Snörp lægð

Þessa dagana eru hlýjar suðlægar áttir ríkjandi á landinu. Þótt fjöldi dægurstöðvameta hafi verið slegin eru hlýindin samt ekki nægileg til að geta talist óvenjuleg eða einstök - alla vega ennþá. Þó nokkuð hafi blásið finnst ritstjóra hungurdiska vindhraði allmennt hafa verið undir væntingum - miðað við stöðuna. Ekki hefur hann þó klórað sér verulega í höfðinu yfir því. 

Lægðin sem er að fara til norðurs fyrir vestan land í dag er þó heldur öflugri heldur en fyrirrennarar hennar og spár eru jafnvel að gera ráð fyrir snörpum suðvestan- eða vestanhvelli á Vestfjörðum og sums staðar á Norðurlandi líka. Við skulum reyna að taka mark á þeim - eigum við eitthvað undir. 

w-blogg071124a

Kortið er úr ranni evrópureiknimiðstöðvarinnar og sýnir sjávarmálsþrýsting (heildregnar línur) klukkan 21 í kvöld, fimmtudag 7.nóvember og einnig 3 klukkustunda þrýstibreytingu á sama tíma (frá 18 til 21) með litum. rauðir litir sýna fallandi loftvog, en bláir rísandi. Við bendum sérstaklega á blett vestur af Vestfjörðum þar sem þrýstiris sprengir litakvarðann. Loftvog á þar að stíga um +21,3 hPa þar sem mest er. Örar breytingar á loftþrýstingi eru að jafnaði merki um möguleg illviðri, því meiri eftir því sem breytingarnar eru meiri. Þess vegna er ekki annað hægt en að vara við mögulegum stormi - eða því þó meira. 

En við sjáum líka á myndinni að lægðin grynnist ört, það er ekkert þrýstifall við hana sem stenst á við hina rísandi loftvog og er hér meira að segja svo langt gengið að stutt hlýtur að vera í dauða lægðarinnar - eða þess anga hennar sem illviðrinu veldur. 

Eins og oft hefur verið fjallað um hér á hungurdiskum áður má líta svo á að illviðri megi „skýra“ með misgengi hæðar veðrahvarfanna og hitafars í veðrahvolfi. Það er venjulega svo að kalt loft fylgir lágum veðrahvörfum, en hlýtt háum. Við mælum hitann gjarnan með svonefndri þykkt og með því að fylgjast með dreifingu jafnþykktarlína og jafnhæðarlína veðrahvarfanna getum við líka metið eðli illviðra. Veðrahvörfin eru hins vegar nokkuð erfið viðfangs, en þar sem mjög gott samband er á milli hæðar þeirra og hæðar 500 hPa-flatarins getum við vel notað jafnhæðarlínur þess flatar í stað veðrahvarfanna í vangaveltum okkar. 

Misgengið sem um er rætt getur einkum orðið þrenns konar. (i) Séu jafnhæðarlínur mjög þéttar (eins og gerist í háloftaröstum) en jafnþykktarlínur gisnari er það merki um að „hes“ úr röstunum liggi frá þeim í átt til jarðar. Verst er ástandið hverfi jafnþykktarlínurnar alveg undir röstinni. (ii) Séu jafnhæðarlínur gisnar, en jafnþykktarlínur þéttar (loftið undir veðrahvörfunum óvenju kalt) er vindur lítill í háloftum, en öflugur í neðri lögum, því meiri eftir því sem jafnþykktarlínurnar eru þéttari - og þá oft jafnvel af andstæðri átt við háloftavindinn. Við getum talað um lágrastarveður og snúist vindátt við getum við talað um öfugsniðaveður. (iii) Stöku sinnum gerist það að hlýtt loft lokast af undir lágum veðrahvörfum, loftið er þar mun hlýrra heldur en umhverfis. Þetta er óeðlilegt ástand og er þá vindur ekki mestur í háloftum (getur þó verið mikill) heldur vex hann eftir því sem neðar dregur (þar til núnings fer að gæta), bætir sum sé í vind neðarlega í veðrahvolfi. Allir fellibyljir hitabeltisins eru þessarar (iii) tegundar, en hlýindin í þeim miðjum hafa þó orðið til á allt annan hátt heldur en í lægðum þeim á norðurslóðum sem eiga þó þetta sameiginlega einkenni. 

Illviðrið sem búist er við í kvöld á Vestfjörðum er þessarar þriðju tegundar. Hlýtt loft hefur lokast af undir fremur lágum veðrahvörfum og bætir í vind í lægri lögum. Þetta veður er þó að fyrirferð með minnsta móti og eiga spárnar því í nokkrum erfiðleikum með að ná því. Bæði verður þetta (innilokunar-)ástand skyndilega til og lifir ekki lengi. Þess vegna er óvissa umtalsverð. 

Þó þessi flokkun illviðra sé nokkuð skotheld á hver flokkur sér þó fjölmörg tilbrigði. Sum þeirra reyna á flokkunina - svo til verða greinilegir undirflokkar - allt getur auðveldlega endað í miklu flokkunarfylleríi sem ritstjórinn hefur oft lent á. Slíku fylgja svo sannarlega miklir timburmenn. Bergjum því varlega á veigunum og látum þær ekki leiða okkur á miklar villigötur. 

En fylgist með spám Veðurstofunnar og annarra til þess bærra aðila. Ritstjóri hungurdiska er löngu hættur að gefa út spár - framtíðin er óráðin. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224
  • w-blogg111224a
  • w-blogg101224b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.12.): 87
  • Sl. sólarhring: 235
  • Sl. viku: 1052
  • Frá upphafi: 2420936

Annað

  • Innlit í dag: 80
  • Innlit sl. viku: 929
  • Gestir í dag: 79
  • IP-tölur í dag: 78

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband