Órói suður í höfum

Eftir sérlega rólegar þrjár vikur á fellibyljaslóðum Atlantshafs hefur dregið til tíðinda. Við lítum á gervihnattamynd sem tekin er nú síðdegis (afrituð af síðu kanadísku veðurstofunnar).

w-blogg240925a

Þetta er lituð hitamynd, yfirborð jarðar og neðstu ský eru grænleit, hæstu ský eru lituð brún, gul og rauð. Þetta litaval sýnir lægðakerfi eins og við búum við ekki sérlega vel, en aftur á móti koma háreist klakkakerfi, hitabeltisstormar, fellibyljir og annar „hvarfbaugshroði“ sérlega vel fram. Við sjáum Ísland alveg efst á myndinni, en neðsti hluti hennar nær allt suður að tíunda breiddarstigi. 

Fyrst bendum við á fellibylinn Gabrielle. Gabrielle varð til úr kerfi af því tagi sem við köllum austanbylgju, bylgjur sem berast vestur á bóginn í hitabeltinu frá Afríku. Sumar bylgjurnar fara tíðindalítið um þvert hafið allt vestur til Mið-Ameríku, en stundum verða á þeim veigamiklar umbreytingar, sérstaklega síðari hluta sumars þegar sjór er hvað hlýjastur á þessum slóðum og áður en kuldahringrás norðurhvels fer að teygja anga sína langt suður í höf. Bylgjan sem var einskonar fósturvísir Gabrielle strögglaði lengi vel og mátti vart sjá hvort einhver hringrás næði að myndast í henni eða ekki. Veikur snúningur fór af stað hvað eftir annað, en lítið varð úr. Bylgjan dó þó ekki og óx loks mjög ásmegin, varð að hitabeltisstormi og síðan fellibyl. Fellibylurinn náði hámarksstyrk um helgina og fór upp undir fjórða stig sem heitir, en var kominn það norðarlega að það gat ekki staðið lengi.

Fellibyljamiðstöðin í Miami segir að nú sé vindhraði í Gabrielle rúmlega 45 m/s (1-mínútu meðaltal) og að um hádegi á morgun verði hann kominn niður í 40 m/s. Fellibyljaaðvörun er í gildi á Asóreyjum, sú fyrsta í nokkur ár. Leifar Gabrielle eiga síðan að fara austur til Portúgal og eyðast þar um helgina. 

Það munaði sáralitlu að Gabrielle næði stefnumóti við bylgju í vestanvindabeltinu og svo virðist af myndinni að kerfið gefi einhvern raka norður í þá bylgju sem kemur fram sem óreglulegt hroðasvæði á myndinni, rétt norðan við fellibylinn. Til morguns á hroðinn að ná betra skipulagi og verða að öflugri lægð sem þá stefnir til norðurs, eiginlega beint til okkar. Vagna hins suðræna uppruna loftsins er sunnanátt lægðarinnar með rakasta móti. 

En lítum fyrst á önnur kerfi í suðurhöfum. Fellibyljamiðstöðin fylgist með austanbylgjum og setur á þær bráðabirgðanöfn megi í þeim sjá hroðakerfi sem möguleg eru talin til að verða að einhverju meira. Við sjáum eitt slíkt kerfi á myndinni, „invest 93L“. Flest virðist benda til þess að þar sé hitabeltisstormur, og jafnvel fellibylur í fæðingu. 

Rétt utan við myndina er annað kerfi, „invest 94L“ sem er ekki alveg jafnlangt gengið með. Það þykir mjög flókið að vera með tvö slík kerfi í nágrenni hvors annars á sama tíma. Gerir spár mjög erfiðar, jafnvel bara sólarhring fram í tímann. Miðnæturrennsli evrópureiknimiðstöðvarinnar býr til fellibylji úr báðum þessum kerfum. Bandaríska veðurstofan lætur fyrra kerfið hins vegar gleypa hitt. Ekki treystir ritstjóri hungurdiska sér til að hafa nokkra skoðun á því hvort gerist - eða þá jafnvel eitthvað annað. En næstu nöfn í nafnaröðinni eru Humberto og Imelda. Líkur eru nokkrar á því að annað hvort kerfið fari norður í höf, en ekkert samkomulag er enn um þau mál.

Lítum að lokum á lægðina sem til okkar kemur, fylgju Gabrielle. Hefðum við fengið til okkar svona lægð fyrir t.d. 100 árum - og hefðum við vitað að fellibylur væri á sveimi rétt áður, hefði verið freistandi að segja að þetta væru leifar fellibyls. Við vitum hins vegar í þessu tilviki að svo er ekki. Eða hvað?

w-blogg240925b

Kortið gildir kl.6 að morgni föstudaga 26.september. Lægðin er þá alldjúp, um 967 hPa í miðju. Henni fylgir þó ekki sérlega mikill vindur, en samt nægilegur til þess að rétt er að fylgjast með vindaspám. Hins vegar sýnir spákortið mjög mikla úrkomu, sérstaklega yfir hálendi Mýrdals- og Vatnajökuls, hvítu blettirnir gefa til kynna meir en 30 mm/3 klst - og úrkoman stendur mun lengur heldur en það. Veðurstofan hefur því gefið út gular úrkomuviðvaranir nú þegar og vel er hugsanlegt að eitthvað verði bætt í þegar nær dregur. 

Nokkur hlýindi fylgja þessu veðri um landið norðan- og norðaustanvert, en við sem sitjum í rigningunni verðum minna vör við slíkt, verðum í þessum venjulegu 10 til 12 stigum, en það má svosem heita sæmilegt á þessum árstíma, þegar haustið er að hellast yfir okkur. 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og einum?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg240925b
  • w-blogg240925a
  • w-blogg220925a
  • w-blogg170925b
  • w-blogg170925a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.9.): 280
  • Sl. sólarhring: 281
  • Sl. viku: 1630
  • Frá upphafi: 2500787

Annað

  • Innlit í dag: 255
  • Innlit sl. viku: 1431
  • Gestir í dag: 240
  • IP-tölur í dag: 237

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband