Drjúgur pistill um áhrif Grænlands

Við rifjum nú upp fornan pistil hungurdiska - sem endaði á orðunum „ég er að hugsa um að endurtaka þetta síðar eða bæta í, nóg er efnið“. Lesendur hungurdiska munu kannast vel við innantóm loforð af þessu tagi - þau eru víst drjúgmörg. Það sem hér fer að neðan er að mestu leyti samhljóma eldri pistli, en þó er bætt við skýringarmyndum og smávægilegar lagfæringar gerðar - vonandi til bóta - en ekki endilega.

Grænland hefur gríðarleg áhrif á veðurfar við norðanvert Atlantshaf og þar með hér á landi. Áhrifin einskorðast ekki við lofthjúpinn heldur sjávarhringrás líka. Austur-Grænlandsstraumurinn ber með sér bæði hafís og kaldan sjó til landsins, í mestu hafísmánuðum verður Ísland eins konar skagi út úr miklu meginlandi norðurheimskautsins. 

Því er stundum haldið fram að miklum kuldum stafi frá Grænlandsjökli og Grænland sé þannig eins konar kuldalind. Rétt er þó að tala varlega um slíkt, því oftar er málum öfugt farið. Loft kólnar að sönnu mikið yfir hájöklinum og streymir niður til allra átta, en við að falla niður til sjávarmáls hlýnar það um 20 til 30 stig. Loftið í kringum Grænland er líka stöðugt að kólna og hiti þess er því oftast lægri heldur en hiti loftsins sem streymir beint ofan af jöklinum.

Líkanreikningar hafa leitað skýringa á því hversu hlýtt er hér á landi miðað við breiddarstig. Loft- og sjávarstraumar valda langmestu (kemur ekki á óvart), en hins vegar má það koma á óvart er að hin lóðrétta hringrás sem kólnunin yfir jöklinum og þar með fallvindarnir niður af honum ná að eiga hlut í hlýindunum. Tvennt kemur til:

Loft sem annars hefði legið einskis nýtt í háloftum lendir í niðurdælingu yfir jöklinum og hluti þess leitar yfir Ísland og getur þar blandast niður í hvössum vindum yfir fjöllum hér. Kalda loftið af jöklinum kemst þó sjaldnast niður að sjávarmáli. Loft streymir nú samt niður eftir jöklunum. þar til það mætir kaldara lofti neðan við. Í stað þess togast efra loft niður og hlýnar það einnig þurrinnrænt (1°C/100 metra lækkun). Þetta niðurstreymi verður til þess að veðrahvörfin dragast niður og úr verður lægðarsveigja sem bætir heldur í sunnanátt á Íslandi og veldur því að hér er hlýrra en væri ef Grænland væri lágslétta nærri sjávarmáli - auk blöndunaráhrifanna áðurnefndu.

Sömuleiðis hindrar Grænland að loft frá nyrstu eyjum Kanada streymi til landsins. Kalt loft er þungt og það rekst á vegg við Grænland og verður að fara umhverfis það. Við fáum oft að kynnast lofti sem kemur að norðan meðfram austurströnd Grænlands. Það er miskunnarlítið, en loftið sem ætlar syðri leið verður að fara suður fyrir Hvarf og þar með fara yfir hlýjan sjó sem dregur mjög úr kulda þess, þó að vísu sé það oftast heldur hráslagalegt. 

Kuldinn sem fylgir Grænlandi er því ranglega kenndur því, en réttilega ísasvæðinu austan þess.

Þótt háhryggur Grænlands sé ekki „nema“ 2 – 3 þúsund metra hár hefur hann veruleg áhrif á framrás lofts í báðar áttir. Þegar vindur í neðri hluta veðrahvolfs er austlægur myndar Grænland fyrirstöðu og neyðir vind til að beygja úr austlægri í norðaustlæga stefnu (norðlæga norðan sjötugasta breiddarbaugs). Þar sem (grunnar) austanáttir eru tíðar á heimskautasvæðunum liggur kaldur norðan- og norðaustanstrengur langtímum saman meðfram Grænlandi, oft á skjön við þrýstilínur nærri ströndinni. Ganga má svo langt að kalla þetta hið eðlilega ástand á svæðinu. Þessi norðlægi straumur getur einnig drifið sig sjálfur ef svo má segja, án þess að vindur úr austri þrengi að. Slík norðanátt er þó að jafnaði hæg.

En þegar þrengir að strengnum mjókkar hann, en þykknar jafnframt og verður stríðari. Mörg illviðri hér á landi tengjast þessum streng og við viljum gjarnan kalla ástandið Grænlandsstíflu. Loftið sem kemur þá að landinu á sér oft mjög norðlægan uppruna og telst þá oft sérstakur loftmassi sem upphaflega er ekki eiginlegur hluti af hringrás lægðarinnar sem veldur suðaustan- eða austanáttinni sem þrengir að strengnum.

Nokkuð skörp skil verða þá á milli norðlæga loftsins annars vegar og þess sem sækir að úr austri. Freistandi er þá að teikna skil á kort, en hvers konar skil eru það? Þau tengjast oft engum lægðum. Við þessi skil má stundum sjá éljagarða sem eru mörg hundruð kílómetrar á lengd, ná frá Jan Mayen og langleiðina til Svalbarða. Kalsalægðir (öfugsniðnar) geta birst við þessa garða. [Við notum hér heitið „kalsalægð“ yfir erlenda hugtakið „Polar Low“, öfugsniðin kalsalægð er það sem á erlendum málum heitir „reverse shear polar low“). 

Stundum verður Ísland fyrir því að stífla sem verið hefur við Grænland norðaustanvert „brestur“ og kalda loftið fellur suður um Ísland, þá má oft greina eins konar kuldaskil við syðri brún kalda loftsins, skil sem eru ekki tengd neinni eiginlegri lægð. Þó myndast stundum kalsalægðir í þessu lofti eftir að það er komið suður fyrir land og valda þær leiðindum á Bretlandseyjum. 

Þegar loft kemur að Grænlandi úr vestri (mjög, mjög algengt) rekst það á fjalllendið. Það fer síðan eftir stöðugleika (og fleiru) hvernig framhaldið verður. Sé loftið stöðugt stíflast framrás loftsins og það leitar að jafnaði suður með landi og fyrir Hvarf. Sé þetta loft kalt fréttir austurströnd Grænlands (og Ísland) lítið af kuldanum fyrir vestan. Sé það óstöðugt gerist það sama - nema að óðstöðugleikinn nái hærra heldur en jökullinn (ekkert sérlega algengt). Það gerist ekki nema þegar loftið er afspyrnukalt upp í margra kílómetra hæð. En þá fréttist aldeilis af kalda loftinu. Það fer þá yfir jökulinn sem ekkert sé og fellur niður austurströndina í ofsastormi sem Grænlendingar kalla Piteraq. Ekkert getur bjargað málunum nema að loftið austan við sé enn kaldara en það sem að vestan kemur.

Við erum því með ýmis tilbrigði þess hvað verður þegar loft kemur að Grænlandi að vestan.  Algengt er að niðurstreymi sé austan Grænlands í vestanátt, loft í niðurstreymi hlýnar, en vegna þess að loft í neðri lögum austan við er fremur kalt, nær niðurstreymið aldrei til jarðar en niðurstreymishitahvörf myndast við efra borð kalda loftsins. Er eins og teppi hafi verið lagt yfir það loft sem neðst liggur. Þá þornar oft og léttir til hér á landi, á sumrin hlýnar jafnvel þó kuldaskil fari yfir. Rakastig getur fallið nokkuð rösklega.

Hér á hungurdiskum höldum við upp á þykktina, stikann sem mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Hæstu þykktartölur sem sjást í tölvuspám hér við land eru oftast tengdar niðurstreymi við Austur-Grænland að sumarlagi. Þar sést hinum afskaplega sjaldséðu 5700 metrum bregða fyrir. Nánast vonlaust er þó að ná þessu lofti yfir til Ísland og þar að auki ná því niður - vonbrigðaveður. 

Lægðardrög myndast gjarnan milli Ísland og Grænlands þegar vestanátt ef yfir Grænlandi  og hangir þar fast vegna þess að það er bundið niðurstreyminu. Þá snýst vindur til suðvestanáttar hér á landi og algengt er að þokusudda reki þá að vestanverðu landinu. Þá kemur upp sú aðstaða að suðvestanáttin sem getur verið býsna hlý á vetrum er samt kaldari en niðurstreymisloftið sem myndar teppið.

w-blogg110225d

Efri hluti myndarinnar á að sýna teppi, þversnið frá vestri til austurs (austur lengst til hægri). Loft streymir ofan af Grænlandsjökli, en það er ekki nógu kalt til að hreyfa við enn kaldara lofti sem liggur meðfram ströndinni - það loft er e.t.v. komið alla leið úr norðurhöfum - eða hefur farið suður fyrir Hvarf. Teppið er oft ofan Íslands. Veðrahvolfið bólgnar þegar loftið hlýnar og halli myndast á veðrahvörfunum (rauð lína). Af hallanum getum við ráðið að vindur þar uppi blæs inn í myndina, þar er suðlæg vindátt. 

Sé loftið austan Grænlands hins vegar hlýrra en það sem er á leið yfir jökulinn kemst kalda loftið alveg niður að sjávarmáli austan við og myndast þá mjög kröftug lægð milli Íslands og Grænlands. Sé fallið mjög víðtækt og stórfellt dragast veðrahvörfin mjög niður, og lægð getur myndast. Stundum má sjá straumstökk, mikla lyftingu veðrahvarfanna rétt austan við niðurstreymið, þar uppi kólnar loft þá mjög og oft má sjá mikinn skýjafald myndast. 

Sé málum öðrum þannig háttað að lægðin sem þarna myndast - eða styrkist er á leið til norðausturs gerir venjulega útsynningsillviðri með tilheyrandi særoki hér á landi. Úrkoma er þá lítil vegna þess hvað loftið sem fellur niður af Grænlandi verður þurrt. Þó það fari síðan yfir hlýjan sjó til Íslands nær það ekki að rakamettast vegna þess hve hvasst er (tími hvers loftbögguls yfir sjónum er lítill).

Sé háloftabylgjan á leið suðaustur á hún sem slík mun meiri vaxtarmöguleika. Fer það eftir braut bylgjunnar hvað gerist við Ísland. Ef hún er norðarlega gerir norðanáhlaup. Fari hún yfir mitt Grænland getur fyrst gert suðvestanátt en síðan norðaustanáhlaup. Einnig festast lægðirnar stundum á Grænlandshafi og losna ekki. Þá dælist suðlægara loft til Íslands.

Stundum þegar Grænland stíflar framrás kulda úr vestri nær loftið að krækja suður fyrir í mikilli vindröst sem getur náð til Íslands (þó algengara sé að hún haldi til austurs fyrir sunnan land). Loftið sem fer þessa leið mætir þá lofti sem annað hvort hefur lent í niðurstreymi austan Grænlands og er þá þurrt og tiltölulega hlýtt, eða þá hefur sigið suður austan Grænlands og er mjög kalt. Við skilyrði af þessu tagi myndast gjarnan élja- eða vindgarðar frekar en lægðir yfir Grænlandshafi.

w-blogg110225c

Rissið á myndinni tekur saman helstu punkta hér að ofan. Bláu línurnar eru hið „eðlilega ástand“. Allt er í jafnvægi kalt loft leitar sína leið suður með Austur-Grænlandi. Loft sem kemur að vestan hefur oftast tilhneigingu til að beygja fyrir Hvarf, þar er vindröst sem síðan dreifir úr sér á Grænlandshafi (ljósbláar örvar). Græna örin sýnir hvernig háloftavindar sveigja þegar mikið af köldu lofti fellur niður við Austurströnd Grænlands (Piteraq). Rauða örin sýnir mun algengara ástand, loft að vestan lyftist yfir Grænland, en kemst ekki niður hinu megin og býr til teppi. Gráa örin á að minna okkur á stíflumyndunina, oftast eru stífluáhrifin mest yfir Grænlandssundi, en mjög mörg mjög slæm illviðri hér á landi eru stífluættar. 

w-blogg110225e

Hér má sjá - til minnis - nokkrar lægðabrautir við Grænland. Lægðir sem koma frá Labrador fara oft norður með vesturströnd Grænlands (iii-a) og oft klofna nýjar lægðir frá þeim við Hvarf. Þessar nýju lægðir fara sína leið, stundum austur, en alloft beint til Íslands líka. Norðanlægðirnar eru einkum þriggja gerða. Þær sem koma beint úr norðri og halda nánast beina leið til suðurs (iv-a), en hlykkjast síðan suðaustan við Ísland (því Ísland er ekki áhrifalaust). Þetta eru oft hættuleg veður - og voru enn hættulegri hér áður fyrr fyrir tíma tölvuspáa og enn frekar fyrir tíma veðurskeyta. Gera lítil boð á undan sér, jafnvel skýlausar. Liggi háloftastraumar yfir Grænland kemur oftast hlykkur á þá þegar loftið fer að falla niður af jöklinum (og suðurstefnan hjálpar til, iv-b). Sé leið lægðarinnar svipuð og merkt er iv-c eru líkur til að suðaustanátt nái sér á strik við Ísland þegar lægðin dýpkar á Grænlandshafi. 

En Grænland hefur líka áhrif á vindáttatíðni við Ísland. Við rifjum hér upp gamla mynd sem sýnir áttatíðni ofviðra á Íslandi.

w-blogg110225f

Reiknuð er út meðalvigurstefna vinda á landinu þegar illviðri ganga yfir - og hún sett fram sem vindrós lögð ofan á kort af svæðinu. Eftirtektarvert er hversu lítið er um illviðri á áttabilinu hávestur yfir í norðnorðvestur - og einnig úr hreinni suðaustanátt (yfir öllu landinu). Hér má sjá áhrif bæði Grænlands og Íslands. En sennilega er kominn tími á að endurnýja þessa mynd. 

Við látum hér staðar numið (og lofum ekki framhaldi - það ræðst bara). 

 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tíu og sautján?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • w-blogg110225f
  • w-blogg110225e
  • w-blogg110225c
  • w-blogg110225d
  • w-blogg110225b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (12.2.): 51
  • Sl. sólarhring: 660
  • Sl. viku: 3049
  • Frá upphafi: 2443729

Annað

  • Innlit í dag: 46
  • Innlit sl. viku: 2611
  • Gestir í dag: 45
  • IP-tölur í dag: 45

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband