Miðsumar - eða þar um bil

Á þessum árstíma hafa hungurdiskar oft fjallað um miðsumar - eða hásumar. Í gamla íslenska tímatalinu er miðsumar sett á sunnudag í 14.viku sumars. Á þessu ári ber hann upp á 27.júlí, getur fyrst fallið á þann 22., en síðast á 28.

Í íslenska tímatalinu eru tólf mánuðir. Þeir eru allir 30 dagar að lengd. Tólf sinnum þrjátíu eru 360, en árið er hins vegar 365,25 dagar. Til að bæta úr þessu misræmi er fjórum dögum skotið inn á milli mánaða á miðju sumri, aukanætur nefnast þeir. Fjórir sólarhringar sem formlega tilheyra hvorki skerplu né heyönnum. Í ár eru 23. til 26.júlí aukanætur. Þá eru dagarnir orðnir 364. Vikurnar í íslenska tímatalinu eru 52, hver vika er 7 dagar (að vísu smáóregla við misseraskiptin). Árið - mælt í vikum - er því líka 364 dagar. Til að tímatal og árslengd falli saman er á 5 til 6 ára fresti skotið inn aukaviku, svonefndum sumarauka. Eftir að það hefur verið gert gengur allt upp - árið verður að meðaltali jafnlangt. Sólstöður rekur ekki á milli árstíða. 

Eins og oft hefur fram komið á hungurdiskum fellur þetta gamla miðsumar mjög vel að miðsumri náttúrunnar. Hiti er að meðaltali hæstur á landinu einmitt þessa daga og sömuleiðis er hásumar í hringrás veðrahvolfsins, vestanvindabeltið kemst eins nærri hvíldarstöðu og það getur gert. Til að það breytist þarf misræmi á milli hlýnunar heimskautaslóða og lægri breiddarstiga að verða talsvert meira heldur en útlit er fyrir að það geti orðið, jafnvel þótt hlýnun af völdum aukinna gróðurhúsaáhrifa verði enn meiri en svartsýnustu spár gera ráð fyrir. Að vísu flækir margt það mál - þótt ólíklegt sé að hvíldarstaðan hnikist til í tíma gæti hún þó orðið öðru vísi en við höfum átt að venjast - engin trygging fyrir því. Um slíka möguleika höfum við rætt áður (kannski mætti gera það aftur).

Eins og oft áður lítum við á háloftakort sem sýnir stöðuna nú á miðsumri.

w-blogg220725a

Heildregnar línur sýna hæð 500 hPa-flatarins um hádegi í dag, þriðjudaginn 22.júlí 2025. Af þeim ráðum við vindátt og vindstyrk í miðju veðrahvolfi. Litafletir sýna þykktina, hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Ísland er rétt neðan við miðja mynd. Tveir hringir (blá, slitin lína og rauð) hafa verið settir inn á myndina. Stærri hringurinn (sá bláleiti) sýnir í stórm dráttum aðsetur heimskautarastarinnar, sem er heldur veikbyggð - eins og vera ber. Á henni eru fjölmargir hlykkir, 5 til 7 - svona eftir því hversu smámunasöm við erum. Almennt er mun kaldara norðan við röstina heldur en sunnan hennar. Þó má hér sjá tvær veigamiklar undantekningar. Tvær hlýjar hæðir eru norðan við röstina, loft sem sloppið hefur norður fyrir. Hæðin yfir Skandinavíu er undirstaða hlýindanna hér að undanförnu. Þykktin hefur nú um alllangan tíma verið á milli 5500 og 5600 metrar, skaut sér jafnvel upp fyrir það fyrir viku síðan. Hin hæðin er enn hlýrri, en óstöðugri, yfir austanverðri Síberíu. 

Það er mjög algengt að greina megi annan hring, mun minni, á kortum sem þessum. Hann er merktur hér með rauðu. Oft er hann greinilegri heldur en nú. Í honum eru tveir (til þrír) kuldapollar. Kalt Norðuríshafið viðheldur þeim, mikil varmaorka fer í að bræða ís á þessum tíma árs - það dregur úr þykktinni og heldur kuldapollunum við. Eftir um það bil hálfan mánuð fara þeir að fá verulega aðstoð - þegar sól lækkar að mun á lofti og allar norðurslóðir taka að kólna. 

Oft er þessi tveggja hringja staða nokkuð stöðug - en þó er einkum tvennt sem vill raska henni. Annar vegar er alltaf dálítil hreyfing á kuldapollunum - þeir eiga það til að renna suður á bóginn. Þá styrkist hringrásin í þeim og rauða hringnum og þeim bláa getur jafnvel slegið saman - og geta í kjölfarið orðið breytingar um mestallt hvelið. Hins vegar geta komið krappir sveigir á heimskautaröstina - það gerist einkum þegar það sem ritstjóri hungurdiska hefur kosið að kalla hvarfbaugshroða fer á kreik. Þetta er eins konar samheiti yfir fellibylji, hitabeltislægðir og önnur kerfi sem bera mikið af raka upp í efri lög veðrahvolfsins. Fyrirferðin þar getur orðið það mikil að sveigja komi á heimskautaröstina - hún fer þá norðar - og sunnar en venja er. 

Eitt svona svæði er sjáanlegt á þessu korti (gul ör) - nokkuð öflug sunnanátt sem nær yfir fjölmörg breiddarstig - hugsanlegur breytingavaldur. Annað slíkt sunnanáttarsvæði er við hæðina í Síberíu - hún er óstöðug, brotnar niður og sendir minni bylgjur frá sér sem geta valdið breytingum. 

Við skulum nú til gamans líta á spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir á mánaðamótum, eftir tæpa tíu daga. Ekki er líklegt að hún sé rétt í smáatriðum - en við sjáum að talsverðar breytingar hafa orðið frá því sem nú er - sé hún rétt.

w-blogg220725b

Stóri hringurinn hefur stækkað, og meginbylgjumynstrið er orðið grófara - meginbylgjurnar eru nú 3 til 5, en ekki 5 til 7 eins og nú er. Hæðin yfir Skandinavíu horfin, og Síberíuhæðin líka, en ný hæð komin yfir vestanverða Síberíu. Kuldapollurinn í Íshafinu hefur styrkst verulega - og sá sem á fyrri mynd var við norðvestanvert Grænland hefur skipt sér - hluti farið suður til Hudsonflóa, en annar hluti suðaustur um Ísland og veldur þarna talverðu kuldakasti. Þykktin komin vel niður fyrir 5400 metra, hiti í neðri hluta veðrahvolfs um 10 stigum lægri heldur en er í dag. Það kólnar þó ekki svo mikið þar sem skýjað er og þokuloft í dag - vegna þess að við njótum hlýindanna í háloftunum ekki að fullu. Þeir staðir þar sem hiti er í dag yfir 20 stig finna hins vegar breytinguna að fullu - og kannski rúmlega það.

En höfum í huga að hér er ekki beinlínis um spá að ræða - aðeins sýnidæmi um hugsanlegar breytingar á stöðu sem verið hefur læst um hríð. 

Hásumri lýkur í háloftunum á tímabilinu 8. til 24. ágúst. Þá fer haustgrunur að gera vart við sig.  


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sex og sex?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg220725b
  • w-blogg220725a
  • w-blogg170725
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.7.): 334
  • Sl. sólarhring: 335
  • Sl. viku: 1641
  • Frá upphafi: 2486709

Annað

  • Innlit í dag: 306
  • Innlit sl. viku: 1461
  • Gestir í dag: 287
  • IP-tölur í dag: 286

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband