Smávegis af illviðri gærdagsins (7.nóvember 2024)

Nokkuð hvasst varð á landinu í gær (fimmtudaginn 7.nóvember). Lægð fór til norðurs fyrir vestan land - og síðan norðaustur í höf. Um nóttina snerist vindur úr austlægri átt í suðlæga. Þá hlýnaði skemmtilega snögglega - sums staðar um meir en 10 stig á fáeinum mínútum. Í daglegu uppgjöri ritstjóra hungurdiska setur hann mörk hins áhugaverða við 8 stiga breytingu á klukkustund. Það er ekki oft sem slík skyndibreyting á sér stað á jafnmörgum veðurstöðvum sama daginn - nú var það á 16 stöðvum og á tíu þeirra varð breytingin 10 stig eða meira, mest á Ólafsfirði þar sem hitinn fór úr 2,7 stigum í 15,8 á innan við klukkustund, hækkun um 13,1 stig.

Jafnframt því sem vindur gekk til suðurs hvessti mjög. Hámarksútbreiðslu náði hvassviðrið um kl.9 um morguninn, eftir það slaknaði nokkuð en síðdegis bætti aftur í á Vestfjörðum. Ofviðranörd gætu hér greint á milli tveggja ofviðragerða - (eins og lýst var í pistli hungurdiska í gær). 

Mánaðarvindhraðamet voru slegin á fáeinum veðurstöðvum sem athugað hafa í um 20 ár eða meira. Má þar nefna Súðavík, Hornbjargsvita, Straumnesvita, Bolungarvík, Seljalandsdal og svo Flatey á Skjálfanda. Á öllum Vestfjarðastöðvunum var metið sett í „síðari“ strengnum og er vel að landið hafi sloppið við hann að öðru leyti. Vakthafandi veðurfræðingur vakti athygli ritstjóra hungurdiska á því að furðulítið varð úr veðri á höfuðborgarsvæðinu - þótt gríðarmikill vindstrengur hafi verið í fjallahæð. Í grunninn er kannski ekki erfitt að finna skýringu - alla vega á ritstjórinn slíka á lager - en þar sem allsendis óvíst er hvort hún er rétt skal lesendum vægt (alla vega að þessu sinni).

Í hinu áðurnefnda daglega uppgjöri ritstjórans kom jafnframt í ljós að veðrið náði inn á annan (af tveimur) listum sem ritstjórinn hefur um langt skeið notað til að fylgjast með illviðratíðni. Annar þeirra „mælir“ fjölda stöðva þar sem vindur nær 20 m/s einhvern tíma sólarhrings - að þessu sinni fór mælitalan í 34 prósent (stöðva í byggð) - það næstmesta á árinu. Til að komast á listann þarf dagur að ná 25 prósentum eða meir. Að jafnaði hafa slíkir dagar verið um 12 á ári, en hafa hingað til ekki verið nema tveir það sem af er 2024. Verður að teljast að hér sé um óvenjulega illviðrarýrð að ræða - en afgangur ársins gæti svo sannarlega „bætt úr“ því. Hinn dagurinn á árinu sem náði þessu máli var 25. janúar (með 42 prósent). 

Til að komast á hinn listann gerir ritstjórinn þá kröfu að meðalvindhraði sólarhringsins í byggðum landsins nái meir en 10,5 m/s (ástæða tölunnar er einfaldlega sú að hann vill að til lengdar séu ámóta margir dagar á hvorum lista). Veður gærdagsins vantaði aðeins upp á (meðaltalið var 10,29 m/s) - við getum sagt að það hafi ekki staðið nægilega lengi - eða þá að vindur hafi ekki verið nægilega mikill. Það kom ritstjóranum einnig á óvart að þetta er þriðjahæsta tala ársins. Hinir tveir dagarnir voru 4.júní (norðanhretið mikla) og hvassviðri 7. apríl. Hvorugur þessara daga náði inn á hinn listann og veðrinu 25.janúar var líkt farið og því í gær, að það náði ekki inn á meðalvindhraðalistann. Ekkert illviðri ársins hefur því komist á báða lista - nokkuð óvenjulegt - en kannski „rætist úr“ (vonandi þó ekki). 

Spár eru nokkuð órólegar næstu daga - í báðum merkingum þess hugtaks. Spáð er órólegu veðri - og reiknimiðstöðvar senda frá sér næsta ólíkar spár. Þær eru þó um það bil að verða sammála um að eftir helgi komi enn eitt hlýindaskotið - harla óvenjulegt reyndar.

w-blogg081124a

Hér er nýjasta spá evrópureiknimiðstöðvarinnar sem gildir um hádegi á þriðjudag. Jafnhæðarlínur 500 hPa-flatarins eru heildregnar, en þykktin sýnd í lit. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Segja má að landið allt sé í sumarhlýindum á þessu korti og þykktin meiri en 5580 metrar yfir Austurlandi. Þetta er að vísu ekki alveg einsdæmi í nóvember, en eldri tilvik eru mjög fá. Það er misjafnt hvað þau hafa skilað háum hitatölum á veðurstöðvunum. Ámóta tilvik 8. nóvember 2011 náði 21,0 stigum á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði. Íslandsmetið í nóvemberhita, 23,2 stig frá Dalatanga 11.nóvember 1999 var sett við ívið lægri þykkt heldur en hér er spáð, en til að met verði sett þarf að „hitta í“ margt í senn. Eitt af því er þétt stöðvakerfi. Nútíminn er þannig líklegri til að ná metum (hvað sem hnattrænni hlýnun líður) út úr hraðfara veðurkerfum að vetrarlagi heldur en gömlu skýlin með sínum hægari loftskiptum - og stöðvarnar mun fleiri. Við vitum þannig nokkuð áreiðanlega af ámóta tilvikum á fyrstu áratugum háloftamælinga - sem ekki náðu að skila 20 stigum og vantaði jafnvel talsvert upp á. 

En óróinn á að halda áfram. Kannski er vafasamt að sýna kortið hér að neðan. Líklega á það eftir að breytast mörgum sinnum - en látum okkur hafa það samt (við sýnum stundum kort skemmtideildarinnar).

w-blogg081124d

Hér er kominn fimmtudagur 14.nóvember. Enn er mjög hlýtt austanlands - en köld stroka ryðst með látum að landinu úr vestri. Við skulum taka eftir því að bæði jafnhæðar- og jafnþykktarlínur eru mjög þéttar, þykktarbrattinn dregur mjög úr afli rastarinnar næst jörðu, en mjög lítið misgengi þarf til að hér verði um versta veður að ræða - og einhvers konar norðankast í kjölfarið - skammvinnt eða ekki. Bandaríska veðurstofan er með allt öðru vísi spá - mun mildari. Kannski við trúum henni frekar því eins og áður sagði hefur farið ótrúlega vel með veður allt þetta ár - þótt margir kvarti. Kuldapollar norðurhvels eru nú að ná sér á strik og eru - eins og venjulega til alls líklegir.

Hér hefur ekkert verið minnst á veður helgarinnar. Rétt fyrir þá sem eru í ferðalögum milli landshluta að fylgjast vel með veðri og veðurspám. Munum að engar veðurspár er að finna á hungurdiskum - aðeins umfjöllun um veður. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 87
  • Sl. sólarhring: 235
  • Sl. viku: 1052
  • Frá upphafi: 2420936

Annað

  • Innlit í dag: 80
  • Innlit sl. viku: 929
  • Gestir í dag: 79
  • IP-tölur í dag: 78

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband