Bloggfærslur mánaðarins, febrúar 2025

Spurt var

Var spurður um snjó nú í febrúar. Hann hefur verið með minnsta móti, en ekki rétt að fara út í mikinn samanburð því enn eru fjórir dagar eftir af mánuðinum og vel hugsanlegt að einhverjir alhvítir dagar bætist við þann eina sem bókaður er - bæði í Reykjavík og á Akureyri. Febrúar er sjaldan snjólaus í Reykjavík - og enn sjaldnar á Akureyri (hefur þó komið fyrir).

Snjóleysið hefur fylgt miklum hlýindum. Fyrstu 23 dagar mánaðarins eru þeir hlýjustu á öldinni í Reykjavík - og ekki nema þrisvar frá upphafi mælinga sem þeir hafa verið hlýrri. Á Akureyri stendur hitinn örlítið neðar á listum, en ofarlega samt. En bæði snjóleysi og hiti segja lítið um framhaldið. Fyrri vetrarmánuðirnir voru ekki hlýir - og snjóhula var yfir meðallagi. Meðalfjöldi alhvítra daga í febrúar er 12 í Reykjavík, en 10 í mars. Á Akureyri eru tölurnar 17 í febrúar og 16 í mars. Mars er vetrarmánuður hér á landi sem kunnugt er.

Þetta gefur tilefni til að rifja upp fáeinar gamlar veðurvísur - pör reyndar, það fyrra tilheyrir deginum í dag (24.febrúar), Matthíasarmessu guðspjallamanns. Þessi messudagur hefur þá sérstöðu meðal slíkra daga að hann ber ekki upp á sama almanaksdag í hlaupárum - þá 25. febrúar og kallaðist þá stundum hlaupársmessa. Pétursmessa (Péturs stóll) er hins vegar 22.febrúar í öllum árum. Ástæða þessa misræmis er að í rómverska tímatalinu - var hlaupársdagur ekki 29.febrúar, heldur tróðst inn á undan Matthíasarmessu - (aldrei einföld þessi almanaksfræði).

Vísur þessar lét Jón Þorkelsson prenta í Almanak Þjóðvinafélagsins aldamótaárið 1900 (ásamt fleiri veðurvísum).

Matthías þíðir oftast ís,
er það greint í versum,
annars kæla verður vís,
ef vana bregður þessum.

Matthías ef mjúkur er,
máttugt frost þá vorið ber,
vindur, hríð og veðrið hart
verður fram á sumarið bjart.

Heldur óljóst allt saman. Skyldi dagurinn í dag hafa talist mjúkur? Fyrri vísan vísar eiginlega beint til þess sem sagt er um Pétursmessu (22.febrúar) - að þá setji Sankti Pétur vermisteininn í jörðina - það er slík sólarþíða sem væntanlega er átt við í fyrri vísunni. Sé sólarlaust (kannski með hlýindum) - er kulda að vænta.

Þessi vantrú á febrúarhlýindi kemur einnig vel fram í hinum vísunum tveimur:

Febris ef ei færir fjúk
frost né hörku neina,
kuldi sár þá kemur á búk,
karlmenn þetta reyna.

Ef þig fýsir gefa að gætur
gátum fyrri þjóða,
páskafrostið fölna lætur
februari gróða.

Það er talsvert vit í þessu með vermisteininn - eins og hungurdiskar hafa minnst á áður (eða var það ekki). Þetta með febrúarhlýindi sem bregðast eru líka almenn sannindi - tölfræðileg á sinn hátt. Það er harla ólíklegt að margir hlýir kaflar fari samfellt saman allt frá miðjum vetri til vors - en munum þó að það hefur gerst.

Hér er rétt að kveina í lokin. Hvers vegna í ósköpunum hefur Almanak Háskólans hætt að birta nöfn messudaga? Þetta var mjög til þæginda við lestur gamalla rita að geta bara flett upp í almanakinu. Stöðugt er verið að nefna suma messudagana í umfjöllun um tíðarfar - aðrir fátíðari. Ritstjóra hungurdiska er svosem engin vorkunn enda hefur hann komið sér upp sérstakri skrá til að fletta upp í. Þetta væri e.t.v. skiljanlegra ef nauðsynlegt þætti að koma öðru efni að, en svo er ekki - í langflestum tilvikum er bara eyða á blaðsíðunni.

Það er auðvitað viðurkennt að arfavitlausir veðurspádómar fylgdu sumum messudögunum, en þeir voru ekki aðalatriðið. Heldur voru þessir dagar, ásamt misseristalinu gamla og stórhátíðum, allir mikilvægir áfangar í gangi árstíðanna og auðvelda tilfinningu manna fyrir honum - sem er þrátt fyrir allt mikilvæg enn á dögum - þrátt fyrir allar „framfarir“.


Snöggar hitasveiflur

Í pistlasafni hungurdiska er nokkrum sinnum minnst á stórar og skyndilegar hitasveiflur á veðurstöðvum. Reyndar hefur ritstjórinn reglulega auga með slíkum tilvikum en er þó ekki nægilega vel vakandi eða þrekmikill til að komast fyrir allar villur í athugunum (langt í frá). Á dögunum rifjaðist upp gamall fyrirlestur ritstjórans um þetta efni, líklega fyrir um 12-14 árum að því er hann taldi. Árin síðan fyrirlesturinn var fluttur reyndust hins vegar vera tuttugu þegar að var gáð. Kannski kominn tími til að endurnýja talnaefni fyrirlestursins. 

Það hefur nú verið gert, í stað 8 athugunarára eru þau orðin 28. Helstu niðurstöður eru þó furðu lítið breyttar - nema hvað upplýsingar liggja nú fyrir um hegðun hitafars á miklu fleiri veðurstöðvum heldur en var árið 2005. 

Fyrst þurfti að meta hvað væri snögg hitasveifla. Lagt var í að reikna mun á hámarks- og lágmarkshitamælingum allra klukkustunda á öllum veðurstöðvum í 28 ár. Muninum var síðan breytt í heilar tölur. Væri munurinn minni en 4 stig var honum sleppt í frekari meðferð, en síðan talið hversu oft munurinn félli á hvert stig. Auðvitað fækkar tilvikum mjög eftir því sem munurinn er meiri.

w-blogg220225a

Fyrsta myndin reynir að sýna þetta. Lárétti kvarðinn sýnir mun á hámarks- og lágmarkshita innan sömu klukkustundar á sömu stöð. Við sjáum að á árunum öllum hefur hann verið 4,0 til 4,9 stig í 176.893 tilvikum (af um 32 milljón athugunum). Síðan fækkar þessum tilvikum eftir því sem munurinn er meiri. Nú verður að taka eftir því að lóðrétti kvarðinn er svonefndur lograkvarði, upp á við er hvert merki tíu sinnum stærri tala heldur en það næsta fyrir neðan. Með því að nota kvarða af þessu tagi sjáum við vel að fækkunin er býsna regluleg, á hvert hitabil fellur um þriðjungur þess fjölda sem féll á næsta bil fyrir neðan. Meðalhlutfallsfallið er um 2,8 fyrir hvert bil. Myndu nú platónistar taka við sér og jafnvel halda því fram að svona eigi þetta að vera, fækkunin eigi að vera nákvæmlega talan „e“ - (grunntala náttúrulega lógaritmans). Ekki veit ritstjórinn það - en vill samt taka fram að hann er mjög eindreginn andstæðingur platónismans. 

Brúnleitu súlurnar sýna það sama, nema fyrir vegagerðarstöðvar. Athuganir eru þar um helmingi færri, en hin reglubundna fækkun milli hitabila er sú sama. Hér verður líka að taka fram að eiginlegar hámarksmælingar eru ekki gerðar á vegagerðarstöðvunum. Á hefðbundnum stöðvum er hámarkshiti klukkustundar hæsta 2-mínútna meðaltal innan klukkustundarinnar, 30 gildi til að velja úr. Á vegagerðarstöðvunum er hámarkshiti ekki mældur, hiti er mældur á 10-mínútna fresti, og hámarkshiti klukkustundarinnar er sá hæsti meðal þeirra 6 mælinga sem gerðar eru á klukkustund. Vegagerðarstöðvarnar missa þannig ítrekað af hæstu gildum. Sama á við um lágmarksmælingarnar. Hlutur stórra hitabreytinga innan klukkustundar er því óhjákvæmilega minni heldur en á hinum almennu stöðum - það munar meiru í tíðni stóratburða en sem nemur fjölda klukkustundarathugana.

Nú er það óhjákvæmilegt að talsvert af villum er að finna í þessum gögnum - þrátt fyrir allgott eftirlit. Sé gert ráð fyrir því að tilviljanakenndar villur séu ámóta algengar á öllum hitabilum er líklegt að hlutfallslegt vægi þeirra aukist eftir því sem munurinn er meiri á skráðum hámarks- og lágmarkshita. Tölulegar vísbendingar hníga í þá átt að svo sé. Í þeirri lauslegu athugun sem hér er gerð voru villur aðeins hreinsaðar úr hæstu flokkunum - niður í um það bil 14 stig. Æskilegt væri að fara neðar. Sömuleiðis kom í ljós að einstakar stöðvar eru einfaldlega til vandræða - þeim er ekki að treysta. Voru þær ekki teknar með. 

Í því sem hér fer á eftir er einungis fjallað um tilvik þar sem munur á hámarki og lágmarki innan sömu klukkustundar á sömu stöð er meiri en 6 stig. Mat ritstjórinn það svo að þá væri fjöldi tilvika enn nægilega mikill til að eitthvað vit væri í hugsanlegum árstíða- og dægursveiflum.

w-blogg220225b

Myndin sýnir greinilega árstíðasveiflu snöggra hitabreytinga. Þær eru langalgengastar í desember og janúar, en fækkar jafnt og þétt í febrúar til maí. Lágmarkstíðni er í ágúst og tíðnin tekur sig ekki vel upp fyrr en í nóvember. Sveiflan á vegagerðarstöðvunum (rauður ferill) er svipuð - en tíðnin mun minni. 

Í hægviðri á vetrum getur mjög kalt loft legið langtímum saman neðan grunnstæðra hitahvarfa. Strax og sól fer að hækka á lofti eiga slík hitahvörf erfiðara uppdráttar, mun þetta vera meginástæða árstíðasveiflunnar. Hin stóra sveifla verður þegar kalda loftið sviptist burt, oftast í vaxandi vindi. Þegar nánar er að gáð geta aðstæður þó verið býsna fjölbreyttar. 

Á sumrin verða stórar hitasveiflur oftast í átökum sjávar- og landlofts, ekki endilega á sömu veðurstöðvum og vetrarsveiflurnar eru sem stærstar. 

w-blogg220225c

Hér má sjá dægursveiflu snöggra hitasveiflna. Tíðnin er áberandi mest að morgni dags og rétt fram yfir hádegi, en annars svipuð á öðrum tímum sólarhringsins. Næsta mynd sýnir þetta e.t.v. betur.

w-blogg220225d

Hér er reynt að setja bæði árstíða- og dægursveiflu á sömu mynd. Rauðu litirnir sýna mesta tíðni snöggra sveiflna, en þeir dökkgrænu minnsta. Ekki er mikill munur á tíðninni eftir tíma sólarhrings nema fyrri hluta árs, frá febrúar frem í júní (og jafnvel í júlí). Þá er áberandi hámark síðla morguns og undir hádegi. Hámarkið á þeim tíma á fyrri mynd er því orðið til á þessum ákveðna árstíma, en gætir ekki á haustin. Tilhneiging er til þess að tíðnihámarki þessu seinki þegar kemur fram á vorið, það er um klukkan tíu í febrúar, um 12 í apríl og um kl.14 í júní. Þessu ræður sólin sjálfsagt - fyrst ein og óstudd, en síðan með aðstoð hitamunar lands og sjávar. 

Tíðnihámarkið einkennilega fyrr á morgnanna sem virðist liggja frá kl.6 í júní, um kl.8 í ágúst og 9 til 10 í september gæti verið raunverulegt, en kannski eru villur í gögnum að stríða okkur. Þarfnast nánari athugunar við. 

Að lokum er eðlilegt að spyrja hvaða stöðvar það séu sem skila flestum snöggum hitasveiflum. Þær tíu gæfustu má sjá í töflunni hér að neðan. Hlutfallstalan er þúsundustuhlutar (prómill).

w-blogg220225e

Sumar af þessum stöðvum hafa legið undir grun um ákveðna óþekkt, en ekkert slíkt hefur sannast. Við látum slíkt liggja milli hluta - kannski er þetta allt eðlilegt.

Tvær mestu skyndisveiflurnar sem ritstjórinn fæst til að viðurkenna eru þessar:

Í Möðrudal 9. nóvember 2005, 15,9 stig og á Sauðárkróksflugvelli 23. desember 2023 15,8 stig. 

Vonandi mun einhvern tíma verða gerð vísindaleg úttekt á þessu atriði, það sem hér fór að ofan er það ekki. Látum þetta duga.  


Fyrstu 20 dagar febrúar 2025

Febrúarhlýindin hafa haldið áfram - og veður þar að auki verið með hægara móti síðustu daga (nema þar sem austanáttin er skæð - þar hefur verið þrálátur blástur). Meðalhiti í Reykjavík fyrstu 20 daga febrúar er +3,5 stig í Reykjavík, +2,8 stigum ofan meðallags 1991-2020 og +3,1 stigi ofan meðallags sömu daga síðustu tíu árin. Þetta nægir í næsthlýjasta sæti aldarinnar í Reykjavík, sömu dagar 2017 voru hlýrri, meðalhiti þá +4,1 stig. Kaldastir á öldinni voru sömu dagar árið 2002, meðalhiti þá -2,1 stig. Á langa listanum er hiti í Reykjavík nú í fimmta hlýjasta sæti af 153, hlýjast var 1965, meðalhiti þá +4,8 stig. Kaldastir voru þessir dagar 1892 þegar meðalhiti var -4,8 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu 20 daga febrúar +2,2 stig, +2,7 stig ofan meðallags 1991 til 2020 og +3,2 stig ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Á spásvæðunum raðast hitinn í ýmist 2. eða 3. hlýjasta sætið á öldinni (af 25), á Vestfjörðum þó í það fjórða hlýjasta. Miðað við síðustu tíu ár hefur verið hlýjast í Hellisskarði, hiti þar +4,7 stig ofan meðallag, en kaldast að tiltölu í Seley, þar sem hiti hefur verið +1,3 stig ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 106,5 mm og er það rúmlega 50 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 49,8 mm og er það um þriðjung umfram meðallag. Á Dalatanga hefur úrkoman mælst 93,1 mm og er það ríflegt meðallag.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 22,7 í Reykjavík, um 15 stundum færri en í meðalári. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 30,9, um tíu fleiri en í meðalári.

Enn eitt gagnafylleríið?

Fyrir nokkrum dögum var á það minnst hér á hungurdiskum að hægt væri að bera fram spurningar eins og þessa: Hver er hlýjasti norðanáttardagur sem við þekkjum á landinu í febrúar? Það er meira að segja mjög auðvelt að finna svar - ef við miðum aðeins við síðustu 75 árin. Vandinn hefst hins vegar þegar kemur að nánari spurningum. Hvað er það sem við eigum við þegar við segjum „hlýjastur“? Hvað er norðanáttardagur? Þetta eru öllu þvælnari spurningar heldur en sú fyrsta. Svörin eru ætíð álitamál og þar með verður svarið við spurningunni um hlýjasta norðanáttardaginn einhvern veginn marklausari en áður, og jafnvel misjafnt eftir því hvaða skilgreiningar eru notaðar - örugglega misjafnt ætti frekar að segja.

Ritstjóri hungurdiska heldur úti þremur skrám þar sem giskað er á ríkjandi vindátt hvers dags á landinu langt aftur í tímann (auk tveggja sem aðeins ná til þessarar aldar - en eru nákvæmari). Sú sem hann notar mest reiknar meðalvigurvindátt hvers dags eftir athugunum á mönnuðum veðurstöðvum allt aftur til 1949. Hver dagur fær sína vindátt, meðalvindhraða og vigurvindhraða. Af hlutfalli vigur- og meðalvindhraða má reikna það sem ritstjórinn kallar festu eða festuhlutfall. Því nær sem það er einum, því fastari hefur hann verið á áttinni. Festan er að jafnaði marktækt meiri í miklum vindi heldur en hægum, og þar af leiðandi er hún að jafnaði meiri að vetri heldur en að sumri. Að sumarlagi þegar sólfarsvindar eru ríkjandi, eða vindur er mjög hægur er oft nánast tilviljun úr hvaða átt vigurvindurinn blæs, festan er þá lítil. Því má búast við því að á slíkum dögum sé áttin í raun illa ákvörðuð eða ónákvæm. Freistandi væri því að sleppa slíkum dögum þegar við leitum að hæsta eða lægsta hita hverrar áttar - eða telja þá sérstaklega. Um leið og við förum að gera slíkt getum við lent í miklum gagnaskógi og hætt að sjá skóginn fyrir trjám. Í því sem hér fer á eftir hefur vindáttunum 360 verið skipað á 8 höfuðáttir, hver átt fær 45 gráðu bil á hringnum.

Fyrsta verkefnið sem við leggjum upp með er einfalt. Við viljum vita hver hefur verið ríkjandi vindátt þá daga þegar landsdægurhámarksmet hafa verið sett. Byrjum á febrúarmánuði. Svo vill til að dægurmet hlaupársdagsins (29.febrúar) er frá því 1948, utan þess tímabils sem áðurnefnd skrá nær til, sama á við met þess 16. og 22. En hinir 26 dagarnir skila sér. Af þessum 26 dögum var sunnanátt ríkjandi 13 daga, en suðvestanátt 12 daga, einn dag segist austanátt hafa verið ríkjandi.

Þá spyrjum við um alla daga ársins (við náum áttgreiningu á 311 dögum) - 55 dægurmet eru eldri. Sunnan- og suðvestanáttin eiga langflesta metdagana, 225 samtals (72 prósent), austan- og suðaustanáttir eiga samtals 49 (16 prósent), vestan- og norðvestanáttir 17 (5 prósent) og norðan- og norðaustanáttir samtals 20 (7 prósent). Þetta með norðlægu áttirnar kemur dálítið á óvart, en þegar við athugum þessi tilvik hvert og eitt eiga þau sér sínar skýringar. Hrein norðanátt á 10 tilvik, í langflestum er vindur hægur og festuhlutfallið lágt, (innan við 0,4). Einstöku sinnum er líka hlýtt á Suðurlandi í norðansólskini að hásumri. Eitt tilvik sker sig úr, með bæði dágóða festu (0,9) og meðalvindhraða (9,8 m/s). Það tilvik þekkjum við vel, þetta er 4.júní 1997, í upphafi hretsins mikla sem þá gerði. Mettalan 24,0 stig á Akureyri tilheyrir leifum dagsins áður. Þetta met er því eitt þeirra bókahaldsmeta sem fylgir athugunarháttum - og við verðum að sætta okkur við - en truflar auðvitað athuganir eins og þær sem við stöndum hér í.

En spurningunni sem borin var fram í upphafi hefur ekki verið svarað. Til að geta gert það þurfum við líka að ákveða hvers konar hitaviðmið við eigum að nota þegar við tölum um hlýjasta daginn. Ekki er óeðlilegt að reikna meðalhita í byggðum landsins - ekki óskaplega umdeilanleg tala - en við sitjum þó uppi með hægviðrið - og tilviljanakennda átt. Í stað þess að leggja inn í sjálfan skóginn leitum við að þessu sinni aðeins að einu tré, þar sem við finnum hvaða dagur það er sem hefur verið hlýjastur norðanáttardaga í byggðum landsins á árunum 1949 til 2024, en við skulum líka leyfa okkur að finna hann fyrir bæði mannaðar og sjálfvirkar stöðvar.

Og dagurinn er 28. febrúar 2018, meðalhiti á landsvísu var 3,6 stig, hægur dagur og loftþrýstingur hár. Á sjálfvirku stöðvunum (1997 til 2024) lendir þessi dagur í öðru hlýjasta sæti norðanáttardaga, meðalhiti líka 3,6 stig. En 15. febrúar árið áður, 2017 nær rétt að toppa hann, nær 3,7 stigum - ómarktækur munur auðvitað.

Sannleikurinn er auðvitað sá að það ærir fljótt óstöðugan að halda utan um öll svona met, en maður sér nú ámóta gert í íþróttum þar sem farið er að halda utan um ótrúlegustu hluti. Við látum hér staðar numið - þótt freistandi sé að sitja áfram á millibarnum og fá sér góðan og sterkan gagnakokteil - rétt einu sinni.


Fyrstu 15 dagar febrúarmánaðar

Fyrri hluti febrúar hefur verið hlýr. Meðalhiti í Reykjavík er +3,0 stig, +2,6 stigum ofan meðallags áranna 1991-2020 og +2,9 stig ofan meðallags síðustu tíu ára. Raðast í þriðjahlýjasta sæti sömu daga á öldinni, hlýjastir voru þeir árið 2017, meðalhiti þá +4,1 stig, en kaldastir voru þeir í fyrra meðalhiti -2,5 stig. Á langa listanum raðast hitinn nú í 14. hlýjasta sæti (af 153). Hlýjast var 1932, meðalhiti þá 4,5 stig, en kaldast var 1881, meðalhiti -5,9 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú +2,4 stig, +3,2 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og 3,6 stig ofan meðallags síðustu tíu ára og sjöundahlýjast síðustu 90 árin.
 
Á spásvæðunum raðast hitinn yfirleitt í 3 til 4 hlýjasta sæti á öldinni, við Breiðafjörð í það fimmta. Miðað við síðustu 10 ár hefur að tiltölu verið hlýjast við Mývatn, hiti +4,5 stig ofan meðallags, en kaldast í Seley, hiti þar +1,5 stig ofan meðallags.
 
Úrkoma hefur mælst 91,2 mm í Reykjavík og er það hátt í tvöfalt meðaltal og það sjöttamesta sömu almanaksdaga frá upphafi mælinga. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 49,8 mm og er það nærri tvöföld meðalúrkoma, en langt frá meti þó. Á Dalatanga hefur úrkoman mælst 39,2 mm og er það í þurrara lagi.
 
Sólskinsstundir hafa mælst 15,8 í Reykjavík, 13 stundum færri en í meðalári. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 16,2 og er það í meðallagi.
 
Fyrsta vikan var illviðrasöm í meira lagi, en síðan hefur hægt um.

Ritstjórinn hrökk aðeins við

Við höfum stöku sinnum í gegnum tíðina litið á ýmsar ólíkindaspár „skemmtideildar“ evrópureiknimiðstöðvarinnar. Þær hafa langflestar verið þannig að ólíkindin hafa blasað við. Langalgengast er að slíkar spár rætist ekki. Spáin sem hér er bent á er þannig séð í svipuðum flokki nema hvað nokkuð þjálfað auga þarf til að átta sig á því hver ólíkindin eru. 

w-blogg140225a

Hér má sjá spá um hæð 500 hPa-flatarins og þykkt mánudaginn 24. febrúar 2025. Þetta er það langt í framtíðinni að ólíklegt er að þessi staða verði uppi þennan ákveðna mánudag. Í fljótu bragði virðist kannski ekki mikið „að“. Maður hrekkur þó við þegar maður áttar sig á því að það er febrúar, en ekki apríl - og það er norðanátt - og 500 hPa-flöturinn er nokkuð neðan meðallags - og að þykktin yfir landinu er nærri 100 metrum hærri en að meðallagi (það er 4-5 stigum hlýrra en í meðallagi) - í norðanátt. 

Leit að svipaðri stöðu í fortíðinni skilar líka heldur rýrri niðurstöðu. Það má kannski finna 2 eða 3 tilvik á því 75 ára tímabili sem áreiðanlegar háloftaathuganir hafa verið gerðar, en ekki fleiri - og þá aðeins að sveigjanleikaleyfi sé gefið. 

En ritstjórinn veit að skemmtideildin er ekki alveg áreiðanleg (mjög óáreiðanleg - ætti að segja) og hann vill því ekki enn leggja vinnu í að reyna að svara spurningunni um það hver sé hlýjasti norðanáttadagurinn sem komið hefur í febrúar - en ef þessi spá heldur - er sennilega rétt að leggja í alvöruleit. Leitargögn og fararskjótar eru fyrir hendi í þann leiðangur - ef frekara tilefni gefst til. En lesendur verða bara að trúa því að þetta er óvenjulegt - það sýna skyndiflettingar. 


Hvað gerum við í austanáttinni?

Eftir illviðri síðustu viku skipti yfir í hagstæðara veðurlag, til þess að gera hlýja austanátt. Viðbrigðin svo mikil að sumum finnst jafnvel að vor sé í lofti. Austanátt þessi virðist ætla að halda eitthvað áfram. Það er samt ýmislegt sem veðurnördin gefa gaum.

w-blogg130225a

Sjávarmálskortið hér að ofan gildir síðdegis á morgun, föstudaginn 14. febrúar 2025. Mikið lægðasvæði er sunnan við land, en öflug hæð yfir Grænlandi og hafinu þar austur af. Eindregin austanátt ríkir á stóru svæði, allt frá Noregi í austri vestur um til Labrador. Lægðin sem er langt suður af landinu grynnist, en ný og öflug lægð er við Nýfundnaland á austurleið - tekur við hlutverki hinnar fyrri í viðhaldi austanáttarinnar. Allt í sóma.

w-blogg130225b

Á háloftakortinu sem gildir á sama tíma má sjá jafnhæðarlinur 500 hPa-flatarins (heildregnar) og einnig þykktina (merkt með litum). Af legu jafnhæðarlína getum við ráðið að vindstefna í rúmlega 5 km hæð er aðeins suðlægari heldur en í mannheimum og vindstyrkur er töluvert minni. Jafnframt má sjá að nokkur þykktarbratti er yfir landinu, hlý tunga sunnan við, en kaldara fyrir norðan. Þessir tveir þættir, hæðar- og þykktarbratti leggjast hér saman - og styrkja austanáttina í neðri lögum. 

Háloftahæðarhryggur gengur til norðurs skammt austur af landinu, allt norður fyrir Grænland. Loftið sem „heldur honum uppi“ kólnar og þá veikist hann smám saman, nema hann fái meira hlýtt loft að sunnan sér til viðhalds. Kannski mun lægðin við Nýfundnaland sjá til þess? Fari svo munum við njóta lítið breytt veðurlags nokkra daga til viðbótar. 

En eins og venjulega í austanáttinni fylgjumst við náið með því sem gerist í háloftunum. Reiknimiðstöðvar eru nokkuð óvissar á framhaldinu. Evrópureiknimiðstöðin segir í dag að fleiri lægðir komi frá Nýfundnalandssvæðinu eftir helgina og verði smám saman ágengari - og að þá muni loftþrýstingur falla aftur - en hann er nokkuð hár í dag. Aðrar spár undanfarna daga hafa gefið til kynna að lægðirnar muni um síðir brjóta sér leið fyrir sunnan land og vindur muni þá snúast til norðaustanáttar og kólnandi veðurlags. Hæðarhryggurinn þokast þá vestur fyrir Grænland. Þriðji möguleikinn er að loft fyrir norðan land kólni í friði, þá mun vindur yfir landinu smám saman snúast til vesturs - þótt austanátt haldi áfram í mannheimum - austanáttin verði þannig bara plat. Í slíkum kringumstæðum getur margt gerst, en er yfirleitt til leiðinda. 

Það sem við gerum er að fylgjast með háloftavindum - og loftvog. Á morgun er vindur suðlægari í hæð heldur en neðar. Hlýtt loft streymir að (ekki af ákafa að vísu - en samt). Fari vindur í hæð að blása úr norðaustri eða austnorðaustri meðan vindur við jörð er úr háaustri er aðstreymið orðið kalt. 

Næg vinna framundan, en henni þarf þó ekki að sinna í langan tíma á degi hverjum - rétt að gefa loftvoginni, vindátt, háloftaathugunum yfir Keflavíkurflugvelli og þessum spákortum gaum. Horfum líka til himins - segja skýin okkur eitthvað? 


Drjúgur pistill um áhrif Grænlands

Við rifjum nú upp fornan pistil hungurdiska - sem endaði á orðunum „ég er að hugsa um að endurtaka þetta síðar eða bæta í, nóg er efnið“. Lesendur hungurdiska munu kannast vel við innantóm loforð af þessu tagi - þau eru víst drjúgmörg. Það sem hér fer að neðan er að mestu leyti samhljóma eldri pistli, en þó er bætt við skýringarmyndum og smávægilegar lagfæringar gerðar - vonandi til bóta - en ekki endilega.

Grænland hefur gríðarleg áhrif á veðurfar við norðanvert Atlantshaf og þar með hér á landi. Áhrifin einskorðast ekki við lofthjúpinn heldur sjávarhringrás líka. Austur-Grænlandsstraumurinn ber með sér bæði hafís og kaldan sjó til landsins, í mestu hafísmánuðum verður Ísland eins konar skagi út úr miklu meginlandi norðurheimskautsins. 

Því er stundum haldið fram að miklum kuldum stafi frá Grænlandsjökli og Grænland sé þannig eins konar kuldalind. Rétt er þó að tala varlega um slíkt, því oftar er málum öfugt farið. Loft kólnar að sönnu mikið yfir hájöklinum og streymir niður til allra átta, en við að falla niður til sjávarmáls hlýnar það um 20 til 30 stig. Loftið í kringum Grænland er líka stöðugt að kólna og hiti þess er því oftast lægri heldur en hiti loftsins sem streymir beint ofan af jöklinum.

Líkanreikningar hafa leitað skýringa á því hversu hlýtt er hér á landi miðað við breiddarstig. Loft- og sjávarstraumar valda langmestu (kemur ekki á óvart), en hins vegar má það koma á óvart er að hin lóðrétta hringrás sem kólnunin yfir jöklinum og þar með fallvindarnir niður af honum ná að eiga hlut í hlýindunum. Tvennt kemur til:

Loft sem annars hefði legið einskis nýtt í háloftum lendir í niðurdælingu yfir jöklinum og hluti þess leitar yfir Ísland og getur þar blandast niður í hvössum vindum yfir fjöllum hér. Kalda loftið af jöklinum kemst þó sjaldnast niður að sjávarmáli. Loft streymir nú samt niður eftir jöklunum. þar til það mætir kaldara lofti neðan við. Í stað þess togast efra loft niður og hlýnar það einnig þurrinnrænt (1°C/100 metra lækkun). Þetta niðurstreymi verður til þess að veðrahvörfin dragast niður og úr verður lægðarsveigja sem bætir heldur í sunnanátt á Íslandi og veldur því að hér er hlýrra en væri ef Grænland væri lágslétta nærri sjávarmáli - auk blöndunaráhrifanna áðurnefndu.

Sömuleiðis hindrar Grænland að loft frá nyrstu eyjum Kanada streymi til landsins. Kalt loft er þungt og það rekst á vegg við Grænland og verður að fara umhverfis það. Við fáum oft að kynnast lofti sem kemur að norðan meðfram austurströnd Grænlands. Það er miskunnarlítið, en loftið sem ætlar syðri leið verður að fara suður fyrir Hvarf og þar með fara yfir hlýjan sjó sem dregur mjög úr kulda þess, þó að vísu sé það oftast heldur hráslagalegt. 

Kuldinn sem fylgir Grænlandi er því ranglega kenndur því, en réttilega ísasvæðinu austan þess.

Þótt háhryggur Grænlands sé ekki „nema“ 2 – 3 þúsund metra hár hefur hann veruleg áhrif á framrás lofts í báðar áttir. Þegar vindur í neðri hluta veðrahvolfs er austlægur myndar Grænland fyrirstöðu og neyðir vind til að beygja úr austlægri í norðaustlæga stefnu (norðlæga norðan sjötugasta breiddarbaugs). Þar sem (grunnar) austanáttir eru tíðar á heimskautasvæðunum liggur kaldur norðan- og norðaustanstrengur langtímum saman meðfram Grænlandi, oft á skjön við þrýstilínur nærri ströndinni. Ganga má svo langt að kalla þetta hið eðlilega ástand á svæðinu. Þessi norðlægi straumur getur einnig drifið sig sjálfur ef svo má segja, án þess að vindur úr austri þrengi að. Slík norðanátt er þó að jafnaði hæg.

En þegar þrengir að strengnum mjókkar hann, en þykknar jafnframt og verður stríðari. Mörg illviðri hér á landi tengjast þessum streng og við viljum gjarnan kalla ástandið Grænlandsstíflu. Loftið sem kemur þá að landinu á sér oft mjög norðlægan uppruna og telst þá oft sérstakur loftmassi sem upphaflega er ekki eiginlegur hluti af hringrás lægðarinnar sem veldur suðaustan- eða austanáttinni sem þrengir að strengnum.

Nokkuð skörp skil verða þá á milli norðlæga loftsins annars vegar og þess sem sækir að úr austri. Freistandi er þá að teikna skil á kort, en hvers konar skil eru það? Þau tengjast oft engum lægðum. Við þessi skil má stundum sjá éljagarða sem eru mörg hundruð kílómetrar á lengd, ná frá Jan Mayen og langleiðina til Svalbarða. Kalsalægðir (öfugsniðnar) geta birst við þessa garða. [Við notum hér heitið „kalsalægð“ yfir erlenda hugtakið „Polar Low“, öfugsniðin kalsalægð er það sem á erlendum málum heitir „reverse shear polar low“). 

Stundum verður Ísland fyrir því að stífla sem verið hefur við Grænland norðaustanvert „brestur“ og kalda loftið fellur suður um Ísland, þá má oft greina eins konar kuldaskil við syðri brún kalda loftsins, skil sem eru ekki tengd neinni eiginlegri lægð. Þó myndast stundum kalsalægðir í þessu lofti eftir að það er komið suður fyrir land og valda þær leiðindum á Bretlandseyjum. 

Þegar loft kemur að Grænlandi úr vestri (mjög, mjög algengt) rekst það á fjalllendið. Það fer síðan eftir stöðugleika (og fleiru) hvernig framhaldið verður. Sé loftið stöðugt stíflast framrás loftsins og það leitar að jafnaði suður með landi og fyrir Hvarf. Sé þetta loft kalt fréttir austurströnd Grænlands (og Ísland) lítið af kuldanum fyrir vestan. Sé það óstöðugt gerist það sama - nema að óðstöðugleikinn nái hærra heldur en jökullinn (ekkert sérlega algengt). Það gerist ekki nema þegar loftið er afspyrnukalt upp í margra kílómetra hæð. En þá fréttist aldeilis af kalda loftinu. Það fer þá yfir jökulinn sem ekkert sé og fellur niður austurströndina í ofsastormi sem Grænlendingar kalla Piteraq. Ekkert getur bjargað málunum nema að loftið austan við sé enn kaldara en það sem að vestan kemur.

Við erum því með ýmis tilbrigði þess hvað verður þegar loft kemur að Grænlandi að vestan.  Algengt er að niðurstreymi sé austan Grænlands í vestanátt, loft í niðurstreymi hlýnar, en vegna þess að loft í neðri lögum austan við er fremur kalt, nær niðurstreymið aldrei til jarðar en niðurstreymishitahvörf myndast við efra borð kalda loftsins. Er eins og teppi hafi verið lagt yfir það loft sem neðst liggur. Þá þornar oft og léttir til hér á landi, á sumrin hlýnar jafnvel þó kuldaskil fari yfir. Rakastig getur fallið nokkuð rösklega.

Hér á hungurdiskum höldum við upp á þykktina, stikann sem mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Hæstu þykktartölur sem sjást í tölvuspám hér við land eru oftast tengdar niðurstreymi við Austur-Grænland að sumarlagi. Þar sést hinum afskaplega sjaldséðu 5700 metrum bregða fyrir. Nánast vonlaust er þó að ná þessu lofti yfir til Ísland og þar að auki ná því niður - vonbrigðaveður. 

Lægðardrög myndast gjarnan milli Ísland og Grænlands þegar vestanátt ef yfir Grænlandi  og hangir þar fast vegna þess að það er bundið niðurstreyminu. Þá snýst vindur til suðvestanáttar hér á landi og algengt er að þokusudda reki þá að vestanverðu landinu. Þá kemur upp sú aðstaða að suðvestanáttin sem getur verið býsna hlý á vetrum er samt kaldari en niðurstreymisloftið sem myndar teppið.

w-blogg110225d

Efri hluti myndarinnar á að sýna teppi, þversnið frá vestri til austurs (austur lengst til hægri). Loft streymir ofan af Grænlandsjökli, en það er ekki nógu kalt til að hreyfa við enn kaldara lofti sem liggur meðfram ströndinni - það loft er e.t.v. komið alla leið úr norðurhöfum - eða hefur farið suður fyrir Hvarf. Teppið er oft ofan Íslands. Veðrahvolfið bólgnar þegar loftið hlýnar og halli myndast á veðrahvörfunum (rauð lína). Af hallanum getum við ráðið að vindur þar uppi blæs inn í myndina, þar er suðlæg vindátt. 

Sé loftið austan Grænlands hins vegar hlýrra en það sem er á leið yfir jökulinn kemst kalda loftið alveg niður að sjávarmáli austan við og myndast þá mjög kröftug lægð milli Íslands og Grænlands. Sé fallið mjög víðtækt og stórfellt dragast veðrahvörfin mjög niður, og lægð getur myndast. Stundum má sjá straumstökk, mikla lyftingu veðrahvarfanna rétt austan við niðurstreymið, þar uppi kólnar loft þá mjög og oft má sjá mikinn skýjafald myndast. 

Sé málum öðrum þannig háttað að lægðin sem þarna myndast - eða styrkist er á leið til norðausturs gerir venjulega útsynningsillviðri með tilheyrandi særoki hér á landi. Úrkoma er þá lítil vegna þess hvað loftið sem fellur niður af Grænlandi verður þurrt. Þó það fari síðan yfir hlýjan sjó til Íslands nær það ekki að rakamettast vegna þess hve hvasst er (tími hvers loftbögguls yfir sjónum er lítill).

Sé háloftabylgjan á leið suðaustur á hún sem slík mun meiri vaxtarmöguleika. Fer það eftir braut bylgjunnar hvað gerist við Ísland. Ef hún er norðarlega gerir norðanáhlaup. Fari hún yfir mitt Grænland getur fyrst gert suðvestanátt en síðan norðaustanáhlaup. Einnig festast lægðirnar stundum á Grænlandshafi og losna ekki. Þá dælist suðlægara loft til Íslands.

Stundum þegar Grænland stíflar framrás kulda úr vestri nær loftið að krækja suður fyrir í mikilli vindröst sem getur náð til Íslands (þó algengara sé að hún haldi til austurs fyrir sunnan land). Loftið sem fer þessa leið mætir þá lofti sem annað hvort hefur lent í niðurstreymi austan Grænlands og er þá þurrt og tiltölulega hlýtt, eða þá hefur sigið suður austan Grænlands og er mjög kalt. Við skilyrði af þessu tagi myndast gjarnan élja- eða vindgarðar frekar en lægðir yfir Grænlandshafi.

w-blogg110225c

Rissið á myndinni tekur saman helstu punkta hér að ofan. Bláu línurnar eru hið „eðlilega ástand“. Allt er í jafnvægi kalt loft leitar sína leið suður með Austur-Grænlandi. Loft sem kemur að vestan hefur oftast tilhneigingu til að beygja fyrir Hvarf, þar er vindröst sem síðan dreifir úr sér á Grænlandshafi (ljósbláar örvar). Græna örin sýnir hvernig háloftavindar sveigja þegar mikið af köldu lofti fellur niður við Austurströnd Grænlands (Piteraq). Rauða örin sýnir mun algengara ástand, loft að vestan lyftist yfir Grænland, en kemst ekki niður hinu megin og býr til teppi. Gráa örin á að minna okkur á stíflumyndunina, oftast eru stífluáhrifin mest yfir Grænlandssundi, en mjög mörg mjög slæm illviðri hér á landi eru stífluættar. 

w-blogg110225e

Hér má sjá - til minnis - nokkrar lægðabrautir við Grænland. Lægðir sem koma frá Labrador fara oft norður með vesturströnd Grænlands (iii-a) og oft klofna nýjar lægðir frá þeim við Hvarf. Þessar nýju lægðir fara sína leið, stundum austur, en alloft beint til Íslands líka. Norðanlægðirnar eru einkum þriggja gerða. Þær sem koma beint úr norðri og halda nánast beina leið til suðurs (iv-a), en hlykkjast síðan suðaustan við Ísland (því Ísland er ekki áhrifalaust). Þetta eru oft hættuleg veður - og voru enn hættulegri hér áður fyrr fyrir tíma tölvuspáa og enn frekar fyrir tíma veðurskeyta. Gera lítil boð á undan sér, jafnvel skýlausar. Liggi háloftastraumar yfir Grænland kemur oftast hlykkur á þá þegar loftið fer að falla niður af jöklinum (og suðurstefnan hjálpar til, iv-b). Sé leið lægðarinnar svipuð og merkt er iv-c eru líkur til að suðaustanátt nái sér á strik við Ísland þegar lægðin dýpkar á Grænlandshafi. 

En Grænland hefur líka áhrif á vindáttatíðni við Ísland. Við rifjum hér upp gamla mynd sem sýnir áttatíðni ofviðra á Íslandi.

w-blogg110225f

Reiknuð er út meðalvigurstefna vinda á landinu þegar illviðri ganga yfir - og hún sett fram sem vindrós lögð ofan á kort af svæðinu. Eftirtektarvert er hversu lítið er um illviðri á áttabilinu hávestur yfir í norðnorðvestur - og einnig úr hreinni suðaustanátt (yfir öllu landinu). Hér má sjá áhrif bæði Grænlands og Íslands. En sennilega er kominn tími á að endurnýja þessa mynd. 

Við látum hér staðar numið (og lofum ekki framhaldi - það ræðst bara). 

 


Fyrstu tíu dagar febrúar 2025

Fyrstu 10 dagar febrúarmánaðar 2025 hafa verið hlýir - en harla illviðrasamir. Meðalhiti í Reykjavík er +2,5 stig, +2,5 stigum ofan meðallags sömu daga árin 1991 til 2020 og +2,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Hitinn raðast í 5. hlýjasta sæti (af 25) á öldinni. Hlýjastir voru þessir dagar árið 2017, meðalhiti þá +3,4 stig, en kaldastir voru þeir 2009, meðalhiti -3,7 stig. Á langa listanum raðast hitinn í 24. hlýjasta sæti, af 153. Hlýjast var 1965, meðalhiti þá +6,0 stig, en kaldast var 1912, meðalhiti -7,8 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti nú +3,1 stig, +4,5 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +4,7 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára, sjöttahlýjasta febrúarbyrjun síðustu 90 ára.
 
Að tiltölu hefur verið hlýjast á Norðurlandi eystra, þar er hitinn þessa tíu daga sá næsthæsti á öldinni, en við Breiðafjörð og á Vestfjörðum er hann í 7. hlýjasta sæti.
 
Á einstökum veðurstöðvum hefur, miðað við síðustu tíu ár, verið hlýjast á Egilsstöðum, hiti þar +6,0 stigum ofan meðallags. Kaldast að tiltölu hefur verið á Lambavatni á Rauðasandi, hiti þar +1,3 stig ofan meðallags.
 
Úrkoma hefur verið óvenjumikil. Hún hefur mælst 88,7 mm í Reykjavík, það mesta sömu daga á öldinni og hefur aðeins tvisvar mælst meiri sömu daga (það var 1991 og 1921). Á Akureyri hefur úrkoman mælst 49,7 mm, en 33,7 á Dalatanga. Í Reykjavík og á Akureyri er um meir en tvöfalda meðalúrkomu að ræða, en á Dalatanga er úrkoman um 80 prósent meðallags,
 
Sólskinsstundir hafa mælst 8,8 í Reykjavík, um 10 færri en í meðalári. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 5,3, 5 færri en í meðalári.
 

Töluverð breyting

Nú virðist verða töluverð breyting á veðurlagi. Fleygur af köldu lofti ryðst frá Kanada út yfir Atlantshaf eins og sjá má á myndinni hér að neðan.

w-blogg110225a

Kortið sýnir spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.18 á morgun (þriðjudag 11.febrúar). Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, en þykktin er sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Hún er lítil þar sem kalt er (bláir litir). Við sjáum fleyg af köldu lofti stefna til austurs langt fyrir sunnan land. Lág veðrahvörf fylgja kalda loftinu og þegar það ryðst til austurs snýst vindur í háloftum til austurs fyrir norðan kalda fleyginn og ber um hríð hlýrra loft til landsins. Loftið sem umlykur landið er þó ekki afbrigðilega hlýtt, þykktin yfir landinu miðju um 5330 metrar. Það er þó um 90 metrum hlýrra en að meðaltali (um 4 stig). 

Rifjar upp gamla mynd úr lagerhillu ritstjóra hungurdiska.

w-blogg110225b

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í febrúar 1991 til 2020 og meðalþykkt. Suðvestanáttin eilífa ríkir að meðaltali í miðju veðrahvolfi, örlítið suðlægari reyndar í febrúar en öðrum mánuðum - það eru áhrif frá meginlandinu Ameríku - þar liggur kalt loft (og lág veðrahvörf) sunnar en í öðrum mánuðum. Bláu örvarnar sýna hvað gerist þegar fleygar af köldu lofti ryðjast inn á svæðið. Þeir sem koma úr vestri hafa tilhneigingu til að snúa vindi til austlægari áttar í háloftum hér á landi (mismikið auðvitað eftir styrk), en þeir sem koma úr norðri bæta í vestanáttina í háloftunum. Takið eftir því að sá snúningur sem fleygarnir valda er í báðum tilvikum hægrihandargrip - þumall út úr myndinni fylgi aðrir fingur örvarstefnunni. 

Þetta gefur kannski tilefni til að rifja upp setningu úr gömlum pistli hungurdiska (29. júní 2011) - þar sem ritstjórinn segir í lokin: Ég er að hugsa um að endurtaka þetta síðar eða bæta í, nóg er efnið. 

Hér að neðan verður það endurtekið - en ekki fyrr en á morgun. 


Næsta síða »

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • w-blogg030425c
  • w-blogg030425b
  • w-blogg030425a
  • w-blogg030425i
  • w-blogg020425b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (4.4.): 1
  • Sl. sólarhring: 388
  • Sl. viku: 1923
  • Frá upphafi: 1

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 1745
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband