26.11.2024 | 23:28
Veðurathuganir í Hveradölum 1927 til 1934
Á árunum 1927 til 1934 voru gerðar veðurmælingar í Hveradölum við Hellisheiði. Þar höfðu danskur maður, Anders Carl Höyer og kona hans Erica, sest að og ræktuðu pottaplöntur og grænmeti. Harla sérstakt allt saman og saga þeirra hjóna í raun harla ævintýraleg. Um hana má lesa í samantekt Ólafs Stefánssonar á Syðri-Reykjum, Hveradala Höyer og kona hans, sem birtist í tímaritinu Litli-Bergþór 33-2 (2012) s.20-23 og nálgast má á timarit.is. Það verður ekki endurtekið hér. Þess skal þó getið að Erica samdi skáldæfisögu sem margir kannast við og er yfirleitt hrósað, Anna Iwanowna. Við fjöllum hins vegar um veðurathuganir þær sem þau hjón gerðu fyrir Veðurstofuna.
Hugsanlega leynast einhverjar upplýsingar um upphafleg samskipti Höyer og Veðurstofunnar í bréfasafni hennar. Það er hins vegar ekki sérlega aðgengilegt sem stendur (því miður). Takist ritstjóra hungurdiska þó að finna eitthvað mun því verða bætt við þennan pistil síðar. Veðurathugunarbækur eru hins vegar vel aðgengilegar og eru þær meginheimild pistilsins.
Staðurinn, Hveradalir ætti að vera flestum kunnugur. Þar var lengi skíðaskáli og síðar hótel, alþekktur viðkomustaður á austurleiðinni. Í gögnum Veðurstofunnar segir að veðurstöðin hafi verið í 315 m hæð yfir sjávarmáli. Það er vonandi ekki fjarri sanni. Trúlega hefur verið talsverður áhugi á að fá úrkomumælingar frá þessum slóðum, bæði vegna rafmagnsframleiðslu (Elliðaárstöð) sem og vatnsöflunar (Gvendarbrunnar). Nokkrum árum áður hafði orðið ákveðin vatnsþurrð við rafstöðina og því kennt um að haustrigningar hefðu brugðist - varð meira að segja titill á alkunnri revíu. Hátt í hundrað árum áður hafði Jón Þorsteinsson landlæknir, þá veðurathugunarmaður í Reykjavík, giskað á að úrkoma í fjalllendinu suðaustur af Reykjavík væri allt að fjórum sinnum meiri heldur en í bænum. Þetta var auðvitað ágiskun og ekki nokkur leið að staðfesta nema með mælingum. Hafa veitumálin ábyggilega ýtt undir áhuga manna á mælingum í Hveradölum.
Mælingarnar fóru nokkuð hóflega af stað að því leyti að stöðin komst aldrei í eiginlegar mánaðartöflur Veðurstofunnar, mánaðarúrkomu að vísu getið reglulega en nánast í aukasetningu. Þótt athuganir hafi byrjað 1927 var Höyers og stöðvarinnar ekki getið í stöðva- og athugunarmannalista ársyfirlits Veðráttunnar fyrr en 1931. Það ár var sett upp símstöð í Hveradölum og stöðinni breytt í skeytastöð þá um haustið. Urðu athuganir þá ítarlegri - eins og nánar er fjallað um hér að neðan. Árið 1934 ákváðu Höyer og kona hans að flytja af staðnum. Þeim þótti víst ónæði af framkvæmdum við byggingu skíðaskála og fluttu sig að Gunnuhver á Reykjanesi og bjuggu þar við enn frumstæðari aðstæður heldur en þó var orðið í Hveradölum. Á Reykjanes kom varla nokkur maður og erfitt að koma framleiðslu til neytenda - en það hafði verið auðvelt í Hveradölum. Svo er að skilja af blaðafregnum að þau hjón hefðu ætlað að koma upp drykkjumannahæli á Reykjanesi, en hugmyndin ekki hlotið hljómgrunn yfirvalda. Þau fluttu því til Danmerkur aftur, en komu svo enn aftur til Íslands eftir stríð - eftir mikil leiðindi ytra (sjá grein Ólafs sem vitnað er til að ofan).
Engar upplýsingar er að hafa um uppsetningu mæla, en gera má ráð fyrir því að úrkomumælirinn hafi verið hefðbundinn, án vindhlífar eins og tíðkaðist á þessum árum. Hitamælar hafa trúlega verið í kassa á norðurvegg íbúðarskála.
Athugunarbækur Höyers á tímanum áður en skeytastöðin hóf sendingar eru fábrotnar en ákaflega snyrtilegar og auðlesnar. Við lítum á eitt dæmi af handahófi.
Hér má sjá fyrstu tíu daga júnímánaðar 1930. Mælt er að morgni, hiti, hámarkshiti, lágmarkshiti og úrkoma. Gríðarmikil úrkoma er mæld að morgni 3. og 4. hátt í 100 mm. Seinni dagana gerði mikið kuldakast, sem olli ákveðnum vandræðum við undirbúning Alþingishátíðarinnar sem haldin var undir lok mánaðarins. Við sjáum að þann 9. snjóaði lítilsháttar, snjódýpt mældist 1 cm. Frost var á nóttum og aðfaranótt þess 12. fór það niður í -4,1 stig.
Skeytasendingar hófust úr Hveradölum 1. október 1931. Athugað var tvisvar á dag, kl.8 og kl.17 (9 og 18 að okkar tíma). Meðaltöl voru aldrei reiknuð. Ástæðan er trúlega sú að reiknireglur hafa ekki verið búnar til fyrir þetta athugunartímapar á þessum tíma (það var gert síðar). Reynslan hefur sýnt að síðari athugunartíminn, kl.17 er óheppilegur til meðaltalsreikninga mælinga í illa vörðum veggskýlum. Vegna ákveðinnar sjódepru er óvíst (úr þessu) að ritstjóri hungurdiska fái nægilega öflugt nördakast til að ganga í þessa reikninga, en þeir eru ekki mjög mikið mál. Kannski einhver taki það að sér í framtíðinni - það verður þó seint forgangsatriði.
Það tekur meira á augun að lesa úr þéttum skeytabókunum. Dæmið hér að ofan sýnir fyrstu daga septembermánaðar 1933. Það var mikill rigningamánuður. Mánaðarúrkoman var 583,7 mm og má segja að haugrignt hafi flesta daga. Aðeins þrír dagar voru þurrir. Í janúar þetta sama ár, 1933 mældist úrkoman sjónarmun meiri en þetta eða 596,1 mm og var alllengi mesta mánaðarúrkoma sem mælst hafði á íslenskri veðurstöð.
Við skráningu þessara bóka er mikill kostur að hita- og úrkomumælingar eru færðar tvisvar. Fyrst athugunin sjálf, með einum aukastaf, en aukastafnum síðan sleppt í skeytinu sjálfu. Þetta verður þó til þess að draga mjög úr líkum á mislestri. Væri úrkoma minni en 0,7 mm, var tölunni 9 bætt í skeytið. Mældist úrkoman t.d. 0,4 mm, var talan 94 send í úrkomudálkinum. Talan 97 var frátekin fyrir þau tilvik að úrkomu varð vart, en hún var svo lítil að hún mældist ekki. Yrði úrkomu alls ekki vart var sent 00 í úrkomudálk. Væri hiti ofan frostmarks var aukastaf einfaldlega sleppt, en hækkað upp eða lækkað, 10,7 stig urðu þannig að skeytatölunni 11. Væri frost var 50 bætt við töluna (mínusmerki sleppt), mældist hiti t.d. -6,2 stig var sent 56, væri frostið orðið -15,2 stig var talan 65 send. Þannig komst það mikilvægasta til skila. Skeytalykill þessi var í megindráttum frá árinu 1929, áður höfðu einfaldari lyklar verið í notkun.
Skeytasendingum úr Hveradölum lauk í júnílok 1934. Höyer athugaði þó einn mánuð til viðbótar áður en hann flutti burt. Þá var bygging skíðaskálans komin á fullan skrið.
Eftir að Höyer og kona hans settust að í Hveradölum kom í ljós að jarðskjálftar voru tíðir á staðnum, fleiri en mældust á mælinum í Reykjavík. Alltaf er getið um jarðskjálftana í athugunarbókunum og síðari árin einnig um styrk þeirra eftir svokölluðum Rossi-Forel kvarða, en hann mun vera undanfari Mercalli-styrkleikakvarðans, segir frá styrk skjálftans á athugunarstað, en ekki heildarorku hans eins og við erum vanari í síðari tíma jarðskjálftafregnum.
Með skýrslunni fyrir febrúar 1929 fylgdi þetta forvitnilega bréf (dagsett 1.mars). Þar segir frá einkennilegri hávaðahviðu sem gekk yfir þann 16.febrúar og stóð í um hálfa klukkustund. Hávaðanum fylgdi hvirfilvindur, en hann minnti samt helst á jarðskjálftadrunur eða þrumur. Ekki var hægt að meta úr hvaða átt hávaðinn barst. Höyer tekur fram að þessi mánuður hafi annars verið alveg laust við jarðskjálfta (fuldstændig forskaanet for Jordrystelser). Ekkert hafi orðið vart við eldgosið í Hveradölum, en um þessar mundir stóð yfir eldgos í Öskju, sennilega það síðasta þar til haustið 1961. Ekki skal hér um dæmt hvað var þarna á seyði, en talsvert var um þrumur og eldingar þessa viku.
Ársmeðalúrkoma í Hveradölum á mæliskeiðinu var 2900 mm, en 855 mm á sama tíma í Reykjavík. Í Reykjavík gerðist það að mælingarnar voru fluttar úr skjólsælu porti við Skólavörðustíg upp á þak Landssímahússins. Samanburðarmælingar bentu til þess að úrkoma þar uppi mældist verr heldur en við Skólavörðustíginn. Einnig má með góðum vilja sjá slíka þróun séu mælingar í Reykjavík og í Hveradölum bornar saman. Engin vindhlíf var á mælinum í Hveradölum og kannski hefði úrkoma þar mælst enn meiri með slíkri hlíf heldur en þó gerðist. En eftir stendur að með mælingunum fékkst staðfesting á þeirri gömlu ágiskun Jóns Þorsteinssonar landlæknis að úrkoma í fjallgarðinum suðaustur af Reykjavík væri allt að fjórum sinnum meiri heldur en í borginni (sem þá var reyndar engin borg).
En Höyer athugaði ekki aðeins veður. Í Vísi þann 7. janúar 1930 má finna þessa töflu:
Rétt er að geta þess að veturinn 1928 til 1929 var fádæma hlýr og snjóléttur, sá langhlýjasti allt frá 1847 að telja. Snjór var þá lítið til trafala á heiðinni. Tölurnar eru svo nákvæmar að við sjáum að sex fleiri bílar fóru austur heldur en komu að austan. Hægt er að velta sér upp úr árstíðasveiflu umferðarinnar - en við látum það vera.
Ritstjóri hungurdiska rakst fyrir allnokkrum árum á skeytalykil sem nota átti í Hveradölum við snjóathuganir. Hann er nokkuð sérkennilegur. Í texta er vísað til Skíðaskálans þannig að lykillinn getur ekki hafa verið ætlaður athugunum Höyers - og engin merki hans finnast í bókum hans. Stafsetning og orðalag eru nokkuð fornleg (je í stað é - og fleira) sem bendir til þess að þetta hafi verið fyrir miðja öldina. Engin fullvissa er þó um það því engar heimildir aðrar hefur ritstjórinn fundið. Við skulum nú til gamans líta á hluta skeytalykilsins.
Hér er ýmsum upplýsingum komið fyrir í fimm tölustöfum, einu skeytaorði. Á myndinni má sjá reglur um tvo fyrstu stafi orðsins, þá sem segja frá færð og skíðafæri. Þriðji stafurinn segir síðan frá snjóhulu og snjólagi (hvort um þurran eða blautan snjó er að ræða) og þeir síðustu tveir greina frá snjódýpt í cm. Deilt er í hana með tveimur - til að ná inn meiri snjódýpt heldur en einum metra í skeytið. Nái snjódýpt 2 metrum eða meira skal setja 99 í reitinn. - En ekkert veit ritstjórinn um það hvort þessi lykill komst einhvern tíma í notkun. Almennt má segja að ekki sé góð reynsla af sérathugunum sem þessum - óvenjulegt er að finna athugunarmenn sem sinna þeim til langs tíma. Séu athugunarmenn margir fara athuganir venjulega í vitleysu (undantekningar eru þó frá slíkri bölsýnisreglu).
Við látum þetta duga um athuganir í Hveradölum í bili. Kannski sjón og þrek ritstjórans batni og hann komi sér í að líta betur á hitaathuganir og fleira þaðan. En við þökkum A.C. Höyer og konu hans fyrir þeirra hlut.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (9.1.): 169
- Sl. sólarhring: 592
- Sl. viku: 3292
- Frá upphafi: 2429820
Annað
- Innlit í dag: 138
- Innlit sl. viku: 2731
- Gestir í dag: 136
- IP-tölur í dag: 128
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.