Línurit enn - sólskinsstundafjöldi

Línuritaskriðan rennur enn frá lyklaborði ritstjóra hungurdiska (og langt í lok hennar). Í þetta sinn lítum við á sólskinsstundafjölda ársins í Reykjavík og á Akureyri frá upphafi mælinga. 

Geta verður þess að búast má við því að einhverjar ósamfellur séu í gagnaröðunum. Mælar hafa verið fluttir nokkrum sinnum á báðum stöðum og nú hin allra síðustu ár var skipt um mæligerð. Auk þess hefur pappír í mælunum ekki alltaf verið eins. Slæðing af mánuðum vantar í mælingar á Akureyri. Ritstjórinn hefur leyft sér að skálda í þær eyður með aðstoð skýjahuluathugana. Einhver óvissa verður af slíku, en ekki þó stórfelld. Við trúum því mælingunum í öllum aðalatriðum. 

w-blogg250125b

Línuritið sýnir gögnin úr Reykjavík. Við leyfum okkur að láta mælingar sem gerðar voru á Vífilsstöðum 1911 til 1921 fylgja með. Þær eru ekki ótrúverðugar, t.d. er ljóst að mikið sólarleysi var á árinu 1914. Við megum taka eftir miklu sólskini flest árin 1924 til 1931. Þennan tíma voru mælingar reyndar gerðar við Skólavörðustíg, en fluttust þá í Landssímahúsið og voru þar til 1945 - þá var flutt í Sjómannaskólann og mælt þar, þar til 1973. Skiptin árið 1931 gætu verið grunsamleg - en við gerum samt ekki veður út af þeim. Áberandi mest sólarleysi var á árunum 1983 og 1984, hin eftirminnilegu rigningasumur. Og mjög sólríkt var öll árin frá 2005 til 2012, átta ár í röð - og svo aftur 2019, en rýrara þar á milli. Síðustu tvö ár hafa einnig verið fremur sólrík, þó ekki nái þau alveg sólríkasta flokknum. 

w-blogg250125c

Sama mynd fyrir Akureyri - en ekki er byrjað fyrr en 1928. Reynt var við sólskinsmælingar fyrr á Akureyri, en eitthvað gekk ekki upp. Það er sama og í Reykjavík, mælingarnar hafa verið fluttar til hvað eftir annað. Langsólríkast var árið 2012 - mikið þurrkasumar og síðan afskaplega eftirminnilegt hausthret. Einnig hefur verið til þess að gera sólríkt síðustu fimm árin - kann það að tengjast nýrri mæliaðferð - (kemur vonandi í ljós síðar hvort svo er). Áberandi er að mjög sólrík ár komu mörg í röð frá 1974 til 1978 - þá báru norðlendingar sig vel, sumrin 1975 og 1976 voru í allrablautasta lagi syðra. Sérlega sólarlaust var 1943 - það sumar var afskaplega dauft og kalt á Norðurlandi. 

Að lokum - í þessari sólarsyrpu - lítum við á algjörlega ólöglegt línurit (aðeins til skemmtunar). Það segist sýna meðalskýjahulu á landinu allt aftur til 1875 - í 150 ár (býður einhver betur?). Hér er mjög margs að gæta. Í fyrsta lagi sýna gagnaraðir glögglega að mat einstakra veðurathugunarmanna á skýjahulu er óþægilega misjafnt, man ritstjórinn of mörg dæmi slíkra ósamfella. Í öðru lagi var skýjahula lengi athuguð í tíunduhlutum en ekki áttundu eins og nú er gert. Þótt við eigum samanburð frá allmörgum stöðvum (sem notaður er við súpugerðina sem myndin sýnir) er öruggt að þessi breyting spillir samfellu raðarinnar. Leitnin sem hún virðist sýna er líklega af þessum völdum.

w-blogg250125d

Við sjáum að nær engin leitni er frá því um 1950 (1949) til okkar daga, hún kemur mestöll fram í einu þrepi þar næst á undan - einmitt þegar skiptin á milli tíundu- og áttunduhluta á sér stað. En e.t.v. má eitthvað lesa úr breytingum frá ári til árs. Við vitum t.d. að árið 2012 var mjög þurrt og sólríkt - þá var skýjahula óvenju lítil - hún var hins vegar mikil  árið 2014 - og nærri meðallagi í fyrra. Við vitum líka að árið 1928 var líka óvenjusólríkt - og fleiri ár þar um kring - skera sig úr öðrum árum. Þrepið árið 1949 er mjög áberandi - það er einmitt árið þegar endanlega var skipt um lykil - og tíunduhlutarnir hurfu úr gögnunum. Um þetta vandamál hefur reyndar verið fjallað á hungurdiskum áður (með einhverju óljósu loforði um frekari umfjöllun - sem auðvitað hefur verið svikið). 

Ritstjóri hungurdiska trúir því einlæglega að það séu breytingar á athugunarháttum sem í raun og veru valda leitninni sem svo greinilega sést á myndinni, þetta sé því sýndarleitni. Til eru þeir sem ekki trúa því að hlýnað hafi hér á landi af völdum breytinga á efnasamsetningu lofthjúpsins. Þeir eru þekktir fyrir að halda því fram að hitaleitnin sem við sjáum svo greinilega í öllum athugunarröðum sé sýndarleitni, byggist á breyttum athugunarháttum. Að benda þeim á þessa mynd er dálítið eins og að siga á foræðið - en gefum þeim hér með kost á annarri skýringu. Mælingar sýna að hér á Íslandi eru skýjaðir dagar hlýrri en léttskýjaðir nær allt árið. Það er aðeins fáeinar vikur að sumarlagi sem sólarylur skiptir meira máli heldur en skýin ef halda á hinni miskunnarlausu kælingu útgeislunarójafnvægisins í skefjum - aðeins lengri tími ársins á Norðurlandi heldur en syðra. [Um þetta má lesa í gömlum hungurdiskapistli]. Nú er boðið upp á þann valkost að „skýra“ hlýnunina sem aukningu í skýjahulu - en ekki auknum gróðurhúsaáhrifum. Hvað það þá er sem veldur aukningu skýjahulunnar (?) er þá önnur spurning - sem þyrfti að svara - gjörið svo vel. 


« Síðasta færsla

Athugasemdir

1 identicon

Sólskinsstundir og hitamælingar.

Skiptir það máli hvar hitamælingar eru framkvæmdar?

Ef þær mælingar hafa í raun ekki samrýmst vísindalegum viðurkenndum aðferðum, er ekki mál til komið að endurskoða vísindin?

Kannski hafði Freeman Dyson alltaf rangt fyrir sér?

L (IP-tala skráð) 25.1.2025 kl. 23:40

2 identicon

Ísland fer kólnandi.

Fer ekki framhjá neinum yfir fimmtugt.

Spá á aldrei að geta umbreitt heiminum eða innleiða fasisma.

L (IP-tala skráð) 25.1.2025 kl. 23:46

Bæta við athugasemd

Hver er summan af fimm og einum?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg250125d
  • w-blogg250125c
  • w-blogg250125b
  • w-blogg250125a
  • w-blogg220125id

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.1.): 8
  • Sl. sólarhring: 257
  • Sl. viku: 2262
  • Frá upphafi: 2436819

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 2053
  • Gestir í dag: 6
  • IP-tölur í dag: 6

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband