Fyrstu 20 dagar maímánaðar 2025

Fyrstu 20 dagar maímánaðar 2025 hafa verið alveg sérlega hlýir, sérstaklega þó síðasta vikan rúm. Meðalhiti í Reykjavík er 9,1 stig og er það +3,1 stigi ofan meðallags sömu daga 1991 til 2020 og +3,8 stig ofan meðallags síðustu tíu ára. Er þetta langhlýjasti slíkur kafli það sem af er öldinni. Meðal aldarbræðra voru sömu dagar 2015 kaldastir, meðalhiti þá 3,7 stig. Á langa listanum (151 ár) er hiti nú í næsthlýjasta sæti, það var lítillega hlýrra fyrstu 20 daga maímánaðar 1960, meðalhiti í Reykjavík var þá 9,3 stig, en lækkaði um 0,5 stig til mánaðamóta og endaði í 8,7 stigum. Hlýjasti maí í Reykjavík er 1935, meðalhiti þá endaði í 8,9 stigum. Kaldastir voru þessir sömu dagar árið 1979, meðalhiti þá var aðeins 0,5 stig. 

Á Akureyri hefur verið enn hlýrra heldur en í Reykjavík. Meðalhiti fyrstu 20 dagana er 10,7 stig og er það +5,4 stigum ofan meðallags 1991 til 2020 og +5,3 stigum ofan meðallags síðustu tíu ára. Við getum reiknað meðalhita hluta mánaða á Akureyri 90 ár aftur í tímann og eru þessir dagar nú þeir langhlýjustu meðal almanaksbræðranna, nærri 2 stigum hlýrri heldur en hlýjast var áður (1936). Að vísu er hlýjasti maímánuður sem við þekkjum á Akureyri 1933, en við eigum meðaltöl stakra sólarhringa hans ekki á lager til reikninga (enn sem komið er). Sá mánuður endaði í 9,4 stigum - þannig að eitthvað borð er fyrir báru fyrir kólnandi tíð nú undir lok mánaðar.

Í Stykkishólmi er sama staða. Þar er meðalhiti fyrstu 20 dagana 8,7 stig, 0,9 stigum hærri en mest hefur verið sömu daga áður, en það var reyndar árið 1889.

Ljóst er að víða um land verður þetta hlýjasti maímánuður allra tíma - en höfum samt í huga að 11 dagar eru eftir, rétt rúmur þriðjungur mánaðarins. Sem stendur eru dagarnir 20 þeir hlýjustu á öldinni á öllum spásvæðum landsins. Mest víkur frá meðaltölum á fjöllum og heiðum eystra. Trúlega á tvennt þátt í því, annars vegar fjarlægð frá sjó (kælandi áhrif hans einskorðast við neðstu lög loftsins, hins vegar er snjór trúlega nokkru minni heldur en í meðalári. Varmaorka hefur því nýst betur til hitunar lofts en ella - það er dýrt að bræða snjó. Mest er vikið á Hallormsstaðahálsi, +7,6 stig, en minnst í Surtsey, +2,0 stig - þar eru áhrif sjávarins auðvitað mikil.

Sem stendur er meðalhiti hæstur á Hallormsstað, +11,0 stig, og 10,7 á Egilsstöðum og Akureyri og Torfum.

Úrkoma í Reykjavík hefur mælst 33,4 mm og er það í tæpu meðallagi. Á Akureyri hefur úrkoman aðeins mælst 5,6 mm og er það um þriðjungur meðalúrkomu. Austur á Dalatanga hefur úrkoman mælst aðeins 3,3 mm sem er tuttugasti hluti meðalúrkomu - og hefur sjaldan verið minni sömu daga. Á það einnig við stóran hluta Austurlands.

Sólskinsstundir hafa mælst 179 í Reykjavík, um 43 umfram meðallag, en hafa oft mælst fleiri í maí. Á Akureyri hafa sólskinsstundirnar mælst 189,7 og er það 81 stund meira en í meðalári - nokkuð langt í met samt.

Það er einnig athyglisvert að fylgjast með hitastöðu ársins til þessa. Í Reykjavík situr það í næsthlýjasta sæti (frá 1949), en talsvert langt er upp í það efsta, 1964 og er utan seilingar í þessum mánuði. Auk þess þarf að keppa við árið 1929 - sem er líka ofar. Árið 2025 hefur gengið nokkuð hratt upp listann á Akureyri og miðað við tímann frá 1949 er það nú í 3. til 4. hlýjasta sæti (á eftir 1964 og 1974). Á Dalatanga er það líka í 3. hlýjasta sæti sama tímabils - en aðeins sjónarmun neðan 1964 og 1974 - mjög litlu munar á 5 efstu sætunum.


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og tíu?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg180525a
  • w-blogg120525a
  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.5.): 482
  • Sl. sólarhring: 557
  • Sl. viku: 3096
  • Frá upphafi: 2469958

Annað

  • Innlit í dag: 432
  • Innlit sl. viku: 2778
  • Gestir í dag: 399
  • IP-tölur í dag: 383

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband