Spurt var

Ritstjórinn getur raunar ekki svarað þeirri spurningu sem fram var borin í hans eyru á dögunum um það hvort nýtt kuldaskeið væri hafið hér á landi - þar sem ársmeðalhitinn í Reykjavík 2024 er sá lægsti síðan 1995. Á landinu í heild þarf að fara aftur til 1998. Ritstjórinn hefur enn ekki athugað þaula hvort eitthvað ámóta eigi við um allar veðurstöðvar landsins - en hann gerir það þegar ársmeðaltöl þeirra hafa verið reiknuð.

En óþægilegra er þegar sú fullyrðing fylgir spurningunni að hið nýja kuldaskeið í Reykjavík hafi hafist þegar árið 2013. Þeirri fullyrðingu er hægt að svara með einfaldri neitun. Til að skýra sjónarhornið nánar kastaði ritstjórinn upp myndinni hér að neðan. Hún sýnir 12-mánaða hitakeðju í Reykjavík frá upphafi samfelldra mælinga þar 1866. 

w-blogg040125ia

Ferillinn er viljandi gerður daufur - til að sérstaka áherslu sé hægt að leggja á hlýjustu og köldustu búta hans. Tölur lægri eða jafnar 3,0 stigum eru merktar í bláu. Slíkan kulda upplifðum við síðast árið 1979 - þá hafði hann ekki komið síðan 1920. Á sama hátt merkjum við þann hluta ferilsins þegar hiti er hærri eða jafn 5,9 stigum með rauðu. Það gerðist fáeinum sinnum á fyrra hlýskeiði að hitinn fór svo hátt og síðast var eitt 12-mánaða gildi á árinu 1964 sem fór svo hátt (það stóð svo stutt að myndin nær ekki að merkja það). Næst gerðist það svo árið 2003. Eftir það hefur það síðan gerst þrisvar, árið 2010, 2014, 2017 og 2019. Að halda því fram að nýtt kuldaskeið hafi hafist árið 2013 er mjög á skjön við allt - taka þarf upp einhverja nýja skilgreiningu á kuldaskeiði til að slíkt geti gengið upp. 

Það er svo annað mál að eftir 2019 hefur hiti verið lægri - þó ekki sérlega lágur fyrr en árið 2024. Hann er þó ekki lægri en svo að hefðum við átt að lýsa yfir upphafi kuldaskeiðs strax og það gerðist eftir að hlýindin hófust fyrir um 100 árum hefði það verið gert strax árið 1930 og 1931 þegar hitinn fór niður í 4,0 stig og síðan aftur hvað eftir annað í næstu 35 árin - það var ekki fyrr en árið 1965 sem eitthvað raunverulegt kuldaskeið hófst. Á hinu gamla hlýskeiði fór 12-mánaðahitinn í Reykjavík lægst í 3,7 stig. Það var árið 1951. Ekki var hlýskeiðinu lokið þá. 

Þótt við vitum ekkert um framtíðina frekar en venjulega ættum við samt að hinkra um sinn með yfirlýsingar um nýtt kuldaskeið - og alla vega getum við ekki með nokkru móti haldið því fram að ef að slíkri yfirlýsingu kemur að það nýja skeið hafi byrjað árið 2013. [En slíkt er svosem í takt við aðrar öfugmælavísur í fréttum samtímans].

Nú reyna menn að svara því hvers vegna árið 2024 hafi verið í kaldara lagi. Þótt ritstjórinn þykist eiga svör er hann langt í frá viss um að þau séu þau réttu - og hinkrar því aðeins með yfirlýsingar um hugsanlegar ástæður (umfram það sem hann hefur þegar nefnt í fyrri pistlum). 

Mun skýrari mynd er í viðhenginu.


Skrár tengdar þessari bloggfærslu:

« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Verst er þegar kuldaköst á Íslandi eru talin vera sönnun þess að fréttir af hlýnun jarðarinnar séu samsæri og lýgi eins og furðu margir halda fram!

Kveðjur bestar, Konráð Erlendsson 

Konráð Erlendsson (IP-tala skráð) 5.1.2025 kl. 11:22

2 Smámynd: Guðmundur Ásgeirsson

Konráð. Það hefur enginn haldið því fram að hlýnun jarðar sé samsæri. Aftur á móti var það lengst af opinberlega sagt vera samsæriskenning að menn gætu breytt veðrinu. Stutt er síðan þeim fór að fjölga mikið sem aðhyllast þá kenningu.

Guðmundur Ásgeirsson, 5.1.2025 kl. 14:10

3 identicon

Véfréttin frá Delfí veit ekkert um framtíðina frekar en venjulega.

Jú TJ, nýtt kuldaskeið er sannarlega hafið, þvert á yfirlýsingar veðurhugleiðingamanna í Öskjuhlíðinni.

Menn sem spá alltaf rétt kenna bara veðrinu um ef spáin rætist ekki - og veðrið er jú mönnum að kenna samkvæmt ofurtölvuútreikningum glópa.

Hilmar Hafsteinsson (IP-tala skráð) 6.1.2025 kl. 15:47

Bæta við athugasemd

Hver er summan af níu og fimm?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (6.1.): 488
  • Sl. sólarhring: 575
  • Sl. viku: 3650
  • Frá upphafi: 2428372

Annað

  • Innlit í dag: 433
  • Innlit sl. viku: 3277
  • Gestir í dag: 415
  • IP-tölur í dag: 399

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband