Smávegis af ágúst 2025

Eins og fram hefur komið í yfirliti Veðurstofunnar var nýliðinn ágúst hlýr á landinu. Ekki var þó alveg jafnhlýtt og í júlí, munaði þar um til þess að gera svala daga í upphafi mánaðarins. Þá var loftþrýstingur líka óvenjulágur. Eftir það urðu mikil umskipti þannig að við tók mun hlýrra veðurlag, óvenjuhlýtt varð suma dagana og þá mældist m.a. hæsti hiti sem vitað er um á landinu í ágúst og hæsti hiti sem mælst hefur yfirleitt allt frá því 1946, 29,8 stig á Egilsstöðum þann 16. Alveg sáralitlu munaði að hitinn snerti 30 stigin. Sömuleiðis var sérlega hlýtt að næturlagi síðari hluta mánaðarins. 

w-blogg080925va

Taflan hér að ofan sýnir hvernig hiti mánaðarins á spásvæðunum raðast meðal ágústmánaða þeirra 25 ára sem liðin eru af þessari öld. Þetta er næsthlýjasti ágústmánuður aldarinnar á Austfjörðum, þar var ágúst 2021 sá hlýjasti, eins og reyndar á öllum spásvæðum um landið norðan- og austanvert, frá Breiðafirði í vestri austur til Austfjarða, og auk þess á Miðhálendinu. Nýliðinn ágúst var annars yfirleitt í 3. til 4. hlýjasta sæti, en því sjötta hlýjasta við Faxaflóa og á Suðurlandi. Á þessum svæðum, og á Suðausturlandi er það ágúst 2003 sem enn er sá hlýjasti.

Ekki er eins gott samkomulag um kaldasta ágústmánuð aldarinnar. Við Faxaflóa er það ágúst 2002, ágúst 2011 á Austfjörðum, ágúst 2013 á Suðausturlandi og Suðurlandi, ágúst 2015 á Vestfjörðum, ágúst 2019 á Ströndum og Norðurlandi vestra, Norðausturlandi og Austurlandi að Glettingi og loks 2024 við Breiðafjörð og á Miðhálendinu. Spurning hvenær við fáum nægilega kaldan ágúst til að flest þessi ártöl hreinsist út og eitt eða tvö standi eftir - eins og þau hlýjustu. Raunar er slíkur ágúst ólíklegur, allraköldustu ágústmánuðir suðvestanlands ná því ekki að vera allrakaldastir annars staðar og svipað má segja um köldustu ágústmánuði norðanlands, þeir raðast ekki í allraneðstu sætin á Suðurlandi. Kannski er það ágúst 1903 sem er næst þessu, ef við teljum frá aldamótunum 1900 (lengra aftur komumst við ekki með sæmilega örugga landshlutaskiptingu). Þetta virðist hafa verið kaldasti ágúst bæði á Norðvesturlandi og á Norðausturlandi, og sá þriðji kaldasti á Suðvesturlandi og Suðausturlandi. 

w-blogg080925vb

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur), þykktina (daufar strikalínur) og þykktarvik (litir). Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Yfir landinu austanverðu er vikið tæpir 60 dekametrar, það þýðir að hiti er um 3 stig ofan meðallags áranna 1981 til 2010 (sem miðað er við á kortinu). Finna má enn ákveðnari hitavik langt norður í höfum þar sem sjávarhiti var meir en 5 stig ofan meðallags. Ef trúa má greiningum evrópureiknimiðstöðvarinnar var hiti yfirborðs sjávar einnig vel ofan meðallags hér við land, sérstaklega undan Norðurlandi austanverðu. 

Vestanáttin í háloftunum hefur verið nokkuð nærri meðallagi í sumar, en sunnanáttin hins vegar töluvert eindregnari en venjulegt er í júlí og ágúst (hún var undir meðallagi í júní). Vindátt hefur því verið öllu suðvestanstæðari heldur en algengast er. 

Við þökkum BP fyrir kortagerðina að vanda. 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og fjórum?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg080925vb
  • w-blogg080925va
  • w-blogg050925d
  • w-blogg050925c
  • w-blogg050925b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.9.): 187
  • Sl. sólarhring: 191
  • Sl. viku: 1363
  • Frá upphafi: 2496707

Annað

  • Innlit í dag: 166
  • Innlit sl. viku: 1197
  • Gestir í dag: 158
  • IP-tölur í dag: 151

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband