Sneið - frekar en heil kaka?

Nokkuð hlýrra loft hefur verið í námunda við landið síðustu daga heldur en annars að undanförnu. Landshámarkshiti dagsins mældist 26,3 stig á Egilsstaðaflugvelli - nokkuð yfir væntingum og talsvert hærri heldur en næsthæsta mælingin (23,5 stig á Hallormsstað). 

Reiknimiðstöðvar hafa undanfarna daga verið að stinga upp á því að enn hlýrra loft komi til landsins um helgina eða upp úr henni, en enn er það frekar sýnd veiði heldur en gefin. Auk þess hefur ekki verið samkomulag um það hvort við fáum bara til þess að gera þunna sneið af mjög hlýju lofti - en ekki heila köku eins og var í maí. Sá er munurinn að sneiðar nægja venjulega ekki öllu landinu - og klárast að auki á augabragði. 

Sem stendur er meginlíkan evrópureiknimiðstöðvarinnar frekar á að gefa okkur sneið - kannski í þykkara lagi þó. Við lítum á tillöguna eins og hún er á hádegismatseðli hennar.

w-blogg090725a

Kortið sýnir þykktina og hita í 850 hPa-fletinum á mánudagskvöld (15.júlí). Þykktin yfir landinu suðvestanverðu er um 5600 metrar - og það má upplýsa að vindátt er austlæg þannig að hiti ætti að vera ofan við 20 stig - alla vega inn til landsins. Fyrir norðan er enn meiri þykkt, allt upp í 5650 metra - nærri því sem mest verður hér við land. Það fer auðvitað eftir alls konar tilviljunum hversu hátt landshámark þykkt sem þessi gefur - fer m.a. eftir því hvort sjávarlofti verður haldið í skefjum eða ekki. Látum vera að velta vöngum yfir því - þetta er allt harla óáreiðanlegt. Hiti í 850 hPa er spáð á bilinu 1ö til 12 stig yfir Suðvesturlandi, en yfir 14 stig við Norðurland. Metið yfir Keflavíkurflugvelli er 13,9 stig (reyndar ótrúverðug mæling) - áreiðanlegri eru 13,6 stig þann 29.júlí 2018. Þá féll slatti af hitametum - og það ótrúlega gerðist að hæsti hiti dagsins - og ársins - á landinu mældist á Patreksfirði. - En þetta var bara flís af hlýindum - varla sneið. Sama dag árið eftir kom þó heil sneið (en ekki meir) - hún dugði í 26,8 stig í Hjarðarlandi - og varð líka hæsti hiti ársins það árið (2019). 

Spáin fyrir laugardaginn kemur (12.júlí) er trúlega aðeins áreiðanlegri. 

w-blogg090725b

Kortið gildir um hádegi á laugardag. Heildregnu línurnar sýna hæð 500 hPa-flatarins, af þeim ráðum við vindátt og vindstyrk í miðju veðrahvolfi. Litir sýna þykktina, hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Mikill sunnanstrengur er fyrir vestan Bretlandseyjar, miðja hans er rétt austan við Ísland. Mjög hlýtt loft berst til norðurs með sunnanáttinni, en strengurinn markar jafnframt skörp skil sem eru nærri sjávarmáli - undir strengnum. Köld lægð er suðvestur í hafi. Örlög hlýindanna ráðast mjög af hegðan þessarar lægðar. Hreyfist hún lítið gæti hún sveigt hlýindin nægilega til vesturs til að við fáum notið þeirra. Reiknað er með því að það gerist - en nú sem stendur á lægðin síðan að nálgast okkur. Geri hún það stuggar hún við hlýindunum og sneiðin hörfar til norðurs og norðausturs - en við lendum í köldu lofti lægðarmiðjunnar (eins og oftast við svipaðar aðstæður). 

Fleira má benda á á kortinu. Lægð er yfir austanverðri Evrópu. Hún heldur mestu hlýindunum í skefjum þar, en sér til þess að Skandinavía nýtur þeirra - þykktinni á sunnudag er spáð upp í 5700 metra yfir Mæri í Noregi á sunndag. 

Kuldapollurinn á norðurslóðum er hér mjög öflugur, en spár eru ekki sammála um hvað hann svo gerir í framhaldinu. Mjög öflug lægð er á austurjaðri hans, við Baffinsland.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fjórum og sjö?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg090725b
  • w-blogg090725a
  • w-blogg060725a
  • w-blogg040725a
  • w-blogg020725c

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.7.): 24
  • Sl. sólarhring: 309
  • Sl. viku: 1618
  • Frá upphafi: 2483310

Annað

  • Innlit í dag: 24
  • Innlit sl. viku: 1461
  • Gestir í dag: 24
  • IP-tölur í dag: 24

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband