Hlaupið yfir árið 1992

Tíð var fremur óhagstæð á árinu 1992 og oft var illviðrasamt. Það var fremur kalt. Helst situr Jónsmessuhretið í minni ritstjóra hungurdiska. 

Janúar var mjög hlýr. Stormasamt var, en tíð samt talin hagstæð til landsins. Gæftir voru slæmar. Í febrúar var mjög óstöðug tíð og mjög erfið til sjávarins. Mars var nokkuð umhleypingasamur, en tíð talin sæmileg. Gróður lifnaði sunnanlands í apríl og tíð var almennt talin nokkuð hagstæð. Sama mátti segja um maí, tíð var nokkuð hagstæð, sérstaklega síðari hluta mánaðararins. Júní var kaldur og hrakviðrasamur á Suður- og Vesturlandi. Norðaustanlands var sæmileg tíð framan af, en síðan kalt. Óvenjulegt hret gerði um Jónsmessuna. Júlí var vætusamur nyrðra, sérstaklega síðari hluti mánaðarins, en annars var tíð talin sæmileg. Framan af ágúst var hagstæð tíð norðaustanlands, en annars stirð. Kuldakast í lok mánaðar. Kuldatíð var framan af september og mjög úrkomusamt á Norðausturlandi. Síðari hluti mánaðarins var hagstæðari. Í október var hagstæð tíð og hægviðrasöm. Betur rættist úr garðauppskeru en útlit hafði verið fyrir í ótíðinni í september. Umhleypingasamt var í nóvember, en tíð þó talin sæmileg. Í desember var slæm tíð á norðan- og vestanverðu landinu, en sæmileg suðaustanlands. Mikill snjór á Norðurlandi.

Í textanum hér að neðan er leitast við að rifja upp helstu veðurviðburði ársins, oftast með beinum tilvitnunum í texta frétta- og dagblaða sem leitað er til með hjálp timarit.is. Í fáeinum tilvikum hafa augljósar prentvillur verið leiðréttar og stafsetningu í stöku tilviki hnikað til - vonandi að meinalausu. Sömuleiðis eru textar alloft styttir. Auðvelt ætti að vera að finna frumgerð þeirra. Að þessu sinni (eins og oftast hin síðari ár) er mestra fanga að leita hjá Morgunblaðinu, ritstjóri hungurdiska er að vanda þakklátur blaðamönnum fyrir þeirra hlut.    

Janúar var umhleypingasamur, en hlýr.

Slide1 

Á kortinu má sjá meðalhæð (heildregnar línur), meðalþykkt (daufar strikalínur) og þykktarvik í janúar 1992. Suðlægar vindáttir voru ríkjandi og hiti langt ofan meðallags á stóru svæði. 

Lægð fór yfir landið þann 6. og í kjölfarið gerði skammvinnt en ákaft hríðarveður norðanlands. Morgunblaðið segir frá 8.janúar:

Snjó kyngdi niður á Akureyri í fyrrinótt, en frá því byrjaði að snjóa um kl. 20 á mánudagskvöld og fram á þriðjudagsmorgun mældist snjódýptin 50 sentímetrar. Mikill erill var hjá lögreglumönnum í gærmorgun við að aka fólki til vinnu á ýmsar stofnanir og aðstoða ökumenn. Þrátt fyrir að allt sé nú á kafi í snjó í bænum festi lítinn snjó í Hlíðarfjalli.

Miklar hlákur fylgdu í kjölfarið og stóðu þær með aðeins fáeinum skammvinnum undantekningum út mánuðinn. Hlýjast varð í kringum þann 14.

Slide2 

Kortið sýnir hæð 500 hPa-flatarins (heildregnar línur) og þykktina (litir) að kvöldi 13.janúar 1992. Þá var sett nýtt janúarhitamet á Daltanga, hiti fór í 18,8 stig, þetta met stóð í 8 ár. 

Morgunblaðið segir af vatnavöxtum 14.janúar:

Mikil flóð gerði í Norðurá og Hvítá í miklum rigningum og asahláku aðfaranótt mánudagsins [13.]. Einnig flæddi nokkuð í vatna- vöxtum víða á Suðurlandi. Loka varð veginum í Fljótshlíð og í Landeyjum og í Mýrdal flæddi yfir vegi þegar ræsi höfðu ekki undan. „Ég man ekki til þess að það hafi flætt svona snögglega eins og gerði núna, en það hefur stundum flætt meira,“ sagði Sigurður Tómasson bóndi í Sólheimatungu í Stafholtstungnahreppi í viðtali við Morgunblaðið. Skúli Kristjónsson í Svignaskarði kvaðst ekki muna eftir öðru eins flóði á þessum slóðum. Síðdegis var Hvítá enn í vexti og farið að flæða yfir veginn hjá síkisbrúnum við Ferjukot.

Í Mýrdal flæddi yfir veginn hjá Litla-Hvammi á um 100 metra kafla og einnig flæddi yfir veginn við Skeiðflöt og Steig. Þar sem verst var lá um 30 sentímetra vatn yfir veginum en alls staðar var fært fólksbílum, að sögn lögreglu í Vík. Í Fljótshlíð urðu einnig miklir vatnavextir. Loka varð vegin- um við brúna inn í Fljótshlíð og við Hlíðarendakot féll aurskriða sem ekki olli tjóni á mannvirkjum.

Morgunblaðið segir enn af vatnavöxtum 15.janúar:

Fimm bæir í Borgarfirði voru í gær umflotnir vatni eftir hina miklu vatnavexti í Hvítá og þverám hennar. Bændur í Borgarfirði sem fréttaritari Morgunblaðsins í Borgarnesi ræddi við töldu þessa vatnavexti í hópi hinna allra mestu í manna minnum en þó tæpast eins mikla og 1982. Víða flæddi inn í útihús og skemmur og einnig flæddi inn í bæinn á Ferjukoti. Þá var vitað um að minnsta kosti tvo sumarbústaði í Norðurárdal þar sem flætt hafði inn vatn. Víða hafa vegir orðið fyrir skemmd- um vegna vatnavaxta. Vatn rann yfir Vesturlandsveg fyrir neðan Hreðavatn. Hvítárvalla- vegur er lokaður við Ferjukot og Hálsasveitarvegur er ófær í Hvítársíðu við Hvítársíðukrók. Talið var að allvíða hefði vatnið rofið skörð í vegi og á þriðja hundrað rúllubaggar hefðu orðið fyrir skemmdum vegna vatnsins. Sumir höfðu flotið upp og þá rak eins og dufl um um- flotin tún. Þá var einnig talið að girðingar hefðu víða skemmst. 

Björgunarsveitin Brák í Borgarnesi var kvödd að Ferjukoti í Borgarhreppi í gærmorgun en þar var vatn farið að flæða inn um niðurföll. Björgunarsveitarmenn héldu til hjálpar með þrjár dælur og aðstoðuðu Þorkel Fjeldsted bónda og hans fólk við að dæla út úr húsum og loka niðurföllum. Jónas Valdimarsson, formaður Brákar, kvaðst ekki telja að mikið tjón hefði orðið innanstokks í Ferjukoti enda væri fólk á þessum slóðum ávallt viðbúið vatnavöxtum og hefðu flestir af fyrri reynslu sett sökkla undir eldavélar og viðkvæmustu heimilistæki. Jónas sagði að sér hefði virst sem um kaffileytið væri farið að sjatna í ánni en menn voru því þó viðbúnir að til þeirra yrði leitað nú í nótt. Auk útkallsins að Ferjukoti og björgunar hesta við Sólheimatungu í fyrradag höfðu Brákarmenn verið fengnir til að koma böndum á um 40 metra hitaveiturör sem flotið var upp skammt frá Hvítá, sem að sögn Jónasar var í gær orðin að beljandi stórfljóti „eins og flestar lækjarsprænur,“ sagði Jónas. Fréttaritari Morgunblaðsins í Borgarnesi ræddi í gær við bændur sem töldu það hafa verið lán í óláni í sambandi við þessa vatna- vexti að ekki hafi verið stórstreymt. Vatnsborð hafði hækkað mjög skyndilega, eða um allt að 10-20 sentímetra á klukkustund þegar verst lét. Engu síður voru bændur á því að hér væri á ferðinni réttnefnt stórflóð í Hvítá og nálægt því sem menn myndu mest þótt ekki væri eins mikið og 1982. Auk Ferjukots í Borgarhreppi voru það bæirnir Hvítárbakki og Stafholtsey í Andakílshreppi og Flóðatangi og Melkot í Stafholtstungnahreppi, sem voru umflotnir í gær.

Ekki var vitað um tjón á skepnum eða að gera hefði þurft út björgunarleiðangra vegna nauðstaddra dýra utan að í Vatnsdal nyrðra var um 70 hrossum bjargað undan flóði. Annars staðar á landinu hafði ekki frést um tjón á bæjum en vegaskemmdir höfðu orðið á Vestfjörðum. Þannig var Vestfjarðavegur ófær í Djúpadal og Reyk- hólavegur var aðeins fær jeppum. Á Barðaströnd rann Hagá yfir Barðastrandarveg. 

Morgunblaðið heldur áfram 16. og 18.janúar:

[16.] Tjón á vegamannvirkjum vegna vatnavaxtanna á sunnan- og vestanverðu landinu nemur milljónum króna, að sögn Helga Hallgrímssonar vegamálastjóra. Ekki verður fullljóst hve miklar skemmdir hafa orðið fyrr en rennsli ánna kemst í eðlilegt horf, en farið er að sjatna í þeim. Að sögn Bjarna Helgasonar jarðvegsfræðings er því aðeins hætta á kali í túnum í kjölfar vatnavaxtanna að mikið frost geri áður en vatn rennur af túnum þannig að á þeim myndist svell. Jón Kristjánsson fiskifræðingur telur ekki hættu á að laxaseiði drepist í kjölfar flóðanna; reynslan sýni að flóð með miklum framburði hafi ekki mælanleg áhrif á lífríki ánna sem er í vetrardvala. Helgi Hallgrímsson vegamálastjóri sagði að dýrustu viðgerðir á vegakerfinu yrðu þar sem holræsi og brýr hefðu skemmst og einnig á köflum þar sem stöðugt rennsli hefði verið yfir vegi. Helgi sagði að víðast mætti gera ráð fyrir að viðgerðum yrði lokið fljótlega, en á sumum stöðum yrðu bráðabirgðaviðgerðir látnar duga til sumars.

Skarð myndaðist í þjóðveginn við Þverá í Eyjahreppi á Snæfellsnesi er skarð kom í stíflugarð við uppistöðulón fyrir vatnsrafstöð og stíflan brast. Þrýstivatnspípur og stöðvarhús splundruðust og er eignatjón mikið, en þó var ekki búið að setja niður vélar. Vegaskemmdir urðu í Heydalsvegi, veginn tók í sundur hjá Oddastöðum. Brú yfir Geitará hjá Gilsstöðum hefur sigið vegna þess að áin hefur grafíð undan stöplum. í Gufudalssveit hafa vegir skemmst mikið. 

[18] Rennsli Norðurár hefur aldrei mælst meira en í flóðunum í Borgarfirði undanfarna daga svo þúsundföldun hefur orðið á venjulegu vetrarrennsli þegar mest hefur verið, að sögn Arna Snorrasonar, vatnafræðings hjá Orkustofnun. Flóðin eru auk þess frábrugðin venjulegum vetrarflóðum þar um slóðir að því leyti að flóðatímabilið er óvenju langt. Norðurá er dæmigerð dragá, verður vatnslítil í þurrkatíð en vex mjög í flóðum, að sögn Árna. „Vorleysingar eru að jafnaði miklar, enda úrkomusamt á vatnasviði hennar. Mestu flóðin í Norðurá eru þegar saman fara miklar rigningar og snjóleysing, eins og nú hefur gerst,“ sagði Árni í samtali við Morgunblaðið. Hann sagði jafnframt að tíminn væri ekki óvenjulegur, því þessi flóð væru árviss í desember eða janúar. Vetrarflóðin væru oft mjög snögg og með miklum ísagangi en stæðu stutt. Einnig sagði hann að dæmi væru um mikil flóð samfara sumar- og haustrigningum. Að sögn Árna urðu mestu flóð í Borgarfirði frá því að mælingar hófust í janúar 1983 en þá varð asahláka á freðinni jörð. Gríðarlegur jakaburður var þá í ánum og flóðin voru mjög snögg. Hvítá náði þá mesta rennsli sem þar hefur mælst frá 1963 eða 536 rúmmetrum á sekúndu. Í flóðunum nú hefur rennslið náð 382 rúmmetrum á sekúndu. Árið 1983 var samtímis ofsaflóð í Norðurá og varð mesta rennsli þá 650 rúmmetrar á sekúndu. Rennslið í ánni nú hefur hins vegar náð 695 rúmmetrum á sekúndu þegar mest hefur verið. 

Djúp lægð á Grænlandshafi olli landsynningsveðri þann 20. Morgunblaðið segir frá 21.janúar:

Mikið hvassviðri gekk yfir allt suðvestanvert landið í gær og fyrrinótt og mældist 12 stiga vindhraði í höfuðborginni í mestu hviðunum í gærdag. Sjúkrabifreið á leið frá Ólafsvík til Reykjavíkur sótti vanfæra konu upp í Kjós í gærkvöldi, en hún var farþegi í bifreið sem fauk út af veginum um áttaleytið. Konan var flutt á slysadeild Borgarspítalans og gekkst undir rannsókn í gærkvöldi en virtist þó hafa sloppið við meiðsli samkvæmt upplýsingum læknis. Byggingakrani eyðilagðist þegar hann féll yfir fjölbýlishús í byggingu í Hafnarfirði í fyrrinótt og olli nokkrum skemmdum á þaki þess. Víða fuku lausir hlutir á höfuðborgarsvæðinu en ollu hvergi skemmdum svo vitað sé. Lögregla í borginni þurfti að aðstoða skólabörn að komast heim síðdegis vegna hvassviðrisins og flugfélögin aflýstu áætlunarferðum til nokkurra staða síðdegis og í gærkvöldi Flugleiðir aflýstu öllu flugi til Akureyrar, Ísafjarðar, Sauðárkróks, Húsavíkur og Egilsstaða síðdegis en tekist hafði að fljúga til allra áfangastaða nema Vestfjarða fyrri hluta dagsins. Íslandsflug aflýsti flugi til Vestmannaeyja í gær og vél sem fór til Siglufjarðar, Gjögurs og Hólmavíkur var kyrrsett á Sauðárkróki í gærdag, en til stóð að fljúga henni til Reykjavíkur í gærkvöldi þegar veður var farið ganga nokkuð niður á suðvesturhorni landsins. Nokkrar rafmagnstruflanir urðu í gærkvöldi þegar háspennulína frá Búrfelli að Geithálsi fór út vegna veðursins. Hvergi varð þó rafmagnslaust nema í Járnblendiverksmiðjunni þar sem straumur fór af í hálfa mínútu samkvæmt upplýsingum frá Landsvirkjun. Samkvæmt upplýsingum vegagerðarinnar var ófært í Hvalfirði og undir Hafnarfjalli síðdegis í gær og fram eftir kvöldi vegna hvassviðris. Þá fór klæðning af vegi í Kjósinni. Í gærkvöldi rigndi en vegna kólnandi veðurs í nótt var búist við mikilli hálku á vegum. Djúp lægð yfir Grænlandshafi olli veðrinu ásamt kraftmikilli hæð yfir Norðursjó, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands. 

Morgunblaðið segir 31.janúar frá blíðutíð á Norðausturlandi:

Hraunbrún, Kelduhverfi. Einstök veðurblíða hefur verið í Kelduhverfi eins og annars staðar á landinu nú í janúarmánuði. Mjög algengt hefur verið að sjá hitamælinn standa í 10 gráðum. Þetta óvenjulega veðurlag hefur í för með sér að ýmsir hlutir í náttúrunni ruglast. Krókusar og túlípanar gægjast upp úr jörðinni, tún grænka og annar gróður tekur við sér. Það sem íbúum við Víkingavatn í Kelduhverfi kemur þó mest á óvart er þó að ísinn er að taka af vatninu. Ís er alltaf á vatninu fram í apríl að minnsta_kosti og jafnvel fram í júnímánuð. Í gærmorgun var ísinn alveg farinn af ytri bolnum í vatninu. ísskæni var enn á syðri hlutanum en útlit var fyrir að það hreinsaðist af í gær. Að sögn Þorgeirs Þórarinssonar á Grásíðu hefur ís ekki tekið af vatninu á þessum tíma svo lengi sem menn muna. Inga 

Mikið hvassviðri var á Akureyri í gær og fór vindhraðinn upp í 64 hnúta eða rúmlega 11 vindstig í mestu hviðunum. Ekki varð þó umtalsvert tjón af völdum þess, en járnplötur losnuðu frá húsum á einum stað, bátar skullu saman inn við Höepfner, hurðir fuku upp af bílskúrum og plast fór af gróðurhúsum auk þess sem einhverjir lausamunir færðust úr stað. Á myndinni má sjá hvernig brotin riðu yfir Eimskipafélagsbryggjuna, en áttin stóð af suðri og á minni myndinni sést járnplata sem losnað hefur frá húsinu.

Um stund voru menn með augun á hafísnum. Morgunblaðið segir frá 1.febrúar:

Hafísinn norður af landinu er með meira móti nú og dreifðari en undanfarin ár. Þór Jakobsson á hafísrannsóknadeild Veðurstofunnar segir að ísinn nái nú mun austar en áður og sé það vegna þess hve vestlægar og suðvestlægar vindáttir hafa verið ríkjandi við landið á undanförnum vikum. Í ískönnunarflugi Landhelgisgæslunnar í þessari viku kom fram að næst landi er hafísinn um 35 sjómílur norðvestur af Straumsnesi en í mestri fjarlægð er ísinn 143 sjómílur norður af Siglunesi. Þór Jakobsson segir að ef vestlægar áttir haldi áfram um stund en breytist svo í norðlægar áttir sé hætta á að ísinn reki inn á siglingaleiðir norðvestur af landinu. Hins vegar sé erfitt að spá um framvindu mála.

Morgunblaðið ræðir snjóleysi 2.febrúar:

Þeir sem stunda vetraríþróttir hérlendis kvarta nú sáran yfir því að engan snjó er að hafa víðast hvar á landinu. Jeppa-, vélsleða- og skíðamenn hafa nær ekkert getað stundað íþróttir sínar frá því um áramót vegna snjóleysis og svo langt hefur þetta gengið að þegar haldin var keppni í spyrnu á vélsleðum nýlega á Akureyri var keppt á grasi. Snjóleysið er tilkomið vegna hinna miklu hlýinda sem verið hafa í janúarmánuði.

Tíð var óróleg í febrúar og sveiflur miklar hita. Snjór var til trafala og gæftir slæmar. Djúp lægð fór yfir landið norðanvert þann 6. og þann 8. kom önnur djúp lægð að landinu. Morgunblaðið segir af snjókomu og snjóflóðum vestra í pistli 8.febrúar:

Ísafirði. Mikil snjókoma hefur verið við Djúp síðustu daga. Flutningabíll keyrði inn í snjóflóð á Óshlíð snemma á fimmtudegi [6.] og strætisvagn tepptist vegna flóða á Eyrarhlíð milli Ísajarðar og Hnífsdals. Eftir snjólausan janúar helltist snjórinn hreinlega yfir ísfirðinga á miðvikudag og fimmtudag. Um eins metra jafnfallinn snjór er á götum og hefur gengið erfiðlega að halda samgönguæðum opnum. Snjókoman var frá Bolungarvík og inn að Hvítanesi við Skötufjörð, en þar innaf rigndi. Flutningabíll frá Bolungarvík keyrði inn í snjóflóð á Óshlíð árdegis á fimmtudag. Ökumaðurinn gat látið vita um farsíma, en komst sjálfur út um glugga. Vegagerðarmenn náðu bílnum úr flóðinu, en ekki var reynt að opna veginn og var hann lokaður til hádegis í gær, föstudag. Strætisvagn lokaðist úti í Hnífsdal síðdegis á fimmtudag þegar snjóflóð féll á veginn um Eyrarhlíð. Vegagerðin hélt þeim vegi opnum fram að kvöldmat, en þá lokaði lögreglan honum vegna snjóflóðahættu. Snjóflóð féllu líka á Súðavíkurhlíð en hún var opnuð á föstudag. Hætt var við að ryðja veginn um Breiðadals- og Botnsheiðar vegna veðurs í gær en athuga átti með snjómokstur í dag ef veður leyfði. Ekki tókst að ryðja veginn frá Súðavík inn í Djúp í gær vegna fannfergis, en reiknað var með í gærkvöldi að sá vegur yrði fær í dag, þar sem snjólaust er í inndjúpinu og lítill snjór á Steingrímsfjarðarheiði. Ef að líkum lætur munu ísfirðingar nota helgina til skíðaiðkana, þar sem hvergi sér nú í dökkan díl í paradís skíðamanna á Seljalandsdal. Úlfar 

Morgunblaðið segir fleiri snjóflóðafréttir að vestan 9.febrúar:

Snjóflóð féllu á Óshlíðarveg á föstudag [7.] og aðfaranótt laugardags. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglunni á Ísafirði féllu 20-25 snjóflóð á veginn á föstudag og vár hann lokaður mestallan daginn. Þá féllu nokkur snjóflóð á veginn aðfaramótt laugardags. Vegurinn var opnaður um hádegisbil í gær.

Mjög djúp lægð var fyrir sunnan land þann 12. og olli hún mjög hvassri austanátt, en grynntist síðan fljótt. 

Morgunblaðið segir frá illviðri í Vestmannaeyjum í pistli 13.febrúar:

Vestmannaeyjum. Vindhraði fór upp í 115 hnúta [59,2 m/s] á Stórhöfða í Vestmannaeyjum í fárviðri sem gekk yfir Eyjar í gær [12.]. Skólahald í grunnskólunum féll niður og rafmagnslaust var í bænum í eina klukkustund. Óskar Sigurðsson, vitavörður á Stórhöfða, sagði að meðalvindhraði hefði mælst 70 hnútar kl. 6 um morguninn, 88 hnútar kl.9 og 89 hnútar rétt fyrir hádegi þegar veðrið náði hámarki. Vindhraði var 115 hnútar í verstu hviðunum. Eftir hádegi dró úr veðrinu og úrkoma tók við af vikurfoki. Um kl.18 fór rafmagn af bænum en varaaflstöð var komin í gang klukkustund síðar. Nokkru seinna var rafstrengur 2 settur inn. Líklegt er talið að selta á endamúffu rafstrengs á Landaeyjarsandi hafi valdið rafmagnsleysinu. Ekki var flogið til Vestmannaeyja og ferð Herjólfs féll niður í fyrsta skipti í vetur. Tilkynnt var um þrjú smávægileg óhöpp vegna járnplötufoks. Grímur

Þann 16. gerði skammvinnt landsynningsveður vegna mjög djúprar lægðar á Grænlandshafi, þann 18. endurtók sagan sig. Skemmdir urðu aðeins smávægilegar. 

Morgunblaðið segir frá 16.febrúar:

Verkpallar á suðurgafli Hótels Holts við Bergstaðastræti hrundu niður og lentu á átta bifreiðum á bílastæði við hótelið í gærmorgun. Tjón varð mikið á bifreiðunum en ekki var búið að meta það í gærmorgun. Skúli Þorvaldsson hótelstjóri varð vitni að þessu óhappi. „Eg var staddur hérna á gangi hótelsins og varð litið út um gluggann þegar þetta gerðist. Það kom snörp vindhviða sem hreinlega feykti pöllunum niður. Þetta gerðist eiginlega á einni sekúndu," segir Skúli.

Morgunblaðið segir af umferðaróhappi í pistli 19.febrúar:

Laugarhóli, Bjarnarfirði. Áætlunarbifreið frá Guðmundi Jónassyni hf á leið frá Reykjavík til Hólmavíkur fauk út af veginum á Ennishálsi í Strandasýslu síðdegis í gær. Í bifreiðinni voru fimm börn og sjö fullorðnir en engin slys urðu á fólki eða skemmdir á bíl. „Þetta var allt í lagi. Við lentum að hluta undir næstu sætum en enginn meiddist. Bílstjórinn bjargaði þessu eins snyrtilega og hægt var,“ sagði Erna Arngrímsdóttir, farþegi úr bílnum, í samtali við fréttaritara. Bóndi á bæ við Ennishálsinn fór á dráttarvél og náði bílnum upp á veginn. Síðan var sendur vörubíll frá Hólmavík til að aðstoða hann við að komast til Hólmavíkur. Mjög hvasst var á Ströndum í gær og rigning. Glerhálka var á vegum og engir auðir kantar. Vatnslaust varð á Hólmavík í óveðrinu síðdegis í gær. S.H.Þ

Slide3

Þann 24. fór mjög djúp lægð til norðausturs og norðurs yfir landið austanvert og olli versta veðri mánaðarins, fyrst af suðaustri, en síðan vestri. Kortið sýnir stöðuna snemma morguns, en þá var lægðin komin norðaustur fyrir - og vestanátt hefur tekið völdin. Strax næsta dag fór djúp lægð til norðurs skammt fyrir vestan land (sú sem er við Nýfundnaland á kortinu) og loks fór djúp lægð hratt til norðurs fyrir austan land þann 27. 

Morgunblaðið segir af tjóni í fyrstu lægðinni 25.febrúar:

Kröpp lægð gekk yfir landið aðfaranótt mánudagsins [24.] og olli óveðrið nokkru tjóni, einkum sunnanlands. Óveðrinu fylgdu þrumur og eldingar. Upp úr hádegi í gær var farið að hvessa norðan- og austanlands. ... Járnklæðning fauk af Fiskimjölsverksmiðjunni í Eyjum og vinnupallar hrundu við fjölbýlishús á Hásteinsvegi. Í Keflavík hrundu einnig vinnupallar og lentu þeir á tveimur olíubílum sem skemmdust nokkuð. Rafmagn sló út víða sunnanlands og að sögn Örlygs Jónassonar, rafveitustjóra á Hvolsvelli, varð nokkurt tjón er eldingum sló niður f spenna. Rafmagn var komið á víðast í gær en þó voru sveitabæir í Landsveit enn án rafmagns. Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur sagði að óveðrið hefði gengið yfir mestan hluta landsins en Vesturland og Vestfirðir hafi sloppið einna best. Búist er við að næsta lægð verði gengin yfir landið undir kvöld, en þó fer það eftir því hvar miðju lægðarinnar ber niður. Færð spilltist ekki að ráði í þessu áhlaupi, að sögn Vegagerðarinnar. Hins vegar varð töluverð röskun á millilandaflugi hjá Flugleiðum. ... Allt flug innanlands féll niður eftir kl.16 á sunnudag [23.] og fram eftir degi í gær.

Morgunblaðið segir frekari fréttir af eldingum 26.febrúar:

Hvolsvelli. Mesta mildi var að ekki fór ver þegar eldingu laust í rafmagnslínu á milli bæjanna Litlu-Hildiseyjar og Hallgeirseyjar í Austur-Landeyjum um áttaleytið síðastliðið sunnudagskvöld [23.]. „Ég þakka Guði fyrir að enginn skyldi slasast. Það komu eldglæringar út úr eldavélinni sem lentu á Jóni manninum mínum, en hann meiddist ekkert," sagði Jóna  Jónsdóttir, húsfreyja á Hallgeirsey, en hún vár ásamt manni sínum, vinafólki og sonardætrum að baka flatkökur þegar eldingunni laust niður. Ein kýr drapst er eldingunni laust niður og er talið að hún hafi þá verið að drekka.

Engan sakaði þegar tvær rútur, hvor með um 40 nemendur úr Flensborgarskóla, fuku út af Suðurlandsvegi í Draugahlíð ofan við Litlu-kaffistofuna í gærmorgun [25.]. Önnur rútan valt á hliðina út fyrir veg þegar nemendurnir og kennari og bílstjóri höfðu nýlega forðað sér út en hin rútan hélst á réttum kili en rann hálf út fyrir veginn. Lögregla stöðvaði alla umferð um Suðurlandsveg um tveggja tíma skeið í gærmorgun en þá var þar ekki stætt í hryðjum. Alls höfðu ökumenn sex bíla misst farartæki sín út fyrir veg vegna vindsins á Sandskeiði og í Draugahlíð en engan sakaði að heitið gæti. Við Hólmsá tókst tómur 20 feta gámur á loft af palli vöruflutningabíls og fauk út fyrir veg.

Ísafirði. Við stórslysi lá þegar þrítug kona og fjögurra ára dóttir hennar festust undir strætisvagni sem fauk til í hvassviðri á Hnífsdal í gær [25.]. Konan fótbrotnaði og dóttir hennar upphandleggsbrotnaði, en í fyrstu var talið að um mun alvarlegri áverka á þeim væri að ræða. Að sögn bílstjóra vagnsins var vagninn að fara frá fyrstu biðstöð við Dalbraut í Hnífsdal. Þá hreif sterk vindhviða bílinn, og ýtti honum þversum út í vegkant þar sem hann stöðvaðist á hörðum snjóruðningi. Við það lyftist vagninn vindmegin, og munaði litlu að hann ylti fram af 10-15 metra háum bökkum. Mæðgurnar, sem nýfarnar voru úr vagninum, urðu fyrir honum og festust undir honum. Öflugur gaffallyftari var strax fenginn úr Rækjuverksmiðjunni skammt frá og með honum og hjálp fólks sem dreif að tókst að ná mæðgunum undan bílnum. Í fyrstu var óttast að um mjög alvarlega áverka væri að ræða, en að sögn læknis á Fjórðungssjúkrahúsinu á Ísafirði reyndist móðirin vera fótbrotin og dóttir hennar upphandleggsbrotin. Bíllinn er óskemmdur eftir óhappið. Úlfar

Menn hafa áhyggjur af Kötlu (rétt einu sinni), Morgunblaðið segir frá 27.febrúar:

Fimm jarðskjálftar mældust í Mýrdalsjökli aðfaranótt miðvikudagsins. Skjálftarnir voru á bilinu 2 1/2-3 á Richter-kvarða. Hringveginum var lokað um Mýrdalssand, einkum vegna slæms skyggnis og vonskuveðurs en einnig vegna hættu á Kötluhlaupi. Ragnar Stefánsson,
jarðeðlisfræðingur, segir að skjálftahrinan brýni menn til að vera enn betur á verði en ella varðandi hugsanleg eldsumbrot í Kötlu. 

Mars var umhleypingasamur en tíð þó ekki talin mjög slæm. Langversta veðrið gerði þann 8., en þá gerði mjög stríða sunnanátt er lægð fór til norðurs skammt fyrir vestan land. Þann 3. gerði landsynningsveður með þrumuveðri þegar kröpp lægð fór til norðurs nærri Suðvesturlandi.

Morgunblaðið segir frá eldingunum í pistli 4.mars:

Eldingu sló niður í Búrfellslínu 2 um kl.22:30 í gærkvöldi og olli rafmagnsleysi í  Hafnarfirði, Garðabæ, hluta Breiðholts og á Suðurnesjum sem og í Hveragerði og á Selfossi.

Morgunblaðið segir 10.mars frá illviðrinu þann 8.:

Mikið hvassviðri gekk yfir landið á sunnudag [8.], en skemmdir urðu víðast hvar litlar. Björgunarsveitir höfðu þó nóg að gera á Eskifirði, þar sem heilu kofarnir þeyttust af grunni. Vindhraði mældist 80 hnútar á flugvellinum á Vopnafirði, en í verstu hviðunum fór hann upp í 100 hnúta [51,4 m/s].

Samkvæmt upplýsingum Veðurstofu Íslands var veðrið mjög óvenjulegt að því leyti, að mjög hvasst var um allt land, 9-10 vindstig og ekki aðeins á annesjum, heldur og inn til landsins. Fjórðungur þaksins á Pöntunarfélaginu á Eskifirði fauk af húsinu, en snarræði björgunarsveitarmanna kom í veg fyrir að það flettist alveg af. Þá losnuðu þök vítt og breitt um bæinn. Rúða í eldhúsglugga brotnaði í mél, en engan sakaði. Þá brotnaði ytra byrði í rúðum nokkurra húsa, vegna mikils moldroks. Gat kom á seglaskemmu og er talið að járnplata hafi fyrst farið í gegnum seglið, en vindurinn svo séð um að stækka gatið. Skúr við íþróttavöllinn þeyttist 5-6 metra í loft upp og tættist í smátt, svo brot úr honum fóru langt inn í dal. Hjá Veðurstofunni fengust þær upplýsingar, að víða hefði verið hvassara en þar sem vindmælar væru. Þó hefðu þeir sýnt mikinn vind, til dæmis á flugvellinum í Vopnafirði, 80-100 hnúta, og á Dalatanga 55 hnúta, eða 11 vindstig. Fjölmargar stöðvar hefðu sýnt 9-10 vindstig og mjög óvenjulegt væri hve mikið hvassviðri hefði verið um allt land og ekki síður inn til landsins en á annesjum. Á norðanverðu Snæfellsnesi náði vindurinn einnig töluverðum styrkleika. Níu vindstig mældust á Stykkishólmi og hvassviðrið reif járn af hálfu húsþaki. Lögreglan á Ólafsvík sagði að slíkt væri ekkert óvenjulegt á þessum árstíma, svo menn hefðu ekki kippt sér upp við það.

Að sögn Ingimars K. Sveinbjörnssonar, sem ók um Gilsfjörð á sunnudag, lokaðist vegurinn þar um tíma þegar einar 10 aurskriður féllu á veginn á um 15 kílómetra löngum kafla frá Gróustöðum, um  Gilsfjarðarmúla og innundir Gilsfjarðarbrekku. Ein skriðan var allt að 3 metra há og gnæfði yfir háa jeppa sem óku í gegnum skarð sem stórvirk vinnuvél ruddi í skriðuna. Ingimar sagði fólki í byggðum við Gilsfjörð orðið heitt í hamsi vegna seinagangs stjórnvalda við að taka ákvörðun um gerð brúar yfir fjörðinn enda erfiðar samgöngur að vetrarlagi við Búðardal, þangað sem sækja þurfi ýmsa nauðsynlega þjónustu. Umferð um hringveginn tepptist um skeið þegar aurskriða féll á Vesturlandsveg við Hvammsvík í Hvalfirði. Miklar rigningar í Reykjavík um helgina ollu flóðum í kjöllurum húsa, þar sem niðurföll höfðu ekki undan vatnsflaumnum. Slökkviliðið var kallað út sex sinnum á sunnudag, til að dæla vatni úr kjöllurum.

Þann 12. snerist vindur í mjög kalda norðanátt sem stóð í fáeina daga. Morgunblaðið segir frá 15.mars:

Grimmdarlegt frost var um allt land í gærmorgun og fyrrinótt. Klukkan 9 í gærmorgun var frostið víða 12-16 stig við strendur landsins og enn meira í innsveitum, til dæmis 18 stig á Grímsstöðum á Fjöllum og Egilsstöðum og 24 stig á Hveravöllum. Í Reykjavík var 13 stiga frost í gærmorgun. Svalt var alla vikuna en hitaveitustjóri segir að álag á kerfi Hitaveitu Reykjavíkur hafi ekki verið jafn mikið og við hefði mátt búast. Markús Á. Einarsson veðurfræðingur sagði í gærmorgun að dagurinn væri einn kaldasti ef ekki kaldasti dagur vetrarins. Gunnar Kristinsson hitaveitustjóri sagði að álag á kerfi Hitaveitunnar væri full lítið miðað við hitastig og hefði verið svo alla vikuna. Taldi hann að sólin væri farin að hafa sín áhrif og lítill vindur. Sagði Gunnar að rekstur veitunnar hefði gengið vel þessa daga, engin vandræði hefðu skapast. Hins vegar hefði hann orðið fyrir smávonbrigðum í gærmorgun með hvað lítið seldist af vatni, hann hefði átt von á meira álagi í þessu mikla frosti.

Aprílmánuður þótti sæmilega hagstæður og gróðurs varð vart. Mikið austanveður gerði á sumardaginn fyrsta [23.].

Morgunblaðið segir af framhlaupi 2.apríl:

Köldukvíslarjökull, sem rennur vestur úr Vatnajökli milli Hamarsins og Bárðarbungu, hleypur nú fram og að sögn Helga Björnssonar, jöklafræðings hjá Raunvísindastofnun Háskólans, hljóp jökullinn síðast fram fyrir tíu árum síðan.

Morgunblaðið segir af óhappi á sjó í pistli 8.apríl:

Ísafirði. Líklegt er að skelís hafi skorið byrðing línubátsins Magnúsar ÍS og valdið því að hann sökk í Ísafjarðardjúpi í gær [7.], að sögn Guðmanns Guðmundssonar, skipstjóra bátsins sem var einn á og var bjargað úr gúmmíbjörgunarbáti um borð í björgunarbát Slysavarnafélagsins, Daníel Sigmundsson. ... Guðmann sagði í samtali við Morgunblaðið að hann hefði farið snemma um morguninn út til að leggja línuna og síðan aftur út eftir hádegi til að draga. Í bæði skiptin varð hann var við þunna ísslæðu á sjónum í höfninni án þess að hann teldi að nokkur ástæða væri til að hafa áhyggjur af því. Hann var kominn langleiðina að línunni, sem hann hafði lagt um tvær mílur suðvestur af Bjarnarnúpi þegar hann varð var við að sjór var kominn í lestina og báturinn orðinn þungur.

Sinueldur hafði óvenjulegar afleiðingar, Morgunblaðið segir frá 14.apríl:

Heitavatnslögn til Akraness sprakk á 70-80 metra kafla á Lambhaganesi vegna sinuelda síðdegis í gær [13.] með þeim afleiðingum að heitavatnslaust var á Akranesi í nótt. Viðgerð tók lengri tíma en áætlað var vegna erfiðra aðstæðna, en lögnin liggur langt frá þjóðveginum á mýrasvæði þar sem erfitt er að koma við vinnutækjum. Í fyrstu var talið að lögnin hefði sprungið á 40 metra kafla en síðar kom í ljós að hún var sprungin á 70-80 metra kafla. Verkstjóri hitaveitunnar á Akranesi taldi í gærkvöldi ekki útséð með að viðgerð tækist í nótt, einkum vegna erfiðra aðstæðna. Lögnin er úr asbesti og var hún klædd með mold og torfi þegar hún var lögð. Moldin hefur með tíð og tíma orðið að mó og mjög erfiðlega gengur að slökkva glóðina í honum. Jafnvel var búist við að eldur kæmi upp aftur í þurrum jarðveginum, að sögn starfsmanns slökkviliðsins á Akranesi. Lögreglan á Akranesi telur ástæðu til að brýna það fyrir fólki að kveikja ekki sinuelda. Jörð er víða mjög þurr og þarf ekki mikið að bera út af til að stórtjón hljótist af leik með eld.

Morgunblaðið segir af grjóthruni 22.apríl:

Vestmannaeyjum. Stórt bjarg hrundi úr Klifinu í Eyjum aðfaranótt annars í páskum [20.]. Bjargið hefur þeyst niður hlíðar Klifsins og stöðvast á fiskikörum við hús Fiskmarkaðs Vestmannaeyja. Bjargið, sem vegur hundruð kílóa, klofnaði úr bergvegg austantil í Klifinu. Í grasbrekkunni fyrir neðan má sjá merki þess að það hefur henst í loftköstum niður hlíðina. Fór bjargið gegnum varnargarð sem settur hefur verið upp við veginn inn á Eiði, sem liggur undir fjallshlíðinni, yfir veginn og endaði ferð þess á hrúgu fiskkara sem stóðu utan við hús Fiskmarkaðar Vestmannaeyja og braut nokkur þeirra. Grímur

Slide4

Þann 22. til 25. voru mjög djúpar lægðir á ferð fyrir sunnan land. Mikill austanstrengur samfara einni þeirra fór norður yfir landið á sumaraginn fyrsta [23.] og olli hann nokkru tjóni, sérstaklega hvasst varð undir Eyjafjöllum. Kortið sýnir stöðuna síðdegis. Morgunblaðið segir frá 25.apríl:

Nokkur grenitré framan við prestssetrið á Þingvöllum brotnuðu í austanrokinu sem gekk yfir landið aðfaranótt föstudags [24.]. Þá slitnaði raflína heim að bænum Mjóanesi í sömu sveit og kviknaði við það eldur í mosa og lynggróðri á um fjórum hekturum. 

Ofsarok hefur verið á landinu, einkum sunnan- og austanverðu, síðustu tvo sólarhringa og urðu nokkur spjöll af völdum veðurofsans á Suðurlandi. Ófært var vegna sandroks frá Eyjafjöllum allt austur að Djúpavogi og sömuleiðis um Óseyrarbrú. Þak sviptist af fjósi á bænum Garði í Mýrdalshreppi og bílar á leið yfir Skógasand og Sólheimasand skemmdust í sandfoki. Undir Hafnarfjalli fauk bíll í fyrrakvöld og annar fauk í gær. Engin slys urðu. Allt flug innanlands lá niðri í gær. Víða var ofsaveður við suðurströndina með tilheyrandi sandroki. Að sögn vegaeftirlitsmanna var meira eða minna ófært frá Skógasandi austur að Djúpavogi. Vitlaust veður var á söndunum sunnanlands og í Öræfasveit. Beðið var átekta með fyrirhugaðan mokstur á Oddsskarði og á heiðunum í kringum ísafjörð, en þar var víðast ófært vegna snjóa. Ágæt færð var yfirleitt á Norður- og Norðausturlandi.

Skemmdir urðu á nokkrum bæjum Mýrdalshreppi. Þak fauk af súrheysgryfju og mjólkurhúsi á bænum Görðum. Gróðurhús á bænum fauk einnig. Skjólgrindverk fuku í Vík í Mýrdal en að öðru leyti varð ekki mikið tjón þar. Mikið sandrok var við Óseyrarbrúna og urðu töluverðar skemmdir á nokkrum bílum sem fóru um brúna. Ökumönnum á leið til Reykjavíkur var ráðlagt að taka á sig hálftíma krók fram hjá Skálholti og Grímsnesi.

Milljónatjón varð á bænum Berjanesi undir Eyjafjöllum í ofsaveðri að kvöldi sumardagsins fyrsta. Þak fauk þar af fjósi og skall þekjan til jarðar innan við metra frá þeim stað í íbúðarhúsinu þar sem húsfreyjan var með tvö ung börn. Hvorki menn né skepnur sakaði. Þá hrundi gafl úr hlöðnum steini á fjósinu, auk þess sem skemmdir urðu á þaki fjárhúss. „Ég var að horfa á Laxness-þáttinn í sjónvarpinu þegar ég heyrði sprengingu og það dimmdi inni stofunni þegar þakið kom af fjósinu í heilu lagi fram hjá glugganum, og sprakk ofan í túnið,“ sagði Jonna Elísdóttir húsfreyja á Berjanesi en hún var ein heima á bænum með tvö börn, 3 og 4 ára. Bóndinn í Berjanesi, Vigfús Andrésson, var norður í Eyjafirði en barðist suður í versta veðri þegar hann frétti af tjóninu og var kominn heim síðdegis í gær. Hann segir Eyfellinga ekki muna eftir jafnvondu veðri á þessum árstíma. „Ég hringdi strax í Drangshlíð og bóndinn þar kom ásamt öðrum bónda og syni sínum í bíl, sem þeir voru búnir að þyngja niður með áburðarpokum. Þeir komust við illan leik til mín en við komumst ekki út úr húsi aftur fyrr en eftir miðnætti," sagði Jonna. Hún sagði að börnin hefðu eðlilega verið mjög hrædd, ekki síst þar sem þau hefðu óttast um kýrnar sex í fjósinu. Þeim var komið í hlöðu. Vigfús Andrésson sagði ljóst að um milljóna tjón væri að ræða. Önnur þekjan öll og þriðjungur af hinni hefðu fokið af rúmlega 300 fermetra fjósinu og gaflinn að framan hrunið. Það sem eftir stæði af húsinu léki á reiðiskjálfi og gæti gefið sig hvenær sem er ef önnur gusa kæmi. Þakið á fjárhúsi bæjarins gekk til og slútir fram yfir hallandi gaflinn. Í fjósinu voru 28 básar og lausaganga í 14 bása stæðu.

Morgunblaðið segir enn af sinueldum 28.apríl:

Töluverðir sinueldar voru tveimur stöðum á höfuðborgarsvæðinu seint í gærkvöldi [27.].  Slökkviliðið sendi tvo bíla til að berjast við sinuelda í Fossvogsdal og einn fór vegna sinueldsútkalls í Elliðaárdal. Samkvæmt upplýsingum frá slökkviliðinu var sinueldurinn í Fossvogsdal laus innst í dalnum, rétt hjá Gróðrarstöðinni Mörk. Stöðin var þó ekki í hættu. Í Elliðaárdalnum voru íbúar í nágrenninu byrjaðir að ráða niðurlögum hans er slökkviliðið mætti á staðinn. Greiðlega gekk að ráða niðurlögum eldanna á báðum stöðum. 

Og daginn eftir er enn sagt frá sinueldi. Morgunblaðið 29.apríl:

Kveikt var í sinu á skógræktarsvæði Rafmagnsveitu Reykjavíkur í hólmanum við Elliðaár í gærkvöldi. Er það í þriðja sinn á tveimur dögum sem kveik er í sinu á þessum slóðum. Rúma klukkustund tók að slökkva eldinn en þegar því var lokið var slökkviliðið kallað að Varmá í Mosfellssveit, þar sem einnig hafði verið kveikt í sinu. Lögreglan skorar á foreldra að hvetja börn sín til þess að kveikja ekki í sinu því það kann að valda alvarlegum og óbætanlegum skemmdum á gróðri, svo sem viðkvæmum trjágróðri.

Tíð þótti hagstæð í maí, þó var kalt framan af mánuðinum, en síðan hlýnaði að mun og greri vel. 

Þann 4. fór lægð til norðurs fyrir vestan land. Veðráttan segir frá því að tjón hefði orðið í Hveragerði af völdum hvassviðris, en einnig varð óhapp á Keflavíkurflugvelli. Morgunblaðið segir af því í pistli 5.maí:

Aldís, ein Boeing 737 flugvéla Flugleiða, skemmdist á Keflavíkurflugvelli í gærkvöldi þegar snörp vindhviða snéri vélinni sem var tengd við einn af landgöngurönum flugstöðvarbyggingarinnar. Að sögn Einars Sigurðssonar blaðafulltrúa Flugleiða kom dæld á annað vængbarð Aldísar þegar það lenti á rananum. Skemmdirnar væru ekki miklar en nægar til þess að vélin er óflughæf og hófst viðgerð þegar í gærkvöldi. Þá skemmdist raninn eitthvað.

Þegar lægðin var komin yfir kom kalt loft úr vestri yfir landið og víða vestanlands gerði él og hvíta jörð um stund. Garðyrkjumenn kvörtuðu undan dimmviðri. Morgunblaðið 8.maí:

Framleiðsla grænmetis í gróðurhúsum hefur verið í minna lagi í vor vegna dimmviðris.

Það bar til tíðinda þann 26. að hiti mældist 25,8 stig á Vopnafirði. Það er hæsti hiti sem mælst hefur í maí hér á landi. Mjög hlýtt loft barst frá Bretlandseyjum og meginlandi Evrópu. Mikil hæð var yfir Skandinavíu. Hiti mældist 25,0 stig á Raufarhöfn og 24,0 á Garði í Kelduhverfi. 

Júní var allgóður framan af, en þann 19. gerði óvenjulegt hvassviðri af vestri og næstu daga snerist vindur til óvenjukaldrar norðanáttar. Er þetta hret eftirminnilegasti atburður ársins í huga ritstjóra hungurdiska. 

Slide5

Þann 18. og 19. gerði óvenjulegt vestanhvassviðri á landinu. Það var harðast norðanlands. Gríðarlegur vestanstrengur lá yfir landið í háloftunum, einn sá allra öflugasti á þessum tíma árs. Tjón varð helst í Eyjafirði. Morgunblaðið segir frá 19.júní, en einnig er minnst á sama veður í sumaryfirliti úr Svarfaðardal (sjá september):

Ytri-Tjörnum, Eyjafjarðarsveit. Mikið suðvestan hvassviðri gekk yfir í Eyjafirði í gær og olli tjóni á heyi og ýmsum gróðri. Mikinn moldarmökk lagði yfir sveitina úr nýjum sáðsléttum og kartöflugörðum. Nýlega slegið gras þornaði mjög hratt og tók að flettast af túnum og fjúka á nærliggjandi girðingar og í skurði. Fengu menn ekki við neitt ráðið. Kálplöntur og kartöflugrös hafa lemstrast og verða lengi að ná sér. Benjamín

Morgunblaðið segir af moldroki 20.júní:

Hvassviðri það sem geisaði á mestöllu landinu í gær og fyrradag olli ekki teljandi skaða, samkvæmt upplýsingum frá Almannavörnum. Veðurstofan gerir ráð fyrir að veðrið verði gengið niður í dag, en mikið moldrok hefur verið í þurrkunum fyrir norðan og austan. Næstu sólarhringa er gert ráð fyrir norðlægari átt og svalara veðri, en bjartara fyrir sunnan.

Slide6

Vestanstrengurinn gekk austur til Noregs, en í kjölfarið kom mjög köld lægð yfir Grænland. Kortið sýnir stöðuna um hádegi þann 22. Lægðin fór síðan austur rétt fyrir norðan land og henni fylgdi mikill kuldi. 

Slide7

Kuldinn var í hámarki 23. og 24. júní. Þá snjóaði víða á Norðurlandi og allt niður í ýmsar efri byggðir um landið sunnan- og vestanvert. Alhvítt varð um stund við Elliðavatn ofan Reykjavíkur. Kortið sýnir þessa óvenjulegu stöðu að morgni Jónsmessunnar, 24.júní. Miklir fjárskaðar urðu í veðrinu og greina blöð frá þeim næstu daga og vikur. Morgunblaðið segir fyrst af snjónum í pistli 24.júní:

Gestum á tjaldstæðinu á Akureyri hefur eflaust ekki litist á blikuna í gærdag [23.], en snjókoma var í bænum seinnipart dagsins. Um 50 gestir voru á tjaldstæðinu í gærmorgun, en flestir sem í annað hús áttu að venda yfirgáfu svæðið og héldu annað.

Morgunblaðið segir af ófærð, ísingu og öðrum vandræðum 25.júní:

Ófært var framan af degi í gær [24.] á fjallvegum á Norðurlandi og Vestfjörðum vegna snjókomu. Síðdegis í gær voru Lágheiði og Öxarfjarðarheiði ennþá ófærar, svo og Þorskafjarðarheiði. Í Skagafirði slitnuðu rafmagnslínur vegna ísingar og varð rafmagnslaust á fimm bæjum. Annað eins kuldakast hefur ekki komið í júnímánuði síðan 1959. Á heiðunum norðanlands voru allt að mannhæðarháir skaflar í gærmorgun. Bændur í Ólafsfirði óttuðust um fé sitt á Lágheiðinni og bændur úr Höfðahverfi leituðu að kindum sínum í gær. Erlendir ferðamenn lentu sums staðar í vandræðum vegna veðursins. Í Mývatnssveit treysti hópur fólks sér ekki til að sofa í tjöldum sínum og leitaði húsaskjóls. Veðrið hér á landi er einsdæmi á þessum árstíma og þarf að leita allt aftur til 1959 til þess að finna sambærileg dæmi um hret í júní. Þessa dagana er kaldara á Norðurlandi en á Svalbarða norður í Barentshafi og hafa loftstraumar á norðurhveli jarðar hagað sér afar einkennilega í vor. Líffræðingar óttast að fuglsungar muni margir hverjir ekki lifa kuldakastið af og er gráandar- og kríuungum meðal annars talið hætt.

Raflínur slitnuðu vegna ísingar við þrjá bæi í austanverðum Skagafirði í fyrrinótt, Jónsmessunótt. Vegna þess varð rafmagnslaust á fimm bæjum en viðgerðum var að fullu lokið fyrir hádegi í gær. Að sögn Hauks Ásgeirssonar umdæmisstjóra RARIK á Norðurlandi vestra slitnuðu línur milli staura undan 7 sentímetra þykkri ísingu við þrjá bæi; Neðri Ás og Efri Ás í Hjaltadal og utan við Sleitustaði í Hólahreppi. Línurnar gáfu sig um klukkan fimm á Jónsmessunótt en viðgerðum var að mestu lokið klukkan níu í gærmorgun og að fullu lokið fyrir hádegi.

Morgunblaðið segir frekar frá 26.júní:

„Vafalaust er mikið af fénu dautt og ástandið verður hörmulegt ef gerir annað áhlaup,“ sagði Númi Jónsson bóndi á Reykjarhóli í Fljótum, en hann ásamt þremur sonum sínum hefur síðustu þrjá sólarhringa meira og minna verið að leita að fé sínu á Lágheiði. Þar er mikill snjór og erfiðlega hefur gengið að ná fénu niður af heiðinni af þeim sökum. Bændur og  björgunarsveitarmenn í Grýtubakkahreppi hafa einnig verið að smala fé í Fjörðum. Númi hefur fundið tvö dauð lömb og í Fjörðum hafa 8 fullorðnar ær fundist króknaðar úr kulda. Síðustu þrjá sólarhringa hafa og sagði Númi að um erfitt verk Númi og synir hans, Jón, Einar og Rúnar Þór farið margar ferðir á Lágheiði í leit að fé sínu og sagði Númi að þeir hefðu heimt mikið af því, en hann vissi að fjöldi kinda væri enn eftir á heiðinni. Kindurnar væru í  sjálfheldu, þær væru fastar í giljum og kæmust hvergi. Troða þarf fyrir þær slóð væri að ræða. Fyrirhugað var að fara á snjósleða um heiðina í gær, en þar sem snjórinn var blautur var þungfært fyrir sleðann og fóru Númi og synir hans því um á skíðum. Í nótt sem leið ætluðu þeir feðgar að freista þess að komast yfir stærra svæði á snjósleðanum, en þá var búist við að frysti. „Ég er búinn að fínna tvö dauð lömb, en vafalaust er mikið af fénu sem er í hengjunum dautt. Þetta verður alveg hörmung ef gerir annað eins áhlaup," sagði Númi.

Endanlega kemur ekki í ljós fyrr en í haust hversu mikið af fénu hefur drepist í þessu veðri, að sögn Núma. Hann fann við leit í gær þrjá hrúta sína, sem eru um 30 þúsund króna virði hver og kvað hann það vissulega ánægjulegt. Um 15 manna hópur bænda og björgunarsveitamanna úr Ægi á Grenivík fór að huga að fé í Fjörðum aðfaranótt fimmtudags og einnig var farið í gærkvöld til að smala saman fé af þessum slóðum. Jónas Baldursson bóndi á Grýtubakka sagði að um 1.500 fullorðnar ær hefðu verið reknar í Fjörður í byrjun sumars. Í fyrri ferðinni hefði fé verið rekið af snjóþungum slóðum niður á auð svæði. Flogið var yfir svæðið í gærdag og sást þá fjöldi kinda á jarðlausu inn í dölum. Vitjað var um féð í gærkvöldi og átti að smala því niður á meira flatlendi þar sem snjóléttara er. Búið var að fínna 8 dauðar kindur, allar fullorðnar, síðdegis í gær og sagði Jónas að ljóst væri að töluvert af fénu sem rekið hefði verið á afréttinn myndi drepast í þessu Jónsmessuhreti.

Morgunblaðið segir enn af fjársköðum í þessu hreti í pistli 16.júlí:

Tugir kinda hafa farist í Sauðadal í Húnavatnssýslu í Jónsmessuhretinu. Erlendur Eysteinsson bóndi og oddviti á Stóru-Giljá og Stefán A. Jónsson hreppstjóri á Kagaðarhóli fundu í gær 18 dauðar ær og 13 dauð lömb í dalnum er þeir könnuðu hluta hans. Flestar kindurnar eru frá Stóru-Giljá og telur Erlendur að margir tugir fjár hafi farist í hretinu. Erlendur sagði að á Jónsmessunni hefði töluvert af fé frá Stóru-Giljá verið komið fram á Sauðadal sem er á milli Vatnsdals og Svínadals. Eftir hretið hefði ekki verið hægt að átta sig á ástandinu þar sem snjór hafi verið yfir öllu. Í gær frétti Erlendur af því að dauðar kindur hefðu komið undan snjónum og kannaði hluta dalsins. „Því er ekki að neita að beygur var í mér að fara af stað, en við sauðfjárbændur þurfum að geta horfst í augu við þetta,“ sagði Erlendur í  gærkvöldi. Kindahræin eru mest í gilskorningum niður undir ánni. Sagði Erlendur að féð hefði slegið sér niður í lægðirnar þegar byrjaði að snjóa og orðið þar til. Aðkoman hefði verið ljót. Ljóst er að tjón bænda er að minnsta kosti nokkur hundruð þúsunda króna. 

Og enn eru fregnir af fjársköðum í Morgunblaðinu 22.júlí:

Tuttugu og átta hræ af ám og lömbum hafa fundist í Skálahnjúksdal nálægt mörkum Skagafjarðarsýslu og Austur-Húnavatnssýslu. Leifur Þórarinsson, bóndi í Keldudal í Skagafirði, segir að kindurnar hafi greinilega kafnað undir snjó í hretinu sem gerði á Norðurlandi á Jónsmessu. Leifur segist nýlega hafa fundið 23 hræ í Skálahnjúksdal sjálfur og í gær hafi hann, svo fengið fregnir af 5 hræjum þar í viðbót. Allt útlit sé fyrir að kindurnar hafi leitað skjóls í giljum þegar hretið gekk yfir, en gilin þarna liggi þvert á vindátt, þannig að þær hafi fljótt lokast af. Án efa eigi mun fleiri hræ eftir að finnast, enda hafi hretið riðið yfir þegar komið var langt fram á sumar og fé komið hátt til fjalla. Leifur segist sjálfur eiga flestar kindurnar sem þarna hafi fundist. Erfitt sé að meta heildartjónið, bæði vegna þess að fleiri hræ geti komið í leitirnar og einnig vegna þess að margar kindurnar hafi farið illa í hretinu þó þær hafi lifað það af.

Tíð var lengst af tíðindalítil í júlí, helst kvartað undan vætu fyrir norðan. Morgunblaðið ræðir heyskaparhorfur í pistli 24.júlí:

Eftir afburða gott heyskaparár í fyrra eru líkur á að heyskapur í ár verði vel í meðallagi. Að sögn Ólafs Dýrmundssonar landnýtingarráðunauts gengur heyskapurinn almennt að vonum en nokkuð er um staðbundin vandamál. Í Eyjafirði er heyskapurinn lengst kominn og lítur út fyrir að Eyfirðingar ljúki fyrstir slætti. Viðmælendur Morgunblaðsins voru almennt ánægðir og þokkalega bjartsýnir með framhaldið. Það er einkennandi fyrir allt landið að sláttur er mjög mislangt á veg kominn. Á Vesturlandi fengust þær fréttir að heyskapur gengi vel. Guðmundur Sigurðsson ráðunautur í Borgarnesi taldi sprettu vera í meðallagi en kvað kuldakast hafa tafið fyrir eðlilegri sprettu. Brynjólfur Sæmundsson í Hólmavík staðfesti að sláttur væri mislangt kominn. Hann benti á það að veturinn hafi verið mildur og tún hefðu komið óskemmd af vetri. Þetta kom reyndar fram í máli allra þeirra sem Morgunblaðið ræddi við.

Egill Bjarnason ráðunautur á Sauðárkróki kvartaði helst yfir því að þurrka vantaði. Þar eins og annars staðar hefði júníhretið skapað vandamál. Hann taldi að þeim vegnaði best sem notað hafa rúllubagga. Í Eyjafirði er sláttur langt kominn og bændur jafnvel farnir að huga að seinni slætti. Jón Hlynur Sigurðsson ráðunautur á Akureyri staðfesti þetta í samtali við Morgunblaðið og áleit heyforða kappnógan. Á Egilsstöðum varð Þórarinn Lárusson fyrir svörum. Hann sagði að ágætis þurrkar hefðu verið allt fram að síðustu helgi. Ennfremur áleit hann sprettu yfirleitt góða og nefndi sérstaklega að gæði væru að sama skapi mikil. Aðspurður kvað hann vinnu vera lagða í sölu á heyi og taldi hann ágætar líkur á að hey verði selt úr landi. Helst væri um sölu til Noregs eða Svíþjóðar að ræða. Sunnlendingar eru komnir vel á veg að mati Sveins Sigurmundssonar. Hann sagði að júní hefði verið lítill sprettumánuður og af þeim sökum biðu enn margir eftir sprettunni. Að öðru leyti segir Sveinn slátt ganga vel í sínu héraði. 

Dagana 18. til 21. fór alldjúp lægð til norðausturs og norðurs fyrir austan land. Þá rigndi mikið eystra og sumstaðar í útsveitum á Norðurlandi. Ekki er þó getið um annað tjón en það sem Morgunblaðið greinir frá í pistli 24.júlí:

Bakkafirði. Mikil úrkoma mældist á Bakkafirði dagana 18.-21. júlí, eða 131,1 mm. Frá kl. 9 á sunnudagsmorgni til sama tíma á mánudag mældust 71,8 mm, sem er mesta úrkoma sem mælst hefur á Þorvaldsstöðum síðan mælingar hófust árið 1951, að sögn Þórarins Haraldssonar. Í vatnsveðrinu flæddi vatn í kjallara Grunnskóla Bakkafjarðar og mældist vatnshæðin, að sögn Hauks Geirfinns Þóroddssonar, allt að 45 sm í öllum kjallaranum. Skemmdir urðu nokkrar, en ekki er búið að kanna þær til fullnustu. Í lokin má geta þess að duttlungar veðurguðanna eru óskiljanlegir og í stað þess að gera nú gott úr öllu saman fór hitastigið aðfaranótt fimmtudags niður í 0,6° á Celsius. - Áki.

Tíð þótti fremur stirð í ágúst, skást norðaustanlands framan af mánuðinum. Allmikið kuldakast gerði í lok mánaðar. 

Morgunblaðið segir 27.ágúst frá skjálftavirkni í Mýrdalsjökli:

Skjálftavirkni hefur verið á svæðinu undir Mýrdalsjökli í grennd við Kötlu frá því snemma í vor. Í gærmorgun mældist nokkuð snarpur jarðskjálfti á þessu svæði, eða 2,8 á Richter. Forráðamenn Almannavarna eru nú að yfirfara búnað sinn og Guðjón Petersen, framkvæmdastjóri Almannavarna ríkisins, segir að endurskoðuð neyðaráætlun vegna Kötlugoss verði send austur í dag. Guðjón Petersen segir að undir eðlilegum kringumstæðum hefjist skjálftavirknin við Kötlu ekki fyrr en síðla sumars og standi fram undir áramót. Tengja menn það því að þá minnki jökullinn og létti þannig fargi sínu af svæðinu. Í ár hófst skjálftavirknin hins vegar í apríl/maí og hefur heldur færst í aukana. Fyrir utan skjálftann í gærmorgun hefur annar sem var tæplega 3 stig á Richter mælst nýlega. „Sökum þessa erum við að yfirfara búnað okkar til að vera við öllu búnir,“ segir Guðjón.

Síðustu viku mánaðarins var eindregin norðaustanátt, allhvöss suma dagana. Kalt var í veðri og alhvítt tvo morgna í Möðrudal. Sumir hálendisvegir tepptust. Morgunblaðið segir frá 29.ágúst:

Tveir þýskumælandi ferðamenn sem tepptust í hríð á Trékyllisheiði fundust heilir á húfi í gær en farið var að óttast um þá í fyrradag. Mennirnir höfðu lagt upp frá hótelinu á Djúpuvík seint á miðvikudag og ætlað yfir til Steingrímsfjarðar. Hótelstjórinn á Djúpuvík fór að grennslast fyrir um mennina á fimmtudagsmorgun enda var þá ljóst að hríðarbylur hafði verið á heiðinni um nóttina og var enn.

Morgunblaðið segir af færð 1.september:

Samkvæmt upplýsingum frá Vegaeftirlitinu er ástand flestra vega mjög gott. Aðeins örfáar leiðir eru enn lokaðar eftir kuldakast síðustu vikna. Þeir vegir sem enn eru lokaðir eru Gæsavatnaleið og vegurinn inn að Dyngjufjöllum. Þessar leiðir eru alveg ófærar en nú er
Sprengisandsleið aftur opin. Vegaeftirlitið ráðleggur þó aðeins vel búnum fjallabílum eða rútum að leggja á þá leið. Að mati eftirlitsins er því enn varhugavert að fara á fólksbílum en vesturleiðin er aftur á móti öll að koma til og gæti opnast öllum bifreiðum fyrr en síðar. Kjalvegur er vel fær og hið sama má segja um Fjallabaksleiðirnar báðar. Fjallvegir á Vestfjörðum eru og allir færir fólksbílum en þar er hvergi hálku að fínna samkvæmt upplýsingum Vegaeftirlitsins. 

Fyrri hluti september var kaldur, en sá síðari hagstæðari. Veður var lengst af vandræðalaust. 

Morgunblaðið segir af hafvillum á Faxaflóa í pistli 22.september:

Um tveir tugir smábáta lentu í hafvillum og vandræðum á Faxaflóa í gærkvöldi vegna þoku og dimmviðris. Tveir strönduðu en náðust á flot aftur. Nokkrir bátar voru úti í gærkvöldi að beiðni Tilkynningaskyldunnar til að miða bátana út og lóðsa til hafnar. Komu björgunarskipin til hafnar með nokkra báta hvert. Tvær flugvélar á leið til Keflavíkur urðu frá að hverfa vegna dimmviðris. Svarta þoka og dimmviðri var á innanverðum Faxaflóa í gærkvöldi. Á áttunda tímanum byrjuðu smábátaeigendur að leita aðstoðar Tilkynningaskyldunnar. Voru þeir  misjafnlega illa staddir. Sumir voru í algerri hafvillu, vissu ekkert hvar þeir voru staddir eða hvert þeir ættu að stefna. Tilkynningaskyldan bað trillukarlana að halda kyrru fyrir þangað til hjálp bærist og fékk björgunarbát Slysavarnafélags Íslands, Henry A. Hálfdanarson, til að fara til aðstoðar, einnig Aðalbjörgu RE og nokkra smærri báta. Miðuðu þeir bátana út og létu þá fylgja sér. Aðalbjörg kom til að mynda með heilmikla strollu á eftir sér til hafnar seint í gærkvöldi. 

Norðurslóð tekur saman tíðarfar sumarsins í pistli 23.september (talsvert stytt hér):

Það er hætt við að sumarið 1992 fái heldur slakleg eftirmæli víðast hvar á Íslandi. mjög slæm á Suður- og Vesturlandi og tæplega í meðallagi hér um slóðir. Framan af júnímánuði var blíðskapartíð og komst hiti í 20 stig í kringum 10. Þá tók að kólna og blotna og gerði að lokum margra daga hvassviðri í kringum þann 20. Svo magnaður var stormurinn, að hann sleit blöð af greinum trjáa, einkum stóru langleggjuðu lautblöðin af öspinni, og það í þeim mæli að hún „bar ekki sitt barr" í allt sumar. Það versta var þó eftir. Þann 22. gerði norðanhrakviðri með regni og síðan snjókomu og jók í úrkomuna þann 23. Að morgni þess 24. vöknuðu menn við að jörð var alhvít niður að á og út að sjó. Var kynlegt að sjá algræn lauftré og lerki standa upp úr hvítum snjónum. Minnti þessi sýn menn á 17. júní hretið 1959. Áð þessu sinni urðu þó ekki fjárskaðar hér í Svarfaðardal.

Júlí var í heild þurr mánuður að þessu sinni, alls 12,6 mm. þótt alþurrir dagar væru ekki nema 10 samkvæmt úrkomumælingum á Tjörn. Heyskapur hafði víðast hafist fyrir mánaðarmótin og gekk hann vel frameftir öllum júlí. enda sökktu þá margir upp í stóru ausunni og heyjuðu grimmt. Vikuna 11.-18. júlí var samfelldur þurrkur. Í mánaðarlokin höfðu margir lokið fyrri slætti og áttu mikil og góð hey. Síðan bættu margir um betur og heyjuðu hána í rúllur. Aðrir urðu of seinir til og lentu með hluta heyskaparins í óþurrkum ágústmánaðar, svo dæmi eru þess að há sé enn að velkjast á blautum túnum. Ágústmánuður var sem sé bæði svalur og blautur og ákaflega sólarlítill, einkum seinniparturinn. Um 25. gránaði í fjöll og hefur þann gráma ekki tekið enn, heldur bæst á hann ofan snjó á snjó, eins og segir í vísunni. Heildarúrkoma var 69,6 mm, þar af fellu 38,6 mm. dagana 26.-27. sumt sem regn, annað sem krepja. September er nú hálfnaður og vel það, þegar þetta er ritað. Þessi fyrri helmingur hefur verið frámunalega leiðinlegur mestanparts, kalt og blautt, blautt og kalt. Þangað til í dag, 18. september. ...

Hér hefur verið dregin upp fremur dapurleg mynd af sumrinu. En ekki má samt kveina eða kvarta. Margt gott er um árferðið að segja. Þrátt fyrir allt var gróður jarðar þroskamikill. Grasvöxtur var prýðilegur, ekki hömluðu maí-júní þurrkarnir. Héraf leiðir mikinn heyfeng bænda og hrossakónga. Berjaspretta varð feykimikil, ekki mikið minni en á metárinu 1991. Blóm lyngsins hafa ekki skemmst í júníhretinu, líklega komin yfir hættuskeiðið þá. Aftur á móti hefur svali og sólarleysi orðið þess valdandi. að þroski berjanna er seinn. Bót er í máli, að næturfrost voru engin í ágúst og jafnvel nú, 18. september, hefur enn ekki gert næturfrost 18.9.1992 - HEÞ

Vel fór með veður í október, og raunar langt fram eftir nóvember líka. Það var ekki fyrr en eftir 20. nóvember að dró til tíðinda. Þann 23. dýpkaði lægð skyndilega vestur af Bretlandseyjum og fór síðan til norðurs nærri Austurlandi. Önnur lægð kom síðan í kjölfarið, en var ekki jafn illskeytt. 

Slide8

Kortið sýnir stöðuna síðdegis þann 23. þá var lægðin skammt undan Suðausturlandi, um 943 hPa í miðju. Mikið norðaustanillviðri var þá á landinu. 

Morgunblaðið segir af snjóflóði í pistli 24.nóvember:

Bolungarvík. Tvö snjóflóð féllu á bifreið sem í voru fimm manns á leið um svokallaða Kinn í Breiðadalsheiði á sunnudag [22.]. Festist bifreiðin í því fyrra en það síðara tók bifreiðina með sér 50 til 60 metra niður snarbratta hlíðina. Þykir mikil mildi að ekki urðu slys á fólki, en veður var nokkuð skaplegt á þessum slóðum þegar þetta gerðist.

Morgunblaðið síðan ítarlegri fréttir af veðrinu þann 25.nóvember:

Hlíðarholti, Staðarsveit. Mikið hvassviðri gekk yfir sunnanvert Snæfellsnes á mánudag [23.] og aðfaranótt þriðjudags eins og annars staðar á landinu. Skólabíll sem ekur börnum frá Lýsuhólskóla fauk út af veginum vestan Bláfeldarár um tvöleytið á mánudag og lenti út í skurði. Svo vel vildi þó til að bílinn valt ekki og urðu ekki nein meiðsli á börnunum. Á bænum Fossi í Staðarsveit fauk þakjárn af hlöðu að mestu leyti. Á Ölkeldu II fór þak af hlöðu og einnig járn af íbúðarhúsi hjá Þórði Gíslasyni en þríbýli er á jörðinni. Í Hoftúnum fauk hlöðuþak og einnig urðu þar skemmdir á rúlluböggum sem voru í hléi við hlöðuna. Á eyðibýlinu Barðastöðum fauk gömul hlaða að hluta til af grunni. Allar þessar fokskemmdir urðu á mánudagskvöld og aðfaranótt þriðjudags. Veður gekk heldur niður í gær. Þ.B.

Tugir hjálparmanna komu starfsmönnum Rafmagnsveitu ríkisins á Norðurlandi vestra til aðstoðar vegna viðgerða á rafmagnslínum á svæðinu í gær [24.]. Þegar rætt var við Hauk Ásgeirsson, umdæmisstjóra, um kaffileytið í gær sagði hann að verkið gengi vel þrátt fyrir erfiðar aðstæður. Hann sagði að stefnt væri að því að því að rafmagn yrði komið á flesta bæi næstu 2-3 sólarhringa. Fundist höfðu 150-170 brotnir rafmagnsstaurar á svæðinu.

Haukur sagði að veðrið hefði verið verst frá því um kl.18:30 á mánudag [23.] til 4-5 í gærmorgun [24.]. „Þá fór að slota og við gátum farið að skoða línurnar. Við fengum hjálparsveitarmenn á vélsleðum til að fara um allar línur með okkur til að skoða og skrá niður hvar væri bilað. Síðan erum við komnir með mikið hjálparlið, vinnuflokka frá Ólafsvík, Borgarnesi, Akureyri og Hvolsvelli, á annað hundrað manns vinnur við þetta," sagði hann. Hann sagði að víða væri straumlaust væri á svæðinu. „Straumlaust er í Miðfirði og á Vatnsnesi. Og í Austur-Húnavatnssýslu er allt straumlaust nema Skagaströnd og Vatnsdalur. Í Skagafirði er viða mikið straumleysi. Mikið straumleysi er líka í Fljótum og Sléttuhlíð og alls staðar fyrir utan Hofsós. Á Siglufirði er skammtað rafmagn og sama er að segja um Hofsós."

Dagur segir einnig frá sama veðri 25.nóvember, athyglisverð lýsing á sérstöku veðri:

Illviðri gerði á Húsavík síðdegis á mánudag. Í hvassri vestanátt myndast vindstrengur niður með fjöllunum sem valdið getur skaða, sérstaklega í suðurbænum. Eru slík áhlaup nefnd Krubbsveður og geta verið mjög staðbundin. Að sögn lögreglu er mildi að enginn varð fyrir meiðslum í veðrinu á mánudaginn en nokkurt tjón varð á eignum, bílum og húsum. Allt tjón sem tilkynnt var um varð í syðsta hluta bæjarins. Kyrrstæður jeppi, um 1,6 tonn, fauk af veginum við fjárhúsin á Skógargerðismel. Jeppinn fór fjórar veltur og er jafnvel talinn ónýtur. Bíll fauk til á bílastæði, á annan bíl og skemmdust þeir. Vöruflutningabíll lenti þversum á veginum á Laxamýrarleiti. Stofugluggi splundraðist í húsi við Brúnagerði og bílskúrsdyr og bílskúrshurðir í húsum við Litlagerði. Gluggar brotnuðu einnig í húsum við Heiðargerði og Stórhól. Garðhýsi fauk og jeppakerrur voru á ferð við Þverholt. Fólk beið í röðum eftir aðstoð lögreglu og um tíma var einnig vakt hjá Björgunarsveitinni Garðari. IM

Miklar rafmagnstruflanir urðu á Húsavík frá kl. 16:40 til 21 á mánudag. Tjörneslína gaf sig um tíma og leggurinn frá henni til endurvarpsstöðvanna á Húsavíkurfjalli fór mjög illa. Endurvarpsstöðvar fyrir sjónvarp og útvarp urðu því rafmagnslausar. Póstur og sími er með rafgeyma á fjallinu fyrir sinn búnað, sem endast í sólarhring. Á þriðjudagsmorgun fóru starfsmenn Pósts og síma með rafstöð á fjallið og komust útvarpsendingar f samt lag kl.10:15, að sögn Eggerts Haraldssonar, stöðvarstjóra. Línan á fjallið er sliguð af ísingu og mun taka nokkurn tíma að koma henni í samt lag. Eftir miklar rafmagnstruflanir fyrir tæpum tveimur árum var ákveðið að Húsavíkurbær keypti varasendi til notkunar í neyðartilfellum. Aðspurður sagði Einar Njálsson, bæjarstjóri, að sendirinn hefði verið keyptur, væri kominn til bæjarins og framhaldsskólanemar væru nú að vinna að því að koma upp útvarpsstöð. „Þessi sendir var hugsaður til að geta komið tilkynningum til fólks ef eitthvað bæri útaf, en í framhaldi af því var reynt að hafa áhrif á að varaaflsstöð yrði komið upp við endurvarpsstöðvarnar á fjallinu," sagði Einar. Rafmagn fór einnig af endurvarpsstöðinni á Viðarfjalli. Þar er vararafstöð, sem komst þó ekki í gang fyrir farið var upp á fjallið um miðnætti. IM

Næstu daga birtust fleiri fregnir af vandræðum vegna þessa veðurs í Morgunblaðinu:

[26.] Rafmagnstruflanir hafa orðið vegna óveðurs á Vestur-, Norðaustur- og Austurlandi á mánudag og þriðjudag. Alvarlegustu bilanirnar hafa hins vegar verið á Suðurlandi, einkum undir Eyjafjöllum, og á Norðurlandi vestra að sögn Steinars Friðgeirssonar framkvæmdastjóra tæknisviðs Rafmagnsveitu ríkisins. Aðspurður um tjón telur Steinar það vera á bilinu 40-50 milljónir. Hann segir að aukið tjón vegna óveðurs megi að hluta til rekja til þess hversu veitukerfi í íslenskum sveitum sé orðið gamalt. Það þarfnist styrkingar og endurnýjunar. Vegna ísingar seig Vestfjarðalína það mikið í Þorskafirði og Gilsfirði að rafmagni sló út á flóði í gær. Undir Eyjafjöllum urðu sláarbrot, víraslit og 25-30 staurar brotnuðu með þeim afleiðingum að rafmagnstruflanir gerðu vart við sig um hádegisbil á mánudag. Rafmagn var hins vegar komið aftur á alla bæi um kl.4 aðfaranótt þriðjudags og voru þeir því sem lengst voru rafmagnslausir án rafmagns í um 14 tíma. Vitað er um mun fleiri brotna staura, eða 150-170, á Norðurlandi vestra og er ekki ólíklegt að sú tala hækki þegar skemmdir hafa verið fullkannaðar.

[28.] Borg í Miklaholtshreppi. Nú hefur veðrahaminn lægt sem stóð hér í rúma tvo sólarhringa. Ekki urðu umtalsverðir skaðar hér í sveit. Þó tók að mestu þak af hlöðu í Miklaholti. Nokkrar plötur fóru af hlöðu í Dal. Sumarbústaður í landi Syðra-Skógarness fauk og er gjörónýtur. Sumarbústað þennan byggði Ingólfur heitinn Kristjánsson rithöfundur. Æskuspor hans lágu þar sem bústaðurinn stóð, hið snotrasta hús. Hann naut alltof fárra unaðsstunda í þessum bústað því hann lést fáum árum eftir að hann byggði húsið. Nú kyngir hér niður snjó í logni. Það myndu stundum vera kallað „hundslappadrífa." Páll.

Súgandafirði. Það má segja að vetur konungur hafi lagt Súgandafjörð undir sig á einni nóttu í norðanhretinu sem gerði 23. nóvember s.l. fram að þeim tíma hafði verið mjög snjólétt í byggð og veður hið besta. Aðfaranótt þriðjudagsins 24. nóvember gerði mikið rok af norðri með tilheyrandi fannfergi. Í rokinu fuku járnplötur af þaki einbýlishúss auk þess sem veggklæðning hússins rifnaði af að hluta. Ekki urðu aðrar teljandi skemmdir í veðurhamnum þótt ýmislegt lauslegt hafi fokið af stað. Hins vegar snjóaði svo um nóttina að allt var komið í kaf daginn eftir og illfært orðið í bænum. Ekkert rafmagn hefur borist frá  Mjólkárvirkjun vegna bilana á línunni þangað og hefur því rafmagn verið framleitt með dísilrafstöð á staðnum. Þá hafa allar samgöngur legið niður bæði í lofti og láði. Það má því segja að veturinn hafi skollið yfir Súgandafjörð á einni nóttu bæði hvað varðar veðurfar og snjóalög. Sturla.

[29.] Miðhúsum. Hinn 23. nóvember lét bóndinn á Kletti í Geiradal, Þráinn Hjálmarsson, út ær sínar í þokkalegu veðri. Um hádegisbil gekk á ofsa norðan krapahríðarveður og fór þá Þráinn að sækja fé sitt. Ærnar voru þá mjög brynjaðar og kom hann þeim ekki á móti veðrinu, enda var þá veðrið svo mikið að bíll hans fauk út af veginum, en kom niður í snjóskafl þar rétt hjá án þess að skemmast. Þráinn varð að fara heim við svo búið. Stór hluti ánna komst í helli sem er niður við sjóinn, en tvær ær hefur hann fundið dauðar og sex er saknað til viðbótar. - Sveinn

DV segir frá tjóni í Mosfellssveit 30.nóvember, líklega varð það í sama veðri, en e.t.v. í því næsta á eftir. Það var af landsuðri og gekk yfir þann 29. nóvember. 

Þak fauk af hlöðu á bænum Helgafelli í Mosfellssveit í óveðrinu á dögunum. Haukur Níelsson, ábúandi á Helgafelli, segir að tekist hafi að bjarga mestu af því heyi sem var inni í hlöðunni en ekki tókst að hemja þakplöturnar og á endanum rifnaði þakið alveg af.

Morgunblaðið segir af tjóni í landsynningsveðrinu 29. í pistli 1.desember:

Töluvert tjón varð víða í borginni sökum vatnselgs í óveðrinu á sunnudag. Litlu munaði að illa færi í Laugardalshöll en þar flæddi vatn inn í kjallara undir anddyri hallarinnar. Er slökkviliðið kom á staðinn var 10 cm djúpt vatn í kjallaranum og mátti engu muna að vatnsborðið næði upp í rafmagnsleiðslur spennistöðvar sem þarna er. Tókst slökkviliðinu að varna því og dæla vatninu úr kjallaranum.

Tíð var erfið í desember, einkum á vestan- og norðanverðu landinu. Þann 4. og 5. var nokkuð snörp norðanátt sem olli óhappi á Snæfellsnesi. Morgunblaðið segir frá 6.desember:

Þrjátíu manna rúta fauk útaf þjóðveginum rétt fyrir ofan Búðarafleggjara á Snæfellsnesi um kl.8:30 á laugardagsmorgun [5.]. Ekki urðu slys á ökumanni og einum farþega í rútunni. Ökumaður bifreiðarinnar, sem er frá sérleyfis- og hópferðabílum Helga Péturssonar hf, var á leiðinni frá Ólafsvík til Reykjavíkur þegar roka feykti rútunni út af veginum rétt ofan við Búðarafleggjara og fór hún á hliðina. Einn farþegi var í rútunni ásamt ökumanninum en hvorugur þeirra slasaðist. Ökumanninum tókst að ná sambandi við bóndann á næsta bæ í gegnum farsíma eftir að slysið átti sér stað og kom hann fljótlega til hjálpar tvímenningunum. Ekki var farið að huga að skemmdum á rútunni um hádegisbil í gær enda vonskuveður á nesinu en ljóst var að allar rúður voru heilar í henni.

Þann 8. gerði enn skammvinnan landsynning. Morgunblaðið segir frá 9.desember:

„Bíllinn stöðvaðist nokkrar sekúndur á brún vegarins og við náðum að henda okkur út áður en við sáum eftir honum tuttugu, þrjátíu metra ofan skriðurnar. Maður var nú frekar strekktur á eftir og fer ábyggilega varlega á þessum slóðum á næstunni." Svona lýsir Víðir Björnsson á Hamri við Djúpavog atvikum gærdagsins [8.], en hann slapp naumlega ásamt félaga sínum þegar bíll þeirra rann í hálku og fauk út af veginum niður talsverðan bratta. „Við fundum í Rauðuskriðum, um sex kílómetrum sunnan Djúpavogs, hvernig bíllinn fór að renna aftur á bak niður brekku," segir Víðir. „Það var hálka og slagviðri og enginn kantur á veginum. Pallbíllinn sem við vorum á hefur verið of léttur, hann fauk niður snarbratta skriðu." „Við fórum niður að honum og sýndist hann ekki vera mikið skemmdur. En líklega hefði bíllinn oltið og gereyðilagst hefðum við verið í honum. Við sluppum þó heilir á húfi og þurftum ekki að bíða lengi eftir bíl sem við fengum far með.“

Morgunblaðið segir frá öðru óhappi í sama veðri í pistli 10.desember:

Flutningabíll fauk á hliðina á veginum undir Hafnarfjalli í sunnan hvassviðri sem gekk yfir landið fyrrihluta dags á þriðjudag [8.]. Hvorki ökumann né farþega sakaði. Bíllinn, sem var tómur, skemmdist nokkuð og var honum, að sögn lögreglu í Borgarnesi, lyft á réttan kjöl eftir hádegi þegar veður lægði. 

Um þessar mundir kom vöxtur í Jökulsá á Fjöllum. Morgunblaðið segir frá honum 12.desember:

Grímstungu. Hætta er talin á að Jökulsá á Fjöllum hlaupi yfir veginn, því farið er að hækka verulega í ánni vegna knapastíflu fyrir neðan brúna á þjóðvegi 1. Mikil snjókoma undanfarið og frost síðustu daga hafa orðið til þess, að mikill krapi hefur myndast á grynningum neðan við brúna, en áin hefur annars verið auð það sem af er vetri. Hækkað hefur töluvert í Jökulsá og hætta talin á að hún hlaupi yfir veginn. Áin hefði þegar rofið veginn, ef ekki hefði verið gerður varnargarður við brúna í haust. - Bragi

Slide9

Þann 14. hvessti mjög á landinu þegar snörp smálægð nálgaðist Norðurland úr norðri.  Mannskaðaveður brast á. Gríðarlegur vindstrengur var vestan við lægðarmiðjuna og olli hann bæði hvassviðri og óvenjumiklu brimi. Auk þess gerði hríð um allt norðan- og vestanvert landið. 

Morgunblaðið segir frá 15.desember:

Aftakaveður var víða um land yfir helgina, þó helst um Norðausturland. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu Íslands er búist við miklu hvassviðri um allt land fram eftir degi í dag og sums staðar er spáð aftakaveðri. Búist er við að dragi úr veðrinu í kvöld og á morgun. Slæmt veður var á Norðausturlandi á sunnudag. Á Siglufirði var mjög hvasst á  sunnudagsmorgun. Þar fauk bíll af bílastæði inn í garð eigandans. Þá fuku þakplötur af húsi í bænum. Í gær var fólk að grafa bíla sína upp úr snjónum. Á sunnudagskvöld gekk veðrið aðeins niður þó að enn hafi þar verið slæmt veður í gærdag.

Frá Ísafirði var svipaða sögu að segja. Þar var enn ófært milli Bolungarvíkur og Ísafjarðar í gær. Þá urðu um 200 manns veðurtepptir í Hnífsdal eftir dansleik í félagsheimilinu þar aðfaranótt sunnudags. Fólkið komst svo aftur til Ísafjarðar á sunnudagsmorgun, þegar búið var að ryðja Eyrarhlíð, sem liggur á milli Ísafjarðar og Hnífsdals. Helga RE fékk á sig brot Rækjutogarinn Nökkvi HU frá Blönduósi fylgdi Helgu RE til hafnar á Skagaströnd á sunnudag eftir að Helga fékk á sig brotsjá á miðunum. Trollið fór í skrúfuna og siglingatækin urðu óvirk. Skipverjum tókst að ná trollinu að mestu úr skrúfunni þannig að Helga gat siglt í land fyrir eigin vélarafli. Vegna þess hve veðrið var vont og siglingatækin óvirk fylgdi Nökkvi Helgu til hafnar og gekk ferðin hægt en áfallalaust. Ó.B.

Á Egilsstöðum var veðrið einnig mjög slæmt, en engin óhöpp urðu vegna þess. Þá var öllum samkomum á Sauðárkróki frestað um helgina. Þar hélt fólk sig einnig innandyra og engin óhöpp urðu vegna veðursins. Undir Hafnarfjalli í Borgarfirði voru um 11 bílar skildir eftir á laugardagskvöld, þar sem fólk komst ekki áfram. Lögreglan í Borgarnesi aðstoðaði fólkið við að komast leiðar sinnar.

Almannavarnarnefnd Siglufjarðar ákvað á fundi í gærkvöldi að rýma sex hús í bænum vegna snjóflóðahættu. Hús þessi eru annars vegar sunnarlega í bænum undir svokölluðu Strengsgili og hins vegar miðsvæðis í bænum undir Gimbraklettum. Að sögn Erlings Óskarssonar, formanns almannavarnanefndar, var einnig ákveðið að helstu leiðum innanbæjar yrði tjaldið opnum í alla nótt. Nefndin fundar aftur árdegis. Erlingur Óskarsson segir að fólk sem á heima í þessum húsum hafi fengið gistingu hjá ættmennum, vinum og kunningjum í bænum. Sumt þeirra hafði þegar ákveðið að rýma húsin áður en nefndin tók ákvörðun í málinu. „Norðvestan áttin er hættulegust hérna hvað snjóflóðahættu varðar og fólkið veit það,“ segir Erlingur.

Engin skip voru á miðunum fyrir norðan og vestan land í nótt og þau skip sem voru á Vestfjarðamiðum höfðu annaðhvort leitað vars í Ísafjarðarhöfn eða undir Grænuhlíð og í Dýrafríði. Sex togarar og flutningaskipið Búrfell lágu við stjóra undir Grænuhlíð. Jóhannes Þorvarðarson, skipstjóri á rækjutogaranum Margréti EA, sem verið hafði undir Grænuhlíð í tvo sólarhringa í gærkvöldi, segir að togarar hafi leitað vars á þessum slóðum frá ómunatíð og raunar hefði staður þessi hlotið viðumefnið „Hótel Grænahlíð" af þeim sökum. „En það er lítil þjónusta á þessu hóteli," segir Jóhannes. Í gærdag voru 14 skip í vari undir Grænuhlið en helmingur þeirra sigldi inn til Ísafjarðar.

Einar Sveinbjörnsson veðurfræðingur segir að lýsa megi veðri þessu sem „glórulausri norðlenskri stórhríð". Í dag er svo reiknað með að veður þetta nái yfir allt land en að vindhraðinn verði minni sunnanlands, eða 8-10 stig, og að snjókoman verði einnig minni en hún varð á Norðurlandi í nótt. Reykvíkingar verða áþreifanlega varir við veður þetta í dag því Veðurstofan áætlar að vindhraðinn í borginni verði um 9-10 stig á hádegi. Björgunarsveitir áttu að vera í viðbragðsstöðu í borginni frá um klukkan fimm í morgun.

Morgunblaðið segir enn frá sama veðri 16.desember:

Stórhríð geisaði um allt norðan- og norðvestanvert landið í gær. Sæsímastrengur yfir Skutulsfjörð slitnaði og millibylgjuloftnet á Þverfjalli varð óvirkt. Þá gengu flóð yfir varnargarða á Siglufirði og sjór komst í tvo kjallara, en um 10 íbúðarhús hafa verið rýmd sökum snjóflóðahættu. Á öllu Norðurlandi og norðanverðum Vestfjörðum var ófært vegna veðurs, en fært var með suðurströndinni allt austur á Höfn og jafnvel til Breiðdalsvíkur. Einnig var fært um Snæfellsnes og Heydali, en Skógarströnd, Kerlingarskarð og Fróðárheiði voru illfær. Þá var ófærð á fjallvegum austanlands. A allflestum stöðum um norðan- og vestanvert landið lá allt skólahald niðri í gær. Samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofu var gert ráð fyrir að veðrið yrði gengið niður að mestu undir morgun og vindur myndi snúast í hægari norðaustanátt með ofankomu. 

Ágæt færð hefur verið innanbæjar á Ísafirði, inn í Hnífsdal á flugvöllinn, en flestar aðrar samgöngur í lofti og á landi hafa legið niðri, samkvæmt upplýsingum lögreglu. Í fyrradag var byrjað að moka götur í bænum, og í gær var enn verið að. Snjókoma, skafrenningur, vindur og kuldi var á Vestfjörðum í gær og vegagerðarmenn héldu að sér höndum, enda var skyggni mjög slæmt. Lítið var þó um bilanir hjá Orkubúi Vestfjarða, en einhverjar bilanir urðu í Árneshreppi og Austur-Barðastrandasýslu. Ballgestir úr Bolungarvík, sem komu til Ísafjarðar á laugardag, höfðu ekki enn komist til síns heima í gær. Richard Scobie, sem veðurtepptur er á Ísafirði ásamt hljómsveit sinni, mun hins vegar hafa fengið leyfi til að halda dansleik í fyrrakvöld í Sjallanum til að stytta Bolvíkingum, sem flestir voru enn í ballfötunum, stundir. Þá lágu margir togarar lágu í vari í höfnum á Vestfjörðum í gær. Sæstrengur yfir Skutulsfjörðinn slitnaði í gær og símasamband rofnaði við Súðavík. Vonast var til að viðgerð lyki í gær. Loftnet millibylgjusendisins á Þverfjalli varð óvirkt, og hvorugur millibylgjusenda Pósts og síma virkaði. Boðkerfi björgunarsveita og flest samskipti við báta liggja því niðri. Farið var á snjóbíll á fjallið í gær til að freista þess að koma loftnetinu í lag. Flateyringar sem rætt var við í gærkvöldi sögðu að í bænum væri vitlaust veður, hvassviðri ofankoma og skafrenningur. Frést hafði að snjóflóð hefði fallið í Selabólshlíð en að höfðu samráði við sérfræðinga Veðurstofu Íslands þótti ekki að svo stöddu ástæða til að ætla að snjóflóða væri von í grennd við byggð. Ekki hafði orðið vart rafmagnstruflana á Fleteyri og sagði viðmælandi blaðsins gegna furðu hve vel rafmagnskerfið hefði staðist þrátt fyrir  veðurhaminn. Í gærmorgun þurfti að flytja sjúkan mann suður frá Hólmavík, og voru vegagerðarmenn fengnir til liðs við sjúkraflutningsmenn og lögreglu. Að sögn lögreglunnar á staðnum var veðrið glóralaust í gærkvöldi, bíla var að fenna á kaf, og einungis fært stórum jeppum innanbæjar.

Á Sauðárkróki var versta tegund af norðlenskri stórhríð, að sögn vegagerðarmanna. Lítil sem engin umferð var milli byggðarlaga, og vegagerðarmenn héldu að sér höndum því vart sá út úr augum vegna skafrennings og mikillar veðurhæðar í Skagafirði. Einnig lágu póstsamgöngur niðri í gær. Sömu sögu var að segja af Blönduósi. Að sögn lögreglu á Siglufirði gekk þar sjór yfir varnargarða, og færð var tekin að þyngjast í bænum um eftirmiðdaginn, því tækjakostur Vegagerðarinnar var fullnýttur við að moka sjó sem flætt hafði inn á Eyrina. Sjór hafði gengið yfir nýja flóðgarðinn fyrir norðan bæinn og farið eftir Norðurgötu og Vetrarbraut allt inn að Aðalgötu. Þar sem dýpst var náði sjórinn í læri, en í gær var einungis vitað til þess að sjór hefði komist í tvo kjallara, að sögn lögreglu. Þá hafa um 10 íbúðarhús við Suðurgötu, Laugarveg, Heiðarveg og Háveg verið rýmd vegna snjóflóðahættu, auk eins húss við Hólaveg. Ófært var milli  flestra byggðarlaga á Austurlandi, en samkvæmt upplýsingum frá Vegagerðinni var farið að huga að opnun einstaka leiða, enda veður farið að hægjast að mun upp úr hádegi. Skólar voru þó víðast lokaðir í dag. Á Vopnafirði var veðrið einnig að mestu gengið niður eftir hádegi í gær, en einhverjir skaflar á vegum sem huga átti að þegar ljóst yrði hvort veður héldist. Þá varð vart við nokkrar rafmagnstruflanir á Vopnafjarðarlínu, og fór rafmagn af bænum í fjórgang í gær.

Ákveðið hefur verið að rýma fimm hús í Hnífsdal vegna snjóflóðahættu og á Siglufirði var ákveðið í gærkvöldi að þau sex hús sem þar voru rýmd í fyrrakvöld stæðu áfram auð í nótt. Norðan stórhríð var um mest allt land í gær og víða var kennsla felld niður. Samgöngur hafa legið niðri á láði og í lofti.

Um eins metra há alda skall inn í áhaldahús Ólafsfjarðarbæjar um hádegi í gær, en sjórinn hafði áður hrifið með sér gáma af gámastæði sem er á fjörubakka neðan áhaldahússins. Lenti einn gámurinn inni í áhaldahúsinu er aldan skall á það. Ófagurt var um að litast innandyra, krapi, grjót og þari um allt. Mikið gekk á í Ólafsfirði vegna veðurhamsins í gær, en nokkuð tók að lægja milli kl. hálf þrjú og þrjú að sögn Þorsteins Björnssonar bæjartæknifræðings í Ólafsfirði. Óróleiki var í höfninni og voru bátar vaktaðir í fyrrinótt. Flotbryggjur sem festar eru niður með ankerum færðust til og varð á þeim minniháttar tjón, en bátarnir sluppu án skemmda. Veðrið var einna verst um hádegi og samkvæmt öldumæli sem til staðar er í Ólafsfirði var ölduhæðin um 11 metrar þegar mest var. Mikill sjógangur hefur verið í Ólafsfirði og sjór gengið látlaust upp á land. Náði hann að gera usla á gámastæði sem staðsett er niður á fjörubakka neðan áhaldahúss bæjarins og hafði öldugangurinn hrifsað með sér gámahrúgu alveg upp á húsinu. Þorsteinn sagði að um hádegið hefði um eins metra há alda skollið á áhaldahúsi bæjarins með þeim afleiðingum að einn af gámunum sem fyrir utan það voru lenti inni í húsinu. Tveir bílar voru geymdir í húsinu og þar var líka lager hitaveitunnar. Innandyra var allt í krapa, grjóti og þara og ljóst að mikið verk verður að laga þar til. Skemmdir urðu einnig nokkrar utan á húsinu, en það er bárujárnsklætt. Þá gengu fyllur upp Ósinn og var sjór kominn alveg upp að lóðarmörkum húsa sem standa við Ólafsveg. Björgunarsveitarmenn voru ræstir út til að byrgja fyrir glugga húsanna og eins var gerður varnargarður til að hindra sjóinn í að ná heim að húsum.

Banaslys varð á þjóðveginum í Norðurárdal í Borgarfirði í glórulausri hríð þann 15. er árekstur varð skammt frá Bifröst. 

Morgunblaðið segir enn af samgöngutruflunum í pistli 18.desember:

Rúta frá Vesturleið var væntanleg til Reykjavíkur úr Reykhólasveit, þar sem hún hafði verið veðurteppt í sex daga. Í fyrradag þurfti fólk á leið til Hólmavíkur að gista á bæ í Bitrufirði, en halda var áfram til Hólmavíkur í gær. Sömuleiðis þurfti fólk, sem fór með Norðurleiðarútunni til Akureyrar í fyrradag, að gista í Húnaveri í fyrrinótt, en komust á áfangastað í gær. Von var á rútum frá Varmahlíð og Akureyri í bæinn í gær. Ferðir um Snæfellsnesið ganga orðið ágætlega, svo og flestar aðrar leiðir, samkvæmt upplýsingum frá Bifreiðastöð íslands. Þar var umferð óðum að komast í fastar skorður. ... Viðgerðarmenn frá Orkubúi Vestfjarða unnu í gær við viðgerð á Mjólkárlínu. Snjóflóð braut stæðu á línunni innan við Gemlufall í Dýrafirði og rauf samband við norðanverða Vestfirði í fyrradag, svo framleiða þurfti rafmagn með díselvélum.

Mikil leit var gerð að ábúandanum á bænum Saurum fyrir norðan Skagaströnd í fyrrakvöld og gærdag. Björgunarsveitarmenn fundu manninn um hádegisbilið í gærdag og benti allt til að hann hefði orðið úti í óveðrinu sem geisað hefur á þessum slóðum síðustu daga. ... Leitarmenn fundu [manninn] um hádegisbilið í aðeins 75 metra fjarlægð frá bæ hans og var hann þá látinn. 

Mjög djúp lægð fór norður um Færeyjar þann 18. og olli illviðri austanlands. Morgunblaðið segir af því 19.desember:

Óveður geisaði á öllu austanverðu landinu í gær. Tékkneskum ríkisborgara var bjargað úr bíl sem hafði lent útaf vegi í Berufirði í fyrrinótt, og almannavarnanefnd á Vopnafirði mæltist til þess í gærmorgun að fólk færi ekki út úr húsum meðan óveðrið gengi yfir. ...

Fáskrúðsfjörður. Er lögreglan á Fáskrúðsfirði var á leið til Berufjarðar til að aðstoða við leitina að tékkanum, vildi ekki betur til en að lögreglubíllinn missti dekk af tveimur felgum. Óhappið varð fyrir botni Fáskrúðsfjarðar, og þegar verið var að tjakka bílinn upp vildi ekki betur til en að hann fauk útaf veginum. Mjög slæmt veður og mikil snjókoma var á Fáskrúðsfirði í gær, og aðstoðaði björgunarsveitin fólk við að komast til síns heima. Albert

Samkvæmt upplýsingum frá Rafmagnsveitum ríkisins fór rafmagn af línum um Suðursveit, Mýrar og Öræfasveit í fyrrinótt og gærmorgun. Rafmagni var komið á um hádegi í gær í Suðursveit, en búist var við að takast myndi að gera við línurnar í Suðursveit og á Mýrum í gær. Línan í Öræfasveit fór útaf staurum á löngum kafla á Breiðamerkursandi, en vonir stóðu til að viðgerð tækist sem fyrst. Þá sló rafmagni út á Djúpavogi í þrígang í gærmorgun, en var komið á aftur að mestu. Einnig var rafmagnslaust í hluta Berufjarðar og í Álftafirði og Hamarsfirði, þótt ekki væri talið að bilanirnar væru alvarlegs eðlis. Rafmagn fór af Falatanga í gærmorgun, en þar er varaaflstöð. Í gærmorgun rofnaði útvarpssamband á Vopnafirði, og mikið álag var á símkerfinu víða á Austfjörðum í gær.

Ábúendur á Forsæludal efst í Vatnsdal misstu 5 nautgripi í óveðri í vikunni. Er talið að þeir hafi hrakist undan veðrinu og hrapað niður gil í Vatnsdalsá og drukknað þar. Menn úr hjálparsveit skáta á Blönduósi, sem leituðu gripanna, horfðu á eftir ársgamalli kvígu hrapa niður um vök á ísilagðri ánni. Sigríður Ragnarsdóttir húsfreyja í Forsæludal segir að sennilega hafi gripirnir farist á þriðjudag [15.] en þeirra var ákaft leitað næstu tvo daga á eftir án árangurs. Vatnsdalsá rennur í gegnum gil rétt hjá bænum en nautgripirnir höfðu aðgang að opnu útihúsi skammt frá gilinu. Þeim var hinsvegar gefið úr heyrúllum úti við. Er óveðrinu slotaði nokkuð á miðvikudag reyndi heimilisfólkið á Forsæludal, sem ekki er tryggt fyrir tjóni sem þessu, að leita gripanna en þá voru miklar hengjur á gilbarminum við Vatnsdalsá og ekki hægt að komast að ánni. Menn úr hjálparsveit skáta voru kallaðir til aðstoðar og komu þeir frá Blönduósi á snjóbíl og vélsleðum. Þeim tókst að komast niður í gilið og fundu þar eina kvígu. Hún var stygg og stökk undan þeim út á ísilagða ána og hrapaði þar niður um vök og sást ekki meir.

Tvær djúpar lægðir fóru norður og norðaustur um Grænlandshaf þann 20. og 22. og ollu miklum sunnanveðrum með úrkomu. 

DV segir frá 21.desember:

Vatnselgur gekk inn í tískuverslunina Klaufina við Vestmannabraut í Vestmannaeyjum snemma í gærmorgun. Ekki urðu teljandi skemmdir. Fleiri verslanir og hús í Vestmannaeyjum voru í hættu vegna flóða í fyrrinótt og unnu bæjarstarfsmenn í Eyjum við að halda niðurföllum opnum en krapelgur settist í þau og stíflaði allt. Mikil snjókoma og skafrenningur var í Vestmannaeyjum aðfaranótt sunnudagsins en gekk síðan yfir í mikið vatnsveður. Björgunarsveitin var kölluð út til að aðstoða fólk heim afskemmtistöðum bæjarins. -ból

Morgunblaðið segir af óvenjulegri ölduhæð í illviðrinu 14. til 15. desember í pistli 22.desember. Einnig er sagt frá landsynningsveðrinu þann 20. og vandræðum sem það olli í Reykjavík:

Meðalölduhæð á Grímseyjarsundi mældist yfir 10 metrar í einn og hálfan sólarhring í byrjun síðustu viku. Ekki hefur áður mælst jafn mikil meðalölduhæð í jafnlangan tíma fyrir Norðurlandi. Að sögn Gísla Viggóssonar hjá rannsóknadeild Vita- og hafnarmálastofnunar var þessi ölduhæð stöðug alveg frá mánudagsmorgninum 14. desember fram á miðjan þriðjudaginn eða í einn og hálfan sólarhring, hvort sem um var að ræða flóð eða fjöru. Gísli sagði að á Norðurlandi hefði þetta valdið einhverju mesta brimi sem orðið hefði þar í áratugi.

Á bilinu sex- til sjöhundruð manns leituðu skjóls í Fríkirkjunni í Reykjavík undan blindhríð sem geisaði á höfuðborgarsvæðinu aðfaranótt s.l. sunnudags [20.] og fjöldi manns beið eftir að veðrinu slotaði í anddyri lögreglustöðvarinnar á Hverfisgötu. Lögreglan hafði í mörgu að snúast og þurfti að kveðja út björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu til að flytja fólk, sem flest var að koma af veitingastöðum borgarinnar, til síns heima. ... Mesta hríðin skall á um kl.2:30 og var glórulaus hríð þegar veitingahúsagestir tíndust út af stöðunum. Leigubílar hættu fljótlega akstri og vandræðaástand skapaðist í bænum. Lögreglan kom tilkynningu að í fjölmiðlum þar sem fólk var beðið um að halda kyrru fyrir þar sem götur væru að verða ófærar. Einnig voru menn sem höfðu fest bíla sína í snjósköflum beðnir að halda kyrru fyrir þar til björgunarsveitarmenn kæmu því til aðstoðar. ... Cecil Haraldsson, prestur í  Fríkirkjunni í Reykjavík, sagði að lögreglan hefði bent fólki sem.hefði staðið úti á götu og beðið eftir leigubílum að leita skjóls í Fríkirkjunni. Þar er jafnan opið hús um helgar, en aldrei áður hafa jafnmargir sótt í kirkju á þessum tíma sólarhrings. Séra Cecil taldi að á bilinu 650-700 manns hafi verið í kirkjunni þegar mest var. Síðustu gestirnir fóru til síns heima um kl.6:30 um morguninn.

Talið er að tjón skíðadeildar ÍR af völdum snjóflóðsins aðfaranótt s.l. sunnudags [20.] í Hamragili, nemi um tíu milljónum króna. Snjóflóð féll á 70 fermetra þjónustumiðstöð og gereyðilagðist húsið. Birgir Hermannsson, formaður skíðadeildar ÍR, sagði að ráðgert væri að flytja smærri hús á skíðasvæðið þar sem hægt væri að koma fyrir nauðsynlegri aðstöðu svo opna mætti svæðið um miðjan janúar. Á þessu svæði hafa áður fallið snjóflóð en aldrei þó af þessari stærðargráðu.

Morgunblaðið segir enn af sama veðri 23.desember:

Ólafsvík. Mikið tjón varð aðfaranótt sunnudags [20.] um klukkan fjögur á bænum Tröð sem er um 12 km innan við Ólafsvík. Ofsaveður svipti þá í einu lagi þakinu af íbúðarhúsinu. Rifnuðu sperrumar upp úr steinsteypunni og þeyttist allt saman fram þjá bænum Mávahlíð og að mestu leyti út að sjó. Þakið var endurnýjað fyrir einu ári.

Enn eitt sunnanveðrið gekk yfir á annan dag jóla. Virðist frétt Morgunblaðsins 29.desember eiga við það:

Þingeyri. Björgunarsveitin Dýri og Slysavarnadeildin Vörn á Þingeyri urðu fyrir því óhappi á laugardaginn s.l. að hús þeirra, Stefánsbrú, gjöreyðilagðist er þakið fauk af því í heilu lagi. Það var suðaustanátt, rok og rigning hér á laugardaginn [26.] og gekk á með mjög sterkum vindhviðum. Talið er að ein þeirra hafi feykt þakinu af húsinu en það liggur niðri í fjöru við hlið hússins. ... Helga.

Hér lýkur yfirferð hungurdiska um tíð og veður ársins 1992. Margskonar tölulegar upplýsingar má að vanda finna í viðhengi.  


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og einum?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • Slide9
  • Slide8
  • Slide7
  • Slide6
  • Slide5

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (5.5.): 31
  • Sl. sólarhring: 147
  • Sl. viku: 1143
  • Frá upphafi: 2464095

Annað

  • Innlit í dag: 21
  • Innlit sl. viku: 971
  • Gestir í dag: 21
  • IP-tölur í dag: 21

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband