18.1.2025 | 23:17
Komið að snjóhulunni
Þá er komið að snjóhulunni (á línuritafylleríinu). Það er eins með hana og úrkomuna að athugunarstöðvum hefur farið óþægilega fækkandi á síðustu árum og óvissa þar með aukist. Fari svo sem horfir verður ekki hægt eftir tíu ár að skrifa pistil sem þennan með nýjum gögnum. Jú, það verður (með mjög mikilli fyrirhöfn) hægt að splæsa saman eldri gögn og gervihnattaathuganir, en hver skyldi vilja greiða fyrir það og hver vinna þrælavinnuna? Þessi staða er því óskiljanlegri fyrir það að við lifum á breytingatímum í náttúrunni og mikilvægt er að fylgjast með slíkum breytingum (eða er það kannski misskilningur hjá ritstjóra hungurdiska - eru breytingarnar allar reiknanlegar í líkönum?).
Hvað um það, fyrsta línuritið sýnir meðalsnjóhulu í byggðum landsins frá 1924 til 2024. Meðaltalið nær hér reynda ekki til ársins (janúar til desember) heldur frá september að hausti til ágúst að sumri. Það köllum við snjóár. Það er raunar álitamál hvort setja eigi þessi áramót við mánaðamót ágúst og september eða mánuði síðar. Fyrsta árið sem hér eru upplýsingar um er því september 1924 til og með ágúst 1925, það síðasta byrjaði í september 2023 og endaði í ágúst síðastliðnum (2024).
Lárétti ásinn sýnir árin (merkt við síðara ártal snjóársins). Lóðrétti ásinn sýnir prósentur. Snjóhula er athuguð þannig að ýmist er alautt (snjóhula 0 prósent), alhvítt (snjóhula 100 prósent) eða jörð er flekkótt (snjóhula 50 prósent). Sumir veðurathugunarmenn hafa komist upp með það að nota 25 og 75 prósent líka - við höfum ekki áhyggjur af því, vegna þess að ritstjóri hungurdiska hefur gert viðeigandi samanburð. Meðaltal er reiknað fyrir mánuðinn og síðan fyrir allt árið. Í ársmeðaltalinu er (rétt eins og í meðalhitareikningum) gert ráð fyrir því að allir mánuðir séu jafnlangir - febrúar hefur því aðeins of þungt vægi miðað við janúar og mars - en það skiptir í raun mjög litlu.
Meðalsnjóhula ársins í byggðum landsins er 29 prósent. Það eru um 3,5 mánuðir, safnað saman, en dreifist auðvitað í raun á miklu lengri tíma, bæði alhvítt og flekkótt. Blá lína liggur um myndina þvera við meðaltalið. Við sjáum að snjóhula var lítillega yfir meðallagi veturinn 2023 til 24. Það eru töluverð tímabilaskipti. Veturinn 1928-29 virðist hafa verið sá snjóléttasti síðustu 100 árin. Áberandi snjóavetur komu í kringum 1950 og sérlega snjólétt var um nokkurra ára skeið rúmum áratug síðar. Það voru reyndar mótunarár ritstjórans og hélt hann þá að svona væri þetta á Íslandi. Mikil breyting varð síðan um miðjan sjöunda áratuginn og allt önnur snjóatíð tók við - og stóð linnulítið til vors árið 2000 (margir muna enn hinn snjóþunga mars það ár). Síðan var mjög lítill snjór í nokkur ár - en eftir það hafa skipst á snjólitlir vetur og meðalvetur, helst að veturinn 2019-20 falli í flokk snjóþungra vetra.
Flestar stöðvar athuga einnig snjóhulu í fjöllum. Miðað er við 500 til 700 metra hæð, dálítið misjafnt eftir staðháttum og útsýni. Ekki var farið að athuga fjallasnjóhuluna reglulega fyrr en árið 1935. Fyrsta árið í þeirri röð er því 1935-36.
Nokkur líkindi eru með þessum tveimur línuritum. Meðaltalið er um 54 prósent (6,3 mánuðir). Snjór var mjög lítill í fjöllum í kringum 1960, en hafði náð hámarki veturinn 1948-49. Munar þar mestu að vorið þá var sérlega snjóþungt og leifar af snjó héldust um landið norðanvert langt fram eftir júnímánuði. Snjóléttast í gagnaröðinni var veturinn 1941-42. Þá var mjög hlýtt í veðri. Lítill snjór var í fjöllum 2002-03 og lengst af hefur snjór í fjöllum verið undir meðallagi á þessari öld, lítillega yfir því þó 2023-24 og einnig báða veturna 2013-14 og 2014-2015. Tveir síðastnefndu veturnir teljast snjóþungir á fjöllum. Snjóþyngsti vetur köldu áranna var 1982-83, en litlu munar þó á honum og þremur öðrum vetrum (ómarktækur munur).
Við sjáum að samband er á milli snjóhulu í byggð og í fjöllum. Lítum aðeins nánar á það.
Hér er snjóhula í byggð á lárétta ásnum, en í fjöllum á þeim lóðrétta. Fylgjast þessar mælitölur vel að. Tölurnar eiga við síðara ártal snjóársins. Tvö ár skera sig dálítið úr, veturna 1941-42 og 1945-46 var snjóhula í fjöllum enn minni heldur en snjóhula í byggð ein og sér gefur til kynna. Einnig sjáum við að árið 2013-14 er á jaðrinum hinu megin, þá var snjóhula á fjöllum í mesta lagi miðað við snjóhulu í byggð (en sker sig samt kannski ekki sérstaklega úr). Jafnan sem sjá má (og ritstjórinn gleymdi að þurrka út) er aðfallslínan. Af henni má sjá að verði snjólaust í byggð má enn búast við meir en þriggja mánaða snjóhulu í fjöllum og öfugt, verði alhvítt allt árið á fjöllum er snjóhula í byggð tæpir tíu mánuðir. En við skulum hafa í huga að hefðu slík aftök átt sér stað er viðbúið að þau hefðu ekki endilega gerst á aðfallslínunni.
Eðlilegt er, í framhaldi af þessu, að spyrja hvort ekki sé samband á milli hita og snjóhulu. Svo reynist vera.
Við sjáum hér samband meðalsnjóhulu í byggð og hita í Stykkishólmi. Ártöl á þessari öld hafa verið lituð rauð. Við tökum strax eftir því að ekkert rautt ártal er í vinstri hluta myndarinnar - þrátt fyrir almannaróm um kulda. Reikna má halla aðfallslínunnar og segir hún okkur að fyrir hvert stig í auknum hita styttist alhvíti tíminn um 22 dag - sama ef kólnar um eitt stig, þá lengist alhvíti tíminn sem því nemur. Tökum við þetta bókstaflega (sem er e.t.v. varasamt) færi alhvíti tíminn upp í rúma 6 mánuði ef ársmeðalhitinn færi niður í núll (sem er alveg innan mögulegrar dreifingar hita - alla vega í eldra veðurfari). Á hinn bóginn - til að fá alveg alautt þarf meðalhitinn að fara upp í 8,7 stig. Gríðarlega mikið þarf að hlýna til að snjólaust verði á láglendi Íslands (athugið að hér verðum við þá líka að gera ráð fyrir óbreyttri árstíðasveiflu - breytist hún breytast forsendur allar).
Það sama má gera fyrir snjóhulu í fjöllum. Alhvíti tíminn styttist um 19 daga fyrir hvert stig í hlýnun, og lengist, kólni að sama skapi. Fari ársmeðalhitinn niður í núll verður snjóhula á fjöllum í kringum 9 mánuðir, en ársmeðalhiti þarf að fara í 14 stig til að losna alveg við vetrarsnjó af hálendinu - ekki beinlínis líklegt.
Við vitum ekkert um það hversu mikið hlýna mun hér á landi á næstu áratugum (þótt líkindi séu á þeirri hliðinni frekar en hinni). Tveggja stiga hlýnun (sem er reyndar dálítið í lagt) myndi geta stytt alhvíta tímann um tæpan einn og hálfan mánuð, úr þremur og hálfum niður í rúma tvo. Slíkt væri umtalsverð breyting, og á fjöllum myndi alhvíti tíminn fara úr 6,3 mánuðum niður í rúma fimm. Við látum vera að fylgja slíkum vangaveltum frekar. Leitni í snjóhulu í byggð og í fjöllum hefur ekki verið teljandi síðustu 100 árin - þrátt fyrir hlýnun. Breytileiki milli ára og áratuga er svo mikill að lengri tíma athugana þarf til slíkra reikninga. Vonum bara að athuganir á snjóhulu haldi áfram.
Fyrir rúmum 20 árum tók ritstjóri hungurdiska saman ritgerð um snjó og snjóhulu. Auðvitað hefur margt gerst síðan, en almennar upplýsingar í ritgerðinni standa þó enn fyrir sínu.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (19.1.): 34
- Sl. sólarhring: 524
- Sl. viku: 2705
- Frá upphafi: 2434007
Annað
- Innlit í dag: 33
- Innlit sl. viku: 2392
- Gestir í dag: 31
- IP-tölur í dag: 30
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Þú ert innskráð(ur) sem .
Innskráning