Þarf einhverja endurstillingu?

Ritstjóri hungurdiska hefur ítrekað síðustu dagana orðið var við töluverðan umkvörtunartón og mun verr er látið með veður heldur en honum finnst tilefni til (alla vega hér suðvestanlands). Líklega er það hinn óvenjulegi hiti í maí sem hefur valdið því að tilfinning gagnvart veðri hefur ef til vill eitthvað raskast. 

Hlýindin í maí voru óvenjuleg á ýmsan hátt. Ritstjórinn er þó tregur til þess að tengja þau um of við almenna hlýnun í heiminum, en látum þá umræðu liggja á milli hluta hér og nú. En um mánaðamótin kólnaði hressilega og voru fyrstu tíu dagar júnímánaðar mjög kaldir. Meðalhiti í byggðum landsins var ekki nema 5,4 stig þessa tíu daga og kaldasta daginn (þann 3.) var hann ekki nema 3,9 stig. Eftir það hlýnaði og hefur meðalhiti síðustu tíu dagana verið 8,8 stig - og tiltölulega jafn - og mjög nærri margárameðaltölum þessa árstíma, eðlileg júnítíð. 

w-blogg210625aa

Lítum á háloftaspákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir síðdegis á morgun, sunnudag 22.júní. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar og af þeim ráðum við vindstefnu og styrk. Áttleysa er yfir landinu. Þeir sem vilja geta kvartað yfir því að lægðarsveigja er á jafnhæðarlínum - slíkt eykur líkur á úrkomu. Úrkoma hefur verið í ríflegra lagi á Norðaustur- og Austurlandi, en suðvestanlands hefur hún verið fulllítil fyrir gróður þar til nú allra síðustu daga að nokkur bót hefur orðið á. Við verðum að hafa í huga að þótt gott sé að grilla er ekki gott að gróðurinn grillist líka - hann þarf sína vökvun til að vaxa og þroskast. 

Litir sýna þykktina. Hún mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Guli liturinn sýnir þykkt á bilinu 5460 til 5520 metra. Af nákvæmara korti má ráða að talan yfir miðju landi sé 5480 metrar. Það er um 80 metrum yfir meðallagi mánaðarins. Neðri hluti veðrahvolfs er um 4 stigum hlýrri heldur en að meðaltali. 

Við lítum nú nánar á þykktina og samband hennar við meðalhita á landinu. Grípum í endurgreiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar á tímabilinu 1940 til 2022. Við eigum hitameðaltöl aftur til 1949 - og notum þau til samanburðar. 

w-blogg210625a

Hér má sjá niðurstöður fyrir allt árið. Þykktin er sýnd á lárétta ásnum (hér rituð í dekametrum = 10 metrar). Reiknaður er meðalhiti hvers þykktardekametra. Punktadreifin trosnar dálítið til endanna þar sem mjög fáir dagar eru að baki hvers meðaltals, en að öðru leyti fylgist meðalhiti og þykkt vel að. Hið almanna samband hita og þykktar segir að hiti hækki um það bil 0,5 stig á hvern dekametra. Vegna þess að kalt loft vill liggja neðst, en hlýtt hins vegar efst, er hallatalan sem við sjáum á myndinni minni heldur en 0,5 stig, hún er nær 0,4 stigum. Við verðum að hafa í huga að margt dylst á bakvið meðaltal. Á sólardegi er dægursveifla hitans miklu meiri heldur en í alskýjuðu veðri. Sé þykktin t.d. 548 dekametrar (eins og spáð er á morgun) segir línuritið okkur að samsvarandi landsmeðalhiti sé 9,8 stig. Meðalhitinn gæti verið nærri lagi hvort sem sólskin er eða ekki, en bragðið af þessari þykkt er samt allt annað í sólskini heldur en í rigningu. Á sólardegi og með hóflegum vindi af landi getur hámarkshiti hæglega farið í um 20 stig (og næturhitinn niður í 3 til 5 stig), en í rigningu á hámarkshitinn e.t.v. erfitt með að ná 11 stigum, en lágmarkið fer varla undir átta. 

w-blogg210625b

Hér má sjá tíðnidreifingu þykktar í júnímánuði. Meðaltalið er um 540 dekametrar. En þetta er býsna þröngur toppur, það eru ekki nema 3 dekametrar til hvorrar handar, niður í kaldasta þriðjung dreifingarinnar og upp í þann hlýja (537 til 543 dam). Kaldasti fimmtungurinn nær upp í 534 dekametra - allt þar undir er mjög kalt og hlýjasti fimmtungurinn byrjar við 547 dam - allt þar fyrir ofan er mjög hlýtt - miðað við árstíma. 

Það er sum sé spáð mjög hlýjum degi á landinu á morgun. Hversu margir skyldu geta tekið undir það? Hversu margir þurfa endurstillingu? 

Hvernig breytir hnattræn hlýnun tíðniriti sem þessu? Einfalda svarið er að við vitum það ekki. Við gætum giskað á að toppurinn hliðrist til hægri, en hvort halarnir til beggja átta fylgja í takt vitum við ekki. Meðalþykkt hefur hjakkast hægt upp á við sé litið til langs tíma. En þá vitum við ekki heldur hvort hallatalan á fyrri mynd breytist. Það skiptir augljóslega mjög miklu máli, en í öllum þeim ógurlega haug greina og áróðursrita sem fjalla um hnattræna hlýnun og afleiðingar hennar er nær ekkert að finna um hugsanlegar breytingar á stöðugleika loftsins. Nær ekkert - eitthvað smávegis samt. Fyrir 35 árum eða svo þegar ritstjóri hungurdiska fór fyrst af alvöru að velta vöngum yfir hnattrænni hlýnun var hann viss um að hallatalan myndi lækka með hlýnandi veðurfari. Það öfuga gerðist hins vegar - alla vega tímabundið. Sýndi ritstjóranum betur en margt annað að ekki er allt klárt og kvitt í þessu máli. 

Næstu daga á hitinn að þokast heldur niður á við, en þó á þykktin að vera ofan eða við meðallag alla vikuna. Notum hana til að stilla veðurtilfinningu okkar af - til fyrri vegar. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Sæll Trausti. Ég sé að véfréttin frá Delfí er komin í skotgrafirnar, enn og aftur.

"Ritstjórinn er þó tregur til þess að tengja þau um of við almenna hlýnun í heiminum, en látum þá umræðu liggja á milli hluta hér og nú."

"Hvernig breytir hnattræn hlýnun tíðniriti sem þessu? Einfalda svarið er að við vitum það ekki."

"Sýndi ritstjóranum betur en margt annað að ekki er allt klárt og kvitt í þessu máli."

Hvernig væri nú að Ritstjórinn viðurkenndi fyrir sjálfum sér og öðrum að loftslag Jarðar er fullkomið óreiðukerfi sem ógjörningur er að reikna út?

Sú niðurstaða slær að vísu á geislabaug starfsmanna Veðurstofunnar sem eru sístarfandi við að bjarga Íslendingum frá meintu skelfilegu hnatthlýnuninni sem engin er - á ríflegum ríkislaunum að sjálfsögðu.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 23.6.2025 kl. 07:37

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Hilmar - það er óþarfi að tala véfréttina í Delfí niður - hún hafði svo sannarlega fingur á púlsinum. Hnattræn hlýnun gengur sinn gang svo lengi sem sú óðalosun gróðurhúsalofttegunda sem nú er í gangi á sér stað - sömuleiðis þau atriði sem beint af henni leiða, svosem rýrnun jökla, hækkun sjávarborðs og súrnun sjávar. Þegar þessum einföldu atriðum sleppir tekur hins vegar umtalsverð óvissa við. Hún er mjög miklu meiri heldur en mætti ráða af samantektum fjölmiðla og þeim einfölduðu gerðum af skýrslum IPCC sem bornar eru á borð fyrir almenning og aðra. Vafaatriðin koma hins vegar nær öll fram í ítarlegri gerðum skýrslanna svo ekki sé talað um þær óteljandi rannsóknir sem þar liggja að baki. Það er ekki auðvelt úr að komast og því tilefni til allskonar sölumennsku, jafnt smárrar sem stórbrotinnar. Margt af því sem boðið er upp á til lausna gerir raunar illt verra. Hef sjálfur fylgst nokkuð ítarlega með umræðum um veðurfarsbreytingar í meir en 50 ár og séð hvernig þær hafa þróast. Umfjöllun og áhyggjur af veðurfarsbreytingum eiga sér að auki margra alda sögu - þar með taldar áhyggjur af áhrifum manna á veðurfar. 

Trausti Jónsson, 23.6.2025 kl. 18:40

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Júlí 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30 31    

Nýjustu myndir

  • w-blogg110725c
  • w-blogg110725b
  • w-blogg110725a
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.7.): 95
  • Sl. sólarhring: 178
  • Sl. viku: 2005
  • Frá upphafi: 2485004

Annað

  • Innlit í dag: 84
  • Innlit sl. viku: 1790
  • Gestir í dag: 75
  • IP-tölur í dag: 71

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband