði það ekki, mælirinn er þó sá sami.

Þetta ætti að sýna vel að met þurfa að „hitta í“ - við gætum sífellt verið að finna met með því að hringla til með viðmiðunartíma og þess háttar. Við gætum hugsanlega náð hærra sólarhringslágmarki með því að skipta sólarhringnum á annan hátt. Þótt það gangi reyndar ekki í þessu tilviki gæti það hafa gerst í fyrri tilvikum. Að þessu sinni hafa „klukkumet“ - hæsti hiti á athugunartíma - ekki verið sett í Reykjavík (eitt féll reyndar í apríl og tvö í maí). Best við höggi liggur nú hæsti hiti sem mælst hefur kl.21 í Reykjavík. Núgildandi met er frá 8. ágúst 1964. Þá mældist hitinn 18,1 stig (ekki man ritstjórinn þann dag - og skilur ekkert í því) - það er enn rétt hugsanlegt (ólíklegt þó) að hiti kl.21 í kvöld nái þessari tölu. Önnur klukkumet eru líklega alveg utan seilingar.

 

Viðbót 27.ágúst

Lágmarkshiti í Reykjavík 26.ágúst 2025 endaði í 14,4 stigum, bæði miðað við eldri og nýrri mælihætti. Hlýindin héldust nægilega lengi fram eftir kvöldi til að ná því marki. Uppgjörið hér að ofan stendur því. 

Sólarhringslágmark þess 26. var víða mjög hátt á höfuðborgarsvæðinu, hæst á Skrauthólum á Kjalarnesi og er það nýtt met á þeim stað (athugað frá 2002). Við Blikdalsá á Kjalarnesi fréttist lægst af 16,8 stigum og raunverulegt lágmark hefur sjálfsagt ekki verið lægra að mun, en engar formlegar lágmarksmælingar eru á vegagerðarstöðvum. 

Sólarhringsmeðalhitinn í Reykjavík var einnig óvenjulega hár, 15,9 stig á „mönnuðu“ stöðinni. Á henni er meðaltalið reiknað eftir 8 athugunum sem gerðar eru á 3 klst fresti. Sjálfvirki mælirinn sem miðað er við sýndi hins vegar 16,0 stig (eða 15,96) - þar er meðalhitinn meðaltal 24 athugana á klukkustundar fresti. Hrekkur hér til um einn aukastaf við þessar tvær mismunandi reikniaðferðir. 

Þetta er næsthæsti sólarhringsmeðalhiti sem við vitum um svo seint að sumri í Reykjavík. Þann 2.september 1939 var hann jafnhár eða lítillega hærri (en ónákvæmni er auðvitað nokkur). Þetta er áttundi hæsti sólarhringsmeðalhiti í Reykjavík í ágúst frá 1881 að telja. Langhæstur varð meðalhitinn þann 11.ágúst 2004, 20,1 stig, 1.ágúst 2008 var hann 17,5 stig og sömuleiðis þ.12. ágúst 2004 og 10. ágúst 2004 var hann 17,4 stig. Þann 25.ágúst 2015 var hann 17,0 stig, þann 14.ágúst 1977 16,4 stig og 16,1 stig daginn áður 13.ágúst 1977. 

Leyfum við júlí- og júnímánuðum að vera með dettur tala gærdagsins niður fyrir 30. sæti - svo mikill munur er á ágúst og júlí. Það eru ekki nema tveir júnídagar sem eru hlýrri heldur en gærdagurinn, sá 24. árið 1891 og sá 10. árið 2002. Jafnhlýtt var 2.júní 1955 og 20.júní 1949. 

Flestar þessar eldri dagsetningar eru væntanlega horfnar í gleymskuþoku langflestra - kannski kveikja einhver veðurnörd á þeim. Vonandi muna sumir aðrir þó enn hitabylgjurnar miklu 2008, 2004 og 2002. 


Veðrahvarfakort - og leifar fellibylsins Erin

Ritstjóranum þótti skemmtilegt nú í kvöld (mánudaginn 25.ágúst) að skoða veðrahvarfakort evrópureiknimiðstöðvarinnar. Þau sýna enn einhverskonar „auga“ í leifunum - en hafa verður í huga að reiknireglur þær sem notaðar eru til að teikna kortin eiga e.t.v. ekki við í tilvikum sem þessum - þær eru þrátt fyrir allt málamiðlun. Líkanið sjálft getur verið alveg rétt þrátt fyrir það. 

Við lítum á tvær myndir.

w-blogg250825ia

Svæðið á kortinu er hið sama og á hefðbundnu Atlantshafskorti, Ísland er rétt ofan við miðja mynd. Litirnir sýna mættishita í veðrahvörfunum. Oftast auðvelt að finna þau, en þó ekki alltaf. Mættishiti vex alltaf með hæð, því hærri sem hann er því ofar erum við (að jafnaði). Suður af landinu er lítill blár blettur. Þar er mættishitinn í veðrahvörfunum að sögn ekki nema 286 Kelvinstig (13°C), en yfir Íslandi sunnanverðu er hann hins vegar nærri 100 stigum hærri, 382 Kelvinstig (109°C). Mættishitinn segir okkur hvaða hita er að vænta gætum við dregið loftið niður í 1000 hPa. 

w-blogg250825ib

Síðari myndin sýnir í raun það sama - nema að við notum þrýsting í veðrahvörfunum til að segja okkur frá hæð þeirra. Í „auganu“ (við notum gæsalappir) er hann 968 hPa, reyndar hærri heldur en sjávarmálsþrýstingur í lægðarmiðjunni - eitthvað skemmtilegt hér á ferð. Yfir sunnanverðu Íslandi er þrýstingurinn í veðrahvörfunum hins vegar 131 hPa. Við erum komin í um 14 km hæð. 

Það er svo hlýtt í efri hluta veðrahvolfs yfir landinu að við getum eiginlega fullyrt að um hitabeltisloft sé að ræða. Líklega hittir þó ekki það vel í að við náum metum yfir Keflavíkurflugvelli - en það munar samt ekki mjög miklu. Í neðri hluta veðrahvolfs munar meiru - meira vantar upp á met. 

Veðurlagi sem þessu getur fylgt óvenjulegt skýjafar - þar sem náðarsamlegast myndast göt í lágskýjabreiðuna. Þetta verður ekki alveg jafnbólgið á morgun - en rétt samt að gefa skýjafari gaum. 


Um gamla kennslubók

Um þessar mundir er blogg hungurdiska 15 ára. Fyrsti pistillinn (reyndar aðeins ein lína) féll af himnum ofan (nánast) þann 19. ágúst árið 2010. Fyrsti „alvörupistillinn“ birtist hins vegar þann 23.ágúst og fjallaði um fyrsta íslenska veðurfræðiritið, „Um meteora“ sem Magnús Stephensen tók saman og birti í þriðja árgangi rita Lærdómslistafélagsins 1782 (merkileg bók). Næstu daga var fjallað um fleiri gömul rit á íslensku og fjalla um veður og veðurfræði. 

Eitt þessara gömlu rita hafði reyndar þar til alveg nýlega farið framhjá ritstjóranum. Það ber nafnið „Sjór og loft, kaflar úr almennri jarðlýsingu“ eftir Bjarna Sæmundsson aðjúnkt (eins og hann kallar sig). Bókin kom út hjá Bókaverslun Sigfúsar Eymundssonar 1919 og var - eins og segir á forsíðu, „til notkunar við kenslu í lærdómsdeils mentaskólans“. Bókin er 69 síður. 

sjor-og-loft_bjarni-saem_1919

Í formála segir Bjarni að allt frá því að lærdómsdeild Menntaskólans hafi verið sett á stofn hafi verið kennd þar undirstöðuatriði í eðlislýsingu sjávar og lofts af þeirri eðlilegu ástæðu að sjór og veðrátta hafa „svo afarmikil áhrif á öll kjör þjóðar vorrar, að það getur varla talist sæmandi að mentaður Íslendingur sje með öllu ófróður um þessi atriði ... “,

Síðan segir Bjarni það hafa verið sitt hlutskipti að kenna þetta og hafi hann gert það í tíu ár og stuðst við norska bók, sem hann segir ágæta en hún taki „lítið tillit“ til Íslands. Síðan segir Bjarni: „Hafði ég fyrir löngu hugsað mjer að semja svipaða bók“ - (heldur kunnugleg áform). Að lokum er þess getið að stjórnarráðið veitti nokkurn styrk til útgáfunnar. 

Eins og þeir sem kynnst hafa öðrum skrifum Bjarna, svosem ritum hans um Fugla og fiska, vita er texti hans mjög lipur og skýr og margt af því sem fram kemur í bókinni gæti alveg eins átt heima í nýrri bók um þetta efni. Það er þó ljóst að ýmislegt er hér líklega verið að segja í fyrsta sinn á prenti á íslensku - eða alla vega ekki komin festa í hugtakaheiti og þess háttar. 

Bókin skiptist í tvo meginkafla sá fyrri heitir „Eðlislýsing sjávarins (sjófræði)“ - bendir til þess að nafnið „haffræði“ hafi annað hvort ekki verið mönnum tamt - eða jafnvel ekki orðið til. 

Síðari meginkaflinn heitir „Eðlislýsing loftsins (Loftfræði eða veðurfræði)“. Orðið loftfræði er ritstjóra hungurdiska ókunnugt og sömuleiðis virðis sem að orðið „veðurfræði“ hafi e.t.v. ekki verið alveg tamt á þessum árum - þótt það sé hins vegar að minnsta kosti 40 árum eldra. 

Árið 1919 var þekking á bæði efri loftlögum sem og aflfræði lofthjúpsins mjög takmörkuð - en ekki svo langt í byltingarkenndar framfarir í þeim efnum. Texti bókarinnar líður auðvitað nokkuð fyrir þetta. Menn þekkja hér bæði lág- og háþrýstisvæði og hringrás loftsins í kringum þau, en orðin „lægð“ og „hæð“ eru ekki notuð hér - heldur „sveipir“ og „andsveipir“ - eða jafnvel „minim“ og „maxim“. Greinilegt er að ritstjórinn þarf eitthvað að athuga hvenær nútímaorðin komast í notkun - hvort það er Þorkell Þorkelsson fyrsti veðurstofustjórinn eða Jón Eyþórsson, fyrsti veðurfræðingur landsins nota þau fyrst. 

Eftir að hafa fjallað nokkuð um dæmigert veðurlag í lægðum og hæðum (minimum og maximum) er stuttlega minnst á veðurspár (s.53):

„Það liggur í augum uppi, að það mætti segja fyrir um veður með nokkurum fyrirvara, ef menn gætu reiknað nákvæmlega út göngur eða hreyfingar sveipanna, en það er ógerningur enn sem komið er“. Síðan bendir Bjarni á að fylgjast megi með hreyfingum sveipanna með hjálp veðurskeyta og þannig séu einhverjar veðurspár mögulegar. 

sjor-og-loft_bjarni-saem_1919-skyringarmynd-18

Mynd úr bókinni. Hún sýnir dæmigert skýjafar sem fylgir sveip (lægð). Hér má sjá jafnþrýstilínur dregnar í mm kvikasilfurs (750 = 1000 hPa). 

Þegar á allt er litið er bók þessi holl lesning fyrir veðuráhugamenn. 

Þess má að lokum geta að pistlar hungurdiska eru nú orðnir 3436 - ristjórinn nokkuð farinn að mæðast - og orðinn endurtekningasamur úr hófi.  


Leifar fellibylsins Erin

Undanfarna viku - rúma - var mjög öflugur fellibylur á ferð um Atlantshaf. Kerfið kom fyrst fram undan ströndum Vestur-Afríku, varð að hitabeltisstormi 11. ágúst og hreyfðist síðan til vestnorðvesturs yfir hafið. Náði um stund styrkleikanum fimm, en það er efsta styrkleikastig fellibylja. Fór miðjuþrýstingur þá stutta stund niður í 915 hPa. Síðan tók við stækkunarstund - það dró heldur úr vindhraðanum en kerfið stækkaði verulega og sveigði nú til norðurs og norðausturs. Þótt miðjan væri alltaf langt frá landi varð sjógangur mikill við austurströnd Bandaríkjanna og á eyjum Karíbahafs og þar rigndi sumstaðar verulega þegar kerfið fór hjá. Tjón varð talsvert. Kerfið fékk nafnið Erin - fimmta nafngreinda hitabeltiskerfi ársins, en það fyrsta sem náði fellibylsstyrk. 

Um síðir lenti kerfið svo í vestanvindabeltinu - en er svo stórt að enn er veruleg hringrás í því, þrýstingur í miðju lægðarinnar um 955 hPa og svo virðist sem vindur sé enn af fárviðrisstyrk á mjóu belti í suðurjaðri kerfisins.

w-blogg240825a

Kortið sýnir stöðuna í dag (sunnudag 24.ágúst kl.18) - að mati evrópureiknimiðstöðvarinnar. Lægðin er rétt norðan við 50. breiddarstig. Til morguns er gert ráð fyrir því að hún þokist norður á bóginn, en fari að grynnast. Reiknimiðstöðvar gera ráð fyrir því að regnsvæðið norðan við miðjuna komist alveg norður fyrir Ísland. Það yrði síðdegis á morgun og annað kvöld (mánudag). Ekki er gert ráð fyrir miklum vindi (hugsanlega þó staðbundið). Á þriðjudag á lægðarmiðjan að komast norður undir 60. breiddarstig, en farin að grynnast. Síðan á hún að fara suðaustur til Bretlands og eyðist þar síðar í vikunni. 

Kerfinu fylgir mjög hlýtt loft, hversu mikið við njótum þess fer að nokkru eftir úrkomumagninu. Verði úrkoma ekki mikil gæti hiti á landinu skotist vel upp fyrir 20 stig, bæði vestan- og norðanlands. En rigni eitthvað sem heitir fer hluti hlýindanna í uppgufun á regndropum og bleytu - lækkar hita töluvert. En eins og oft er sagt - miði er möguleiki. 

Það er ekki oft sem við sjáum þrýsting undir 965 hPa á þessum árstíma í námunda við landið. Ágústlandslágmarksmetið er orðið gamalt, 960,7 hPa, sett þann 27. árið 1927. Um það merkilega tilvik er fjallað í pistli hungurdiska um árið 1927. Þá kom fyrsti fellibylur ársins við sögu. Kominn alla leið frá vesturströnd Afríku, rétt eins og Erin. Munurinn hins vegar sá að mjög hvasst varð á landinu, úrkoma mikil og gerði hálfgert hausthret í kjölfarið, alhvítt varð niður í miðjar hlíðar nyrðra - en þetta tók fljótt af. 


Hæsti hiti ársins - upprifjun

Hér á hungurdiskum hefur nokkrum sinnum áður verið fjallað um hæsta hita ársins á Íslandi - þetta er því eins konar endurtekning - en myndirnar eru þó nýgerðar - og gagnaröðin nær allt til ársins í ár (2025). Á dögunum mældist hæsti hiti á landinu í 79 ár, 29,8 stig. Svo sannarlega óvenjuleg tala. Í öðrum pistli hungurdiska - frá árinu 2018 - var fjallað um öll þau tilvik þar sem hiti hefur mælst 30 stig eða meira - flest eru þau vafasöm eða klárlega röng. Við höldum þó (fyrir siðsemi sakir) í þrjár mælingar (þar af tvær sama daginn) og segjumst trúa því að hiti hafi náð 30 stigum. 

Hér er hins vegar spurt um hæsta hita ársins - svona yfirleitt. Við lítum á síðustu 100 ár, árin 1926 til 2025 og teljum hversu oft þessi hámarkshiti lendir á hverri hitatölu. Við veljum hér bilin 20,0 til 20,9 og svo framvegis, en hefðum alveg eins getað valið 20,5 til 21,4 og þá endað á 30,5 til 31,0. Þá hefðu súlurnar á myndinni hér að neðan aðeins hliðrast til. 

w-blogg200835a

En við horfum á þessa. Síðustu 100 árin hefur hiti á hverju einasta ári náð 20 stigum einhvers staðar á landinu. Litlu munaði þó árin 1961 og 1979. Hæstur varð hitinn 1939, 30,5 stig - á Teigarhorni (eins og flestir lesendur vita), sama dag mældist hiti 30,2 stig á Kirkjubæjarklaustri - gefur okkur kannski afsökun fyrir því að trúa mælingunum. Árið 1946 er getið um 30,0 stig á Hallormsstað - ekki alveg trúlegt - en við getum samt ekki þurrkað þá tölu út án umhugsunar (meir um það mál í áðurnefndum pistli).

Ef við framkvæmum talninguna með 0,1 stigs nákvæmni kemur í ljós að miðgildið er 26,0 stig. Í fimmtíu árum hefur hæsti hiti ársins verið lægri en 26,0 stig, og í fimmtíu árum meiri en 26,0 stig. Af einstökum bilum (eins og við skilgreindum þau) er algengast að hæsta hámark ársins sé 26 komma eitthvað stig, 22 sinnum á 100 árum. Frá 21 stigi upp í 26 er fjölgunin nokkuð jöfn frá stigi til stigs, en tíðnin fellur öllu hraðar, strax og komið er upp í 27. Segja má að það sé eftirtektarvert nái hæsti hiti ársins 28 stigum eða meira. 

Þá er komið að því að spyrja hvort við sjáum einhverja greinilega breytingu - fjölgar mjög háum árshámörkum eða ekki? 

w-blogg200825b

Einfalda svarið er nei. Myndin sýnir hæsta hámark hvers árs síðustu 100 árin. Við getum reiknað leitni og fengið út að hún sé um 0,8 stig á þessum 100 árum - sem ekki er marktækt miðað við dreifina. Þeir sem vilja halda fram leitni geta þó bent á að á tímabilinu 1950 til 1973 hafi verið skortur á háum tölum - en fjöldi lágra. Tímabil þetta nær út yfir „hafísárin“ svonefndu, byrjar um 15 árum áður - meðan ársmeðalhiti var enn í sæmilegu lagi. Við höfum hins vegar áður bent á að hlýindaskeiðið fyrra stóð styttra að sumarlagi heldur en á öðrum árstímum - hvað sem veldur - það er alveg raunverulegt. Ef við byrjum að reikna inni í þessu svalara skeiði (hvort sem við byrjum 1950 eða 1970 skiptir litlu) - virtist leitni hámarkshitans vera meiri, meira að segja töluvert meiri. 

Það má einnig segja að á áratugnum 1950 til 1960 var einmitt verið að skipta um hitamælaskýli hér á landi, veggskýli lögð af, en fríttstandandi tekin upp. Kannski hefðu hin háu hámörk tímabilsins 1926 til 1950 ekki mælst í fríttstandandi skýlunum? Á hinn bóginn geta aðrir bent á að hin háu gildi síðustu 25 ára séu aðallega mælihólkum sjálfvirku stöðvanna að þakka - svona háar tölur hefðu ekki sést í gömlu skýlunum. Eitthvað gæti verið til í því varðandi hámörkin sjálf. Rétt að ítreka að samanburðarmælingar sýndu nær engan mun á meðalhita skýla og hólka. Við vitum hins vegar að samanburðarmælingar (þótt þær séu ekki margar) sýndu oftast að veggskýlin voru of hlý yfir hádaginn - miðað við fríttstandandi skýlin. Einfalt var að laga það - með því að nota síðari tíma aðferðir til reikninga meðaltala. Þéttara veðurathuganakerfi gæti einnig skipt máli. 

En niðurstaðan er alla vega sú að við getum ekki dregið neinar ályktanir um hlýnandi veðurfar (né kólnandi) með því að líta á árshámarkshitann eingöngu - til þess er hann of tilviljanakenndur - aðeins ein tala á ári. 

Eins og sjá má á myndunum hér að ofan hefur það gerst í 13 árum síðastliðna öld að árshámarkshiti á landinu hafi náð 28 stigum. Það var 1926, 1937, 1939, 1946, 1949, 1974, 1988, 1991, 2004, 2008, 2012, 2021 og 2025. Þegar farið er í saumana á þessum tilvikum kemur í ljós að stundum voru 28 stigin ein á ferð, en stundum mældist svo mikill hiti á fleiri stöðvum, jafnvel mörgum.

Í hitabylgjunni miklu 21. og 22. júní 1939 þegar íslandsmetið var sett fréttist af 28 stigum eða meira á fjórum stöðvum - og mánuði síðar á einum. Það síðara tilvik (Lambavatn er raunar talið vafasamt). Hefði stöðvanetið verið þéttara hefðu stöðvarnar ábyggilega verið talsvert fleiri sem skiluðum 28 stigum. Einnig fréttist af 28 stigum á einni stöð einn dag síðar sama sumar. 

 

Í flestum þessum tilvikum náði hiti 28 stigum aðeins einn dag - og oft aðeins á einni stöð. Þannig var það 1926, 1937, 1946, 1949, 1974, 1988 og 2012. Árið 1939 voru tveir dagar með í spilinu og 1991 komu 6 stöðvar við sögu og 5 dagar - grunur er um „tvöföld hámörk“ í tveimur tilvikum - dagarnir væru þá þrír. En þetta var í langtímasamhengi mjög óvenjuleg hitabylgja. Það var hitabylgjan mikla í ágúst 2004 líka. Þá fór hiti í 28 stig á tíu sjálfvirkum stöðvum, sjö mönnuðum - og fjórum vegagerðarstöðvum að auki - og þrír dagar komu við sögu (10., 11. og 13. ágúst - einnig var mjög hlýtt þann 12. þótt ekki næðust 28 stig þann dag). Þetta átti sér líka stað bæði um landið sunnanvert og norðaustan- og austanlands.

Mjög mikla hitabylgju gerði einnig í júlílok 2008. Þá fór hiti í 28 stig á sjö sjálfvirkum stöðvum um landið sunnanvert. Í ágúst 2021 fór hiti í 28 stig á fjórum stöðvum - tveir dagar komu þá við sögu. Í sumar (2025) gerðist hins vegar hið óvenjulega, að hiti náði 28 stigum tvisvar - alveg aðskilið, annars vegar þann 14.júlí þegar hiti fór svo hátt á sjö stöðvum - (og þremur vegagerðarstöðvum að auki) og hafði náð 28 stigum á einni stöð daginn áður. Síðan var það 16. ágúst að hiti komst aftur í 28 stig - nú á þremur stöðvum sama dag.

Á síðastliðnum 100 árum eru þrjár stórar hitabylgjur til viðbótar þar sem ekki er ósennilegt að hiti hefði e.t.v. náð 28 stigum hefði veðurathugunarnetið verið jafnþétt og nú. Þetta eru júlíhitabylgjurnar 1944, 1976 og 1980. Eins er næsta öruggt að þétt kerfi hefði náð einhverjum stökum 28 stigum í viðbót.

Við vitum eitthvað um hámarkshita á landinu lengra aftur í tímann - en þá voru hámarksmælar sorglega fáir á landinu. 

Af eldri hitabylgjum sem hefðu e.t.v. gert það gott má nefna júlíbylgjuna 1911 þegar hiti mældist 29,9 stig á Akureyri og hiti náði 28 stigum á fjórum stöðvum öðrum - án hámarkshitamæla. Einnig má nefna ágústhitabylgjuna 1876 og júlíhitabylgjuna miklu 1842. Gallinn sá að mæliaðstæður voru illa staðlaðar. Nokkra væna daga upp úr 1890 má einnig nefna - en líklega hefði aðeins verið þar um stakar tölur að ræða. Um þessar hitabylgjur allar má lesa í eldri pistlum hungurdiska. Sjálfsagt er einnig fyrir áhugasama lesendur að rifja upp pistil frá því í fyrra um hitabylgjuhlutfall - og langtímabreytingar þess. 

Það þarf nokkuð góðan vilja til að sjá að hitabylgjum hafi fjölgað á síðari árum. Þó ritstjóri hungurdiska sjái þá fjölgun illa eða ekki er ekki þar með sagt að hún hafi hvorki orðið né sé hún í pípunum. Það verður bara að koma í ljós.


Fyrstu 20 dagar ágústmánaðar 2025

Meðalhiti fyrstu 20 daga ágústmánaðar 2025 í Reykjavík er 11,1 stig, -0,3 stig undir meðallagi sömu daga árin 1991 til 2020 í Reykjavík og -0,2 stig undir meðallagi síðustu tíu ára. Raðast hitinn í 17. hlýjasta sæti (af 25) á öldinni. Hlýjastir voru sömu dagar árið 2004, meðalhiti þá 13,5 stig, kaldastir voru þeir hins vegar 2022, meðalhiti þá 10,0 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 60. hlýjasta sæti (af 153). Sömu dagar 1912 eru lægstir á þeim lista, meðalhiti þá var aðeins 7,6 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti það sem af er mánuði 11,8 stig og er það +0,6 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +0,9 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Hitavikum er nokkuð misskipt á landinu. Hlýjast að tiltölu hefur verið á Austfjörðum, þar eru dagarnir 20 þeir næsthlýjustu á öldinni, en kaldast að tiltölu hefur verið við Faxaflóa og á Suðurlandi, hitinn raðast í 15. hlýjasta sæti aldarinnar. Önnur spásvæði raðast þarna á milli.
 
Á einstökum stöðvum hefur að tiltölu verið hlýjast á Seyðisfirði, hiti er þar +2,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Að tiltölu hefur verið kaldast í Reykjavík og á Þingvöllum, hiti -0,2 stig neðan meðallags.
 
Úrkoma hefur mælst 51,7 mm í Reykjavík og er það um 40 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hafa mælst 14,4 mm, um 60 prósent meðallags og 15,9 mm á Dalatanga, sem er um fimmtungur meðallags.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 87,5 í Reykjavík, 29 færri en í meðalári. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 104,8, 10 fleiri en að meðallagi.

Fyrri hluti ágústmánaðar 2025

Fyrri hluti ágústmánaðar 2025 var fremur daufur suðvestanlands, en þurrari og hlýrri um landið austanvert. Meðalhiti í Reykjavík er 10,9 stig og er það -0,6 stigum neðan meðallags sömu daga árin 1991 til 2020, og -0,4 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Raðast hitinn í 20. hlýjasta sæti aldarinnar (af 25). Fyrri hluti ágúst var hlýjastur í Reykjavík árið 2004, meðalhiti þá 14,0 stig. Kaldastur var hann 2022, meðalhiti 10,0 stig. Á langa listanum raðast hitinn nú í 84. hlýjasta sæti (af 153). Kaldast var 1912, meðalhiti 7,4 stig (en hlýjast 2004).
 
Á Akureyri er meðalhiti fyrri hluta ágúst 11,3 stig. Það er -0,1 stigi neðan meðallags 1991 til 2020, en +0,4 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Hiti á spásvæðunum raðast nokkuð misjafnt. Hlýjast að tiltölu hefur verið á Austfjörðum - það 5.hlýjasta á öldinni, en kaldast að tiltölu við Faxaflóa þar sem hiti raðast í 18. hlýjasta sæti á öldinni.
 
Á einstökum veðurstöðvum hefur að tiltölu verið hlýjast á Seyðisfirði. Þar er hiti +2,1 stig ofan meðallags, en -0.7 stig neðan þess í Þúfuveri.
 
Úrkoma er um 80 prósent ofan meðallags í Reykjavík. Hefur mælst 50,1 mm. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 12,0 mm og er það um tveir þriðju hlutar meðalúrkomu þar. Á Dalatanga hafa mælst 15,5 mm og er það aðeins fjórðungur meðalúrkomu.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 79,8 í Reykjavík - og er það í meðallagi (það hafa komið nokkrir mjög sólríkir dagar). Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 74,7 og er það einnig mjög nærri meðallagi.
 
Loftþrýstingur var mjög lágur framan af (hefur heldur hækkað síðustu daga), en samt hefur meðalþrýstingur ekki nema um tíu sinnum verið lægri en nú á þessum tíma síðustu 200 árin.
 
Undir kvöld í gær hlýnaði mjög austan- og suðaustanlands og í dag (16. ágúst) eru þar sums staðar methlýindi, m.a. virðist landshitamet ágústmánaðar vera fallið. Meir um það síðar. 

Enginn friður

Það er lítill friður fyrir ásókn hlýinda. Ritstjóri hungurdiska man varla eftir því áður að hafa jafn ótt og títt þurft að vera á varðbergi gagnvart nýjum hitametum í háloftunum yfir landinu. Hingað stefnir nú mjög hlýtt loft langt úr suðvestri og verður yfir landinu á föstudag og laugardag - hugsanlega lengur. 

w-blogg130825a

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar um hæð 500 hPa-flatarins, hita og vind í fletinum á fimmtudagskvöld. Yfir Reykjanesi er blettur þar sem hitinn á að vera hærri en -10°C. Það er ekki mjög oft sem svo hlýtt loft heimsækir landið. Reyndar er furðumikill munur á tíðni -11 stiga og -9 stiga. Metið í 500 hPa er -7,6 stig, mjög vafasamt reyndar og sett 23.júlí 1952, en staðan var samt þannig að ritstjórinn treystir sér ekki til að þurrka það út án þess að hafa farið mjög nákvæmlega í saumana á því. Þennan dag fór hiti í Möðrudal í 25,7 stig - ljóst að mjög hlýtt loft var yfir landinu - þótt heldur stæði það stutt við. 

Svipað á við um næsthæstu töluna, -8,1 stig sem mældist 12.ágúst rigningasumarið mikla 1983, og er hún ágústmet. Þrjár tölur aðrar eigum við í safninu með hita hærri en -9 stig í 500 hPa. Í águst 2021 - hinum ofurhlýja mánuði - mældist hiti tvisvar -9,0 stig í 500 hPa yfir Keflavíkurflugvelli, þann 15. og 23. 

Vísar sem við notum til að giska á hita í mannheimum eru einnig mjög háir á föstudag og laugardag. Þykktinni er spáð yfir 5640 metrum - og er það einnig nærri meti. Í era5 gagnasafninu er 5650 metrar hæsta ágústgildið, kemur fyrir fjóra daga á tímabilinu 1940 til 2022, 1.ágúst 1941, 26.ágúst 1947, 10.ágúst 2004 og 24.ágúst 2021. Hæsta ágústgildið í greiningarsafni reiknimiðstöðvarinnar 2011 til 2024 er 5660 metrar, 24. ágúst 2021. 

Keflavíkurflugvöllur er sunnar heldur en viðmiðunarpunktur sá sem notaður er í greiningartöflunum hér að ofan - og þar eru aðeins fleiri gildi yfir 5650 metrum, það hæsta 5676 metrar, sem mældist 9.ágúst 2004. 

Í öllum þessum öfgaþykktartilvikum varð mjög hlýtt á landinu. Árið 1941 var hámarkshiti ekki mældur mjög víða, mest fréttist af 23,3 stigum þann 1. á Akureyri, þann 22. ágúst 1947 mældist hiti á Sandi í Aðaldal 27,2 stig. 

Hiti á Austurlandi gæti nú hæglega farið yfir 25 stig annan hvorn daginn eða báða - en nær varla ágústlandsmetinu sem er 29,4 stig, sett á Hallormsstað 24.ágúst 2021. Þótt ýmsir hafi viljað efast um þá mælingu hefur ritstjórinn ekki mikið út á hana að setja - hún er alla vega jafngóð eða skárri heldur en margt það sem á metalistum er. Næsthæsta ágústtalan er einnig yfir 29 stig, 29,2 mæld á Egilsstöðum í hitabylgjunni miklu 2004 (11.ágúst). Þannig að alla vega verður við ramman reip að draga nú. 


Fyrstu tíu dagar ágústmánaðar 2025

Fyrstu tíu dagar ágústmánaðar 2025 hafa verið hlýir um landið austanvert, en svalari vestanlands. Meðalhiti í Reykjavík er 11,0 stig og er það -0,5 stigum neðan meðallags sömu daga á árunum 1991 til 2020 og -0,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Raðast hitinn í 19.hlýjasta sæti (af 25) á öldinni. Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2003, meðalhiti þá 13,5 stig, en kaldastir voru þeir 2022, meðalhiti 10,2 stig. Á langa listanum raðast hitinn nú í 78. hlýjasta sæti (af 153). Hlýjast var 2003 (og 1944), en kaldast 1912. Þá var meðalhiti þessara daga ekki nema 6,4 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu daga ágústmánaðar 11,5 stig og er það í meðallagi 1991 til 2020 og +0,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Eins og áður sagði er töluverður munur á hitafari austan- og vestanlands. Við Faxaflóa og á Suðurlandi raðast hitinn í 17. hlýjasta sæti aldarinnar (af 25), en á Austfjörðum eru dagarnir þeir fjórðuhlýjustu á öldinni.
 
Jákvætt hitavik - miðað við síðustu tíu ár - er mest á Gjögurflugvelli, +2,7 stig, og +2,4 stig á Hornbjargsvita. Hiti er hins vegar -0,9 stigum neðan meðallags í Þúfuveri og -0,8 stig neðan þess við Setur.
 
Úrkoma hefur mælst 28,6 mm í Reykjavík það sem af er mánuði. Það er um 60 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 6,8 mm og er það um 60 prósent meðallags. Á Dalatanga hafa aðeins mælst 3,5 mm og er það innan við tíundihluti meðallags.
 
Eftir mjög sólarrýra viku, rúma, komu þrír miklir sólardagar í Reykjavík þannig að sólskinsstundafjöldi mánaðarins er nú kominn upp í 55,1 stund - og er það í rétt rúmu meðallagi. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar í mánuðinum til þessa mælst 52,5 og er það sömuleiðis í rétt rúmu meðallagi.
 
Loftþrýstingur hefur verið sérlega lágur þessa tíu daga - rétt eins og reyndar sömu daga í fyrra. Þrýstingur hefur aðeins tvisvar verið marktækt lægri en nú síðustu 200 árin rúm. Það var í fyrra og 1842. Þrýstingur var ámóta lágur og nú sömu daga árið 2020, 1876 og 1867. Í fyrra (2024) hélst þessi lági þrýstingur allan mánuðinn og varð að meti, varla eru líkur á því nú miðað við spár.
 
Í sambandi við frétt um næturfrost sem birtist í dag (11.ágúst) má geta þess að það hefur aðeins gerst fjórum sinnum á þessari öld að heill sumarmánuður hafi verið alveg frostlaus í byggðum landsins. Þetta eru júní 2003, júní og júlí 2014 og ágúst 2021. Síðastnefndi mánuðurinn er sá eini þar sem hvergi fréttist af frosti á landinu - ekki heldur á hálendisstöðvum. Á fyrri tíð voru svona mánuðir fleiri - athugunarkerfið var þá mun gisnara heldur en nú og gögn því ekki alveg samanburðarhæf.

Enn af árstíðasveiflum

Ritstjóri hungurdiska er stöðugt að skrifa eitthvað um árstíðasveiflur veðurþátta. Flest af því sem hér fer á eftir hefur þannig borið við áður á þessum vettvangi - en stundum finnst ritstjóranum bara ekki veita af að rifja það upp. Fyrsta myndin hefur þó ekki sést áður - alla vega ekki í þessu formi.

w-blogg090825a

Hún sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins yfir Íslandi (blár ferill) og meðalþykkt yfir landinu (rauður ferill). Gögnin eru úr endurgreiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar á tímabilinu 1940 til 2022. Lárétti ásinn sýnir tíma - í 18 mánuði - byrjar 1. janúar - en fer fram yfir áramót til að allur veturinn komi fram í heilu lagi - og síðan haldið áfram til 30.júní. 

Lóðrétti kvarðinn er merktur í dekametrum, 1 dekametri er 10 metrar. Sem kunnugt er mælir þykktin hita í neðri hluta veðrahvolfs. Um það bil 1 stig á hverja 2 dekametra (20 metra). Lægstu meðaldagsgildi vetrarins eru í kringum 520 metra, en þau hæstu um 546 dekametrar. Það munar um 26 dekametrum, eða um 13 stigum á hita vetrar og sumars. Auðvitað geta ítrustu tölur á báða vegu verið allt aðrar, lægsta þykkt sem sést hér við land er um 490 dekametrar, en sú hæsta í kringum 566 - það munar um 76 dekametrum, eða 38 stigum á hlýjasta og kaldasta loftinu sem yfir okkur er. 

Á myndinni má sjá gráa lóðrétta strikalínu, hún sýnir sólstöður á sumri, 21.júní. Þá eru bæði hæð 500 hPa-flatarins og þykktin á leið upp á við. Einnig má sjá rauða strikalínu, hún er við 9. ágúst (dagurinn sem pistillinn er skrifaður). Við sjáum að bæði hæð og þykkt eru farin að falla frá hámörkum sínum, en vantar nokkuð upp á að ná sömu gildum og á sólstöðum. Rauð strikalína merkir meðalþykktina við sólstöðurnar og fylgjum við henni að þeim stað sem hún sker þykktarlínuna síðara sinnið sjáum við að kominn er 1.september. Ef við miðum sumarið við þykktina á sólstöðum, endar það 1.september. Miðum við sumarbyrjun við 1.júní lengist sumarið til 21. september (grá strikalína sýnir þann möguleika).

Í dag, 9. ágúst er því enn nokkuð eftir af sumri. Ef við látum sumarið enda við verslunarmannahelgi hlýtur það hins vegar að byrja um 17.júlí - stutt sumar það. Þeir sem telja sumarið fylgja hitanum hljóta að telja að lengra en 2 til 3 vikur.

Við tökum eftir því á myndinni að misgengi er á milli ferlanna tveggja, mun lengra er á milli þeirra að sumarlagi heldur en að vetri og er munurinn mestur á vorin. Þetta sjáum við eimmitt á næstu mynd - munurinn kemur nefnilega fram í þrýstingi við sjávarmál. Þrýstingur við sjávarmál segir okkur af hæð veðrahvarfanna (sem hæð 500 hPa-flatarins er góður fulltrúi fyrir) og hita í neðri hluta veðrahvolfs. Stundum erfitt að greina að hvort er hvort - frá degi til dags. 

w-blogg090825b

Lárétti kvarðinn er sá sami og á fyrri mynd, en lóðrétti kvarðinn sýnir meðalþrýsting við sjávarmál. Við notfærum okkur 200 ár af mælingum - sem skilar hreinni ferli. Á ferlinum eru alls konar vendipunktar. Síðari hluti vetrar byrjar hér 10.febrúar. Þá fer þrýstingur að rísa - sólin fer að skína á norðurslóðum. Þrýstingurinn stígur nokkuð reglulega allt fram á sumardaginn fyrsta. Þá dregur úr vestanátt áloftanna og vetur lætur undan á heimskautasvæðunum. Þrýstingur er nú svipaður í um það bil 6 vikur - vorið - oft (en ekki alltaf) tími sólskins og næðinga. Segja sumir að nafn mánaðarins hörpu vísi til þess - herpings og harðinda. Ekki tekur ritstjóri hungurdiska afstöðu í því álitamáli. 

Eftir það fer þrýstingur að falla - hann gerir það síðan í aðalatriðum samfellt allt þar til um mánaðamótin nóvember/desember. Línuritið sýnir þó (sé farið í smáatriði) ýmsar vendingar. Í kringum höfuðdaginn herðir um hríð á fallinu, en um mánuði síðar dregur óvænt úr því aftur. Við getum bara giskað á ástæðurnar - og látum það vera í bili. En það sem gerist um mánaðamótin nóvember/desember er nær örugglega tengt skammdegisvindröstinni miklu í heiðhvolfinu - þeirri sem í tísku er á átakanlegum tvítsíðum meginlandssnjóaspámanna á síðari árum (en við skulum láta þá í friði hér). Í dag nægir okkur að taka eftir höfuðdeginum á þessari mynd. Norðuríshafið og kuldapollar þess taka þá að sameinast að nýju eftir linkind og hrakninga sumarsins. Sömuleiðis snýst vindátt í heiðhvolfinu úr austri í vestur. 

w-blogg090825c

Aukin virkni þeirra sést einnig á næstu mynd. Hún sýnir svokallaðan þrýstióróa, mismun á loftþrýstingi frá degi til dags - allt aftur til 1823. Mjög afgerandi mynd. Ekki er mikill munur á þessum ferli á hinni köldu 19. öld og nú á dögum. Það hefur ekkert afgerandi gerst í hringrásinni allan þennan tíma. Jú, það er ekki alveg satt - haustið, október og nóvember eru með einhverja óreglu (tíminn þegar hausthikið er í þrýstifallinu á fyrri mynd) - ekki gott að segja hvað veldur. Sumarið er hins vegar nánast nákvæmlega eins. Það dregur mjög úr óróa í kringum sumardaginn fyrsta (hörpu) - síðan minnkar hann hægar þar til lágmarki er náð, hér 5. ágúst (ekki alveg sami dagur á öllum tímabilum). Ferill sem sýnir illviðratíðni er nærri því nákvæmlega eins og þessi og sömuleiðis ferill sem sýnir meðalþrýstibratta yfir landinu (mismun á hæsta og lægsta þrýstingi landsins). Við skulum nú stækka út sumarhluta myndarinnar - og ýkja aðeins.

w-blogg090825d

Við sjáum vel hina hröðu breytingu í kringum sumardaginn fyrsta - veður róast þá mjög. Síðan kemur eitthvað hik í minnkun óróleikans í júní, en eftir sólstöður tekur við eitthvað sem við gætum (ef við vildum) talið sérstakt tímabil. Það stendur á þessari mynd hreint og klárt til 22. ágúst - þá gerist eitthvað (vindátt snýst í heiðhvolfi). Þessar dagsetningar eru auðvitað ekki alveg bókstaflegar, en að 200 ára mæliröð skuli sýna þær verður samt að teljast merkilegt. 

Að lokum lítum við á mynd sömu ættar.

w-blogg090825e

Í mjög fljótu bragði virðist um sömu mynd að ræða, en svo er þó ekki. Hér má sjá meðalhitabreytingu frá degi til dags (morgunhiti) í Stykkishólmi 1949 til 2024. Mynd sem sýnir breytileika þykktarinnar frá degi til dags á sama tíma er nærri því eins. 

Við viljum hér draga þá ályktun að miðum við sumarið við hitafar er lítið vit í því að fara að minnast á haust fyrr en komið er vel fram í september, en ef við horfum á veðrakerfið viðurkennum við kannski að einhver hausthristingur í norðri fari að gera vart við sig upp úr 20. ágúst. Við ættum líka að sjá að verulegt vit er í hinni gömlu skiptingu ársins í tvö (nokkurn veginn) jafnlöng misseri - og að dagsetningar þeirrar skiptingar eru ákaflega skynsamlegar. 

Um þetta hefur verið fjallað oft áður á hungurdiskum Þeir sem nenna að lesa gætu gripið í viðhengin tvö. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg081025b
  • w-blogg081025a
  • w-blogg061025b
  • w-blogg061025a
  • w-blogg041025a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (9.10.): 207
  • Sl. sólarhring: 253
  • Sl. viku: 2041
  • Frá upphafi: 2504161

Annað

  • Innlit í dag: 183
  • Innlit sl. viku: 1839
  • Gestir í dag: 170
  • IP-tölur í dag: 170

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband