Bloggfærslur mánaðarins, desember 2016
10.12.2016 | 01:34
Eftir frekar rólega tíð stefna ...
Eftir frekar rólega tíð stefna lægðirnar nú til okkar í langri röð. Vonandi fer hann þó vel með (eins og sagt er) - stundum renna lægðirnar hjá tiltölulega tíðindalítið þó kröftugar sýnist. Veðurstofan fylgist væntanlega með slíku og varar við verði þörf á.
Kortið sýnir stöðuna síðdegis á sunnudag (11. desember) í boði evrópureiknimiðstöðvarinnar. Skilasvæði lægðarinnar stóru við Suður-Grænland verður þá farið hjá - nema hvað enn rignir talsvert á Suðurlandi. Næsta lægð er þarna í vexti beint suður af landinu - og á að fara yfir það á mánudag - og sú þriðja ræður veðri síðdegis á þriðjudag - varla nema einn til tveir sólarhringar á milli lægða.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 01:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
8.12.2016 | 23:08
Desemberhlýindi (fyrritíðar)
Eins og fjallað var um í pistli hér á hungurdiskum í gær (7. desember) hefur fyrsta vika mánaðarins verið sérlega hlý á landinu. Ekkert er enn hægt að segja um endingu hlýindanna. Ritstjórinn hefur fengið ýmsar spurningar varðandi fyrri desemberhlýindi. Hér verður reynt að svara sumum þeirra.
1. Hver er hæsti hiti sem mælst hefur á landinu í desember?
Þessari spurningu hefur svosem verið svarað hér á diskunum áður - en allt í lagi að rifja svarið upp.
ROD | stöð | ár | mán | dagur | klst | hámark | NAFN | |
1 | 400 | 2001 | 12 | 14 | 9 | 18,4 | Sauðanesviti | |
2 | 527 | 1997 | 12 | 15 | 9 | 18,2 | Skjaldþingsstaðir | |
3 | 615 | 1988 | 12 | 14 | 9 | 18,0 | Seyðisfjörður | |
4 | 3658 | 1997 | 12 | 15 | 3 | 17,9 | Ólafsfjörður | |
5 | 527 | 1997 | 12 | 14 | 18 | 17,8 | Skjaldþingsstaðir | |
6 | 615 | 1997 | 12 | 15 | 21 | 17,8 | Seyðisfjörður | |
7 | 5316 | 2010 | 12 | 9 | 22 | 17,3 | Kvísker | |
8 | 527 | 2002 | 12 | 6 | 9 | 17,2 | Skjaldþingsstaðir | |
9 | 4180 | 1997 | 12 | 14 | 13 | 17,2 | Seyðisfjörður-Vestdalur | |
10 | 35315 | 2010 | 12 | 9 | 22 | 17,2 | Kvísker Vegagerðarstöð |
Taflan sýnir hæstu tölurnar. Þrjár stöðvar hafa náð 18 stigum. Tilvikin í töflunni eru frá 1988, 1997, 2001, 2002 og 2010, fimm á 30 árum. - En engin eldri. Þó hefur verið alllengi mælt á Seyðisfirði. Sömuleiðis var lengi mælt í Vopnafjarðarkauptúni og í Fagradal í Vopnafirði - kannski staðhættir á Skjaldþingsstöðum séu hagstæðari til desembermeta heldur en á hinum tveimur?
2. Hver er hæsti hiti sem mælst hefur í desember á hverri stöð um sig?
Stöðvarnar eru margar - og þeir sem forvitnir eru geta fundið sína stöð í allsherjarlista í viðhenginu - raðað er eftir hámarkshita - auðvelt að afrita í og raða að vild.
3. Hver er hæsti mánaðarmeðalhiti á landinu í desember?
röð | stöð | ár | mán | desmeðalt | nafn | |
1 | 36132 | 2002 | 12 | 5,96 | Steinar | |
2 | 6015 | 2002 | 12 | 5,94 | Vestmannaeyjabær | |
3 | 36127 | 2001 | 12 | 5,86 | Hvammur | |
4 | 6016 | 2002 | 12 | 5,73 | Vestmannaeyjar - hraun | |
5 | 1361 | 2002 | 12 | 5,69 | Grindavík | |
6 | 36127 | 2002 | 12 | 5,55 | Hvammur | |
7 | 1453 | 2002 | 12 | 5,54 | Garðskagaviti | |
8 | 815 | 2002 | 12 | 5,46 | Stórhöfði | |
9 | 815 | 1933 | 12 | 5,38 | Stórhöfði | |
10 | 798 | 1933 | 12 | 5,31 | Vík í Mýrdal |
Hér verður auðvitað að taka fram að annar aukastafur meðalhita einstaks mánaðar hefur nákvæmlega enga raunverulega merkingu - er aðeins hafður hér með til keppnisánægju. En tökum samt eftir því að efsta talan, 5,96 stig, ætti að hækka í 6,0 en sú næsthæsta, 5,94 stig, að lækka í 5,9 væri einsaukastafshefð beitt - og þannig yrði gert meira úr muninum en hann reiknast hér.
Talan frá Hvammi 2001 er inni á grunsamlega tímabilinu á þeim stað - og áður hefur verið nefnt í pistlum hér á hungurdiskum. Annars eru efstu tölurnar allar frá desember 2002 - nema þær tvær neðstu. Þar sýnir desember 1933 sig.
4. Hver er hlýjastur desembermánaða á hverri stöð fyrir sig?
Þessi listi er líka langur - og er í viðhengi fyrir forvitna. Raðað er eftir ártölum. Komi ártal aðeins einu sinni fyrir er líklegt að stöðin hafi starfað mjög stutt - mjög hlýir desembermánuðir skilja eftir sig spor á mörgum stöðum hver um sig. Stöðvum sem byrja að athuga eftir 2006 er hér sleppt.
Desember 1933 er sá hlýjasti á fjölmörgum stöðvum, en desember 2002 hirðir margar. Eftir það er það helst 2006 sem skilar metum.
Gríðarleg hrúga nýrra stöðvadægurhámarksmeta hefur skilað sér í núlíðandi desembermánuði - en ekki hefur verið mikið um mánaðarmet - og ekkert enn á stöðvum sem lengi hafa athugað. En ...
5. Hver er hæsti sólarhringsmeðalhiti í Reykjavík í desember?
röð | ár | mán | dagur | t |
1 | 1997 | 12 | 14 | 10,2 |
2 | 2001 | 12 | 10 | 9,6 |
3 | 1968 | 12 | 6 | 9,3 |
4 | 2009 | 12 | 13 | 9,3 |
5 | 1997 | 12 | 15 | 9,2 |
6 | 1943 | 12 | 13 | 9,1 |
6 | 1978 | 12 | 12 | 9,1 |
6 | 2009 | 12 | 11 | 9,1 |
9 | 2001 | 12 | 13 | 9,0 |
9 | 2009 | 12 | 12 | 9,0 |
Hér er enginn nýliðinna daga - hæstur þeirra er enn sá þriðji með meðalhitann 8,2 stig og er neðan við 20. sæti á listanum (ekki sýnt). Hlýjast var 14. desember 1997 - meðalhiti yfir 10 stig. Þrír dagar í röð 2009 eru á listanum - jú, hiti var ofan meðallags í þeim mánuði í heild - en ekki neitt sérstaklega. Þarna eru þrír mun eldri höfðingjar - 6. desember 1968, 12. desember 1978 og 13. desember 1943 - langelstur (og rétt meðaltal óvissara).
6. Hverjir eru hlýjustu desembermánuðir landsins alls (í byggð)?
röð | ár | mán | meðalhiti | |
1 | 1933 | 12 | 3,47 | |
2 | 2002 | 12 | 3,19 | |
3 | 1851 | 12 | 2,62 | |
4 | 1953 | 12 | 2,34 | |
5 | 1946 | 12 | 2,33 | |
6 | 1987 | 12 | 2,10 | |
7 | 2006 | 12 | 2,06 | |
8 | 1934 | 12 | 1,92 | |
9 | 1834 | 12 | 1,76 | |
10 | 1850 | 12 | 1,69 |
Hér nær desember 1933 toppsætinu - eigum við ekki bara að trúa því. Desember 1851? - Það er svosem ekkert að marka þá tölu - eða nákvæmnin er alla vega ekki sú sem taflan er að gefa til kynna. Hann var samt óvenjuhlýr í Stykkishólmi, Reykjavík og á Akureyri - og allgóðar mælingar eru til frá öllum þessum stöðum. Svo er 1953 ofarlega ásamt 1946 - þessir mánuðir eru þeir hlýjustu á sumum stöðvum. Eldri veðurnörd muna auðvitað eftir desember 1987 - 1850 var líka hlýr, en óvissa er mikil varðandi þann mánuð, og lítið vit í að hafa desember 1834 með á svona lista - en við gerum það samt, okkur til skemmtunar - og til að minna okkur á að það var eitthvað til sem við köllum hlýskeið 19. aldar (hafi einhver gleymt því). Annars var veturinn 1834 til 1835 frægur fyrir skelfilegheit - þó hlýindi hafi sýnt sig í desember. En látum fornsögur bíða betri tíma.
Fleiri spurningar?
7.12.2016 | 23:29
Ekkert lát á hlýindunum?
Svo virðist sem hlýindi ætli enn um hríð að liggja hér við land - reiknimiðstöðvar spá suðlægum áttum svo langt sem augað eygir - kannski ekki alveg upp á hvern einasta dag en nægilega þaulsetnum samt til þess að halda hita langt ofan meðallags flesta daga.
Litirnir á kortinu sýna hitavikaspá evrópureiknimiðstöðvarinnar næstu tíu daga og gildir hún fyrir 850 hPa-flötinn - sem er í jöklahæð hér á landi. Heildregnar línur sýna meðalsjávarmálsþrýsting og er greinileg lægðasveigja á jafnþrýstilínunum - ætli það bendi ekki til þess að lægðir verði eitthvað ágengari en verið hefur. - Sunnanáttin næstu vikuna meira í austurjaðri lágþrýstisvæðis heldur en vesturjaðri háþrýstings.
Hita á Íslandi er hér spáð 4 til 6 stigum ofan meðallags. Vik við jörð e.t.v. eitthvað minni - en samt er þetta óvenjulegt. Fremur svalt hefur verið víða í Evrópu að undanförnu - sé spáin rétt verður mjög hlýtt þar líka næstu vikuna - en kólnandi vestanhafs.
Við skulum til gamans líta á kort sem sýna hitavik (í 850 hPa) í tveimur hlýjustu desembermánuðum sem við þekkjum - kortin ná yfir allan mánuðinn í báðum tilvikum.
Hér má sjá vikin í desember 1933 - en þá var afspyrnuhlýtt hér á landi - þetta er almennt hlýjasti desembermánuður allra tíma um landið norðan- og austanvert. Hvort greiningardeild evrópureiknimiðstöðvarinnar er hér með allt á réttu róli skal ósagt látið.
Hlýindin virðast hafa verið enn útbreiddari í desember 2002 - en sá mánuður telst hlýjastur almanaksbræðra sinna á landinu í heild.
Í báðum tilvikum var sunnanáttin mjög eindregin - rétt eins og nú hefur verið og spáð er næstu daga.
En enn er ekki liðin nema vika af desember í raunheimum - rétt að hafa í huga að tíudagakortið hér að ofan er bara spá úr reiknisýndarheimi. Svo vitum við að sjálfsögðu ekkert um síðari hluta mánaðarins - hvernig þá fer með. Mikill öldugangur er á norðurhveli - hlýtt loft teygir sig langt til norðurs - svo er líka kalt loft á ferð langt suður á bóginn - fjarri heimaslóð.
6.12.2016 | 00:13
Af tveimur hlýskeiðum - hungurdiskamynd frá 2011 uppfærð
Í tilefni hlýindanna er rétt að uppfæra mynd sem áður birtist á hungurdiskum 28. nóvember 2011 - (jú, rétt fyrir þann kalda desember 2011). Nú eru allt í einu liðin 5 ár og hægt að bæta þeim við.
Hér má sjá 12-mánaða keðjumeðaltöl hita í Reykjavík (myndin skýrist að mun sé hún stækkuð). Blái ferillinn sýnir tímabilið 1927 til 1945 (kjarna gömlu hlýindanna) og sá rauði hlýindin nýju (frá 2001 til okkar daga). Tölur eru settar við hæstu tinda og dali - bláar tölur eiga við bláa ferilinn, en þær rauðu við þann rauða.
Blái ferillinn sýnir 12-mánaða keðjumeðaltal hita í Reykjavík 1927 til 1943, en sá rauði 2001 til 2011. Fyrsti punktur á bláa ferlinum á við 12-mánaða tímabilið janúar til desember 1927, en fyrst á rauða ferlinum er tímabilið janúar til desember árið 2000. Í báðum tilvikum var búið að hlýna umtalsvert áður en upphaf myndarinnar sýnir, en alls ekki var orðið ljóst að um eitthvað óvenjulegt væri að ræða.
Flestir gerðu sér þó grein fyrir því veturinn 1928 til 1929 að eitthvað hefði gerst og svipað kom upp veturinn 2002 til 2003. Ekki er marktækur munur á hlýindum þessara ára þótt myndin sýni að 2002 til 2003 hafi gert sjónarmun betur.
Eftir hlýindin 1928 til 1929 datt hitinn nokkuð niður aftur. Þótt hér sýnist fallið vera mikið var það þó ekki meira en svo að kuldakaflinn 1930 til 1931 er ámóta hlýr og hlýjustu ár áratuganna á undan höfðu verið. Aftur hlýnaði 1932 og er árið 1933 enn það hlýjasta sem vitað er um á Norðurlandi. Litlu munaði þó 2014 að það met félli. Síðan kólnaði heldur 1935 til 1937. Að því loknu komu tveir afarmiklir hitatoppar, 1939 og 1941, sá fyrri toppaði á 12-mánaða tímabilinu mars 1939 til febrúar 1940 en sá síðari í apríl 1941 til mars 1942. Þessir tveir toppar eru ekki marktækt lægri heldur en 2002 til 2003-toppurinn.
Það hlýindaskeið sem við nú lifum hefur verið öllu jafnara heldur en það fyrra. Hitinn hefur aðeins þrisvar rétt gægst niður fyrir 5 stigin - var hins vegar langtímum saman undir þeim á fyrra hlýskeiðinu - en fór þá aldrei niður fyrir 4 stig - og á síðara skeiðinu hefur hann ekki enn farið niður fyrir 4,5 stig.
Við sjáum að enn ekki er hægt að tala um að hlýskeiðinu sé lokið eða að hiksti sé í því. Varla er tímabært að nefna það einu sinni fyrr en hitinn fer niður fyrir 4 stig, eða niður fyrir 4,5 í einhvern tíma. Minna má á að ársmeðalhiti (rétt ár) var aðeins fjórum sinnum hærri en 4,5 stig á öllu kuldaskeiðinu 1966 til 1995.
Meðalhiti síðustu 12-mánaða er 5,7 stig - vantar mikið upp á toppinn 2002 til 2003 sem hitti þá illa í árið - en 2016 verður samt meðal hlýjustu ára allra tíma í Reykjavík.
Ef desemberhlýindin halda áfram verður samanburði við eldri tíð eitthvað sinnt í pistlum á næstunni.
Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 11:48 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
4.12.2016 | 22:11
Vindáttir og hitafar, norðanáttir áberandi hlýrri en áður
Flestum mun ljóst að vindáttir þær sem leika um landið eru miskaldar (eða hlýjar). Norðanátt er að jafnaði kaldari en sunnanátt - hvort sem vetur er eða sumar. Það er því jafnaugljóst að séu suðlægar áttir ríkjandi er að jafnaði hlýtt í veðri, en aftur á móti kalt standi vindur sífellt af norðri.
En þegar málið er athugað betur kemur í ljós að norðanáttin er misköld - auðvitað frá degi til dags - en líka frá einu tímabili til annars. Talsverðu getur munað. Ástæður eru ýmsar - oftast þó þær að uppruni loftsins er ekki endilega sá sami í hvert sinn sem vindur blæs af ákveðinni átt. - Svo er ástand yfirborðs á leið loftsins misjafnt - það skiptir t.d. máli fyrir hita norðanáttarinnar hér á landi hvort hún hefur blásið lengi yfir ísi þakið haf - eða autt.
Ekki má taka það sem hér fer á eftir of bókstaflega - allskonar tölfræðilegur subbuskapur hefur verið viðhafður svo varla er til eftirbreytni.
Lítum fyrst á meðalhita (byggðir landsins) á ársgrundvelli í hverri höfuðvindáttanna átta. Tölurnar ná til tímabilsins 1949 til 2015. Athugið að meðalhiti landsins á þessum tíma er ekki beint meðaltal meðalatala vindáttanna, þær eru mistíðar og vega því ekki jafnt í heildarmeðalhita.
Norðan- og norðaustanáttirnar eru langkaldastar, en sunnan- og suðaustanáttin hlýjastar.
Hér má sjá vik áranna 2001 til 2015 miðað við allt tímabilið. Við sjáum að flestar áttanna hafa hlýnað, ekki þó suðvestanáttin og sunnanáttin hefur ekki hlýnað að ráði. - Þessar tölur eiga við allt árið. Norðan- og norðaustanáttirnar hafa hlýnað mest, um meir en 1 stig - miðað við tímabilið allt.
Það er þó ekki þannig að um jafna hlýnun sé að ræða. Þessi óformlega úttekt nær nefnilega aftur fyrir kuldaskeiðið sem plagaði okkur svo mjög á árunum 1965 til 1995.
Lítum nú á árstíðirnar á þessu tímabili - 7-ára keðjur og þrjár áttir saman í kippum - til að smala saman nægilega mörgum tilvikum öll árin.
Veturinn fyrst, til hans teljast mánuðirnir desember til mars. Hér er áttum skipt í fjögur horn, norðaustanáttin og norðvestanáttin teljast til norðlægu áttanna auk norðanáttarinnar sjálfrar. Sama á við um aðrar áttir. Milliáttirnar eru því hver um sig með í tveimur kippum. Norðaustanáttin er bæði norðlag og austlæg.
Hiti norðlægu áttanna er neðst á myndinni. Hún var köldust á hafísárnunum - en hefur síðan hlýnað um meir en 3 stig (að vetrarlagi) - gríðarleg hlýnun, en verður þó ekki eins sláandi í samanburði við fyrstu ár tímabilsins en þá voru norðlægu áttirnar líka hlýjar miðað við það sem síðar varð.
Austlægu áttirnar hafa líka hlýnað - en þær suðlægu og vestlægu eru nú á svipuðum slóðum og þær voru fyrir 60 árum. Suðlægu áttirnar voru hvað kaldastar um 1980, en þær vestlægu rúmum áratug síðar. Hér má (ef við viljum) sjá þrískiptingu kuldakastsins langa.
Sumarið lítur ekki ósvipað út (athugið þó að spönn sumarhitakvarðans er sjö stig á myndinni, en er tíu stig á vetrarmyndinni). Norðlægu áttirnar hafa hlýnað áberandi mest, voru um 7 stig að meðaltali á hafísárunum og reyndar mestallt kuldakastið, en hafa nú hækkað í nærri 9 stig. Austlægu áttirnar hafa líka hlýnað umtalsvert - þær suðlægu svo í einu þrepi á síðari hluta 10. áratugarins - en eitthvað virðist hafa slegið á hlýnun vestlægu áttanna á sumrin (þær hafa líka verið sjaldséðar).
Sams konar æfingu mætti einnig gera fyrir háloftavindáttir, nú eða úrkomu eða aðra veðurþætti - hafa fleiri breytingar átt sér stað?
2.12.2016 | 14:10
Haustúrkoma í Reykjavík - línurit
Eins og fram kom í haustyfirliti Veðurstofunnar reyndist haustið (október- og nóvembermánuðir saman) það úrkomusamasta frá upphafi mælinga í Reykjavík.
Tími er á lárétta ás línuritsins, en úrkomumagn á þeim lóðrétta. Mælingar ná samfellt aftur til 1920, og einnig eru þær samfelldar á árunum 1885 til 1906. Eyða er á milli, en mælt var á Vífilsstöðum um nokkurra ára skeið. Haustið 1912 mældist úrkoma meiri á Vífilsstöðum en í Reykjavík nú (383 mm) - en ekki hefur verið farið í saumana á þeirri tölu - né giskað á úrkomu í Reykjavík á þeim tíma.
Haustúrkoman nú mældist 334,3 mm, næstmest var hún 1956, ómarktækt minni en nú, eða 332,6 mm. Úrkoma mældist einnig yfir 300 mm haustið 1958, og haustið 1931. Mikil úrkoma mældist einnig í fyrrahaust - en þó minni en nú.
Græna línan sýnir 7-ára keðju. Hún virðist gefa til kynna að haust hafi allmennt verið úrkomusamari á árum áður (fyrir 1960) heldur en síðan (þar til nú nýlega).
Revían fræga Haustrigningar var sýnd 1925 - einmitt ofan í algengar haustrigningar þeirra ára.
Þurrast var haustið 1960.
1.12.2016 | 21:52
Fárviðrið 21. janúar 1925
Nú er komið að síðasta pistlinum í reykjavíkurfárviðraröðinni. Fjallar hann um sunnanveðrið mikla þann 21. janúar 1925. - Veturinn 1924 til 1925 var skakviðrasamur, en samt kaflaskiptur. Milli jóla- og nýárs varð töluvert sjávarflóð nyrðra og eystra og í snjóþungum febrúarmánuði gerði hið fræga Halaveður. Síðari hluti janúarmánaðar einkenndist hins vegar af miklum sunnanáttum og hlýindum.
Pistill í Alþýðublaðinu fimmtudaginn 22. janúar segir frá veðrinu í Reykjavík og nágrenni daginn áður. Víðar varð þó tjón, bæði vegna veðurofsa sem og sjávarflóðs.
Tveimur dögum áður, þann 19., var líka sunnanstormur. Staðan ætti nú að vera orðin föstum lesendum þessara fárviðrapistla kunnugleg. Djúp og hægfara lægð við Suður-Grænland veldur illviðri hér á landi en dælir jafnframt jökulköldu lofti frá Kanada út yfir Atlantshaf til móts við lægð- eða lægðarbylgju suður- eða suðaustur af Nýfundnalandi. Nýja lægðin er rétt í jaðri þessa korts sem sýnir stöðuna um hádegi þann 19. Jafnhæðarlínur 1000 hPa-flatarins eru sýndar á kortinu sem er fengið úr bandarísku c20v2-endurgreiningunni. Línurnar eru dregnar með 40 metra bili en það jafngildir 5 hPa. Gríðarmikil hæð er yfir Norðursjó.
Staðan í 500 hPa fletinum er enn skýrari. Heimskautaröstin liggur um kortið þvert, sunnan við Nýfundnaland, sveigir norður til Íslands og þaðan austur til Norður-Noregs.
Daginn eftir er nýja lægðin að komast í ham langt suður í hafi - og stefnir til norðurs. Hæðin yfir Evrópu náði nú 1051 hPa í miðju (við vitum ekki hvort greiningin er rétt).
Svo má sjá kortið sjálfan illviðrisdaginn. Lægðin er ekkert ofboðslega djúp - sé að marka greininguna - við vitum þó af almennri reynslu að það gæti hæglega munað 10 til 20 hPa á raunveruleikanum og henni. Vindhraðinn bendir til þess að svo sé. Þrýstingur yfir landinu er þó nærri lagi.
Með samanburði við 500 hPa kortið á sama tíma erum við varla í vafa um að þetta er svonefnt hárastarveður - það kæmi enn betur í ljós ef við létum eftir okkur að reikna þykktarmynstrið og bera það saman við háloftakortið.
Veðrið var hluti af nokkurra daga illviðrasyrpu. Loftþrýstingur var á mikilli hreyfingu og fór hver lægðin á fætur annarri hjá landinu. Þrýstiritið í Reykjavík á myndinni hér að ofan nær yfir hálfan mánuð, efra blaðið frá þeim 12. til 19. janúar, en það síðara frá 19. til 26. Fyrsta lægðin - sú sem fór hjá þann 13. og 14. var stærri um sig en hinar og fylgdi norðanátt henni. - Illviðri þeirra sem síðan fylgdu voru af suðlægum og vestlægum áttum.
Klippa úr veðurbók Reykjavíkur hér að ofan færir okkur athuganir kl.12 og 17 dagana 14. til 25. janúar og sýnir auk þess veðurtáknmálsfærslur (sem fjallað var lítillega um í síðasta pistli). Á þeim má sjá að vindur náði stormstyrk (9 vindstigum) þann 15., 17., 18., 19. 20. og loks 21., bókstafurinn p táknar eftir hádegi, a hins vegar fyrir hádegi og n nóttina. Við sjáum líka að athugunarmenn hafa séð norðurljós að kvöldi 14., 16., 17., 21. og 23. (kórónutákn). Þess er sérstaklega getið að vindur hafi talist 12 vindstig um kl.14 þann 21.
Hér er önnur síða sömu bókar og sýnir athuganir kl. 21 (síðasta athugun dagsins) auk dagssamantektarinnar þar sem er listi um hámarks- og lágmarkshita, úrkomumagn og snjóhulu. Sjór er lítill, mest 5 cm þann 18. Snjóhula er táknuð með 0 eða rómverskum tölum, I til IV, þar sem IV er alhvítt. Ísþykktar á Reykjavíkurtjörn er einnig getið - hún er þó ekki mæld daglega. Við þann 21. er eftirfarandi athugasemd: Fád. rok (fárv.) þá braut upp ísinn á tjörninni að 2/3 hlutum að hólma.
Í þessu veðri verð víða mikið tjón - bæði af völdum vinds og sjávargangs. Vegna þess að loftþrýstingur var ekki mjög lágur þar sem sjávarflóðin urðu gæti stærð þeirra vakið nokkra furðu. Þetta þýðir einfaldlega að enn stærri flóða er að vænta í framtíðinni þegar svipaðar vindaðstæður koma upp í enn lægri loftþrýstingi.
Listinn hér að neðan sýnir það tjón sem getið var um í blöðum:
Víða skemmdust hús og önnur mannvirki og skip og bátar brotnuðu inni í höfnum. Þök fuku af fjórum húsum í Reykjavík og þremur í Hafnarfirði, þar varð einnig tjón í höfninni. Skúrar brotnuðu, þakhellur tók af Alþingishúsinu. Fjöldi girðinga brotnaði. Tvo báta sleit upp á Reykjavíkurhöfn, rak þá að Örfirisey þar sem þeir sködduðust nokkuð. Gríðarmiklar skemmdir urðu á síma og raflínum, þar á meðal innanbæjar í Reykjavík. Skemmdir urðu við Loftskeytastöðina.
Þök fuku af hlöðum og húsum á Skeiðum, Grímsnesi, Hrunamannahreppi og einnig austur í Rangárvallasýslu. Foktjón varð einnig á Stokkseyri, heyhlaða fauk á Holti, hlaða í Vorsabæ og sömuleiðis á Brúnavöllum. Í Grímsnesi fauk heyhlaða og baðstofuþak á Miðengi og fjós og hlaða í Hraunkoti. Símaskemmdir urðu á þessum slóðum. Hlöður fuku í Varmadal og á Geldingalæk í Rangárvallasýslu. Í Herdísarvík fuku svo að segja bæjarhúsin öll nema baðstofan, geymsluhús tók upp í heilu lagi og skall á fjósi.
Þök fuku á Kjalarnesi, í Kjós og í Mosfellssveit. Þak rauf á íbúðarhúsi í Saurbæ á Kjalarnesi og þak tók af hlöðu á Tinnastöðum. Þak fauk af íbúðarhúsi á Kársnesi í Kjós svo fólk varð að flýja húsið. Þak rauf af hlöðu á Hálsi og brotnaði á annarri. Járnþak fauk af hlöðu á Hurðarbaki. Nokkrar járnplötur fuku af húsum á Akranesi, en skaðar ekki taldir verulegir.
Skaðar urðu einnig í Borgarfirði, hlaða fauk á Miðfossum og skólahúsið á Hvanneyri skemmdist eitthvað. Þak fauk af fjárhúsi í Álftártungu. Skemmdir urðu í Borgarnesi, en ekki taldar stórvægilegar, þó reif þök af húsum til hálfs og plötur brutu rúður og karma. Hálft þak tók af sláturhúsi Sláturfélags Borgfirðinga, einn maður slasaðist þegar brotin rúða fauk á hann. Þök og fleira fauk einnig á sunnanverðu Snæfellsnesi, t.d. í Mýrdal í Hnappadal, og á Hjarðarfelli.
Á Ísafirði, í Hnífsdal og Álftafirði brotnuðu 6 bátar. Smíðahús fauk í heilu lagi í Hnífsdal, fjöldi smáskemmda varð á Ísafirði. Skaðar urðu á Akureyri og í Eyjafirði og einnig eitthvað á Austfjörðum. Að sögn Íslendings brotnuðu gluggar víða á Akureyri, bátar fuku og skemmdust. Veðrið var síðar á ferð fyrir norðan en syðra. Hús rofið og úr lagi gengið í Papey. Símastaurar brotnuðu í Hornafirði, í Lóni, Fagradal í Vopnafirði og víðar eystra. [Sagt er (Austurglugginn 20.9. 2009) að kirkjan í Möðrudal hafi fokið 1925 - þetta er líklegasta veðrið, en hafa má auga með frekari upplýsingum]
Mestar skemmdir urðu þó af völdum sjávargangs við suðurströndina.
Sjór braut og eyddi sjávarvörnum við Stokkseyri, Eyrarbakka og Grindavík, gekk langt upp á land og gerði þar mikið tjón (talið um 120 þúsund krónur á landinu öllu) og bátar brotnuðu. Tvær eða þrjár jarðir í Járngerðarstaðahverfi taldar að mestu eyðilagaðar auk túnbletta og matjurtagarða. Eitt íbúðarhús í Grindavík eyðilagðist algjörlega og annað skemmdist stórkostlega - sagt vera um 150 metra frá venjulegu stórstraumsflóðmáli, bjarga varð fólki á bátum. Sjór gekk í fjölda kjallara og eyðilagði allt sem í þeim var. Sjórinn braut 12 saltskúra og eyðilagði það sem í þeim var. Fjöldi fjár drukknaði bæði í húsum og á fjörum.
Tvö hús á Eyrarbakka eyðilögðust og mikill skaði varð á jörðum. Stokkseyrarsjógarðurinn brotnaði allur meira og minna frá Stokkseyri og vestur að Hraunsá. Alls skemmdist garðurinn á 4 km svæði. Bjarga tókst hagapeningi vegna þess að þetta gerðist um miðjan dag. Fólk flúði úr húsum undan sjóganginum. Flóðið gekk upp undir tún á Syðra-Seli. Skemmdir urðu þó ekki á húsum nema á rjómabússkálanum á Baugsstöðum. Öll hús við sjó í Selvogi eyðilögðust í briminu.
Sjór gekk í baðstofu sem stóð 200 m frá sjó í Herdísarvík áður en veðrið þar varð hvað mest. Fólk flúði hana - ekki urðu þarna skemmdir á landi né tjón á fénaði. Sjávarflóð nokkuð gerði í Vík í Mýrdal - en án tjóns.
Mikil leysing varð á Akureyri svo lækir runnu eftir götum, bæði Torfunes- og Gillækirnir hlupu úr farvegum sínum, brutu brýrnar og gerðu spjöll á eignum. Höphnersverslun varð fyrir búsifjum af Gillæknum er vatn flóði inn í vörugeymsluhús og Torfuneslækurinn hljóp í nokkra kjallara og skemmdi vörur. (Íslendingur)
Eins og áður sagði er þetta síðasti Reykjavíkurfárviðrapistillinn en í þeim hefur verið fjallað um illviðri sem náð hafa fárviðrisstyrk í reykvískum veðurbókum - 12 stigum eftir ýmist nýrri eða fyrri gerð Beaufort-vindkvarðans. Fyrir þennan tíma (1925) var sá kvarði ekki notaður upp í 12 stig í athugunum í Reykjavík. Skortur var þó ekki á fárviðrum í þann tíma.
Næst verður snúið til Akureyrar og rifjuð upp veður tengd 12-vindstigatilvikum þar á bæ.
1.12.2016 | 00:22
Hlýjasta haustið?
Svo virðist sem haustið (október og nóvember) hafi orðið það hlýjasta frá því að mælingar hófust á landinu í heild. Byggðameðaltalið reiknast 5,1 stig,3,3 stigum ofan haustmeðaltals áranna 1961 til 1990 og 2,5 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
Á myndinni má sjá að hitinn nú sker sig mjög úr því sem algengast hefur verið á síðari árum - meira að segja sýnast hin annars ágætu hlýindi á sama tíma árs 2002 einhvern veginn dvergvaxin í samanburði. Helstu keppinautarnir eru í nokkuð fjarlægri fortíð, næsthlýjast var 1945, meðalhiti aðeins sjónarmun lægri en nú, 4,9 stig, og 1915, 1920, 1941 og 1958 voru öll ofan 4,0 stiga.
Nú er auðvitað spurningin hvort hlýhaustaklasi sé í nánd eins og hægt var að tala um fyrir um það bil 55-75 árum þegar hlý haust voru tiltölulega algeng - eða hvort haustið 2016 verður meira stakt eins og 1915, en frá því ofurhlýja hausti liðu ekki nema tvö ár til þess kaldasta á öllu tímabilinu, 1917.
Um þá framtíð er ekki nokkur leið að spá með vissu - frekar en venjulega.
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.12.): 19
- Sl. sólarhring: 213
- Sl. viku: 984
- Frá upphafi: 2420868
Annað
- Innlit í dag: 14
- Innlit sl. viku: 863
- Gestir í dag: 14
- IP-tölur í dag: 14
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010