Vendipunktar

Við lítum nú á skrýtið línurit ritstjóra hungurdiska - eingöngu til gamans. Einhverjir skilja það sjálfsagt ekki (beðist er velvirðingar á því) - en aðrir skilja það kannski of vel - og fara að draga ályktanir sem svo ekki standast. 

w-blogg170325a

Lárétti ásinn sýnir ártöl, frá 1821 til loka árs 2024. Lóðrétti ásinn er torskiljanlegri en við hann stendur „vikasumma - afrétt“. Hvað skyldi það vera? Grunnurinn er reiknaður mánaðarmeðalhiti í byggðum landsins allt frá því í desember 1821 þar til í desember 2024. Meðalhiti og staðalvik hvers almanaksmánaðar (janúar til desember) er síðan reiknaður fyrir tímabilið 1931 til 2010 (80 ár). Hitavik hvers mánaðar frá þessu meðaltali er nú reiknað og sömuleiðis staðalvik. Staðalvikin eru nú lögð saman frá upphafi til enda, mánuði fyrir mánuð bætt við. Vegna þess að við höfum valið tiltölulega hlýtt tímabil sem grunn (1931 til 2010) skilar 19. öldin lengst af neikvæðum gildum (þá var kalt miðað við síðari tíma). Þegar kom fram á 20.öld fór jákvæðum gildum fjölgandi (en á árabilinu 1931 til 2010 voru þau auðvitað um það bil jafnmörg og þau neikvæðu). Lokasumman varð mjög neikvæð. 

Til að myndin yrði lesanlegri var ákveðið að rétta ferilinn af, hann byrjar og endar í núlli. Tilgangurinn er eingöngu sá að leita að vendipunktum, mánuðum eða árum þar sem hneigðin hefur breyst. Við hefðum getað valið einhver önnur tímabil til viðmiðunar, sömuleiðis hefðum við rétt eins getað notað hitavikin sjálf, en ekki staðalvikin. Séu staðalvikin valin eins og hér er gert vega sumarmánuðir jafnþungt og aðrir mánuðir - jafnvel þótt hitavik séu þá mun minni heldur en að vetri. Á öðrum myndum væru aðrar tölur á lóðrétta ásnum, en útlit ferilsins er nærri því sá sami - vendipunktar nærri því þeir sömu. 

Á köldum tímabilum hrapar ferillinn, en á hlýjum rís hann mjög ört, á skeiðum þegar hiti er svipaður og hann var að meðaltali 1931 til 2010 er hann flatari. Við eigum ekki ágiskanir um hita á landsvísu lengra aftur (og óvissa í tölunum er reyndar mjög mikil fyrir 1875). Ágiskaðar eldri tölur sýna þó kaldara skeið heldur en fyrstu árin sem ná inn á línuritið. 

Við sjáum allgóð merki um hlýskeið 19. aldar á myndinni. Við getum látið sem að því hafi lokið í mars 1858 (sem er auðvitað allt of nákvæm dagsetning, nema í veðurfarskemmtanabransanum - þar sem við slökum á skynseminni). Eftir það hrapar ferillinn í hinu mikla kuldaskeiði sjöunda áratugar 19.aldar. Stjórnlaust hrap heldur áfram allt þar til í mars 1893 - nema hvað smáhik er í kringum 1870 - líklega raunverulegt. 

Frá og með 1893 er hallinn á ferlinum ekki eins mikill og áður - en niðurleiðin heldur samt áfram. Sú skoðun kom fram á sínum tíma að verstu harðindunum hefi lokið með árinu ofurkalda 1892, veðurfar hafi eftir það orðið mildara - en samt ekki eins milt og var á hlýskeiðinu næst á undan, þegar ferillinn varð nánast flatur um skeið. 

Mesti viðsnúningur á línuritinu öllu varð í febrúar 1925. Kuldaskeiðinu langa var lokið. Ferillinn tekur á stökk upp á við. Minniháttar hik varð í kringum 1950, en síðan hélt leiðin upp á við áfram eins og ekkert hefði í skorist, þar til í júní 1964. Þá varð enn vending. Næstu áratugir urðu ströggl. Vendipunkturinn í lokin er ekki alveg hreinn. Viðsnúningur varð eftir janúar 1984, en strögglið hélt áfram, kannski allt fram til júní 1997. Eftir það hefur leiðin legið upp á við. 

Þessi síðasta brekka hefur verið samfelld hlýnun, ekkert hik að sjá - enn sem komið er að minnsta kosti - aldrei nema rétt einn og einn stakan mánuð eða tvo. Hér sést vonandi vel að tal um að hægt hafi á hlýnun síðustu 10-12 árin er einfaldlega ekki rétt - slíkt myndi hafa komið skýrt fram sem hik á ferlinum, þá svipað og við sjáum greinilega í kringum 1950 - það hefði ekki leynt sér. 

Hvort slíkt hik er svo yfirvofandi vitum við auðvitað ekki - framtíðin er frjáls sem fyrr - en það hefur ekki látið sjá sig. 

Hugsanlegt er að við lítum á fleiri línurit af þessu tagi síðar - hafi ritstjórinn þrek til þess. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Birnuson

Feitur biti fyrir nörð! Kærar þakkir.

Birnuson, 24.3.2025 kl. 12:50

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Maí 2025
S M Þ M F F L
        1 2 3
4 5 6 7 8 9 10
11 12 13 14 15 16 17
18 19 20 21 22 23 24
25 26 27 28 29 30 31

Nýjustu myndir

  • w-blogg080525a
  • w-blogg070525b
  • w-blogg070525a
  • Slide8
  • Slide7

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.5.): 163
  • Sl. sólarhring: 164
  • Sl. viku: 1773
  • Frá upphafi: 2465837

Annað

  • Innlit í dag: 149
  • Innlit sl. viku: 1606
  • Gestir í dag: 138
  • IP-tölur í dag: 136

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband