31.7.2025 | 16:49
Hlaupið yfir árið 2009
Tíðafar var hagstætt á árinu 2009, öndvegisár að flestu leyti. Hiti var langt yfir meðallagi um landið sunnanvert. Fyrri hluti janúar var sérlega hlýr, en öllu svalara var síðari hlutann. Tíð var talin góð, þrátt fyrir talsverða úrkomu. Í febrúar var lítið um illviðri og samgöngur lengst af greiðar. Tíð talin hagstæð. Í mars var tíð talin nærri meðallagi, snjóflóðahætta var þó um hríð á Vestfjörðum og Norðurlandi. Apríl var hlýr og úrkomusamur mánuður. Slagviðri voru með tíðara móti miðað við árstíma. Maí þótti hagstæður, en var nokkuð úrkomu- og vindasamur. Júní var hægviðrasamur, hagstæður og fremur þurr.
Júlí var hlýr og þurr um mikinn hluta landsins. Sérlega hlýtt og þurrt var suðvestanlands, en svalara inn til landsins á Austurlandi. Vestanlands lét gróður á sjá vegna þurrka. Undir lok júlí gerði óvenjuleg næturfrost sem ollu tjóni í garðlöndum á Suðurlandi. Í ágúst var sólríkt á Suður- og Vesturlandi, en úrkomusamt norðanlands og austan. Veður var hægviðrasamt. September var hlýr, en úrkoma var í ríflegu meðallagi. Kuldakast gerði í byrjun október og festi þá snjó um mikinn hluta landsins. Síðan hlýnaði og voru síðustu dagar mánaðarins sérlega hlýir. Tíð var hagstæð í nóvember, úrkomusamt var á Norðaustur- og Austurlandi. Desember var hagstæður, snjóþyngsli að vísu nokkur sumstaðar á Norðurlandi, en lengst af var úrkoma lítil sunnanlands og vestan.
Í textanum hér að neðan er leitast við að rifja upp helstu veðurviðburði ársins, oftast með beinum tilvitnunum í texta frétta- og dagblaða sem leitað er til með hjálp timarit.is. Í fáeinum tilvikum hafa augljósar prentvillur verið leiðréttar og stafsetningu í stöku tilviki hnikað til - vonandi að meinalausu. Sömuleiðis eru textar alloft styttir. Auðvelt ætti að vera að finna frumgerð þeirra. Að þessu sinni (eins og oftast hin síðari ár) er mestra fanga að leita hjá Morgunblaðinu, ritstjóri hungurdiska er að vanda þakklátur blaðamönnum fyrir þeirra hlut. Einnig er notast við textabrot úr tíðarfarsyfirlitum Veðurstofu Íslands, einkum þegar fjallað er um veðurlag mánaða í heild.
Janúar var hlýr - og tíðindalítill. Fyrstu 12 dagar febrúar voru kaldir, sérstaklega fyrir norðan. Á Akureyri þurfti að fara áratugi aftur í tímann (1969 og 1955) til að finna ámóta kaldan kafla sömu febrúardaga. Þurrt var þennan tíma um land allt og sólskin. Snjór var á jörðu, en ekki mikill. Frá og með þeim 13. hlýnaði að mun og síðari hluti mánaðarins var hlýr, sérstaklega 16. til 18. Úrkoma var þá mikil sunnanlands, en heldur minni nyrðra. Þann 12. fauk bíll út af veginum í austanhvassviðri nærri Vík í Mýrdal minniháttar meiðsl urðu (Fréttablaðið). Þann 17.febrúar fauk sendibifreið út af vegi við Húsafell og valt (Fréttablaðið). Sunnanhvassviðri var - lægð fór norður um Grænlandshaf.
Kortið sýnir stöðuna í 500 hPa þann 9.febrúar. Þá lék um landið norrænn kuldi austan við fyrirstöðuhæð yfir Grænlandi.
Morgunblaðið segir frá 12.febrúar:
Víða í innsveitum hefur kuldinn bitið undanfarna daga. Í Bárðardal og við Mývatn hefur frostið farið í 26 stig. Fjölskyldurnar þrjár í Svartárkoti kippa sér þó lítið upp við kuldakastið. Þetta hefur ekki verið til mikilla vandræða undanfarið og þegar kuldinn er hvað mestur þá er bara að trekkja ofnana, segir Guðrún Tryggvadóttir í Svartárkoti. Hún segir að það sem af er febrúar hafi hitinn sveiflast nokkuð, legið marga daga í 18 gráðum, farið niður í 26 gráður tvisvar sinnum þegar kaldast hefur verið og bestu dagana hefur hitastigið farið upp í mínus 10 gráður.
Morgunblaðið segir 14.febrúar frá minniháttar snjóflóði við Húsavík. Snjóflóðalys hafa áður orðið á svipuðum slóðum:
Þetta var óþægileg tilfinning; ég var dálítið hræddur á leiðinni niður, sagði Friðrik Marinó Ragnarsson, 15 ára Húsvíkingur, í samtali við Morgunblaðið í gær, eftir að hann lenti í snjóflóði ofan bæjarins. Þeir voru tveir saman á leið upp Húsavíkurfjall, skammt norðan við skíðasvæðið. Hjörvar Jónmundsson var á undan en snjórinn brotnaði undan Friðriki Marinó, sem barst dágóðan spöl með flóðinu. Það náði honum upp undir hendur þegar hann stöðvaðist. Það var reyndar ekkert mál að losna, sagði hann.
Í mars var lítið um illviðri, en hríðarveður trufluðu þó samgöngur stund og stund. Þótt lengst af hafi verið snjólétt var um tíma allmikill snjór á norðanverðum Vestfjörðum og í útsveitum á Norður- og Austurlandi. Á Norðurlandi varð snjórinn mestur í lok mánaðarins og tepptust þar samgöngur um tíma. Snjóflóðahætta var viðloðandi á norðanverðum Vestfjörðum framan af mánuðinum. Fyrstu dagana féllu mörg snjóflóð á þeim slóðum, sem og sums staðar norðanlands. Talsverð snjóflóðahætta var í útsveitum á Norðurlandi í lok mánaðarins. Fregnir af snjókomu og rýmingum voru nokkuð áberandi.
Morgunblaðið segir frá 4.mars:
Gríðarlegt fannfergi setti mark sitt á mannlífið á norðanverðum Vestfjörðum í gær. Skólahaldi í grunnskólanum í Bolungarvík var hætt um hádegisbil, ekkert kirkjustarf var fyrir börnin og bókasafninu var lokað. Skólahaldi í grunnskólum á Ísafirði var aflýst og íþróttamannvirkjum í bænum lokað. Unga kynslóðin notaði tækifærið og lék sér í snjónum sem var óvenju mikill, jafnvel á mælikvarða þeirra Vestfirðinga.
Óveðrið á norðanverðum Vestfjörðum gekk hægt og rólega niður í gærkvöldi. Veðurstofan spáði norðaustan 15-20 m/s norðvestan til á landinu. Hættustig vegna snjóflóða var enn í gildi í Bolungarvík og á Ísafirði líkt og viðbúnaðarstig vegna snjóflóða á norðanverðum Vestfjörðum. Nú í morgun átti að halda fund á Veðurstofunni til að meta ástandið. Óveður var í Bolungarvík, stormur, snjókoma og skafrenningur. Í verstu hryðjunum sást varla á milli húsa. Þungfært var um götur bæjarins. Skólahaldi í grunnskólanum var hætt um hádegið. Eins var bókasafninu lokað og kirkjuskóla og kirkjustarfi barna aflýst. Fjórtán íbúum húsa sem rýmd voru í fyrrakvöld var ekki leyft að snúa til síns heima í gær. Snjóflóð féllu í fyrrinótt nálægt hesthúsahverfi Bolvíkinga, en ekki var vitað um önnur flóð nálægt byggð.
Í gær þurfti að rýma fimm íbúðarhús í Dýrafirði, Bolungarvík og Skutulsfirði. Lýst var yfir hættustigi vegna snjóflóða á reit 9 á Ísafirði sem er atvinnusvæði og voru þrír vinnustaðir rýmdir. Umferð um Skutulsfjarðarbraut á Ísafirði var takmörkuð um tíma vegna hættu á snjóflóðum úr giljunum ofan við Grænagarð. Opnað var fyrir óhindraða umferð kl. 20 í gærkvöldi. Skólahaldi var aflýst í grunnskólum og tónlistarskólanum á Ísafirði. Íþróttamannvirkjum í Ísafjarðarbæ var lokað síðdegis í gær. ... Í gærmorgun féll lítið snjóflóð á stálþil í Eyrarhlíð. Eins féll þunnt flóð yfir Hnífsdalsveg nálægt brekkunni við Hraðfrystihúsið. gudni@mbl.is
Morgunblaðið heldur áfram 5.mars:
Óveður og erfið færð trufluðu umferð á Austfjörðum í gær. Nokkur umferðaróhöpp urðu og fjallvegir voru ýmist lokaðir eða þungfærir í gærkvöldi. Veðurstofan varaði við stormi við
austurströndina í nótt sem leið. Þrír árekstrar urðu með skömmu millibili í umdæmi lögreglunnar á Eskifirði og komu þar alls sjö bílar við sögu. Tveir árekstranna urðu á sama klukkutímanum á veginum milli Eskifjarðar og Reyðarfjarðar. gudni@mbl.is
Rýmingu húsa vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum var aflétt í gær. Í gær var ekki búið að aflétta rýmingu á vinnusvæði Ósafls í Hnífsdal, þar sem unnið er að jarðgangagerð. Eins voru takmörk á umferð um sorpeyðingarstöðina Funa. Varnargarður er ofan við stöðina og gátu starfsmenn verið við störf í stöðinni. Hins vegar var gámasvæði við stöðina lokað, að sögn lögreglunnar. Í gær var unnið að opnun þjóðvega og mokstri gatna í bæjum fyrir vestan. Flutningabílar komust loks til Ísafjarðar í gær eftir að vegirnir voru opnaðir. Fimm snjóflóð féllu úr giljum í Eyrarhlíð ofan Ísafjarðarbæjar í fyrradag. Flóðin féllu ofan við atvinnusvæði sem var rýmt. Snjór úr flóðunum lenti m.a. á húsi KNH og á gömlu íbúðarhúsi. gudni@mbl.is
Morgunblaðið segir enn af rýmingum í Bolunarvík 12.mars:
onundur@mbl.is Bara það nauðsynlegasta, segir Guðlaug Rós Hólmsteinsdóttir, íbúi við Traðarland í Bolungarvík, aðspurð hvað hún taki með sér þegar snjóflóðahætta hrekur hana af heimili sínu. Guðlaug Rós býr í Traðarlandinu ásamt manni sínum og ungri dóttur og þurfti í gær að flytja sig um set, eins og íbúar fjögurra annarra húsa. Upplýsingar frá Veðurstofunni hermdu í gær að snjóflóð hefði fallið nær daglega frá því hús voru rýmd á svæðinu í síðustu viku og í gær hefði fallið snjóflóð úr Hádegisfjalli.
Þann 13. og 14. kom kröpp lægð að landinu úr suðri og fór síðan norðvestur í Grænlandshaf. Á undan henni var allmikill vindstrengur af austri með hríðarveðri. Síðan hlánaði.
Morgunblaðið segir frá 14.mars:
Hellisheiðinni og Þrengslunum var lokað í gærkvöldi [13.] og voru björgunarsveitir önnum kafnar við að ferja þá sem að fastir sátu í bílum sínum. Veðrið var verst á Suðurlandi en óveður geisaði undir Eyjafjöllum og á Mýrdalssandi. Björgunarsveitir voru á leið á Sólheimasand að aðstoða ökumenn í vanda er blaðið fór í prentun og einnig hafði Björgunarfélag Vestmannaeyja verið kallað út. Björgunaraðgerðir gengu þó hægt vegna veðurs. Veðrið kom þá í veg fyrir að unnt væri að gera við bilun í stofnneti Mílu við Laugarbakka í gærkvöldi og í Bolungarvík voru hús rýmd vegna snjóflóðahættu tengdri veðurbreytingunum. Á Sprengisandi komu björgunarsveitir tveimur frönskum ferðamönnum til aðstoðar. Parið var vel búið en hafði lent í vandræðum er það missti frá sér tjaldið í kolvitlausu veðri. Komu þau boðum til félaga síns í Frakklandi sem hafði samband við Slysavarnafélagið Landsbjörg.
Morgunblaðið segir enn af því sama 15.mars:
Hellisheiði var opnuð á nýjan leik í gær, en henni var lokað í fyrrakvöld vegna óveðurs. Að sögn lögreglunnar á Selfossi voru nokkrar bifreiðar sóttar í gær sem höfðu verið skildar eftir á heiðinni í vonskuveðri. Nokkrir ökumenn urðu t.d. að gefast upp fyrir náttúruöflunum í Kömbunum. Mjög hvasst var um landið sunnanvert. Víða hafði vindhraðinn mælst vera á bilinu 30 til 40 metrar á sekúndu í fyrrakvöld og fyrrinótt. Veðrið var hins vegar orðið mun skaplegra um landið sunnanvert í gærmorgun. Aftur á móti var farið að hvessa talsvert um landið vestanvert. Á miðnætti aðfaranótt laugardags voru nokkur hús rýmd í Bolungarvík vegna snjóflóðahættu. Skv. upplýsingum frá lögreglu hafa íbúarnir ekki fengið að fara aftur til síns heima þar sem snjóflóðahættan er ekki liðin hjá. Mikið annríki var hjá björgunarsveitum á Suðurlandi og á höfuðborgarsvæðinu í fyrrakvöld og í fyrrinótt skv. upplýsingum frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg. Þá féll snjóflóð yfir veginn um Dalsmynni í Þingeyjarsýslu í gær en eftir því sem best er vitað urðu engin óhöpp. Vegurinn lokaðist um stund, þar til snjómoksturstæki höfðu rutt sig í gegn. jonpetur@mbl.is
Morgunblaðið segir af snjóflóðum 17.mars:
Tveir vélsleðamenn sluppu í gær [16.] naumlega frá því að lenda í tveimur snjóflóðum sem féllu í Brunnárdal, sem er þröngur dalur skammt frá Húnavöllum. Félagar mannanna, sem komu á eftir, töldu í fyrstu að þeir hefðu lent í flóðinu og hófu leit. Það kom svo fljótlega í ljós að vélsleðakapparnir höfðu sloppið með skrekkinn. ... Jón segir að flóðið hafi verið á bilinu 30-40 metrar á breidd og 4-6 á dýpt. Það bara fyllti í skálina, segir hann. Það var óhugnanlegast að sjá ekkert hvað var hinum megin. Þetta hafi ekki verið ósvipað því að fylla skál af vatni.
Þann 29. og 30. var djúp lægð fyrir norðaustan land og olli norðan- og norðvestanhvassviðri um landið norðanvert með töluverðri snjókomu. Morgunblaðið segir frá 30.mars:
Veðurstofan varaði í gærkvöldi við stormi norðan- og austanlands. Spáð var norðan- og norðvestanátt, víða 15-25 m/s fram eftir degi, hvössustu við norður- og austurströndina. Viðbúnaður var vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum. Ekki hafði þó þurft að rýma nein hús í gærkvöldi, að sögn lögreglu á Ísafirði. Ekkert ferðaveður var víða um land í gær. Stórhríð var um norðanvert landið og var fólk varað við að vera á ferð um Óshlíð og Súðavíkurhlíð vegna snjóflóðahættu. Í gærkvöldi var orðið ófært um Djúpið og eins fjallvegi fyrir vestan. Stórhríð var á Ströndum. Hált var á vegum og skafrenningur eða stórhríð víða fyrir norðan og austan Húsavíkur var víða ófært eða þæfingur á vegum. Veður fór versnandi á Austurlandi í gærkvöldi. Veginum um Kjalarnes var lokað um tíma í gærkvöldi. Einkum var erfitt ferðaveður milli Kollafjarðar og Mosfellsbæjar. Fimm bíla árekstur varð rétt fyrir kl. 20 við Leirvogsá. Engin slys urðu á fólki. Þar var vegurinn mjög háll og eins var mjög blint. gudni@mbl.is
Þetta veður gekk fljótt niður, en ný lægð nálgaðist þann 31. og olli hún austlægri átt. Morgunblaðið segir fyrst af rýmingum í pistli 31.mars, en síðan veðurspá og snjómokstri.
gudni@mbl.is Þrjátíu hús voru rýmd á Siglufirði í gærkvöldi og var áætlað að 60-70 manns hefðu þar þurft að yfirgefa heimili sín. Veðurstofan ákvað í gærkvöldi, í samráði við lögreglustjórann á Akureyri, að lýsa yfir hættustigi á reit 6 á Ólafsfirði og á reit 8 á Siglufirði. Einnig lýsti Veðurstofan óvissustigi vegna snjóflóða á norðanverðum Vestfjörðum og á Norðurlandi. Mikil snjókoma var bæði á Ólafsfirði og Siglufirði líkt og víðar á Norðurlandi og fyrir austan í gær. Innan rýmingarsvæðisins á Siglufirði er m.a. hluti húsa við Skriðustíg, Háveg og Hverfisgötu. Íbúar voru í rúmlega 20 húsum á rýmingarsvæðinu, að sögn lögreglu. Hópur af fólki fór á Gistiheimilið Hvanneyri og einhverjir til vina og ættingja. Hættusvæðið er neðan við Fífladali. Búið er að reisa snjóflóðavarnargarða fyrir ofan byggðina en stoðvirkin vantar enn í fjallið til að ljúka verkinu. Þess vegna var svæðinu ekki treyst. Íbúar á dvalarheimilinu Hornbrekku á Ólafsfirði voru fluttir til í gærkvöldi. Hluti heimilisfólksins fór yfir í vesturhlið hússins, sem snýr undan fjallinu, og átta fóru heim til ættingja. Heimilismenn á Hornbrekku eru 31 talsins. Í gær var gangagerðarmönnum í Héðinsfjarðargöngum, Ólafsfjarðarmegin, bannað að aka efni úr göngunum á haug sem var á hættusvæði.
Veðurstofan varaði í gærkvöldi við stormi sunnan og vestan til á landinu í kvöld [31.]. Spáð var vaxandi vindi eftir hádegi með snjókomu og 15-23 m/s í kvöld og talsverðri snjókomu eða slyddu en rigningu við suðurströndina. Ófært var nánast á öllu Norðausturlandi. Snjómokstri var hætt á Siglufjarðarvegi og í Ólafsfjarðarmúla vegna snjóflóðahættu. Vegir um Víkurskarð og Ljósavatnsskarð voru opnaðir og varð fært um Reykjadal og Fljótsheiði til Húsavíkur. Óvíst þótti hve lengi leiðin héldist opin eftir að þjónustu lyki. Vegagerðin taldi að vegir yrðu ófærir á Vestfjörðum, Norðaustur- og Austurlandi eftir að þjónustu lauk í gærkvöldi.
Apríl var hlýr og úrkomusamur. Fremur hvassviðrasamt var samfara úrkomunni og slagviðri með tíðara móti miðað við árstíma. Ekki er þó getið um teljandi tjón af völdum þessara veðra. Nokkur mánaðarúrkomumet féllu í mánuðinum. Úrkoman á Kvískerjum mældist 523,7 mm og hefur ekki mælst meiri á íslenskri veðurstöð í aprílmánuði. Aprílúrkomumet voru sett á fleiri stöðvum, þeirra merkust eru nýtt met í Vestmannaeyjum, en þar hefur verið mælt frá 1881, og á Eyrarbakka þar sem einnig hefur verið mælt frá 1881, en með nokkrum hléum. Met var sett í Vík í Mýrdal (mælt frá 1926) og á allmörgum stöðvum á vestanverðu Norðurlandi þar sem mælt hefur verið í 5 til 15 ár. Snjólétt var í mánuðinum.
Eftir góða og hæga daga um miðjan apríl gerði ákveðna sunnanátt með mikilli úrkomu. Þann 19. varð minniháttar foktjón á höfuðborgarsvæðinu í suðaustanhvassviðri. Fréttablaðið segir þann 20.apríl:
Stór skjólveggur, sem reistur var utan um brunarústirnar á Lækjartorgi, fauk á fjóra bíla í hvassviðri í gær. Bílunum hafði verið lagt í bílastæði í Austurstræti. Bílarnir rispuðust en skemmdust að öðru leyti lítið. ... Mikið hvassviðri var á höfuðborgarsvæðinu í gær og fóru vindhviður mest í 28 metra á sekúndu. Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu sinntu fjölmörgum útköllum vegna hvassviðrisins, en ekkert stórtjón varð. - þeb
Þann 24. hvessti nokkuð af norðri um stund. Sunnlenska fréttablaðið segir frá 30.apríl:
Snemma á föstudag [24.] valt stór vöruflutningabifreið a Suðurlandsvegi á móts við Þórustaðanámu í Ingólfsfjalli. Mjög hvasst var þegar óhappið varð og valt bifreiðin þegar sterk vindhviða skall á henni. Ökumaðurinn kastaðist út um framrúðuna þegar bifreiðin skall á hliðina fyrir utan veg. ... Hann slapp með minni háttar meiðsli. gks.
Maí var hagstæður, en nokkuð vindasamt þótti. Dálítið hret gerði um viku af mánuðinum, en það stóð ekki lengi. Morgunblaðið segir frá 9.maí:
Lítið minnti á sumarið fyrir norðan og austan í gær. Jörð var hvít þegar fólk fór á fætur, örlítið létti til yfir miðjan daginn en síðan hófst ofankoman aftur og snjóaði fram eftir kvöldi. Aftakaveður var sums staðar, til dæmis á Holtavörðuheiði þar sem björgunarsveitarmenn aðstoðuðu vegfarendur og var heiðinni lokað um tíma. [Skapti Hallgrímsson].
Þann 11. til 14. var nokkuð hvasst af suðri og síðar suðaustri. Morgunblaðið segir frá 14.maí:
Gríðarlega hvasst var víða á höfuðborgarsvæðinu í gær líkt og víðar á landinu. Ekki ofsagt að Kári hafi verið í jötunmóð í Kórahverfinu í Kópavogi. Þar feykti hann sandi sem nota átti við framkvæmdir við fótboltavelli á íþróttasvæðinu við Kórinn. Sandrokið buldi á bílum og byrgði ökumönnum sýn á stuttum kafla. Þar sem fyrirstaða var dró sandinn í skafla. [Árni Sæberg].
Þann 22. snerist lítil flugvél við í vindhviðu í lendingu á Flúðum. Austanstrekkingur var á. Flugmaður slapp ómeiddur (Sunnlenska fréttablaðið).
Kalt var í lofti undir lok mánaðarins. Morgunblaðið segir frá þ.27.:
Þeir, sem áttu leið um Hellisheiði í gær [26.], urðu vitni að því að hvít blæja lagðist yfir marauða jörðina. Gerðist það eins og hendi væri veifað og fylgdu með þrumur og eldingar. Fór a.m.k. ein bifreið út af veginum og um tíma var rafmagnslaust í Hveragerði. Þar hafði eldingu slegið niður í rafmagnslínu. Þurfti lögreglan að aðstoða ökumenn í færðinni enda allir komnir á sumardekkin. Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir, að óvenjulega kalt hafi verið í háloftunum og loftið yfir landinu því óstöðugt. Þegar sólin hiti landið valdi það uppstreymi og þá myndist háreist, bólstrakennd skúraský. Þeim fylgi síðan þrumur og eldingar og stundum haglél eins og í gær. Ingibjörg Bragadóttir, sem var á ferð á heiðinni í gær ásamt dóttur sinni, sagði að veðrabrigðin hefðu verið mjög snögg. Það voru mjög dökk ský yfir þegar ég var að keyra á Hellisheiðinni en svo allt í einu var allt orðið hvítt og þrumur og eldingar, sagði Ingibjörg og bætti við, að nú vissi hún fyrir víst hvað þruma úr heiðskíru lofti væri. RAX
Undir lok mánaðarins gekk jarðskjálftahrina yfir, með upptök norðaustur af Grindavík. Morgunblaðið segir frá þann 30.:
Jarðskjálftinn sem skók jörð á Suðurnesjum í gærkvöldi [29.] reyndist vera 4,7 stig á Richter og fannst hann greinilega í Reykjavík og víðar. Samkvæmt fyrstu mælingum var hann 3,9 stig en að sögn Gunnars Guðmundssonar, jarðskjálftafræðings á Veðurstofunni, var þar um vanmat að ræða og reyndist hann í raun vera töluvert stærri. Skjálftinn, sem varð klukkan 21:33, átti upptök sín um 8 km norðaustur af Grindavík og fundu bæjarbúar þar hann sterkast allra. Að sögn lögreglunnar á Suðurnesjum svignuðu þar rúður í húsum og hurðir fóru á fleygiferð en engar tilkynningar bárust í gærkvöldi um tjón eða meiðsli vegna skjálftans. ... Að sögn Gunnars Guðmundssonar hafði verið titringur í jörðu yfir daginn og voru forskjálftar byrjaðir nokkru fyrir stóra skjálftann. Fjöldi minni skjálfta fylgdi einnig í kjölfarið og urðu smærri eftir því sem frá leið. Það er alls ekki ólíklegt að það haldi áfram að hristast eitthvað fram eftir nóttu, sagði Gunnar en skjálftahrinur sem þessar eru algengar á Suðurnesjum þótt nokkuð sé liðið síðan svo stór skjálfti mældist þar. una@mbl.is
Júní var almennt þurr og hagstæður. Þann 19. gekk aftur á með jarðskjálftum við Fagradalsfjall. Morgunblaðið segir frá þann 20.:
Jörð skalf á Reykjanesi í gær [19.] en fyrsti skjálftinn, sem varð um kl.sex 8 km norðaustur af Grindavík, við Fagradalsfjall, mældist um 4,2 á Richter-kvarða. Skjálftinn fannst vel á höfuðborgarsvæðinu og víðar. Fleiri skjálftar fylgdu í kjölfarið, þar á meðal einn upp á 4,1 vestnorðvestur af Krýsuvík.
Júlí var óvenjuþurr. Sérlega hlýtt var suðvestanlands, en hiti nærri meðallagi eða undir því inn til landsins á Austurlandi. Vestanlands lét gróður á sjá vegna þurrkanna. Fyrsta vika mánaðarins var hlý um nær allt land en síðan kólnaði eystra og víða á hálendinu. Mikið kuldakast gerði í nokkra daga seint í mánuðinum. Þá snjóaði í fjöll norðanlands og næturfrost varð allvíða á Suðurlandi, en það er mjög óvenjulegt í júlí. Frostin eyðilögðu grös í kartöflugörðum og varð tjón mikið. Óvenjuþurrt varð víða um vestan- og suðvestanvert landið. Úrkoma var nokkuð ójöfn á þeim slóðum en í Reykjavík varð mánuðurinn sá þurrasti síðan 1888 og 1889 (árin 1908 til 1919 vantar þó í mæliröðina).
Morgunblaðið birti 18.júlí frétt um óróa í Eyjafjallajökli. Í baksýnisspegli sést að hér var um aðdraganda eldgosanna 2010 að ræða:
Það eru engin merki um yfirvofandi eldgos en það þarf að fylgjast vel með hræringunum, segir Matthew James Roberts, jöklafræðingur hjá Veðurstofunni. Frá því snemma í júní hefur skjálftavirkni verið viðvarandi. Í frétt á vef Veðurstofunnar segir að orsök hræringanna sé sennilega kvikuinnskot, svipuð þeim sem ollu skjálftum árin 1994 og 1999. Þá segir að búast megi við frekari smáskjálftavirkni á svæðinu. Roberts bendir á að árin 1994 og 1999 hafi ekki gosið þrátt fyrir svipaðar aðstæður, en segir þó ekkert útilokað: Náttúran hefur þann vana að vera óútreiknanleg. Hann telur þó ólíklegt að gos sé í uppsiglingu og segir ekki ástæðu til óttast í bili. Til þess þyrfti staðan að breytast mikið; skjálftarnir að verða öflugri, vera nær yfirborðinu og fram yrðu að koma merki um raunverulega eldvirkni. Og ég veit fyrir víst að þau sjást ekki í augnablikinu. skulias@mbl.is
Morgunblaðið hnykkir á skjálftafréttum þann 20.:
haa@mbl.is Síðustu þrjár vikurnar hafa verið skjálftar á um 10 kílómetra dýpi undir Eyjafjallajökli og það svipar mjög til atburða árin 1994 og 1999. Bæði árin var þar á ferð kvikuinnskot undir Eyjafjallajökli og í seinna skiptið hafði það augljóslega áhrif á Kötlu þótt það hafi ekki valdið gosi. Það eru dæmi um það að virkni undir Eyjafjallajökli geti virkað eins og gikkur fyrir Kötlu og þessar eldstöðvar eru svo nálægt hvor annarri að þær geta haft áhrif hvor á aðra, segir Páll Einarsson jarðeðlisfræðingur. Hann segir mögulegt að jarðhræringar undir Eyjafjallajökli geti valdið eldgosi í Kötlu. Þetta gerðist síðast árið 1821 þegar gos varð í Eyjafjallajökli sem stóð í tvö ár og því lauk með Kötlugosi árið 1823. Páll segir það geta tekið nokkra mánuði að greina nákvæmlega hvað gerist undir Eyjafjallajökli. Þetta tók talsverðan tíma árin 1994 og 1999 en það er ekki ólíklegt að við séum nú að horfa á upphafið að myndun kvikuinnskots undir Eyjafjallajökli. Við mælum þetta sérstaklega með því að fylgjast með landrisinu.
Morgunblaðið fjallar 21.júlí um þurrka:
annaei@mbl.is Hlýindi, sólarskellur og varla dropi kemur úr lofti. Íbúar á suðvesturhorni landsins geta ekki kvartað yfir óhóflegri vætutíð það sem af er sumri, þótt íbúar austanlands þrái eflaust aukin hlýindi. Hefur þurrkurinn suðvestanlands raunar verið slíkur að gróður er sums staðar farinn að láta á sjá. Gras sviðnar og sumarblóm skrælna sýni garðeigendur ekki næga elju með garðslönguna. Hjá Orkuveitu Reykjavíkur verða menn varir við þessa þróun enda rennslistoppar nú hærri en í venjulegri sumarviku. Hæstur var toppurinn raunar í gær er hann var 1.200 sekúndulítrar, miðað við 900 sekúndulítra á venjulegum sumardegi. Er það töluvert meiri munur á kaldavatnsnotkun en í fyrra. ... Einna þurrast hefur verið við Breiðafjörð og á Vestfjörðum. Þannig hefur úrkoman í júlí í Stykkishólmi ekki náð 1 mm og í Bolungarvík hafa mælst um 4 mm. Ámóta þurr tímabil finnast þó á árum áður. Á Akureyri er júlí þá enn meðal þeirra þurrustu, en þurrkatímabil eru algengari norðanlands.
Þann 24. júlí kom óvenjulegur kuldapollur inn yfir landið úr norðri. Ekkert teljandi hvassviðri fylgdi, en óvenjulegur kuldi og næturfrost.
Kortið sýnir stöðuna að morgni laugardagsins 25.júlí. Miðja kuldapollsins var þá við Vesturland. Þykktin (litir) segir af hita í neðri hluta veðrahvolfs. Í era5-endurgreiningu evrópureiknimiðstöðvarinnar sem nær aftur til 1940 er þetta minnsta þykkt í júlí á öllu tímabilinu (1940-2025). Er þetta tilvik því mjög óvenjulegt. Í þessu kuldakasti fór lágmarkshiti niður fyrir frostmark á Korpu, en það er mjög óvenjulegt í júlí. Vindur var hægur og þar mældist lágmarkshiti við jörð -10,8 stig að morgni þ.25., -10,7 stig aðfaranótt 24. og -9,6 stig aðfaranótt 26. Þetta er lægsti lágmarkshiti við jörð sem við vitum um hér á landi (en höfum í huga að mælingar eru mjög gisnar).
Morgunblaðið segir 25.júlí fyrst af sinueldum, en síðan af kulda:
Sinueldur kom upp austan við Krýsuvíkurvatn seint í gærkvöldi. Að sögn vaktstjóra slökkviliðsins í Grindavík var slökkvistarf erfitt því eldurinn brann langt utan alfaraleiðar og þurftu slökkviliðsmenn að ganga í tvær klukkustundir um úfið hraun áður en þeir komu að eldinum, sem var að umfangi á við vænan fótboltavöll. Björgunarsveitin slóst í lið með slökkviliðinu og fór slökkvistarfið þannig fram að grafnir voru skurðir í kring til að hefta útbreiðslu eldsins. Það gerði slökkvistarfið viðráðanlegt að vind hafði lægt með kvöldinu og eldurinn því rólegur. Í gærkvöldi blossaði einnig upp á nýjan leik eldur í Esjuhlíðum og eins við Helgafell. Erfitt getur verið að berjast við eldana í miklum þurrki eins og var í gær. una@mbl.is
Nýfallinn snjór náði langt niður í hlíðar Víðidalsfjalls í Húnavatnssýslu í gær og óvenjukuldalegt um að litast í ljósi þess að nú er hásumar að heita má. Eftir mikla sumarblíðu er nú skyndilegt kuldakast skollið á landinu og fór hitinn víða niður fyrir frostmark í fyrrinótt, m.a. á láglendi Suðurlands og mældist 1,6 stiga frost á Hellu. Þetta varð til þess að kartöflugrös féllu í Þykkvabæ, sem búast má við að hafi heldur neikvæð áhrif á uppskeruna. Afar óvenjulegt er að þetta gerist í júlí þótt komið hafi fyrir að grös falli vegna kulda í síðari hluta ágúst enda er þetta í fyrsta skipti í tæpri 60 ára sögu veðurmælinga á Hellu sem þar mælist frost í júlí. Víða snjóaði til fjalla og gekk t.d. á með hryðjum á Hveravöllum. Tjaldferðalangar víða um land áttu því heldur kuldalega nótt og voru misvel búnir að takast á við slík veðrabrigði.
Þurrkarnir voru farnir að valda áhyggjum hjá Landsvirkjun. Morgunblaðið segir frá þann 26.:
skulias@mbl.is Við höfum nú séð verri ár en þetta en við getum sagt að hann sé dapur, segir Eggert Guðjónsson, yfirmaður viðskiptaborðs Landsvirkjunar, um vatnsbúskap fyrirtækisins um þessar mundir. Þurrkur og kuldi hafa að hans sögn komið nokkuð niður á búskapnum í sumar, bæði júní og júlí hafi verið dræmir mánuðir. Fyrir norðan og austan kveður Eggert úrkomu ekki hafa skilað sér og bráðnun jökla ekki hafa komist af stað. Á Suður- og Vesturlandi sé ástandið þó mun skárra, til dæmis sé staða Þórisvatns framar vonum.
Í kuldakastinu varð mjög mikið moldrok á Rangárvöllum. Morgunblaðið segir frá 28.júlí:
una@mbl.is Nú biðjum við guð um góða skúr, segir Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri á Rangárvöllum, þar sem geisaði gríðarlegt moldrok í gær sem gæti hæglega tekið sig upp á nýjan leik haldist veðurskilyrði söm. Hin glæsta fjallasýn Rangárvalla- og Árnessýslna var hulin sjónum manna vegna moldroksins sem Sveinn segir það versta sem hann hafi séð í mörg ár. Veðrið hefur þar sitt að segja því töluverðir þurrkar hafa verið og er þetta ekki í fyrsta skipti í svona tíð sem ber á moldroki ofan af hálendinu niður í byggð á Suðurlandi þótt sjaldan hafi það verið svona svart. Í dag keyrir þetta um þverbak, segir Sveinn. Það sér hvergi til fjalla vegna moldroks. Einnig fýkur úr öllum opnum jarðvegssárum á láglendi. Norðlægar áttir voru í gær og telur Sveinn að mikill jarðvegur hafi fokið til hafs af afréttum Suðurlands sem séu miklar auðnir. Sunnlendingar lýstu því margir í gær að þeir hefðu sjaldan upplifað annað eins kóf. Á köflum var loftið heldur ókræsilegt til útivistar og ofan af Hellisheiðinni sást ekki til Selfoss á tímabili vegna moldviðris. Ég heyrði í fólki sem sagði þarna er bara rigning í norðaustri, en aðrir leiðréttu og sögðu nei, þetta er ekki rigning, þetta er moldar- og sandmökkur, segir Sveinn. Moldrokið náði hápunkti sínum um miðjan dag í gær og sáu þá íbúar á Rangárvöllum hvorki tangur né tetur af fjallahringnum fagra. Um fimmleytið síðdegis tók þó að glitta í Heklu á nýjan leik og um kvöldmatarleytið hafði að mestu lægt þótt enn væri heilmikið moldarmistur og sandfok til sjós. Landgræðslustjóri segir erfitt að segja til um hversu mikill skaði hafi orðið á gróðri en án efa hafi með þessu verið tekið skref aftur á bak í gróðurreikningi landsmanna.
Morgunblaðið segir frekar af baráttu við sinuelda þann 29.:
Slökkvistarfi á heiðinni austan við Kleifarvatn lauk síðdegis í gær, en slökkvilið Grindavíkur hafði þá barist við gróðureld í tæpan sólarhring með hléum. Slökkvilið Grindavíkur naut aðstoðar Þyrluþjónustunnar, en með sérstakri fötu var hægt að ausa vatni úr Kleifarvatni yfir eldinn. Um einn og hálfan tíma tók að slökkva eldinn með aðstoð þyrlunnar. Farið var á annan tug ferða með sjö til átta þúsund lítra af vatni yfir svæðið. Eldar kviknuðu fyrst á svæðinu síðastliðinn föstudag, þar sem erfiðlega gekk að slökkva í glóðinni kviknaði ætíð eldur á nýjan leik. Umrætt svæði er í 420 metra hæð yfir sjó og uppi á fjalli. Leiðin þangað er mjög erfið yfirferðar og urðu slökkviliðsmenn að ganga í kargahrauni og þykkum mosa, sem sums staðar nær upp að hnjám. Um þrír kílómetrar eru í vatn og aðstoðaði björgunarsveit slökkviliðsmennina og flutti til þeirra vatnsbirgðir og búnað. Hver ferð björgunarsveitarinnar tók um þrjá klukkutíma. ... andri@mbl.is
Síðan fóru að berast fréttir af tjóni af völdum næturfrosta. Morgunblaðið segir frá þann 30.:
una@mbl.is Í þessi þrjátíu ár sem ég hef stundað kartöflurækt höfum við aldrei séð það svona svart, það stefnir í að verða alveg óskaplega lítil uppskera, segir Sigurbjartur Pálsson, kartöflubóndi í Þykkvabæ. Í síðustu viku frysti tvær nætur í röð á Suðurlandi sem virðist ætla að leiða til uppskerubrests og mikils tjóns fyrir kartöflubændur. Í Þykkvabæ stunda um 20 bændur kartöflurækt en þaðan koma jafnframt um 70-80% af öllum kartöflum í landinu. Að sögn Sigurbjarts lítur út fyrir að tekjutap þessara bænda verði nær algjört. Stór hluti af kálinu er bara steindauður og verður ekki neitt úr. Mér þætti það eiginlega alveg stórmerkilegt ef það yrði nokkurt magn sem heitir sem kemur á markað í haust og vetur, vegna þess að það fyrsta sem menn taka upp munu þeir reyna að geyma til að hafa útsæði í vor og því miður held ég að það verði óverulegt magn umfram það. Örlítill hluti kálsins er þó enn með lífsmarki þrátt fyrir frostið og segir Sigurbjartur að brugðið geti til beggja vona með það. Það er auðvitað mánuður eftir af eðlilegum sprettutíma, en þá þarf líka margt að breytast. Það þarf t.d. að fara að rigna eitthvað, það myndi hjálpa til. Fall kartöflugrasanna kom illa aftan að bændum eftir milda tíð. Þetta er óskaplega sorglegt af því að sumarið er náttúrlega búið að vera okkur óskaplega gott eins og öllum öðrum, þótt uppskeran hafi verið farin að líða fyrir þurrk. Svo að þessi umskipti voru óskaplega mikil og snögg, það hefur aldrei komið svona frost áður á þessum tíma.
Morgunblaðið ræðir enn tjón í garðlöndum 4.ágúst:
Tjónið er mikið, segir Guðjón Guðnason kartöflubóndi í Háarima í Þykkvabæ. Hann er meðal bænda, sem urðu fyrir búsifjum á dögunum þegar næturfrost felldi grös á kartöfluökrunum í sveitinni, sem eru þeir stærstu á landinu. Þetta var aðfaranætur 24. og 25. júlí. Magnús Ágústsson garðyrkjuráðunautur Bændasamtaka Íslands segir tjón kartöflubænda í Þykkvabæ tæplega undir 250 millj. kr. Ef ekki rætist eitthvað úr núna í ágúst með góðri tíð og hlýindum er þetta búið spil fyrir marga bændur. Sumir binda þó vonir við að uppskera sumarsins dugi sem útsæði næsta árs, segir Magnús, sem telur óljóst á þessum tímapunkti hvernig og hvort bændum verði með einhverju móti bættur skaðinn af völdum þessara náttúruhamfara sem hann kallar svo. Guðjón Guðnason og Guðni sonur hans stunda saman kartöflubúskap og í vor settu þeir kartöflur niður í 40 hektara. Mér sýnist helmingur akranna ónýtur og ekki sé þess virði að taka þar upp, segir Guðjón. Hann bætir við að fyrir allmörgum árum hafi reglan verið sú að skilaverð mjólkur- og kartaflna væri hið sama. Í dag fái bændur greiddar 110 kr. fyrir hvern mjólkurlítra en kílóverðið fyrir kartöflur sé komið í 50 kr. Þetta eigi sinn þátt í því að margir kartöflubændur í sveitinni hafi hætt búskap. Um 1980 hafi þeir verið um fjörutíu en hafi síðan fækkað um helming. sbs@mbl.is
Ágúst var hlýr, mjög sólríkur á Suður- og Vesturlandi, en en norðanlands og austan var sólarminna og sums staðar á þeim slóðum rigndi mikið. Veður var hægviðrasamt lengst af.
Þann 5.ágúst hvessti nokkuð af austri sums staðar á Suðurlandi, tjöld fuku í Landmannalaugum og tvö hjólhýsi fuku af vegi undir Ingólfsfjalli (Fréttablaðið).
Mikill gangur kom í hluta Breiðamerkurjökuls. Morgunblaðið segir frá 11.ágúst:
Jakastífla myndaðist við brúna á Jökulsá á Breiðamerkursandi í gærdag þar sem vatn fossaði niður um það bil einn og hálfan metra. Eins konar þröskuldar úr grjóti eru ofan í lóninu á þessum stað og lýsa sjónarvottar aðstæðum svo að mikill hávaði hafi myndast þegar jakarnir bárust yfir efri þröskuldinn uns þeir strönduðu á þeim neðri. Líkur eru á að jökunum skoli út á stórstraumsfjöru í nótt. Fjölnir Torfason segir að austurstraumur Breiðamerkurjökuls hafi breyst að undanförnu. Engu sé líkara en milli jökulsins og bergþrepsins, sem hann hvílir á, hafi myndast holrými. Mikið hafi brotnað úr jöklinum sem aftur styðji kenninguna. sbs@mbl.is
Aðfaranótt 21. hvessti talsvert af norðri og olli veðrið minniháttar erfiðleikum ferðamanna. Morgunblaðið segir frá þann 22.:
Björgunarsveitir Slysavarnarfélagsins Landsbjargar komu ferðafólki til aðstoðar í slæmu norðanveðri á svæðinu norðan Vatnajökuls í gærdag. Göngumaður var í vandræðum nærri Gæsavötnum, óttast var um hjólreiðamann í Dyngjufjalladal og fólk sat fast í bíl við Kistufell. Björgunarsveitir í Þingeyjarsýslu voru kallaðar út, en sneru við þegar borist hafði aðstoð frá fólki á svæðinu. sbs@mbl.is
Morgunblaðið segir fréttir úr Öskju 25.ágúst, sömuleiðis segir af moldroki sunnanlands í austanstrekkingi:
Miklar breytingar hafa verið á vatnsyfirborði í Öskju og Víti í Dyngjufjöllum undanfarið. Jarðvísindamenn eru nýkomnir úr Öskjuleiðangri og samkvæmt mælingum þeirra er yfirborð Öskjuvatns hálfum metra hærra nú en það var um þetta leyti sumarið 2007. Þetta segir Halldór Ólafsson sem sinnt hefur mælingum á Öskjusvæðinu í áratugi. Á hinn bóginn hefur lækkað talsvert í Víti. Hermann Valsson leiðsögumaður var þar með hóp sl. fimmtudag og segir að þá hafi allt verið með felldu. Daginn eftir, föstudaginn 21. ágúst, var vatnsyfirborðið 12 til 15 cm lægra. Breytingar á vatnsyfirborði í Öskju eru talsverðar frá ári til árs. Þegar mælingar voru fyrst gerðar, árið 1965, var hægt að ganga fjöruna umhverfis vatnið. Nú er það ómögulegt, svo mikið hefur yfirborðið hækkað. Hins vegar kemur þessi lækkun í Víti á óvart, segir Halldór. Hann minnir á að mælingar á vatnshæð í Víti sem spanni lengri tímabil liggi ekki fyrir og því sé óvarlegt að draga víðtækar ályktanir af dægursveiflu. Kunnugir segja raunar að hækkunin í Öskju sé til marks um breytingar á grunnvatnsstöðu og eigi sér varla veðurfræðilegar skýringar. sbs@mbl.is
Mikið moldrok var víða á Suðurlandi í gær, ekki síst í Reykjavík. Að sögn Andrésar Arnalds hjá Landgræðslunni er um hefðbundinn uppblástur að ræða auk leirfoks en um hríð grillti varla í Esjuna.
Morgunblaðið birti enn pistil um júlífrostin í Þykkvabæ í pistli þann 27.:
Næturfrost gerði í Þykkvabænum 24. og 25. júlí og féll þá mjög mikið af grösum. Sigurbjartur Pálsson, kartöflubóndi á Skarði í Þykkvabæ segir að fljótlega eftir það hafi byrjað að rigna og ágætis væta og hiti hafi verið allan ágústmánuð. Í sumum görðum, þar sem eitthvað lifði af kálinu, hafa grös aðeins tekið við sér. Þar sem ástandið var verst byrjaði að spretta nýtt kál og þá gerðist ekkert niðri í jörðinni á meðan, segir Sigurbjartur. Kartöflubændur hafa tekið upp kartöflur í rúman mánuð og sent í verslanir. Nú eru menn að byrja að taka upp til að setja í geymslur. Segir Sigurbjartur að líklega sé ástandið heldur verra en menn héldu fyrst í stað og svo gæti farið að uppskeran yrði aðeins um 20% af því sem er í venjulegu árferði. Sigurbjartur segir að sumir akrar séu svo illa farnir að ekki taki því að setja á þá upptökuvélar. Það taki því einfaldlega ekki að taka upp úr þeim. Þarna er bara smælki undir, berjarusl sem er einskis virði, segir Sigurbjartur. Hann segir að frostið í vetur muni drepa allt í görðunum og næsta vor verði þeir undirbúnir fyrir uppskeru eins og venjulega. Bergvin Jóhannsson segir að útlit sé fyrir að uppskeran í Eyjafirði verði í góðu meðallagi. Sömu sögu sé að segja frá Hornafirði. Fremur þurrt var fyrri part sumars í Eyjafirði og sprettan lítil en veður hefur verið hagstætt seinni hluta sumars. Hann segir að Eyfirðingar hafi sloppið við frost. Um helgina hafi séð örlítið á grasi en ekkert tjón hlotist af. Bændur í Eyjafirði hafa eins og starfsbræður þeirra í Þykkvabænum verið að taka upp kartöflur til að setja á markað. Um helgina verður byrjað að taka upp kartöflur til að setja í hús. sisi@mbl.is
Samskonar frétt var í Bændablaðinu 27.ágúst:
Eftir tvær frostanætur í sumar, aðfaranætur 24. og 25. júlí, er talið að kartöflubændur í Þykkvabæ verði að þola þyngstu búsifjar sem nokkur búgrein hefur orðið fyrir á seinni tímum. Þeir kartöflubændur sem urðu fyrir þessu tjóni eru um 15 talsins og framleiða nálægt 70% af landsframleiðslunni á um 360 hekturum lands. Næturfrost á þessum árstíma hefur ekki mælst í Þykkvabæ frá því að mælingar hófust árið 1961.
September var einna hlýjastur austanlands. Úrkoma var í ríflegu meðallagi, en sólskinsstundir með færra móti sunnanlands Framan af var mjög hlýtt, sérstaklega í vikunni fyrir miðjan mánuð, en síðustu dagarnir voru óvenjukaldir miðað við árstíma.
Þann 11. fór nokkuð kröpp lægð hratt norðaustur um Grænlandssund. Henni fylgdi furðumikið úrhelli. Morgunblaðið segir frá 12.september:
Mikið úrhelli var víða á Suðurlandi í gær. Í Mýrdal rauf áin Klifandi skörð í varnargarð og veg upp í Fellsmörk vegna vatnavaxta. Nokkrir bílar voru í sumarhúsabyggð í Fellsmörk og voru þeir sem þar dvelja því tepptir, að sögn Jónasar Erlendssonar í Fagradal. Ófært varð yfir Krossá á leiðinni inn í Þórsmörk en einnig var mikill vöxtur í öðrum ám á því svæði. Ragnheiður Hauksdóttir, staðarhaldari í Húsadal, sagði að lækir væru þar orðnir að stórfljótum. Varar lögreglan á Hvolsvelli vegfarendur, sem ætla að leggja á hálendisleiðir um helgina, við færð á svæðinu og hvetur fólk til að athuga með færð áður en lagt er af stað.
Morgunblaðið segir 28.september frá breytingum við Breiðamerkurjökul og Lónið þar:
Reginöflin eru í ham við Breiðamerkurjökul sem hefur hopað um 200 metra frá í vor. Jökulsárlón er nú 22 ferkílómetrar og stækkaði um 0,7 ferkílómetra þegar stór fylla brotnaði af jökulsporðinum í vor er hann missti viðspyrnu á grynningum, að sögn Helga Björnssonar jöklafræðings. Þar sem jökull var áður sést nú eyja í lóninu. Hún hefur enn ekki hlotið nafn en hún mun efalítið auka aðdráttarafl lónsins meðal ferðamanna sem aldrei hafa verið fleiri en í sumar. Lónið mælist nú 260 metrar á dýpt við jökulsporð. sbs@mbl.is
Kuldakast var ríkjandi í upphafi október. Þá festi snjó um mikinn hluta landsins, en síðan hlýnaði og síðustu dagar mánaðarins voru sérlega hlýir ásamt nokkrum dögum um miðbik mánaðarins.
Borgarísjaka rak inn á Önundarfjörð. Er þar mun sjaldséðara heldur en úti fyrir Ströndum og vestanverðu Norðurlandi. Morgunblaðið segir frá þann 5.október:
Borgarísjaka rak inn á Önundarfjörð í gærmorgun [4.]. Þetta er ekki einsdæmi en algengra er þó að til stakra jaka sjáist út af Norðurlandi en á innfjörðum vestra. Í flestum tilvikum er hafís á þessum tíma árs rekís sem kemur úr Grænlandsjökli. Jakarnir, sem sáust vel frá Flateyri, lónuðu út af Ingjaldssandi. Þetta eru stórir jakar sem var mjög óvænt að sjá þegar ég kom á stjá í morgun. Ég lét Veðurstofuna strax vita og í dag hef ég séð báta frá Flateyri sigla þarna í kring. Núna er útfall hér í firðinum en jakarnir, sem eru að brotna í tvennt, hreyfast hvergi, sem bendir til að þeir hafi strandað, sagði Elísabet Kristjánsdóttir, bóndi á Sæbóli á Ingjaldssandi, í samtali við Morgunblaðið síðdegis í gær. Guðjón Guðmundsson á Flateyri sigldi út að jökunum og sagði annan jakann á ellefu faðma dýpi en hinn á sextán. Þeir væru greinilega fastir en dýptin segði nokkuð um stærð. Ofan sjávar væru jakarnir um það bil fjórir metrar á hæð. sbs@mbl.is
Fyrsta vika október var fremur köld, í kjölfar þess að djúp lægð fór til austurs með suðurströndinni þann 2. og henni fylgdi síðan allsnörp norðanátt. Hvassviðrið gekk þó fljótt niður, en lægðardrag var að flækjast við suðvestanvert landið og olli snjókomu þar og víðar. Morgunblaðið segir frá 6.október:
Fjöldi óhappa varð í umferðinni á höfuðborgarsvæðinu í gærkvöldi [5.] eftir að fyrsti snjórinn þetta haustið féll. Þó að rómantíkin virtist liggja í loftinu var kalt og fáir á ferðinni nema þeir sem sátu í hlýjum bílum sínum. Að sögn lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu urðu níu umferðaróhöpp, flest vegna hálku. Bílvelta varð við álverið í Straumsvík um kl. 19:30 en enginn slasaðist. Ökumaður missti stjórn á bíl í hálku á Hvalfjarðarvegi við Tíðaskarð um kl. 21. Hann hafnaði utan vegar og fór í gegnum girðingu en ökumaður slapp ómeiddur. Bíllinn var óökufær og var dreginn burt.
Morgunblaðið var með frekari fréttir af snjókomunni 7.október:
Það byrjaði að snjóa í höfuðborginni í fyrrakvöld og er þetta með allra fyrsta móti að haustinu, að sögn Trausta Jónssonar veðurfræðings. Í fyrra snjóaði að kvöldi 2. október og alhvítt var að morgni þess þriðja. Snjórinn þá var meiri en nú. Síðustu 60 árin hefur aðeins tvisvar orðið alhvítt í Reykjavík í september, 1954 og 1969. Vitað er um fáein eldri tilvik, en aldrei fyrr en 9. september. Það var 1926. Ég held að tilvikin í fyrra og núna séu þau einu til viðbótar septembertilvikunum tveimur þar sem gerir alhvítt í Reykjavík fyrir 8. október sl. 60 ár, segir Trausti. sisi@mbl.is
Þann 9. hlýnaði aftur og hvessti síðan verulega af austri þegar alldjúp lægð nálgaðist úr suðvestri. Lægðin þokaðist síðan til austurs og grynntist næstu daga.
Kortið sýnir stöðuna um hádegi föstudaginn 9. Talvert tjón varð um landið suðvestanvert í þessu veðri, enda varð mjög hvasst, sérstaklega við fjöll vestanlands. Þennan dag var útför Gunnars Hvammdal, gamals starfsfélaga ritstjóra hungurdiska á spádeild Veðurstofunnar. Í huga hans er Gunnar því tengdur þessu veðri. Það bar til tíðinda að fánastöng við Veðurstofuna gaf sig. Eitthvað við það. Undir kvöld (þegar verulega var farið að lægja) ók ritstjórinn í Borgarnes og sá þá að stórar heyrúllur höfðu fokið á Kjalarnesi - ekki algeng sjón. Gríðarleg úrkoma var um landið suðaustanvert, mest 180,6 mm í Hólum í Hornafirði að morgni þess 10. og á fleiri stöðvum mældist sólarhringsúrkoman meiri en 100 mm.
Morgunblaðið segir frá veðrinu í pistli 10.október:
Flug fór úr skorðum, þakplötur þeyttust af húsum og bátar lágu flestir bundnir við höfn þegar kröpp haustlægð, sú fyrsta í ár, gekk yfir suðvesturhornið í gær [9.]. Þetta er eitt alversta veður sem ég man eftir og hefur þó oft blásið hérna. Það var sérstakt við þetta veður hvað það var lengi hvasst. Frá því fimm um morguninn [í gær] og fram á eftirmiðdaginn var ekki hægt að tala um hviður því það var stöðugt hvassviðri allan tímann. Þetta var eitt allsherjar bál, segir Pétur Leví Elíasson, ábúandi á bænum Hjassa á Kjalarnesi, um fárviðrið þegar haustlægðin gekk yfir í gær. Miklar skemmdir urðu á aflögðu refa- og minkabúi á Hólalandi, skammt frá Hjassa, ásamt því sem framhliðin fór af gamla húsinu í Brautarholti nokkur hundruð metra frá. Betur fór en á horfðist því 20 metra gámur sem lá við fjöruborðið tókst á loft. Gámurinn stefndi á Hólaland og mátti litlu muna að hann skylli á dráttarvél en hann var síðan festur niður með jarðvegi eins og brak í annarri skemmunni sem stórskemmdist á Hólalandi. Mildi þótti að þakplötur úr skemmunum þeyttust ekki inn um stofugluggann í Brautarholti og þakkaði Þórður Bogason björgunarsveitarmaður trjágróðri sem stöðvaði þær það að ekki fór ver.
Fárviðri var í Vestmannaeyjum fram undir kvöld í gær og lagðist stór flutningabíll á hliðina í einni hviðunni. Nokkurt tjón varð á íbúðarhúsum, einkum á timburhúsi á Brimhólabraut þar sem hluti þaksins flettist af, að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum. Þá fauk vinnupallur á Bárustíg og þurfti að loka nærliggjandi götum á meðan unnið var við að færa hann frá. Adolf Þórsson, formaður Björgunarfélags Vestmannaeyja, hafði í nógu að snúast en hann sagði lægðina með þeim krappari í lengri tíma, jafnvel síðan 1991. Að sögn lögreglunnar í Vestmannaeyjum gekk veðrið niður um hálfsexleytið í gærkvöldi en flestir bátar voru þá í höfn. Á Keflavíkurflugvelli gekk flug samkvæmt áætlun. [Baldur Arnarson og Júlíus Ingason].
Fréttablaðið segir einnig frá veðrinu í pistli 10.október:
Sjö rútur og strætisvagnar voru kallaðir að Háskóla Íslands í gær vegna veðurofsans til að skýla stærðarinnar veislutjaldi fyrir vindinum. Tjaldið var við það að takast á loft.
Í tjaldinu fer fram Októberfest á vegum Stúdentaráðs Háskóla Íslands. Þetta er ekki í fyrsta sinn sem veður veldur vandræðum á Októberfest, sem síðustu ár hefur verið haldið í sama tjaldinu. Fyrir tveimur árum þurfti að rýma tjaldið eina nóttina af ótta við að það væri að fjúka. - sh
Eignatjón vegna óveðurs sem gekk yfir Suðvesturland í gær nemur milljónum að því er talið er. Fréttist af útveggjum, þökum og klæðningum víða sem ýmist fuku af húsum eða héldust á með naumindum. Um 40 björgunarsveitarmenn í tíu hópum höfðu nóg að gera við að hjálpa fólki og fyrirtækjum sem lent höfðu í vandræðum í veðurbarningnum sem gekk yfir suðvestanvert landið. Í fyrrinótt og í gærmorgun var veðrið með versta móti í Vestmannaeyjum, þar fuku þök af húsum og bíll á hliðina.
Tíð var góð í nóvember, austlægar áttir lengst af ríkjandi og ekki fréttist af tjóni eða vandræðum af völdum veðurs. Lengst af var hlýtt í veðri.
Tíð var sömuleiðis mjög hagstæð í desember. Fram til þess 18. var lengst af óvenjuhlýtt, en síðan einkenndist veðurlag af kulda og stillum. Þó var illviðri og snjóflóðahætta um norðvestanvert landið á aðfangadag. Foktjón varð austanlands og í Vestmannaeyjum dagana 19. og 20.
Síðla árs 2009 raskaðist meginhringrásin við norðanvert Atlantshaf mjög og stóð sú röskun meira og minna allt árið 2010 og varð það eitt afbrigðilegasta hringrásarár um mjög langt skeið. Mikil og hlý hæð var vestur undan - þar sem venjulega er kuldi og háloftalægðasvæði. En meir um það í pistli um árið 2010.
Kortið sýnir hina röskuðu hringrás í desember 2009. Hæðarhryggur er vestur af Íslandi og 500 hPa-flöturinn miklu hærri en venjulegt er. Lægðabrautir víðs fjarri landinu. Fram yfir miðjan mánuð voru mikil hlýindi á landinu. Þau náðu hámarki dagana 11. til 15.
Kortið sýnir hina óvenjulegu stöðu þriðjudaginn 15.desember. Hæðin þokaðist síðan til vesturs og þ.19. og 20. gekk allmikill norðanstrengur yfir landið og varð kalt út mánuðinn. Ný háloftahæð, ámóta mikil háloftahæð myndaðist síðan vestan við land síðustu tvo daga ársins.
Norðankastið um þann 20. olli minniháttar vandræðum. Morgunblaðið segir frá 21.desember:
Illa viðraði víða um land um helgina og sinntu björgunarsveitir nokkrum minniháttar útköllum. Meðal annars var björgunarsveitin Geisli á Fáskrúðsfirði kölluð út þegar þak fauk í heilu lagi af garðhúsi í bænum á laugardag. Á Seyðisfirði sinnti björgunarsveitin Ísólfur útkalli vegna foks og þakskyggnis sem losnaði. Í gærmorgun þurfti lögregla í Vestmannaeyjum að sinna nokkrum útköllum vegna veðurs. Fiskkar fauk á bíl í morgunsárið og braut í honum rúðu. Þá fauk vinnupallur en það olli ekki skemmdum. Einnig fauk hraðbátur af kerru og skemmdist. skulias@mbl.is
Lýkur hér samantekt hungurdiska um veður og veðurfar ársins 1998. Að vanda eru fjölbreyttar tölulegar upplýsingar (meðalhiti, mánaðarúrkoma ofl.) í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (1.8.): 91
- Sl. sólarhring: 195
- Sl. viku: 788
- Frá upphafi: 2488021
Annað
- Innlit í dag: 85
- Innlit sl. viku: 663
- Gestir í dag: 79
- IP-tölur í dag: 79
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning