Sjávarhitamoli (?)

Myndin hér að neðan er klippa úr sjávarhitakorti evrópureiknimiðstöðvarinnar (eins og það er teiknað á Veðurstofunni). Ritstjóri hungurdiska verður að vísu að játa að hann er ekki mjög kunnugur sjávarlíkani reiknimiðstöðvarinnar, en veit þó að það er í gagnvirku sambandi við lofthjúpslíkanið. Lofthjúpslíkanið hefur áhrif á sjóinn - og sjórinn áhrif á lofthjúpinn. Sjávarhitagögnin eru þó ekki þrælar lofthjúpsins - heldur uppfærast þau með einhverjum gervihnattamælingum - og e.t.v. líka fleiri sjávarhitamælingum sem gerðar eru af baujum eða skipum (ekki veitir af). 

w-blogg300924a

Þetta er kort dagsins, mánudaginn 30.september. Það er köld tunga sem liggur inn Húnaflóa sem vekur athygli. Hiti í henni er á milli 3 og 4 stig, 3 stig við Kaldbaksvíkina (tökum við kortið bókstaflega) - en nærri 5 stig austast í flóanum. - Undan norðurlandi austanverðu eru hins vegar svæði þar sem sjávarhiti er meiri en 6 stig. Um 8 stiga hiti er á Faxaflóa og 9 undan Reykjanesi. 

Þessi kalda tunga var ekki nærri því eins áberandi í greiningum fyrir hálfum mánuði - og var ekki í þeim spám sem þá voru reiknaðar - sá vottur sem var átti reyndar frekar að dofna heldur en hitt. 

Kuldi sem þessi slær sér endrum og sinnum upp í lofthitaspárnar - og sömuleiðis getur hann afmarkað þokusvæði dag og dag í þokuspám. 

Ætli við verðum ekki að gera ráð fyrir því að eitthvað sé til í þessu - en ekki er alveg auðvelt að sjá hvers eðlis málið er. Því miður þá virðist engin mælibauja vera á þessum slóðum um þessar mundir - en nú á dögum mæla þær margar hverjar þversnið hita og seltu niður á meir en 1 km dýpi - jafnvel talsvert meira. Af slíkum sniðum má margt ráða um eðli kaldra (eða hlýrra) bletta af þessu tagi. 

Ritstjóra hungurdiska finnst sennilegt að hér sé á ferðinni tiltölulega ferskur sjór sem sloppið hefur út úr Austurgrænlandsstraumnum - en sveipir úr honum komast leggjast oft yfir hlýrri og saltari sjó sem sífellt berst norður með Vesturlandi - og síðan austur með Norðurlandi. Á vorin og að sumarlagi bera sveipirnir oft með sér hafísspangir - jafnvel inn á utanverðan Húnaflóa. Fyrr í sumar voru einhverjar slíkar spangir (veigalitlar þó) á ferðinni þarna norður af. Trúlegast er að kuldinn nú sé bráðin - mjög létt (fersk). Við vitum hins vegar ekki hvort hún er þunn - eða örþunn. Ef hún er örþunn blandast hún fljótt heldur hlýrri sjó sem liggur undir - þegar vetrarvindar fara að róta í sjónum. 

Það eru fáeinar baujur undan Norðausturlandi (að vísu ekki nærri landi). Þar má sjá mjög þunnt lag (frekar hlýtt raunar - leifar upphitunar sumarsins), undir því er mun kaldari blanda - ekki mjög sölt - og síðan saltur atlantssjór undir - jafnvel örlítið hlýrri en millilagið. En - á Húnaflóanum vitum við ekki neitt um lagskiptinguna í dag (alla vega þekkir ritstjóri hungurdiska hana ekki).

Spáin gerir ráð fyrir að þessi kalda tunga jafnist út á næstu viku til tíu dögum. En gerir hún það. Það verður fróðlegt að fylgjast með. 

En rétt er að taka fram að lokum að þetta er talsvert kaldara heldur en undanfarin ár, vikin (miðuð við tuttugu ár (líklega)) sem reiknimiðstöðin birtir eru -3 til -4 stig þar sem mest er. Í fyrra segir reiknimiðstöðin að hiti á þessum slóðum hafi verið 7-8 stig 30.september - ekki gott að segja hversu mörg ár eru síðan síðast var þetta sjávarkalt í Húnaflóanum.  


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg200125c
  • w-blogg200125g
  • w-blogg200125f
  • w-blogg200125e
  • w-blogg200125d

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (21.1.): 28
  • Sl. sólarhring: 134
  • Sl. viku: 2475
  • Frá upphafi: 2434585

Annað

  • Innlit í dag: 25
  • Innlit sl. viku: 2199
  • Gestir í dag: 25
  • IP-tölur í dag: 25

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband