Þótt enginn spyrji

Ritstjórinn fær nær aldrei spurningar um met í háloftunum yfir Íslandi - áhugamenn um slíkt virðast mjög, mjög fáir. En eins og þrautseigir lesendur vita gefur hann þeim samt reglulega gaum, lítur yfir valinn eftir hver áramót og athugar hvort einhver met liggi þar fallin. 

Ekki var mikið af háloftametafalli á nýliðnu ári - enda eru í skrá ritstjórans háloftaathuganir yfir Keflavíkurflugvelli aftur til ársins 1973 fyrir fleti ofan við 100 hPa og aftur til 1952 fyrir þá neðri. Þetta er það langur tími að tíðra meta er vart að vænta. 

En samt má nefna fáein atriði. Þann 30.júní mældist hiti í 850 hPa yfir Keflavík 12,4 stig. Þetta er jafnhátt og hæst hefur mælst áður í fletinum í júnímánuði. Þegar litið er á þykktarmælingu kemur í ljós að þykktin þennan dag var sú fjórðahæsta sem mælst hefur í júní. Þykktin mælir sem kunnugt er hita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hærri er hitinn. Um þetta atvik var getið í pistlum hungurdiska, fyrstu spár um veður þennan dag höfðu gert ráð fyrir hitametum, en síðan dró úr ákafa í spánum og við fengum hlýindin í skammvinnum fleyg sem gekk hratt yfir landið. Hiti komst þó í 25,4 stig á Bakkagerði á Borgarfirði eystra og meðalhámarkshiti dagsins á landinu var með því hæsta sem gerðist á árinu. 

Tæpum mánuði áður, þann 2. júní varð óvenjuhlýtt í 150 hPa-fletinum (í 13 til 14 km hæð), júnímet frá 1972 var slegið þegar hiti fór upp í -37,8 stig. Ekki hefur ritstjórinn athugað málið sérstaklega, en hiti í fleiri háum flötum komst nærri meti. Eins og margir muna skall einmitt þarna á mikið hret sem olli miklu tjóni í landbúnaði. Þau tengsl gætu verið á milli hretsins og þessara háloftahlýinda að framsókn kalda loftsins í veðrahvolfinu hafi verið nægilega áköf til að framkalla niðurstreymi í 150 hPa-fletinum - er það líklegasta skýring á metinu (að að öðru leyti óathuguðu máli - gæðamat hefur ekki farið fram). 

Þann 4. september náðu 70 og 50 hPa-fletirnir nýjum septemberhæðarmetum, 18860 m og 21040 m. Þessu fylgdi líka atburður við jörð. Snögg hitabylgja gekk yfir landið aðfaranótt og morgun þess 5.september og sló öll septemberathugunartímahámörk landsins frá því kl.6 um morguninn og til kl.12 - og reyndar svo kl.14 líka. Hiti komst hærra á Seyðisfirði en vitað er um áður í september, 25,1 stig. Þykktin yfir Keflavík varð sú þriðjahæsta sem vitað er um. 

Eins og margir muna var fyrri hluti nóvember óvenjuhlýr. Þann 11. var slegið hitamet í 850 hPa yfir Keflavík, hiti fór í 11,4 stig, hafði áður hæst mælst 10,0 stig. Margs konar hitamet voru slegin á landinu um þetta leyti og varð meðalhámarkshiti landsins 14,0 stig, sjónarmun hærri en nokkru sinni áður í nóvember. Þann 14. var landshitamet nóvembermánaðar síðan slegið - eins og hungurdiskar fjölluðu þá um

Engin lágmarkshitamet voru slegin í háloftaathugunum yfir Keflavík á árinu. Nokkrar athuganir í heiðhvolfinu á árinu voru þó meðal þeirra tíu köldustu sem vitað er um í viðkomandi mánuði. 

Hvað skyldu nú margir hafa lesið þetta? 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Gleðilegt ár. Takk fyrir alla pistlana á þarinu. 

Thrainn Svansson (IP-tala skráð) 6.1.2025 kl. 22:14

2 Smámynd: Bjarki Tryggvason

Takk fyrir Trausti. Ég las þetta og eflaust fleiri. Alltaf gaman að lesa skrif þín Trausti. B.kv. Bjarki

Bjarki Tryggvason, 7.1.2025 kl. 01:41

3 identicon

Takk fyrir þetta, meistari Trausti.

G. Þorkell Guðbrands (IP-tala skráð) 7.1.2025 kl. 12:46

Bæta við athugasemd

Hver er summan af tveimur og ellefu?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg070125hb
  • w-blogg070125ha
  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (8.1.): 22
  • Sl. sólarhring: 580
  • Sl. viku: 3777
  • Frá upphafi: 2429199

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 3299
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband