Skammt öfganna á milli

Nú eru aðeins fáeinir dagar síðan landshitamet nóvembermánaðar var slegið þegar mjög hlýtt loft var yfir landinu. Sjálft metið var kannski tilviljun, ámóta hlýtt loft hefur verið yfir landinu áður án meta. Nú sitjum við aftur á móti á hinum endanum. Þykktin, en hún mælir meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs er meira en 500 metrum minni en hún var í hlýindunum, munurinn nærri 600 metrum þar sem mest er yfir landinu. Þetta þýðir að meðalhiti neðri hluta veðrahvolfs er um 25 stigum lægri nú heldur en hann var á dögunum. 

Þetta sést vel á korti evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir nú á miðnætti (18.nóvember 2024 kl.24).

w-blogg181124a

Heildregnu línurnar sýna þykktina, en litirnir hita í 850 hPa-fletinum, í tæplega 1500 metra hæð yfir sjávarmáli. Norðan við Vestfirði er þykktinni spáð niður í 5000 metra og í um 5040 metra yfir Suðurlandi. Það minnsta sem við vitum um í mælingu yfir Keflavíkurflugvelli í nóvember er 4990 metrar (en væntanlega minna við norðurströndina). Lágmörk sem þessi eru til þess að gera skammlíf og þurfa að hitta vel á tíma sólarhrings til að ná mælingu í Keflavík en aðeins er mælt tvisvar á dag. En við sjáum samt að við erum býsna neðarlega. 

Það er -16°C jafnhitalína 850 hPa-flatarins sem liggur við Keflavík og -18°C við norðanverða Vestfirði. Nóvembermælimetið yfir Keflavík er -20°C. Svo skemmtilega vill til að það er frá því í nóvember 1971, einmitt mitt á milli tveggja mikilla hitabylgja í þeim sama mánuði. Það síðara gaf tilefni til fréttar um 24 stiga hita í Kvískerjum í Öræfum - eins og við höfum minnst á hér áður. Skammt milli öfga bæði nú og þá.

Uppi í 500 hPa er líka óvenjukalt. Spáin nefnir tölur niður í -43°C yfir Keflavík - en eftir að athugun kvöldsins verður gerð og hádegisathugun morgundagsins missir trúlega af þessu lágmarki líka. Nóvemberlágmarksmetið er -44 stig - einmitt frá 17. nóvember 1971. 

Vonandi sleppum við við illviðrin sem þessi kuldi getur komið af stað - kannski kveikir hann í einhverju fyrir sunnan land - og evrópureiknimiðstöðin spáir þar mikilli lægðagerjun undir helgina, nefnir lægð í kringum 940 hPa - en ekki uppvið okkur. En þetta eru samt dálítið viðsjárverðir tímar og rétt að fylgjast gaumgæfilega með spám. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 20
  • Sl. sólarhring: 214
  • Sl. viku: 985
  • Frá upphafi: 2420869

Annað

  • Innlit í dag: 15
  • Innlit sl. viku: 864
  • Gestir í dag: 15
  • IP-tölur í dag: 15

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband