Hringrásarslef (stagl)

Fyrir nokkrum dögum var hér fjallað um ástæður þess að hlýtt er á Íslandi miðað við hnattstöðu - um 6 stigum hlýrra á „ársgrundvelli“ heldur en að meðaltali á sama breiddarstigi. Ein ástæðan sem nefnd var er hin suðlæga vindátt háloftanna, búin til af háloftalægðardragi við austurströnd Ameríku sem við höfum leyft okkur að kalla Baffindragið (eftir Baffinseyju). Eitthvað kemur Grænland líka við sögu þegar vindurinn austan við dragið tekur mið á Ísland.

Við skulum nú skoða stefnufestu vinds í miðju veðrahvolfi, í 500 hPa-fletinum. Reiknaður er meðalvindvigur hvers árs og færður til bókar. Myndin hér að neðan sýnir vigur áranna 1920 til 2024 - óvissan er talsvert meiri fyrir 1940 heldur en síðar. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af mælitölunum, en ef einhverjum líður betur með m/s geta þeir komist nærri lagi með að deila í mælitölurnar með fjórum. Höfum þó í huga þau einkenni vigurvinds að blási vindur úr andstæðum áttum jafnsterkt og jafnlengi er vigurinn núll. Ársvigurinn er því niðurstaða einhvers sem allt árið hefur blásið úr ýmsum áttum - einskonar nettóniðurstaða.

w-blogg261224a

Lárétti ásinn sýnir vestanþátt vindsins, en sá lóðrétti sunnanþáttinn. Gildum á kvörðunum er snúið við til þess að auðvelda sýn á vigurstefnuna - hún verður eins og á vindrós eða áttavita. Blái bletturinn á myndinni er fulltrúi Íslands. Bláu strikalínurnar sýna höfuðáttir, en sú rauða ásinn úr suðvestri í norðaustur (allt til að auðvelda lesturinn). Það sem er langmerkilegast við þessa mynd er sú staðreynd að vigurvindur allra ára blæs úr þröngum geira. Suðlægastur verður hann rétt sunnan við suðvestanstefnu og langflest ár lenda inni í punktasúpu þar sem ár greinast lítt að. Þetta er allur fjölbreytileiki veðurlagsins.

Þegar nánar er að gáð skera þrjú ár sig dálítið úr. Þá var vindur nánast beint úr vestri og meira að segja rétt norðan við vestur í einu tilviki. Þetta eru árin 1952, 2010 og 2012. Skyldu einhverjir muna einkenni þeirra? Árin sem eru lengst til vinstri á myndinni, vestanáttin stríðust voru langflest leiðinleg umhleypingaár. Árin lengst til vinstri voru annað hvort mun betri - eða þá að Austurland var sérlega blautt - austanáttir óvenjumiklar þótt ekki gætu þær útrýmt vestanáttinni þannig að ársvigurinn snerist við. 

Ritstjóri hungurdiska hefur fylgst með þessu vigurriti í meir en 40 ár og tók snemma eftir afbrigðilegheitunum 1952. Fyrir utan ársbyrjunina var það óvenjuþurrt ár og sérkennilegt að mörgu leyti. Svo birtust árin 2010 og 2012 allt í einu. Árið 2010 er sennilega óvenjulegasta veðurár sem ritstjóri hungurdiska hefur enn lifað. Árið 2012 byrjaði í umhleypingastíl eins og 1952 en gekk síðan til sérstakra þurrka og margs konar óvenjulegheita. 

Því er ekki að neita að ritstjórinn hrökk nokkuð í kút við þessi tvö ár. Hélt jafnvel að einhver breyting væri að verða á skipan mála, en svo var þó ekki í raun. Á myndinni hafa öll ár þessarar aldar verið merkt með rauðu ártali. Ekki er að sjá að sú punktadreif sé marktækt öðru vísi en sú eldri. Flest virðist því með kyrrum kjörum. 

Myndin sýnir ekki hvort loftið sem komið er til landsins hefur að meðaltali verið í hæðar- eða lægðarsveigju, en það skiptir mjög miklu fyrir veðurreyndina. Þegar málið er rannsakað nánar kemur í ljós að vægt samband er á milli sunnanáttarinnar og sveigjunnar. Þannig er að þegar sunnanáttin er áköf eða í meðaltali er gjarnan lægðarsveigja á vindinum, lægðagangur og illviðri fylgja slíku. Sé sunnanáttin veik (efsti hluti dreifarinnar) er mun meiri tilhneiging til hæðarsveigju. Hæðarsveigja í háloftum er nánast órækt vitni um að loftið í sveigunni eigi ættir að rekja af suðlægum slóðum. Það er þess vegna í eðli sínu hlýtt og dregur mjög úr kulda sem annars ætti að fylgja minni sunnanáttum. Kann í fyrstu að sýnast nokkuð öfugmælakennt - en er það ekki - frekar heldur en margt annað sem virðist öfugmælakennt við fyrstu kynni. En við verðum þó að hafa í huga að þetta er allt að meðallagi, allskonar afbrigði geta sýnt sig í smáatriðunum (og gera það venjulega).

Það sjáum við kannski á næstu mynd.

w-blogg261224c

Hér sjáum við sunnanþáttinn enn á lóðrétta ásnum, en í stað vestanáttarinnar á þeim lárétta er ársmeðalhæð 500 hPa-flatarins. Hún er góður mælikvarði á hæðarsveigjuna. Árin þrjú, 1952, 2012 og 2010 skera sig enn úr, hæðarsveigjan árið 2010 var einstök. En við sjáum að árið 1979 sker sig líka nokkuð úr. Þá var sunnanáttaskortur - en hæð flatarins var lág. Við höfum hér dæmi um ár þar sem hlýjar hæðir að sunnan komu ekki til bjargar (eins og oftast). Miðað við aðfallslínuna á myndinni hefði þetta ár frekar átt að vera í námunda við árið 1965 - sem var háloftahæðaár sem bjó við svipaða sunnanáttaþurrð og 1979. 

Förum við í vinstri jaðar dreifarinnar sjáum við leiðindaár - mikil lægðasveigja og leiðinleg tíð jafnvel þótt sunnanáttin hafi verið sterk. Þar eru á þessari öld 2011 og 2015 - og 2018 þar efst (en aðeins lengra til hægri) í flokki með 1972 - sem ekki heldur þótti skemmtilegt ár. 

En hvað með framtíðina - nú eða þá lengri fortíð? Sé nægilega langur tími undir hafa dreifirit sem þessi tilhneigingu til að fyllast. Með auknum gróðurhúsaáhrifum hækkar 500 hPa flöturinn. Hæðarsveigjan er afleiðing flutnings úr suðri, en samband á milli hæðarsveigju og hæðar 500 hPa-flatarins raskast, það er ekki eins langt í háa 500 hPa-hæð og í kaldara veðurlagi. Það getur meira að segja verið að við sjáum þetta á myndinni. Rauðu ár þessarar aldar eru meira ofan línunnar heldur en neðan hennar (eða réttara sagt þau eru lengra til hægri á myndinni en þau hefðu verið áður (við gamalt tíðarfar) - við vitum af skoðun á hinni myndinni að sunnanáttir þessarar aldar eru ekki afbrigðilegar).

Svona breytingar sjáum við ekki á fyrri myndinni. Þar virðist allt með felldu. 

Hér bíður framhald - en ritstjórinn mun líklega frekar bæta því við hér heldur en að leggja í nýjan pistil - það eru hvort sem er langflestir löngu búnir að tapa þræði. Þá koma líka skýrari eintök af myndunum. Þetta er því einskonar uppkast. 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af einum og átta?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg261224c
  • w-blogg261224a
  • w-blogg241224b
  • w-blogg241224a
  • w-blogg211224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.12.): 468
  • Sl. sólarhring: 582
  • Sl. viku: 2167
  • Frá upphafi: 2422630

Annað

  • Innlit í dag: 440
  • Innlit sl. viku: 1992
  • Gestir í dag: 431
  • IP-tölur í dag: 425

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband