Skaðræðislægð stefnir á Írland

Spár gera nú fyrir að skaðræðislægð skelli á Írlandi og víðar á Bretlandseyjum aðra nótt (aðfaranótt föstudags 24.janúar 2025). Spárnar eru þó auðvitað ekki alveg sammála um afl hennar. Írar kalla lægðina Éowyn - ekki veit ritstjórinn hvaða kyns það nafn er - og ekki er framburðurinn honum tamur - en það skiptir engu. 

w-blogg220125a

Hér má sjá spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir nú kl.18 síðdegis - miðvikudaginn 22.janúar. Mikil háloftalægð (Stóri-Boli) er við Baffinsland og beinir gríðarlega köldu lofti út á Atlantshaf. Á kortinu má sjá daufar strikalínur - jafnhitalínur í 850 hPa-fletinum. Þær liggja um það bil þvert á vindstefnu sunnan Grænlands (vindstefnuna ráðum við af legu jafnþrýstilína). Þegar kemur suður af Grænlandi dreifir kalda loftið úr sér og við það dragast veðrahvörfin ofan við niður og við það bætir í háloftavind sunnan köldu útrásarinnar. Hlý bylgja úr suðvestri gengur síðan í átt til þessara lækkuðu veðrahvarfa - og þá getur fjandinn orðið laus. Á þessu korti er lægðin enn grunn, rétt um 1000 hPa í miðju sunnan Nýfundnalands, en gengur nú á móts við veðrahvörfin lágu og hitti hún rétt í stefnumótið lendir hún í óðadýpkun, á að dýpka í kringum 50 hPa á sólarhring. 

Jú, ritstjóri hungurdiska hefur að vísu séð slatta af svona lægðum áður, en minnist þess þó varla að hafa séð slíka fara svo illa að ströndum Írlands. Vindspárnar eru mjög rausnarlegar, fárviðri við ströndina og jafnvel beint in flóann vestur af Galway við Araneyjar - sem e.t.v. verja Galway flóðum (en ritstjórinn er ókunnugur á þessum slóðum og veit ekkert um flóðahættu - og -háttu þar. 

Þessi kuldaútrás Stóra-Bola hefur einnig áhrif hér á landi. Við sjáum á kortinu að kuldinn er að baki skila sem nálgast landið. Það er löng leið frá Kanada og yfir úthaf að fara þannig að loftið hefur hlýnað að mun þegar hingað kemur. Hiti mun vera ofan frostmarks á undan skilunum, en nærri frostmarki á eftir þeim. Svona skil eru til alls líkleg hvað snjókomu ræðir - sem stendur er ekki spáð mikilli snjókomu á bakhlið skilanna, en það er nú samt rétt að gefa slíkum möguleika gaum. Írlandslægðin mun síðan senda pakka af hlýrra lofti hátt yfir landið seint á föstudag og laugardag. Þá kemur eitthvað hik á skilin - og ekki alveg ljóst hvað úr verður. 

Fleiri lægðir - en aflminni þó eru síðan á svipaðri braut næstu daga. Reiknilíkön ná vonandi betri tökum á þeim þegar nær dregur. En þetta er mikið brak sem verður úr atburðum sem þessum og hristir hann upp í veðri á mjög stóru svæði. 

Eftirfarandi athugasemd barst frá Ingólfi Sigurðssyni - og er ég þakklátur fyrir hana: „Éowyn, kvenmannsnafn, er af keltnesk-brezkum uppruna og þýðir "vinkona hests", "stríðshestsgleði". J.R.R. Tolkien bjó til þetta nafn uppúr gelísku og fornensku. birtist í Lord of the Rings, er nú orðið kvenmannsnafn almennt. Borið fram Ei-ó-ven“.

Af þessu telur ritstjórinn mega ráða að wyn sé þá væntanlega sama orð og okkar „vin“.

Viðbót fimmtudaginn 23.janúar:

Lægðin hegðar sér enn eins og gert var ráð fyrir í gær. Ritstjórinn notar (í ábyrgðarleysi sínu) tækifærið og sprautar þunnri fræðafroðu yfir ritvöllinn. Kannski ekki til eftirbreytni, en það er samt rétt hugsanlegt að einhver lesi sér til einhvers gagns - en kannski ekki nema einn. Já, varað er við textanum - nánast óskiljanlegur. 

w-blogg220125ia

Fyrst verður fyrir svokölluð vatnsgufumynd af vef Veðurstofunnar. Vatnsgufumyndir nema varmageislun á því tíðnisviði sem vatnsgufa sendir út á. Á hvítu svæðunum byrgir vatnsgufa alveg sýn til jarðar, oftast er þar bæði mikið af henni og að auki er hún mjög köld. Á myndinni má einnig sjá mjög dökk svæði - þar er lítið af vatnsgufu - stundum vegna þess að loft úr heiðhvolfinu hefur dregist niður (og blandast). Heiðhvolfið er skraufþurrt. Þetta gerist í ört dýpkandi lægðum - og bletturinn sem fylgir lægð dagsins er bæði stór og svartur. Veðurfræðingar tala um þurru rifuna (dry slot á ensku - vilji einhver fletta hugtakinu upp og fræðast frekar um það og tilurð þess). Örin bendir á stöð nærri lægðarmiðjunni - eða rétt aftan viðhana. Á undan fer allmikil hvít klessa - skýjahaus óðalægðarinnar. Þar er hins vegar uppstreymi (og streymir loft reyndar út til allra átta þar uppi - rétt eins og að undir þurru rifunni streymir kalt loft út til allra átta - það er það úrstreymi sem „veldur“ niðurdrættinum - rétt eins og efra úrstreymið veldur þrýstifalli og uppstreymi á undan lægðarkerfinu. Við sjáum líka mjög hvítt skýjaband sem fylgir heimskautaröstinni - skörp brún þar á milli uppstreymis (hvítt) og niðurstreymis (svart) - í löngum hala á eftir lægðinni. Óstöðugleiki rastarinnar verður að bylgju - sem verður að lægð.

w-blogg220125ib

Næsta kort könnumst við betur við. Hér má sjá samspil 500 hPa hæðar og þykktar. Hlýju lofti er snúið inn undir lág veðrahvörf (sem hæð 500 hPa-flatarins er góður fulltrúi fyrir) - mikið misgengi er milli jafnhæðarlína og jafnþykktarlína - loftið er mjög riðið sem kallað er (áberandi möskvar myndast á milli þessara tveggja gerða lína) - óskastaða fyrir lægðardýpkun. Við sjáum að í hlýjasta loftinu eru nær engar jafnþykktarlínur - þar ná háloftavindar nær jörðu heldur en annars staðar. Ritstjórinn kallar það rastarhes (já) - hangir eins og hes neðan úr röstinni. Á smábletti norðvestan við lægðarmiðjuna eru jafnþykktarlínurnar nægilega þéttar til þess að upphefja háloftavindinn alveg - þar er norðlæg átt vestan lægðarmiðjunnar. 

w-blogg220125ic

Þá er komið að öllu erfiðara korti. Það sýnir iðu í 500 hPa hæð - iða er náskyld því sem bílamenn kalla stundum „tork“ - það er eins með þessi fyrirbrigði þau vilja varðveitast. Lúmskasta iðan er jarðsnúningurinn sjálfur - við snúumst hring í kringum sjálf okkur einu sinni á sólarhring - vegna þess að við erum ekki á sífelldri hreyfingu á milli breiddarstiga verðum við ekki vör við þennan snúning - en loft á mikilli ferð verður það hins vegar óhjákvæmilega. Loft á leið suður - á suður þar sem jarðiða er minni en norðar man sitt fyrra breiddarstig og eykur við hægrihandarsnúning (lægðarsnúning) - en loft sem fer norður dregur úr honum (fer í hæðarsnúning). En iða lofts getur legið í leyni (rétt eins og okkar eigin). Til eru mælitölur fyrir það sem kallað er iðumætti - við þurfum ekki hér og nú að ná tökum á slíku - en gott er að vita að í heiðhvolfinu er mikill iðugeymir - þar er nánast ótakmarkað framboð a iðumætti (mættisiðu) niðurdráttur á veðrahvörfunum losar um og breytir iðumættinu í snúning. Á kortinu sjáum við að rauði flekkurinn nærri lægðarmiðjunni er á sama stað og þurra rifan - þar er iða úr heiðhvolfinu á ferð og snúningur verður að verða til. En iða er aldrei ókeypis - sé henni stolið verður að skila henni aftur. Ákafinn í ferlinu er svo mikill að lægðakerfið borgar með gráa flekknum norðan við  - þar er úttekt í lægðaiðu greidd með hæðarsnúiningi. Stórir dökkgráir flekkir sem þessi fylgja því oftast óðalægðum á ákveðnu þroskaskeiði þeirra - borgað er fyrir snúninginn. Loft ryðst undir veðrahvörfin (haus skýjakerfisins sýnir það ferli) og lyftir þeim - búið er að borga. 

w-blogg220125id

Á síðustu myndinni sjáum við það sama, reiknaður er út mismunur á mættishita við veðrahvörf og jafngildismættishita í 850 hPa-fletinum. Mættishiti segir okkur hver hiti lofts yrði væri það dregið niður til 1000 hPa þrýstings. Jafgildismættishiti sýnir það sama, nema hvað þá er búið að reikna hversu miklum varma þétting raka myndi skila inn í mættishitann. Mismunur sá sem hér er kortlagður sýnir okkur sitt af hverju tagi. Við sjáum t.d. bæði hita- og kuldaskil lægðarinnar, við sjáum brotið í veðrahvörfunum norðan við úrstreymisskjöldinn þar sem verið er að skila iðunni og síðast en ekki síst sjáum við hvernig svonefnd stingröst lægðarinnar er einmitt að verða til - ör bendir þar á. Illviðrið nær hámarksafli um það bil sem stingurinn næri inn í fjólubláa svæðið smáa við lægðarmiðjuna - sú örlagastund er hér skammt undan. 

Þetta var erfiður lestur - og nánast ófær vegslóði - en svona er það. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Ingólfur Sigurðsson

Gott að fá veðurspárnar frá þér. Éowyn , kvenmannsnafn, er af keltnesk-brezkum uppruna og þýðir "vinkona hests", "stríðshestsgleði". J.R.R. Tolkien bjó til þetta nafn uppúr gelísku og fornensku. birtist í Lord of the Rings, er nú orðið kvenmannsnafn almennt. Borið fram Ei-ó-ven.

Eoh þýðir stríðshestur, dregið af equus, latneska hestsheitinu og wyn sem þýðir gleði á fornensku og welsku, skylt unun á íslenzku, unna, Vanir, osfv.

Já kannski eru lægðirnar meiri útaf áhrifum mannsins, hamfarahlýnun.

Ingólfur Sigurðsson, 23.1.2025 kl. 08:07

2 Smámynd: Trausti Jónsson

Bestu þakkir Ingólfur - ég flyt meginhluta skýringar þinnar í aðaltexta - og get uppruna. En lægðir sem þessar eru ekki með öllu óþekktar. Það kemur í ljós þegar veðrið er gengið hjá hvernig samanburður verður.

Trausti Jónsson, 23.1.2025 kl. 12:14

3 Smámynd: Dominus Sanctus.

Nú getum við séð þetta allt live: 

https://www.windy.com/?65.683,-18.080,5

Dominus Sanctus., 24.1.2025 kl. 09:26

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Mars 2025
S M Þ M F F L
            1
2 3 4 5 6 7 8
9 10 11 12 13 14 15
16 17 18 19 20 21 22
23 24 25 26 27 28 29
30 31          

Nýjustu myndir

  • Slide16
  • Slide15
  • Slide14
  • Slide13
  • Slide12

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.3.): 178
  • Sl. sólarhring: 246
  • Sl. viku: 1740
  • Frá upphafi: 2452846

Annað

  • Innlit í dag: 169
  • Innlit sl. viku: 1611
  • Gestir í dag: 166
  • IP-tölur í dag: 164

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband