11.9.2025 | 16:37
Hlaupið yfir árið 1982
Tíð þótti hagstæð lengst af á árinu 1982. Þó gerði fáein eftirminnileg illviðri. Janúar var nokkuð snjóþungur norðaustanlands, en annars hagstæður. Í febrúar var tíð nokkuð óróleg og gæftir voru slæmar, en tíð þótti hagstæð til landsins. Snjóþungt var norðanlands framan af mars, en annars var tíð talin góð. Í lok apríl gerði slæmt hret, en fram að því hafði mánuðurinn verið góður. Maí var kaldur, en tíð samt talin nokkuð hagstæð. Júní var mjög þurr og sólríkur á Norðaustur- og Austurlandi og tíð var talin hagfelld um land allt. Júlí var mjög votviðrasamur á Suður- og Vesturlandi, en tíð var hagstæð norðaustan- og austanlands. Þetta snerist að nokkru við í águst, þá var talin hagstæð tíð syðra, en lakari norðaustanlands. Kalt var í september, en tíð ekki óhagstæð. Tíð var lengst af nokkuð góð í október og framan af nóvember, en ekki var hlýtt. Tíð í desember þótti sæmileg framan af, en síðan vond.
Í textanum hér að neðan er leitast við að rifja upp helstu veðurviðburði ársins, oftast með beinum tilvitnunum í texta frétta- og dagblaða sem leitað er til með hjálp timarit.is. Í fáeinum tilvikum hafa augljósar prentvillur verið leiðréttar og stafsetningu í stöku tilviki hnikað til - vonandi að meinalausu. Sömuleiðis eru textar alloft styttir. Auðvelt ætti að vera að finna frumgerð þeirra. Að þessu sinni (eins og oftast hin síðari ár) er mestra fanga að leita hjá Morgunblaðinu, ritstjóri hungurdiska er að vanda þakklátur blaðamönnum fyrir þeirra hlut. Einnig er notast við textabrot úr tíðarfarsyfirlitum Veðurstofu Íslands og Veðráttunnar, einkum þegar fjallað er um veðurlag mánaða í heild.
Árið fór til þess að gera vel af stað. Fyrsta þriðjung mánaðarins var vindur lengst af hægur. Veðráttan getur þess að á nýársnótt hafi snjóað mikið á litlu svæði á Vestfjörðum. Síðari hluta mánaðarins var umhleypingasamara og snjóþungt var þá norðaustanlands.
Morgunblaðið segir frá Skaftárhlaupi 6.janúar:
Mikið hlaup og getur orðið hættulegt vegna mikils íss í Skaftá og Kúðafljóti. Sigurjón Rist vatnamælingamaður sagði í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í gærkveldi, að hann hefði átt von á hlaupinu nú um nokkurt skeið, og hefði sér ekki komið á óvart þótt það hefði orðið á gamlársdag. Kvaðst Sigurjón hafa farið tvívegis austur milli jóla og nýárs til að fylgjast með ánni, og er hann frétti af brennisteinsfnyk í gær hefði hann vitað hvers kyns var. Hlaupin sagði hann hafa orðið nokkurn veginn á tveggja ára fresti síðan 1951, en þau verða á þann hátt að mikið vatn safnast saman í ketilsigskálum norðvestur af Grímsvötnum, og er vatnið hefur náð ákveðinni hæð brýst það fram. ... Hlaupið sagði hann geta orðið hættulegt nú, langt væri frá síðasta hlaupi, og veðurfar væri nú þannig að mikill ís væri á ánni, sem gæti orsakað stíflur á leið hlaupsins niður ána, þannig að hún flæddi yfir bakka sína, og væru þá brýr ef til vill í hættu, og einnig land og girðingar neðar við ána, einkum í Meðallandi, þar sem hlaupið rennur um Kúðafljót. Hámarki sagðist Sigurjón telja að hlaupið næði á fimmtudag, eða aðfaranótt fimmtudagsins, morgundagsins, en í dag heldur Sigurjón austur til að fylgjast með hlaupinu og gera mælingar á því. Vatn í Skaftá hefur sem fyrr segir verið mjög lítið að undanförnu, og sagði Sigurjón það aðeins 9 cm hærra en það hefði lægst verið. Brennisteinsfnykur fannst víða um Suðurland í gær.
Morgunblaðið heldur áfram 7.janúar:
Frá Ágústi Inga Jónssyni blaðamanni Morgunblaðsins í Vík í Mýrdal. Hlaupið í Skaftá virtist enn vera að aukast er Morgunblaðið hafði síðast fregnir af í gærkvöldi. Talið var líklegt að það næði hámarki í nótt og þess myndi gæta í auknum mæli á Síðu og Kirkjubæjarklaustri og eins í Meðallandi í dag. Bæir, gripahús og önnur mannvirki voru ekki talin í teljandi hættu umfram það sem þegar hefur gerst en í fyrrinótt hljóp Skaftárdalsvatn yfir veginn við Skaftárdal og í gær fór vatnið yfir veginn og garð við brúna við Stóra-Hvamm við Múla og tepptist því vegurinn heim að Svínadal. Sigurjón Rist vatnamælingamaður sagðist síðdegis í gær áætla vatnsmagnið um 8 til 900 teningsmetra en það er þrefalt vatnsmagn Ölfusár. Um þetta leyti árs er venjulegt að vatnsmagn í Skaftá sé hins vegar um 40 teningsmetrar. Hlaupið nú er talið með stærri Skaftárhlaupum. Þau hafa verið nokkuð regluleg síðan 1955 og mjög algengt er að áin hlaupi um þetta leyti árs. Að sögn heimamanna er tæpast rétt að tala um Skaftárhlaup þar sem mest af vatnsflaumnum fer, að minnsta kosti til þessa, í farveg Eldvatns og niður í Eldvatnshraunið. Það skilar vatninu aftur út í Kúðafljót og var það í gær farið að ryðja sig í miðjum farveginum og þykir mönnum það benda til þess að ekki muni reyna verulega á varnargarða í Meðallandi sem eru gegnfrosnir. Austur með Síðu var hlaupið farið að skila sér við bæinn Skál og aðeins vestar eru lænur komnar að veginum. Þar rennur Skaftá ofan á ís og er ekki ýkja straumhörð enda er áin grynnri þar og breiðir meira úr sér. [Fréttin er mun lengri]
Tíminn segir frá ástandi sjávar 6.janúar - eftir frétt frá Hafrannsóknastofnun:
Ástand sjávar fyrir Norður- og Austurlandi á árinu 1981 var mjög óvenjulegt. Hvorki gætti hlýsjávar né heldur pólsjávar i miklum mæli, heldur var um að ræða mjög óvistlegan svalsjó. Svalsjórinn er litt til þess fallinn að stuðla að lagskiptingu og hamlar því bæði lífinu i sjónum og einnig nýísmyndun á landsgrunnshafinu norðan og austanlands. Af þessu má álykta, að nýísmyndun á fjörðum inni og við fjörur verði ærin við áframhaldandi loftkulda, að rekís gæti orðið til ama á miðunum fyrir Vestfjörðum og vestanverðu Norðurlandi í vetur ef svo horfir með vindátt, og þá einnig að vetraríki haldist næstu mánuði áfram til sjós og lands, segir í fréttatilkynningu frá Hafrannsóknarstofnun, þar sem gerð er grein fyrir ástandi sjávar á árinu 1981, en þó aðallega könnun í hafinu umhverfis Ísland í nóvember og desember. Í leiðöngrum á rannsóknaskipunum Bjarna Sæmundssyni og Árna Friðrikssyni. Niðurstöður sjórannsókna árið 1981, sem sýna með eindæmum kaldan sjó á Íslandsmiðum, minna á legu landsins við mót heitra og kaldra loft- og hafstrauma eins og landsmenn hafa fundið fyrir á árinu. Reyndar má benda á að heiti sjórinn á norður- og austurmiðum hefur almennt hopað fyrir þeim kalda eftir 1964 samfara kólnandi veðurfari á landinu miðað við það sem var fyrr á öldinni segir í frétt Hafrannsóknarstofnunar.
Vindur snerist til suðlægrar áttar þann 12. og hlánaði, daginn eftir, 13. og aðfaranótt 14. fór mjög kröpp lægð til norðausturs yfir landið og olli hvassviðri og töluverðu tjóni. Morgunblaðið segir frá 14.janúar:
Vonskuveður gekk yfir sunnan- og vestanvert landið í gærkvöldi og í nótt. Í Reykjavík var mikið um fok og til dæmis var lögreglan kölluð út oftar en 10 sinnum vegna foks á járnplötum. Þá ruddu Elliðaárnar sig, og að sögn lögreglunnar er jafnvel óttast að efri brúin á Elliðaánum hafi skemmst vegna jakaruðnings.
Morgunblaðið segir af sama veðri 15.janúar:
Mikið óveður geisaði á vestanverðu Norðurlandi og Norðausturlandi og víða á Vesturlandi svo og á Reykjanesi í fyrrinótt. Um vestanvert Norðurland var veðrið verst um klukkan 3 en barst þá til Norðausturlands og mældist vindur þar 1012 stig í gærmorgun klukkan 6. Á Suðurnesjum var veðrið verst um miðnætti og mældist vindur þar 1012 stig en upp úr klukkan 9 í gærmorgun fór veðrinu að slota víða um land. Mun hafa fylgt þessu mikil snjókoma á Norðausturlandi og mældist snjókoma á Raufarhöfn 15 millimetrar og 12 millimetrar á Vopnafirði. Samfara þessu veðri kólnaði líka víða.
Í Keflavík fauk þak af húsi björgunarsveitarinnar Stakks í heilu lagi yfir á næsta hús. Húsið er staðsett rétt norðan við Keflavík á stað sem kallað er Berg, sagði Halldór Jónsson lögreglumaður í Keflavík. Gerðist þetta rétt um miðnætti, þegar vindhraðinn var sem mestur. Okkur hafa ekki borist fréttir af öðru tjóni í Keflavík þessa nótt, sagði Halldór. Það var ansi slæmt veður víða á Snæfellsnesi í fyrrinótt og tjón var hér í nýju höfninni í Stykkishólmi er bátar slógust saman í óveðrinu," sagði Árni Helgason, fréttaritari Morgunblaðsins í Stykkishólmi. Rafmagnsstaurar brotnuðu hér upp í fjallinu, svo það varð rafmagnslaust hjá okkur frá miðnætti til klukkan 10 daginn eftir. Við höfum díselvélar til að framleiða rafmagn svona til vara, ef svo væri ekki, væri ennþá rafmagnslaust hér í Stykkishólmi," sagði Árni Helgason.
Dalvík 14. janúar. Mikið hvassviðri og éljagangur gekk hér yfir síðastliðna nótt. Veðrið gekk fljótt yfir og í birtingu var komið besta veður. Allt rafmagn fór af bænum og nærliggjandi sveitum, en skemmdir munu hafa orðið á rafmagnslínu milli Akureyrar og Dalvíkur. Gripið var til þess ráðs að flytja rafmagn frá Skeiðsfossvirkjun á nýrri línu milli Dalvíkur og Ólafsfjarðar, sem liggur yfir svonefnda Dranga. Rafmagn var komið á hér á Dalvík klukkan 10:30 í morgun, en þá hafði verið straumlaust af og til frá klukkan 3:30. Engar fréttir var að hafa af orsökum rafmagnsleysisins fyrr en í 10-fréttum útvarpsins í morgun og eru margir hér heldur óhressir með það, hve seint Rafmagnsveitur ríkisins bregðast seint við að senda frá sér tilkynningar um straumleysi ásamt upplýsingum um hvort reikna megi með rafmagni fljótlega eða hvort dráttur verði á. Dalvíkingar eru þó ekki óvanir rafmagnsleysi því versni veður hefur mátt reikna með einhvers konar rafmagnstruflunum. Í rafmagnsleysinu varð bærinn neysluvatnslaus, en öllu köldu vatni er dælt upp úr holu við Brimnesá, en engin vararafstöð er til að knýja dælurnar þegar rafmagn fer af. Þrátt fyrir ljósleysi og skort á köldu vatni nutu þó íbúar Dalvíkur heita vatnsins frá Hitaveitunni, því hún er þannig í stakk búin að eiga ljósavél og dælur fari rafmagn af. Þá má þess geta, að verði rafmagnstruflanir eins og urðu í þessu veðri víða um Norðurland falla sendingar frá endurvarpsstöðinni í Skjaldarvík út, svo mjög erfitt verður að hlusta á útvarpið hér nyrðra. Nauðsynlegt er að vararafstöð geti tekið við í Skjaldarvík fari rafmagn af einhverra hluta vegna svo útsendingar falli ekki niður og Ríkisútvarpið geti gegnt almannavarnaskyldu sinni. Fréttaritarar
Það var rafmagnslaust á Kópaskeri, Kelduhverfi og á Sléttu og truflanir á Þórshöfn og víðar, en nú er allt komið í lag, sagði Tryggvi Aðalsteinsson, rafveitustjóri á Kópaskeri. Ég þurfti að fara út í afveitustöð klukkan 6 um morguninn og þurfti að leggja bílnum mínum við hlið, sem þar er og þurfti að ganga eina 40 metra að stöðinni. Þar eð vindhraði var mikill og hálka á leiðinni þá varð ég að skríða þessa leið. Þetta er ekki langur spölur og ég meiddist ekkert og vil gera sem minnst úr þessum atburði," sagði Tryggvi. Ekkert tjón varð á mannvirkjum hér á Kópaskeri né í Kelduhverfi svo ég viti en ég var þar að koma rafmagninu á fyrir Keldhverfinga en þeir höfðu verið rafmagnslausir í 12 klukkustundir," sagði Tryggvi að lokum.
Borgarfjörður eystri: Gífurlegt tjón í fárviðrinu. Í fyrrinótt gerði hér norðvestan veður, sem venjulega eru kölluð Dyrfjallaveður hér. Ekki er fullkannað hve miklu tjóni veður þetta olli, en fullyrða má, að það sé gífurlegt og líklega mikill minnihluti húsa hér í Bakkagerði, sem ekki skemmdist meira eða minna," sagði séra Sverrir Haraldsson fréttaritari Morgunblaðsins í Bakkagerði. Járn fauk af þökum, rúður brotnuðu og klæðning flettist af að minnsta kosti á einu húsi. Til dæmis má nefna, að flestar rúður í Félagsheimilinu Fjarðarborg og Grunnskóla Borgarfjarðar brotnuðu. Í húsi Pósts og síma brotnuðu og tvær stórar rúður. Járn fauk af hálfu þaki verkamannabústaða, sem voru nær fullbyggðir og rúður brotnuðu í gluggum, sem snéru í vindáttina og annar stafninn í húsinu sprakk bókstaflega í sundur. Og fiskihjallar hrundu alveg til grunna. Sjómenn voru búnir að ganga frá bátum sínum undir veturinn eins og venjulega með því að binda segl yfir þá og njörva þá niður enda fauk enginn þeirra. En yfirbreiðslur tættust af, gluggar í stýrishúsum brotnuðu og eitthvað fauk í 11 tonna bát og braut á hann gat. Fjórir bílar fuku og munu þrír þeirra nær ónýtir. Nokkrir rafmagnsstaurar brotnuðu. Í fyrrinótt voru hraustir menn á ferð við að hefta frekara fok hjá sjálfum sér og náunganum og var það erfitt og hættulegt verk, þar sem nær óstætt var í byljunum og yfir þá dundi skari, grjót, járnplötur og hvers konar hlutir, sem þarna voru á ferðinni," sagði séra Sverrir Haraldsson.
Neskaupstaður: Tjón varð sáralítið í veðrinu, sem gekk yfir í fyrrinótt," sagði Ásgeir Lárusson, fréttaritari Morgunblaðsins á Neskaupstað. Bátur sem lá við bryggjuna og átti að fara í slipp skemmdist nokkuð, en annað tjón veit ég ekki um. Rafmagnslaust var alltaf af og til alla nóttina í ákveðnum hverfum og fram á morgun. Loka þurfti skólum hér en þeir voru opnaðir aftur eftir hádegi, því þá var komið fínasta veður," sagði Ásgeir Lárusson.
Tíminn segir af sama veðri 15.janúar:
Jón Kristjánsson, fréttaritari Tímans á Egilsstöðum Það er komið ágætis veður hérna núna en í morgun var hér versta veður. Það gekk í þetta svona upp úr miðnætti i nótt og fram yfir kl. 9 i morgun var hér ofsarok. Ég hef ekki fregnað af skemmdum hér i þorpinu nema hvað nokkrar þakplötur fuku hér af grunnskólanum. Hér úti í sveitum hins vegar á tveimur bæjum, sem ég hef frétt frá orsakaði óveðrið talsvert tjón. Á Sauðhaga á Völlum í Vallarhreppi fuku járnplötur af íbúðarhúsi og þak fauk af fjósi á bænum Mýnes. Hér voru einnig rafmagnstruflanir miklar og var rafmagnslaust hér meira og minna í alla nótt, en upp úr 9 í morgun var komið rafmagn á, og hefur verið truflanalitið síðan. Þetta er versta veður sem ég hef komið út i hér, á þessum 20 árum sem ég hef verið hérna, þannig að ég tel að miðað við veðurhæðina þá megum við þakka fyrir að ekki skyldi hljótast meira tjón af, en raun bar vitni. Áskell Jónsson, bæjarstjóri á Eskifirði Jú veðurhæðin hérna var mjög mikil en ég hygg að skemmdir af völdum veðursins hafi verið i minna lagi. Ég hef ekki haft fregnir af öðru en því að talsverðar skemmdir hafa orðið hér á hafnarmannvirkjum og á báti sem lá hér við uppfyllinguna hér utar i bænum. Bátur þessi er frá Fáskrúðsfirði en ég hef ekki nákvæma lýsingu á því enn, hve mikið hann skemmdist. Þær skemmdir sem urðu á hafnarmannvirkjum, eru skemmdir á viðlegukanti. Hér söng og hvein i húsum og ég hugsa að mönnum hafi orðið misjafnlega svefnsamt. Hér fór rafmagn um tíma, en nú er allt í lagi með rafmagnið.
Morgunblaðið segir 28.janúar enn af sama veðri, en einnig almennar tíðarfarsfregnir úr Skagafirði:
Bæ á Höfðaströnd, 25. janúar. Hörkutíðarfar hefur verið, sérstaklega í úthluta Skagafjarðar, skafrenningur og erfiðleikar á vegum. Hefur því snjómokstur verið óvenju mikill hjá Vegagerðinni og bændum, og mikill kostnaður í kringum það. Um miðjan janúar gerði mikið veður, sérstaklega í Fljótum, og olli það töluverðum skemmdum. Á Bjarnagili tók þak af votheysturni og part af turninum, og á næsta bæ tók þak af húsi. Skólabíll, mannlaus þó, var talinn hafa oltið 13 veltur, og bíll sem að mestu var á kafi í fönn, fauk og eyðilagðist alveg. Þak tók af hlöðu á Laugalandi, þar sem nýlega var búið að útbúa fyrir refarækt. Refirnir fuku þó ekki. Yfirleitt má telja, að það sem af er, sé með erfiðustu vetrum. Útigönguhrossum er víðast gefið út, og mjólkurframleiðslan er lítil miðað við fyrra ár. Í framhéraði Skagafjarðar var fyrripart vetrar auð jörð, en miklar frosthörkur, og kom þar því mikill klaki í jörðu, um 70 cm til 1 m á þykkt. Bændur óttast því að gróður með vorinu verði tafsamur. Björn í Bæ.
Feykir segir enn af sama veðri í pistli 29.janúar:
Hvassviðrið mikla aðfaranótt fimmtudagsins 14. janúar fór ekki fram hjá Fljótamönnum, þó að fjölmiðlar hafi þagað dyggilega yfir því. Það var kolbrjálað veður á hverjum bæ. Það svaf enginn rótt nema við hjónin", sagði ein Fljótakvennanna. Aðrar tvær sögðust hafa setið skjálfandi og hughreyst hvor aðra í símann mikinn hluta nætur. Á Molastöðum fauk skólabíllinn og fór 13 1/2 veltu undan storminum. Gamall Volvobíll sem var hálfur á kafi í skafli var hrifinn upp, fauk yfir allháan timburstafla og staðnæmdist eftir 100 m ferðalag. Þar fuku einnig þakplötur af fjárhúsum og rúður brotnuðu. Hálft fjósþak fauk á Laugalandi, heilt jólatré í Ketilási, og á Bjarnargili fór þak af súrheysturni. Á einum bæjanna skáru þakplötur sundur allar þvottasnúrur, og erfitt hefur reynst að þurrka þar bleyjur síðan. Rokið kom eins og byssuskot fyrir Barðshyrnuna, en allt var kyrrt á milli. Menn fluttu sig milli herbergja í húsum sínum og reyndu að vera þar sem skjólið var öruggast.
Miklir kuldar voru um þessar mundir bæði á meginlandi Evrópu og vestur í Bandaríkjunum.
Aðfaranótt 21. janúar strandaði belgíski togarinn Pelagus við Heimaey. Fjórir menn fórust þar af tveir íslenskir björgunarmenn. Víða var slæm færð síðari hluta mánaðarins.
Morgunblaðið segir 31.janúar af Skeiðarárhlaupi, sem reyndist minniháttar:
Búist er við að Skeiðarárhlaup verði í hámarki undir næstu helgi. Ragnar Stefánsson, bóndi í Skaftafelli, sagði í gær, aö áin yxi mjög hægt og væri upphaf hlaupsins svipað og við upphaf Skeiðarárhlaupa síðustu áratugina. Hann sagðist ekki eiga von á sérlega stóru hlaupi að þessu sinni og sagðist ætla, að hlaupið yrði á flestan hátt svipað og árið 1976. Áin hefði breitt nokkuð úr sér í gær neðan brúa og var búin að ryðja sér rennu, þar sem áður var ís á ánni. Helgi Björnsson, jarðeðlisfræðingur, sagði að síðustu áratugina hefðu Skeiðarárhlaup verið 23,5 rúmkílómetrar að stærð, árið 1976 mældist það 2,8 rúmkílómetrar og 3,2 rúmkílómetrar árið 1972. Síðustu áratugina hafa Skeiðarárhlaup yfirleitt orðið á 46 ára fresti, en fyrr á öldinni hljóp Skeiðará yfirleitt einu sinni á áratug og þá var vatnsmagnið gjarnan tvöfalt meira en í hlaupunum eftir 1940. Sem dæmi má nefna að talið er að Skaftárhlaupið fyrr í þessum mánuði hafi verið um 0,2 rúmkílómetrar. Hámarksrennsli í Skeiðarárhlaupum undanfarin ár hefur verið 810.000 teningsmetrar á sekúndu. Í stóru hlaupunum, til dæmis 1934 og 1938, var rennsli árinnar hins vegar um 40.000 teningsmetrar á sekúndu þegar það var mest.
Þann 30.janúar varð hörmulegt slys í Ingólfsfjalli. Tvö ungmenni fórust þar í snjóflóði. Tíminn segir frá þessu 2.febrúar:
Tvö ungmenni, ... fórust mjög sviplega í snjóflóði í Ingólfsfjalli á laugardaginn. Ungmennin voru á göngu um fjallið austanvert þegar slysið átti sér stað. Um tvöleytið fóru þau með bíl frá Selfossi og þegar þau höfðu ekki skilað sér að sex tímum liðnum tók fólk að lengja eftir þeim. Björgunarsveitin Tryggvi frá Selfossi var kölluð út og eftir að leitarmenn höfðu leitað skamma stund í austanverðu Ingólfsfjalli fundu þeir spor sem þeir síðan röktu að stað þar sem snjóflóð hafði fallið fyrr um daginn. Þar fundust ungmennin örend. Sjó.
Tíð var hlý og hagstæð í febrúar, en nokkuð umhleypingasöm og vatnavextir ollu tjóni. Allmikið rigndi um landið sunnan- og austanvert 3. og 4. Morgunblaðið segir frá 5.febrúar:
Gífurlegir vatnavextir voru víða um land í gær, mestir á Suðvesturlandi. Vatn óx geysilega í Elliðaánum og var um tíma óttast um feðga, 48 og 7 ára, sem höfðu yfirgefið bíl sinn í Víðidal um hálfáttaleytið. Hundruð leitarmanna leituðu þeirra í gærkvöldi og á öðrum tímanum í nótt bárust þau gleðitíðindi að kafarar hefðu fundið feðgana heila á húfi í hesthúsi í Víðidal, sem var umflotið vatni. Þeir voru nokkuð þrekaðir en hressir eftir atvikum.
Flóðin í Elliðaánum í gærkvöldi eru hin mestu um langt árabil. Stór svæði í Víðidal voru undir vatni og gífurlegur straumþungi var í ánum og voru menn sammála um, að vatnavextirnir í ánum væru hinir mestu um langt árabil, meiri en 1968, þegar miklir vatnavextir hlupu í árnar. Sem dæmi um vatnavextina má nefna, að um klukkan 17 í gær var vatnsyfirborðið metra fyrir neðan eystri brúna yfir Elliðaárnar, fyrir neðan Ártúnsbrekkuna. Á níunda tímanum var vatnsyfirborðið hálfan metra frá brúnni og um klukkan eitt í nótt var farið að flæða yfir brúna og voru árnar enn í vexti í nótt. Verulegar vegaskemmdir urðu víða annars staðar á landinu, einkum þó sunnan lands og vestan, en þær voru ekki að fullu kannaðar í gærkvöldi. Krýsuvíkurvegur og Grafningsvegur lokuðust vegna skemmda og á nokkrum stöðum rann úr Þingvallavegi. Að bæjunum Laxnesi og Lundi í Mosfellsdal voru brýr taldar í hættu. Í Mosfellssveit komst vatn inn í kjallara eins húss a.m.k. og í Hvalfirði hrundi á veginn. Í Kópavogi flæddi yfir veginn og brúna í Fífuhvammi innan við gryfjur. Í gærkvöldi var fólk varað við að ferðast um Ólafsfjarðarmúla. Auk hvassviðris og rigningar var þar grjóthrun og talin hætta á snjóflóðum.
Morgunblaðið segir enn af vatnavöxtum 6.febrúar:
Enn er ekki ljóst hversu mikið tjón hefur hlotist af vatnavöxtunum á Suður og Vesturlandi í fyrrinótt og í gær. Vitað er að nokkrar brýr hefur tekið af og aðrar eru skemmdar og víða mun taka nokkurn tíma að gera við vegi, sem runnið hefur úr. Vatnavextirnir nú eru þeir mestu, sem orðið hafa á Elliðaáasvæðinu frá því 1968 og sem dæmi má nefna að rennsli á Elliðaá fimmtugfaldaðast frá því sem venjulega er. Um tíma í gær var rennslið í ánni um 200 rúmmetrar á sekúndu og er víst að rennslið í fyrrinótt var mun meira, þegar vatnsgangurinn var í hámarki. Venjulegt vetrarrennsli Elliðaáa er 45 rúmmetrar á sekúndu. Síðari hluta dags í gær voru hesthús í Víðidal enn umflotin vatni. Því var ekki vitað hve mikið tjón hefur orðið þar, en hætta er á að hey hafi skemmst nokkuð. Ekki er talin hætta á að vatnsból Reykjavíkur hafi spillst í þessum vatnavöxtum en sýni af vatninu voru tekin í gær. Í flóðunum 1968 spilltust sum vatnsbólin.
Ég rétt náði að koma bílnum hérna yfir um áttaleytið í gær kvöldi. Þá streymdi vatn hér yfir allt og komst ég við illan leik yfir. Þegar ég var kominn yfir brúna þreif straumurinn bílinn, lyfti honum og flutti hann niður af veginum. Það gekk vatn og klaki yfir allt og vatnið inni í bílnum náði mér í hné. Mér tókst þó að koma bílnum upp á veginn aftur og komast til bæjarins, það var engin leið að snúa við eftir að lagt var í ána. Það er Þórarinn Jónasson sem býr að Laxnesi sem sagði hér frá, en vegurinn báðum megin við brúna heim að bænum fór í sundur stuttu eftir þessa ævintýralegu ferð hans. Þórarinn sagði að menn hefðu allt eins búist við að brúin færi alveg en þau urðu örlög brúarinnar við næsta bæ, Lund, og voru leifar brúarinnar hvergi sjáanlegar er Morgunblaðsmenn fóru þar um í gær. Víða mátti sjá verksummerki eftir allt það vatn sem streymdi yfir vegi og vegleysur í fyrrakvöld. Stórir klakar, spýtnarusl og ýmislegt annað lauslegt lá úti um öll tún. Á einum stað mátti meira að segja sjá gamalt bátsflak, sem legið hafði lengi við Nátthagavatn, liggja eftir langt ferðalag í túnfæti hjá einum sumarbústaðanna skammt frá Geirlandi. Það er ótrúlegt hvað orðið getur úr þessari sprænu sem maður getur venjulega gengið yfir, sagði Ólafur Sigurjónsson á Geirlandi. Á túninu hérna voru endur og álftir farnar að æfa sundtökin, sagði Hörður Sverrisson á Gunnarshólma, en þar var túnið allt undir vatni á tímabili. Skemmdir hafa orðið töluverðar á vegum að sögn Vegagerðarinnar og unnið við lagfæringar víða í gær. Búist var við að flestir vegir verði komnir í lag í dag nema Grafningurinn.
Mikil skriðuföll urðu í Ólafsvíkurenni í fyrrakvöld og fyrrinótt og féllu aurskriður á að minnsta kosti fimm stöðum. Stærsta skriðan féll niður á veginn og fram í sjó, í svonefndum Dauðsmannsskriðum og er þetta stærsta skriða sem fallið hefur úr Ólafsvíkurenni síðan vegurinn var lagður þar. Starfsmenn Vegagerðarinnar á Snæfellsnesi hófust handa strax í gærmorgun við að opna veginn fyrir Ólafsvíkurenni á ný og um hádegisbil í gær hafði það tekist. Þegar Morgunblaðsmenn hittu þá Hjörleif Sigurðsson, vegavinnuverkstjóra, og verkfræðingana Auðunn Hálfdánarson og Bjarna Jóhannsson í Ólafsvíkurenni í gær, sögðust þeir ekki muna eftir þvílíkum skriðuföllum úr Enninu. Töldu þeir að 2025 þúsund rúmmetrar af urð og aur hefði borist niður fjallið úr Dauðsmannsskriðum í stóru skriðunni. Fyrir 12 árum féll skriða á svipuðum stað og var talið að hún hefði flutt um 15 þúsund rúmmetra niður fjallið. Í gær tókst að opna veginn fyrir Ólafsvíkurenni þannig að ein akrein var opin, og áttu vegagerðarmennirnir ekki von á að fullnaðarviðgerð lyki fyrr en eftir helgi. Sífellt hrynur úr Ólafsvíkurenni og oft þarf hefill að fara eftir veginum á morgnana til þess að hreinsa það sem fallið hefur sólarhringinn á undan. Sökum hættunnar, sem er af grjóthruninu úr fjallinu, er nú rætt um að færa veginn og þá niður í fjöru, en óvíst er hvenær af þeirri framkvæmd getur orðið.
Þann 8.febrúar nálgaðist sérlega djúp lægð. Þótt tölvuspár þessara tíma væru harla laklegar á síðari tíma mælikvarða var mesta furða hversu vel þær náðu dýpi og útbreiðslu þessarar lægðar, enda var hún sérlega fyrirferðarmikil. Ekki var þó um margra daga fyrirvara að ræða. Ljóst var að loftþrýstingur myndi fara óvenjuneðarlega og gerðu fjölmiðlar nokkuð úr. Veðrið sem fylgdi þótti síðan ekki alveg í samræmi við það sem einhvern veginn var búist við - en nógu slæmt samt. Lægsti þrýstingur sem mældist í veðrinu var 936,8 hPa, sá lægsti á landinu síðan 12. janúar 1942, eða í meir en 40 ár. Næstu árin áttu eftir að koma fleiri ámóta djúpar lægðir að landinu. Urðu þarna þáttaskil?
Mikill austanstrengur var á undan lægðinni, en að baki hans mun skaplegra veður á stóru svæði nærri lægðarmiðjunni, en hún fór til norðurs um landið vestanvert og grynntist. Að baki lægðarmiðjunnar tók við nokkuð hvöss suðvestan- og vestanátt.
Kortið sýnir lægðina þegar hún var hvað dýpst, síðdegis mánudaginn 8.febrúar. Þá var austanstrengurinn kominn norður fyrir land (gætti enn á Vestfjörðum), en suðvestanáttin harða enn ekki skollin á. Tjón varð nokkuð. Lítum fyrst á frásögn Tímans 9.febrúar:
Reykvíkingar og Hafnfirðingar virðast hafa lent í hvað mestum erfiðleikum í óveðrinu sem skall á í fyrrinótt [aðfaranótt 8.]. Viða sunnanlands gerði þó aftakaveður, en ekki þannig að lögreglan þyrfti að aðstoða vegfarendur í stórum stíl eins og þurfti í Reykjavik og Hafnarfirði. Frá Selfossi fengust þær fréttir að verst hefði veðrið verið í gærmorgun.en fljótlega eftir hádegið hefði það gengið niður. Eins var það á Akranesi þar var veður mjög slæmt á milli 9 og 12, en þá snjóaði svo að ekki sást út úr augum og einnig skóf talsvert. Þar þurfti lögreglan að aðstoða nokkra ökumenn sem voru búnir að festa bifreiðar sinar. Í Grindavik gerði ofsaveður milli 9 og 11 í gærmorgun, en ófærð varð ekki teljandi. Í Vestmannaeyjum fór vindhraðinn i 70 hnúta, eða næstum 12 vindstig, þegar verst var i gærmorgun. Eins og viðast annars staðar á Suður og Vesturlandi var veðrið verst milli 9 og 11, en gekk niður um hádegi.
Hjá Vegagerðinni á Höfn í Hornafirði fengust þær upplýsingar að framan af degi hefði gengið yfir austanhríð og hvassviðri. Veður gekk niður um miðjan dag og voru vegir í Austur-Skaftafellsýslu ágætlega færir. Brjálað að gera segir lögreglan í Hafnarfirði. Það voru næstum allir fólksbílar í vandræðum i morgun, meira að segja voru einstaka jeppar fastir á við og dreif um bæinn, sagði Ólafur Emilsson varðstjóri hjá lögreglunni í Hafnarfirði þegar blaðamaður Tímans hitti hann á lögreglustöðinni í Hafnarfirði um hádegisbilið í gær. Það er vist óhætt að segja að það hafi verið brjálað að gera hjá okkur við höfum stöðugt verið að aðstoða fólk frá því klukkan átta og enn er ekkert lát á því að beðið sé um hjálp. Hvar er ófærðin mest? Hún var mest á Arnarneshæðinni, einu bílarnir sem komust þar yfir næstum klakklaust voru strætisvagnarnir. Enda ekki furða því margir bílar eru svo illa búnir til vetraraksturs að það verður að teljast óforsvaranlegt að fara út í svona færð. En færðin suður úr? Við fengum boð um það frá vegagerðinni að loka Keflavíkurveginum, við Krísuvikurafleggjarann í morgun en vegna anna hér innanbæjar komst enginn til þess. En ég held að fyrst við gátum ekki gert það strax sé það óþarfi því færðin hefur mjög skánað.
Það er búið að vera vitlaust veður i allan dag, öskubylur, en orðið ágætt nú undir kvöldið, sagði Rafn Þórðarson, hafnarstjóri í Ólafsvik í samtali um kvöldmatarleytið i
gærkvöldi. Mikil flóðhæð var um það leyti. Gaf yfir uppfyllingargarð sem unnið var við i haust. Taldi Rafn nokkrar skemmdir þegar hafa orðið á garðinum og óttast var að hann færi verr nú undir morguninn, því þá var reiknað með 45 cm meiri flóðhæð en í gærkvöldi, samkvæmt almanakinu. Lægðin getur síðan bætt ennþá við þá hæð. ...
Morgunblaðið segir einnig frá 9.febrúar:
Snemma í gærmorgun var fært um flesta vegi á Suðurlandsundirlendinu, en í óveðrinu, sem skall á og var gengið yfir að mestu um og eftir hádegi, lokuðust festir vegir frá Reykjavík um tíma. Þær upplýsingar fengust síðan hjá vegagerðinni undir kvöldið í gær að ágæt færð væri á vegum í nágrenni Reykjavíkur og að fært væri um Hellisheiði og Þrengsli allt austur á land, á Austfirði.
Fimmtíu og eins árs Borgnesingur, ... lést er flutningabíll fauk út af veginum á Kjalarnesi um hádegisbilið í gær. Hann lætur eftir sig konu og fimm börn. [Hann] var farþegi í bílnum, en ökumaður hans slapp litt meiddur. Rannsóknarlögreglan í Hafnarfirði tjáði Morgunblaðinu að mjög hvasst hefði verið á þessum slóðum er slysið varð. Væri talið að bíllinn, sem var á leið til Reykjavíkur, hefði fokið útaf veginum, en slysið var rétt við Vallá, skammt innan Sjávarhóla. Valt bíllinn á hliðina og klemmdist farþeginn undir honum. Tók nokkra stund að fá kranabíl og ná manninum undan og lést hann af völdum áverkanna skömmu síðar.
Þetta tjón varð í austanstrengnum, en síðan tók há sjávarstaða og suðvestanáttin við. Morgunblaðið segir frá 10.febrúar:
Það hækkaði í sjó um fimm metra frá stórstraumsfjöru í stórstreymisflóð í Reykjavíkurhöfn í gærmorgun og voru bryggjur við það að fara í kaf, þó hvergi hafi slíkt gerst. Niðurföll í Pósthússtræti og Austurstræti, en þar er lægsti punktur í borginni, fylltust af sjó, sem upp úr þeim streymdi, og lá ökkladjúpur sjór á götunum í tæpan klukkutíma. Í samtali við Morgunblaðið sagði Bjarki Elíasson yfirlögregluþjónn, að honum væri ekki kunnugt um neinar skemmdir sem orðið hefðu vegna flóðsins. Sagði hann, að það hefði verið órólegt í höfninni um háflæði en ekkert alvarlegt gerst. Flóðið varð þess valdandi, að í stað þess að vatn streymdi úr Tjörninni, streymdi sjór í hana og hækkaði yfirborð Tjarnarinnar töluvert, þó ekki hefði flætt upp úr. Sjór flæddi lítillega inn í kjallara húsa við Pósthússtræti, en dælur sáu um að ekki hlytist tjón af.
Þrír bílar skemmdust nokkuð þar sem þeir stóðu um 50 metra frá landi hjá Eyrarbryggju í Grindavík, þegar flæddi þar sem mest um sjöleytið í gærmorgun. Þrjár trillur, sem voru við fjöruborðið, fóru á flot í stærstu fyllingunum en engin þeirra skemmdist. Grjót kvarnaðist nokkuð úr varnargörðum og sjór var um einn til tveggja metra djúpur ofan á bryggjuplaninu þegar flóðið stóð sem hæst. Enginn bátur skemmdist, enda voru þeir vel bundnir og vakt var um borð frá fimm um nóttina og þar til flóðinu slotaði. Í stærstu fyllingum, en þær myndast þegar öldurnar berast svo hratt að landi að þær komast ekki út, heldur hlaðast upp og skella inn, náði sjórinn um 50 til 100 metra upp í land. Á Eyrarbakka urðu einhverjar skemmdir á varnargarði og ekki annað, en á Stokkseyri gekk sjór mikið á land austan við þorpið og fyllti svokallaðan Gaulverjabæjarveg sem liggur austur með ströndinni, af grjóti svo hann varð ófær um tíma. Í Sandgerði skemmdist ekkert að sögn hafnarstjóra þar. Í Keflavík urðu engar skemmdir vegna flóðsins og heldur ekki í Vestmannaeyjum, en þar var mikið brim.
Eyrarbakka, 9. febrúar. Mikill sjógangur var hér í morgun og gekk sjór víða upp að sjóvarnargörðum og rann víða upp á aðalgötu þorpsins. Ekki urðu þó teljandi skemmdir framan við þorpið, enda megnið af sjóvarnargörðunum þar endurbyggðir fyrir fáum árum vegna flóða, sem þá urðu. Gömlu garðarnir létu hins vegar nokkuð á sjá, þar sem endurbygging hefur enn ekki farið fram. Við höfnina rauf brimið skarð í varnargarð vestan bryggjunnar. Geysimikill sandur hefur borist á land í þessu brimi og veruleg hætta á glerskemmdum í húsum á sjávarkambinum ef hafáttir verða stöðugar í vetur. Enn er hér mikið brim og flóðið í fyrramálið verður álíka hátt og í morgun, en ræðst þó af stöðu loftþrýstings hvort áframhald verður á þessum sjávarágangi. Óskar
Vægt kuldakast gerði í nokkra daga eftir þetta, en síðan hlýnaði aftur og umhleypingar héldu áfram, ekki þó mjög stórgerðir.
Morgunblaðið segir af lokum Skeiðarárhlaups 14.febrúar:
Ellefta febrúar frá Þórleifi Ólafssyni blaðamanni Morgunblaðsins við Skeiðará. Skeiðará minnkaði um helming í nótt, og er nú ljóst, að hlaupinu er að ljúka. Mest mældist rennslið í ánni 2040 rúmmetrar á sekúndu, en í hlaupinu 1976 fór rennslið í yfir 4000 rúmmetra og 1972 í yfir 6000 rúmmetra á sek. Þeir Sigurjón Rist vatnamælingamaður og Ragnar Stefánsson, bóndi í Skaftafelli, eru sammála um að þetta sé eitt hið minnsta hlaup sem komið hafi úr Grímsvötnum. Að vísu er mjög líklegt að svipuð hlaup hafi komið fyrr á öldum, en annálar virðast aðeins segja frá stórhlaupum. Þótt hlaupið hafi ekki verið meira en raun ber vitni, þá náði áin að skemma fjóra straumgarða, og fór til dæmis yfir 50 metra kafli úr einum og þurfa þeir því viðgerðar við.
Þann 16. lenti bifreið í snjóflóði í Patreksfirði. Morgunblaðið segir frá 18.febrúar:
Við vorum komnir í neðsta sneiðinginn, sem er að vestanverðu í Kleifarheiðinni, snjóflóðið kom þarna eins og hendi væri veifað og gátum við ekkert að gert. Eðlilega brá okkur mikið, og sennilega brá okkur mest, þegar við sáum hvað hefði getað gerst. Bifreiðin stöðvaðist á vegarbrúninni og frá henni niður á jafnsléttu eru 250 metrar og bíllinn hefði hvergi stöðvast, hefði hann farið fram af, sagði Guðjón Guðmundsson, lögregluþjónn á Patreksfirði, í samtali við Morgunhlaðið í gær. Í fyrradag fór Guðjón ásamt Þorsteini Sigurðssyni lögregluþjóni inn á Barðaströnd til að sækja tvo sjúklinga. Að sögn Guðjóns gekk ferðin þangað vel, en þeir veittu þó snjóhengjum í Sneiðingunum athygli. Á leiðinni til baka gekk einnig allt vel, þar til að snjóflóðið skall á bílnum. ...
Hlákan olli töluverðum vatnavöxtum. Morgunblaðið segir frá 19.febrúar:
Skriðuföll og talsverðar skemmdir urðu í fyrradag [17.] í Hvalfirði vegna vatnavaxta í fjöllum. Mest urðu skriðuröll þá á veginum við Ólafsvíkurenni, og lokaðist vegurinn þar alveg. Víða annars staðar tepptust vegir vegna skriðufalla og skörð mynduðust í vegi, en Vegagerðin hefur unnið að lagfæringum og er færð nú góð víðast hvar á landinu. Útnesvegur milli Hellissands og Búða var þó enn lokaður í gær. Í samtali við Morgunblaðið sagði Ásgeir Þór Ólafsson hjá Rafmagnsveitu Ríkisins í Stykkishólmi að brotnað hefði tvístæða í 60 kw háspennulínu milli Vegamóta og Stykkishólms. Það var strax farið til þess að lagfæra þetta og gripið til rafmagnsskömmtunar frá dieselstöðinni sem við höfum hérna, en síðan varð háspennubilun hér innanbæjar sem kom í veg fyrir frekari skömmtun." Rafmagnslaust var því að mestu leyti þar frá hádegi til 7 í fyrrakvöld og að hluta eftir það til miðnættis. Í gærmorgun urðu auk þess smátruflanir, en lagfæringum lauk um 11 leytið í gærmorgun. Þessar bilanir voru þær einu sem urðu hjá Rafmagnsveitum Ríkisins á Vesturlandi að sögn Ásgeirs.
Mars var almennt hagstæður, þó snjór væri nokkur framan af fyrir norðan. Ekki voru mikil tíðindi af veðri.
Morgunblaðið segir frá 5.mars, ekki er ótrúlegt að þetta hafi átt sér stað fyrir mánaðamótin:
Í blotanum á dögunum ruddi Grímsá í Borgarfirði sig og var vatnsflaumurinn mestur fyrir neðan Hest í Andakíl. Þegar vatnið var mest á veginum mældist það 1,5 til 2 metrar á dýpt. Áin bar með sér stór jakastykki, sem sátu eftir þegar sjatnaði í ánni.
Kröpp lægð fór norður með Vesturlandi 5. og 6. og síðan kom önnur djúp lægð inn á Grænlandshaf. Var ýmist sunnanátt með blota eða suðvestanátt og éljagangur. Morgunblaðið segir frá 12.mars:
Ólafsvík, 10. mars. Undanfarna þrjá daga hefur gengið hér á með snjóéljum og hefur kyngt niður miklum snjó. Heyrði ég í dag sagt eftir Þorgils Þorgilssyni i Hrísum, sem er landskunnur fyrir veðurdagbækur sínar, að jafnfallinn snjór væri um 40 sm og hefði ekki legið þykkari jafnfallinn snjór á jörðu hér síðan 1951.
Morgunblaðið segir fréttir af góðri tíð 23.mars:
Hnausum, 23. mars. Hér er auð jörð, svo vart sér í snjó. Veturinn hefur farið vel með okkur, en þó finnst mér hann hafa verið langur, en hann byrjaði snemma eða um miðjan september eftir eitt stysta sumar á öldinni.
Í rigningunum á þorra [fyrir miðjan febrúar] brotnaði skarð í varnargarðinn við Kúðafljót, en fljótlega var gert við það. Þessi garður er alltof veikur og er hluti sveitarinnar í hættu ef ekkert verður að gert. Í rigningunum nú undanfarið hafa vegirnir oft á tíðum verið ömurlegir. Fyrir 1015 árum hefði ekki þótt trúverðugur spámaður sem hefði sagt þetta fyrir.
Þann 25. fórst flutningaskipið Suðurland norður af Færeyjum. Tíu skipverjum bjargað, en einn fórst.
Djúp og kröpp lægð fór norðaustur um Grænlandssund þann 23. og aðfaranótt 24. Henni fylgdi mikið suðvestanhvassviðri á Vestfjörðum. DV segir frá 26.mars:
Mikið óveður gekk yfir Flateyri við Önundarfjörð aðfaranótt miðvikudagsins [24.] og urðu þar töluverðar skemmdir. Skíðaskáli Skíðafélagsins á Flateyri, sem var i Hjarðardal, fauk um 150 metra leið og gjöreyðilagðist. Þá fauk helmingur skreiðarhjalla kaupfélagsins um koll og urðu þar einnig nokkrar skemmdir. -ÞT, Flateyri
Slæmt hret gerði í lok apríl, en fram til þess tíma hafði tíð verið mjög hagstæð. Morgunblaðið segir frá 25.apríl:
Ef engin meiriháttar breyting verður á veðurfari, má telja öruggt að tún komi víðast vel undan vetri, og hér á Suðurlandi líklega mjög vel. Eins er líklegt að gróður taki yfirleitt snemma við sér, ef ekki koma áföll, sagði Jónas Jónsson búnaðarmálastjóri, er Morgunblaðið innti hann eftir hvernig tún kæmu undan vetri að þessu sinni og hvernig horfurnar væru hjá bændum í vor. Þessi vetur lagðist fremur snemma að, hann hófst víðast í byrjun október og var harður framan af. Nú var sl. sumar ákaflega erfitt og voru horfurnar á tímabili óneitanlega nokkuð ískyggilegar. En upp úr áramótum gerði hins vegar betri tíð, sem hefur haldist nokkuð óslitið. Það hefur þannig ræst mikið úr þessu og nú er almennt nokkuð gott hljóð í bændum. Það sem er mikilvægast, er að á landinu í heild hafa ekki orðið svellalög. Það hafa að vísu verið nokkuð miklir snjóar í sumum landshlutum, en þá hefur tekið upp jafnt og þétt. Þannig ættu að vera góðar horfur með sprettu víðast hvar, ef ekki bregður til hins verra með tíðarfarið. Sauðburður byrjar víðast þegar vika er liðin af maí og eru ágætar horfur með hann víðast á landinu, ef þetta góða tíðarfar helst."
Ísspöng er nú komin að Grímsey og truflar hún siglingar báta við eyjuna. Hefur verið strengdur vír fyrir hafnarmynnið, en spöngin er löng og mjó og hefur rekið að vestan upp að eynni. Vestanátt var við eyna í gær.
Tíð var köld í maí. Sérlega kalt hret gekk yfir fyrstu daga mánaðarins og þótt heldur skánaði eftir það náði tíð sér samt ekki vel á strik. Mánuðurinn í heild hlaut samt ekki slæma dóma.
Kortið sýnir stöðuna köldu, að morgni 3.maí. Litir sýna þykktina en hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Þetta eru köldustu maídagar í háloftaathugunum yfir Keflavíkurflugvelli, í öllum flötum frá 850 hPa og upp í 400 hPa. Keppa við ekki ósvipaða daga í maí 1979. Frostið fór í -16,0 stig í Möðrudal aðfaranótt 5.maí.
Morgunblaðið segir frá 4.maí:
Norðanáttin, sem gengið hefur yfir landið með miklum kuldum miðað við árstíma mun halda áfram að blása í einhverja daga í viðbót. Á Norður- og Austurlandi hefur gengið á með éljum um helgina þar sem landið er opið fyrir hafáttinni, en bjart hefur verið sunnanlands. Í Reykjavík hefur hitinn lægst mælst mínus sex gráður og 1. og 2. maí en frá 1956 hefur slíkt gerst þrisvar sinnum á þessum árstíma. Á Akureyri komst hitinn í mínus sjö gráður 3. maí en frá 1965 hefur hitinn á Akureyri einu sinni farið niður í mínus 10 stig á þessum árstíma.
Morgunblaðið hafði samband við nokkra fréttaritara sína á Norður- og Austurlandi í gær og bað þá um að segja dálítið frá veðrinu þar.
[Akureyri] Menn hér um slóðir eru að vísu við því búnir á hverju vori að kuldaköst komi og illviðriskaflar enda eru þeim gefin ýmis nöfn svo sem páskahret, sumarmálarumba, hrafnagusa eða kaupfélagshundahret. Hinu eru menn óvanir að jafnillvíg óveður með hríðum og frosti dögum saman hrelli gróður, dýr og menn þegar þessi tími árs er kominn. Um miðjan apríl meðan allt lék í lyndi, jörð var orðin auð á láglendi, komin þíð undan vetrarfönn tók einstakan draumspakan og forvitran mann að dreyma stóra hvíta fjárhópa eða laust hey, sem þakti jörðina langt upp eftir fjöllum svo að illan grun setti þá að ýmsum. Sá grunur hefur nú reynst réttur. Vegir í nágrenninu eru ýmsir illfærir og sumir ófærir vegna snjóa og mikil hálka er á götum bæjarins. Flestir bíleigendur höfðu skipt um hjólbarða og voru komnir á sumardekk fyrir nokkru, enda ekki annað sýnna um sumarmál en það væri óhætt, vorið virtist vera komið eða í næstu nánd. Menn undirbjuggu komu sumarsins með ýmsu móti, tóku til í görðum sínum, sáðu til gulróta og annars grænmetis og voru hinir bjartsýnustu. Tré voru tekin að laufga og grasið að skjóta nál úr mold. En svo skipti um. Grænkandi jörð gallfraus og síðan lagðist snjórinn yfir. Farfuglar bera sig aumlega. Lóur koma heim að eldhúsdyrum, hrossagaukar kúra undir runnum og þrestir hópast saman á hlemmum yfir holræsum, sem afrennslisvatn hitaveitunnar heldur þíðum. Þar eru kettir hins vegar sjaldan langt undan, hrekkjóttir, lævísir og blóðþyrstir. Þessa stundina er að sjá í svartan hríðarvegg þegar litið er út um gluggann eins og á þorradegi væri en ekki á maímorgni. Sv.P.
Sauðárkrókur: Snjó hefur dregið í skafla en engin ófærð er á götum ennþá. Það gengur í dag yfir með dimmum éljum en birtir á milli. Það er eins og á haustdegi, hvasst og talsverður snjór. Þetta þykir mjög óvenjulegt veður hér á þessum árstíma og að það skuli standa svona lengi. Það er fjögurra til fimm gráðu frost. Gróður er almennt ekki enn farinn að taka við sér eftir vetrardvalann, sem betur fer. Það er aðeins í görðum sem gras er eitthvað farið að grænka eftir mjög góðan aprílmánuð. Kári.
Húsavík: Eftir dágott tíðarfar og ríkjandi suðvestanátt sl. vikur bar til norðanáttar og snjókomu á fimmtudag og hefur síðan verið svokallað vetrarveður. Samgöngur hafa farið úr
skorðum og fallið hafa niður flugferðir í þrjá daga. Dregið hefur í skafla víða í bænum svo ýtur hafa verið að verki eins og um hávetur. Með þessum frostakafla er snjórinn ekki til ills heldur til hlífðar gróðurlendi, sem víða var að koma ófrosið undan fönn á þessu vori. Farfuglarnir voru farnir að láta sjá sig, og er þetta hret þeim mjög óhagstætt.
Fréttaritari
Egilsstaðir: Þegar fólk vaknaði á sunnudagsmorgun var komin kafaldshríð svo vart sá milli húsa og götur orðnar ófærar vegna fannfergis. Samkomuhald féll niður m.a. varð messufall. Upp úr hádegi létti ögn til en síðan gekk á með snjóbylgjum fram eftir hádegi. Menn muna ekki slíkt fannfergi hér á þessum tíma árs. Í dag er veður bjart en eins til tveggja stiga frost. Götur í þorpinu hafa verið ruddar svo og flugvöllurinn og nú er verið að ryðja þjóðveginn á Fagradal. Veður hefur verið óvenju um hleypingasamt hér í vetur. Eftir páska kom hins vegar góður hlýindakafli og voru menn farnir að trúa því að nú væri vorið loksins komið og teknir til við vorverk í görðum er þessi ósköp dundu yfir. Fréttaritari
Neskaupstaður: Þetta kuldakast kemur sér afar illa. Eftir að búið var að vera gott veður síðustu tvo mánuði, þar sem hitinn hafði farið upp í 18 stig, eru þetta hroðaleg viðbrigði. Skyndilega skall á norðanátt og nú hefur snjóað mikið en snjórinn er nokkuð til hlífðar viðkvæmum gróðri. Það fylgir þessu ekki mikið frost hér í Neskaupstað, svona tvö til þrjú stig á daginn en meira á nóttunni. Einhverjir voru byrjaðir að setja niður kartöflur í heimagörðum og kemur veðrið því fólki mjög illa. Þessa stundina er ófært yfir Oddsskarð en í dag er dumbungsveður og gengur á með éljum. Fuglar eiga í vandræðum og hafa lítið til ætis og er afar hart í búi hjá þeim. Ásgeir
Fáskrúðsfjörður: Hér hefur verið vetrarveður frá því seinnipart síðustu viku. Snjór liggur yfir jörðu og frostið hefur komist upp í átta stig. Menn eru óhressir yfir að fá yfir sig vetur svona allt í einu eftir hálfs mánaðar gott veður. Tré voru farin að laufgast svo eitthvað verða þau illa úti í þessu veðri. Núna er norðankaldi, gekk á með éljum í morgun. Vegir hafa verið ruddir svo nú er ágætis færð á vegum. Héðan er fært til Egilsstaða og suður með. Menn eru svo sem ekkert óvanir svona kuldakafla á þessum tíma ársins en finnst hann standa heldur lengur yfir í þetta sinnið. Albert
Skagafjörður: Bæ 3. maí. Eftir mjög góða tíð, svo góða að tún voru farin að grænka, skipti um hinn 29. fyrra mánaðar. Nú er stórhríð á hverjum degi. Vötn voru orðin auð og silungur var farinn að aflast. Nú eru öll vötn frosin á ný og má segja að nú ríki vetur á ný. Snjór er að vísu ekki mjög mikill, en hann hefur dregið í mikla skafla.
Siglufjörður: 3. maí. Mikið hefur snjóað í Siglufirði síðustu daga. Vegagerðarmenn segja að snjórinn á veginum milli Siglufjarðar og Skagafjarðar sé sá mesti sem komið hefur í vetur. Hér í bænum er nú einnig töluverður snjór og vetrarríki mikið. Aflabrögð hafa verið frekar léleg að undanförnu, en nú hefur frést af góðum grálúðuafla togara nálægt miðlínu milli Grænlands og Íslands.
Morgunblaðið segir enn hretfréttir 9.maí:
Talsvert hefur drepist af farfuglum, sem komnir voru til landsins, í hretinu síðustu daga, að því er Ævar Petersen hjá Náttúrufræðistofnuninni sagði í samtali við Morgunblaðið í gær. Ekki sagði hann þó vitað í hve miklum mæli fuglar hefðu orðið að láta í minni pokann fyrir harðindunum, en það væru helst lóur og aðrar tegundir sem lifðu á skordýrum. Þeir er lifa á jurtafæðu hefðu betri möguleika á að lifa af, sagði Ævar. Lóurnar hafa átt erfitt að undanförnu, og sagði Ævar að komið hefði verið með fugla til hans, ýmist dauða eða nær dauða en lífi, og hefðu þeir oft vegið minna en helming þess sem eðlilegt væri á þessum árstíma, svo mjög hefði verið af þeim dregið. Um varp fugla sagði Ævar lítið vitað enn, en hætt væri þó við að varp hjá þeim er búnir voru að verpa fyrir harðindin, hefði gengið illa. Þegar væri vitað um að varp hrafna hefði misfarist í nokkrum mæli, en minna væri vitað um aðrar tegundir sem verpa snemma, svo sem skarf, fálka og haförn. Það fer mest eftir því hvort þeir eru búnir að verpa og teknir að liggja á hvernig fer," sagði Ævar, séu þeir aðeins byrjaðir að leggja í hreiðrin en ekki teknir að liggja á, getur illa farið. Ernir og fálkar fara þó að liggja á áður en fullorpið er, svo þeir ættu að hafa bjargast. Hrafninn sagði hann geta orpið aftur þó misfærist í fyrsta sinn, og aðrar tegundir eins og skógarþrestir, sem vitað var að byrjaðir voru fyrir 10. apríl í vor, koma oft upp þremur ungahópum sama sumarið.
Leiðindaveður var á landinu um hvítasunnuhelgina í lok mánaðarins, norðaustanátt og kalsarigning. Morgunblaðið segir frá 30.maí:
Ferðamannastraumurinn sunnanlands um hvítasunnuhelgina hefur aðallega legið til Borgarfjarðar og í Húsafell og aðfaranótt laugardagsins voru um 1.200 manns í tjöldum í Húsafelli. Vegna aðstöðuleysis hefur svæðinu nú verið lokað, en ekki voru þar teljandi ólæti eða óhöpp þrátt fyrir talsverða ölvun. Að sögn Veðurstofunnar viðrar illa fyrir útivist um helgina, kalt um allt land og snjókoma og frost víða austanlands. Að sögn lögreglunnar í Borgarnesi, sem var með gæslu í Húsafelli, var nokkuð um ölvun, en ólæti ekki teljandi, þó voru 7 teknir grunaðir um ölvun við akstur. Kristleifur Þorsteinsson, hreppstjóri í Húsafelli, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær, að hann teldi að um 1.200 manns hefðu verið í tjöldum við Húsafell aðfaranótt laugardagsins og vegna þess að ekki væri hreinlætis- eða þjónustuaðstaða fyrir fleiri, hefði hann nú lokað tjaldsvæðinu. Hann sagði einnig að talsvert hefði verið um ölvun, en ekki borið mikið á ólátum. Svalt væri í veðri og ekki væri ráðlegt fyrir fólk að fara í útilegur nú, nema það væri sérlega vel til þess búið. Á Veðurstofunni fengust þær upplýsingar að nú væri alls staðar kalt á landinu og illa viðraði til útilegu. Norðanlands og austan hefði hitastig í gær verið í kringum frostmarkið, víðast hvar slydduhríð og á nokkrum stöðum hefði snjó fest og væri nú vetrarveður á þessum slóðum. Í Æðey hefði jörð verið flekkótt og víða austur um landið. Á Kambanesi var í gær frost og 11 sentímetra snjódýpt og á Dalatanga var snjódýptin 4 sentímetrar. Upp til fjalla var enn kaldara og meiri snjódýpt. Sunnanlands var heldur hlýrra og í Reykjavík og á Hellu var hitinn klukkan 9 í gærmorgun 7 stig og 5 á Síðumúla. Búist var við því að áframhaldandi austanátt yrði um hvítasunnuhelgina en heldur hlýnaði í veðri.
Júní var mjög hæglátur. Sérlega þurrt var á Norðaustur- og Austurlandi og hafði ekki verið jafnþurrt í júní síðan 1958. Þar var einnig óvenjusólríkt, höfðu ekki mælst fleiri sólskinsstundir í júní áður á Akureyri og á Hallormsstað.
Júlí þótti hagstæður um landið norðanvert, en sunnanlands var óþurrkatíð.
Þann 2. varð bifreið fyrir grjóthruni á Óshlíðarvegi. Morgunblaðið segir frá 3.júlí:
Eldri lentu í bifreið sinni undir skriðu á Óshlíðarvegi um kl.14:30 í gær. Konan slasaðist mikið og var flutt á sjúkrahús í Reykjavík. Teljast má lán að ekki fór verr því bifreiðin lagðist saman og er gjörónýt. Tók það aðkomumenn nokkurn tíma að ná konunni úr flakinu. Eiginmann hennar sakaði ekki að undanskildum einhverjum skrámum, að sögn fréttaritara Morgunblaðsins í Bolungarvík, Gunnars Hallssonar, en hann kom fyrstur á slysstað í gær. ... Hjónin voru á ferð í bifreið sinni undir klettabelti rétt innan við krossinn á Hlíðinni, en vegurinn liggur þar undir snarbröttum 1520 metra háum hömrum. Maðurinn varð var við að steinar voru byrjaðir að hrynja úr hamrinum og ætlaði að reyna að bakka, en þá skall stór steinn ofan á vélarhlíf bifreiðarinnar þannig að vélin brotnaði niður og bíllinn varð ógangfær. Maðurinn fór þá út úr bifreiðinni og ætlaði að forða sér en sá þá að konan komst ekki út, hurðin hennar megin hafði skekkst er steinninn skall á vélarhlífinni. Hann sneri því við og lagðist inn í bifreiðina til að reyna að hlífa konunni, en þá rigndi yfir bílinn steinum og aur og lagðist bifreiðin alveg saman. Þegar hrinunni linnti komst hann út úr bifreiðinni á ný en um líkt leyti hófst önnur hrina, eða í sömu mund og Gunnar bar að, en hann var að koma frá Ísafirði. Fólksflutningabifreið Flugleiða kom á staðinn innan frá um sama leyti og tókst að ná talstöðvarsambandi við Bolungarvík og kalla eftir sjúkrabíl og lækni. Þá voru gerðar ráðstafanir til að ná bílum af mesta hættusvæðinu. Sjúkrabifreið og lækni frá Bolungarvík bar að um 15 til 20 mínútum síðar og hafði þá tekist að ná konunni úr bílnum. Hún var flutt rakleiðis til Ísafjarðar og þaðan eftir aðhlynningu til Reykjavíkur. Vitað var að konan var beinbrotin, bæði handleggs- og höfuðkúpubrotin. Hún var þó ekki talin í lífshættu í gærkvöldi.
Dagur segir af heyskaparhorfum 13.júlí:
Héðan er sömu sögu að segja og víða annarsstaðar af Norðurlandi. Sprettan hefur verið heldur hæg enda voru þurrkarnir svo geysilegir að tún voru sum staðar farin að brenna en nú er hann farinn að rigna og hefur gróðurinn tekið dável við sér. Það er þó vika til hálfur mánuður þar til byrjað verður að slá. Þetta sagði séra Pétur Þórarinsson prestur á Hálsi í Fnjóskadal í samtali við Dag s.l. fimmtudag." Bændur eru bjartsýnir hér þó vissulega mætti rigna meira.
Austurland ræðir einnig grassprettu og horfur 15.júlí:
Grasspretta léleg á Austurlandi. Í Norðfjarðarsveit verður byrjað að slá með allra síðasta móti, líklega ekki fyrr en eftir 20. júlí. Þetta er tveimur til þremur vikum seinna en vant er, sagði Þórður Júlíusson bóndi á Skorrastað er blaðið innti hann frétta um heyskaparhorfur. Grassprettan er afskaplega léleg og það sem veldur því eru kuldar í maí og júní og þurrkar, sagði Þórður. Þá ber einnig að geta þess, hélt Þórður Júlíusson áfram, að tún eru hér óvenju mikið kalin og líklega er hvergi á Austurlandi eins illa kalið, þó ástandið í þeim efnum sé ekki heldur gott á Úthéraði, t.d. í Hjaltastaðaþinghá. Menn líkja kalinu hér nú einna helst við kalárin umtöluðu um miðjan sjöunda áratuginn. Athyglisvert er að þau tún sem líta best út núna hér í sveitinni eru ársgamlar og tveggja ára nýræktir. Þetta er öfugt við það sem var á kalárunum, þá kólu gömlu túnin síst, en þau nýju fóru illa. Þetta kemur til með að valda bændum hér erfiðleikum, sagði Þórður að lokum, allavega munum við þurfa að skera umtalsvert niður í haust.
Hér í Vopnafirði er ennþá léleg spretta og stafar það fyrst og fremst af miklum þurrkum í júní og reyndar það sem af er júlí, sagði Sigurjón Friðriksson bóndi í Vopnafirði í viðtali við blaðamann Austurlands. Sem betur fer höfum við sloppið að mestu við kal. Að vísu vottar talsvert fyrir því, en það er hvergi stórfellt. Eins og útlitið er nú sýnist
mér þrátt fyrir allt geta orðið þokkalegur grasvöxtur hér í Vopnafirði, en líklega verður þó ekki byrjað að slá fyrr en upp úr 20. júlí, hélt Sigurjón áfram. Að mínu mati er ástæðulaust að vera óskaplega svartsýnn með heyskaparhorfur í rauninni eru heyskaparhorfur ekki verri en í fyrra og þá náðust hey sem dugðu til að gefa fé í 78 mánuði, en einsdæmi er að fé þurfi að vera svo lengi á gjöf, sagði Sigurjón bóndi í Úthlíð að lokum.
Þorsteinn Geirsson á Reyðará í Lóni tjáði tíðindamanni Austurlands að í Austur-Skaftafellssýslu hefði sprettu seinkað mjög vegna kulda og úrkomuleysis í júnímánuði. En við fengum úrkomu nú fyrir viku þannig að túnin eru fyrst nú að ná sér á strik, sagði Þorsteinn. Ekki hvað Þorsteinn neinar líkur á að sláttur hæfist almennt í sýslunni fyrr en um eða upp úr 20. júlí. Hann sagði þó líkur á að ástandið í þessum efnum væri skárra syðst í sýslunni, í Öræfum og syðst í Suðursveit. Þetta er svo sem ekkert verra en ]>að var í fyrra, hélt Þorsteinn áfram, staðreyndin er sú að þetta tímabil sem við erum nú í er kalt, þó að árið 1980 sé þar undantekning. Ekki kvað Þorsteinn vera teljandi kal í túnum í Austur-Skaftafellssýslu, enda líkur á kali þar mun minni en á Austur- og Norðausturlandi.
Grasspretta er yfirleitt léleg á Héraði og ]>að er fyrst núna að túnin eru verulega að taka við sér, sagði Magnús Sigurðsson á Úlfsstöðum á Völlum í viðtali við blaðið. Þetta er mun verra ástand en í fyrra, sagði Magnús, og því eru heyskaparhorfur ekki góðar á þessum slóðum. S.G.
Þann 21.júlí fórst flugvél í hlíðum Kistufells í Esju og með henni fjögurra manna fjölskylda og flugmaður. Súld og lágskýjað var, en vélin í blindflugsaðflugi að Reykjavíkurflugvelli.
Síðari hluta mánaðarins komu nokkrir mjög hlýir dagar austanlands og náði hámarki þann 26. þegar hiti fór í 27,0 stig á Seyðisfirði þann 26. Á fáeinum stöðvum öðrum fór hiti í 25 til 26 stig. Veðráttan segir að hlýindin hafi valdið vatnavöxtum í Eyjafirði í kringum þann 20. Morgunblaðið segir frá 22.júlí:
Eskifirði, 21. júlí. Mjög heitt er í veðri hér austanlands þessa dagana og má segja að hitabylgja gangi yfir. Hiti hefur verið þetta 16 til 20 stig á daginn, en í dag er heitasti dagurinn og hiti hefur verið 23 til 25 gráður í forsælu. Þessi mikli sumarhiti er ekki eingöngu á daginn, heldur einnig á nóttunni og sem dæmi um það má nefna að á miðnætti í gær var hitinn 19 stig. Notar fólk þessa miklu sumarblíðu til útiveru og má segja að menn komi varla í hús nema brýn nauðsyn sé á. Fréttaritari
Morgunblaðið segir af úrkomu syðra 24.júlí:
Mikil úrkoma hefur verið á Suður- og Vesturlandi undanfarna daga. Nokkrar vegaskemmdir hafa verið. M.a. þá fór sundur ræsi í Kornahlíð við Geitabergsvatn í Svínadal. Varð af þessum sökum að loka Borgarfjarðarbraut. Þá fór Svínadalsvegur í sundur við Súluá, sem er skammt neðan við Eyrarvatn. Einnig á Akrafjallsvegi fór ræsi í sundur við Galtavík. Þessar skemmdir sagði Lorens Rafn hjá Vegagerðinni, að hefðu helstar orðið. Vegir væru slæmir eftir rigningarnar frá Suðurlandi og vestur á Snæfellsnes. En verið væri að gera við þessar skemmdir, svo fólk ætti að komast leiðar sinnar óhindrað um helgina vegna skemmdanna.
Morgunblaðið segir enn af hlýindum 27.júlí:
Neskaupstaður, 26. júlí. Í dag er hér 27 stiga hiti í forsælu og alveg logn, svartur sjór og hitinn á kvöldin og næturnar undanfarið hefur verið 18 til 20 stig. Þann 14. júlí breyttist veðrið hér og snerist áttin í suðvestan og allar götur síðan þá hefur verið hér logn og miklir hitar, 20 til 27 stiga hiti. Einn dag síðan 14. júlí, fór hitinn niður í 10 til 12 stig og fannst fólki þá kalt. Í gærkvöldi fór hitinn ekki niður fyrir 18 stig. Hey eru hér rýr, en segja má að heyið þorni af ljánum. Sprettan er talin helmingi minni en í fyrra. Hins vegar eru heyin góð vegna þurrkanna. Ásgeir
Dagur segir af heyskap 27.júlí:
Heyskapurinn gæti tæplega gengið betur. Einstaka maður er búinn að heyja. Aðrir eru langt komnir og klára í þessari viku ef tíðin helst óbreytt sagði Birgir Þórðarson bóndi á Öngulstöðum í samtali við Dag í gær. Þetta er náttúrulega misjafnt eftir því hvernig menn eru liðaðir og vel búnir til heyskapar en yfirleitt held ég að menn séu búnir að slá og langt komnir að þurrka. Að sögn Birgis gætu heyin varla verið betri enda ekki mikið ýkt þó 'sagt væri að grasið þornaði á ljánum. Yfirleitt væru túnin hirt daginn eftir slátt. Hinsvegar væri sprettan misjöfn og hey yfirleitt minni en t.d. í fyrra. Kal væri einnig töluvert víða og drægi það úr heyfeng manna. Þá hefur hvassviðrið verið heldur til trafala við heyskapinn sagði Birgir að lokum. Fram til dala hafa verið skúraleiðingar öðru hvoru sem eitthvað hafa tafið heyskap en þó er óhætt að fullyrða að heyskapur hafi gengið vel víðast hvar við Eyjafjörðinn burtséð frá lélegri sprettu. Í Hörgárdal og Svarfaðardal eru flestir vel á veg komnir en á Árskógsströnd hefur spretta verið með alminnsta móti og þar eru menn skemmra komnir. Að sögn Marons Péturssonar hjá Búnaðarsambandi Skagfirðinga. Hefur heyskapartíð þar verið leiðinleg að undanförnu en sprettan væri víðast hvar í Skagafirði með sæmilegasta móti. Sláttur væri nær alls staðar hafinn og sumir vel á veg komnir. Útlitið væri því víðast bjart í heyskaparmálum. Austur í Þingeyjarsýslu er sprettan víðast hvar mun minni en venja er til en þar er heyskapur nær alls staðar kominn á fulla ferð.
Tíminn segir einnig af heyskap 28.júlí:
Það eru nú allir byrjaðir að slá hér um slóðir, en margir hafa enn ekki náð inn heyi, sagði Skúli Kristjónsson bóndi á Svignaskarði, þegar Tíminn ræddi við hann um heyskap og horfur. Það gengur akkúrat ekkert ennþá. Menn hafa auðvitað verið að reyna að heyja eitthvað í vothey, en það var bara svo blautt eftir rigningarnar og flóðin um daginn að menn voru stopp með allt. Svo var það annað verra fyrir okkur sem eigum land að Norðurá að þar gerði svo mikið flóð að þar urðu miklar skemmdir. Ég hef ekki fyrr séð svona mikil flóð í ánni á þessum árstíma. Vatnið flóði yfir mikil slægjulönd og bar með sér mikinn leir, sem skemmdi mikið. Ég var búinn að bera á þetta land fyrir um 70 þúsund krónur og það má segja að það sé hálf ónýtt, að þessum peningum hafi verið kastað undir vatn. Hér er allsstaðar mjög mikið gras og það er reyndar farið að spretta úr sér víða. En ef bregður ekki til betri tíðar núna fljótlega, þá er hér víða mjög slæmt ástand. Aftur á móti spratt fyrr hér fyrir sunnan okkur, fyrir sunnan Skarðsheiðina, og þar gátu menn byrjað eitthvað fyrr og náðu í þurrkglætu og sumir þeirra eru kannski sæmilega á veg komnir. En hér uppi í Borgarfirðinum er óverulegur heyskapur ennþá." Það má segja að menn bíði bara eftir þurrki og reyni að undirbúa sig undir að taka á móti honum, en standi eiginlega fastir og geti ekkert gert. SV
Þann 28. fór lægð til norðausturs yfir landið. Henni fylgdi óvenjumikil úrkoma suðaustanlands. Kortið sýnir stöðuna síðdegis þennan dag. Mjög hlýr og rakur sunnanstrengur er í háloftunum austan við lægðina með úrhelli á sunnanverðu landinu.
Það er óvenjulegt að úrkoma í sama veðri mælist yfir 150 mm bæði í Skaftafelli (155,0 mm) og í Kvískerjum (193,6 mm), en það gerðist að morgni þess 29.júlí. Aðeins er vitað um eitt annað slíkt tilvik og eitt að auki þar sem einum degi munar á úrhellinu. Þjóðviljinn segir frá þessu 30.júlí:
Óhemjulegt úrfelli var austur í Öræfasveit í fyrradag og fyrrinótt. Var úrkoman á Kvískerjum rúmlega 193 millimetrar yfir sólarhringinn. Slíkt hefur að vísu áður hent þar í sveit, að því er Guðrún Björnsdóttir á Kvískerjum sagði blaðinu, en heyrir þó til hreinna undantekninga. Afleiðingar þessa syndaflóðs urðu auðvitað stórfelldir vatnavextir og verulegar skemmdir á Austurvegi í Öræfum. Og þótt vinna sé þegar hafin við viðgerðir á veginum mun hann þó verða lokaður í nokkra daga, að því er starfsmenn Vegagerðarinnar tjáðu okkur. Mestu vegaskemmdirnar urðu við brúna yfir Kvíá en þar reif vatnsflaumurinn undan landstöpli. Þá er vegurinn einnig sundur bæði við Stigá og Kotá. Svínafellsá braust úr farvegi sinum og ruddi sér nýja leið vestan brúarinnar. Brúin sjálf er þó talin vera óskemmd. Einn stöpull af þremur er undan brúnni á Skaftafellsá. Viða annarsstaðar rann úr veginum og gróf frá ræsum. Sem fyrr segir er vinna hafin við viðgerðir en þótt upp hafi nú stytt er mikið vatn i ánum ennþá og sumstaðar litið hægt að aðhafast fyrr en úr þeim dregur meira. Þrátt fyrir þetta er þó fært austur í Skaftafell héðan að sunnan en ekki nema að Kvíá að austan. Vegagerðin taldi að annarsstaðar á landinu hefðu engar teljandi vegaskemmdir orðið og hún mun kosta kapps um að halda vegunum i eins góðu lagi og unnt er nú yfir þessa þriggja daga helgi, sem framundan er, eins og jafnan endranær. -mhg.
Öllu betri heyskapartíð var á Suður- og Vesturlandi í ágúst heldur en hafði verið í júlí. Einnig var tíð ekki óhagstæð nyrðra fyrr en undir lok mánaðarins að það kólnaði rækilega og gekk í kalsarigningar.
Þann 9. kom nokkuð kröpp lægð að Norðausturlandi úr suðaustri. Kortið sýnir stöðuna síðdegis þann dag. Lægðin olli allsnarpri norðan- og norðvestanátt og varð mikið úrhelli um tíma á Norðurlandi vestanverðu. Sólahringsúrkoma á Siglufirði mældist 190,5 mm að morgni þess 10. Ársmet voru sett á fleiri stöðvum (í Forsæludal, á Blönduósi í Flatey og við Skeiðsfoss) og mánaðarmet á fáeinum stöðvum öðrum (Bergstöðum í Skagafirði, Hrauni á Skaga og Mánárbakka). Úrhelli þetta olli skriðuföllum næstu daga. Morgunblaðið segir frá 12.ágúst:
Skriða féll i landi bæjarins Hvamms í Vatnsdal í A-Húnavatnssýslu á mánudagskvöldið var [9.]. Skriðan fyllti gil og læk sem rann eftir því og fór yfir tún í Hvammi. Aldrei var nein hætta á ferðum, en það var slæmt að fá grjótið yfir túnið að sögn húsfreyjunnar á Hvammi, Salóme Jónsdóttur. Unnið var að því allan daginn í gær að hreinsa túnið og afleggjarann og að gera ræsi fyrir lækinn, en hann stíflaðist og rann yfir túnið. Vegurinn lokaðist ekki, en skurður meðfram honum fylltist af grjóti og var einnig unnið að því að hreinsa hann og hefur grafa unnið í því. Að sögn Salóme var það óhemju vatnsveður á mánudaginn, sem olli skriðunni, hún myndi. ekki eftir annarri eins úrkomu á þessum árstíma í fjölda ára. Þá hefði gránað í fjöll og væru þau grá ennþá. Aðspurð um heyskap, sagði hún, að hann hefði gengið ljómandi vel. Sumir væru alveg búnir og það væri lítið eftir hjá þeim, sem eitthvað ættu eftir. Heyfengur væri sennilega heldur minni en hann var í fyrra.
Tíminn segir frá Sauðárkróki 12.ágúst:
Aðfaranótt síðasta mánudags gekk hér í norðan slagveður með óhemju miklu úrfelli og hvassviðri sem stóð í þrjú dægur. Féllu þá þrjár skriður rétt fyrir sunnan bæinn Heiði í Gönguskörðum. Ein þeirra náði veginum sem slapp þó við skemmdir, en þetta var mikið jarðrask. Má segja að allt hafi verið á floti, víða runnið úr vegum og tjarnir myndast í túnum." Framanskráð kom fram í viðtali við Guttorm Óskarsson á Sauðárkróki í gær. Fyrir þetta úrfelli sagði Guttormur hafa verið fyrirtaks heyskapartíð í þrjár vikur. Sumir hirtu þá upp, en langflestir eru langt komnir með heyskapinn, að sögn Guttorms. HEI
Annað úrkomusvæði, en þó minna en hið fyrra, fór norðvestur yfir landið þann 16. Áttin var norðaustlægari heldur en í fyrra veðrinu. Úrkoma varð víða mikil, en ekki nærri metum. Skriður héldu þó áfram að falla. Dagur segir frá 17.ágúst:
Í gærmorgun [16.] á milli kl. 7 og 8 féll aurskriða úr fjallinu Hafnarhyrnu sem stendur fyrir ofan Siglufjarðarbæ. Þetta var stór og mikil skriða sem hélt ferð sinni þar til hún var komin alveg niður í bæ. Menn gátu fylgst með skriðufallinu allt þar til það nam staðar á Suðurgötunni og var þá þar 10 metra hár bingur á götunni. Skriðan hagaði sér þannig að hún virtist nema staðar öðru hvoru, en fór svo af stað aftur. Hluti skriðunnar fór alveg. upp að nýbyggðu húsi Sigurðar Hlöðverssonar tæknifræðings. Fór skriðan að einu horni hússins, en þá virtist sem allur kraftur væri úr henni svo skemmdir urðu ekki umtalsverðar. Hinsvegar er lóð hússins full af grjóti og drullu. Undir skriðunni er hitaveitustokkur og óttast menn að skriðan kunni að hafa skemmt stokkinn þótt hann væri niðurgrafinn. Var unnið að því í gær að kanna það og veita vatni úr skriðunni í þann farveg að hitaveitustokkurinn væri ekki í meiri hættu. Skriða þessi kom úrsama gili og snjóflóð hafa oft komið úr á Siglufirði, en aurskriður sem þessi eru sem betur fer sjaldgæf fyrirbrigði á Siglufirði. S.B.
Dagur segir enn fregnir frá Siglufirði 19.ágúst:
Íbúar húsanna númer 80, 82 og 86 við Suðurgötu á Siglufirði flúðu hús sín í fyrrinótt er aurskriður féllu úr Strengjagili [svo] í Hafnarfjalli fyrir ofan bæinn. Þarna féll eins og skýrt hefur verið frá í Degi aurskriða s.l. mánudagsmorgun, og hafði verið unnið við að hreinsa aur af lóðum og götum syðst í bænum þar sem hún féll er við bættist í fyrrinótt. Ég var staddur útivið um klukkan hálf tvö er fyrsta skriðan kom, sagði Magnús Benediktsson sem býr að Suðurgötu 91 er við ræddum við hann í gær. Þetta leit ekki mjög illa út, en um klukkan þrjú fór ég út til þess að veita læk frá húsinu og þá kom síðasta gusan sem fyllti Suðurgötuna alveg og flæddi aurinn niður Laugaveg og niður í Hafnargötuna. Þetta flæddi yfir lóðir margra húsa en lóðin hjá okkur slapp vegna þess að í kring um hana er steinkantur sem varnaði því að aurinn kæmist þar inn. Nei, þetta var ekki eins mikið og á mánudagsmorguninn [16.], en í þetta skipti var aurinn miklu þynnri og flæddi þar afleiðandi út um allt. Við faðir minn heyrðum drunurnar þegar síðasta skriðan kom og þá hringdi hann strax á bæjarstarfsmenn sem brugðu skjótt við. Þeir komu á staðinn með tæki og hófu þegar að reyna að veita vatni og drullu frá húsunum. Í samtölum okkar við Siglfirðinga í gær kom fram að margir eru mjög uggandi vegna þessa ástands. Í gær var unnið að því að grafa rás í fjallið fyrir ofan byggðina og er henni ætlað að taka við fleiri aurskriðum ef þær koma og veita þeim suður fyrir bæinn. Önnur umferð um fjallið var stranglega bönnuð í gær. Skriðurnar í fyrrinótt eyðilögðu heitavatnsleiðslu sem liggur inn í bæinn. Ekki var þó talið að þær skemmdir væru alvarlegar og var unnið að viðgerð í gær. Uppi í fjallinu hafa myndast stórar sprungur og í þær hefur safnast vatn. Talin er mest hætta á að þessar sprungur fyllist alveg af vatni og vatnið og drullan ryðjist síðan niður brekkurnar í átt að bænum.
Morgunblaðið segir af óróa í Kötlu 28.ágúst:
Nokkur órói hefur verið á jarðskjálftamælum við Kötlu að undanförnu. Er óróinn nú nokkru meiri en þær árvissu hrinur sem verið hafa i Kötlu á haustin, eða um 4 stig á Richter.
Af þessu tilefni vill Almannavarnanefnd ríkisins beina því til fólks að það haldi sig nærri alfaraleið og leggi ekki leið sína um fáfarna staði. Þá eru ferðamenn og aðrir á þessum slóðum beðnir að hlusta eftir hugsanlegum tilkynningum í útvarpi. Guðjón Petersen forstjóri Almannavarna sagði, að þeir almannavarnamenn væru búnir að yfirfara öryggisráðstafanir ef til þyrfti að grípa.
Mjög kalt loft kom suður yfir landið þann 26. og varð næturfrost mjög víða næstu daga. Mánuðinum lauk þó með allhvassri suðvestanátt vegna djúprar lægðar á Grænlandahafi.
Morgunblaðið segir frá 31.ágúst:
Hér hefur verið næturfrost síðustu þrjár nætur, ekki mikið að vísu, en nóg til þess að kartöflugrös eru víðast fallin, sagði Magnús Sigurlásson oddviti og bóndi á Eyrarlandi í Þykkvabæ í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í gær, er spurst var fyrir um horfur í kartöfluuppskeru. Þetta þýðir það að uppskeran verður í tæpu meðallagi, sagði Magnús ennfremur, við hefðum þurft viku til tíu daga í viðbót, þá hefði þetta orðið gott. Sumarið hefur annars verið gott, og engin afföll orðið af stormi eða öðru. Uppskera hefst væntanlega nú næstu daga, en þó grösin séu fallin geta kartöflurnar eitthvað bætt við sig ennþá, þær fá súrefni niður um stilkinn." Þykkvibær er sem kunnugt er langstærsta kartöfluræktarhérað landsins, og er áætlað að þar komi upp úr jörðu um tveir þriðju hlutar allrar uppskeru á landinu. Magnús Sigurlásson kvaðst ekki geta spáð hve mörg tonn uppskeran yrði í haust, ekki væri hægt að segja til um það fyrr en uppskera væri hafin.
Mikil flóð hafa orðið undanfarin dægur í ánum Jökulsá á Fjöllum og Kreppu, og hafa orðið miklar skemmdir á veginum við Kreppuárbrú, sem er um 50 kílómetra frá Möðrudal á Fjöllum. Vegagerðarmenn á Austurlandi hafa unnið við að fylla upp í skarðið er Kreppa gróf við brúna, en skemmdir af þessu tagi verða oft í vatnavöxtum á þessum slóðum.
September var óvenjukaldur, en veður var þó lengst af gott.
Þetta var á árum Kröfluelda og búist var við nýju gosi mestallt árið. Morgunblaðið segir frá 7.september:
Skjálftahrina varð í Bjarnarflagi, þar sem Kísiliðjan er í gærmorgun og sagði Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur í samtali við Morgunblaðið, að hann teldi að hér væri ekki um kvikutilfærslu að ræða eins og menn þekktu hana, og kvaðst hann ekki geta sagt um hvað þarna væri á ferðinni. Sagði hann að breyting hefði orðið á skjálftavirkni að undanförnu, tvær skjálftahrinur hefðu orðið síðustu daga, önnur í gærmorgun og hin sl. fimmtudag, og væri hér um óvenjulega hegðun að ræða. Páll sagði að talsverð óregla í landrisi hefði verið á svæðinu, en erfitt væri um að segja hvað það þýddi og einnig nefndi hann að um bilanir í hallamælitækjum hefði verið að ræða. Nokkuð hratt landris hefði verið undanfarna daga, en það væri ekki mjög alvarlegt. Skjálftavirknin hefur verið mest að undanförnu í Hrossadal og enn sunnar, í Bjarnarflagi. Páll sagði að ekki væri um tilfærslu á skjálftavirkni að ræða, eins og fylgir kvikuhlaupum, heldur væri hér einangruð hrina á ferðinni. Tíu mánuðir er eitt hið lengsta sem liðið hefur á milli eldsumbrota á Kröflusvæðinu, en síðasta gos þar hófst 18. nóvember 1981, þannig að eftir tæpan hálfan mánuð verða tíu mánuðir liðnir frá síðustu eldsumbrotum. Samkvæmt upplýsingum sem Morgunblaðið fékk hjá Hirti Tryggvasyni, umsjónarmanni mælitækja á Kröflusvæðinu, hófst landris á ný þann 25. ágúst, en þá voru 5 mánuðir liðnir frá síðustu hræringum. Síðan hefur landris verið stöðugt og hefur skjálftavirkni aukist. Fyrst í stað voru flestir skjálftarnir undir stöðvarhúsinu við Kröflu og þar í grennd, en síðan síðan hefðu þeir mælst sunnar og síðast í Bjarnarflagi. Í eldsumbrotunum í fyrra gaus á 8 kílómetra langri sprungu og upp kom hraun sem þakti 17 ferkílómetra svæði. Menn nyrðra eru nú viðbúnir eldsumbrotum, en í Kröfluvirkjun vinna nú 50-70 manns.
Þann 9. dýpkaði lægð snögglega fyrir sunnan land og sendi mikinn austanvindstreng norður yfir landið. Veðrið varð langverst við suðurströndina. Guðrún Tómasdóttir veðurathugunarmaður í Skógum segir: Fárviðri var hér eftir hádegi þ.9. [september]. Þá skemmdust nokkrir bílar, rúður í þeim brotnuðu ofl. Þá brotnuðu líka rúður í íbúðarhúsi í Hlíðarási. Veðráttan segir að mótauppsláttur hafi skemmst í Vík í Mýrdal og að tjón hafi orðið á nýrri kartöflugeymslu undir Eyjafjöllum og minniháttar tjón hafi einnig orðið í Kerlingardag. Sagt er frá því að daginn eftir [10.] hafi gömul timburhlaða fokið í Hjaltadal.
Morgunblaðið segir 30.september frá kuldatíð:
Skagafirði, 29. september. Kuldatíð er í Skagafirði, en snjór er ofarlega í fjöllum. Kýr eru þó látnar út, sérstaklega þar sem grænfóður er til. Mjólk hefur þó minnkað töluvert í samlaginu. Heyskapur er til muna minni í úthluta héraðsins, heldur en var á síðastliðnu ári, en í framhéraðinu er hann talinn góður. Björn í Bæ.
Um þessar mundir urðu gríðarlegar framfarir í tölvuspám. Veðurstofan fór að taka reglulega við spám frá evrópureiknimiðstöðinni en hún hafði frá því í janúar 1979 gert mun betri spár heldur en allar aðrar miðstöðvar. Þessar spár fóru nú að berast til Íslands. Sérstaklega gætti framfaranna í tveggja til þriggja daga spám, hraðfara lægðir náðu nú í fyrsta sinn fullri dýpt í þessum spám og brautum þeirra var mun betur spáð heldur en verið hafði. Á sama tíma gerði breska veðurstofan umtalsverðar breytingar á sínu líkani og varð það miklu betra heldur en áður. Spár bandarísku veðurstofunnar bötnuðu síðan að mun um ári síðar. Má segja að hér hafi orðið hvað mest framfarastökk í veðurspám um áratugaskeið.
Tíð var hagstæð í október, reyndar með allra úrkomusamasta móti norðaustanlands. Aðeins eitt afgerandi illviðri gerði í mánuðinum.
Þann 26. dýpkaði lægð mjög mikið og snögglega vestur af Bretlandseyjum. Hún hreyfðist síðan til norðurs og kom upp að landinu suðaustanverðu síðdegis þann 26. Þá hvessti verulega og varð Siglufjörður sérlega illa úti. Kortið sýnir stöðuna síðdegis, mjög dæmigerðar aðstæður fyrir hviðuveður á Siglufirði. Morgunblaðið segir frá 27.október:
Fárviðri gekk yfir Norður- og Austurland í gærkveldi og nótt og á Siglufirði skemmdust mörg hús mikið, samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins. Talsverðar þakskemmdir urðu á slökkviliðsstöðinni, Síldarverksmiðju ríkisins og barnaskólanum og nokkrum íbúðarhúsum og fór svo til allt járn af þeim. Fólk á Siglufirði var varað við því að vera úti við vegna fjúkandi þakplatna. Þá fór rafmagn af Austurlandi í gærkveldi þegar austurlína skemmdist vegna óveðursins og var rafmagnslaust allt frá Hornafirði og norður til Vopnafjarðar. Rafmagni tókst að koma á síðar um kvöldið með gangsetningu vatnsafls- og disilstöðva. Í gærkvöldi var vitað um á þriðja tug tjóna vegna óveðursins á Siglufirði. Í einu tilviki fauk upp bílskúrshurð á íbúðarhúsi og að sögn íbúa var líkast því sem sprenging hefði orðið og sprungu rúður í húsinu og varð þar mikið tjón. Trilla sökk í höfninni og var talið að vinnuskúr hafi fokið á hana og sökkt. Þá var í gærkveldi vitað um fjóra bíla sem urðu fyrir skemmdum af völdum veðursins. Erfiðleikar voru á að ná símasambandi við Siglufjörð vegna veðursins. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar er búist við að veðrið gangi niður seinnipartinn í dag, miðvikudag. Veðrið var af völdum lægðar sem nálgaðist landið, en henni fylgdi norðaustanátt og var vindhraði 8-10 vindstig, en hægara inn til landsins. Varðandi veðrið á Siglufirði, sagði Veðurstofan að þar slægi niður vindhviðum af fjöllum og væri veðurhæðin þá meiri. Þá var og slæmt veður á Austurlandi, eins og áður gat.
Dagur segir einnig frá 28.október:
Mikið ofsaveður gekk yfir Norðurland sl. þriðjudag [26.]. Veðrið var af norðaustan og veðurhæð mikil. Talsverðar skemmdir urðu víða en langmestar á Siglufirði þar sem veðurhæðin var hvað mest. Veðrið gekk síðan niður um nóttina og enn í gær voru menn að störfum við lagfæringar og viðgerðir á Siglufirði. Við slógum á þráðinn til þriggja fréttaritara.
Sveinn Björnsson á Siglufirði varð fyrstur fyrir svörum: Þetta ofsaveður skall á bæinn um fjögurleytið og stóð alveg fram yfir miðnætti og það er óhætt að segja að ýmislegt hafi gengið á hér í bænum eins og búast má við þegar svona ofsaveður skellur á öllum á óvart. Tjón sem hefur orðið hér í bænum er mjög víða, sennilega á einum 20-30 húsum. Aðallega er um að ræða rúðubrot og fok á þakplötum. Einnig opnuðust bílskúrshurðir hver á eftir annarri og sumar fuku út í loftið þannig að menn stóðu bara eftir með handföngin í höndunum. Sumar hafa ekki fundist enn og menn halda að þær séu einhversstaðar uppi í fjöllum. Bátar í höfninni sluppu nokkuð vel, en þó sökk einn og nokkrir smábátar sem voru komnir á land höfnuðu á hliðinni og skemmdust nokkuð. Rafmagnið fór út um kvöldið og á meðan verið var að tengja varastöð var almyrkvað í bænum og ekki fýsilegt fyrir þá sem unnu við björgun. Lögregla, björgunarsveitir og margir aðrir hjálpuðust að við að lagfæra skemmdir, negla fyrir glugga og þess háttar, og nú eru menn að hamast við að koma öllu í samt lag aftur.
Reynir Pálsson, Stóru-Brekku í Fljótum hafði eftirfarandi að segja um veðrið í gær: Um miðjan dag í gær gerði hér mikið norðaustanveður með hvassviðri og rigningu. Veðurhæð hefur sjálfsagt verið sjö til níu vindstig og einstaka hryðjur mun hvassari. Úrkoma við Skeiðfoss mældist 60 mm á 12 tímum, en þar er úrkomumælir. Klukkan 21:15 fór rafmagnslínan til Ólafsfjarðar út og 15 mínútum síðar sló út línunni til Siglufjarðar og lá hún niðri við Heljartröð. Talið er að einangrar hafi brotnað, en einnig skemmdist einangrari við spenni við Skeiðfoss. Skemmdir á húsum munu ekki vera teljandi nema hvað gróðurhús við Skeiðfoss skemmdist mikið.
Ármann Þórðarson á Ólafsfirði tjáði okkur eftirfarandi: Það var snarvitlaust veður hér, mjög hvasst af norðaustri og mikil úrkoma. Mér er ekki kunnugt um neinar teljandi skemmdir þrátt fyrir þetta veður, eitthvað lauslegt sem ekki hafði verið nægilega vel gengið frá fauk s.s. fiskikassar og þess háttar. Það má eiginlega segja að Múlinn sé mesta vandamálið þessa dagana. Hann lokaðist á þriðjudagsmorgun vegna snjóskriða sem féllu þar. Hann var opnaður aftur um hádegið og var opinn framundir kvöldið en lokaðist þá aftur og bílar áttu þar í erfiðleikum.
Morgunblaðið segir enn af tjóni 28.október:
Ljóst er, að tjón af völdum óveðursins sem gekk yfir Siglufjörð í fyrrakvöld og nótt nemur milljónum króna. Vindhraðinn mældist 8090 hnútar, eða 1415 vindstig þegar veðrið lét verst. Stúlka slasaðist þegar hún tókst á loft og skall harkalega í götuna. Hún var flutt i sjúkrahúsið en meiðsli hennar reyndust ekki alvarleg. Tvær trillur sukku í höfninni og ein, sem sett hafði verið á land, bókstaflega tókst á loft og fauk í sjóinn. Þá gereyðilagðist trilla þegar rammabúkki, sem notaður hefur verið til þess að reka niður stálþil, fauk og skall á henni. Þakplötur fuku um bæinn eins og skæðadrífa og var fólk varað við að vera úti við vegna hættu, sem af plötunum stafaði. Fljúgandi plötur skullu á 10 bifreiðum og skemmdu. Að minnsta kosti eitt hús er óíbúðarhæft vegna skemmda. Bílskúrshurð fauk upp og var líkast því sem sprenging hefði orðið í húsinu. Rúður brotnuðu og er tjón tilfinnanlegt. Þakplötur fuku af tugum húsa í bænum. Raflínan að Skeiðsfossi bilaði og var unnið að viðgerð í gær. Þá bilaði línan inn í Skútudal og fór heita vatnið af bænum, en það tókst að gera við bilunina í fyrrinótt.
Morgunblaðið segir enn frá tjóninu á Siglufirði í þessu veðri í pistli 18.nóvember:
Skemmdirnar vegna óveðursins sem gekk yfir Siglufjörð 26. október síðastliðinn hafa nú verið metnar, að sögn Óttars Proppé bæjarstjóra á Siglufirði. Það voru tveir dómkvaddir
matsmenn sem það gerðu. Skemmdirnar á fasteignum og lausamunum voru metnar á 850 þúsund krónur og eiga þar átta aðilar hlut að máli, en matið er háð þeim takmörkunum, að einungis var metið það tjón, sem var yfir 18 þúsund krónur og engar tryggingar bættu. Heildartjónið var því að sjálfsögðu miklu meira. Sótt verður um bætur vegna hins metna tjóns til Bjargráðasjóðs.
Þann 26. fórst flugvél og með henni einn maður undan Kópsnesi. Síðustu dagana í október urðu hörmuleg umferðarslys, fimm manns biðu bana. Tvennt í mótorhjólaslysi í Kópavogi, einn í Grindavík og tveir í Ólafsfjarðarmúla, í síðastnefnda slysinu mun hálka hafa komið við sögu.
Tíð var hagstæð í nóvember að öðru leyti en því að mikið illviðri gerði um miðjan mánuð og ófærðarkast undir lok mánaðar.
Slæmt kast gerði dagana 13. til 18. nóvember. Fyrst fór djúp lægð til norðurs fyrir austan land og olli hvassri norðanátt á landinu með hríð fyrir norðan.
Þann 15. nálgaðist ný lægð úr suðvestri og dýpkaði mjög skammt frá landinu. Kortið sýnir stöðuna um miðnætti kvöldið áður. Þá er vaxandi lægð á Grænlandshafi. Inn í hana gekk síðan bylgja úr suðvestri og þá tók óðadýpkun við. Sunnanáttin á undan lægðinni var ekki tiltakanlega hvöss, en undir kvöld hvessti af vestri og fór vestanstrengur yfir landið til austurs.
Seint um kvöldið þann 15. var lægðin orðin um 945 hPa djúp rétt norðan við land og hreyfðist þá austur. Gekk þá í norðvestan og norðan rok eða ofsaveður um landið norðvestan- og vestanvert með hríð og miklu brimi við ströndina. Kortið að ofan sýnir stöðuna snemma morguns þann 16. Gríðarlegur norðvestanstrengur liggur inn á Norðurland vestanvert. Varð þetta með mestu brimveðrum, minnst var á nóvemberveðrin 1961 og 1959 til samanburðar, sem og októberveðrið 1934. Í kjölfarið komst hreyfing á rannsóknir á orsökum slíkra sjávarflóða.
Í fyrra veðrinu, þann 13. segir Veðráttan að rafmagns- og símslit hafi orðið á Langanesi, Langanesströnd og í Vopnafirði og að sjór hafi flætt í kjallara á Þórshöfn.
Dagur segir frá veðrinu 16.nóvember, en áttar sig ekki á umfangi þess:
Hvassviðrið af vestri sem ganga átti yfir í nótt virðist hafa orðið minna víðast hvar en gert hafði verið ráð fyrir og ekki var vitað um neitt meiriháttar tjón þegar Dagur kannaði málið í morgun. Þó fuku þakplötur af húsi við Þingvelli, gamla býlinu á leiðinni upp á Sólborg. Þá mun eitthvert tjón hafa orðið á verksmiðjubyggingu Árna Árnasonar, rétt norðan Akureyrar. Þó veðrið hafi verið betra en menn áttu von á komu samt mjög miklir vindstrengir ofan af Glerárdal. Lentu þeir mest á Síðuhverfinu. Sumar rokurnar voru mjög sterkar og t.d. gekk illa að hemja stóran og þungan LandRover jeppa á leið yfir nýju Glerárbrúna um klukkan hálf ellefu í gærkvöldi. Þegar Dagur ræddi við einn þeirra sem vann við að halda í horfinu hjá verksmiðjuhúsi Árna Árnasonar, Þórhall Gíslason, sagði hann að los hefði verið komið á einangrun og annað smávegis um klukkan hálf átta í gærkvöldi, en þakplötur hefðu enn ekki losnað. Starfsmenn voru að setja þungar sprengjumottur ofan á þak hússins fram undir miðnætti þar sem mest var hætta á að það lyftist. Þarna gekk á með miklum hvössum byljum annað veifið. Hjálparsveit skáta á Akureyri var í viðbragðsstöðu í alla nótt. Búist var við hvassri norðanátt á Akureyri þegar liði á daginn. Hjá lögreglunni á Siglufirði fengust þær upplýsingar í morgun að þar hafi ekkert verið að veðri nema svolítið hvasst hafi verið fram yfir miðnætti. Á Húsavík hvessti um sex-leytið í morgun og þar var komin norðlensk stórhríð um átta leytið. Hvasst var á Dalvík í nótt en ekki svo að til skaða yrði. Hjá lögreglunni í Ólafsfirði fengust þær upplýsingar að þar hefði allt verið með kyrrum kjörum í nótt, enda næði vestan áttin sér sjaldan verulegu upp þar ytra. Allir bátar voru í landi og togarar komu til hafnar í gærkvöldi, enda fyrirvari á óveðursspánni nokkuð góður.
Síðan komu frekari fregnir, Dagur segir frá 18.nóvember:
Húsavík 17. nóvember. Ljóst er að talsvert tjón hefur átt sér stað í Húsavíkurhöfn í brimróti því sem gekk yfir sl. sólarhring, þó ekki sé það eins alvarlegt og álitið var í fyrstu. Grjótgarður við frystihúsið gaf sig og garðurinn flattist inn. Grjótið gekk inn á veg og lokaði honum. Við suðurgarðinn brotnaði mikið af bryggjutrjám, vatnslögn fór þar af að hluta og svartolíuleiðsla OLÍS sópaðist burt. Laust dót sem var á garðinum fór á flakk. Við smábátahöfnina fóru steinar af garðinum sem snýr í norður og suður. Þar gekk mikill sjór yfir og bátar sem voru á uppfyllingunni flutu upp á morgunflóðinu. Olíutunnum og búkka skolaði burtu og margir bátar fóru á hliðina. Ekki er kunnugt um umtalsverðar skemmdir á bátunum. Enn brýtur yfir norðurgarðinn en þar sópuðust tveir til þrír rafmagnsstaurar burt en garðurinn virðist ekki vera skemmdur. Um hádegi á mánudaginn komu viðvörunarboð frá Almannavörnum um að mikið óveður væri í aðsigi og skip og bátar beðin um að koma sér til hafnar hið bráðasta. Togarinn Kolbeinsey átti skammt eftir í land en í öryggisskyni var togaranum snúið til Akureyrar. Margir bátar voru dregnir upp með kranabílum og þeim komið fyrir á uppfyllingunni við smábátahöfnina. Um klukkan 7 í gærmorgun brast hann á með norðaustanátt og stórsjó. Á hádegisflóðinu lyftust fjallháar öldurnar yfir hafnarmannvirkin og fóru inn í höfnina. Menn úr björgunarsveitinni Garðari og fleiri hjálpuðu eigendum bátanna, sem voru á uppfyllingunni við að njörva þá niður og færa þá ofar. Mönnum bar saman um það við höfnina í gær að þetta væru þær mestu hamfarir sem yfir höfnina hefðu gengið. Að vísu nefndu sumir, sem mundu lengst aftur í tímann.að árið 1934 væri sennilega það versta. En sú samlíking hlýtur að teljast hæpin þar sem aðstæður í höfninni voru þá allt aðrar en í dag. Til dæmis var hafnargarðurinn ekki kominn og ekki heldur smábátahöfnin. Menn voru önnum kafnir við björgunarstörf í allan gærdag og fram eftir kvöldi. Á kvöldflóðinu var sjór farinn að ganga niður og ekki bar þá neitt til tíðinda. Til öryggis var samt vakt í bátunum fram eftir nóttu. Að sögn Bjarna Aðalgeirssonar, bæjarstjóra, voru sjómenn sem hann hafði rætt við mjög ánægðir með það hvernig höfnin stóðst þetta mikla áhlaup og framkvæmdir við hana virðast vera í veigamiklum atriðum á réttri leið. Ljóst er að nýi grjótgarðurinn hefur bjargað miklu. Hinsvegar er framkvæmdum ekki lokið og þyrfti að gera betrumbætur á grjótgarði við saltfiskverkunarhús Fiskiðjusamlags Húsavíkur. Þ.B.
Ljóst er að töluvert tjón hefur orðið á Siglufirði vegna flóða á eyrinni þar, að sögn Óttars Proppé, bæjarstjóra. Flóðið var gífurlegt og náði hámarki rétt fyrir klukkan ellefu á þriðjudag. Að sögn fróðra manna hefur annað eins ekki gerst síðan árið 1934. Þó telja Siglfirðingar sig heppna, því veðurhamurinn var af norðvestri, en vindurinn kom aldrei af fullum krafti beint inn fjörðinn. Þegar flóðið var mest náði það upp á miðjar bílhurðir. Þá flæddi inn í kjallara og jarðhæðir húsa, en fjölmörg íbúðarhús standa á eyrinni þar sem flóðsins gætti. Ljóst er að einstaklingar hafa orðið fyrir verulegu tjóni og talsvert tjón hefur orðið á saltfiskbirgðum margra framleiðenda. Að sögn Óttars var lítið hægt að gera meðan flóðið stóð yfir, nema hvað reynt var að hjálpa fólki við að bjarga bílum og við að koma ýmsu lauslegu drasli sem flaut á götunum í var, s.s. olíutunnum, spírum í fiskhjalla og fleiru. Voru það bæjarstarfsmenn og björgunarsveitarmenn sem unnu að þessu. Ekki er vitað um skemmdir á bátum, en brim gekk yfir öldubrjótinn og skemmdi hann. Óttar sagði að töluvert mál yrði að hreinsa bæinn eftir flóðið, en meðal þess sem losnaði var gömul bryggja sem raunar var byrjað að rífa. Meðan flóðið stóð sem hæst var allur syðri, eystri og ytri hluti eyrarinnar undir sjó. Aðeins miðjan stóð upp úr.
Hrísey 17. nóv. Feykilegt tjón varð hér í Hrísey af völdum óveðursins sem skall yfir eyjuna aðfaranótt þriðjudags og náði hámarki á þriðjudagsmorguninn. Ógerningur er að segja nákvæmlega til um það á þessu stigi hversu tjónið er mikið. Sjórinn braut mörg skörð í grjótgarð við höfnina - það lengsta 10-12 metra langtog er tjónið á grjótgarðinum mjög mikið. Á mánudag þegar ljóst var að óveður myndi skella á, voru menn hér í eyjunni að reyna að búa þannig um hnútana að sem minnst tjón yrði og voru meðal annars trillur og bátar sem voru í höfninni teknar á land. Þrátt fyrir það var sjógangurinn svo mikill á þriðjudagsmorguninn að flesta báta fyllti af sjó, aðeins þær trillur sem hæst stóðu sluppu. Svo mikið var flóðið að fólk sem vann við björgunarstörf fór um á árabátum með utanborðsmótorum. Geysilegar skemmdir urðu hjá fyrirtæki Björgvins Pálssonar byggingarmeistara. Vélar á verkstæði hans fóru á bólakaf og mikið af efni skemmdist. Þá varð mjög mikill skaði hjá kaupfélaginu þar sem sjór komst í skreiðargeymslur. Búið var að meta skreiðina og pakka henni, en nú þarf að umstafla öllu, opna pakkana og þurrka skreiðina upp á nýtt. Við nýbyggingu kaupfélagsins braut sjórinn niður uppfyllingu undir plani við húsið. Þá komst sjór í samkomuhúsið og einnig í kjallara tveggja íbúðarhúsa. Rafmagnslaust varð á hafnarsvæðinu á meðan óveðrið gekk yfir en starfsmenn Rafmagnsveitna ríkisins unnu að viðgerð í gær. Þeir sem lengst hafa búið hér í eyjunni segjast ekki muna flóð hér í líkingu við þetta. Allir sem vettlingi gátu valdið lögðust á eitt um að bjarga verðmætum eins og kostur var við þessar erfiðu aðstæður og var samheldnin og dugnaðurinn til mikillar fyrirmyndar. En þrátt fyrir það er ljóst að tjón hér í Hrísey af völdum þessa ofsaveðurs er gífurlegt. S.A.
Norðvesturland fór ekki varhluta af óveðrinu og flóðunum aðfaranótt og að morgni þriðjudags. Víða varð mikið tjón. Á Blönduósi urðu skemmdir á bryggju og á nýrri hafnaruppfyllingu. Sjór fór allt upp að neðstu húsum og upp á götuna framan við pósthúsið. Annað eins brim og varð hafa menn ekki þekkt sl. 30 ár. Á Sauðárkróki hvarf grjótgarðurinn að mestu og þrjár trillur sukku í höfninni. Skreiðarhjallar rústuðust norðan við bæinn, sjór gekk yfir hafnarsvæðið og inn í fiskverkunarhús. Flóðið bar mikið grjót upp á land og var Strandgatan eins og grjóturð á að líta. Uppsláttur húsa skemmdist einnig og þakplötur fuku af húsi. Talið er að um milljónatjón sé að ræða. Talsvert tjón varð á Hofsósi. Plata á hafnargarðinum seig niður og ljósastaurar sópuðust burtu. Syðri grjótgarðurinn skemmdist mikið. Trillur fóru af stað í uppsátri og 12 lesta bátur skemmdist töluvert. Þá má geta þess að vegurinn að hafnargarðinum í Haganesvík skemmdist talsvert.
Morgunblaðið segir af veðrinu í pistlum 17.nóvember:
Flóðin í Siglufirði: Það var ekkert smáræði sem gekk hér á, það flæddi á skömmum tíma inn i húsið hjá okkur og hætti ekki fyrr en sjór flæddi yfir seturnar í sófanum, þannig að dýptin var um hálfur metri," sagði María Pálsdóttir í Siglufirði í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi, en hún kvað miklar skemmdir hafa orðið hjá þeim af völdum flóðsins. Það eyðilagðist allt á gólfinu, sagði María, teppi og húsmunir. Þetta kom svo snöggt og sandur og drulla flutu með í stríðum straumum. Það var því æði margt í íbúðinni sem lenti í vatni og við urðum m.a. að taka rafmagn og hita af húsinu vegna þess að frárennslið frá hitaveitunni rennur í ræsið hjá okkur í kjallaranum og við urðum að taka vatnið af til þess að dæla ekki sjálf inn í húsið affallsvatninu. Síðan bryggjurnar hurfu, gengur aldan óbrotin upp göturnar," sagði Birgir Björnsson í Siglufirði, en hús hans stendur neðst á Aðalgötunni, en það flæddi um allt hjá okkur og við vorum á hlaupum að reyna að bjarga heimilistækjum og húsmunum upp fyrir vatnselginn. Vatn fór í margt og nú er að vita hvort tækin fara í gang aftur, en það var liðlega 30 sm djúpt vatn hér á gólfinu þegar mest var. Það var um kl. 9:30 sem flóðið jókst, sagði Birgir, en snjóruðningur hafði gefið sig, vatnið ruddist áfram og allt fór af stað. Teppi og dúkar á gólfum er auðvitað ónýtt og veggir sjálfsagt að einhverju leyti, en þetta er timburhús. Fólk er nú að undirbúa sig fyrir frekari ágjöf, en þetta er svo sem alveg nóg sem komið er.
Húsavík, 16. nóvember. Gott tíðarfar hefur verið hér í haust og nú fyrst um síðustu helgi þurftu Húsvíkingar að moka snjó af tröppum sínum. Snjóaði ekki mikið og er hér nú aðeins föl á jörðu. í morgun um sjöleytið náði til Húsavíkur óveður það sem yfir landið gengu og svipar það mjög til óveðursins og skemmda sem urðu hér á hafnarsvæðinu 1934. Skemmdir nú og skaðar eru þessir helstir: Uppfyllingin sem gerð hefur verið framan við síldarverksmiðjuna sunnan hafnarbryggjunnar er illa farin. Stórgrýtisvörnin hefur kastast til og möl sem þakti grjótið og myndaði plan, hefur að miklu leyti skolast burt, en nýja saltfiskverkunarhús Fiskiðjusamlagsins sem stendur á þessari uppfyllingu, hefur ekki orðið fyrir skemmdum, þó húsið hafi verið umflotið sjó, þá mest var hásjávað og saltfiskurinn er alveg óskemmdur. Nýja smábátahöfnin fram að Naustafjöru hefur orðið fyrir einhverjum skemmdum og bátar, sem stóðu þar á uppfyllingu og hefðu að öllu venjulegu átt að vera óhultir, flutu upp þá hæst var í sjó og köstuðust til, en urðu ekki teljandi skemmdir á þeim. Allur bátaflotinn og togarinn Júlíus Hafstein voru í höfninni og þar um borð menn sem hafa geta varið þá áföllum og skemmdum, en leiðslur fyrir vatn og olíu á bryggjunni brotnuðu og einhverjar skemmdir hafa orðið á bryggjunni líka. Margt lauslegt hefur sjórinn fært úr stað, svo mikið verk verður að hreinsa hafnarsvæðið að þessu óveðri loknu, en veðrinu hefur ennþá fylgt lítil snjókoma. Hættan er því miður ekki liðin hjá og óttast menn að frekari skaðar geti orðið á kvöldflóðinu, þó menn voni það besta og eru menn við öllu búnir. Fréttaritari.
Ólafsfirði, 16. nóvember. Hér á Ólafsfirði urðu engar skemmdir vegna veðursins og má lýsa veðrinu hér á Ólafsfirði sem venjulegri norðlenskri stórhríð. Norðvestan hvassviðri var og í þeirri átt stendur veðrið ekki beint inn fjörðinn, heldur þvert á hann. Hásjávað var, en í engu frábrugðið því sem gerist í venjulegu stórstreymi og engin flóð urðu. Engar samgöngur eru nú við Ólafsfjörð, allir vegir ófærir og flugvöllurinn lokaður. Fréttaritari
Sauðárkróki, 16. nóvember. Tveir varnargarðar stórskemmdust hér í höfninni i Sauðárkróki og er annar þeirra talinn ónýtur. Hann gengur til suðausturs, i framhaldi af aðalhafnargarðinum. Á honum er viti, sem er óvirkur, vegna þess að allir kaplar út til hans slitnuðu og sagði hafnarvörðurinn hér, Steingrímur Aðalsteinsson, að garðurinn væri nú eins og sker í sjónum. Hinn garðurinn gengur til austurs og er kallaður Sandfangari. Hann var lengdur mikið i sumar og byggður upp, en það hefur tekið framan af honum um 15 metra. Líklegt er að eitthvað af því grjóti sem var í görðunum hafi farið inn í höfnina. Sjórinn gekk langt upp á eyrina, sem höfnin stendur við og fiskhjallar sem þar eru hafa skemmst mikið og hrunið og skúrar, þar sem geymd eru veiðarfæri og annað, hafa einnig skemmst, en ekki vitað hve mikið ennþá. Sjór gekk inn í frystihúsin og sagði forstjóri Fiskiðjunnar, að það hefði gengið sjór inn í frystihúsið og komist inn í frystigeymslur. Ekki var búið að meta hvað tjónið er mikið, en það er örugglega töluvert, einkum ef sjór hefur komist í einangrun í gólfum. Þá sukku þrjár trillur í höfninni hér og það losnaði um þak á einu húsi, en það fauk ekki. Talsverðar skemmdir urðu á Strandveginum sem við köllum og liggur meðfram ströndinni. Til varnar honum er grjótgarður, sem hefur gefið sig dálítið og vegurinn er algerlega ófær, vegna grjóts sem hefur kastast upp á hann og vegna þess að það hefur tekið eitthvað úr honum. Ég hef ekki haft neinar fregnir af slysum, en lögreglan var með á í nótt, sem og var slysavarnadeildin til taks. Starfsfólk á sjúkrahúsinu varð að fara í snjóbíl til vinnu sinnar í morgun. Sjór er ekki enn genginn niður og hér er þungt brim við ströndina og gengur á með éljum. Fréttaritari.
Hofsósi, 16. nóvember. Eins og spáð hafði verið, gekk vont veður hér yfir Hofsós eins og annars staðar á Norðurlandi í nótt og í morgun. Tjón á mannvirkjum er þegar orðið mikið í höfninni, en annað er mér ekki kunnugt um, nema að rafmagnsbilanir urðu hér i nótt og skemmdist rafhitunarbúnaður í nokkrum húsum vegna þess. Straumur komst ekki aftur á fyrr en um hádegi. Þegar hafrótið náði hámarki í morgun á flóðinu, brotnuðu tveir ljósastaurar á norðurgarði hafnarinnar, en þegar brotin voru mest þar risu þau í allt að 1520 metra hæð yfir garðinn. Nú er þekjan á þeim garði byrjuð að brotna, þannig að enn er ekki séð hve mikið tjón verður á hafnarmannvirkjum í veðrinu sem nú gengur yfir. Hafrótið náði að rífa grjótfyllingu úr suðurgarði hafnarinnar að innanverðu, allt frá landi og að stálþili, u.þ.b. 50 metra kafla og verður nauðsynlegt að fylla þar að nú þegar, ef garðurinn á ekki að hverfa í vetur. Fjórir bátar eru í höfninni og laskaðist einn þeirra ofan þilja. Margir bátár eru í uppsátri á fjörukambi, þurfti að flytja alla þá minnstu burtu, því aldan var farin að henda þeim til. Heimamenn segja mer að þetta sé mesta brim hér í höfninni, síðan 1959, en þá fórst þar bátur ásamt þremur mönnum. Ófeigur.
Blönduósi, 16. nóvember. Blönduósbúar urðu lítið varir við óveðrið sem gekk yfir landið sl. sólarhring. Hér á Blönduósi var veðrið verst á milli 4:30 og 7 i morgun, en þá hvessti töluvert. Ekki var veðurhæðin þó það mikil að vandræði hlytust af. Lítil snjókoma fylgdi hvassviðrinu og var greiðfært um götur bæjarins í morgunsárið. Allt athafnalíf var með eðlilegum hætti í morgun og kennt var í grunnskólanum. Að sögn Frímanns Hilmarssonar lögregluvarðstjóra, hafði lögreglan á Blönduósi töluverðan viðbúnað vegna slæmrar veðurspár. Í gærkveldi fór hún til dæmis um bæinn og gætti að því að lausamunir, sem hætta gæti stafað af, væru ekki á víðavangi. Einnig voru Hjálparsveit skáta og björgunarsveitin Blanda í viðbragðsstöðu, ef á aðstoð þeirra þyrfti að halda, en ekki kom til þess að þær yrðu kallaðar út. Mjög mikið brim var á flóðinu i dag og braut það úr sunnanverðum Blöndubökkum. Bakkinn brotnaði þá upp að tveim eldri húsum, sem standa yst á honum. Einnig brotnaði mikið úr fjörukambinum sunnan við ána og er jafnvel búist við að gamalt íbúðarhús sem staðið hefur autt um tíma, verði briminu að bráð á kvöldflóðinu. Töluvert hefur einnig brotnað úr fjörukambinum við bryggjuna og ána norðanverða. Í dag hefur verið norðvestan átt hér á Blönduósi. Fyrst gekk á með skafrenningi, en með kvöldinu hefur kyngt niður þó nokkrum snjó. BV
Morgunblaðið heldur áfram 18.nóvember:
Seyðisfirði 16. nóvember. Hér á Seyðisfirði var hafður mikill viðbúnaður gagnvart veðurofsanum sem spáð hafði verið í gærdag að skella myndi á í nótt og í morgun. Almannavarnanefnd Seyðisfjarðar hélt fund síðdegis í gær og skipulagði aðgerðir ásamt lögreglu, björgunarsveitum og bæjarstarfsmönnum. Farið var um bæinn, fólki gert viðvart og allt lauslegt sem hætta var á að fyki, var annað hvort fjarlægt eða tjóðrað niður. Í gærkvöldi kom nefndin aftur saman og skipulagði störf næturinnar, þar sem lögregla og björgunarsveit voru á vakt og til taks, ef út af brygði. Veðurhæð náði hámarki á hádegisflóðinu í dag, en af og til frameftir degi blés hann allhressilega. Ekki hafa orðið slys á fólki og lítið tjón á mannvirkjum. Þó féllu skreiðarhjallar um koll hjá Norðursíld hf., en að sögn Hreiðars Valtýssonar forstjóra var ekki búið að meta tjón á skreiðinni, sem var sem því næst fullverkuð, kvað hann að það myndi skýrast er veðrinu slotaði. Þá fuku fimm járnplötur af frystihúsi Fiskvinnslunnar hf, en menn brugðu skjótt við og náðu að hindra áframhaldandi fok. Einnig fauk um koll hjallastæða í eigu Fiskvinnslunnar, en engin skreið var í hjöllunum. Það er álit manna hér, að viðvörun Veðurstofu, Almannavarna og lögreglu hafi komið í veg fyrir að meira tjón hlytist af, en raun bar vitni, þar sem viðeigandi ráðstafanir voru gerðar í tíma. Í nótt spáir hann áframhaldandi hvassviðri hér austanlands, en verulega mun draga úr veðrinu þegar líður á morgundaginn. Snjóföl er hér á jörðu, töluverður skafrenningur og hálka á götum úti. Fréttaritari.
Dalvík, 17. nóvember. Í óveðrinu sem gekk yfir landið sluppu Dalvíkingar furðu vel miðað við nærliggjandi byggðalög, svo sem Hrísey, en eins og fram hefur komið í fréttum urðu Hríseyingar verst allra úti í þessu veðri. Veður þetta byrjaði með allhvassri suðvestanátt á mánudag, en snerist síðan aðfaranótt þriðjudags í hvassa vestan og norðvestan með snjókomu. Samfara þessu veðri var stórstreymi og sjávarhæð mikil, svo sjór gekk á land og yfir hafnarmannvirki. Litlar skemmdir urðu á mannvirkjum, en þó rofnuðu tvö skörð í uppfyllingu á syðri hafnargarði, ásamt minni háttar skemmdum á nýgerðri smábátabryggju. Hér við bryggju lágu þrír af togurum Dalvíkinga ásamt smærri bátum og virtist þessi floti fara vel með sig á meðan á óveðrinu stóð. Aftur á móti urðu töluverðar skemmdir á Hauganesi, þar sem sjór rauf leiðslur frá tveimur olíutönkum, svo nokkur þúsund lítrar af olíu runnu í sjóinn. Þá jós sjórinn töluverðu magni af grjóti upp á hafnargarðinn. Bátafloti Haugnesinga var færður til Akureyrar fyrir óveðrið.
Hrísey, 17. nóvember. Hér hafa verið matsmenn frá Viðlagatryggingu að leggja mat á tjónið sem varð hér í gær. Mest tjón virðist hafa orðið hjá trésmíðaverkstæðinu Björk hf. Sjór flæddi inn í það og skemmdist töluvert af efni og einnig bíll og grafa sem stóðu framan við verkstæðið. Þá skemmdist húsið sjálft af steinkasti, skúr í eigu verkstæðisins og gamall bíll sem þar var inni, enda flæddi sjór upp á hann miðjan. Hjá frystihúsi KEA fór sjór í mjöl og skreið og mikið af grjóti var á planinu kringum frystihúsið. Hjá fiskverkuninni Borg blotnuðu sennilega um 30 tonn af saltfiski. Hann er ekki ónýtur en mikið verk verður að taka hann upp. Húsið skemmdist einnig af grjótkasti. Þá varð varla stígvélafært í sjoppu sem hér er og blotnaði og skemmdist bæði sælgæti og sígarettur. Tjón varð á hafnargarðinum. Grjótvörn sem var ofan á honum á 7080 metra kafla, liggur nú á veginum sem liggur eftir garðinum. Þá brotnaði úr hafnargarðinum sjálfum og er mér sagt að sjór renni víða i gegnum hann á þessum kafla. Þá brotnaði úr varnargarði við syðri bryggjuna, sem er aðalbryggjan, þannig að sjórinn rennur óhindrað undir bryggjuna. Sjávarkamburinn í suðurþorpinu meðfram athafnasvæðinu er nánast horfinn. Þá flæddi sjór í kjallara tveggja húsa, en enn er ekki vitað hve miklar skemmdir urðu. Hér varð aldrei mjög slæmt veður, heldur var það flóðið og brimið sem öllum skaðanum olli. Fréttaritari.
Vestmannaeyjum, 17. nóvember. Hið versta veður var hér í gær, norðaustan 1112 vindstiga beljandi, snjór og skafrenningur þannig að þungfært var um götur bæjarins. Foráttu brim var og á flóðinu í gærkvöldi braut hafaldan stórt skarð í Eiðið, norðan hafnarinnar. Eiðið var þarna um 30 metra breitt en þar sem hafrótið braut mest úr því er það nú um 15 metra breitt. Er hér um mikið tjón að ræða. Sjónvarpsendurvarpsstöðin á Klifinu bilaði í gærdag og brutust starfsmenn Pósts og síma uppá fjallið í gærkvöldi í veðurofsanum við hin verstu skilyrði. Þeir voru varla komnir niður aftur til byggða þegar stöðin bilaði aftur og gátu Eyjabúar því ekki fylgst með atferli sænskra krimma né hlýtt á boðskap þeirra félaga Kjartans og Steingríms. Þeir Jón Sighvatsson og Stefnir Þorfinnsson urðu því enn að brjótast upp á Klif í dag til viðgerða á stöðinni. Laust fyrir klukkan 21:30 í gærkvöldi fór síðan allt rafmagn af bænum og í rúman klukkutíma máttu bæjarbúar notast við kertaljós sér til birtu. hkj.
Dagur segir enn af tjóni í þessu veðri á Siglufirði í pistli 16.desember:
Greinilegt er að gífurlegar skemmdir áttu sér stað á Siglufirði í óveðrinu mikla sem gekk yfir Norðurland í síðasta mánuði. Mestar urðu skemmdirnar á Siglufirði við höfnina.
Flóðvarnargarðurinn gamli kvaddi kóng og prest og hélt sína leið og fjaran hefur færst innar. Fremri hluti öldubrjóts er stórskemmdur og sjór gengur í gegn um hann á kafla. Við Hafnarbryggju tók talsvert úr uppfyllingu og sunnan á Eyrinni varð talsvert landbrot þegar sjórinn gekk upp Gránugötu. Ljóst er að skemmdirnar urðu meiri en talið var í fyrstu. Virðist sem af Siglfirðingum eigi ekki að ganga, því stuttu áður en þetta veður gekk yfir kom óveður þar og skemmdir urðu þá talsverðar víðar um bæinn, og fyrr á árinu urðu einnig talsverðar skemmdir er aurskriður féllu á bæinn.
Skaplegt veður var nú næstu tíu daga. En að kvöldi 27. kom úrkomubakki inn á suðvestanvert landið. Nokkuð snjóaði í kjölfarið og síðdegis daginn eftir, þann 28. olli mjög djúp lægð á Grænlandshafi hvassri austan- og suðaustanátt sem byrjaði með mikilli skafhríð og ófærð, en svo hlánaði. Þessi hvellur stóð þó ekki lengi.
Morgunblaðið segir frá 30.nóvember:
Bifreiðir sátu fastar og fjöldi fólks varð fyrir miklum óþægindum viða um suðvestanvert landið á sunnudaginn [28.], er mikið illviðri skall á mjög skyndilega. Fjöldi bíla fauk út af vegum, um 300 farþegar biðu í á níundu klukkustund í rafmagnsleysi og kulda á Keflavíkurflugvelli, og lögregla og björgunarsveitarmenn voru i miklum önnum við að hjálpa vegfarendum. Engin alvarleg slys urðu þó. Það ríkti hreint öngþveiti í borginni um tíma er veðurhamurinn var sem mestur," sagði Sveinbjörn Bjarnason, aðalvarðstjóri í Reykjavíkurlögreglunni, í samtali við Morgunblaðið í gær er hann var spurður frétta úr illviðrinu. Ástandið varð einna verst á Suðurlandsvegi og í Breiðholti," sagði Sveinbjörn, en í flestum hverfum borgarinnar urðu tafir og fólk varð fyrir óþægindum. Flugbjörgunarsveitin, Björgunarsveitin Ingólfur og Hjálparsveit skáta aðstoðuðu lögregluna við hjálparstarf í óveðrinu alls um 80 manns með um 20 bíla. Vil ég koma á framfæri kæru þakklæti til þessara aðila fyrir góða aðstoð. Um 60 lögreglumenn voru við að aðstoða fólk með um 20 bíla. Lögreglustöðin fylltist af fólki sem bað um aðstoð, og voru börn og unglingar þar í meirihluta, sem voru að koma úr kvikmyndahúsunum milli klukkan 19 og 21. Þá voru bílar fastir um alla borgina, einkum þó á Suðurlandsvegi og í Breiðholti eins og ég sagði fyrr, og fljótlega voru yfirgefnir bílar um allt. Ýmist festust þeir í sköflum eða þá að þeir drápu á sér er bleyta komst í kveikjukerfið. Margar bifreiðir voru mjög illa búnar til vetraraksturs, og kom það sér illa, sumir voru jafnvel á sléttum sumarhjólbörðum. Slys á fólki veit ég ekki um, en kona um þrítugt var þó hætt komin er hún yfirgaf bíl sinn á Miklubraut. Hún gekk upp á Sogaveg og fannst þar við hús, mjög köld, og var flutt á slysadeild til aðhlynningar. Það var mikið annríki hjá okkur þegar mest gekk á, og við gátum ekki aðstoðað alla, sem við þó hefðum viljað hjálpa. Mikið var hringt hingað, og sumir voru að biðja um að fá aðstoð til að komast milli húsa, en við létum alla þá mæta afgangi, sem voru innandyra. Vona ég að fólk hafi skilning á því, sagði Sveinbjörn að lokum.
Veðrið á Hellisheiði: Veðrið var mikið, en gekk fljótt yfir, og það sem orsakaði umferðartafirnar var fyrst og fremst bylurinn og skafrenningurinn, en ekki það hve mikil ófærðin væri, sagði Arnkell Einarsson, vegaeftirlitsmaður hjá Vegagerð ríkisins í samtali við blaðamann Morgunblaðsins í gær. Arnkell sagði að fjöldi bíla hefði verið skilinn eftir á Hellisheiði, þar sem þeir drápu á sér eða komust ekki lengra vegna veðurhæðarinnar og lélegs skyggnis. Hjá lögreglunni í Reykjavík fengust þær upplýsingar að fjöldi fólks hefði hafst við í Litlu-kaffistofunni og í Skíðaskálanum í Hveradölum er veðrið gekk yfir, og aðstoðuðu lögregla og hjálparsveitarmenn fólk við að komast úr bílum sínum. Þegar um klukkan 21:30 var orðið fært frá Reykjavík til Hafnarfjarðar, og bílar fóru um Hvalfjörð þegar er veðrinu slotaði. Yfir Hellisheiði var orðið fært milli klukkan 22 og 23, en fyrstu bílarnir sem fóru yfir voru langferðabílar, sem fóru frá Reykjavík klukkan 18. Voru þeir því milli fjórar og fimm klukkustundir á leiðinni, sem venjulega tekur ekki nema eina klukkustund.
Ástandið hér var vægast sagt mjög slæmt, sagði Grétar Haraldsson, aðstoðarstöðvarstjóri Flugleiða í Keflavík, er hann var spurður hvernig ástandið hefði verið á Keflavíkurflugvelli þegar óveðrið gekk yfir. Hérna biðu um 300 manns átta og hálfa klukkustund, í kolniðamyrkri og hriplekri flugstöðinni, sagði Grétar ennfremur. Hér var fólk af ýmsu þjóðerni, íslendingar, Bretar, Bandaríkjamenn og fleiri, og er ekki hægt að segja að aðbúnaðurinn hér hafi verið góð landkynning fyrir okkur. Skammhlaup varð í spennustöð hér skammt frá, hugsanlega vegna eldingar, og því varð allt rafmagnslaust. Neyðarljós, sem fara sjálfkrafa í gang er rafmagnið fer af, kviknuðu þó, en þau eru alltof fá og loga auk þess aðeins í tvær klukkustundir. Þegar þau voru útbrunnin var því ekki um annað að ræða en að ná í kerti, og voru þau sótt niður í Keflavík, þótt ekki gengi of vel að ná í þau, enda verslanir ekki opnar síðdegis á sunnudögum. Hér var allt reynt, sem í okkar valdi stóð, til að gera fólkinu biðina sem léttbærasta. Ekki var hægt að hita mat eða kaffi innan flugstöðvarinnar vegna rafmagnsleysisins, en hluti farþeganna fór út í flugvélarnar og fékk þar hressingu. Hér var svo boðið upp á gosdrykki og samlokur. Það versta var að þegar tók að hlána er leið á kvöldið, tók byggingin að leka svo um munaði. Leki gerði vart við sig mjög víða, og á einum stað var hann svo mikill, að það var líkt og staðið væri í steypibaði. Þá sprakk ofn í Fríhöfninni þegar verst lét, og flæddi um allt. Hafi nokkur talið að flugstöðin væri fær um að gegna hlutverki sínu, og hafi einhverjir haldið að þetta væri ágætis hús, þá er sá misskilningur vonandi úr sögunni. Allt fór þetta þó vel að lokum og starfslið Flugleiða gerði allt sem í þess valdi stóð til að gera fólki biðina léttbærari. Þessu lauk svo um klukkan hálf tvö aðfaranótt mánudags, er flugvélarnar komust loks af stað, eftir átta og hálfs tíma bið, sagði Grétar að lokum.
Ástandið varð einna verst á Keflavíkurveginum milli Hafnarfjarðar og Keflavíkur í óveðrinu á sunnudaginn. Þar fauk fjöldi bíla útaf veginum, og illstætt var úti við, fyrir fólk úr bílunum og þá sem komnir voru til aðstoðar. Nokkrir árekstrar urðu einnig, en þó ekki meiðsl á fólki, svo vitað sé. Lögreglan í Hafnarfirði og í Keflavík hafði samvinnu um björgunarstarfíð, með góðri aðstoð björgunarsveita úr Keflavík, Njarðvík og Hafnarfirði. Talsverð umferð var um Reykjanesbrautina er óveðrið skall á, en dró síðan úr henni. Margt manna vildi ekki hlíta ráðleggingum um að fara ekki af stað, og var gripið til þess ráðs að loka veginum beggja vegna, við Hafnarfjörð og Keflavík. Lögreglumenn í Keflavík, sem Morgunblaðið ræddi við í gær sögðu þetta vera eitt versta veður, sem þeir myndu eftir á Reykjanesbrautinni, þar hefði allt hjálpast að í senn: Rok og skafrenningur og síðan mikil rigning og fljúgandi hálka.
Margt manna lenti í erfiðleikum undir Hafnarfjalli og í Hvalfirði í óveðrinu, þar sem þrír bílar fuku út af veginum og nokkrir lentu í árekstrum. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar í Borgarnesi varð ófærð þó aldrei mikil, þannig að um leið og veðrinu slotaði var greiðfært um flesta vegi. Fólk beið í Olíustöðinni, í Botnsskála og á Ferstiklu meðan veðrið gekk yfir, en það var milli klukkan 17 og 21, lauk því jafnskjótt og það skall á. Veðurhæð var mikil og blindbylur, og orsakaði það bæði bílvelturnar og árekstrana. Ekki er vitað um meiðsl á fólki, og bílarnir sem fuku skemmdust lítið. Mest skemmdist fólksbifreið, sem ekið var framan á rútubifreið. Um leið og hún hafði rekist á hana, kom önnur bifreið aðvífandi og ók aftan á fólksbifreiðina, sem þannig klemmdist milli tveggja bíla.
Morgunblaðið segir enn af skemmdum 1.desember:
Borg, Miklaholtshreppi, 30. nóvember. Á bænum Hraunsmúla í Kolbeinsstaðahreppi hafa verið í byggingu fjárhús yfir 400 fjár. Ekki var að öllu leyti búið að ganga frá þaki húsanna. í rokinu á sunnudagskvöldið [28.nóvember] fauk nokkur hluti þess og við það urðu miklar skemmdir á þakinu. En í gær var verið að vinna að því að koma því í lag sem skemmdist. Ekki veit ég hvort bóndinn á Hraunsmúla hefur foktryggingu á sínum útihúsum. Páll.
Þann 1.desember fór kröpp lægð mjög hratt til norðausturs yfir landið með mikilli úrkomu sum landið suðvestanvert, en hvössum vindi austanlands. Morgunblaðið segir frá 2.desember:
Suðaustanátt með mikilli úrkomu gerði á Vestur- og Suðvesturlandi um hádegisbilið í gær og mynduðust víða stöðuvötn á götum Reykjavíkur og i nágrenni höfuðborgarinnar. Starfsmenn Reykjavíkurborgar höfðu í nógu að snúast við að halda göturæsum opnum. Flug innanlands lá að mestu niðri, aðeins farið í gærmorgun á vegum Flugleiða til Akureyrar og Egilsstaða. Akureyrarvélin varð svo að lenda í Keflavík þar sem Reykjavíkurflugvöllur lokaðist. ... Fært var með suðurströndinni austur. Mikið rigndi fyrir austan og var mikið grjóthrun í skriðunum milli Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar og einnig í skriðunum við Vattarnes.
Stöðvarfirði 1.desember. Sunnanóveður gekk yfir Stöðvarfjörð í dag og urðu miklar skemmdir á húsum og bílum. Hvessa tók upp úr hádegi, en verst var veðrið um klukkan 16:00. Þakjárn fauk af mörgum húsum, stór hurð fauk af frystihúsinu og einnig fauk hurð af skemmu við síldarbræðsluna. Bílar fuku út í skurði og einnig brotnuðu rúður í nokkrum bílum og rúða brotnaði í barnaheimilinu og voru börnin send heim. Veðrið gekk fljótt yfir og um sexleytið í dag var farið að lygna aftur. Ekki er vitað um heildartjón í bænum, en ljóst að tjón hefur orðið talsvert. S.G.
Þann 2.desember segir Morgunblaðið frá afleiðingum flúoreitrunar í fé vegna Heklugossins í ágúst 1980. Er ekki mikið á þetta minnst þegar fjallað er um gosið:
Flúoreitrunin í Skagafirði: En eins og fram kom í Morgunblaðinu í gær, þá þurftu 14 bændur í fremstu dölum Skagafjarðar nýlega að láta opna sláturhúsið til að slátra 440 fjár vegna flúoreitrunar, sem rakin er til öskufalls úr síðasta Heklugosi, í ágúst 1980. ... Varð mikið öskufall hjá ykkur í Heklugosinu? Já, það varð allt svart hérna í fremstu dölum Skagafjarðar og þykkt öskulag yfir öllu. Það varð myrkur um hábjartan dag á meðan á öskufallinu stóð. Við vorum varaðir við að þetta gæti átt sér stað í kjölfar öskufallsins og brugðumst við því með því að slátra lömbunum og flytja féð ofan í sveit. En sennilega höfum við verið of seinir að átta okkur, enda menn óviðbúnir þessum ósköpum og enda erfitt að koma strax af sér fleiri þúsundum fjár.
Tíð í desember var almennt talin sæmileg, einkum framan af. Mikið illviðri gerði þann 19. og talsvert snjóaði suðvestanlands um jólin.
Þann 18. desember dýpkaði lægð gríðarlega fyrir suðvestan og sunnan land. Aðfaranótt þess 19. var lægðin um 500 km suður af landinu á leið austur. Þrýstingur í lægðarmiðju fór niður fyrir 935 hPa. Gríðarlegur strengur var norðan við lægðina, vindur var fyrst af austri, en síðan norðaustri og norðri. Mjög minnisstætt veður fyrir veðurspámenn.
Kortið sýnir stöðuna kl.18 síðdegis þann 19.desember. Gríðarsterkur norðanstrengur er þá yfir landinu. Nú á dögum hefði leiðinni um Kjalarnes, Hvalfjörð og fyrir Hafnarfjall sjálfsagt verið lokað, en áætlunarbíllinn gekk samt þennan dag og var ritstjóri hungurdiska meðal farþega. Þegar áð var á Miðsandi voru þar fjúkandi járnplötur og nærri Fiskilæk í Melasveit sá ritstjórinn hinn ógurlegasta malar- og grjótsveip sem hann hefur nokkru sinni barið augum. Hefði bifreiðin lent í honum er óljóst hvað gerst hefði. En þetta slapp til undir öruggri handleiðslu Sæmundar Sigmundssonar.
Morgunblaðið segir frá 21.desember:
Óveðrið sem geisað hefur á landinu undanfarna daga gekk heldur niður í gær víðast hvar. Veðurstofan spáði því í gær, skömmu áður en Morgunblaðið fór í prentun, að það færi þó ekki að draga verulega úr veðri fyrr en seinnipartinn í dag. Þá var spáð áframhaldandi norðanátt næsta sólarhringinn a.m.k. Sem betur fer er ekki vitað um nein slys á mönnum af völdum veðurofsans undanfarið. Hins vegar urðu talsverðar skemmdir á mannvirkjum, sérstaklega í Vík í Mýrdal og undir Eyjafjöllum. Þá urðu einnig nokkrar skemmdir í Mosfellssveit. Undir Eyjafjöllum brotnuðu 36 rafmagnsstaurar. Þessar skemmdir hafa valdið rafmagnsleysi víða, en Morgunblaðið fékk í gær þær upplýsingar hjá Rafmagnsveitum ríkisins að ef veðrið skánaði eitthvað ætti að vera komið rafmagn í sveitirnar þarna í kring um hádegið í dag.
Miklar skemmdir af völdum óveðursins urðu í Vík í Mýrdal. Rúður brotnuðu í a.m.k. 15 íbúðarhúsum og í Víkurskála fóru allar rúðurnar sem sneru í norður. Þá fuku járnplötur af tveimur íbúðarhúsum, tveimur iðnaðarhúsum og plötur fuku af gripa- og útihúsum víða. Hluti af hlöðu hestamannafélagsins á staðnum fauk til, svo og tveir skúrar, þar af annar á rafmagnsstaur og braut hann. Þrír bílar fuku um koll, tveir þeirra í eigu félaga í björgunarsveitinni Víkverja, en félagar í Víkverja hafa unnið sleitulaust að hjálparstarfi frá því kl sjö á sunnudagskvöld. Símasamband komst á í gærdag í Vík, en þá var heldur farið að draga niður í veðurofsanum og vindur hafði breyst úr fárviðri í hvassviðri. Færð var ekki afgerandi slæm í Vík, einfaldlega vegna þess að snjó festi ekki á vegum fyrir roki. Einar Oddsson, sýslumaður, sagði að skemmdir væru þó alls ekki að fullu kannaðar í Vík og ekkert væri farið að meta tjónið. Einar sagði að meðlimir björgunarsveitarinnar Víkverja hefðu fengið 30 útköll á tímabilinu frá kl. átta á sunnudagskvöld til kl. fjögur um nóttina. Það var mikið af járnplötum og öðru lausadrasli sem fauk um svæðið," sagði Einar, og því augljóst að björgunarmenn lögðu sig í talsverða hættu við störf sín. Þá sagði Einar að almannavarnanefndin í Vík hefði komið saman á fund í gær og komist að þeirri niðurstöðu að rétt væri að óska eftir 1.000 kílówatta stöð til að hafa á svæðinu. Taldi Einar að reynsla undanfarinna ára hefði sýnt að mikil þörf væri fyrir stóra vararafstöð í Vík. Morgunblaðið hafði samband við Þóri Kjartansson, félaga í Víkverja, en hann var farþegi í einum þeirra bíla sem fuku á sunnudaginn. Við vorum stórum Bens, Unimog, sem er frá þýska hernum, bíll á þriðja tonn. Við vorum á leiðinni upp að Víkurskála þegar við fengum á okkur þennan rosalega vind og bíllinn hentist á hliðina út af veginum og fór eina og hálfa veltu. Við vorum þrír í bílnum og máttum teljast heppnir að sleppa með skrámur, en bíllinn er stórskemmdur," sagði Þórir. Hinir bílarnir tveir sem ultu voru jeppar.
Í Mosfellssveit urðu nokkrar smáskemmdir, rúðubrot og minniháttar fok á þakplötum. Mesta tjónið varð þegar timburhús, langt komið i byggingu, fauk Það urðu engin slys á mönnum, eins og áður sagði.
Hins vegar lentu nokkrir í alvarlegum hrakningum, sérstaklega þó maður frá Djúpavogi sem þurfti að yfirgefa bifreið sína skammt frá Svínafelli og skríða með þjóðveginum þriggja km leið þar til hann rakst á kyrrstæðan langferðabíl, sem hafði orðið að stoppa vegna blindbyls. Guðmundur Albertsson, bílstjórinn á áætlunarbíl Austurleiðar segir svo frá: Við lögðum af stað á laugardagsmorguninn kl. hálf níu úr Reykjavík og var ferðinni heitið til Hafnar. Þetta gekk allt ágætlega austur í Vík, en það skóf talsvert frá Vík til Klausturs. Við héldum síðan frá Klaustri til Svínafells og það gekk vonum framar. En síðan þegar við erum komnir 2 km austur fyrir Svínafell skellur á blindbylur, svo rosalegur að maður sá ekki nokkurn skapaðan hlut, ekki fet út úr bílnum. Það var ekki annað að gera en að bíða og það gerðum við til kl. sex, hálfsjö um morguninn, en þá snerum við aftur að Svínafelli. Við höfðum lagt af stað frá Svínafelli kl. hálfníu á laugardagskvöldið og því setið í bílnum í 1011 tíma. Það var nægur hiti, en ég neita því ekki að mér og 27 farþegum var hætt að standa á sama þegar ekkert var hægt að gera svo lengi. Það gerðist á meðan við biðum að maður kom skríðandi að bílnum, talsvert illa haldinn. Hann hafði komist á Skoda-bifreið 3 km austar en við, en þá höfðu rúðurnar hreinlega fokið úr bíl hans og því var ekki annað að gera fyrir hann en að reyna að komast fótgangandi til Svínafells. Það má segja að það hafi verið lán í óláni að rútan sat föst þarna og hann losnaði við að þreifa sig áfram 3 km í viðbót." Á Mosfellsheiði misstu þrjár rjúpnaskyttur bíl sinn útaf aðfaranótt sunnudagsins. Guðjón Haraldsson, formaður björgunarsveitarinnar Kyndils, sagði að mennirnir hefðu dvalið í bílnum 68 tíma áður en þeim barst hjálp. Mennirnir hlutu þó engan skaða af.
Neskaupstað, 20. desember. Aftakaveður var hér í nótt og framundir hádegi, austan og suðaustan veðurofsi. Skemmdir urðu ekki verulega miklar utan það að fjögurra tonna trilla sökk i höfninni og ein gömul bogaskemma Síldarvinnslunnar eyðilagðist. Þá fuku þakplötur víða í sveitinni. Má því segja að við höfum sloppið vel miðað við veðurofsann. Snjókoma var hér ekki mikil um helgina, en ís hlóðst á línur og urðu miklar rafmagnstruflanir í bænum í dag. Varastöðvar eru keyrðar á fullu, en allt kemur fyrir ekki. Kolófært er yfir Oddsskarðið og slæm færð var á götum í morgun, en búið er að ryðja götur núna. Ásgeir
Fáskrúðsfirði, 20. desember. Í óveðrinu er gekk hér yfir aðfaranótt sunnudags urðu skemmdir á raflinum, þannig að nú er sveitin utan við Brimnes í Fáskrúðsfirði og einnig á Reyðarfjarðarströnd rafmagnslaus. Tveir staurar brotnuðu í línunni utan til í Fáskrúðsfirði auk þess sem línan slitnaði víða. Á Kolfreyjustað, þar er prestsetrið, urðu skemmdir á fjárhúsi sem fauk að einhverjum hluta, en þar hefur Eiríkur Guðmundsson, bóndi á Brimnesi II, haft fé undanfarin ár. Drápust sex ær en það sem eftir var af fénu hefur verið flutt inn að Brimnesi. Plötur fuku á íbúðarhúsið og brotnuðu m.a. rúður í einum glugga. Truflanir hafa verið á rafmagni hér í allan dag, en orsakir þess eru að línan frá Reyðarfirði yfir Hryggstekk í Skriðdal virðist vera algerlega úr sambandi, en við fáum rafmagn núna frá línu sem liggur yfir Eskifjarðarheiði og línu sem liggur frá Stöðvarfirði, suðurlínu, auk þess sem dísilstöðin er keyrð á fullu. Mikil ófærð er hér um allt og hefur kyngt niður miklum snjó. Albert
[Sauðárkróki] Segja má að linnulaus norðan stórhríð hafi geisað hér síðan aðfaranótt sunnudags, svo varla hefur sést milli húsa. Veðurhæð er mikil. Snjó festi lítið í fyrstu, en nú hefur dregið í skafla og ófærð er víða á götum bæjarins. Lögreglan hefur aðstoðað fólk sem hefur átt í erfiðleikum við að komast leiðar sinnar.
Tíminn segir frá 22.desember:
Það er hér allt á rúi og stúi og það er líkast því að hér hafi hvirfilbylur farið yfir eða orðið jarðskjálftar og tjónið er alveg gífurlegt, sagði Vigfús Andrésson, bóndi í Berjanesi undir Eyjafjöllum í samtali við Tímann skömmu eftir að símasamband komst á að nýju við bæina sem verst urðu úti í óveðrinu sem geisaði við suðurströndina. Vigfús sagði að í Berjanesi hefðu þök fokið af fjárhúshlöðu og fjóshlöðu, járnbentir steinveggir hefðu lagst niður undan veðurofsanum og bílar, traktorar og annað lauslegt hefði fokið um koll. Rúður og hurðir hefðu brotnað, rafmagn farið af og símasambandslaust hefði verið. Hitinn í íbúðarhúsinu hefði farið niður í fjórar gráður og þannig hefði fólk orðið að þrauka í rúma tvo sólarhringa, þangað til rafmagn komst á að nýju fyrir tilstilli díselrafstöðvar um hádegisbilið í gær. Það hafa orðið alveg gífurlegar skemmdir hér í Berjanesi og ég óttast að því miður séu ekki öll kurl komin til grafar. Það á eltir að koma í ljós hvað veðurofsinn hefur leikið íbúðarhúsið illa, sagði Vigfús. Að sögn Vigfúsar byrjaði þetta aftakaveður sem geisaði í rúma tvo sólarhringa með austan roki á laugardag. - það var svo upp úr klukkan 16 að hann skall á með feiknalegum ofanbyl, sem síðan færðist yfir í austan áhlaup. Vindáttin snerist síðan smám saman til norðurs og þá náði vindurinn að magnast þannig upp, að hviðurnar rifu plötur af húsum og rúður brotnuðu. Það var svo um klukkan 16 á sunnudag að hann skall skyndilega með norðvestan og þá ætlaði fyrst allt um koll að keyra, sagði Vigfús. Í þessu áhlaupi fauk þak af 14 metra langri fjárhúshlöðu og jafn langur steinveggur brotnaði niður til hálfs undan veðurofsanum ofan á gamlan bíl. Sperrur, allt timbur og járn og helmingurinn af heyinu í hlöðunni fauk út í buskann. Þá fór þak af helmingi 17 metra langrar fjóshlöðu og steyptur gafl kross-sprakk. að sögn Vigfúsar. - Og það var ekki nóg með það. Vindurinn braut nær allar rúður á þrem hliðum íbúðarhússins og ég held ég geti talið þær rúður sem ekki eru brotnar í hlöðubyggingunum á fingrum annarrar handar, sagði Vigfús í samtali við Tímann. Þá fuku járnplötur af íbúðarhúsinu og svalahurð á efri hæð brotnaði þannig að veðurofsinn geisaði óhindraður í gegn um húsið. Leirtau og annað lauslegt innanhúss fauk út úr skápum og Vigfús sagði að aðkoman hefði verið líkust því að hvirfilbylur hefði geisað. - En það var kannski eins gott að það gat blásið í gegn því annars hefði allt brotnað upp. Ég var í Borgarfirðinum þegar jarðskjálftarnir urðu þar og svona eftir á að hyggja þá held ég að eyðileggingarmætti þessa veðurs mætti líkja við jarðskjálfta, sagði Vigfús Andrésson. - ESE
Morgunblaðið segir enn af tjóni í pistli 22.desember:
Vík í Mýrdal: Ekki urðu slys á fólki í óveðrinu, en þó munaði mjóu þegar bíll björgunarsveitarinnar fauk út af veginum og einn björgunarsveitarmaður féll út úr honum og bíllinn valt á fætur hans. Það varð honum hinsvegar til happs að hann var í fjallgönguskóm með stálsóla og lá bíllinn á skónum og urðu skórnir til þess að maðurinn beinbrotnaði ekki. Segja má að skórnir hafi haldið uppi bílnum, samkvæmt upplýsingum sem Morgunblaðið fékk hjá Reyni Ragnarsyni í Vík í Mýrdal. Nokkurt tjón varð í Vík í óveðrinu um helgina og brotnuðu rúður í 15 húsum og járnplötur fuku af nokkrum húsum, samkvæmt upplýsingum Reynis. Reynir sagði að ekki væri farið að meta tjónið nákvæmlega.
Að kvöldi aðfangadags og á jólanótt snjóaði mjög á höfuðborgarsvæðinu. Alautt var í Reykjavik að morgni aðfangadags, en á jóladagsmorgunn var snjódýptin 29 cm. Ritstjóri hungurdiska var á næturvakt og þurfti að setja keðjur undir bifreið sína um morguninn til að komast heim eftir óruddum götum - en það rétt svo gekk.
Morgunblaðið segir frá þessu 28.desember:
Mikil snjókoma varð við Faxaflóa aðfaranótt jóladags, og mældist úrkoman milli 23 og 30 sm jafnfallinn snjór, samkvæmt upplýsingum er Morgunblaðið fékk i gær hjá Veðurstofu Íslands. Því fer þó fjarri að hér sé um met að ræða, því 43 sm jafnfallinn snjór féll veturinn 1978 og snjókoma mældist 51 sm árið 1937, svo dæmi sé tekið. Snjókoman núna er þó hin mesta allrasíðustu ár. Samkvæmt upplýsingum Veðurstofunnar var snjókoman mest við Faxaflóa, en þó snjóaði mikið víða um land, og hélt enn áfram að snjóa í gær. Nú síðla í nótt sem leið var svo spáð suðvestanátt, sem á að breytast í sunnan- og síðar suðaustanátt með snjókomu fyrst, síðan slyddu og loks rigningu, ef áttin helst nægilega lengi. Veðrinu fylgir hvassviðri, hugsanlega allt að 10 til 11 vindstig, og búist er við að veðrið taki til landsins alls.
Þann 28. hlánaði með afgerandi sunnanátt og á gamlársdag fór kröpp lægð til norðurs fyrir vestan land. Veður hafði þó gengið niður að mestu þegar áramót gengu í garð.
Morgunblaðið segir 29.desember af vatnavöxtum í Rangárþingi:
Miklir vatnavextir urðu á svæði sem markast af Eystri- og Ytri-Rangám í gær vegna rigninga og asahláku í gær og fyrrinótt, og þar sem hitaveitulögnin frá Hellu til Hvolsvallar fór í sundur af völdum flóða á Rangárvöllunum fór að kólna í húsum á Hvolsvelli í gærkvöldi Mér sýnist þetta heldur vera í rénun, að vísu er aftur byrjað að rigna, en ég held að leysingin sé að mestu farin fram, sagði Sveinn Ísleifsson lögregluvarðstjóri á Hvolsvelli í samtali við Morgunblaðið í gærkvöldi. Sveinn sagði að menn hefðu verið vongóðir um að takast mætti að koma hitaveitunni í samt lag í dag. Sveinn sagði að vegna landshátta í nágrenni Hvolsvallar hefði stórt landssvæði farið undir vatn í dag. Rigningin hefði verið geysileg og hlákan einnig. Ekkert tjón hefði orðið á húsum eða truflanir á samgöngum. Hins vegar hefðu laskast stöplar undir hitaveitulögninni þar sem hún liggur ofanjarðar við Strandasýki og einnig hefði veggur undir uppfyllingu í Djúpadal rofnað og því grafist þar undan rörunum. Sveinn sagði að vatnið hefði gusast fram í gær í farvegum, sem venjulega væru þurrir. Það færi út í Rangárnar báðar og endaði síðan í Þverá. Væri yfir að líta eins og stórt stöðuvatn á flatneskjunni við og fyrir ofan Hvolsvöll.
Morgunblaðið segir frá umferðaróhappi í Patreksfirði í pistli 6.janúar 1983:
Bíll með þremur innanborðs fauk fram af 20 metra háum kanti í Patreksfirði: Við sluppum eins vel og hugsast getur. Við fórum þarna fram af háum kanti og staðnæmdist bíllinn á
sjávarbakka eftir um 20 metra fall, sagði Guðmundur Friðgeirsson skólastjóri í Örlygshöfn í samtali við Morgunblaðið, en bíll sem hann ók fauk út af veginum við bæinn Raknadal í Patreksfirði á næstsíðasta degi nýliðins árs [30.]. Ásamt Guðmundi voru í bílnum kona hans og sonur en ekkert þeirra sakaði. Það var ekkert hægt að gera til að halda bílnum á veginum. Hann var eins og fis í greipum óveðursins og fauk hreinlega út af. Það er kraftaverk að við skyldum sleppa svona vel. ... Það verður oft býsna byljótt þarna niður úr dalnum í suðaustanáttinni, og bílstjórar hafa oft lent í erfiðleikum. Verða þarna ofsaveður. Bóndi sem var að vitja áa þarna skammt frá þorði t.d. ekki annað en að færa til vörubíl, sem hann var á, sagði Guðmundur. Guðmundur sagði að ferðalangarnir hefðu verið á leið frá Patreksfirði út í Örlygshöfn handan fjarðarins, en þar á milli eru rúmir 40 kílómetrar. Slysstaðurinn er í um átta kílómetra fjarlægð frá Patreksfirði.
Hér lýkur samantekt hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1982. Að vanda má finna margvíslegar tölulegar upplýsingar í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (11.9.): 224
- Sl. sólarhring: 265
- Sl. viku: 1499
- Frá upphafi: 2497554
Annað
- Innlit í dag: 206
- Innlit sl. viku: 1344
- Gestir í dag: 187
- IP-tölur í dag: 185
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- September 2025
- Ágúst 2025
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning