Frekari hlýindi

Mjög hlýtt hefur verið víðast hvar á Norðaustur- og Austurlandi undanfarna daga og nú virðist líklegt að verulegra hlýinda gæti í flestum landshlutum - að minnsta kosti um stundarsakir. Dálítið hringl er í spám um það hvar og hvenær hlýindin „toppa“ að þessu sinni. Mánudagurinn er talinn líklegastur um suðvestanvert landið, en kannski frekar þriðjudagurinn á Vestfjörðum. Fleiri dagar koma til greina um landið norðaustan- og austanvert. 

Við höfum stöku sinnum hér á hungurdiskum litið á útgilda- og „halavísi“ evrópureiknimiðstöðvarinnar. Ritstjórinn játar þó - eins og venjulega - að hann hefur fremur litla reynslu í túlkun þessara vísa - en veit þó að talvert mark er á þeim takandi í aðalatriðum - þótt smáatriðin kunni að vera misvísandi - eða illtúlkanlegri. 

w-blogg110725a

Hitabylgjuvísirinn er hvað ákveðnastur fyrir mánudaginn. Dökku svæðin sýna eins konar líkur á metum (miðað við samanburðartímabil líkansins). Á dekksta svæðinu er mjög líklegt að hitamet verði slegin - minni líkur á ljósari svæðunum. Heildregnar línur sýna svokallaðan halavísi - hæsta talan er 3,5 - sem er óvenjulegt fyrir hita (algengara á úrkomukortum). Hæsta talan er við Snæfellsnes - það þýðir ekki að hitinn verði hæstur þar heldur fremur að þar verði hitinn óvenjulegastur. En eins og áður sagði er hér einungis miðað við frekar stutt samanburðartímabil - ekki 100 ár eða neitt þvílíkt (slíkt verður áreiðanlega á borðinu innan fárra ára). Í maíhitabylgjunni miklu í vor voru hæstu halavísisgildin yfir fjórum - öllu hærri en hér er um að ræða. En næstu daga verður áreiðanlega eitthvað hringl á þessu korti (það er birt tvisvar á dag). Við skulum taka eftir því að Húnaflóasvæðið sker sig úr - þar er ekki meta að vænta - að sögn líkansins - og sama á einnig við um ystu nes Austfjarða. 

Til gamans skulum við líta á klippu úr korti þriðjudagsins - en horfum sérstaklega til Grænlands. (En hæsta gildið yfir Íslandi er 3,3 - þá á Vestfjörðum). 

w-blogg110725b

Hér má sjá að halavísirinn nær 10,0. Þetta er hreint ótrúleg tala og minnist ritstjórinn þess ekki að hafa séð neitt ámóta (en hann hefur þó mjög takmarkaða reynslu). Hér er þó ýmislegt að athuga. Í fyrsta lagi eru engar mælingar á þessu svæði - meintur samanburður er allur úr líkaninu - og hvort eitthvað vit er í því í innfjörðum Scoresbysunds er allsendis óvíst. Landslag er þar sérlega stórbrotið og engin von til þess að líkanið nái því til fullnustu þótt það sé býsna nákvæmt. Í þessu felast ákveðin aðvörunarorð - við getum ekki í reynsluleysi gripið tölur af þessu tagi hráar - og ákveðið hvað þær þýða. Reynsla verður að koma til. 

Hlýja loftið sem er á leið til landsins nær hingað á sunnudagskvöld. Kortið hér að neðan sýnir stöðuna þá.

w-blogg110725c

Heildregnu gráu línurnar sýna sjávarmálsþrýsting, við sjáum að vindur stendur af austri. Rauðar strikalínur sýna þykktina (í dekametrum, 1 dam = 10 metrar). Það er 5600 metra jafnþykktarlínan sem liggur þvert yfir landið, frá norðri til suðurs - hún berst til vesturs í austanáttinni. Svona mikil þykkt er óvenjuleg - en þó ekki nærri meti - seint á mánudag og á þriðjudag snertir 5640 metra jafnþykktarlínan landið (að sögn) - það er nær metum. 

Lituðu svæðin sýna svokallað veltimætti (CAPE = convective available potential energy). Oft notað sem ábending um líkur á hellidembum eða þrumuveðri. Það er furðualgengt að þegar mjög hlýtt loft ryðst norðvestur til Íslands frá Evrópu er þrumugarður í jaðri þess. Þetta eru harla sérkennileg þrumuveður (þegar þau gerir á annað borð). Þau eru ekki knúin af hitun að neðan (eins og langalgengast er). Heldur er um að ræða misgengi vindátta - loft er dregið að úr misjöfnum áttum þannig að rakt og hlýtt lendir undir kaldara þurru. Það virðist einnig einkenni þessara ákveðnu veðra hér á landi að líkur á eldingum eru mestar að nóttu - en ekki að degi eins og venjulegt er. Ástæðan er sú að sé um úrkomubakka að ræða verður hann fremur óstöðugur að næturlagi vegna kólnunar efsta hluta hans. Þessir þrumu- eða skúragarðar sem fara á undan hitabylgjum eru oftast fremur þurrbrjósta hér á landi - eftir langt ferðalag. En við bíðum auðvitað eftir hinum fullkomna garði - sem auðvitað kemur einhvern daginn.

Alls ekki er víst að neinn garður fari á undan hitanum að þessu sinni, en þetta kort evrópureiknimiðstöðvarinnar bendir þó til þess að það gæti orðið - og því yrðum við ekki hissa. En við verðum auðvitað ekki heldur hissa þótt einskis verði vart. 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af sjö og sex?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.7.): 64
  • Sl. sólarhring: 365
  • Sl. viku: 1773
  • Frá upphafi: 2484035

Annað

  • Innlit í dag: 57
  • Innlit sl. viku: 1582
  • Gestir í dag: 56
  • IP-tölur í dag: 54

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband