Óvenjulegt?

Hlýtt hefur verið á landinu að undanförnu - eftir kalda tíð í október. Sé að marka spár munu hlýindin ná hámarki aðra nótt eða á þriðjudag (12.nóvember). 

w-blogg101124a

Hér má sjá þykktarspá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir kl.6 að morgni þriðjudags (heildregnar línur), litir sýna hita í 850 hPa fletinum (í um 1400 metra hæð) á sama tíma. Þykktin mælir (sem kunnugt er) meðalhita í neðri hluta veðrahvolfs, því meiri sem hún er því hlýrra er loftið. Innsta jafnþykktarlínan við Austurland sýnir hvar þykktin er meiri en 5600 metrar. Þetta þætti meira að segja mikið að sumarlagi - og hæsti hiti kortsins í 850 hPa er rúm 15 stig, hærri en nokkru sinni hefur mælst yfir Keflavíkurflugvelli (árið um kring). En hafa verður í huga að hér kemur niðurstreymi yfir Austurlandi og þar austur af við sögu - nokkuð sem ekki á sér stað í hlýrri sunnanátt yfir Keflavík. Tölur sem þessar eru því mun algengari við Austurland heldur en suðvestanlands. 

Hitamet nóvembermánaðar yfir Keflavík er 10,0 stig í 850 hPa, orðið harla gamalt reyndar, sett 13.nóvember 1961 (og kannski ekki mjög nákvæmt). Háloftakanna er ekki sleppt til mælinga nema tvisvar á dag og er þess vegna nokkur heppni ef hann hittir í hlýjar tungur á hraðferð að vetrarlagi, en þó er vissulega vel þess virði nú að gefa athugunum morgundagsins (mánudags 11.nóvember) gaum hvað möguleg met snertir. Svo virðist sem frostlaust verði upp fyrir 3 km, langt upp fyrir hæstu fjöll landsins. 

En þrátt fyrir þetta er alls ekki víst að um methita verði að ræða á veðurstöðvunum. Þegar að byggðum Austur- og Norðausturlands kemur hefur loftið blásið um langa hríð yfir hálendið. Þrátt fyrir hlákuna er yfirborðshiti ekki langt frá frostmarki. Loftið kólnar því á leið sinni og verður þar með stöðugra - erfiðara er að losna við það og uppblöndun við hið gríðarhlýja loft fyrir ofan verður tregari. Þegar svona hlýtt loft fer um að sumarlagi er greiðari leið til blöndunar, auk þess sem yfirborð landsins er mun hlýrra, sérstaklega sé það þurrt og sól hefur skinið á það baki brotnu. Að vetrinum er því mun erfiðara um vik - helst er von um háar hitatölur nærri háum fjöllum - þar er heldur meiri von um hræru. 

Til gamans skulum við líka líta á mættishita í 850 hPa-fletinum. Mættishitinn sýnir hversu hlýtt loft getur orðið sem dregið er beint niður til 1000 hPa þrýstings - án blöndunar. 

w-blogg101124b

Við sjáum að hæsta talan á kortinu er 28,9 stig. Því er ekki að neita að slík tala liti ævintýralega út á mæli veðurstöðvar - í nóvember. En það er víst lítil von til þess að slíkt sjáist. Mættishiti í 925 hPa (í um 700 metra hæð) er (í spánni) um 25 stig. Neðar sjást greinileg hitahvörf þar sem þyngra og kaldara loft situr - og fer væntanlega ekki. 

Þess má enn geta að hitamet nóvembermánaðar er 23,2 stig, sett á Dalatanga 11.nóvember 1999 - við heldur minni þykkt en hér er spáð. Þá hafa æskileg tengsl orðið við hlýja loftið ofan við. Dæmi í „hina áttina“ er úr gömlum hungurdiskapistli (7.nóvember 2011). 

w-blogg101124c

Þetta er sams konar kort og það fyrra hér að ofan (en eldri gerð). Þykkt var þá spáð yfir 5600 metrum yfir Norðausturlandi - eins og nú - og hámarkshita í 850 hPa um 13 stig (ívið lægra en nú). Þetta er 36 stunda spá - spáin sem vitnað var í að ofan er 42 stunda spá. Það sem gerðist hins vegar var að í raun urðu hiti og þykkt ívið minni en spáð hafði verið - og skilyrði að öðru leyti ekki alveg jafn hagkvæm og 1999. Mesti hiti sem mældist var þó 21,0 stig (á Skjaldþingsstöðum). Það má taka eftir því að áður en metið var sett 1999 var hitamet nóvembermánaðar hér á landi 19,7 stig, líka sett á Dalatanga, en þann 10. 1971. Svo virðist sem stöðin á Dalatanga sé einna líklegust til meta við þessar vetraraðstæður, þar er hátt fjall nærri - og von til þess að ná í loft sem ekki hefur kólnað við stöðuga og langvinna snertingu við blautar eða frosnar heiðar. Ekki er heldur langt í há fjöll á Skjaldþingsstöðum og sömuleiðis á Seyðisfjörður líka fáeinar vænar vetrartölur. Sauðanesviti vestan Siglufjarðar er sömuleiðis líklegur. Sé áttin nægilega vestlæg koma Kvísker í Öræfum sterkt inn. Líklegt er að stöðvamet verði sett, jafnvel mjög mörg. 

Á aðfaranótt fimmtudags er svo aftur búist við hlýju lofti til landsins - en þó ekki alveg jafnhlýju og hér hefur verið fjallað um. Síðan á að kólna rækilega. Hætt er við að hvasst verði á köflum næstu daga, jafnvel úr hófi. Vonandi kemur tíudagayfirlit hungurdiska síðan á morgun. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.1.): 15
  • Sl. sólarhring: 273
  • Sl. viku: 2394
  • Frá upphafi: 2434836

Annað

  • Innlit í dag: 11
  • Innlit sl. viku: 2121
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 10

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband