Allstríður á vestan

Í dag, 8.október er vindur á landinu allstríður á vestan. Lægð er að dýpka við landið og hreyfist hratt til austurs. Við erum nánast beint undir mikilli vindröst í háloftunum og teygist hes hennar í átt til jarðar. 

w-blogg081025a

Kortið gildir kl.18 núna síðdegis og sýnir stöðuna í 500 hPa, jafnhæðarlínur eru heildregnar, af þeim ráðum við vindstyrk og stefnu. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Með ákveðnum rétti má segja að Grænland hafi búið til lægðina sem er við Norðurland. Kalt loft kom yfir jökulinn úr vestri og austan hans kom sveigja á röstina. Við sjáum leifar kalda loftsins sem bláan blett nærri lægðarmiðjunni. Uppi í 300 hPa (um 9 km hæð) er hins vegar ámóta hlýr blettur, afleiðing niðurdráttar veðrahvarfanna. Ef við rýnum í kortið getum við séð að yfir landinu er hæðarbratti frá norðri til suðurs um 120 metrar (tvær jafnhæðarlínur). Hins vegar er sáralítill munur á þykktinni þvert yfir landið, blái bletturinn nær þvert yfir landið. Þess vegna er ekki mjög mikill munur á vindi í 5 km hæð og í fjallahæð yfir landinu. Enn neðar kemur núningur við sögu og deyfir vindinn, mun meira yfir landi heldur en sjó..

Það er lærdómsríkt að líta einnig á spákort sem gildir undir morgun á föstudaginn.

w-blogg081025b

Hér er háloftavindurinn enn meiri, hæðarmunur á milli norður- og suðurstrandar landsins er um 200 metrar, vindur í 500 hPa um 50 m/s. Þykktarbrattinn er einnig mikill, ólíkt því sem er í dag, það munar um 180 metrum á þykktinni nyrst og syðst á landinu. Þetta þýðir að ekki eru eftir nema um 20 metrar til að knýja vindinn niður undir jörð, hann er jafnvel innan við 10 m/s. Við skulum þó taka vel eftir því að jafnþykktarlínurnar þurfa mjög lítið að hnikast til til þess að rastarhesið nái niður undir mannheima, við skulum þó trúa því (í bili að minnsta kosti) að líkanið reikni þetta rétt. Svo verður að hafa í huga að fjöllin á landinu geta vakið bylgjur sem geta dregið vind niður, t.d. nærri fjöllum á Norðaustur- og Austurlandi. 

Í framhaldinu er síðan gert ráð fyrir því að vindur snúist til suðlægra átta með hlýindum.  


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og átta?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Okt. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg081025b
  • w-blogg081025a
  • w-blogg061025b
  • w-blogg061025a
  • w-blogg041025a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.10.): 185
  • Sl. sólarhring: 206
  • Sl. viku: 1893
  • Frá upphafi: 2503895

Annað

  • Innlit í dag: 161
  • Innlit sl. viku: 1710
  • Gestir í dag: 150
  • IP-tölur í dag: 147

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband