14.3.2025 | 21:56
Hlaupið yfir árið 1986
Tíð á árinu 1986 var lengst af talin hagstæð. Í janúar var nokkuð hrakviðrasamt á Suðausturlandi og snjóþungt norðaustanlands, en annars var tíð góð. Góð tíð var í febrúar, en nokkuð umhleypingasamt í mars. Allgóð tíð var í apríl, en maí var víðast hvar talinn óhagstæður. Í júní var votviðrasamt á Suður- og Vesturlandi, en hagstæð tíð norðaustanlands, einkum þegar á leið. Í júlí, ágúst og september var hagstæð tíð. Október var nokkuð rysjóttur nema að tíð var talin góð á Norðaustur- og Austurlandi. Nokkuð rysjótt tíð var síðustu tvo mánuði ársins.
Í textanum hér að neðan er leitast við að rifja upp helstu veðurviðburði ársins. Mun ítarlegri lýsingu á vindáttum, gangi veðurkerfa og þess háttar er auðvitað að finna í Veðráttunni, tímariti Veðurstofu Íslands sem aðgengilegt er á timarit.is. Hér er mjög byggt á fréttum dagblaðanna, Morgunblaðið var drýgst á þessu ári og er aðstandendum þess og annarra blaða þakkað að vanda. Í fáeinum tilvikum hafa augljósar prentvillur verið leiðréttar og stafsetningu í stöku tilviki hnikað til - vonandi að meinalausu.
Fyrri hluta janúar gengu lægðir aðallega fyrir sunnan land (ekki þó alveg). Veður hélst skaplegt fyrstu tíu dagana, dagana þar á eftir fóru tvær sérlega djúpar lægðir til austurs fyrir sunnan landið og norðaustur um Færeyjar. Talsvert hvessti meðan lægðirnar gengu hjá og vandræðaveður gerði um landið suðaustanvert.
Kortið sýnir síðari lægðina, 945 hPa í miðju, ekki langt fyrir sunnan land. Morgunblaðið segir frá 14.janúar:
Miklar rafmagnstruflanir hafa orðið á Austurlandi í vondu veðri sem gekk yfir aðfaranótt laugardags [11. janúar, fyrri lægðin] og aftur í gær, mánudag [sjá kortið]. Að sögn Erlings Garðars Jónassonar rafveitustjóra á Egilsstöðum slitnaði raflínan á 500 metra kafla í 600 metra háu klettabelti sem heitir Skessa" og er á línunni milli Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar. Ekki þykir ráðlegt að reyna viðgerð fyrr en veður hefur gengið meira niður og þarf ugglaust að leita aðstoðar þyrlu við viðgerðina. Þá varð bilun á raflínunni frá Djúpavogi í gær og urðu staðir norðan við Stöðvarfjörð og Fáskrúðsfjörð rafmagnslausir en vonir stóðu til að hægt yrði að lagfæra þessa bilun í gærkveldi. Bilun varð á raflínum í N-Þingeyjarsýslu milli Kópaskers og Þórshafnar og varð nyrsti hluti sýslunnar, Bakkafjörður og sveitin í kring, rafmagnslaus af þeim sökum og var gripið til díselstöðvar fyrir þéttbýlið. Hjá Veðurstofunni fengust þær upplýsingar að búast mætti við minnkandi norðaustanátt um allt land og kólnandi veðri með um 5 til 7 vindstigum en í óðveðrinu sem gekk yfir landið í gær mældust 8 til 12 vindstig í Æðey, á Stórhöfða, undir Eyjafjöllum og á Fagurhólsmýri.
Austri segir frá sama veðri í pistli 16.janúar:
Aftakaveður gekk yfir Austurland á mánudag [13.] og aðfaranótt þriðjudags [14.] og olli bæði tjóni og erfiðleikum. Flugstöð þeirra Fáskrúðsfirðinga fauk, til að mynda. Húsið er svolítill vegavinnuskúr, og í því tæki sem viðkoma flugi og munu þau hafa skemmst eitthvað. Rafmagnsleysi hefur víða valdið vandræðum. Á laugardag slitnaði línan milli Reyðarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar, en á hádegi á mánudag fór línan milli Breiðdalsvíkur og Stöðvarfjarðar vegna ísingar og um kvöldið fór línan milli Stöðvarfjarðar og Fáskrúðsfjarðar sömu leið. Staðirnir voru því einangraðir og notuðust við díselstöðvar með mikilli skömmtun. Eftir hádegi á þriðjudag mun rafmagn hafa verið komið á aftur. Ísing olli víðar rafmagnsleysi svo sem í Fljótsdal og á Bakkafirði. VS
Í því fárviðri sem gekk yfir Austurland á mánudag [13.] varð það óhapp á Höfn að togarinn Þórhallur Dan skemmdist mikið þegar verið var að færa hann til við höfnina. Um tíma virtist veðrið lægja svo farið var að flytja togarann frá viðlegukantinum að ískajanum. Þegar ein taugin losnaði átti að snúa aftur til baka, þá rauk veðrið upp og stóð á síðu togarans sem lagðist undan og sjór tók að fossa inn í hann. Þegar vélarnar voru settar áfram, stóð gírinn eitthvað á sér og hélt skipið fulla ferð afturábak, tætti af sér allar taugar sem lágu í land og bakkaði fullaferð yfir álinn. SA/VS
Næstu vikuna á eftir hélst úrkoma um landið suðaustanvert og ísing á raflínum og mikil snjókoma ollu áframhaldandi vandræðum. Morgunblaðið segir frá 23.janúar:
Slæmt veður hefur verið á austanverðu landinu undanfarna daga. Flestir vegir á austan- og norðanverðu landinu eru ófærir og víða rafmagnstruflanir. Veðrið gekk að mestu niður í gær, en éljagangi er spáð á þessu svæði í dag. Daglegt líf fólks fór nokkuð úr skorðum í sumum bæjum á þessu svæði vegna rafmagns- og vatnsleysis og samgönguörðugleika. Á þriðja tug rafmagnsstaura brotnuðu í fyrradag [21.] og staurasamstæða í Suðurlínu brotnaði við Almannaskarð austan við Höfn, að sögn Erlings Garðars Jónassonar rafveitustjóra Austurlands. Rafmagn komst á Höfn eftir miðnættið með díselvélum en sveitirnar eru að mestu rafmagnslausar. Í gærkvöldi [22.] var enn rafmagnslaust í stórum hluta Hornafjarðar, Lóni, Nesjum, Suðursveit og Öræfum. Einnig varð rafmagnslaust um tíma á Djúpavogi og rafmagn skammtað eftir að díselvélamar voru settar í gang. Erling sagði að staurarnir hefðu brotnað vegna mikillar ísingar sem hlóðst á línumar.
Haukur Þ. Sveinbjörnsson fréttaritari Morgunblaðsins á Höfn sagði að þar hefði gert brjálað veður á þriðjudagsmorgun [21.] og daglegt líf fólks farið úr skorðum. Rafmagn og vatn fór á bænum en komst aftur á um miðnættið, síminn datt að mestu út og skólahald féll niður. Þá urðu götur bæjarins ófærar. Albert Kemp fréttaritari á Fáskrúðsfirði sagði að snjórinn þar væri með því mesta sem komið hefði undanfarin ár. Hann sagði að veðrið hefði verið verst á þriðjudag en slotað í gær. Götur bæjarins væru ófærar nema hvað aðalleiðum væri haldið opnum til að fólk kæmist til og frá vinnu. Rafmagnið fór aðeins af Fáskrúðsfirði á þriðjudag [21.] og sagði Albert að mikið hefði verið um rafmagnstruflanir þar undanfarnar vikur. Ólafur Guðmundsson fréttaritari á Egilsstöðum sagði að þar hefði gengið í hvassa austanátt í fyrrinótt með nokkurri ofankomu og þegar menn hefðu verið að tygja sig til vinnu hefði gengið á með dimmum éljum og götur orðið ófærar. Flestir nemendur hefðu þó komist í skólann. Nokkrar rafmagnstruflanir hefðu orðið en veðrinu farið að slota um hádegið. Hann sagði að fjallvegir í grennd væru ófærir og ekki hefði verið flogið til Egilsstaða, frekar en annarra staða á Austurlandi, undanfarna daga.
Kröpp lægð fór hratt til norðurs undan Vesturlandi að kvöldi 25.janúar og varð þá mikið tjón austur á Stöðvarfirði. Morgunblaðið segir frá því 4.febrúar:
Aðfaranótt sunnudagsins 26.janúar varð þó nokkurt tjón í suðaustan roki á Stöðvarfirði. Félagar úr Björgunarsveitinni Björgólfi voru fyrst kallaðir út skömmu eftir miðnætti, en þá höfðu m.a. fokið járnplötur af húsum, rúður brotnað og ýmislegt fleira gengið úr lagi. Um kl.2 hafði verið lokið við lagfæringar á helstu skemmdunum og var þá mikið farið að lægja. Bjuggust flestir við því að eiga náðugar stundir það sem eftir lifði nætur. En það var bara lognið á undan storminum því um.kl.5 sömu nótt hvessti hann aftur. Var áttin þá austlægari og sýnu hvassara en í fyrra áhlaupinu. Fyrst fauk stór hluti útihúsa og í sömu rokunni þeyttist lítill árabátur 2300 m og gjöreyðilagðist. Höfðu þó festingar hans verið treystar fyrr um nóttina. Brak úr útihúsunum mun hafa skemmt 2 íbúðarhús og bíl, en rúður brotnuðu í nokkrum farartækjum. Mesta tjónið varð þó við höfnina, en þar skemmdust 2 bátar, sem stóðu uppi á landi. Tókst þó að afstýra frekara tjóni með dyggri framgöngu smábátaeigenda og björgunarsveitarmanna, sem voru á þönum þar til veðrið fór að lægja. Ekki urðu teljandi skemmdir á smábátum þeim, er voru á floti í höfninni. Félagar úr björgunarsveitinni unnu allan sunnudaginn meðan að birtu naut við að tína saman járnplötur og hreinsa til eftir óveðrið. Steinar
Tíð var lengst af hæglát í febrúar og meðalloftþrýstingur í hærri kantinum. Undir miðjan mánuð gerði ákafa sunnanátt um stund með óvenjumikilli úrkomu um landið vestanvert.
Ingibjörg Andrésdóttir í Síðumúla segir um febrúar og mars:
Tíðarfar febrúar var með fádæmum gott. Minnti frekar á vor og haust en þorra og góu. 4 daga var snjór á jörð, en að öðru leyti var autt og hagar góðir.
Seinnipart mánaðarins [mars] var snjóþungt og oft skafrenningur. Nokkur ófærð varð í innsveitum og varð að ryðja nokkrum sinnum fyrir mjólkurbíla. Nú um mánaðamót er jörð alhvít með djúpum sköflum. Haglaust er með öllu.
Athugunum lauk í Síðumúla um miðjan apríl eftir rúmlega 50 ára samfellda sögu.
Hér má sjá veðurkortið þegar úrkoman stóð sem hæst. Úrkomumælingar voru í fáein ár gerð í Borgarnesi og sólarhringsúrkoman mældist aldrei meiri heldur en að morgni þess 13.
Hér má sjá Íslandskort sem gildir á sama tíma og yfirlitskortið að ofan. Á Hvanneyri mældust 82,3 mm að morgni þess 13. og er það það mesta þar á síðari skeiði úrkomumælinga þar (1963-1997), en á fyrra skeiði (1923-1943) mældist tvisvar meiri sólarhringsúrkoma (mest 30.nóvember 1941 - 101,1 mm). Í Reykjavík mældist þriðja mesta úrkoma í febrúar og fjórða mesta í Straumsvik - allt árið. Nokkur flóð urðu:
Dagblaðið segir frá 13.febrúar:
Elliðaárnar flæddu yfir bakka sína í nótt og rufu skarð í veginn rétt við Elliðavatnsstífluna. Lögreglan í Reykjavík og Kópavogi fór þegar á vettvang svo og starfsmenn Reykjavíkurborgar því talið var að hesthús í Víðidal gætu verið í hættu. Er þar um að ræða hesthús í svonefndum Kardemommubæ sem standa neðst í hesthúsabyggðinni í Víðidal. Eigendur húsanna voru látnir vita um hættuna en er leið á nóttina varð ljóst að óþarfi yrði að flytja hrossin á braut. Þau standa því enn í húsunum sem eru umleikin vatni. Veginum við Elliðavatnsstífluna var lokað í nótt og þegar leið á morguninn voru uppi ráðagerðir um að loka einnig gömlu Elliðaárbrúnum þar eð vatnsflaumurinn var orðin ískyggilegur. Þá eru sumarbústaðir í Víðidal og upp með Hólmsá umflotnir vatni. Flóð sem þessi eru árlegur viðburður við Elliðaárnar og hætt að koma hestum jafnt sem hestamönnum á óvart. Að sögn lögreglunnar hafa þau þó oft verið meiri en nú. -EIR
Morgunblaðið segir frá því sama 14.febrúar:
Vatnsmagnið í Elliðaánum í flóðinu í fyrrinótt og gærmorgun var á tímabili svipað og meðalrennsli Sogsins, eða um 100 rúmmetrar á sekúndu. Meðalrennsli Elliðaánna er um 4 rúmmetrar á sekúndu, en í stórflóðunum 1968 og 1982 fór rennslið vel yfir 200 rúmmetra á sekúndu, að sögn Hauks Pálmasonar, aðstoðarrafmagnsstjóra Rafmagnsveitu Reykjavíkur. Það er árviss viðburður í febrúar eða mars að Elliðaárnar flæði yfir bakka sína, en oftast er vatnsmangið ekki meira en 40-50 rúmmetrar á sekúndu. Vatnselgurinn gróf sundur vegi á tveimur stöðum og olli minniháttar skemmdum á öðrum í flóðinu í gær. Fyrir neðan hesthús Fáks í Víðidal gróf vatnið sér leið um 80 metra breiðan malarvegskafla við brúna á mótum Ofanbyggðavegar og Elliðavatnsvegar, og ennfremur á kafla fyrir ofan Hólmsá, í sumarbústaðahverfi. Skeiðvöllur Fáks fór allur undir vatn, og er talið að skemmdir á honum séu nokkrar. Sumarbústaðir í Víðidal og upp með Hólmsá voru umflotnir vatni, og komst vatn sums staðar að þeim.
Nokkrum dögum síðar féll skriða undir Eyjafjöllum. Morgunblaðið 21.febrúar:
Holti undir Eyjafjöllum, 20. febrúar. Grjótskriða féll úr fjalli hjá bænum Núpi [18.febrúar]. Stórir steinar og björg eru nú í kringum bæina að Núpi. Guðmundur Guðmundsson bóndi að Núpi sagði aðspurður að algengt væri að steinar brotnuðu úr berginu, en nú virtist sér þetta væri í stærra mæli. Sprungur hefðu myndast í bergið og von gæti verið á miklu hruni. Um daginn hefi hann verið að mjólka þegar drunur miklar heyrðust og jörðin nötraði og fjósið eins og skalf. Þegar út kom blasti við stærðar grjót um það bil einum metra frá fjósinu. Það væri með ólíkindum að aldrei hefði orðið tjón af þessu grjóthruni. Hjá nágranna hans, Guðjóni Jónssyni, hefði stærðar bjarg stöðvast við rakstrarvélina, jú, reyndar, hann myndi eftir því að hestur hefðu orðið fyrir steini og drepist. Guðjón Jónsson, bóndi að Núpi, sagðist trúa á vernd bæjarins. Sér hefði þó brugðið í vetur þegar sonur hans varð næstum fyrir steini sem kom fljúgandi rétt við skemmuvegginn. Aðspurður sagðist Guðjón nýlega hafa tætt upp garðinn hjá sér og ætla að setja niður nokkrar kartöflur. Þetta yrði enginn vetur héðan af og rétt væri að fara að huga að spíringu kartaflna. Fréttaritari.
Tæpum mánuði síðar féll svo skriða við Steina undir Eyjafjöllum. Morgunblaðið segir frá því 11.mars:
Skriða féll niður Steinafjall hjá Steinahelli kl.9:00 í morgun [10.mars]. Að því er best verður séð er hér um að ræða hrun vegna rigningarinnar úr skriðunni sem féll 1979 og aftur 1984. Lækur sem kemur niður hlíðina á þessum stað í vatnavöxtum hefur komið skriðunni af stað og komist á þann hátt í sinn gamla farveg. Mjólkurbílar komu vestan að til Steina kl. 9:10 í morgun en nokkrum mínútum síðar fór bíll austan að og kom þá að skriðunni sem var um 2 metrar á hæð á veginum á um 50 metra löngum kafla. Stór björg hafa hrunið niður hlíðina á milli staura í rafmagnslínunni, sem liggur þarna um og stendur heil. Fljótlega eftir hádegi var vegurinn opnaður af vegagerðinni en lækurinn og rigningin orsakar að leiðin er alls ekki örugg. Skriðan gæti haldið áfram að falla niður hlíðina. Fréttaritari.
Mikil úrkoma var á sunnanverðu landinu í fyrrinótt og fram eftir degi í gær. Mest mældist hún á Kirkjubæjarklaustri eða 41 mm, sem telst mjög mikið, samkvæmt upplýsingum frá Veðurstofunni. Ný lægð með svipaðri úrkomu nálgast landið sunnan úr hafi og verður hennar farið að gæta á sunnanverðu landinu síðdegis og aðra nótt. Skil sem fóru fremur hægt austur með suðurströndinni ollu þessari miklu úrkomu sem var að meðaltali 20 til 30 mm um sunnanvert landið. Sem dæmi má nefna að rigningin mældist 24,2 mm í Reykjavík sem telst mikið. Um það leyti sem aurskriðan féll milli Varmahlíðar og Steina undir Eyjafjöllum um níuleytið í gærmorgun gekk þar yfir suðaustan hvassviðri með stórrigningu sem olli leysingum í sjö stiga hita. Þjóðvegurinn var opnaður fyrir allri umferð á ný skömmu eftir hádegi. Suðurlandsvegur fór aftur sundur seinna um daginn fyrir austan Mýrdalssand, skammt sunnan við Laufskálavörðu, vegna vatnavaxta. Samkvæmt upplýsingum frá vegagerðinni verður gert við veginn í dag. Að öðru leyti var góð færð um allt land.
Fram að þessu hafði veturinn verið mjög snjóléttur í Reykjavík og nágrenni. Þann 18. brá út af þegar lægð fór til norðvesturs yfir landið. Ritstjóri hungurdiska minnist óformlegs mælingaleiðangurs sem mældi snjódýptina á allmörgum stöðum, niðri í miðbæ, á Klambratúni og í Öskjuhlíð. Hún reyndist alls staðar nær hin sama. Morgunblaðið segir frá 19.mars:
Geysimiklum snjó kyngdi niður á Suður- og Suðvesturlandi í fyrrinótt og olli töluverðum samgönguerfiðleikum í gærmorgun. Kennsla féll niður í grunnskólum vegna ófærðar. Snjódýptin mældist 30 sentímetrar. Einungis tvívegis í 65 ár hefur mælst dýpri snjór i marsmánuði í Reykjavík. Árið 1921 var snjódýptin 36 sentímetrar og 35 árið 1949. Mesta snjódýpt sem mælst hefur var frá 1921 var 51 sentímetri í janúarmánuði 1937. Snjókomunni olli djúp lægð sem fór norðvestur yfir landið. Sunnan og vestan við hana var fremur köld vestanátt með sjókomu og éljagangi. Fyrir austan var hins vegar suðaustanátt, hlýindi og rigning. Um tíma mældist 8 stiga hiti á Austfjörðum. Veðrið gekk niður sunnan- og vestanlands í gærmorgun og um hádegið var blíðskaparveður í höfuðstaðnum, sól, logn og hiti. Snjóþyngslin á götum Reykjavíkur og nágrennis ollu töluverðum samgönguerfiðleikum, einkum snemma í gærmorgun.
Færð var víða slæm á vegum úti suðvestanlands í gærmorgun, en um tíuleytið opnuðust Þrengslin og var fært milli Selfoss og Reykjavíkur á vel útbúnum bílum. Snjókoman náði nokkuð austur fyrir Hvolfsvöll, og þangað var ófært nema mjög vel búnum bílum, en frá Vík og austur á firði var góð færð. Færð var víða slæm á vegum úti suðvestanlands í gærmorgun, en um tíuleytið opnuðust Þrengslin og var fært milli Selfoss og Reykjavíkur á vel útbúnum bílum. Snjókoman náði nokkuð austur fyrir Hvolsvöll, og þangað var ófært nema mjög vel búnum bílum, en frá Vík og austur á firði var góð færð. Hins vegar var ekki fært í Hvalfjörð um hádegisbilið og kolófært á Snæfellsnesi, enda vonskuveður þar og mikill skafrenningur.
Vorinu miðaði vel í apríl og jörð orðin græn syðst á landinu og gróður farinn að lifna nyrðra. Morgunblaðið segir frá 6.maí:
Nýliðinn vetur er sá snjóléttasti í Reykjavík frá 1978 þrátt fyrir að mars hafi verið einhver sá snjóþyngsti um 20 ára skeið samkvæmt upplýsingum frá veðurstofunni. Veðurfar vetrarins var annars hagstætt um allt land.
Maí var heldur svalur og þyrrkingslegur og norðaustanátt ríkjandi. Ekki voru þó vandræði af veðri - nema það óhapp sem sagt er frá í frétt DV 22.maí:
Flugvél í eigu Mýflugs fauk á hvolf á Reykjahlíðarflugvelli í fyrradag. Vélin, sem er af gerðinni Cessna 172 M, fjögurra sæta, er talin ónýt. Það var ekki mjög slæmt veður þegar óhappið varð. Þetta er mikið tjón fyrir Mýflug þar sem nota átti flugvélina í útsýnisflug í sumar. Þá var flugvélin notuð í kennsluflug. Ómar Ragnarsson átti flugvélina áður. -sos
Í júní 1986 var rigningasamt á Suður- og Vesturlandi en hlýtt og gott norðaustanlands. Flestir voru vissir um að nú væri enn eitt rigningasumarið í undirbúningi - en það varð ekki þrátt fyrir blauta byrjun. Hrökk nú veðurlag í þann gír að bjóða upp á hálf rigningasumur í stað heilla sem hafði verið tíska frá 1969 að telja. Flestum þótti það framför.
Níundi júní var sérlega kaldur dagur, kl.18 var hámarkshiti frá kl.9 í Reykjavík 4,1 stig. Það er það lægsta sem vitað er um í júnímánuði í Reykjavík. Köld lægð gekk til vesturs og síðan suðvesturs yfir landið norðanvert (kortið að ofan). Næsta nótt var óvenjuleg. DV segir frá 10.júní:
Snjókoma var í Reykjavík klukkan þrjú í nótt og hiti þá við frostmark, samkvæmt upplýsingum Veðurstofu. Jörð var hvít á höfuðborgarsvæðinu fram til klukkan sex í morgun. Á öllu landinu nema Suður- og Suðausturlandi hefur orðið vart snjókomu síðasta sólarhring. Á norðanverðu landinu var slydda um miðjan dag í gær.
Mjög óvenjulegt er að hvít jörð sjáist á Veðurstofutúninu í júní. Ekki entist snjóhulan þó til kl.9 að þessu sinni þannig að dagurinn telst ekki alhvítur.
Júlímánuður var talinn hagstæður um nær allt land. Það bar helst til tíðinda að hafís var viðloðandi utanvert Húnaflóasvæðið og náði landi við Drangaskörð þ.7. Andaði köldu af hafísnum. Gott dæmi um það er veðurlag kl.15 þann 24.júlí og sjá má á kortinu hér að neðan.
Hiti kl.15 var 1,6 stig á Hrauni á Skaga. Þetta er lægsti hiti sem mælst hefur við sjávarsíðuna á þessum tíma dags í júlí, allt frá 1949 að minnsta kosti. Hiti var þá 2,6 stig á Bergstöðum, en 4,4 á Hveravöllum.
Hiti kl.15 var 1,6 stig á Hrauni á Skaga. Þetta er lægsti hiti sem mælst hefur við sjávarsíðuna á þessum tíma dags í júlí, allt frá 1949 að minnsta kosti. Hiti var þá 2,6 stig á Bergstöðum, en 4,4 á Hveravöllum.
Kortið sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur) og sjávarhitavik í júlí 1986. Mjög kalt er undan Norðurlandi. Ritstjóri hungurdiska tekur þó hóflegt mark á sjávarhitavikakortum sem þessu.
Hagstæð tíð var í ágúst - hæglát og fremur sólrík. Vatnavextir urðu í Öræfasveit fyrir miðjan mánuð. Morgunblaðið segir frá 13.ágúst:
Austurlandsvegur í Öræfasveit opnaðist á ný um klukkan átta í gærmorgun. Hann hafði þá verið ófær á kafla vegna vatnavaxta í réttan sólarhring.
Bæði september og október voru tíðindalitlir. Tíð var hagstæð í september, en talin rysjótt sunnanlands í október. Lítið bar til tíðinda, nema þetta: Morgunblaðið segir frá 4.september [hvasst var af suðvestri]:
Flugvél fauk um koll á Sauðárkróki aðfaranótt gærdagsins [3.]. Flugvélin, TF-HRO, sem er sex sæta, var fyrir framan flugskýlið á Sauðárkróksflugvelli og þegar siðast sást til hennar á þriðjudagskvöld var hún með öll hjól á jörðu. Í gærmorgun brá mönnum nokkuð í brún, því þá var vélin með hjólin upp í loft. Er það álit manna að vindurinn hafi breytt stöðu vélarinnar svo mjög. Ekki er enn búið að meta skemmdir á vélinni.
Nóvember fékk ekki slæma dóma þó ekki væri skaðalaus. Enn fauk á flugvelli, sömuleiðis í hvassri suðvestanátt - óvenjulegt á Selfossi. DV segir frá 6.nóvember:
Þak fauk af flugskýli á Selfossi í gærmorgun [5.] í kröppum hvirfilvindi sem fór yfir völlinn, samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Selfossi. Að sögn lögreglunnar sviptist mestur hluti þaksins af í einu vetfangi. Í skýlinu voru þrjár flugvélar en þær skemmdust ekki. Enginn maður var í flugskýlinu þegar þessi atburður varð en nærstaddur maður varð sjónarvottur að þessu óhappi. -ój
Leiðindaveður var helgina 8. til 9. nóvember. Að ýmsu leyti óvenjulegt veður og olli mannskaða (þótt hann flokkist undir tilviljun). Morgunblaðið segir frá þann 8.nóvember:
Flateyri. Rafmagnslaust varð í sveitinni á Ingjaldssandi og í Önundarfirði í gær eftir að rafmagnslínur á Tannanesi og Selabólsurð slitnuðu í óveðri. Einnig varð rafmagnslaust á Flateyri og Suðureyri en þar voru varaaflstöðvar gangsettar. Ekki er búist við að viðgerð ljúki fyrr en seinni part dagsins í dag. Óveðrið skall á í Önundarfirði og eins og áður sagði hádeginu í gær, og mikil ísing lagðist þá á rafmagnslínumar sem slitnuðu að lokum undan þunganum. Ekki hafði tekist í gærkvöldi að kanna a fullu tjón á rafmagnsleiðslunum -EFG.
Djúp lægð kom upp að suðvesturlandi þann 6. og 7. Skil hennar fóru norður fyrir land, en sneru aftur þegar lægðin fór til austurs fyrir sunnan land. Snarpur norðanstrengur skall á landinu og náði hámarki síðdegis þann 8. (kortið að ofan).
Myndin sýnir þrýstisírita Reykjavíkur þessa daga. Skil lægðarinnar fara yfir að kvöldi 6., en loftvog heldur áfram að falla. Lægðin er síðan við Suðvesturland mestallan þann 7. en síðan stígur loftvog ákveðið. Þrýstiferillinn er mjög órólegur síðdegis þann 8. og þann 9., stórar bylgjur sem tengdar eru fjallabylgjum (flotbylgjum) sem ganga yfir höfuðborgarsvæðið.
Íslandskortið gildir kl.15 þann 8.nóvember. Takið eftir því að vindur er mjög hvass norðvestan við línu sem liggur frá vestanverðu Suðurlandi norðaustur um til Melrakkasléttu. Loftvog stígur ákveðið í Reykjavík, en fellur talsvert norðaustanlands, mynstur sem hert hefur mjög á vindinum. Slæmt eftirbragð er af þessu veðri í minni ritstjórans.
Morgunblaðið segir frá banaslysi í pistli 9.nóvember (tveir létust):
Tveir menn festust undir rútu, sem fauk út af veginum á Hellisheiði í gær og var annar maðurinn látinn, þegar Morgunblaðið hafði fréttir síðast síðdegis. Í rútunni voru auk ökumanns, sex farþegar, fimm fullorðnir og eitt barn. Fjórir farþegar og ökumaður voru fluttir til Selfoss. Ökumaðurinn var enn í myndatöku í sjúkrahúsinu á fimmta tímanum í gær, en samkvæmt upplýsingum lögreglunnar á Selfossi munu hann og farþegarnir fjórir hafa sloppið án meiriháttar meiðsla. Mikil veðurhæð og hálka voru á Hellisheiði í gær. Á seinni tímanum í klukkan þrjú var Selfosslögreglunni tilkynnt um það, að áætlunarbifreið frá Landleiðum hefði fokið út af Hellisheiðarveginum, í efri Hveradalabrekkum. Bifreiðin var á leið frá Reykjavík austur í Hrunamannahrepp og virðist að sögn lögreglunnar á Selfossi sem rútan hafi feykst til, þegar hún kom efst í Hveradalabrekkumar, snúist til og fokið út af veginum og á hliðina og síðan oltið yfir á hina hliðina.
Vestfirska fréttablaðið segir frá 13.nóvember:
Það hefur víst ekki farið framhjá neinum íbúa Vestfjarða að hið versta veður gekk yfir fjórðunginn um síðustu helgi. Samgöngur lágu niðri og víða urðu truflanir á rafmagni. Samkvæmt upplýsingum Orkubús Vestfjarða urðu hvergi neinar stórfelldar skemmdir en staurar brotnuðu og línur slitnuðu á nokkrum stöðum. Rafmagnslaust var á Ingjaldssandi í rúmlega einn og hálfan sólarhring. Lína slitnaði í Súgandafirði og fór straumur af hitaveitunni. Var farið að kólna nokkuð þegar rafmagn komst á að nýju.
Morgunblaðið segir frá fleiri sköðum í sama veðri 14.nóvember:
Nokkrir bændur urðu fyrir fjárskaða í því óveðri sem gekk yfir Austur-Húnavatnssýslu um síðustu helgi. Ennfremur fuku járnplötur af iðnaðarhúsinu Votmúla á Blönduósi og tveggja manna í bíl var leitað. Síðastliðin helgi var annasöm hjá björgunarsveitarmönnum á Blönduósi og komu þeir víða við í leitar- og björgunarstörfum. Um miðjan dag á laugardag [8.] kom fyrsta útkallið þegar járn fór að fjúka af iðnaðarhúsinu Votmúla á Blönduósi. Aðfaranótt sunnudagsins var hafin leit að tveimur mönnum framan úr sveit sem ætlað höfðu á Blönduós. Þeir fundust skömmu seinna heilir á húfi um 10 kílómetrum sunnan við Blönduós og höfðu þá beðið í 6 klukkustundir í bíl sínum. Bíllinn hafði farið út af veginum og þeir gert það sem réttast var; beðið eftir aðstoð. Um miðjan dag á sunnudag [9.} aðstoðuðu björgunarsveitarmenn bóndann á Sölvabakka, Áma Jónsson, við að grafa 50 kindur úr fönn og voru allar lifandi nema ein. Á mánudaginn voru 15 kindur grafnar úr fönn á Sölvabakka og voru 7 dauðar. Alls missti Sölvabakkabóndinn 8 kindur í þessu veðuráhlaupi. Valdimar Guðmannsson í Bakkakoti telur að 20 kindur hafi hrakist undan veðrinu og hrapað fyrir björg og drukknað í sjónum. Víðar í héraðinu grófu menn fé lifandi úr fönn og enn eru ekki öll kurl komin til grafar eftir þetta óveður. Björgunarsveitarmenn voru fengnir til að ná í tvö hross fram í Norðurárdal og drógu þeir hrossin á sleða í hús. Annað hrossið drapst fljótlega eftir að þangað var komið. Óveðrið um helgina hafði ýmis önnur óþægindi í för með sér. Til dæmis þurfti að aflýsa hinum árlega Styrktarsjóðsdansleik og rafmagnslaust var á Blönduósi um tíma á laugardagskvöldið.
Enn urðu skaðar. Vestfirska fréttablaðið 27.nóvember:
Skemmdir urðu á raflínum Orkubús Vestfjarða frá Mjólká í vonskuveðri sem gekk yfir Arnarfjörð og Dýrafjörð á mánudag [21.]. Urðu af þessum sökum truflanir á orkuflutningi á svæðinu frá Flateyri til Súðavíkur. Orkubú Vestfjarða deildi þeirri orku sem til var eftir kúnstarinnar reglum og var að sögn Kristjáns Haraldssonar orkubússtjóra tekin sú stefna að reynt var að halda atvinnufyrirtækjum gangandi fram eftir degi. Þá voru hús með rafhitun látin ganga fyrir húsum með hitaveitu. Rafmagn komst svo á að nýju um klukkan 20:30 um kvöldið, Kristján vildi taka fram vegna óánægjuradda sem heyrst hefðu, að við aðstæður sem þessar væru götuljósin látin hafa forgang. Þó einhverjum þætti það bruðl þá liti Orkubúið svo á að hér væri um öryggisatriði að ræða. Einnig brotnuðu nokkrir staurar í Nauteyrarhreppi í veðrinu og kom vinnuflokkur frá Hólmavík til viðgerða. Það var sem fyrr segir óveður sem braut nýrri línuna í Arnarfirði en einangrari gaf sig í þeirri gömlu.
Slæm veður gengu yfir í desember, sérstaklega um og fyrir miðjan mánuð:
Dagur segir frá 4.desember:
Á Siglufirði, eins og víðar á Norðurlandi, hefur verið mjög slæmt veður undanfarna tvo sólarhringa eða svo. Viðmælandi blaðsins sagðist ekki muna eftir öðru eins veðri og var þar á Siglufirði í fyrrinótt. Síðdegis á þriðjudaginn fauk bíll út af veginum við Sauðanes. Bíllinn sem var mannlaus valt alla leið niður í fjöru og gjöreyðilagðist. Hann náðist ekki upp og er nú að öllum líkindum horfinn í sjóinn. Í gærmorgun fauk síðan annar mannlaus bíll og lenti á hliðinni. Hann skemmdist töluvert. Mikið fannfergi er nú á Siglufirði en síðdegis í gær var veður heldur tekið að lægja. ET
DV segir frá illviðri í Hornafirði í frétt 8.desember:
Júlía Imsland, DV, Höfn; Mikið tjón varð á bænum Stapa í Nesjum í óveðrinu sem gekk yfir í vikunni. Einn fjórði hluti fjósþaksins fauk, gömul fjárhús tók hreinlega upp og eitt af þrem samstæðum fjárhúsum á bænum fauk. Þá fór mikið af þakjárni af öðrum húsum. Snjó skóf inn á kindur og kýr og inn í hlöðuna. Valgerður húsfreyja á Stapa sagði að þetta hefði verið aftakaveður en enginn hefði meiðst, hvorki menn né skepnur. Húsin eru ekki vátryggð. [Þetta var líklega þann 3. en þá náði vindstyrkur 12 vindstigum af norðaustri í Hjarðanesi og í Hólum. Djúp lægð fór austnorðaustur skammt frá landi].
Austri segir frá 11.desember:
Rafmagnslaust varð á Borgarfirði [eystra] sl. laugardagskvöld [6.] þegar rafmagnslína þangað gaf sig í Hraundalnum utan við Hraundalsána. Línan yfirísaðist og brotnuðu 20 staurastæður í austanhvassviðri sem gekk yfir samfara ísingunni. Jafnframt fór rafmagnið á nokkrum bæjum í Eiðaþinghá meðan verið var að aftengja Borgarfjarðarlínuna.
Djúp lægð kom að landinu þann 10. og í kjölfar hennar fóru athyglisverðar smálægðir yfir landið. Þær ollu ekki tjóni - en við leggjum inn aukaumfjöllun hér aftast í pistilinn.
Þann 12. ti 15. komu tvær gríðardjúpar lægðir að landinu. Sú fyrri var grynnri (líklega um 935 hPa í miðju) fór til vestnorðvesturs fyrir suðvestan land þann 12. og olli ekki tjóni nema undir Eyjafjöllum. Síðari lægðin varð metdjúp, stungið er upp á 914 hPa í lægðarmiðju. Það merkilega var að þessari ofurdýpt var ekki illa spáð með 2 til 3 daga fyrirvara í líkönum þess tíma þannig að hún gat valdið ákveðnu fjölmiðlafári. Ofurdjúp lægð hlaut að valda óvenjulegum ofsa. Veðrið varð mjög vont, en olli fjölmiðlum samt vonbrigðum - veðurfræðingar sakaðir um að gera of mikið úr og svo framvegis. Tjón varð þó töluvert þegar upp var staðið. Á þessum árum var mikilvæg veðurathugunarbauja á Grænlandshafi. Þrýstingur á henni fór niður í 920 hPa. Við nánari eftirgrennslan kom í ljós að hún var forrituð þannig að lægri tölum var hafnað - og er það miður því líklegt er að lægðarmiðjan hafi farið yfir baujuna um þær mundir sem hún var dýpst. Talan 914 hPa verður því aldrei staðfest beint.
Morgunblaðið segir af fyrri lægðinni 13.desember:
Holti. Aftakaveður gerði undir Eyjafjöllum um hádegið í gær og stóð mesti ofsinn í um tvo tíma. Svona veðri er erfitt að lýsa, það lægir í milli en síðan koma byljir með magnþrungnum ofsa þannig að ekkert laust er óhult. Ókeyrandi var i byljunum í dag og víða fauk á bæjum. Mesta tjónið sem vitað er um varð í Hvammi, en þar fauk í einu lagi þak af fjárhúsi. Þakið var mörg tonn að þyngd og niðurnjörvað með járnbindingum í steypta veggi. Magnús bóndi Sigurjónsson í Hvammi sagðist hafa af tilviljun séð þak fjárhússins eins og skrúfast langt upp í loft og berast síðan um 150 metra frá húsinu. Síðan hefði brakið úr því fokið í burtu. Fréttaritari
Næstu daga bárust fréttir af tjóni í veðrinu sem kom mjög misjafnt niður. Velta mætti vöngum yfir því - en grafast þyrfti nánar fyrir um aðstæður í háloftum til að skýringar fáist. Tilvitnunin í pistla Morgunblaðsins 16.desember byrjar í Grindavík - en þar er alvanalegt að austanáttin valdi einhverju foktjóni. Fréttirnar frá Ísafirði eru óvenjulegri og sömuleiðis tjón í þessari átt á Seyðisfirði og í Norðurárdal.
Grindavík. Ofsaveður gekk yfir Grindavík á sunnudagskvöldið [14.] en olli óverulegu tjóni. Lögreglan og Björgunarsveitin Þorbjörn voru á þönum allt kvöldið og fram á nótt til að koma í veg fyrir, eins og hægt var, að járnplötur fykju af húsþökum. Gamla Flaggstangarhúsið var bundið niður áður en járnið fauk utan af því. Rafmagnslaust varð í rúmar tvær klukkustundir í bænum og olli vandræðum á símakerfi lögreglunnar. Kópurinn GK kom svo í höfn upp úr miðnættinu í mesta hamaganginum, öllum á óvörum, þrátt fyrir rokið og brim í innsiglingunni. Lögreglunni barst aðvörun frá Almannavörnum ríkisins, fyrir milligöngu Jóns Eysteinssonar bæjarfógeta, um klukkan 17 að mjög djúp lægð væri á hraðri leið að landinu og færi mesti veðurhamurinn yfir Grindavík. Sigurður Ágústsson yfirvarðstjóri lögreglunnar bað björgunarsveitina Þorbjörn að vera í viðbragðsstöðu og hringdi í forráðamenn allra fyrirtækjanna og bað þá að huga að öllu lauslegu í kring um vinnustaði. Um kvöldmatarleytið var orðið allhvasst og mátti sjá hvar menn komu lausum körum og brettum í hús og bundu niður ýmislegt lauslegt sem kynni að fjúka. Um klukkan 20.30 byrjaði síðan síminn á lögreglustöðinni að hringja látlaust þar sem fólk bað um aðstoð við að hemja lausa hluti hjá fólki sem ekki var heima. Meðal annars fór tjaldvagn af stað og skemmdist og annars staðar fauk ruslakassi utan í bíl. Klukkan 21 var tilkynnt um að þakplötur væru að fjúka af raðhúsalengju í smíðum við Hólavelli og var björgunarsveitin þá kölluð út. Tókst að negla niður plötur sem vora að losna áður en fleiri fuku um nærliggjandi íbúðarhverfi. Þá var talsvert um að járn væri að losna í Eyjabyggðinni en ekki hlaust tjón af enda neglt jafn harðan. Gömul steinsteypt rúst austan við höfnina splundraðist í átökunum. Þá fuku nokkrar plötur af íbúðarhúsi og komst vatn í eitt herbergi og olli skemmdum.
Ísafirði. Ég var búinn að sjá vindhraðamælinn slá nokkrum sinnum upp í 110 hnúta á meðan ég var að taka niður tæki í flugturninum sem ég vildi forða undan hugsanlegu tjóni. En þegar mælirinn var kominn í botn á 120 hnútum, sjórokið með klakahröngli og grjótkasti buldi á rúðunum sem svignuðu ógurlega, þá stakk ég mér undir borðið og beið þess sem verða vildi, sagði Grímur Jónsson flugumferðarstjóri á Ísafirði, en fárviðri geisaði í innanverðum Skutulsfirði aðfararnótt mánudags. Grímur mætti á vakt í turninn kl.7 um morguninn, en það tók hann um stundarfjórðung að komast 10 metra leið úr bílnum og inn í flugstöðvarbygginguna vegna roksins. Í flugturninum eru tveir vindhraðamælar, annar með sírita, sem ritar bæði stefnu og hraða vindsins. Hann mælir mest 90 hnúta og hafði nálin á honum lamist föst í botni en síritinn mældi samt áfram. Samkvæmt honum var veðurhæðin hæst á milli kl.7 og 8 um morguninn en upp úr því fór að hægja og á hálftíma breyttist veðrið úr stormi í logn. Samkvæmt almanaki Háskólans mældist mesti vindhraði á Íslandi við Þyril í Hvalfirði 16. febrúar 1981, 222 kílómetrar á klukkustund en eftir því sem næst verður komist eru 120 hnútar um 228 km/klst, svo fljótt á litið virðist þetta mest vindstyrkur sem mælst hefur á landinu. Skömmu fyrir miðnætti fuku fjórar vængjahurðir af flugskýlinu á vellinum. Ein hurðin lagðist inn á gólfíð, án þess þó að skemma þær tvær flugvélar sem í skýlinu voru og er með ólíkindum hvernig það gat gerst. Önnur liggur brotin hlémegin við flugskýlið. Hornið á þeirri þriðju sást standa upp úr sjónum í 100-200 metra fjarlægð, en sú fjórða er ennþá ófundin. Um svipað leyti fauk lítil sendibifreið sem stóð á bílastæði við flugstöðina á hliðina og rann um 10 metra. Tókst að koma henni á hjólin og draga í skjól við flugstöðina en í nótt fór hún aftur af stað, rann eftir bílastæði upp á snjóruðning og hafnaði að hluta úti í tjörn vestanvert við bygginguna. Í fjórum gluggum á flugstöðinni brotnuðu ytri rúður en hvergi fór innri rúða svo ekkert tjón varð innan dyra á flugvellinum. Í bíl sem stóð áveðurs brotnuðu þær rúður sem á móti vindi snéru og var bíllinn hálf fullur af möl og klakahröngli þegar að var komið.
Að sögn Hrafns Guðmundssonar lögregluvarðstjóra virðist hvergi hafa verið stórviðri á Ísafirði nema á flugvellinum og í Holtahverfi, en þar fauk þakjárn af húsi og einhver klæðning utan af öðru. Rafmagn fór tvisvar af bænum, fyrst upp úr miðnætti og síðan um níu en þar var um að ræða truflun á byggðalínu en staurar brotnuðu á milli Borgarfjarðar og Hrútafjarðar. Einhver takmörkun gæti orðið á rafmagnsdreifingu næstu tvo dagana en ekki ætti þó að koma til vandræða, að sögn Jakobs Ólafssonar deildarstjóra hjá Orkubúi Vestfjarða.
Skip á Vestfjarðarmiðum leituðu öll vars í nótt, mörg voru undir Grænuhlíð og innar í Ísafjarðardjúpi og á Dýrafirði en Vestfjarðaskipin leituðu flest til hafnar. Ekki er vitað um nein óhöpp hjá þeim. Úlfar.
Lögreglan í Reykjavik var með nokkurn viðbúnað vegna veðursins sem gekk yfir um helgina. Bjarki Elíasson yfirlögregluþjónn sagði að lögreglan hefði einbeitt sér að fyrirbyggjandi aðgerðum og taldi að það hefði meðal annars komið i veg fyrir að meira tjón varð. Bjarki sagði að lögreglan hefði tekið á leigu fjóra jeppa með drifi á öllum hjólum og útbúið á þá menn í óveðursgöllum. Kannaðar hefðu verið ábendingar frá fólki um hluti sem hugsanlega gætu fokið. Þá hefðu þeir stöðvað bíla í að fara á Hellisheiði á meðan þar var ófært. Hann sagði að lítil umferð fólks hefði verið í borginni og fólk brugðist vel við. Þá sagði hann að 20 menn úr björgunarsveitinni Ingólfi hefðu verið lögreglunni til halds og trausts. Trilla slitnaði upp í Reykjavíkurhöfn aðfaranótt mánudags og voru lögreglumenn lengi að reyna að færa hana í var. Slóst hún upp að garðinum og sökk að endingu.
Seyðisfirði. Í óveðrinu sem gekk hér yfir í fyrrinótt fauk hluti af þaki verksmiðjuhúss loðnubræðslu Ísbjarnarins á Seyðisfirði. Hurðir á viðgerðarverkstæði Fiskvinnslunnar hf. fuku upp og vatn fór þar inn. Þetta var upp úr klukkan tvö um nóttina. Að sögn verkstjóranna Helga Valgeirssonar og Jóns Torfa Þorvaldssonar hjá Ísbirninum voru það 180 fermetrar sem fóru af þakinu. Fór þetta allt í einu lagi líkt og sprenging hefði átt sér stað. Verksmiðjan var í fullum gangi. Theodór Blöndal verksmiðjustjóri sagði að ekkert tjón hefði orðið á tækjum verksmiðjunnar, en vinnsla hefði verið stöðvuð og fólk sent heim vegna hættuástandsins sem var á meðan veðrið var að ganga yfir. Theodór sagði að viðgerð hæfist
strax á þakinu og verksmiðjan var sett í gang um hádegið í gær. Óskar Þórarinsson verkstjóri hjá Fiskvinnslunni hf sagði að hurðirnar á viðgerðarverkstæðinu hefðu fokið upp um klukkan tvö. Slagbrandar sem voru innan á hurðunum hefðu gefið sig og vatn farið inn á gólfin. En skemmdir á tækjum á verkstæðinu hefðu engar orðið. Vinnsla hófst þar á réttum tíma í gærmorgun. Garðar Rúnar
Borgarnesi. Í óveðrinu á sunnudagskvöld fauk helmingur fjárhúsþaks á bænum Klettstíu í Norðurárdal. Sviptist þakið af með járni og sperrum. Að sögn húsfreyjunnar, Margrétar Jómundsdóttur, voru um 150 kindur í fjárhúsinu en sakaði þær ekki. Sagði hún að veðrið hefði verið verst um 11 leytið og hvasst fram undir klukkan 3 um nóttina. TKÞ.
Byggðalína Landsvirkjunar bilaði í óveðrinu á sunnudagskvöldið þegar fjögur stálmöstur brotnuðu á Grjóthálsi í Borgarfirði. 20 manna viðgerðarflokkur fór á staðinn seinni partinn í gær og var búist við að viðgerð lyki í kvöld, ef veður yrði skaplegt. Möstrin brotnuðu um klukkan 22 á sunnudagskvöldið á Grjóthálsi. Að sögn Guðmundar Helgasonar rekstrarstjóra hjá Landsvirkjun hafði þetta litlar truflanir í för með sér en þó varð að skammta ótryggt rafmagn til verksmiðja í gær meðan mesta álagið var. Rafmagnslínur stóðust óveðrið víðast hvar á landinu. Þó varð rafmagnslaust undir Eyjafjöllum á sunnudaginn og tókst ekki að gera við bilunina fyrr en klukkan 3 um nóttina þegar mesta veðrið var gengið niður. Sú bilun var í tengivirki við Hvamm. Í gærmorgun varð rafmagnslaust í tvo klukkutíma í Kellingardal og Höfðabrekku í Mýrdal og kom í ljós að rafmagnsstaurar á Höfðabrekkuhálsi höfðu brotnað og brunnið. Einnig brotnuðu staurar í Landeyjum en rafmagnið hélst. Á Vestfjörðum og Vesturlandi stóðust rafmagnslínur óveðrið, að því er rafveitustjórar vissu best í gær.
Keflavík. Engir stórskaðar eða slys urðu í Keflavík og næsta nágrenni af völdum illviðrisins, sem gekk yfir aðfaranótt mánudags. Að sögn lögreglu var tjón óverulegt. Eitthvað var um að járnplötur og lauslegt dót fyki.
Morgunblaðið birti 17.desember nánari fréttir af fokinu í Hvammi undir Eyjafjöllum, en eins og fram kom hér að ofan átti það sér atað í fyrri lægðinni.
Ég horfði á þakið af útihúsunum, 100 járnplötu þak, rifna af og fjúka i heilu lagi í um það bil 50 metra hæð og brotlenda síðan á annað hundrað metra fyrir norðan bæinn, sagði Magnús Sigurjónsson bóndi í Hvammi, Vestur-Eyjafjöllum, en í fárviðrinu um helgina urðu nokkrar skemmdir á bæjum undir Fjöllunum, mest i Hvammi en einnig nokkrar á fjórum öðrum bæjum. Þetta var gjörningaveður eins og stundum kemur til undir Fjöllunum, sagði Magnús í Hvammi, það mun láta nærri að vindhraðinn hafi legið í 15 vindstigum eins og á Stórhöfða, en í verstu byljunum var um hreina fellibylji að ræða og það var í einum slíkum sem þakið a fjárhúsunum og hlöðunni fauk í heilu lagi. Síðar kubbuðust rafmagnsstaurar og á þriðja degi valt skammt frá Hvammi stór flutningabíll frá Egilsstöðum. Ökumanninn sakaði ekki. Það var sérkennilegt að sjá þakið rifna upp, þetta stóra þak, þyrlast upp í loftið og splundrast síðan í jörð. Þetta maskaðist svo að það var eins og maður væri að taka upp gúanómél úr fiskimjölsverksmiðju, svo smátt kurlaðist timbrið. Seinna um daginn feykti vindurinn járnplötu heim að bæ og ég brá mér út upp á von og óvon, en plötunni náði ég og kom henni inn í hús, því ég tel ella víst að hún hefði brotið einhverja af hinum stóru rúðum á íbúðarhúsinu. Það voru sem betur fer engar skepnur í útihúsunum, en einnig fauk þakið af minni fjárhúsum á jörðinni. Vindar geta blásið all-sérkennilega á þessu svæði. Í mikilli austanátt slær vindinn að sjálfsögðu vestur fyrir bæinn, en þar beygir hann upp til hægri í hlíðinni og kemur til baka, beint á móti áttinni. Þetta var feiknarlegur vindhraði og rafmagnsstaurarmir kubbuðust við jörð þótt frostlaust væri. Átökin því verið mikil." Magnús sagðist ekki verða fyrir fjárhagslegu tjóni vegna skaðans þar sem hann hefði allt tryggt, en því væri nú þannig farið undir Fjöllunum að menn tækju fremur foktryggingu en brunatryggingu og segði það sína sögu. Guðjón hafði á orði að það henti þegar þvottur gleymdist á snúrum og austanátt gerði snögglega, að menn leituðu ekki að þvottinum fyrir vestan bæinn, heldur fyrir austan í stórgrýti sem þar er, þannig pottur er vindbelgurinn á svæðinu."
Morgunblaðið segir af ágangi sjávar í Reyðarfirði í pistli 17.desember:
Vont veður var hér aðfararnótt mánudagsins [15.], mikið rok og rigning. Þjóðvegurinn, sem liggur meðfram sjónum hér á Reyðarfirði, fór mjög illa. Stærðar grjóthnullungar og möl gengu upp á veginn og vegkantar voru svo illa farnir að menn hafa verið að keyra uppfyllingaefni í skörðin, sem mynduðust í veðrinu. Rokið var samt svo mikið að gámar fóru af stað niður við höfn og síldartunnur, fullar af síld, fuku niður í fjöru hjá Bergsplani. Víða rann vatn inn í hús og stóð fólk við að vinda það upp fram eftir morgni. Veðrið gekk niður um kl.10:00 á mánudagsmorgun. Gréta
Morgunblaðið segir 21.desember frá tjóni í Húnaþingi í öðru tilviki þann 16. en í hinu í aðalillviðrinu, aðfaranótt 15:
Ábúendur á Uppsölum í Sveinsstaðahreppi urðu fyrir stórfelldu tjóni í veðurofsa helgarlægðarinnar. Á Hjallalandi í Sveinsstaðahreppi fauk þak af fjárhúsum sl. þriðjudag [16]. Báðir þessir bæir eru staðsettir í utanverðum Vatnsdal sinn hvoru megin við Vatndalsá. Virðist sem vindhraðinn hafi orðið hvað mestur á þessum slóðum í Austur-Húnavatnssýslu, þó víða hafi hressilega blásið.
Að sögn Önnu Helgadóttur húsfreyju á Uppsölum þá gjöreyðilagðist vélageymsla sem stendur skammt fyrir norðan íbúðarhúsið, gömul hlaða hvarf algjörlega og um 70 rúmmetrar af heyi sem í henni vori. Ennfremur fuku plötur af 2 metra breiðu bili af fjósþakinu. Anna Helgadóttir sagði í samtali við Morgunblaðið að veðrið hefði verið verst um klukkan hálf eitt aðfaramótt mánudagsins [15.] en hefði verið farið að ganga niður um klukkan fimm. Anna sagðist hafa búið á Uppsölum í 40 ár og aldrei fyrr upplifað annan eins veðurofsa og þann sem var aðfaranótt mánudagsins. Anna sagði ennfremur að vindáttin hefði verið austlæg sem mjög sjaldan er slæm á Uppsölum en venjulegast er suðvestanáttin langverst.
Á Hjallalandi fuku járnplötur af fjósþakinu. En á þriðjudagsmorgun [16.] fauk þakið af fjárhúsunum á Hjallalandi af í heilu lagi og fylgdu garðarnir með. Af þessum sökum hafa ábúendur á Hjallalandi þurft að flytja um 110 kindur að bænum Hnausum í Sveinsstaðahreppi. Að undanförnu hefur verið mjög vindasamt í Húnaþingi en mjög bundið staðháttum hversu illskeytt veðrið hefur verið. Jón Sig.
Tíminn segir af sjóslysi 20.desember:
Tjaldur ÍS-116 fórst á Ísafjarðardjúpi á fimmtudagskvöld [18.desember]. Þriggja manna áhafnar bátsins er saknað. Báðir gúmmíbjörgunarbátar Tjalds fundust mannlausir í gær og einnig brak úr bátnum. Veður var fremur'gott á svæðinu þegar báturinn fórst. Giskað hefur verið á að báturinn hafi fest veiðarfæri í botni og bátnum hafi hvolft, a.m.k. þykir ljóst að slysið hafi orðið mjög snögglega.
Mikil sjóslys og eftirminnileg urðu um jólin. Flutningaskipið Suðurland fórst djúpt norðaustur af Langanesi, sex menn fórust, en fimm var bjargað á jóladag. Á annan jóladag fórust 12 menn er breskt skip strandaði og sökk við Skrúð.
Kortið sýnir veðrið á aðfangadagskvöld jóla þegar Suðurlandið sökk. Mjög kröpp lægð gekk þar yfir og ekki víst að endurgreiningin sem kortið er gert eftir sýni fullan styrk veðursins.
Morgunblaðið segir af sjóslysunum miklu í pistlum 28.desember:
Þórshöfn, frá fréttamönnum Morgunblaðsins Árna Johnsen og Agnesi Bragadóttur. Átta skipverjar af Suðurlandi, sem sökk á jóladagsnótt í hafinu milli Íslands og Noregs, komust í gúmbjörgunarbát við illan leik. Laskaðist hann mikið í hafróti við skrokk skipsins sem var komið á hvolf og við það að sökkva. Þá kom gat á botn bátsins og yfirbreiðslan rifnaði öll í tætlur. Í þessu rekaldi höfðust skipbrotsmennirnir við hátt á elleftu klukkustundir.
Öll áhöfn breska tankskipsins Syneta, 12 manns, drukknaði aðfaranótt annars dags jóla eftir að skipið strandaði við klettinn Skrúð í mynni Fáskrúðsfjarðar laust fyrir miðnætti á jóladagskvöld. Níu menn fundust á floti í sjónum og náðust sjö þeirra um borð í skip og báta, sem stefnt var á strandstað. Einn skipverjanna var með lífsmarki en meðvitundarlaus er hann fannst. Hann lést skömmu síðar. Sex mannanna voru látnir þegar þeir náðust. Syneta strandaði við norðausturhorn Skrúðs er það var á leið til Eskifjarðar frá Liverpool á Englandi til að lesta loðnulýsi, sem sigla átti með til Rotterdam í Hollandi og Dunkirk í Belgíu.
Lýkur hér umfjöllun hungurdiska um veður og tíðarfar ársins 1986. Allskonar talnanefni er í viðhenginu. Hér að neðan er pistill um smálægðir sem gengu yfir landið aðfaranótt 11. desember þetta ár - úr hillulager ritstjóra hungurdiska - en eru í raun aukaatriði.
Þann 9. desember var mjög djúp lægð suðaustan við Grænland, hún þokaðist eftir það til norðausturs og grynntist. Kortið sýnir stöðuna snemma morguns þann 11. Takið eftir því að jafnþrýstilínur liggja jafnt í kringum lægðarmiðjuna, endurgreiningin sér enga smásveipi.
Hitamyndin hér að ofan sýnir stöðuna síðdegis þann 10. Þá var lægðin farin að grynnast. Sjá má skýjasveipi - og benda örvar á þá. Einn skýjabakki fer reyndar á undan, hann er merktur (dauft) með bókstafnum A. Skýjasveipir þessir verða til þegar lægðin fer að grynnast. Hin stóra hringhreyfing lægðarinnar brotnar þá upp í smærri einingar vegna þess að iða kerfisins varðveitist þótt þrýstikraftar geti ekki haldið loftinu í hinni stóru hringhreyfingu lægðarinnar. Ritstjóri hungurdiska vitnar gjarnan í Formúlu eitt kappaksturinn í þessu sambandi. Stöku sinnum renna bílar þar til í breiðum og löngum beygjum. Núningskraftar og stýrisbúnaður bílsins halda þeim á brautinni. Missi hjólin tak við brautina fara bílarnir skyndilega að snúast í kringum miðju sína, jafnvel marga hringi nái þeir ekki festu eða lendi á einhverju. Mjög algengt er að sjá svipað gerast í stórum lægðum - þegar þær grynnast skiptast þær upp í margar smærri einingar.
Það sem hins vegar var óvenjulegt í þessu tilviki var að sveipirnir tveir (1 og 2) lögðu báðir leið sína beint yfir Reykjavík snemma að morgni þess 11. - einmitt þegar kortið af ofan gildir.
Glöggt má sjá þá á þrýstirita Reykjavíkurstöðvarinnar. Loftvog féll mjög mikið á í hverjum sveip um sig og steig jafnharðan. Í síðara tilvikinu um 14 hPa á 3 klst. Talsvert hvessti, en ekki varð þó tjón.
Á kortinu hér að ofan má sjá braut þrýstistigsins sem fylgdi síðari sveipnum - og þar með braut hans. Hann kom að fullu afli inn yfir Reykjanesskagann milli kl.6 og 7 (rauðar jafn- eða samtímalínur), en heildregnu línurnar sýna hversu mikið loftþrýstingur hækkaði á 3 klukkustundum eftir að sveipurinn fór yfir. Mest var hækkunin í Reykjavík, 14 hPa, eins og áður sagði, 11 hPa á Keflavíkurflugvelli, en aðeins 5 norður á Akureyri.
Skemmtilegt dæmi sem fannst í hrúgunni hjá ritstjóra hungurdiska. Spurning hvernig líkön nútímans tækju á þessum sveipum - er líklegt að réttar þrýstispár myndu ofmeta vindinn?
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (15.3.): 17
- Sl. sólarhring: 123
- Sl. viku: 1579
- Frá upphafi: 2452685
Annað
- Innlit í dag: 17
- Innlit sl. viku: 1459
- Gestir í dag: 16
- IP-tölur í dag: 16
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Mars 2025
- Febrúar 2025
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning