Enn af árstíðasveiflum

Ritstjóri hungurdiska er stöðugt að skrifa eitthvað um árstíðasveiflur veðurþátta. Flest af því sem hér fer á eftir hefur þannig borið við áður á þessum vettvangi - en stundum finnst ritstjóranum bara ekki veita af að rifja það upp. Fyrsta myndin hefur þó ekki sést áður - alla vega ekki í þessu formi.

w-blogg090825a

Hún sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins yfir Íslandi (blár ferill) og meðalþykkt yfir landinu (rauður ferill). Gögnin eru úr endurgreiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar á tímabilinu 1940 til 2022. Lárétti ásinn sýnir tíma - í 18 mánuði - byrjar 1. janúar - en fer fram yfir áramót til að allur veturinn komi fram í heilu lagi - og síðan haldið áfram til 30.júní. 

Lóðrétti kvarðinn er merktur í dekametrum, 1 dekametri er 10 metrar. Sem kunnugt er mælir þykktin hita í neðri hluta veðrahvolfs. Um það bil 1 stig á hverja 2 dekametra (20 metra). Lægstu meðaldagsgildi vetrarins eru í kringum 520 metra, en þau hæstu um 546 dekametrar. Það munar um 26 dekametrum, eða um 13 stigum á hita vetrar og sumars. Auðvitað geta ítrustu tölur á báða vegu verið allt aðrar, lægsta þykkt sem sést hér við land er um 490 dekametrar, en sú hæsta í kringum 566 - það munar um 76 dekametrum, eða 38 stigum á hlýjasta og kaldasta loftinu sem yfir okkur er. 

Á myndinni má sjá gráa lóðrétta strikalínu, hún sýnir sólstöður á sumri, 21.júní. Þá eru bæði hæð 500 hPa-flatarins og þykktin á leið upp á við. Einnig má sjá rauða strikalínu, hún er við 9. ágúst (dagurinn sem pistillinn er skrifaður). Við sjáum að bæði hæð og þykkt eru farin að falla frá hámörkum sínum, en vantar nokkuð upp á að ná sömu gildum og á sólstöðum. Rauð strikalína merkir meðalþykktina við sólstöðurnar og fylgjum við henni að þeim stað sem hún sker þykktarlínuna síðara sinnið sjáum við að kominn er 1.september. Ef við miðum sumarið við þykktina á sólstöðum, endar það 1.september. Miðum við sumarbyrjun við 1.júní lengist sumarið til 21. september (grá strikalína sýnir þann möguleika).

Í dag, 9. ágúst er því enn nokkuð eftir af sumri. Ef við látum sumarið enda við verslunarmannahelgi hlýtur það hins vegar að byrja um 17.júlí - stutt sumar það. Þeir sem telja sumarið fylgja hitanum hljóta að telja að lengra en 2 til 3 vikur.

Við tökum eftir því á myndinni að misgengi er á milli ferlanna tveggja, mun lengra er á milli þeirra að sumarlagi heldur en að vetri og er munurinn mestur á vorin. Þetta sjáum við eimmitt á næstu mynd - munurinn kemur nefnilega fram í þrýstingi við sjávarmál. Þrýstingur við sjávarmál segir okkur af hæð veðrahvarfanna (sem hæð 500 hPa-flatarins er góður fulltrúi fyrir) og hita í neðri hluta veðrahvolfs. Stundum erfitt að greina að hvort er hvort - frá degi til dags. 

w-blogg090825b

Lárétti kvarðinn er sá sami og á fyrri mynd, en lóðrétti kvarðinn sýnir meðalþrýsting við sjávarmál. Við notfærum okkur 200 ár af mælingum - sem skilar hreinni ferli. Á ferlinum eru alls konar vendipunktar. Síðari hluti vetrar byrjar hér 10.febrúar. Þá fer þrýstingur að rísa - sólin fer að skína á norðurslóðum. Þrýstingurinn stígur nokkuð reglulega allt fram á sumardaginn fyrsta. Þá dregur úr vestanátt áloftanna og vetur lætur undan á heimskautasvæðunum. Þrýstingur er nú svipaður í um það bil 6 vikur - vorið - oft (en ekki alltaf) tími sólskins og næðinga. Segja sumir að nafn mánaðarins hörpu vísi til þess - herpings og harðinda. Ekki tekur ritstjóri hungurdiska afstöðu í því álitamáli. 

Eftir það fer þrýstingur að falla - hann gerir það síðan í aðalatriðum samfellt allt þar til um mánaðamótin nóvember/desember. Línuritið sýnir þó (sé farið í smáatriði) ýmsar vendingar. Í kringum höfuðdaginn herðir um hríð á fallinu, en um mánuði síðar dregur óvænt úr því aftur. Við getum bara giskað á ástæðurnar - og látum það vera í bili. En það sem gerist um mánaðamótin nóvember/desember er nær örugglega tengt skammdegisvindröstinni miklu í heiðhvolfinu - þeirri sem í tísku er á átakanlegum tvítsíðum meginlandssnjóaspámanna á síðari árum (en við skulum láta þá í friði hér). Í dag nægir okkur að taka eftir höfuðdeginum á þessari mynd. Norðuríshafið og kuldapollar þess taka þá að sameinast að nýju eftir linkind og hrakninga sumarsins. Sömuleiðis snýst vindátt í heiðhvolfinu úr austri í vestur. 

w-blogg090825c

Aukin virkni þeirra sést einnig á næstu mynd. Hún sýnir svokallaðan þrýstióróa, mismun á loftþrýstingi frá degi til dags - allt aftur til 1823. Mjög afgerandi mynd. Ekki er mikill munur á þessum ferli á hinni köldu 19. öld og nú á dögum. Það hefur ekkert afgerandi gerst í hringrásinni allan þennan tíma. Jú, það er ekki alveg satt - haustið, október og nóvember eru með einhverja óreglu (tíminn þegar hausthikið er í þrýstifallinu á fyrri mynd) - ekki gott að segja hvað veldur. Sumarið er hins vegar nánast nákvæmlega eins. Það dregur mjög úr óróa í kringum sumardaginn fyrsta (hörpu) - síðan minnkar hann hægar þar til lágmarki er náð, hér 5. ágúst (ekki alveg sami dagur á öllum tímabilum). Ferill sem sýnir illviðratíðni er nærri því nákvæmlega eins og þessi og sömuleiðis ferill sem sýnir meðalþrýstibratta yfir landinu (mismun á hæsta og lægsta þrýstingi landsins). Við skulum nú stækka út sumarhluta myndarinnar - og ýkja aðeins.

w-blogg090825d

Við sjáum vel hina hröðu breytingu í kringum sumardaginn fyrsta - veður róast þá mjög. Síðan kemur eitthvað hik í minnkun óróleikans í júní, en eftir sólstöður tekur við eitthvað sem við gætum (ef við vildum) talið sérstakt tímabil. Það stendur á þessari mynd hreint og klárt til 22. ágúst - þá gerist eitthvað (vindátt snýst í heiðhvolfi). Þessar dagsetningar eru auðvitað ekki alveg bókstaflegar, en að 200 ára mæliröð skuli sýna þær verður samt að teljast merkilegt. 

Að lokum lítum við á mynd sömu ættar.

w-blogg090825e

Í mjög fljótu bragði virðist um sömu mynd að ræða, en svo er þó ekki. Hér má sjá meðalhitabreytingu frá degi til dags (morgunhiti) í Stykkishólmi 1949 til 2024. Mynd sem sýnir breytileika þykktarinnar frá degi til dags á sama tíma er nærri því eins. 

Við viljum hér draga þá ályktun að miðum við sumarið við hitafar er lítið vit í því að fara að minnast á haust fyrr en komið er vel fram í september, en ef við horfum á veðrakerfið viðurkennum við kannski að einhver hausthristingur í norðri fari að gera vart við sig upp úr 20. ágúst. Við ættum líka að sjá að verulegt vit er í hinni gömlu skiptingu ársins í tvö (nokkurn veginn) jafnlöng misseri - og að dagsetningar þeirrar skiptingar eru ákaflega skynsamlegar. 

Um þetta hefur verið fjallað oft áður á hungurdiskum Þeir sem nenna að lesa gætu gripið í viðhengin tvö. 


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og ellefu?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Ágúst 2025
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • w-blogg090825e
  • w-blogg090825d
  • w-blogg090825c
  • w-blogg090825b
  • w-blogg090825b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.8.): 102
  • Sl. sólarhring: 156
  • Sl. viku: 1202
  • Frá upphafi: 2489573

Annað

  • Innlit í dag: 93
  • Innlit sl. viku: 1085
  • Gestir í dag: 92
  • IP-tölur í dag: 92

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband