10.7.2025 | 16:08
Hlaupið yfir árið 1998
Tíð var lengst af hagstæð á árinu 1998, nema hvað sumarið þótti dauft norðaustanlands. Tíð var góð í janúar, suðvestanlands var unnið við jarðvinnslu og grænum lit sló á tún. Febrúar var umhleypingasamur, en tíð var samt talin allgóð til landsins. Snjólétt var. Í mars var aftur á móti kalt rysjótt lengst af, en batnaði undir lokin. Fyrstu viku mánaðarins gerði einhver mestu frost um árabil. Góð tíð var í apríl, hægviðrasamt og gæftir góðar. Gróður tók vel við sér, en nokkuð bar á kali norðaustanlands. Tíð var fremur gott í maí, en svalt. Þurrviðrasamt á Suður- og Vesturlandi. Í júní var þokusælt og kalt við sjávarsíðuna á Norður- og Austurlandi, en annars var tíð talin góð. Þurrkar hömluðu þó grassprettu. Tíð var talin góð á Suðurlandi í júlí, en þar var víða óvenju þurrt. Norðanlands og austan var sólarlítið og þurrkar daufir, þar var svalt í veðri. Í ágúst var úrkoma talsverð, en tíð var samt yfirleitt talin góð, fremur hlýtt var í veðri. September var svalur og vætusamur á Norður- og Norðausturlandi, en betri tíð var syðra. Uppskera í görðum var rýr norðaustanlands. Tíðarfar var rysjótt í október, milt var framan af, en um miðjan mánuð kólnaði nokkuð snögglega og búfénaður var tekinn á hús. Mikið snjóaði þá á landinu norðanverðu. Nóvember var umhleypingasamur, en tíð þó víðast talin hagstæð. Í desember var hlý, en umhleypingasöm tíð. Víðast hvar var snjólétt.
Í textanum hér að neðan er leitast við að rifja upp helstu veðurviðburði ársins, oftast með beinum tilvitnunum í texta frétta- og dagblaða sem leitað er til með hjálp timarit.is. Í fáeinum tilvikum hafa augljósar prentvillur verið leiðréttar og stafsetningu í stöku tilviki hnikað til - vonandi að meinalausu. Sömuleiðis eru textar alloft styttir. Auðvelt ætti að vera að finna frumgerð þeirra. Að þessu sinni (eins og oftast hin síðari ár) er mestra fanga að leita hjá Morgunblaðinu, ritstjóri hungurdiska er að vanda þakklátur blaðamönnum fyrir þeirra hlut. Einnig er notast við textabrot úr tíðarfarsyfirlitum Veðurstofu Íslands, einkum þegar fjallað er um veðurlag mánaða í heild.
Tíðarfar í janúar var að jafnaði gott, þrátt fyrir kuldakast sem gerði um miðjan mánuð og hvassviðrisdaga þ. 20. og 21. Milt var fyrri hluta mánaðarins og vætusamt um austan- og norðanvert landið. Síðustu 10 dagana var hlýtt og fremur þurrt nema suðvestanlands. Sérlega snjólétt var í mánuðinum Þetta telst snjóléttasti janúarmánuður í byggðum landsins allt frá 1924 að telja, snjóhula aðeins 30 prósent. Jafnlítill snjór var í janúar 1964. Að tiltölu var snjóhulan minnst sunnanlands, aðeins 10 prósent.
Framan af mánuðinum voru austlægar áttir ríkjandi og fremur hlýtt í veðri, en síðan snerist vindur til norðausturs og kólnaði. Morgunblaðið birti 3.janúar nánir fréttir af sjávargangi sem varð við Vík í Mýrdal þann 30.desember.
Fagradal. Morgunblaðið. Mikil sjávarflóð urðu nú um áramótin [30.desember 1997] í Vík í Mýrdal en sjávarhæð var óvenjumikil og mikið brim. Sjór flæddi meðal annars inn í kjallara Víkurprjóns. Að sögn Þóris Kjartanssonar framkvæmdastjóra Víkurprjóns urðu skemmdir vonum minni, en í kjallaranum eru m.a. rafmótorar. Með sjónum sem flæddi inn komu meðal annars nokkur sandsíli. Þórir segist ekki muna annan eins sjávargang frá því hann flutti til Víkur en það var upp úr 1960. Sjór flæddi einnig um syðstu götu þorpsins, allt í kringum grunnskólann í Vík og Víkurskála og einnig stórt sjávarlón á túninu framan við tjaldsvæðin.
Norðaustanáttin náði hámarki þann 12. Morgunblaðið segir þann 13.janúar frá sandfoki á Rangárvöllum:
Í dag er sjötti dagurinn í röð með stöðugri norðaustanátt hér á Rangárvöllunum og sandfokið hefur farið stigversnandi. Sand- og moldarmökkinn leggur yfir meginhluta Rangárvallasýslu, segir Sveinn Runólfsson landgræðslustjóri. Mikið hvassviðri hefur verið á þessum slóðum og sandbylur samfleytt frá því um miðja seinustu viku. Ástandið er sérstaklega slæmt vegna snjóleysis og stöðugs vindálags á opnum svæðum. Sveinn segir þetta jaðra við að vera náttúruhamfarir. Það er erfitt að gera sér grein fyrir meginupptökum sandfoksins en mér skilst á viðtölum við bændur í ofanverðri Landsveit, að mönnum virðist þetta koma fyrst og fremst af vikur- og sandsvæðunum á milli Búrfells og Heklu. Það fýkur líka úr öllum opnum jarðvegssárum, rofabörðum, efnisnámum og öðrum gróðurlausum svæðum. Þetta hefur verið mjög slæmt. Ég tel að þetta sé versta sandrokið sem við höfum fengið síðan á fyrstu árum þessa áratugar," segir hann. Sveinn segir ljóst að orðið hafi miklir skaðar og jarðvegsrof á þeim svæðum sem hafa verið að gróa upp á undanförnum árum. Hann bendir hins vegar á að ef svona veður hefði gert á auða jörð fyrir 30-40 árum hefði ástandið verið enn alvarlegra og skyggnið sennilega ekki meira en 5-10 metrar á Rangárvöllum. Það hefur mikið áunnist en þetta er áminning til okkar allra að við gerum miklu betur því enn eru víðáttumikil svæði þar sem við eigum eftir að endurheimta fyrri gróðurhulu," segir hann. Hefur moldarmökkurinn verið svo þéttur á stundum að ekki hefur sést til himins, að sögn Sveins. Sandbylurinn er hvimleiður og smýgur inn í hús. Ég segi ekki að það sé sporrækt í íbúðarhúsum en það er mikið ryk í gluggum," segir hann.
Loksins fór að snjóa á Vestfjörðum, Norður- og Austurlandi um helgina og það ríflega. Vonskuveður var víða í gær og var mikil hálka og skafrenningur á þjóðvegum. Ófært var á mörgum fjallvegum. Öxnadalsheiði var kolófær fram eftir degi í gær, blindbylur og mikill skafrenningur var á heiðinni en veður af því tagi hefur verið á þeim slóðum nokkra síðustu daga samkvæmt upplýsingum vegaeftirlits Vegagerðarinnar á Akureyri ... Talsvert tjón varð á bílum, krana Og byggingu á athafnasvæði Norðuráls á Grundartanga síðdegis í gær, þegar sterk vindhviða feykti þar til stórum plaströrum. Varð einn starfsmanna fyrir lítilsháttar meiðslum, samkvæmt upplýsingum lögreglu í Borgarnesi. Um svipað leyti varð annað óhapp á svæðinu, þegar húseining sem var verið að skipa upp, féll af vörubíl á fólksbíl og olli miklum skemmdum á bifreiðinni.
En tíð var mild, Morgunblaðið segir frá 14.janúar:
Hrunamannahreppi - Morgunblaðið. Þótt tíðarfar hafi oft verið gott um þetta leyti árs man enginn eftir því hér um slóðir að unnið hafið verið við að plægja jörð í janúarmánuði. Magnús Páll Brynjólfsson, bóndi í Dalbæ í Miðfellshverfi, var að notfæra sér góðu tíðina sl. laugardag og vinna sér í haginn fyrir vorið. Þá tóku sumarbústaðaeigendur upp kartöflur á sunnudaginn. Nú síðustu sólarhringa í þeirri stífu norðanátt er óvenju mikið rykmistur á lofti hér á Suðurlandi sem berst af hálendinu í hvassviðrinu. Miklar líkur eru á að gróðurskemmdir hafi orðið enda býður þessi veðrátta hættunni heim hvað uppblástur varðar þegar jörð er auð og ófrosin.
Vind lægði í gær í Rangárvallasýslu og sandfokið sem geisað hefur frá síðastliðnum miðvikudegi stöðvaðist, að minnsta kosti í bili. Hjá heimilisfólkinu á Skarði í Landsveit og öðrum bæjum í grenndinni gefst nú tækifæri til að hreinsa burt sandinn sem stöðugt safnaðist fyrir við glugga og útihurðir. Sandfokið náði hámarki á sunnudagskvöld og mánudag. Að sögn heimilismanna á Skarði var skyggni þá svo slæmt að erfitt var að rata. Sums staðar hefur viðkvæmur gróður gefið eftir, en víðast hvar í grennd við Skarð virðist hann hafa haldið velli. Ef snjóar eða rignir á þetta og jarðvegurinn blotnar fer allt vel, segir Kristinn Guðnason bóndi.
Veðráttan segir að þann 12. hafi orðið nokkuð tjón á raflínum vegna ísingar á Úthéraði.
Þann 20. fór mjög djúp lægð hratt til norðausturs fyrir vestan land. Gerði þá mikið illviðri fyrst af suðaustri og suðri, en síðan suðvestri og vestri.
Kortið sýnir stöðuna um hádegi þann 20. þegar landsynningsveðrið var í hámarki. Vindur á Skálafelli komst í 62,5 m/s. Tjón varð víða, en ekki þó stórfellt, nema eitt banaslys í umferðinni. Morgunblaðið segir frá 21.janúar:
Mikið óveður gekk yfir landið í gær [20.] og olli því, að sögn Einars Sveinbjörnssonar veðurfræðings, djúp lægð sem kom upp að landinu að vestanverðu í gærmorgun og fór síðan norðaustur yfir landið í nótt. Mesti veðurhamurinn var rétt á undan skilum lægðarinnar, en henni fylgdi suðaustan stormur eða rok, sem jafngildir níu til tíu vindstigum. Auk þess varð talsverð úrkoma. Að sögn Einars er ekki ósennilegt að verstu vindhviðurnar hafi verið um áttatíu til níutíu hnútar víða um landið suðvestan- og vestanvert þar sem veðurhamur stóð af fjöllum. Hann getur þess að tólf vindstig eða fárviðri samsvari 64 hnútum. Veðrið var verst í gærmorgun sunnan- og vestanlands og þegar leið á daginn hvessti einnig annars staðar á landinu. Í Reykjavík voru verstu hviðurnar 78 hnútar [40,1 m/s]. Víða um land varð eignatjón af völdum veðursins, þar sem járnplötur og fleira lauslegt fauk. Í Kópavogi fuku vinnupallar, uppsláttur og járnplötur á bíla og brutu rúður, auk þess sem alvarlegt vinnuslys varð þegar maður lenti undir vinnupalli sem fauk um koll.
Í Reykjavík fuku þakplötur, blaðagámur, auglýsingaskilti og jafnvel bílar. Þá fauk handrið öðrum megin af brú við inngang nýrrar byggingar Fjölbrautaskólans i Garðabæ. Bílar fuku út í kant í Hveradalabrekku við Skíðaskálann, og sendibifreið fauk á fólksbíl við Kúagerði við Kapelluhraun. Víða mynduðust stórir pollar vegna úrkomunnar við stífluð niðurföll hjá húsum og skólum. Unnu starfsmenn á vegum holræsadeildar Reykjavíkurborgar að því í allan gærdag að hreinsa lauf og annað rusl frá niðurföllunum. Sums staðar lak vatn inn í kjallara húsa en samkvæmt upplýsingum frá holræsadeild borgarinnar var ekki vitað um alvarlegt tjón af völdum þessa. Rafmagnslaust varð í korter á Höfn í Hornafirði og nágrenni á níunda tímanum í gærmorgun vegna samsláttar á línum, að sögn Þorsteins Hilmarssonar, upplýsingafulltrúa Landsvirkjunar.
Nokkrar skemmdir urðu á bifreið og klæðningu á íþróttahúsi við Klébergsskóla á Kjalarnesi þegar lítill leikkofi tókst á loft. ... Í einni rokunni náði vindurinn að taka kofann og feykja honum til, fyrst kastaðist hann um 20 metra á bifreið sem þar var. Svo hentist hann í önnur leiktæki, í framhaldi af því brotnaði hann í spón og hluti af honum fauk í íþróttahúsið, þar sem hann skemmdi klæðningu," segir Sigþór Magnússon, skólastjóri á Klébergi. Í verstu hviðunum fauk auk þess til möl og sandur og skemmdi á annan tug rúða, að sögn Sigþórs.
Borgarnesi. Morgunblaðið. Mikið tjón varð á gróðurhúsum að Kleppjárnsreykjum í Reykholtsdal og töluvert var um foktjón í Borgarnesi og nágrenni í suðaustan óveðrinu sem gekk yfir landið í fyrrinótt. Bálhvasst var í Borgarnesi fram yfir hádegi en þá slotaði veðrinu. Mesta tjónið varð hjá gróðurhúsabændum á Kleppjárnsreykjum. Þar brotnuðu rúður í nokkrum gróðurhúsum auk þess sem skemmdir urðu á plöntum. Að sögn Daníels Oddssonar hjá Vátryggingafélagi Íslands í Borgarnesi var nýbúið að glerja gróðurhúsin upp eftir foktjón sem varð þar 29. desember sl. en þá varð þar um einnar milljónar króna tjón og taldi Daníel að tjónið yrði jafnvel eitthvað meira að þessu sinni. Í Borgarnesi varð töluvert um minniháttar foktjón þegar líða tók á morguninn. Alls skemmdust um tíu bílar er ýmislegt brak fauk á þá. Frá bensínstöðvunum þremur við Brúartorg fauk brak úr auglýsingaskiltum og hlífar af bensíndælum og þrjár fánastangir þoldu ekki álagið og lögðust út af. Rúður brotnuðu í húsi Vegagerðarinnar og fleiri húsum. Þá gaf handriðið á Brákarbrú sig og féll inn á brúargólfið að hluta til. Skjólveggir við nokkur hús gáfu sig og stór rúða brotnaði í húsakynnum Markaðsráðs og Ferðaskrifstofu Vesturlands en þar á bæ hafði fólk séð hvað verða vildi og náð að forða sér í tæka tíð. Þá losnaði þakið á Dvalarheimilinu og á húsi í Klettavík. Félagar í Björgunarsveitinni Brák og liðsmenn slökkviliðsins voru kallaðir út og náðu þeir að koma í veg fyrir mörg tjón með vinnu sinni, að sögn Daníels Oddssonar hjá VÍS. Þá var lögreglan á ferli fólki til aðstoðar. Kennsla yngri barna féll niður í Grunnskóla Borgarness eftir hádegi og komu margir foreldrar og náðu í börn sín í skólann frekar en að láta þau fara með skólabílnum. Röskun varð á áætlunarferðum sérleyfisbíla til og frá Borgarnesi fram eftir degi.
Tveir bílar fuku útaf á Svalbarðsstrandarvegi um miðjan dag í gær. Sendibíll hafnaði á hliðinni við afleggjarann að húsinu Litla-Hvammi og örfáum metrum sunnar snerist jeppabifreið og hafnaði með afturhjólin utan vega. Sendibíllinn skemmdist mjög lítið og jeppabifreiðin ekkert. Engin slys urðu á fólki. Kona sem datt á Gleráreyrum í hvassviðrinu var flutt á slysadeild FSA en meiðsl hennar voru minni háttar. Þá losnuðu þakplötur á húsinu að Strandgötu 7. Samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Akureyri fór vindhraðinn mest í 73 hnúta [37,6 m/s] um það leyti sem þessi óhöpp urðu, eða rúm 12 vindstig. Meðalvindur í 10 mínútur á þessum tíma var 44 hnútar [22,7 m/s].
Banaslys varð þegar hópferðabíll Norðurleiðar á leið til Akureyrar fauk út af veginum á Kjalarnesi á móts við bæinn Útkot norðan við Tíðaskarð kl.9 í gærmorgun [20.], en þar var þá aftakaveður og vindhraðinn talinn yfir 12 vindstig í hviðum. Ungur piltur sem var farþegi í bílnum beið bana. ... Þrír aðrir farþegar sem voru í bílnum og bílstjórinn slösuðust ekki alvarlega, að sögn lögreglu, og voru þeir fluttir á slysadeild. Skömmu fyrir klukkan ellefu tókst yfirbyggður pallbíll á loft skammt frá slysstaðnum og skall hann á hliðina og rann þannig út í vegkantinn. Ekki urðu meiðsl á þeim sem í bílnum var. Þá eyðilagðist framrúða í sjúkrabíl sem kom á vettvang og hliðarrúða sprakk úr öðrum sjúkrabíl á staðnum, en grjóthnullungar buldu á bílunum í veðurofsanum. Hópferðabíllinn er 16,5 tonn að þyngd. Grjótbylur skall á bílnum og braut rúður áveðurs. Skipti engum togum að bíllinn skall á vinstri hliðina og rann hann þannig niður brattan vegkantinn og hafnaði með framendann í lækjarfarvegi um sjö metrum neðan við kantinn. Pilturinn sem lést var úrskurðaður látinn þegar sjúkraliðið kom á vettvang. Tveir hinna farþeganna slösuðust aðallega í andliti, en meiðsl þeirra voru ekki talin alvarleg. Fjórði farþeginn reyndist nánast ómeiddur, en ökumaðurinn meiddist á mjöðm og læri.
Ökumaður fólksbifreiðar á leið suður Reykjanesbraut í óveðrinu í gærmorgun slapp með skrekkinn þegar tveggja og hálfs tonns sendibifreið, sem kom úr gagnstæðri átt, fékk á sig vindhviðu og fauk á bílinn. Bílarnir voru báðir á ferð þegar þetta gerðist og reif sendibíllinn þak fólksbifreiðarinnar nánast af á meðan hann var að velta á hliðina. Bílstjóri sendibifreiðarinnar slapp einnig ómeiddur, en báðir bílarnir eru mikið skemmdir. Engir farþegar voru með í för.
DV segir 9. febrúar frá tjóni í þessu veðri:
Í óveðrinu sem gekk yfir landið á dögunum urðu nokkrar skemmdir í Víðidal í Vestur-Húnavatnssýslu. Gömul hlaða fauk í Enniskoti og einnig önnur hlaða í Dæli. Einungis einn veggur og nokkrar þakplötur urðu eftir. Leiktæki, sem er við sumarhúsaþyrpingu hjá ferðaþjónustubændunum Víglundi Gunnþórssyni og Sigrúnu Valdimarsdóttur, fauk á eitt húsið með þeim afleiðingum að það skemmdist nokkuð. Að sögn Sigrúnar voru þau búin að koma leiktækjunum þannig fyrir að þau ættu ekki að haggast en í þungum suðaustanstrekkingi verður fáu við komið. Þau hjónin urðu vör við að heyflygsur og annað lauslegt var farið að fjúka fram hjá íbúðarhúsi þeirra. Þá varð Sigrúnu á orði að nú væri eitthvað að gerast. Skömmu síðar fór allt afstað og fauk þá hlaðan við gamla bæinn, að mestu í einu lagi, út á tún. -GHB
Dagur segir frá illviðrinu í pistlum 22.janúar:
Vörubíll sem var að flytja steypueiningu fyrir Norðurál valt á vegamótum Vesturlandsvegar og Akranesafleggjara á ellefta tímanum í gærmorgun. Ástæðan var vindsveipur sem lagði bílinn á hliðina og eyðilagði farm hans, auk þess sem bíllinn skemmdist nokkuð. Ökumaður slapp með skrámur. Vesturlandsvegur var nánast lokaður vegna atviksins frá kl.11:30-15:30 í gær en fært var um Akranesveginn. Kranabíl þurfti til að losa bílinn. BÞ
Líkur eru á að stórtjón hafi orðið þegar flæddi í porti Eimskips við Sundahöfn í Reykjavík, þar sem 31 bíll stóð. Þetta gerðist aðfaranótt 30. desember sl. þegar bæði var stórstreymt og mikil rigning. Grunur leikur á að vatnið sem flæddi upp um niðurföll hafi verið sjóblandað en bílarnir voru nýkomnir til landsins á vegum nokkurra bílaumboða og skemmdust
mismikið.
Afgang mánaðarins var lengst af stillt og milt veður. Þ.30. féll grjótskriða úr Reynisfjalli. Morgunblaðið 31.janúar:
Allstór grjótskriða féll úr Reynisfjalli klukkan rúmlega tvö í gær [30.] og staðnæmdist um 200-300 metrum vestan byggðarinnar í Vík í Mýrdal. Nokkrir mjög stórir steinar eða björg fylgdu með skriðunni, eitt þeirra sýnu stærst og var giskað á að það væri allt að tíu metrar á kant. Að sögn Sveins Pálssonar, verkfræðings í Vík, virðist víðar vera los í fjallsbrúninni en byggð stafar þó ekki hætta af. Svæðið er þó afgirt og lýst hættusvæði. Áður hafa fallið skriður úr fjallinu á þessum stað, þar sem kallað er Hrapið, en nokkrir áratugir eru síðan síðast féll verulega stór skriða, sem var mun stærri en sú sem nú féll og staðnæmdist í gömlu skriðunni miðri. Þetta féll úr efstu brún fjallsins. Þarna voru nokkrir mjög stórir steinar og einn þeirra áberandi stærstur. Menn voru að skjóta á að hann væri um tíu metrar á kant en ég tek nú enga ábyrgð á þeim tölum, segir Sveinn. Skilur eftir sig ljótt sár í fjallinu Sigurður Gunnarsson sýslumaður telur möguleika á að meira falli á þessum slóðum en segir að byggð stafi ekki hætta af. Við erum búnir að fá leiðbeiningar frá Veðurstofunni um hvernig á að mæla þetta og fylgjast með því og fáum jarðfræðing hingað á mánudaginn til þess að skoða þetta nánar, segir sýslumaður. Viðar Björgvinsson bifreiðastjóri í Vík varð var við mikinn hávaða þegar skriðan féll. Ég var að fara hér út úr dyrunum og heyrði þá feiknaskruðninga. Fyrst hélt ég að það væri að fara stórt tæki eftir götunni og rauk út í dyr, en þá var skriðan á leiðinni niður fjallið með skruðningum og látum. Það rauk nú ekki mikið úr þessu, þar sem þetta er blautur jarðvegur, en þegar skriðan hafði stöðvast sá maður að það voru í henni óhemjustór björg, segir hann og bætir við að skriðan skilji eftir sig býsna ljótt sár í fjallinu. Mér er sagt af kunnugum hér að það geti verið von á skriðum víðar og jafnvel meiru, af því brúnin er svo sprungin, svo ef það færi vatn í þann brest og frysti þá gæti þetta klofnað frá, segir Viðar.
Eins og búist var við var grjóthruni úr Reynisfjalli ekki alveg lokið. Morgunblaðið segir frá 7.febrúar:
Skriða féll í fyrrakvöld [5.febrúar] neðan úr bergfyllunni sem eftir varð í brún Reynisfjalls þegar mikil grjótskriða féll þar sl. föstudag. Í Vík hafa menn beðið eftir að viðri til þess að sprengja, þar sem fyrirsjáanlegt þótti að meira kæmi niður. Sigurður Gunnarsson, sýslumaður í Vík, sagði í samtali við Morgunblaðið í gær að þar myndu menn bíða átekta enn um sinn með að sprengja það sem eftir væri, þar kyngdi niður snjó og útlitið væri svipað næstu daga.
Tíðarfarið í febrúar var fremur kalt og allra síðustu dagarnir sérlega kaldir. Mánuðurinn var fremur næðingssamur og hvessti mjög norðan til á landinu þ.14. (af suðvestri) og á öllu landinu í lok mánaðarins (af norðri). Einnig varð hvasst þann 8. (af austri). Mjög hlýtt varð um stund um landið norðaustan- og austanvert í suðvestanátt þann 17. Þá mældist hiti á Dalatanga 18,1 stig og var þetta hæsti hiti sem mælst hafði í febrúar hér á landi. Því miður má efast um að rétt hafi verið lesið af mæli, sjálfvirka stöðin á sama stað sýndi hæst 15,3 stig þennan dag. Kuldakastið sem hófst í lok mánaðarins og hélt áfram fyrstu viku marsmánaðar var það mesta síðan 1968 og 1969 og hefur ekki komið jafnmikið síðan.
Þann 13. fór kröpp, vaxandi lægð norður yfir landið, í kjölfar hennar gerð vestan illviðri og mikla hríð á fjöllum. Veðrið varð verst fyrir norðan. Morgunblaðið segir frá 17.febrúar:
Snjóflóð féll á útihús við Stóruvelli í Bárðardal aðfaranótt laugardags [14.]. Að sögn Garðars Jónssonar bónda var lítill sem enginn snjór í brekkunni fyrir utan hengjuna sem fór af stað á tveggja km kafla. Húsið var byggt sem minkahús árið 1987 en hefur verið notað sem vélageymsla. Sá hluti hússins sem varð fyrir flóðinu virðist mikið skemmdur en Garðar sagðist í gærkvöldi ekki geta gert sér grein fyrir tjóninu. Þau hjónin hafi verið að fikra sig áfram við nýtingu hússins og m.a. tekið húsvagna og annað slíkt í geymslu og svo vel hafi viljað til að það hafi verið í hinum enda hússins og því sloppið óskemmt.
Fólk á ferð um Öxnadalsheiði, Strandir, Holtavörðuheiði og víðar lenti í hrakningum á föstudagskvöld [13.] og aðfaranótt laugardags í aftakaveðri. Björgunarsveitum og lögreglu tókst að koma flestum til byggða en á Öxnadalsheiði héldu átta manns þó kyrru fyrir í rútu. Flutningabíll fór á hliðina á Steingrímsfjarðarheiði í vonskuveðri á föstudagskvöld en mennina sem í honum voru sakaði ekki. Um svipað leyti lenti fólksbíll út af veginum í Kollafirði [á Ströndum] og sótti lögreglan á Hólmavík fólkið, sem ekki varð meint af, og var bíllinn talinn óskemmdur.
Morgunblaðið segir af tjóni og vandræðum á Akureyri í pistli 17.febrúar:
Mikill erill var hjá lögreglu á Akureyri um helgina vegna óveðurs, aðallega frá því snemma á laugardagsmorgun [14.] og fram yfir hádegi, en á þeim tíma bárust yfir 300 símtöl þar sem leitað var eftir aðstoð. Lögregla ásamt félögum í Hjálparsveit skáta og Flugbjörgunarsveit aðstoðuðu fólk sem komast þurfti leiðar sinnar í óveðrinu og greiddu fyrir umferð þar sem hægt var. Fjöldi árekstra varð þegar bifreiðar skullu saman vegna lítils skyggnis og varð þannig tjón á 15 bílum á Hlíðarbraut við afleggjarann hjá Hlíðarfjalli, en þar var mikill vindstrengur og skyggni nánast ekkert. Á þessum stað var ekið aftan á lögreglubifreið sem stóð með blá, blikkandi ljós og munaði minnstu að hún kastaðist á lögreglumenn sem voru að störfum. Var Hlíðarbrautinni lokað fyrir allri umferð af þessum sökum um tíma. Lítilsháttar tjón varð víða um bæinn, einkum vegna foks. Í Glerárhverfi fauk mótakrossviðarplata inn um glugga á annarri hæð í fjölbýlishúsi og olli hún nokkru tjóni. Nokkur börn höfðu verið að leik í herberginu er hún kom inn í, en voru nýfarin út þegar platan kom í gegnum gluggann og má það teljast mikið lán. Einnig varð tjón á nokkrum bílum og rúður brotnuðu á þó nokkuð mörgum stöðum en hvergi varð teljandi tjón.
Minniháttar hlaup gerði í Skeiðará. Morgunblaðið 24.febrúar:
Hnappavöllum. Morgunblaðið. Hafið er hlaup í Skeiðará en ekki er búist við stóru hlaupi í þetta sinn þar sem lítið vatn er í Grímsvötnum að sögn vísindamanna. Rennsli í ánni
síðdegis í gær var 575 rúmmetrar á sekúndu og segir Ásgeir Gunnarsson vatnamælingamaður að hlaupið eigi nokkra daga í að ná hámarki.
Morgunblaðið segir frá óhappi í frétt 25.febrúar:
Rúta rann 30 metra niður hlíð milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar. Ég var á leið upp brekkuna þegar vindstrókur skall á okkur og allt varð ein iða. Ég sló af, sá stiku en fór öfugu megin við hana þannig að bíllinn fór fram af kantinum, datt á hliðina og rann eins og sleði niður eftir á snjónum," segir Torfi Andrésson ökumaður langferðabifreiðar sem fór út af veginum á leið milli Tálknafjarðar og Patreksfjarðar um miðjan dag í gær [24.] og rann um þrjátíu metra niður bratta hlíð. Í bílnum, sem tekur 21, voru tveir farþegar auk bílstjóra, og varð einn maður fyrir lítilsháttar meiðslum. Bifreiðin er talin stórskemmd. Bifreiðin var að aka eftir svonefndri Hálsgötu í Tálknafirði á leið til Patreksfjarðar, en aksturinn var á vegum Íslandsflugs. Blindhríð var og slæm skilyrði til aksturs þegar óhappið átti sér stað. Bíllinn stoppaði loks á steini í hlíðinni, sem er eins gott því annars hefðum við runnið um hundrað metra til viðbótar.
Síðustu daga mánaðarins gerði óvenjuhart kuldakast. Morgunblaðið segir þann 27.febrúar frá upphafi þess.
Vonskuveður var víða um norðanvert landið í gærkvöldi, fjallvegir voru víðast orðnir ófærir og ekkert ferðaveður. Seint í gærkvöldi var veðrið hvað verst á sunnanverðu Snæfellsnesi, norðan 11 vindstig, einnig var slæmt veður á Vestfjörðum. Á norðanverðu landinu voru 7-8 vindstig og sums staðar upp í 9 vindstig, að sögn Harðar Þórðarsonar veðurfræðings. Snjóflóð féll á Súðavíkurveg úr stóra gilinu svokallaða rétt utan við þorpið klukkan rúmlega átta í gærkvöld og var Súðavíkurhlíð samstundis lokað vegna yfirvofandi hættu á snjóflóðum. Að sögn lögreglu á Ísafirði seint í gærkvöldi hafði ekki frést af frekari flóðum en vegna snjóflóðahættunnar var enginn á ferli eftir að veginum var lokað.
Í heild varð mars nokkuð kaldur um allt land en mikil fjölbreytni í veðurfarinu. Fyrstu viku mánaðarins var mikill kuldi á landi og komst frostið í -34,7 stig við Mývatn. Sums staðar norðaustanlands varð frostið meira en orðið hefur um nokkurra áratuga skeið. Þrátt fyrir þennan kulda í byrjun mánaðar vantaði talsvert upp á að mars næði því verða jafn kaldur og sami mánuður árið 1995, því þrjá góða hlýindakafla gerði síðari hluta mánaðarins. Krappar lægðir fóru yfir landið dagana 21.-23. með miklu hvassviðri og mánuðinum lauk með góðviðri um allt land.
Kuldi - og hlýindi ollu því að met var sett í mun á hæsta hámarki og lægsta lágmarki sömu stöðvar í sama mánuði. Hann varð 41,4 stig í mars á Staðarhóli í Aðaldal - það mesta sem vitað er um á mannaðri stöð. Á sjálfvirku stöðinni við Mývatn varð munurinn enn meiri, 43,3 stig og er það líka met.
Kuldakastið sem hófst í lok febrúar og stóð síðan alla fyrstu viku marsmánaðar er það mesta á síðari áratugum og þarf að fara allt aftur til hafísáranna til að finna svipað.
Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) og þykktina á miðnætti 28.febrúar. Það er nánast einstakt að sjá svona litla þykkt alveg við landið enda mældist frostið meira heldur en allar götur síðan 1918 (eins og áður sagði). Þegar þessi kuldi kom út yfir hlýjan sjóinn í kringum landið urðu til smálægðir og sveipir með miklum éljabökkum. Kalda loftið fór m.a. suður um Færeyjar og olli þar meiri snjókomu en elstu menn mundu. Þar urðu mörg snjófóð og féllu jafnvel á hús og eyðilögðu bíla. Manntjón varð þó ekki.
Íslandskortið hér að ofan sýnir veður á landinu á sama tíma og háloftakortið. Frost er nær alls staðar meira en -10 stig og þar að auki strekkingsvindur. Fyrir norðaustan land myndaðist kröpp smálægð sem fór síðan suðvestur yfir landið síðdegis þann 1.mars og aðfaranótt 2.
Lægðin skipti sér nokkuð upp yfir landinu. Kl.18 mátti greina tvær miðjur, aðra við Skagafjörð og hina yfir Norðausturlandi. Heldur hlýrra var í lægðarmiðjunni sjálfri heldur en umhverfis. Á þessu korti var versta veðrið á Bergstöðum í Skagafirði, norðnorðvestan ofsaveður, 30,9 m/s, snjókoma, -10 stiga frost og skyggni ekkert. Loftvog hafði fallið um 12 hPa á 3 klst - eitthvað af því falli væntanlega vindáhrif.
Það er rétt svo að endurgreining evrópureiknimiðstöðvarinnar náði þessari litlu lægð, en hún er þó þarna á kortinu hér að ofan sem gildir á miðnætti að kvöldi þess 1.
Nokkuð hlýnaði þann 8. en þann dag gekk köld lægð norðaustur um Grænlandssund. Hún olli miklu illviðri um landið vestanvert, rétt svo hlánaði við suðvesturströndina. Morgunblaðið segir frá 12.mars:
Lögregla og björgunarsveitir á Vesturlandi veittu fjölda manns aðstoð vegna veðurofsa á sunnudag [8.] og aðfaranótt mánudags og þurftu m.a. á þriðja tug manna að láta fyrirberast á milli 6 og 8 klukkustundir í bifreiðum sínum á Snæfellsnesi á sunnudagskvöld. Ekki væsti um fólk og brugðust lögreglumenn skjótt við til að veita vegfarendum í vandræðum liðsinni. Tilkynning um ökumenn sem áttu í erfiðleikum barst til lögreglu í Stykkishólmi um klukkan 22 á sunnudagskvöld en þá var hvasst í veðri og gríðarlega mikill skafrenningur að sögn lögreglu. Vegfarendur óku inn í blindbyl í Kolbeinsstaðarhreppi og var veðrið með svipuðu móti í Eyja- og Miklaholtshreppi og Staðarsveit. Einkum var ástandið slæmt í Kerlingarskarði. Þurfti lögreglan að aðstoða fólk í einum 15 bifreiðum sem staddar voru á þessum slóðum og komust ekki áfram vegna lítils skyggnis enda þétt kóf þar, auk þess sem skóf inn á bifreiðir þannig að á þeim drapst. Félagar björgunarsveitarinnar Berserkja í Stykkishólmi ásamt öðrum björgunarsveitarmönnum aðstoðuðu fimm lögreglumenn við að hjálpa fólki í hrakningum til um klukkan 3 aðfaranótt mánudags.
Lögreglan í Borgarnesi hjálpaði um sex ökumönnum að komast leiðar sinnar, bæði í Melasveit og á Hvalfjarðarströnd og einnig á Holtavörðuheiði. Þá varð aftanákeyrsla á Holtavörðuheiði um klukkan 16 á sunnudag sem rakin er til vonskuveðurs og blindbyls. Ökumaðurinn tilkynnti lögreglu sjálfur um atburðinn nokkru seinna um daginn og kvartaði yfir meiðslum í hálsi, en áverkar hans voru ekki taldir miklir. Vegir lokuðust víða á Vestfjörðum vegna ofankomu og hvassviðris aðfaranótt mánudags [9.] en í gær var búið að opna flesta vegi milli fjarða, en lengur tók að opna veginn um Djúpið og Steingrímsfjarðarheiði. Ekki var vitað um sérstaka erfiðleika af þeim sökum samkvæmt upplýsingum £rá lögreglunni á Ísafirði. Nokkrir vegfarendur lentu í erfiðleikum í Húnavatnssýslu vegna veðurs samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Blönduósi og þurftu björgunarsveitarmenn m.a. að sækja tvær stúlkur sem sátu fastar í Víðidal. Félagar í Hjálparsveit skáta og Flugbjörgunarsveitinni á Akureyri aðstoðuðu fólk sem lenti í vandræðum í Víkurskarði og Ljósavatnsskarði vegna ófærðar á sunnudagskvöld [8.].
Þann 11. hlánaði loks að mun. Komu þá í ljós ýmsar skemmdir sem orðið höfðu í frostunum. Morgunblaðið þann 12.mars:
Vatnsskaðar hafa verið tíðir undanfarna sólarhringa og hefur slökkviliðið í Reykjavík verið kallað út í tæpan tug skipta til að hreinsa upp vatnselg og afstýra skemmdum af völdum leka. Vatnsskaðar þessir eru flestir raktir til mikils frosts seinustu daga. Slökkviliðið í Reykjavík fór í Kringluna aðfaranótt mánudags [9.] þar sem úðarar, sem eru hluti af slökkvikerfi, höfðu gefið sig með þeim afleiðingum að vatn lak niður á gólf verslunarmiðstöðvarinnar. Skrúfað var fyrir vatnið og því sem lekið hafði niður var dælt út. Fór vatnið eingöngu á ganga en ekki inn í verslanir samkvæmt upplýsingum frá lögreglu, þannig að skemmdir eru taldar hverfandi litlar. Þá flæddi heitt vatn um kjallara í Þönglabakka í Mjódd eftir að leiðsla í hitablásara sprakk. Í gærmorgun [11.] urðu sömuleiðis vatnslekar í Grjótaþorpi, hjá Íslandsflugi og í Víðidal. Þá flæddi inn á milliloft í verslunarhúsnæði í Smáralandi í Kópavogi aðfaranótt sunnudags með þeim afleiðingum að talsverðar skemmdir urðu. Fjöldi vatnsskaða er óvenjulega mikill samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu í Reykjavík og er fólk beðið um að vera á varðbergi vegna þessa og athuga hvort lagnir liggja fyrir ofan eða utan við einangrun og fylgjast vel með þeim ef svo er.
Snjóflóð féll á veginn til Flateyrar í gærkvöldi [11.] og lokaðist hann fyrir allri umferð. Að sögn lögreglunnar á Ísafirði féll snjóflóðið úr Selárbólsurð og lokaði veginum á Hvilftarströnd. Flóðið er talið um 100-150 metra breitt.
Ís var á Sundahöfn í kuldanum í gær [11.] og snjór á jörð.
Mjög hlýtt var í veðri þann 12. og 13., en þá fór lægð norðaustur fyrir vestan land. Olli hlákan krapaflóðum á Bíldudal. Morgunblaðið segir frá 15.mars:
Tuttugu og sjö Bílddælingar, sem búa í níu húsum, þurftu að rýma heimili sín í fyrrinótt [14.] en þá féllu a.m.k. tvö krapaflóð úr Gilsbakkagili á Bíldudal. Hættuástandi var aflétt í gærmorgun. Fyrra flóðið féll á bílskúr og að íbúðarhúsi við Dalbraut. Þessi sami bílskúr skemmdist í krapaflóði í fyrra en skemmdir vegna flóðsins nú urðu óverulegar, að því er segir í fréttatilkynningu frá Veðurstofu Íslands og sýslumanninum á Patreksfirði. Seinna flóðið olli ekki skemmdum. Flóðin féllu úr Gilsbakkagili niður á Dalbraut. Fyrra flóðið var um 40 metra breitt og 1 metri á dýpt á veginum. Svæðið var þá rýmt og leitaði fólk til vina og ættingja í bænum. Þórólfur Halldórsson, sýslumaður á Patreksfirði, segir að flóðið nú hafi verið mun minna en það sem féll úr sama gili og á bílskúrinn í fyrra. Bílskúrinn stendur ofan Dalbrautar en í fyrra féll flóðið yfir veginn og í sjó fram. Að þessu sinni fór það lítið yfir veginn. Eftir að aðstæður á Bíldudal höfðu verið kannaðar í gærmorgun ákváðu Veðurstofa og sýslumaður að leyfa íbúum húsanna níu að snúa heim til sín aftur. Sýslumaður sagði að fylgst væri með vatnsrennsli úr giljum á Bíldudal og Patreksfirði en búist er við kólnandi veðri með kvöldinu. Hann sagði að segja mætti að það hefði komið á óvart að flóð gerði nú, því úrkoma hefði nú verið talsvert minni en var þegar gilið ruddi sig í hláku í fyrra.
Þann 13.varð mikið ísskrið í Þjórsá. Morgunblaðið segir frá þann 17.:
Selfossi - Mikið ísskrið eða klakahlaup varð í Þjórsá skömmu eftir hádegi síðastliðinn föstudag [13.]. Hlaupið hófst í ánni á móts við bæinn Egilsstaði og hljóp niður ána um fimm kílómetra. Áður en hlaupið varð hafði hækkað verulega í ánni og vatn stóð hátt í henni í gilinu undir Þjórsárbrú. Ólafur Sigurjónsson, bóndi í Forsæti, varð vitni að hlaupinu þar sem hann sat við eldhúsgluggann á bænum og horfði út. Þetta var ótrúlega há flóðbylgja sem kom niður ána. Jakahrönglið var á fullri ferð, jakarnir þeyttust upp og áin var öll á iði, þetta var eins og hraunelfa, sagði Ólafur. Við þessar aðstæður, langvarandi kulda og mikla ísmyndun á ánni, sagði hann ísskriðið aðal hættuna frá ánni. Þá gætu myndast þær aðstæður að ísinn stíflaði rennslið og áin færi upp úr farveginum og vestur láglendið neðan við félagsheimilið Þjórsárver. Greinilegt er að mikið hefur gengið á í klakahlaupinu á föstudag. Ísinn á ánni er mjög úfinn og ljóst að mikil ferð hefur verið á hlaupinu. Það hefur rifið upp ísinn og ýtt honum á undan sér þar til það stöðvaðist fram undan bænum Forsæti. Ólafur Sigurjónsson áætlar að hraði hlaupsins hafi verið um 50 kílómetrar á klukkustund. ... Vatnsbylgja hefur verið á undan hlaupinu sem sést vel á vesturbakkanum þar sem vatnsflóðið hefur þeytt upp snjósköflum og ís. Klakahrönglið þrýstist upp að árbakkanum framundan bænum Mjósundi þar sem það stöðvaðist á varnargarði sem gerður var fyrir 20 árum. Sú fyrirstaða kom greinilega í veg fyrir að hrönglið hlypi upp á túnið og heim að bænum. Annar varnargarður sem liggur út í ána til varnar landrofi var mikil fyrirstaða en klakarnir þeyttust yfir þann garð.
Bjarki Reynisson, bóndi í Mjósyndi og oddviti Villingaholtshrepps, sagði nauðsynlegt að fá varnargarð með ánni þar sem mesta hættan væri á því að hún færi uppúr farveginum, á um 2,5 km kafla. Einnig þyrfti að byggja upp veginn með ánni, frá Þjórsárveri að Egilsstaðahverfi. Það er ógnvekjandi að hafa þetta yfir sér. Núna hefur verið góð tíð í vetur og bara við þennan stutta frostakafla kemur þetta fyrir. Þetta segir manni að svona hlaup vofa yfir á hverjum vetri, sagði Bjarki. Hann minnti á að 1977 hefði áin verið búin að hlaða undir sig miklum ís og flæddi yfir bakkana. Þá voru uppi áform um að flytja fólk og bústofn í burtu. Þegar staðið er á hlaðinu í Mjósyndi blasir íshrönglið í ánni við í um 100 metra fjarlægð og sú hugsun er áleitin að ekki þurfi mikið til að lyfta ísnum yfir lágan varnargarðinn frá 1977. Fjöldi fólks hefur lagt leið sína að ánni til að skoða ummerki hlaupsins.
Djúp lægð fór norðaustur um Grænlandssund þann 15. og 16. og olli miklu suðvestanveðri á landinu, veðrið varð verst norðanlands. Kortið sýnir stöðuna síðdegis þann 15., en þá var illviðrið í hámarki. DV segir 16.mars:
Mikið óveður geisaði á Ólafsvík í gær [15.] og gekk á með snörpum vindhviðum. í einni hviðunni tókst bílskúrinn við Brúarholt 4 á loft og þeyttist yfir tvö nærliggjandi hús og olli nokkrum skemmdum á þeim. Spýtnabrak og ýmsir lausamunir úr skúmum, svo sem garðslöngur og sláttuvél, lágu á víð og dreif á Grundargötu sem er ein af aðalumferðargötum bæjarins. Þá hafnaði reiðhjól á þaki nærliggjandi húss. Að sögn lögreglu voru bæjarstarfsmenn og björgunarsveit kölluð út en loka varð umferð um Grundargötu í rúma klukkustund. -aþ
Morgunblaðið fjallar um sama veður í pistlum 17.mars:
Tilkynnt var um þrjá árekstra á Öxnadalsheiði til lögreglu á Akureyri síðdegis í gær [16.], en afar slæmt verður var á heiðinni. Ekki urðu slys á fólki í þessu óhöppum, samkvæmt upplýsingum frá varðstjóra lögreglunnar. Öxnadalsheiði var lokuð síðdegis í gær vegna veðurs, en mjög slæmt verður var á heiðinni, 8 vindstig og mjög blint, þótt ekki væri um mikinn snjó að ræða. Samkvæmt upplýsingum frá vegaeftirliti Vegagerðarinnar á Akureyri var glórulaust veður á heiðinni seinni part dags, einkum í Bakkaselsbrekkunni, og biðu þó nokkrir bílar beggja vegna eftir að komast yfir.
Átta manna hópur á vélsleðum frá Dalvík hafði ætlað niður í Eyjafjörðinn austanverðan á sunnudag [15.] en sneri við og varð að ráði að fara frekar út með Eyjafirði að vestan enda var þá gott veður. Eftir hádegi á sunnudag skall á þá hið versta veður, grimmdarfrost og skafrenningur og sleðarnir átta biluðu svo til allir á sömu stundu. Voru mennirnir þá staddir á fjallsbrúnunum nokkru vestan við Hraunárdal og létu þar fyrir berast á sunnudagsnótt. Mennirnir átta bjuggu um sig í snjóhúsi í fyrrinótt en þrír komust síðan niður að bænum Stóradal í Eyjafirði laust eftir hádegi í gær og létu vita um ferðir hópsins. Þremenningarnir sem gengu til byggða voru hraktir og kaldir og sögðu gönguna til byggða hafa verið gífurlega erfiða og einn þeirra sagðist ekki hafa haft orku til að fara lengra. Hópurinn hafði ekki mikið af mat meðferðis. Björgunarmenn komust að fimmmenningunum frá Dalvík um klukkan 01:15 í nótt og voru mennirnir sæmilega haldnir, en orðnir mjög þrekaðir og einnig björgunarmenn sem lengi höfðu verið á ferðinni við erfiðar aðstæður. Mennirnir höfðu haldið kyrru fyrir í snjóhúsi í um 1200 metra hæð norðan við Nýabæjarfjall í um 34 klukkustundir. Enn var skafrenningur og hvasst á þessum slóðum. (Blaðið segir mun ítarlegar frá þessum hrakningum).
Afleitt veður var á Norðurlandi og Vestfjörðum í gær [16.] og fyrradag og raunar víðar á landinu og truflaði samgöngur í lofti, á láði og legi. Hvöss vestanátt var og éljagangur og Veðurstofan varaði við ísingu og ókyrrð í lofti fram á kvöld. Öxnadalsheiði opnaðist í gærkvöld og byrjað var að fljúga innanlands. Talið var að um þúsund manns hefðu beðið beggja vegna Öxnadalsheiðar þegar mest var eftir að rutt yrði í gærkvöld. Vegagerðarmenn hófu að ryðja heiðina síðdegis þegar veður lægði en skömmu síðar herti vestanvind á ný og hætt var frekari ruðningi. Eftir kvöldmat hófst ruðningur aftur enda veður þá skánandi og snerist til norðan- og norðaustanáttar. Tókst að opna heiðina á níunda tímanum og fylgdu vegagerðarmenn bílalestum bæði austur og vestur yfir. Fóru um 100 bílar vestur yfir á 20 mínútum fyrst eftir að leiðin varð greið.
Hellissandi - Óvenju mikill ís hefur verið í höfninni í Rifi síðustu daga í þessum fimbulkulda. Vindáttir hafa verið norðanstæðar. Þó hefur frost aldrei orðið jafnmikið hér á útnesinu, í samanburði við það sem gerðist inn til landsins. Fyrir bragðið hafa smærri bátar átt í mestu erfiðleikum með að komast um höfnina og sumar trillumar hafa ekkert farið á sjó. ... eftir helgina snerist vindur til vestanáttar og hvarf þá ísinn af höfninni á svipstundu.
Vestanáttin náði alveg til Grænlands og reif talsvert af hafís úr meginísnum vestur í Grænlandssundi og bárust allþéttar ísspangir allt til lands á vestanverðum Vestfjörðum. Morgunblaðið segir frá 18. og 19.mars:
[18.] Hafísjaðarinn milli Íslands og Grænlands hefur færst nær landinu undanfarna daga vegna þrálátra vestanátta. Hann var næst landi við Kögur rúmar 10 sjómílur frá landi, samkvæmt upplýsingum tveggja togara sem voru á svæðinu í gær. Þá voru einnig fregnir af stökum jökum á reki við mynni Ísafjarðardjúps sem gætu reynst sjófarendum hættulegir og í gærkvöld bárust fregnir af því að landföst spöng væri við Stigahlíð í mynni Ísafjarðardjúps. Þór Jakobsson, deildarstjóri hafísdeildar Veðurstofu Íslands, sagði í samtali við Morgunblaðið að spáð væri suðlægum og vestlægum áttum næstu daga og því væri hætt við að hafísjaðarinn ætti eftir að færast enn nær landinu. Hann sagði að siglingaleiðin væri greið en varasöm vegna stakra jaka á reki sem sæjust illa í myrkri og vondu skyggni og því væri full ástæða fyrir sjófarendur að hafa andvara á sér. Landhelgisgæslan hefur ekki getað farið í ískönnunarflug síðustu daga vegna veðurs og slæms skyggnis, en Þór sagði að farið yrði í ískönnunarflug strax og veður leyfði.
[19.] Mikla hafísbreiðu rekur austur af Grænlandi, að Vestfjörðum og var ísinn kominn fast upp að landinu þegar ljósmyndari og blaðamaður Morgunblaðsins slógust í för með ískönnunarleiðangri Landhelgisgæslunnar í gær. Áhöfn TF-SÝNAR, Fokkerflugvélar Landhelgisgæslunnar, kannaði hafísinn úti fyrir Vestfjörðum, mældi fjarlægð hans frá landi og grennslaðist í leiðinni fyrir um skip á veiðum. Litið var um fiskveiðar í gær enda sjómenn í verkfalli en þó sást varðskip Landhelgisgæslunnar úti á Ísafjarðardjúpi og reyndist vera að sækja straummælingadufl áður en ísbreiðan næði til þess. Jaðar þéttrar ísbreiðunnar teygir sig norður frá Horni og suður að Bjargtöngum en rastir og ísspangir teygja sig enn nær landi. Þær ná langt inn á Ísafjarðardjúp og loka siglingaleið inn á Jökulfirði. Nokkrar ísspangir höfðu þegar fest land við Fjallaskaga og allt norður undir Kögur. Fjarlægð ísbreiðunnar sjálfrar frá landi var enn nokkur í gær en ekki er góðs að vænta ef spá Veðurstofu Íslands rætist. Spáð er suðvestanátt frá og með morgundeginum og fram yfir helgi, sem mun að öllum líkindum bera hafísinn enn nær landinu. Í gær var jaðar ísbreiðunnar ekki nema 21 sjómílu norðnorðvestur af Straumnesi og 30 sjómílur norðnorðvestur af Barða. Ísbreiðan er flöt og þétt og berst nokkuð hratt upp að landinu með hafstraumnum. Þykkt íssins er líklega um tveir metrar, en að sögn Ingibjargar Jónsdóttur, hafísfræðings Veðurstofu Íslands, er erfitt að spá um þykkt þeirra og stærð. Af útlitinu að dæma, sagði Ingibjörg að ísinn hefði líklega myndast nú í vetur þar sem hann væri fremur sléttur.
Náttúrufyrirbæri sem kallast því tilkomumikla nafni helreykur myndaðist á Skjálfanda, rétt austan við Flatey, þegar varðskipsmenn á Ægi voru þar á ferð fyrir skömmu. Helreykur er afbrigði af ísþoku sem myndast vegna mismunar á lofthita og sjávarhita og er eins og gufi upp úr sjónum. Sjávarhiti þarna meðan á yfirreið varðskipsmanna stóð var um 1,9 gráður á celsíus og lofthiti mínus 11,5 gráður, ásamt suðaustan 5 til 6 vindstigum. Lofthitinn var af svo skornum skammti að þokan fraus samstundis á öllu sem hún lenti á, eins og hásetar Ægis reyndu á sjálfum sér á innan við fimm mínútna ferð á léttbát varðskipsins um svæðið. Voru þeir klakabrynjaðir á eftir.
Getið er um grjóthrun í Hvalfirði. Morgunblaðið segir 22.mars:
Litlu munaði að illa færi þegar risastór grjóthnullungur féll úr Múlafjalli í Hvalfirði um ellefuleytið á laugardagsmorgun [21.] á bifreið sem var á leið inn Hvalfjörð. Að sögn varðstjóra lögreglunnar í Reykjavík sá ökumaður bifreiðarinnar, sem var af gerðinni Volkswagen Golf, útundan sér hvar risastór steinn kom niður úr fjallinu og náði ökumaðurinn að hemla og steinninn lenti á framenda bílsins þannig að stórsá á. Mátti engu muna að grjótið lenti á farþegahluta bifreiðarinnar. Að sögn lögreglu er grjóthrun algengt á þessum slóðum.
Þann 23. fór mjög kröpp lægð hratt til norðausturs yfir landið vestanvert og olli allmiklu vestanveðri. Tjón varð þó ekki mikið. Morgunblaðið segir frá 24.mars:
Mikið hvassviðri var víða á Suðurlandi í gærmorgun. Varað var við sandroki á Mýrdalssandi og í Vestmannaeyjum urðu nokkrar skemmdir er krossviðarplata, fiskikör og ýmislegt lauslegt fauk í rokinu. Að sögn lögreglu í Vestmannaeyjum skemmdust fjórir bílar og rúður brotnuðu við Eiðið og skipalyftuna í mestu vindhviðunum.
Morgunblaðið segir enn af hafís 24.mars:
Hafísinn heldur áfram að teppa siglingaleiðina um Horn. Olíuskipið Kyndill og Mælifell Samskipa héldu austurleiðina frá Sauðárkróki í gærmorgun í stað þess að fara um Vestfirðina, en það lengir leiðina um rúman sólarhring. Reykjafoss, strandferðaskip Eimskipafélagsins, hélt vestur til Ísafjarðar í morgun frá Reykjavík og vonast til að komast þangað í kvöld, en skipið er nýkomið austurleiðina frá Sauðárkróki. Landhelgisgæslan hefur ekki komist í ískönnunarleiðangur síðan á fimmtudaginn sl. vegna veðurs, og fá skip eru á miðunum, svo litlar upplýsingar liggja fyrir um rek íssins. Þór Jakobsson hjá Veðurstofu Íslands sagði að vindáttir hefðu verið óhagstæðar vegna íssins undanfarið og líklega yrði svo áfram. Suðvestanáttir undanfarið hafa líklega hrakið ísinn nær Vestfjörðum og norðan stormur sem spáð er áfram næstu daga hrekur ísinn fyrir norðan Vestfirði að landi.
Apríl og maí voru hagstæðir og lítið um tíðindi af veðri. Apríl var fremur hlýr og þurrviðrasamur einkum sunnan til á landinu. Maí var góðviðrasamur um allt land. Í lok fyrstu viku mánaðarins gerði vægt kuldakast og frysti víða dagana 6.-9., eftir það var hlýtt, einkum frá þ. 21. og út mánuðinn. Suðvestlægar áttir voru ríkjandi og var þurrviðrasamt á norðan- og austanverðu landinu en fremur vætusamt annars staðar.
Júní var í þurrara lagi um mestallt landið. Fremur hlýtt var suðvestanlands en annars kalt.
Mikil jarðskjálftahrina gekk yfir á suðvestanverðu Hengilssvæðinu í júní og fundust stærstu skjálftarnir víða. Morgunblaðið segir frá 5.júní:
Sterkur jarðskjálfti reið yfir Suðurlandið kl.21:37 í gærkvöld, með upptök í Litla-Skarðsmýrarfjalli, og mátu jarðskjálftafræðingar að hann hefði verið um 5,3 á Richter kvarða. Allt lék á reiðiskjálfi í Hveragerði í skjálftanum. Ekki er vitað til þess að hann hafi valdið tjóni á mannvirkjum en í Hveragerði urðu nokkrar skemmdir í gróðurhúsum og á innanstokksmunum sem duttu úr hillum, féll m.a. sjónvarp á gólfið í einu íbúðarhúsi. Laust upp úr kl.23 reið annar skjálfti yfir, 4,5 á Richter, og voru upptök hans í Skálafelli. Óttast jarðskjálftafræðingar að hann sé upphafið að skjálftavirkni á því svæði og telja þeir að enn öflugri skjálftar geti orðið þar.
Morgunblaðið heldur áfram að segja frá skjálftunum 6.júní:
Sigurður G. Jónsson rekur gróðrarstöð á Álfafelli skammt fyrir ofan Hveragerði og skemmdust bæði blóm hjá honum og búnaður þegar stærstijarðskjálftinn gekk yfir á fimmtudagskvöld. Þegar blaðamann og ljósmyndara Morgunblaðsins bar að garði um miðjan dag í gær var hann í óða önn að ganga frá eftir jarðhræringarnar í fyrrakvöld. Fjöldi ljósa hrundi niður í einu gróðurhúsinu og nemur tjón Sigurðar um 200.000 króna.
Jarðskjálftavirknin sem verið hefur á Hellisheiði frá því á miðvikudag hefur farið heldur minnkandi og í gær og fyrrinótt voru engir skjálftar yfir þremur stigum á Richter-kvarða. Steinunn Jakobsdóttir, jarðeðlisfræðingur á jarðeðlissviði Veðurstofu Íslands, taldi þó óvarlegt að slá því föstu að hrinan væri að fullu gengin yfir en það væri engu að síður líklegt.
Morgunblaðið segir af skriðufalli úr Lómagnúpi 9.júní (hvernig lykt skyldi vera af jökulruðningi?):
Upp úr hádegi á sunnudag [7.] féll stór skriða úr Lómagnúp vestan Skeiðarársands og fór hún yfir vegarslóða þann sem liggur að Núpsstaðarskógum. Einar Kjartansson, jarðskjálftafræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði að afl skriðunnar hefði verið slíkt að hún hefði komið fram á jarðskjálftamælum á Hveravöllum sem eru í um 150 kílómetra fjarlægð. Að hans sögn kom hún einnig fram á mælum á Kálfafelli vestan Lómagnúps en þar mældist höggið 2 stig á Richterskvarða. Greinilegt er að mikið afl hefur leyst úr læðingi við þessar hamfarir en lengst nær skriðan um 200 metra út frá fjallinu. Skiptist hún í tvo hluta og er annar á hæðina en hinn á lengdina og líkja menn lyktinni á staðnum við lykt af jökulruðningi. Hæst nær skriðan rúmum 10 metrum en að jafnaði er hún um 4 metrar á hæð og um 70 til 120 metrar á breidd. Við fjallsræturnar er nokkuð djúp geil sem myndast hefur þegar skriðan kom á jafnsléttu. Í bland við bergið er jarðvegur og birkihríslur sem skriðan ýtti á undan sér úr hlíðinni.
Þegar blaðamaður og ljósmyndari Morgunblaðsins fóru á staðinn féllu enn litlar skriður úr fjallinu. Með þeim í för var Lárus Helgason, bóndi á Kálfafelli II, en hann þekkir vel aðstæður við Lómagnúp. Hann telur skriðuna rúman hektara og vera að hluta svokallað gusthlaup. Náði miklum hraða Fljótt á litið þá sýnist mér þetta vera um einn og hálfur hektari að stærð og miðað við hæð gætu þetta verið um 80.000 rúmmetrar. Það sést að skriðan hefur náð miklum hraða þar sem hún hefur náð að renna um 200 metra út frá fjallinu. Mér sýnist þó að þar hafi loftþrýstingur hjálpað til þar sem öldugangur er í skriðunni en slíkt kallast held ég gusthlaup og er þekkt með snjóflóð. Þá er greinilegt að skriðan hefur náð að ýta á undan sér miklu af þeim gróðri sem var í hlíðinni undir berginu og eru merki þess víða í jaðri skriðunnar." Lárus telur skriðuna vera mun minni en þá sem féll í Lómagnúp árið 1789, og að nú sé ástæðan líka önnur. Þessi skriða er aðeins brot af þeirri sem féll í júlí 1789 sem sumir telja að hafi orðið vegna jarðhræringa. Hún er miklu stærri á allan hátt, er nokkrum sinnum breiðari og lengri og þá féllu einnig mun stærri björg. Ekki eru heldur sömu ástæður fyrir þessum skriðum. Nýja skriðan er líklega til kominn vegna þreytu í móbergslögum og líklega hefur sprungið meðfram bjargbrúninni sem opnast samfara frosti og leysingum." Á þessari öld minnist Lárus eins annars framhlaups af þessari gerð. Um 1962-63 féll fylla í Fossnúpi austan við Dverghamra. Henni svipar mjög til þessarar skriðu bæði að lengd og breidd.
Veður þótti nú vera heldur þurrt og hamlaði það sprettu. Morgunblaðið segir frá 16.júní:
Vegna þurrksins og sólskinsins að undanförnu hafa starfsmenn garðyrkjudeildar Reykjavíkurborgar nú vart undan að vökva sumarblómin sem plantað hefur verið út um alla borg og eiga að skarta sínu fegursta á þjóðhátíðardaginn. Blómabeðin hafa verið vökvuð á hverjum morgni í rúma viku og voru starfsmenn í aukavinnu um helgina að vökva, að sögn Ólafs Lárussonar, sem hefur umsjón með miðbæjarsvæðinu á vegum garðyrkjustjóra borgarinnar. Hann bendir á að ekki skuli vökva um hádaginn þegar sól er sterk, heldur snemma á morgnana eða síðdegis. Verslunin Blómaval vill að gefnu tilefni vara garðeigendur við þurrkinum. Segir í frétt frá fyrirtækinu að sérstaklega þurfi að huga að vökvun á sumarblómum og þeim garðplöntum, trjám og runnum sem nýlega hefur verið plantað út eða færð til í garðinum.
Júlímánuður var fremur kaldur um stóran hluta landsins. Mánaðarmeðalhitinn á Fonti var ekki nema +3,3 stig - það er lægsta tala sem vitað er um á láglendi í júlímánuði hér á landi.
Lægð fór norðaustur yfir landið þann 7. og varð nokkuð stríð norðanátt um stund í kjölfar hennar. Þá lenti 35 manna hópur norðmanna og íslendinga í hrakningum á Vatnajökli (Morgunblaðið 10.júlí). Engum varð teljandi meint af. Þá fauk hjólreiðamaður af vegi. Morgunblaðið segir frá 10.júlí:
Franskur hjólreiðamaður fauk út af þjóðveginum við Hofsá í Álftafirði í roki um hádegi í gær [9.] og slasaðist talsvert. Þyrla Landhelgisgæslunnar sótti manninn til Djúpavogs og flutti til Reykjavíkur. Að sögn lögreglunnar á Djúpavogi var bálhvasst á Austfjörðum í gær, allt að 8 til 9 vindstig. Nýlögð klæðning var á vegarkaflanum þar sem maðurinn fauk út af veginum og lausamöl og vindur stóð honum á hlið.
Þann 13. gerði mikið þrumuveður á Augastöðum í Hálsasveit í Borgarfirði. Stóð í klukkustund og skemmdi spenna RARIK og tölvubúnað (Veðurskýrsla frá staðnum).
Veðráttan getur þess að aðfaranótt 16. hafi skriða teppt veg í Norðurfirði á Ströndum. Stríð norðaustanátt með mikilli úrkomu var á þessum slóðum, sérstaklega þann 15.
Áfram var veður í þurrara lagi um landið suðvestanvert. Þó var frétt í Degi 21.júlí hálfgerð - ekkifrétt.
Rauðavatn er nánast horfið. Sérfræðingar segja ástandið verra en venjulega vegna lítillar úrkomu í sumar. Einhverjir hafa sjálfsagt tekið eftir því að Rauðavatn hefur minnkað allverulega og að í því eru stórir grænir flekkir. Þrátt fyrir þetta hafa menn litlar áhyggjur af ástandi vatnsins og segja að þetta sé árviss viðburður sem sé einungis verri í ár en venjulega, vegna rigningarleysis. Sigurður Búi hjá Vatnsveitu Reykjavíkur segir það árlegan viðburð að Rauðavatn þorni svo til upp. Það sé grunnt, þetta sé bolli ofan á grunnvatninu en ekki hluti af því. Ástand vatnsins sé svo sennilega alvarlegra en yfirleitt, vegna úrkomuleysis í sumar.
Undir lok mánaðarins, líklega þann 29. féll geysimikil úrkoma í Stíflisdal og mældist heildarúrkoma dagsins 43,2 mm. Veðurathugunarmaður segir í athugasemdum að mestur hluti úrkomunnar hafi fallið á u.þ.b. 10 mínútum. Líklegt er að mestu dembur hér á landi komi einmitt í þrumuveðrum að sumarlagi. Úrkoman er bókuð þann 30.júlí - og athugunarmaður nefndi þá dagsetningu í athugasemd. Hafi verið farið eftir bókunarreglum hefur þessi mikla skúr fallið síðdegis þann 29.
Ágústmánuður var fremur hlýr á landinu og þegar á leið var úrkoma mikil um stóran hluta landsins.
Morgunblaðið birti 7.ágúst fregnir af skaflinum fræga í Gunnlaugsskarði - sem var horfinn. Eins voru fregnir af þurrkum:
Allur snjór er horfinn úr sunnanverðri Esju og er það í fyrsta skipti frá árinu 1966 að það gerist, segir Páll Bergþórsson veðurfræðingur, en árið 1966 eru til óljósar heimildir um að Esjan hafi verið snjólaus. Páll flaug í gær yfir Esjuna með Sigurjóni Einarssyni flugmanni sem fylgst hefur með snjó í Esjunni til margra ára. Síðasti skaflinn til að hverfa var skafl í Gunnlaugsskarði við brún Esjunnar vestan við Kistufell. Páll segir engar heimildir um að þessi skafl hafi horfið fyrir 1930, þá hófst hlýindaskeið sem stóð í þrjátíu ár og hvarf skaflinn þá af og til. Um miðjan sjöunda áratuginn hófst kuldatímabil og hefur skaflinn ekki horfið á því tímabili fyrr en nú. Páll segir hvarf skaflsins skemmtilega vísbendingu um að það sé að hlýna í veðri eins og mælingar bendi reyndar til.
Vatn í vatnsbólum Selfossbæjar hefur minnkað það mikið að undanförnu að vatnsveitan hefur orðið að grípa til þess ráðs að lækka þrýsting á dreifikerfinu. Birgðageymir tæmdist fyrir skömmu, en við það gruggaðist upp í tanknum og fór óhreint vatn inn á dreifikerfið. Heilbrigðiseftirlit Suðurlands mældi fyrir nokkrum dögum gerla í vatninu. Karl Björnsson, bæjarstjóri á Selfossi, sagði að þurrkar á Suðurlandi hefðu leitt til þess að skortur væri nú á neysluvatni á Selfossi. Nauðsynlegt hefði verið að lækka þrýsting á dreifikerfinu eftir að vatn í aðalvatnstanki vatnsveitunnar tæmdist. Þegar slíkt gerðist væri hætt við að óhreint vatn kæmist inn á kerfið. Það hefði gerst í þessu tilviki. Karl sagði að þetta væri líklegasta skýringin á því að Heilbrigðiseftirlitið hefur mælt gerla í vatninu. Hann sagði að samkvæmt því sem hann best vissi væri um eitt sýni að ræða úr einni leiðslu í dreifikerfinu. Það væri því að sínu mati of mikið sagt að fullyrða að allt neysluvatn á Selfossi væri ónothæft.
Þann 10. fórst flugvél við Hornafjörð. Djúp lægð fyrir suðvestan land olli suðaustanátt og mikilli rigningu. Morgunblaðið segir frá 12.ágúst:
Slæmt veður var við Höfn í Hornafirði á mánudaginn þegar einkaflugvél þýsku feðganna fórst í aðflugi að flugvellinum á Höfn. Var alskýjað í 500-600 fetum, suðaustanátt og rigning. Flugvöllurinn á Höfn var þó opinn fyrir flugumferð þegar flugmaður vélarinnar ætlaði að koma inn til lendingar, en flugvöllurinn lokaðist um tíma á mánudaginn vegna veðurs, skv. upplýsingum Hallgríms Sigurðssonar í stjórnstöð Landsbjargar.
Í sama veðri varð maður úti nærri Landmannalaugum. Morgunblaðið 14.ágúst:
Þyrla Landhelgisgæslunnar fann lík Bandaríkjamannsins Seans Smiths í Laugahrauni við Landmannalaugar síðdegis gær. Hann var 28 ára gamall læknanemi frá Fíladelfíu í Bandaríkjunum og hafði hans verið leitað frá því á þriðjudag [11.]. Talið er að maðurinn hafi örmagnast á göngu. ... Talið er líklegt að Sean Smith hafi orðið úti á sunnudag [9.], að sögn lögreglunnar á Hvolsvelli. Þá var veður mjög vont í Landmannalaugum og ferðafólki ráðið frá því að leggja þaðan í göngur. Engar mannaferðir voru því á þessari leið á sunnudag og mánudag en þá var veður enn mjög slæmt.
Morgunblaðið ræðir heyfeng 20.ágúst:
Heyfengur hefur víðast hvar verið undir meðallagi í sumar og aðeins á Suðurlandi er búist við að hann nái góðu meðalári. Að sögn Ólafs R. Dýrmundssonar landnýtingarráðunautar gæti heyskortur farið að segja til sín á ákveðnum svæðum, einkum verði veturinn harður og nefnir hann þar sérstaklega Norðausturland þar sem tíðarfar hefur verið erfitt og heyskapur seint á ferðinni. Það hefur verið óvenjumikill breytileiki á heyskap eftir landssvæðum, sagði Ólafur. Á Suðurlandi var óvenjugóð tíð og gekk heyskapur vel utan þess að grasmaðkur herjaði á tún í Rangárvallasýslu part af sumri. Hins vegar var tíðarfarið mun kaldara og spretta seinna á ferðinni eftir því sem norðar dregur og austar og það sama á við um Vesturland og Vestfirði. Mér sýnist að heyforði á landinu verði minni í haust heldur en í fyrra og til viðbótar hefur sauðfé fjölgað annað árið í röð. Í samtali við Daníel H. Jónsson á Ingunnarstöðum í Geiradal í Reykhólahreppi kom fram að sumarið hafi einkennst af þurrki og kulda sem hamlað hafi sprettu. Venjulega hef ég náð um 650 rúllum og upp í 700 eftir fyrsta slátt en núna voru þær aðeins 430. Ég held að þetta sé lakasta sprettusumar sem ég hef upplifað frá því ég hóf búskap hér fyrir rúmum 25 árum, sagði Daníel sem bætti því við að víðast hvar í nágrenni hans væri ástandið svipað. Þá bjóst hann við að þurfa að kaupa hey í vetur þar sem hann ætti litlar sem engar fyrningar frá fyrra ári.
Sigurður Jarlsson, ráðunautur hjá Búnaðarsambandi Vestfjarða, staðfestir að tíðin á Vesturlandi og Vestfjörðum hafi verið erfið. Það er í undantekningartilfellum sem menn eru með góðan heyfeng. Almennt voraði feikilega vel en síðan gerði mjög mikla þurrka og varla kom dropi úr lofti í júnímánuði og lítið í júlí. Þetta hafði mikil áhrif á túnsprettu þó svo að ég hafi ekki heyrt af neinum vandræðum enda heyskap ekki alls staðar lokið. Á Norðurlandi eystra hefur heyfengur verið í meðallagi þó hann hafi ekki verið mikill að gæðum að sögn Maríu Svanþrúðar Jónsdóttur hjá ráðunautaþjónustu Þingeyinga á Húsavík. Þetta er búið að vera eitt erfiðasta heyskaparsumar lengi enda hafa sólskinsstundir verið mjög fáar. Þá hefur gróðri almennt lítið farið fram sem sést best á lélegri berjasprettu og einnig tók grænfóður og nýræktun óvanalega seint við sér. Hins vegar virðist þetta ætla að bjargast hjá flestum og þá sérstaklega hjá þeim sem gátu slegið um mánaðamótin júní/júlí en hjá nokkrum verður þetta lakara."
Líkt og í Þingeyjarsýslum þá hefur spretta farið seint afstað á Austurlandi. Jóhann Gísli Jóhannsson á Breiðavaði skammt frá Egilsstöðum segir að kuldi og vætutíð hafi einkennt sumarið. Ágústmánuður ætlar að bjargast eftir óvenju litla þurrka í júlí. Þá fóru veðurspárnar illa með okkur þegar spáð var leiðindaveðri einu helgina í júlí þegar hægt hefði verið að heyja almennilega, sagði Jóhann, sem í gær var að verka í grænfóður.
Heyfengur verður í góðu meðallagi á Suðurlandi og segir Sveinn Sigurmundsson, framkvæmdastjóri Búnaðarsambands Suðurlands, að til viðbótar bætist prýðis heygæði. Þetta er með betri sumrum síðustu áratugina og kornræktin lítur vel út. Ég held að allir séu búnir að slá fyrsta slátt sem hófst 30. júní og einhverjir eru núna að slá kúanögur. Þá varð grasmaðkurinn ekki eins skæður eins og síðasta sumar þannig að við megum vel við una, sagði Sveinn að lokum.
Lítið vatn var í Hvaleyrarvatni við Hafnarfjörð. Morgunblaðið segir frá 23.ágúst:
Lúðvík Geirsson, bæjarfulltrúi í Hafnarfirði, lagði til á bæjarráðsfundi síðastliðinn fimmtudag að yfirfallsvatni úr aðalvatnsæð úr Kaldárbotnum verði veitt í Hvaleyrarvatn. Segir hann í tillögu sinni um málið að vatnsborð Hvaleyrarvatns sé nú svo lágt að erfitt sé að viðhalda fiskgengd í því.Í tillögu Lúðvíks um málið segir að vatnsyfirborðið hafi sjaldan eða aldrei verið svo lágt og að það séu lýti á sérstöku og fögru útivistarsvæði auk þess sem lífsskilyrði fisks í vatninu séu óviðunandi. Leggur hann til að yfirfallsvatn úr aðalæðinni við Kaldárbotna verði leitt upp undir Húshöfða í skógræktarlandinu og það látið renna þaðan í vatnið.
Síðustu daga mánaðarins gerði eindregna sunnanátt með miklum vatnavöxtum um landið sunnanvert. Morgunblaðið segir frá 1.september:
Hellirigning og hlýindi síðustu daga eru farin að segja til sín í ám og vötnum sunnanlands. Þjóðvegur eitt fór í sundur við Lambleiksstaði vestan við Höfn í Hornafirði. Nokkrir bílar þurftu að bíða á meðan gert var við veginn. Skeiðará hefur verið í miklum vexti og hafa Vegagerðarmenn fylgst náið með ástandi vega á Skeiðarársandi. Vegagerðin á Höfn fékk tilkynningu um sjöleytið í gærmorgun um að vegurinn við Lambleiksstaði væri í sundur og lauk viðgerð upp úr klukkan tíu og var vegurinn þá opnaður. Verið er að gera breytingar á veginum þar sem hann fór í sundur og voru settir hólkar undir veginn til bráðabirgða, samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni á Höfn. Gera þurfti í tvígang við veg hjá brú yfir ána Klifandi rétt ofan við þjóðveg eitt við Pétursey í Mýrdal. Þar hafði vatnið grafið frá stöpli á sunnudag, þá var lokað fyrir umferð og mokað að. Í gærmorgun þurfti svo að endurtaka leikinn og var þá stórgrýti hlaðið að brúnni, en vegurinn var enn í sundur við brúna seinnipartinn í gær. Miklir vextir voru í Múlakvísl austan við Vík í Mýrdal og náði vatnið nærri upp að bitum brúarinnar. Ófært var að tveimur bæjum í nágrenni við Klaustur en vegir heim að bæjunum höfðu grafist í sundur. Í gærdag var gert við veginn heim að Mörtungu en ófært var heim að Blómsturvöllum. Engar rútur hafa komist til Þórsmerkur frá því á föstudag en Steinholtsá, Hvanná og Krossá eru allar í miklum vexti og ófærar, mest varð þó í ánni á laugardag að sögn landvarðar. Um helgina komst þó bíll með fólk frá Þórsmörk sem hafði komið þangað ofan af hálendinu. Vegagerðin varar við umferð um hálendisvegi á þessum slóðum, einkum Fjallabaksleið syðri en þar er hætt við að ár séu viðsjárverðar.
Morgunblaðið segir enn af vatnavöxtum 2.september:
Jökuláin Leirá, sem rennur austast á Mýrdalssandi, hefur flætt yfir bakka sína og rutt sér leið yfir veginn við Leirárbrú þar sem hún sameinast Hólsá. Miklir vatnavextir hafa verið í ánni, sem og öðrum ám á Suðurlandi, undanfarna daga vegna hellirigningar og hlýinda sunnanlands. Starfsmenn Vegagerðarinnar á Klaustri unnu að því fram eftir nóttu að styrkja varnargarða árinnar að sunnanverðu til að koma í veg fyrir að hún rynni í sinn gamla farveg og yfir veginn að Hrífunesi. Ekki er á hinn bóginn búist við því að gert verði við veginn að Leirárbrú fyrr en sjatnað hefur í ánni.
Viðmælendur Morgunblaðsins eru allir á einu máli um það að vatnavextir á Suðurlandi undanfarna daga hafi verið óvenjumiklir og staðið lengur yfir en venjulegt er. Vöxturinn byrjaði á laugardag [29.ágúst] vegna mikilla hlýinda og rigninga, en síðan þá hefur rignt nær viðstöðulaust sunnanlands. Eitthvað var þó farið að sjatna í ám í gær en ljóst að varnargarðar voru víða illa farnir og brotnað hafði upp úr árbökkum á mörgum stöðum. Starfsmenn Vegagerðarinnar á Klaustri unnu að því í gær að fylla upp þar sem vegir höfðu farið í sundur við bæinn Mörtungu og við bæinn Álftagróf í Mýrdal, en auk þess var hafist handa við að styrkja varnargarða hjá Leirá á Mýrdalssandi, þannig að áin rynni ekki beint suður og yfir veginn að Hrífunesi. Gífurlegur kraftur var í Leirá og auk þess sem hún þrýsti á varnargarða í suður hafði hún rutt sér leið yfir fjallveginn við Leirárbrú. Að sögn Jóns Hjálmarssonar, starfsmanns Vegagerðarinnar, verður þó ekki gert við veginn fyrr en síðar eða þegar sjatnað hefur í ánni. Þjóðvegur eitt varð á hinn bóginn ekki fyrir frekari skemmdum í gær, en hafði farið í sundur við Höfn í Hornafirði á mánudagsnótt. Fært varð í Þórsmörk eftir hádegi í gær, en miklir vatnavextir í Hvanná, Steinholtsá og Krossá hafa hindrað áætlunarbíla í að komast leiðar sinnar frá því á mánudag. Að sögn Richarðs Ásgeirssonar, skálavarðar í Langadal, var heldur farið að minnka í ánum í gær, en vöxturinn virtist hafa verið í hámarki á laugardag. Um tíu til fimmtán ferðamenn urðu innlyksa eina nótt í Þórsmörk vegna vatnavaxtanna en komust heim á leið síðdegis með áætlunarbílunum.
Vegurinn frá þjóðvegi eitt og í Þórsmörk er þó víða sundurgrafinn, en von var á starfsmönnum Vegagerðarinnar frá Vík í Mýrdal síðdegis til að moka upp í. Þá var flugvöllurinn í Húsadal ónothæfur vegna þess að flætt hafði yfir hann að hluta aðfaranótt þriðjudags, en einnig var búist við því að hann yrði lagfærður hið fyrsta, að sögn Einars Erlendssonar, landvarðar í Húsadal.
Aurskriða féll skammt frá sumarhúsi í landi Skammadalshóls vegna úrkomunnar undanfarna daga og hreif skriðan með sér vatnskút ... . Miklir vatnavextir voru í jökulánni Múlakvísl og hefur hún grafið burt nokkra kílómetra af grónu landi sunnan við brúna.
Tíð var hagstæð í september. Hiti var lítillega ofan meðallags á landinu. Mjög þurrt var um landið suðvestanvert og mældist úrkoman í Reykjavík aðeins 23,2 mm. Það var minnsta úrkoma í september frá 1954 og er aðeins um þriðjungur meðalúrkomu og hefur ekki mælst jafnlítil eða minni úrkoma í september síðan. Helstu fréttir voru af hegðan jökla.
Morgunblaðið segir af jökulhlaupi í Kaldalóni í pistlum 6. og 8. september:
[6.] Staðkunnugir hafa uppgötvað merki um að stórt jökulhlaup hafi komið fram úr Drangajökli í Kaldalón nýlega og að sögn Indriða Aðalsteinssonar, bónda á Skjaldfönn, eru ekki til frásagnir af slíku hlaupi úr Drangajökli áður. Þetta hefur verið afskaplega mikið hlaup á mælikvarða þessa jökuls hér, þó það jafnist náttúrlega ekki á við þau hlaup sem koma úr skaftfellsku jöklunum, en þetta er samt eins konar vasaútgáfa af þeim, segir Indriði. Hlaupið hefur brotist fram á einum stað, úr Kaldalónsjökli í botni Kaldalóns, úr göngum sem eru svipuð að vídd og Hvalfjarðargöngin. Þau hafa vafalaust verið sneisafull af vatni í einhver dægur. Á báða vegu við jökulinn hefur mikið stórgrýti gengið til hliðanna og óhemju framburður hefur safnast fyrir innst við jökulinn. Hækkunar á landi gætir um kílómetra niður frá honum og þó er töluvert vítt milli hlíða. Í þessum framburði er gífurlegt magn af jarðvegsefnum, jakahröngli, jökum og stórgrýtisbjörgum. Svo að notuð sé viðmiðun sem allir geta áttað sig á þá eru björgin á stærð við sægreifajeppa og jafnvel stærri. Þetta sýnir hvað krafturinn hefur verið mikill. Svona 3-4 kílómetra niður eftir frá jöklinum er jakamulningur um allt og einnig um allar eyrar á ársvæðinu."
Indriði segir að brúin yfir ána Mórillu og vegurinn, sem eru 4-5 kílómetra frá skriðjöklinum, hafi sloppið við skemmdir en tvö skörð séu þó í varnargörðum sem verja eiga brúna. Kaldalónsjökull og aðrir skriðjöklar úr Drangajökli voru áratugum saman að hopa en að sögn Indriða snerist sú þróun við fyrir fjórum árum og Kaldalónsjökull hefur síðan gengið fram um rúman kílómetra. ,Allur norðurhluti jökulsins er nú á hreyfingu niður í Kaldalón, Leirufjarðarbotn og Reykjafjörð frá hábungu jökulsins sem er rétt rúmir níu hundruð metrar. Flóðið hlýtur að vera eitthvað því tengt. Páll Jóhannesson bóndi í Bæ var fyrstur til að taka eftir ummerkjum hlaupsins, en að sögn Indriða voru litlar líkur til þess að aðrir en staðkunnugir yrðu þeirra varir frá veginum.
[8.] Páll Jóhannesson, bóndi á Bæjum á Snæfjallaströnd, varð fyrstur var við að hlaup hafði komið úr Drangajökli. Hann átti leið um veginn í Kaldalóni á föstudag [4.] og áttaði sig á að eitthvað hafði gerst. Það var klakaruðningur um alla ána. Ég var að koma innan frá og þegar ég leit inn í lónið sá ég að það var allt hvítt. Ég áttaði mig ekki strax á hvað þetta var og hélt í fyrstu að það væri svona mikið vatn í ánni, en svo sá ég að þetta var klakaruðningur. Þetta voru ekki stórir jakar heldur smámolar sem lágu með báðum löndum fyrir framan Hóla sem kallað er. Það er skarð í Hólana sem er 400-500 metra breitt og þar hefur hlaupið flætt yfir landið Lónseyrarmegin og dreift úr sér. Það var klakaruðningur nokkuð langt niður fyrir brú þannig að þetta hefur verið töluvert mikil spýja. Páll sagðist giska á að hlaupið hefði komið síðla þriðjudags [1.] eða á miðvikudag [2.]. Fólk hefði farið um veginn á þriðjudag og þá hefði ekkert verið að sjá. Á miðvikudag hefðu skipverjar á Fagranesinu nefnt að sjórinn sem kæmi út úr lóninu væri óvenjulega dökkur. Páll sagði að þegar hann fór um veginn á föstudag hefði verið farið að þorna um. Hann sagðist því hafa trú á að hlaupinu hefði lokið á skömmum tíma. Páll sagðist ekki hafa séð neitt óvenjulegt við Mórillu í sumar. Ekki hefði verið hægt að greina að rennslið í ánni væri neitt minna en venjulega. Hann sagðist aldrei hafa orðið var við hlaup í ánni og aldrei heyrt sögur um að hún hefði hlaupið. Varnargarður er við brúna í Kaldalóni og hafði hlaupið náð að éta úr honum á tveimur stöðum. Ekki vantar mikið upp á að áin nái að komast í gegnum garðinn. Á sunnudag voru enn að koma litlir ísjakar og grjót út um gatið á jöklinum þar sem Mórilla kemur undan honum. Dynkir heyrast þegar jakarnir berast niður eftir ánni og rekast í árbotninn. Nokkuð mikill ís er því enn í ánni, en hann bráðnar hratt. Nokkrir stórir jakar eru á víð og dreif neðan við jökulinn, sem sumir hverjir eru nokkrir rúmmetrar á stærð. Jökulopið er ekki ólíkt munna Hvalfjarðaganga, líklega um 10 metrar á breidd.
Oddur Sigurðsson, jarðfræðingur á Orkustofnun, hefur fylgst vel með Drangajökli undanfarin ár. Hann fór og skoðaði ummerki hlaupsins í Kaldalóni um helgina. Það hafa orðið miklar breytingar á jöklinum á síðustu árum. Jökullinn hefur gengið fram um heilan kílómetra. Mikið land, sem áður var hægt að ganga um, er núna þakið um 200 hundrað metra þykkum jökli. Það sem mér fannst stórkostlegast við þetta hlaup er hvað hlaupið hefur tekið mikið grjót með sér. Það var þarna nærri 10 metra há urð framan við jökulinn og urð og grjót hefur borist allt að kílómetra niður eftir dalnum. Þetta hefur gerst nánast eins og sprenging því annars hefði áin ekki getað borið allt þetta grjót. Urðin sitthvoru megin við ána er núna þrem metrum hærri en áin sjálf, sagði Oddur. Oddur sagðist ekki vera tilbúinn að kveða upp úr með hvers vegna þetta hefði gerst. Venjulega þegar hlaup kæmu úr jöklum gerðist það vegna þess að lón myndaðist undir jöklinum eða við jaðar hans. Hlaup kæmi síðan úr þessum lónum þegar vatn í þeim væri orðið nógu hátt. Oddur sagðist ætla að reyna að fljúga yfir Drangajökul þegar veður leyfði og reyna að finna ummerki eftir slíkt lón.
Oddur sagði það mat eðlisfræðinga að þegar jökull skríður fram, eins og Drangajökull hefur gert á síðustu fjórum árum, gæti það ekki gerst nema á vatni. Vatnslag væri undir jöklinum sem hann skriði fram á. Þegar jökullinn hætti að skríða safnaðist þetta vatnslag fyrir og spýttist síðan fram. Oddur sagðist fram að þessu hafa haft miklar efasemdir um þessa kenningu án þess að geta bent á haldbær rök gegn henni. Benda mætti þó á að þetta hefði ekki gerst þegar Síðujökull hljóp fram fyrir fjórum árum. Hann sagðist því vilja leita að öðrum skýringum áður en hann samþykkti þessa. Ef þessi kenning væri rétt mætti búast við hliðstæðu hlaupi í Leirafirði. Oddur sagði erfitt að gera sér grein fyrir hvað mikið vatnsmagn hefði komið í hlaupinu. Það hefði a.m.k. ekki nægt til að rjúfa skörð í veginn. Hlaupið væri því ekki stórt í samanburði við jökulhlaup í Skaftafellssýslu en það væri þó greinilegt að mjög mikill kraftur hefði verið í því í upphafi. Miklar breytingar hafa orðið á Drangajökli á síðustu áratugum. Hann hefur verið að hopa alla öldina. Árið 1956 var talið að jökullinn væri 190 ferkílómetrar, en árið 1983 töldu mælingamenn stærð hans vera undir 140 ferkílómetrum. Um síðustu aldamót er talið að 10 eða 12 jökulár hafi fallið frá Drangajökli, en nú falla fjórar aðaljökulár frá honum. Jökullinn hefur skriðið fram með reglulegu millibili. Hann skreið fram á árunum 1934-1942 og framskrið hófst aftur í jöklinum 1994. Jökullinn hefur skriðið fram í Kaldalóni og Leirufirði, en hann hefur enn ekki hreyfst í Reykjafirði. Í Kaldalóni hefur jökullinn skriðið fram um einn kílómetra og enn meira í Leirufirði. Síðast þegar jökullinn gekk fram í Kaldalóni, á árunum 1936-1940, var skrið hans um 200 metrar. Frá þeim tíma til ársins 1994 hopaði jökullinn í Kaldalóni hins vegar um 1,5 kílómetra. Drangajökull hleðst upp á þeim tíma sem jökuljaðarinn hopar, en ekki eru til nægilega góðar mælingar um hæð jökulsins frá einum tíma til annars. Svo virðist sem jökullinn falli fram yfir sig og skríði fram þegar hann hafi náð vissri hæð. Athyglisvert er að Drangajökull gengur fram mun hægar en t.d. Síðujökull, sem fyrir fáum árum gekk fram um 1 km á 2 mánuðum. Það tók Drangajökul 4 ár að ná sömu skriðlengd í Kaldalóni.
Þann 7.september gekk til norðaustanáttar sem stóð í viku. Hún varð mjög hörð um tíma, verst þann 11. og olli snjókomu á heiðum og fjárleitamenn lentu í vanda. Dagur segir frá 12.september:
Hér er vitlaust veður og vonskufæri og það dregur í stöðugt stærri skafla og því gengur mjög illa og er að verða ófært fyrir farartæki. Við gengum á fimmtudag [10.] vesturhlutann og vorum svo að klára þar suður úr. Við förum trúlega ekkert austur fyrir fjöll núna því það eru ekki líkur á að veðrið lagist," sagði Agnar Kristjánsson í Norðurhlíð í Aðaldal, gangnastjóri á Þeistareykjum. Agnar telur að í gær hafi þeir verið búnir að ná megninu af fénu og því muni þeir halda til byggða í dag. Ætlunin er að rétta í Hraunsrétt í Aðaldal á sunnudag og telur Agnar að það muni takast. Agnar segist álíta að liðlega 2.000 fjár verði í Hraunsrétt. Auðkúluheiði var smöluð í gær af Húnvetningum í roki, kulda og bleytu og verður réttað í Auðkúlurétt í dag. Þeir sem gengu Grímstungu- og Haukagilsheiðar hrepptu svipað hret og var réttað í Undirfellsrétt. Ekki hafði þó snjóað á þessum slóðum.
Gangnamenn úr Biskupstungum fá þurrviðri en þó nokkuð stífa norðanátt og hætt er við að víða á Suðurlandi þurfi gangnamenn að glíma við sandbylji sem gæti eitthvað tafið rekstur til byggða. Réttað verður í Tungnarétt í dag, og búist við fjölda manna og málleysingja þangað um helgina eins og ætíð. Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir að áfram verði úrkoma á Norðurlandi í dag, en úr henni dragi á sunnudag en ekkert bendi til þess að það hlýni í veðri. Hitastig á Austurlandi mun hins vegar fara eitthvað hækkandi. Ég veit um bændur í Vopnafirði sem hafa haft áhyggjur af sínu fé á Sandvíkurheiði en þeir geta eitthvað andar léttar. En á Norðurlandi eystra verður hríð eða slydda og hvasst á heiðum, allt að 10 vindstigum, og vestan til á Norðurlandi verður slydda og hríðarhraglandi alveg fram á sunnudag. Það gætu því verið slæptir gangnamenn sem koma til byggða um helgina. Það verður hins vegar áfram þurrt á gangnamönnum á Suðurlandi, til dæmis þeim sem ganga úr Biskupstungum en vindbelgingur og kuldi. Bændur þar gætu hins vegar þurft að glíma við ryk og sandfok," segir Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur.
Morgunblaðið segir þann 12.september frá hrakningum á Fjarðarheiði:
Fimmtán til tuttugu bílar sátu fastir á Fjarðarheiði í gær [11.], en mjög hvasst var í veðri á Norður- og Austurlandi og talsverð úrkoma. Færð spilltist á fjallvegum. Þungfært var á Öxarfjarðarheiði og Lágheiði og Hellisheiði eystri var ófær. Hálka var sumstaðar á vegum norðanlands og á Vestfjörðum. Reiknað er með að veður gangi niður í dag. Hvasst var einnig á Suðurlandi í gær. Fleki af gám fauk t.d. á lítinn bát á Höfn í Hornafirði og er báturinn talinn ónýtur.
Morgunblaðið segir 17.september af vatnavöxtum í Þórsmörk, sennilega var það í rigningunum um mánaðamótin:
Flugbrautin í mynni Húsadals í Þórsmörk sópaðist svo gott sem í burtu nýverið þegar varnargarður, sem halda átti Markarfljóti frá vellinum, brast. Hefur fljótið síðan runnið yfir stærstan hluta vallarins, sem er nefndur lendingarstaður eftir skilgreiningu Flugmálastjórnar, og verður hann því ónothæfur uns hann hefur verið endurbyggður.
Morgunblaðið segir frá breytingum í Þjórsárverum í pistli 25.september:
Er fjallmenn Gnúpverja voru við smalamennsku í Þjórsárverum kom í ljós að Arnarfellskvísl hefur skipt um farveg og valdið skemmdum í innsta hluta Arnarfellsmúla. Talið er að þetta hafi gerst í fyrri hluta ágústmánaðar því ferðamenn höfðu enga breytingu séð á rennsli árinnar í lok júlí.
Framhlaup var í Hagafellsjöklum í sunnanverðum Langjökli. Morgunblaðið segir frá 30.september
Athuganir á Eystri- og Vestri-Hagafellsjökli í suðurenda Langjökuls benda til þess að framhlaup sé hafið og að á næstu mánuðum megi búast við framskriði þeirra og að lokum flóði. Aurburðurinn gæti valdið truflunum á lax- og silungsveiði í Hvítá. ... Hagafellsjöklarnir skriðu síðast fram árið 1980, vesturjökullinn um tæpa 700 metra og austurjökullinn um 900 metra. Sá síðarnefndi náði þá niður í Hagafellsvatn. Nú er sporður jökulsins um 700 metra frá vatninu en Helgi [Björnsson] segir að í framhlaupi næstu mánuði gæti hann skriðið aftur niður að því. Hann segir að oft endi þessi atburðarás með því að vatnið brjótist fram undan jöklinum í flóði og meðal annars hafi það líklega verið skýring flóðsins sem kom úr Drangajökli í Kaldalón fyrir nokkrum vikum. Þegar vatnið nær framrás undan jöklinum dragi skyndilega úr hröðu framskriði og framhlaupi ljúki. Helgi segir að Hagafellsvatn myndi draga úr krafti flóðs úr Hagafellsjöklunum og brýr í þeim ám sem flóðið færi í myndu ekki vera í hættu. Flóðið myndi fara úr Hagafellsvatni með Sandá, Ásbrandsá og Tungufljóti í Hvítá og gæti aurburðurinn þar valdið truflunum á lax- og silungsveiði.
Tíðarfarið í október var kalt og fremur rysjótt einkum um norðan- og austanvert landið. Norðaustlægar áttir voru ríkjandi og óvenjumikið snjóaði sums staðar norðanlands upp úr miðjum mánuðinum. Dagana 25 til 29. október mældist snjódýpt í Kálfsárkoti og í Lerkihlíð yfir 80 cm, mest 85 cm (þ.29. í Kálfsárkoti og þ.26. í Lerkihlíð). Þetta er mesta snjódýpt sem mælst hefur hér á landi í október.
Þann 12. fauk stór vinnupallur við hús á Keflavíkurflugvelli, þrír menn slösuðust lítillega (Víkurfréttir 15.október). Nokkuð kröpp lægð var á Grænlandshafi.
Þann 20. var djúp og víðáttumikil lægð fyrir sunnan land. Hún þokaðist til norðausturs og norðan og vestan við hana var mikill vindstrengur. Lægðin dýpkaði talsvert þann 22. og fór norður með austurströndinni. Gerði þá mikla norðan- og loks norðvestanhríð um landið norðanvert. Þann 24. var farið að lægja, en norðanátt hélst mánuðinn út og var hvöss með köflum.
Morgunblaðið segir frá 23.október:
Tvö snjóflóð féllu síðdegis í gær [22.]. Kom annað flóðið úr Eyrarhlíð og féll á veginn milli Ísafjarðar og Hnífsdals, og hitt flóðið féll skammt frá Arnarneshamri við Súðavík. Að sögn lögreglunnar á Ísafirði féll flóðið við Súðavík um klukkan 17 í gær og myndaði það um tveggja metra háa skafla á veginum. Strax var hafist handa við að ryðja veginn og var hann opnaður aftur um klukkan 21 í gærkvöld. Flóðið úr Eyrarhlíð var heldur minna og var vegurinn ruddur á u.þ.b. hálfri klukkustund. Ekki hefur verið gefin út aðvörun um snjóflóðahættu, og var reiknað með því að vind lægði með nóttinni fyrir vestan, en þar var mikill vindur og úrkoma.
Morgunblaðið segir af snjó 24.október:
Mikinn snjó hefur sett niður á skömmum tíma norðanlands og á Vestfjörðum í vonskuveðrinu sem gekk yfir landið á fimmtudag og í gær. Ófært var í gær um Víkurskarð og var mokstri frestað þar til í dag. Slæmt veður var víða í Þingeyjarsýslum í allan gærdag og fram eftir kvöldi og vegir meira og minna ófærir. Töluverðar skemmdir urðu á hafnarsvæði og flotbryggju í höfninni á Húsavík í fyrrinótt [23.] þegar mikill sjór gekk inn í höfnina. Snjó hefur kyngt niður í Ólafsfirði síðasta sólarhring. Í gær [23.] rofaði aðeins til og fóru þá margir út að moka snjó. Fjárflutningabíll fauk út af hjá Fossvöllum, 25 km norður af Egilsstöðum, fuku tveir bílar út af veginum, að sögn fréttaritara Morgunblaðsins. Í gærmorgun fauk fjárflutningabíll með 80 lömb út af án þess að velta. Hann var bundinn við tvær dráttarvélar til þess að hann fyki ekki um koll. Var lömbunum gefið í vagninum. Í gærkvöldi valt gærubíll út af veginum og fór á hliðina. Engan sakaði. Þá fór bifreið út af Djúpvegi, rétt norðan við Hólmavík, um sexleytið í gær vegna hálku. Tvær konur voru í bílnum og sakaði þær ekki, en töluverðar skemmdir urðu á ökutækinu. Moka á helstu vegi í dag.
Víkurblaðið á Húsavik segir af sjávaflóðinu þar í pistli 28.október:
Sjógangur var verstur á háflóði á aðfaranótt föstudags [23.]. Stefán Stefánsson hafnarvörður var þá staddur ásamt fleirum í hafnarskúrnum sem stendur 20 metra inni á hafnarstéttinni, þegar mikil alda braust upp á stéttina, skall á skúrnum og færði hafnarvogina á kaf. Óttuðust menn í fyrstu að verulegar skemmdir hefðu orðið á hafnarvoginni, en við nánari athugun kom í jós að tjónið var minna en álitið var í fyrstu. ... Skemmdir urðu á flotbryggjunni þar sem nokkrir bátar voru bundnir og rifnuðu 1-2 fingur af bryggjunni. ... Sjór gekk stöðugt yfir veginn í Norðurfjöru, skolaði burtu lausu efni og bar stórgrýti á land upp. ... Stefán Stefánsson sagði og að það hefði verið eins gott að þetta veður kom ekki fyrr í mánuðinum þegar straumur var sem mestur, þá hefði nánast örugglega farið ver. Hugsanlega er þetta fjórði mesti sjógangur á Húsavík á Öldinni. Menn tala enn um norðvestanfárviðrin sem ollu gríðarlegu tjóni 1934 og 1956. Og enn er mönnum í fersku minni þegar sjór gekk hátt á land 16. nóvember 1982. [Athugasemd: Spurning hvort 1956 á að vera 1957, en þá gerði allmikið flóð á Húsavík].
Tíðarfar í nóvember þótti fremur hagstætt.
Dagana 7. til 10. nóvember voru mjög djúpar lægðir í námunda við landið. Sú fyrri fór til norðvesturs fyrir suðvestan land, en sú síðari til norðurs og síðar norðvesturs- og vesturs fyrir austan og norðan land.
DV segir frá 9.nóvember:
Við hættum öllum mokstri á fjallinu upp úr klukkan 19 á laugardagskvöld vegna mikils slagveðurs og um það leyti voru komin 9-10 vindstig," sagði Guðmundur Þorsteinsson, vélamaður hjá Vegagerðinni Reyðarfirði, við DV. Á laugardag féll snjóflóð úr Hátúni sem lokaði veginum en það var hreinsað strax. Á sunnudagsmorgun féll annað flóð yfir veginn úr Oddsdal og stöðvaðist umferð vegna þess um tíma. Engin slys urðu á fólki eða eignatjón. Á Eskifirði var komið hávaðarok síðdegis á laugardag. Litlir lækir, sem renna í gegnum bæinn urðu allt í einu að brúnum stórfljótum. Þá slitnuðu landfestar rækjubátsins Þóris SF 77. Einungis eitt tóg hélt honum við bryggjuna. Tókst að koma í veg fyrir tjón með aðstoð björgunarsveitarinnar á Eskifirði. Um nóttina losnuðu þakplötur af leikskólanum sem er í byggingu. Tókst að fergja þakið með saltsekkjum. Í gærmorgun mátti sjá ýmislegt smálegt sem hafði fokið um bæinn. Á Fagradal féllu 20 aur- og krapaflóð. Að sögn vegagerðarmanna voru þau allt að 2 metra þykk og 150-200 metra breið. ... -ÞH
Morgunblaðið segir frá 11.nóvember:
Miklar skemmdir urðu í Fagradal á Norðfjarðarvegi á um þriggja kílómetra kafla milli Egilsstaða og Reyðarfjarðar aðfaranótt sl. sunnudags [8.] af völdum snjó- og aurflóða. Flóðin komu niður á mörgum stöðum, að sögn Guðjóns Þórarinssonar rekstrarstjóra Vegagerðarinnar á Austurlandi, og ollu miklum spjöllum. Flóðin fóru yfir veginn en hann tók hvergi í sundur. Vegurinn varð ófær en var opnaður á hádegi á sunnudag. Guðjón segir að skemmdir séu víða, fyllingar og kantar hafi flotið í burtu. Nokkurra daga vinna sé framundan við að keyra nokkra þúsund rúmmetra af jarðefni í veginn. Ég hef verið við vegagerð í 20 ár og ég man ekki eftir viðlíka skemmdum á vegum hér, sagði Guðjón. Hann sagði að tjónið hlypi á nokkrum milljónum króna. Einnig urðu lítilsháttar skemmdir á veginum í Oddsdal þar sem snjóflóð féllu og vegurinn fór í sundur í Breiðdal. Einnig urðu vegaskemmdir í Mjóadal og innansveitar í Borgarfirði. Mikið vatnsveður var á Neskaupstað og urðu þar töluverðar skemmdir. Auk mikillar rigningar hlýnaði þar mikið og sá snjór sem kominn var bráðnaði ört og jók enn á vatnsflauminn. Vatn flæddi inn í íbúðarhús og fyrirtæki, ræsi stífluðust víða svo að vatnsflaumur fór yfir húsalóðir og götur. Þá fór aðalæð Vatnsveitunnar í sundur og var bærinn vatnslaus í um tíu tíma. Ekki varð neinstaðar stórtjón.
Morgunblaðið segir af grjóthruni 13.nóvember:
Ljóst er að andartak hefur skilið á milli feigs og ófeigs er Jón Bjarni Geirsson, rannsóknarlögreglumaður á Ísafirði, slapp ómeiddur, þegar um 30 tonna bjarg lenti rétt fyrir aftan bifreið hans um áttaleytið í gærmorgun [12.]. Jón Bjarni var á leið inn Ísafjarðardjúpið og ók fyrir fjallið Óshorn, þegar grjótskriða féll úr Óshlíðinni og laskaði bifreiðina mikið. Grjóthnullungar á stærð við mannshöfuð og aðrir hnullungar þaðan af minni mölvuðu rúður farþegamegin bifreiðarinnar, bæði í framsætinu og aftursætinu og beygluðu hægri hlið bifreiðarinnar. Jón Bjarni vissi strax hvað til síns friðar heyrði og jók ferðina til að komast út úr hríðinni, sem hann giskar á að hafi spannað um tíu metra langan kafla á veginum. Hann segir að skriðan hafi fallið úr um 30-40 metra hæð fyrir ofan veginn, en bjargið stóra, sem valt út á veginn, kom úr mun minni hæð. Litlu mátti muna að bjargið merði bifreið Jóns Bjarna þegar það valt út á veginn fyrir aftan bifreiðina með miklum dynk. Sprengja þurfti bjargið vegna stærðar þess og var brotunum sópað fram af vegbrúninni.
Enn urðu jarðskjálftar á Suðvesturlandi. Morgunblaðið segir frá 14.nóvember:
Kröftugur jarðskjálfti, 5 á Richter, reið yfir Suðurland í gærmorgun. Skjálftinn átti upptök sín suður af Skálafelli. Ragnar Stefánsson jarðskjálftafræðingur segist telja að á svæðinu sé efniviður í skjálfta upp á 5,5 á Richter en erfitt sé að segja fyrir um hvenær von sé á honum. Það sem hefur gerst þarna er að u.þ.b. kílómetra löng sprunga hefur hreyfst. Færslan ofan í jörðinni hefur verið 10-15 sentimetrar á þessari sprungu, sem er um tveim km vestan við Hjallahverfið í Ölfusi. Það hafa orðið eftirskjálftar annars vegar norður eftir sprungunni sem hreyfðist til í júní og hins vegar til vesturs. Við fylgjumst vel með eftirskjálftunum og einkum því hvort þeir færast til norðurs. Ef þeir gera það aukast líkur á því að það komi jarðskjálfti á sprungunni sem liggur til norðurs. Við teljum að það sé þarna efniviður í skjálfta upp á 5,5, en það er ekki víst að orkan, sem þarf til að leysa slíkan skjálfta úr læðingi, sé nægjanlega mikil. Það er hins vegar þarna haft sem gæti borið uppi þetta öflugan skjálfta, sagði Ragnar. Stóri jarðskjálftinn varð kl 10:38, en stuttu seinna kom annar skjálfti sem var um 4,3 á Richter. Ragnar sagði að allmargir eftirskjálftar hefðu komið síðan og þær stærstu hefðu verið á milli 3,5-4. Órói hefur verið á þessu svæði frá 1994. Kröftugur jarðskjálfti varð þar síðast 4. júní sl. og olli hann m.a. tímabundnu rafmagnsleysi í Hveragerði. Upptök skjálftans, sem var 5,1 á Richter, voru í Litla-Skarðsmýrarfjalli. Ragnar sagði að skjálftinn í júní hefði verið langdregnari en skjálftinn í gær vegna þess að brotaflöturinn hefði verið stærri.
Fleiri allstórir skjálftar urðu næstu daga. Morgunblaðið 1.desember:
Jarðskjálfti upp á 3,8 á Richter, sem átti upptök sín um 6 km norðnorðaustan við Krísuvík eða á mótum Sveifluháls og Kleifarvatns, fannst í gær klukkan 10:41. Nokkrir vægari eftirskjálftar komu í kjölfarið, en búist var við að hrinunni linnti að sólarhring loknum.
Desembermánuður var fremur hlýr og lengst af góðviðrasamur. Dagana 12. til 17. fóru þrjár djúpar lægðir til norðausturs skammt undan Suður- og Suðausturlandi. Morgunblaðið segir frá 15.desember:
Víða var mjög hvasst um sunnanvert landið í gær [14.] og lentu ökumenn í vandræðum. Hvergi urðu þó alvarleg slys. Síðdegis fór að lægja sunnanlands en þá herti í vindinn fyrir norðan. Einna hvassast varð á Kjalarnesi þar sem tíu vindstig voru um tíma ... Minniháttar skemmdir urðu á þaki tveggja íbúðarhúsa í Vestmannaeyjum í gær þegar vindhraði í norðaustanátt í gær, fór upp í 80 hnúta [42,7 m/s, 58,7 m/s (114 hnúta) í hviðu] við Stórhöfða. Mestur var vindurinn um klukkan 6 að morgni og lægði hann þegar líða fór á daginn.
Morgunblaðið segir frá því 8.janúar að í veðrinu 14.desember hafi um 200 metrar af vegklæðningu fokið í Öræfum. Vindhraði fór þá í 41,7 m/s á Fagurhólsmýri og er það mesta sem þar hefur mælst.
Þann 18. hófst eldgos í Grímsvötnum. Gosið var nokkuð öflugt í byrjun, en hjaðnaði fljótt. Morgunblaðið segir frá 19.desember:
Gos hófst í Grímsvötnum í Vatnajökli í gærmorgun, á sama stað og gaus 1983 og 1934. Gosið nú er talið mun stærra en 1983. Mökkinn frá eldstöðvunum lagði í allt að 10 km hæð. Ekki er talin hætta á svo miklu hlaupi úr Grímsvötnum, að ógnað geti mannvirkjum á Skeiðarársandi. Gosvirknin í Vatnajökli undanfarin ár gefur vísbendingu um að nýtt óróatímabil gosstöðva undir jöklinum sé að hefjast, að sögn Guðrúnar Larsen jarðfræðings á Raunvísindastofnun.
Lýkur hér samantekt hungurdiska um veður og veðurfar ársins 1998. Að vanda eru fjölbreyttar tölulegar upplýsingar (meðalhiti, mánaðarúrkoma ofl.) í viðhenginu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (12.7.): 65
- Sl. sólarhring: 366
- Sl. viku: 1774
- Frá upphafi: 2484036
Annað
- Innlit í dag: 58
- Innlit sl. viku: 1583
- Gestir í dag: 57
- IP-tölur í dag: 55
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Júlí 2025
- Júní 2025
- Maí 2025
- Apríl 2025
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning