Vika í kosningaveðrið

Ritstjóri hungurdiska gerir ekki veðurspár - en hann ræðir þær alloft á almennum nótum. Það sem hér fer á eftir er þannig. Vika er í kosningadag - og þar með kosningaveðrið og (trúlega) allt of snemmt að segja af eða á um það hvernig það verður. En við getum aðeins velt fyrir okkur þeim megindráttum sem boðið er upp á. 

Til að gera það notum við spár evrópureiknimiðstöðvarinnar - í þessu tilviki svokallað klasameðaltal. Það er meðaltal úr ríflega 50 örlítið mismunandi spám sem reiknaðar voru nú síðdegis út frá greiningu á hádegi, laugardag 23. nóvember. Tökum fram að meðalspáin er (auðvitað) aldrei rétt - hún sýnir einhverja útsmurða stöðu. Stöku sinnum er hún beinlínis mjög röng, þá helst þegar veðurlagið reikar í tvær eða þrjár ólíkar áttir - meðaltalið verður þá eitthvað fjarri lagi. Oft sýnir það þó aðaldrætti málsins. Við getum vonað að svo sé að þessu sinni - en þegar líður á vikuna taka smáatriðin síðan yfir og raunverulega verður hægt að gera spár sem kannski standast.

w-blogg23124-kosningaspa-ec_a

Við sjáum hér „venjulegt“ 500 hPa-háloftakort. Jafnhæðarlínur eru heildregnar, þykkt er sýnd í lit. Við megum taka eftir því að lengra bil er hér á milli jafnhæðarlína heldur en venjulega á svona kortum - það stafar af þeirri útjöfnun sem nefnd var hér að ofan - en ekki vegna þess að veðrið sé svo rólegt. 

Við sjáum að hæðarhryggur er vestan við Grænland, austan við hann er lægðardrag til suðurs rétt vestan Íslands og nær það langt suður í haf. Þar fyrir austan er annar hæðarhryggur. Við norðurjaðar kortsins sjáum við í meginkuldapoll norðurhvels - (við höfum oft kallað hann Stóra-Bola hér á hungurdiskum). Hlýtt loft sækir fram austan lægðardragsins - kannski sveigir það í átt til Íslands - en kannski fer það í hina áttina - til austurs. Fyrir norðan er mjög kalt loft - það sækir einnig að. Á milli verður til átakasvæði - það liggur einmitt um Ísland á kortinu (brúnbleik strikalína). Til að hjálpa okkur við að ráða í kortið hefur reiknimiðstöðin sett á það daufar strikalínur. Þær mæla flökt á milli spánna í klasanum. Við getum rakið okkur eftir línu þar sem flöktið er í hámarki. Hún liggur til norðausturs milli Íslands og Færeyja. Meiri breytileiki er suðaustan við okkur heldur en norðvestan við. 

Þetta setur upp í huga okkar býsna fjölbreytta kosti - ýmist vonda eða góða. Versti kosturinn er auðvitað öfugsniðinn, að hlýja loftið nái yfir okkur í efri lögum, en ekki þeim neðri. Betra er að vera annað hvort alveg í kalda loftinu eða alveg í því hlýja. 

Hér verður ekkert um það sagt hvað verður, en vonandi sjá þeir sem glöggir eru við hvers konar vanda er við að eiga. Þegar þetta er skrifað erum við hreinlega í köldu lofti - en eftir helgi er búist við mildara lofti úr vestri - en mjög kalt lægðardrag fylgir síðan í kjölfarið - með skammvinnum öfugsniða á fimmtudag (ef rétt er spáð). Örlögin ráðast kannski af því hvernig fer þann dag. Nær vindur að snúast almennilega til norðvesturs í háloftunum á eftir lægðardraginu? - eða sitjum við uppi með öfugsniðann vonda? Eða verður mótframsókn hlýja loftsins nægilega öflug til að snúa háloftavindáttinni til austurs með hláku fyrir laugardaginn? Kannski verða aðalátökin alveg austan við land - handan flökthámarkslínunnar?

En þetta er allt saman nördatal - þeir sem í alvöru eiga undir veðri fylgjast auðvitað vel með spám Veðurstofunnar og annarra til þess bærra aðila. 

En hitavikavísaspá reiknimiðstöðvarinnar fyrir fimmtudaginn er athyglisverð.

w-blogg231124-kosningaspa-ec_b

Hér sjáum við lægðardragið kalda yfir landinu - vindátt úr suðvestri í öllum hæðum yfir Suðurlandi, en öfugsniði yfir Vestfjörðum - ísköld norðaustanátt niðri - en suðvestan ofan við. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg080125a
  • w-blogg070125hb
  • w-blogg070125ha
  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (10.1.): 25
  • Sl. sólarhring: 833
  • Sl. viku: 3517
  • Frá upphafi: 2430564

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 2892
  • Gestir í dag: 11
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband