Fyrstu tíu dagar ágústmánaðar 2025

Fyrstu tíu dagar ágústmánaðar 2025 hafa verið hlýir um landið austanvert, en svalari vestanlands. Meðalhiti í Reykjavík er 11,0 stig og er það -0,5 stigum neðan meðallags sömu daga á árunum 1991 til 2020 og -0,3 stigum neðan meðallags síðustu tíu ára. Raðast hitinn í 19.hlýjasta sæti (af 25) á öldinni. Hlýjastir voru þessir sömu dagar árið 2003, meðalhiti þá 13,5 stig, en kaldastir voru þeir 2022, meðalhiti 10,2 stig. Á langa listanum raðast hitinn nú í 78. hlýjasta sæti (af 153). Hlýjast var 2003 (og 1944), en kaldast 1912. Þá var meðalhiti þessara daga ekki nema 6,4 stig.
 
Á Akureyri er meðalhiti fyrstu tíu daga ágústmánaðar 11,5 stig og er það í meðallagi 1991 til 2020 og +0,6 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára.
 
Eins og áður sagði er töluverður munur á hitafari austan- og vestanlands. Við Faxaflóa og á Suðurlandi raðast hitinn í 17. hlýjasta sæti aldarinnar (af 25), en á Austfjörðum eru dagarnir þeir fjórðuhlýjustu á öldinni.
 
Jákvætt hitavik - miðað við síðustu tíu ár - er mest á Gjögurflugvelli, +2,7 stig, og +2,4 stig á Hornbjargsvita. Hiti er hins vegar -0,9 stigum neðan meðallags í Þúfuveri og -0,8 stig neðan þess við Setur.
 
Úrkoma hefur mælst 28,6 mm í Reykjavík það sem af er mánuði. Það er um 60 prósent umfram meðallag. Á Akureyri hefur úrkoman mælst 6,8 mm og er það um 60 prósent meðallags. Á Dalatanga hafa aðeins mælst 3,5 mm og er það innan við tíundihluti meðallags.
 
Eftir mjög sólarrýra viku, rúma, komu þrír miklir sólardagar í Reykjavík þannig að sólskinsstundafjöldi mánaðarins er nú kominn upp í 55,1 stund - og er það í rétt rúmu meðallagi. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar í mánuðinum til þessa mælst 52,5 og er það sömuleiðis í rétt rúmu meðallagi.
 
Loftþrýstingur hefur verið sérlega lágur þessa tíu daga - rétt eins og reyndar sömu daga í fyrra. Þrýstingur hefur aðeins tvisvar verið marktækt lægri en nú síðustu 200 árin rúm. Það var í fyrra og 1842. Þrýstingur var ámóta lágur og nú sömu daga árið 2020, 1876 og 1867. Í fyrra (2024) hélst þessi lági þrýstingur allan mánuðinn og varð að meti, varla eru líkur á því nú miðað við spár.
 
Í sambandi við frétt um næturfrost sem birtist í dag (11.ágúst) má geta þess að það hefur aðeins gerst fjórum sinnum á þessari öld að heill sumarmánuður hafi verið alveg frostlaus í byggðum landsins. Þetta eru júní 2003, júní og júlí 2014 og ágúst 2021. Síðastnefndi mánuðurinn er sá eini þar sem hvergi fréttist af frosti á landinu - ekki heldur á hálendisstöðvum. Á fyrri tíð voru svona mánuðir fleiri - athugunarkerfið var þá mun gisnara heldur en nú og gögn því ekki alveg samanburðarhæf.

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • w-blogg010925c
  • w-blogg010925b
  • w-blogg010925b
  • w-blogg010925a
  • w-blogg310825-sumardagafjoldi-rvk

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.9.): 318
  • Sl. sólarhring: 438
  • Sl. viku: 1878
  • Frá upphafi: 2495662

Annað

  • Innlit í dag: 290
  • Innlit sl. viku: 1650
  • Gestir í dag: 272
  • IP-tölur í dag: 264

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband