Hitaspönn nóvembermánaðar með mesta móti

Óskar J. Sigurðsson fyrrum vitavörður á Stórhöfða í Vestmannaeyjum vakti athygli á óvenjumiklum mun á hæsta hámarkshita og lægsta lágmarkshita nóvembermánaðar á Grímsstöðum á Fjöllum. Hann var 40,6 stig. Óskar hefur sérlega næma tilfinningu fyrir því sem óvenjulegt er í veðri og kann ritstjóri hungurdiska honum bestu þakkir fyrir ábendinguna.

En þetta vakti auðvitað frekari forvitni. Hversu óvenjulegur er þessi munur innan sama mánaðar? Gagnagrunnur Veðurstofunnar gaf greið svör. Gögnin skiptast þó á nokkrar töflur. Fyrirspurn í töfluna sem inniheldur mælingar mannaðra stöðva sýndi að aldrei hefði þar jafnmikill eða meiri munur orðið á hæsta hámarki og lægsta lágmarki stöðvar í nóvember. Taflan nær aftur til 1949 og fundust tvö tilvik þar sem munurinn var lítillega meiri en nú, en bæði í mánuðum sem í eru 31 dagur. Þetta var í mars 1998 þegar munurinn var 41,4 stig á Staðarhóli í Aðaldal og í desember 1995 þegar hann varð 41,2 stig í Möðrudal. Tafla með eldri gögnum fann að auki 41,3 stig á Möðruvöllum í Hörgárdal í janúar 1918. 

Þvínæst var að svara spurningunni fyrir sjálfvirku stöðvarnar. Þar er stöðvum Vegagerðarinnar haldið sér m.a. vegna þess að reglur um hámarks- og lágmarksmælingar eru örlítið aðrar en á öðrum stöðvum. Í ljós kom að í mars 1998 var munurinn á stöðinni við Mývatn 43,3 stig - og telst það mesti munur hámarks og lágmarks sama mánaðar hér á landi. Síðan kom í ljós að Grímsstaðir voru ekki eina stöðin með svo öfgakenndan mun í nýliðnum nóvember. Þar voru líka Ólafsfjörður (42,7 stig), Staðarhóll (40,7 stig) og vegagerðarstöðvarnar Kaldakinn (41,1 stig) og Fljótsheiði (40,8 stig). Allt saman mjög óvenjulegt. 

Sú spurning kemur eðlilega upp (hjá forvitnum) hver sé þá minnsti munur hámarks- og lágmarkshita í sama mánuði. Það reynist vera í Litlu-Ávík í júlí árið 2015. Þá var hæsti hiti mánaðarins 8,8 stig, en sé lægsti 4,0 stig, munurinn aðeins 4,8 stig. Leit í gögnum sjálfvirku stöðvanna skilar ekki lægri tölu. Sú lægsta þar er 5,1 stig, frá Fonti á Langanesi í júlí 2010 og Skagatá 5,2 stig í júlí 2015. 

Á Stórhöfða var mestur munur hámarks- og lágmarkshita sama mánaðar 26,5 stig, í apríl 1968, en minnstur 5,3 stig í ágúst 1981 og 1995. Í mars 1892 var munur á hæsta og lægsta hita í Vestmannaeyjakaupstað 30,9 stig.

Í Reykjavík er mesti munur sem við þekkjum, 30,9 stig. Það var í janúar 1918, minnstur munur var í júlí 1972, 7.8 stig. Á Akureyri var munurinn mestur í nýliðnum nóvember, 36,1 stig, en minnstur í júlí 2015, 12,4 stig. 

Þetta er allt mjög nördalegt - og eins gott að týna sér ekki alveg, gæti endað í slæmu gagnafyllerí eða jafnvel gagnatúr, en þolið býður varla upp á slíka hegðan lengur. Við höldum samt aðeins áfram og bergjum á fleiri veigum.

Spurt er hver sé mesti munur á hæsta og lægsta hita ársins á veðurstöð - og hvaða ár? Árið hlýja 2004 mældist hæsti hiti við Mývatn 28,3 stig, en lægstur varð hitinn þar sama ár -29,7 stig. Munurinn er 58,0 stig. Á mönnuðu stöðvunum er það Brú á Jökuldal sem á mestan mun, 56,5 stig. Það var 1988 (25,0 stig og -31,5 stig). Engin fulláreiðanleg tala frá fyrri tíð slær þetta út. 

Minnsta mun á hæsta og lægsta hita ársins á veðurstöð finnum við í Seley árið 2016, 19,8 stig (14,2 stig og -5,3 stig). Litlu munar að Stórhöfði í Vestmannaeyjum næði þessu bæði 1972 og 1983 þegar munur á hæsta og lægsta hita ársins var aðeins 20,0 stig. 

Í Reykjavík hefur mestur munur á hæsta og lægsta hita sama árs á tíma samfelldra hámarks- og lágmarksmælingar orðið 40,1 stig. Það var árið 2008, má segja að hitabylgjan mikla það ár hafi séð um það. Á Akureyri var munurinn mestur árið 1975, 47,3 stig (27,6 stig og -19.7 stig). Á Stórhöfða er mesti munurinn 33,0 stig, það var 1966 (19,0 stig og -14,0 stig). Minnstur munur á hæsta og lægsta hita ársins í Reykjavik er 24,8 stig. Það gerðist árið 1926 (16,6 stig og -8,2 stig). Á Akureyri var munurinn minnstur árið 2001 32,8 stig (20,2 stig og -12,6 stig). 

Við viljum líka vita hvaða veðurstöð á stærstu spönnina á öllum sínum athugunartíma. Þar flækist fyrir að hámarkshitamælingar í Möðrudal voru mjög óáreiðanlegar á fyrri tíð - við getum ekki trúað öllu þar. En að því slepptu er það Mývatn sem nær mestu spönninni, 63,0 stig, frá -34,7 stiga frosti upp í 28,3 stiga hita. Reykjahlið er í efsta sæti mönnuðu stöðvanna með 59,4 stig. 

Við látum þessa yfirferð duga i bili. Stekkjarstaur (ritstjóri hungurdiska leikur það hlutverk í dag) hefur þar með reynt að sjúga ærnar (gagnagrunn Veðurstofunnar) - en staurfætur í augum (hvað sem það nú merkir) flækjast fyrir.

Í gær var hér á hungurdiskum fjallað um óvissu í spám í næstu viku - hugsanleg lægð gæti þá komið mjög langt sunnan úr höfum og dýpkað mikið hér við land - nú, eða ekki. 

Hér er til gamans spákort evrópureiknimiðstöðvarinnar nú frá hádegi (fimmtudag 12.desember 2024). 

w-blogg121224

Miðstöðin hefur greinilega (að þessu sinni) ákveðið að gera alvöru úr (sem ekki var í gær). Kortið gildir um hádegi á miðvikudaginn kemur (18.desember). Líklegt er að við fáum að sjá allskonar hringl í spánum næstu daga. Kortið lítur ekki vel út, en höfum samt í huga að auðvitað er enn ekkert að marka þessa spá. Bandaríska veðurstofan er t.d. mun mildari, setur lægðina austar þannig að hún komi lítt við sögu hér á landi. En ritstjórinn er samt ánægður með að hans eigin órar skuli geta komið fram í reiknilíkönum - vonar þó jafnframt innilega að þetta muni hallast að skárri niðurstöðu. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b
  • w-blogg101224a
  • w-blogg071224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.12.): 120
  • Sl. sólarhring: 146
  • Sl. viku: 955
  • Frá upphafi: 2420770

Annað

  • Innlit í dag: 111
  • Innlit sl. viku: 843
  • Gestir í dag: 106
  • IP-tölur í dag: 105

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband