Tíu stiga syrpur (tíu árum síðar)

Það var í fyrradag (sunnudaginn 6.október) sem hámarkshiti á landinu náði ekki tíu stigum. Haustið 2014 birtist hér á hungurdiskum stuttur pistill þar sem fjallað var um slík tímamót - og lengd samfelldra tímabila daga þar sem landshámarkshiti er tíu stig eða meira. Í þessum gamla pistli er fjallað um alls konar vandamál tengd slíkri „mælingu“ - rétt er að vísa þeim sem eru sérstaklega áhugasamir um slíkt í gamla pistilinn

En nú eru allt í einu liðin 10 ár (fyrirvaralaust) og e.t.v. rétt að athuga hvað gerst hefur síðustu tíu árin. Meginvandamálið við tímaröð sem nær til landsins alls er einfalt: Stöðvakerfið er alltaf að breytast - og ekkert víst að kerfið sem var við líði fyrir 60 árum hefði mælt sömu lengdir tímabila og kerfið gerir í dag - nánast öruggt að það gerir það ekki. Hitamælistöðvum hefur fjölgað - og þar með hafa líkur aukist á því að hitta á 10 stig einhvers staðar - sérstaklega í blábyrjun og bláenda samfelldra tímabila. 

w-blogg081024a

Súlurnar sýna lengd lengsta tíustigakafla hvers árs, en rauða línan er 10-árakeðja. Lengst lifðu 10 stigin á landsvísu 2001 og 1961 - þau sumur fá samt engin sérstök verðlaun í gæðametingi - og við sjáum að nýliðið sumar, 2024, skorar vel, með 169 daga, 27 dögum fleiri en langtímameðaltalið (1949-2024). Sumarið 2021 sker sig úr nýliðnum sumrum með aðeins 103 daga. Þá kom einn „spillidagur“, 13. júní - hefði tekist að mæla 10 stig þann dag hefði lengdin á samfellunni orðið 147 dagar - slefað meðallagið. Við sjáum af þessu að lítil von er til þess að við getum notað stök ár í greiningu sem þessari í umræðum um veðurfar. 

Hins vegar sjáum við að 10-árakeðjan hefur svipaðar hneigðir og hitafar almennt. Köldu áratugirnir mynda dæld - 10-ára meðaltalið fer niður í 128 daga (1969-1978) og upp í 160 (2004 til 2013). 

Í gamla pistlinum litum við líka á Reykjavík. Þar hófust samfelldar hámarkshitamælingar árið 1920.

w-blogg081024b

Við sjáum hér svipaða hluti. Kalda tímabilið sker sig nokkuð úr á milli þeirra hlýju. Meðaltal alls mæliskeiðsins er 81 dagur. Í ár, 2024, fengum við 74 samfellda daga með  tíu stiga hámarkshita eða meira, svipað og þrjú árin næst á undan. Styst var tímabilið 1983 - sundurklippt með mest 11 daga samfellu. Lengsta samfellan var 2009, 133 dagar og litlu færri 2017 (131). 

w-blogg081024c

Tíudagasamfellur eru áberandi styttri á Akureyri heldur en í Reykjavík. Dagar með norðanátt eru kaldir - gefa lítinn möguleika á tíu stigum. Meðallengd lengstu syrpu ársins er aðeins 44 dagar (1938 til 2024). Í sumar var lengd syrpunnar 34 dagar, tíu færri en að meðaltali. Lengsta syrpan var sumarið 2018, 89 dagar, en styst 1963, aðeins 16 dagar, sem er þó lengra heldur en 11 dagasyrpan í Reykjavík 1983. Það vekur athygli að á tímabilinu 1956 til 1990 nær varla nokkurt ár langtímameðaltalinu, nema 1976, en frá og með 1991 fjölgar löngum syrpum og hæsta 10-ára meðaltalið er 64 dagar (2005 til 2014). 

Kannski segir þetta einhverjum eitthvað (og kyndir e.t.v. einhverja nördaelda). 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Apríl 2025
S M Þ M F F L
    1 2 3 4 5
6 7 8 9 10 11 12
13 14 15 16 17 18 19
20 21 22 23 24 25 26
27 28 29 30      

Nýjustu myndir

  • w-blogg300325a
  • w-2008-hitabylgja-rvk-linurit
  • Slide13
  • w-2008-hitabylgja-rvk-linurit
  • tx rvk 300708 arason i08m afrit

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (2.4.): 13
  • Sl. sólarhring: 116
  • Sl. viku: 1619
  • Frá upphafi: 2457368

Annað

  • Innlit í dag: 8
  • Innlit sl. viku: 1463
  • Gestir í dag: 8
  • IP-tölur í dag: 8

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband