Smávegis af illviðrinu á dögunum

Illviðrið á dögunum skoraði mjög hátt á öðrum illviðravísi ritstjóra hungurdiska, þeim sem hann kennir fremur við snerpu heldur en úthald. Úthaldsvísirinn var að vísu nokkuð hár líka, en það spillti fyrir honum (ef svo má segja) að veðrið var ekki nema rúmlega sólarhrings langt, skiptist á tvær dagsetningar, hefði skorað betur hefði það hitt betur í. Úthaldsvísirinn mælir meðalvindhraða sólarhringsins í byggðum landsins. Til að vera listatækur þarf meðalvindurinn að ná 10,5 m/s. Hann var 12,0 m/s miðvikudaginn 5., en 11,2 m/s fimmtudaginn 6. 

Til að verða listatækur á snerpulistanum þarf hámarksvindur (10-mínútna meðaltal) að ná 20 m/s á að minnsta kosti fjórðungi veðurstöðva í byggð. Það hefur hann gert þrjá daga það sem af er febrúar, þann 1. fór hlutfallið í 36 prósent, en 69 prósent þann 5. og 64 prósent þann 6. Svo háar tölur sjást aðeins á 3 til 5 ára fresti. 

w-blogg080225a

Á myndinni eru tveir ferlar. Sá rauði (hægri kvarði) sýnir meðal-hámarksvindhraða í byggðum landsins á klukkustundar fresti dagana 28. janúar til 6.febrúar. Við sjáum nokkur vindhámörk þessa daga, mestu topparnir eru þann 1, þegar klukkustundargildið nær 15 m/s og síðan í veðrinu mikla þegar meðal-hámarksvindhraðinn nær 19,4 m/s. 

Dökki ferillinn (bláar súlur) sýnir hins vegar þrýstispönn landsins, mun á hæsta og lægsta þrýstingi sömu klukkustundar. Það kemur varla á óvart að ferlarnir tveir falla saman að mestu, enda ræður bratti þrýstisviðsins mestu um vindhraða. Mest fer þrýstispönnin í 33,6 hPa síðdegis á miðvikudag. Þessi einfaldi kvarði hefur þann ókost að hann segir ekkert til um fjarlægðina sem spönnin nær yfir. Sambandið er því ekki alveg það sama í vestlægum/austlægum áttum og norðlægum/suðlægum vegna þess að landið er lengra frá austri til vesturs heldur en frá norðri til suðurs. Með lipurri forritun mætti þó lagfæra þennan ókost. 

Þótt þétting þrýstiathuganakerfisins á undanförnum 20 árum valdi því að spönnin vaxi lítillega getum við samt notað það samband sem við finnum nú til að meta ýmis eldri veður, óháð öðrum upplýsingum, jafnvel langt aftur í tímann, áður en vindhraðamælingar urðu jafn áreiðanlegar og samfelldar og nú er. 

Við minnum á metingspistil Veðurstofunnar um illviðrið, þar má einnig lesa um vel heppnaðar spár. Við notum einnig tækifærið til að minna á gamlan pistil hungurdiska um halaveðrið svokallaða, en í dag, 8. febrúar eru einmitt 100 ár frá því það gekk yfir landið.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Hver er summan af þremur og átján?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Feb. 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28  

Nýjustu myndir

  • vattarnes klippa landmaelingar atlasblad gerpir
  • w-blogg090225a
  • w-blogg080225a
  • w-blogg080225a
  • austurland franskt 1833 dk001474 klippa-stodvarfjordur

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.2.): 9
  • Sl. sólarhring: 695
  • Sl. viku: 2533
  • Frá upphafi: 2442425

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 2131
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband