Óformlegar úrkomuvangaveltur

Upp á síðkastið hefur verið nokkuð rætt um vatnsskort í lónum á landinu - og afleiðingar fyrir orkubúskapinn. Nú er það svo að birgðastaða á hverjum tíma er háð fjölmörgum þáttum og ritstjórinn játar fúslega að hann hefur enga vitneskju um marga þeirra. Því má alls ekki taka því sem hér fer á eftir sem einskonar svari við því hvers vegna vatnsstaðan er ekki betri en hún er. 

Úrkoma hlýtur þó að vera einn af þeim þáttum sem áhrif hafa. Um leið og tekið er á henni bætir í flækjustigið. Það koma upp spurningar um hlutfall regns og snævar - hlut vetrarúrkomu - hlut sumarúrkomu - auk auðvitað þátta framleiðandans - hversu mikla orku ætlar hann að selja - hvaða áhættu er hann tilbúinn að taka gagnvart veðurþáttunum. 

Við látum þessa flækju eiga sig - en lítum aðeins á úrkomuna - árssummu og fimm ára summu. Nægileg álitamál þar. Ritstjórinn hefur með reiknikúnstum galdrað fram úrkomugagnaröð fyrir Suðurland (frá Reykjanesi sunnaverðu í vestri - austur á Stöðvarfjörð í austri). Nær röð þessi allt aftur til 1872. Það er að vísu fullmikið í lagt - en er samt ekki alveg glórulaus skáldskapur. Tölur eru settar fram sem hlutfall ársúrkomu áranna 1971 til 2000. Ástæða þess að þetta grunntímabil var valið er sú að þá voru hefðbundnar úrkomumælingar hvað þéttastar á landinu. Síðustu árin hafa þær mjög grisjast. Vonandi munu gögn sjálfvirkra stöðva verða vel nothæf innan fárra ára - en eru það ekki sem stendur. 

Vegna þess að árinu 2024 er ekki lokið var ákveðið að líta á öll 12-mánaða tímabil áðurnefndra ára - til þess að tímabilið september 2023 til ágúst 2024 gæti verið með. Niðurstaðan er sett fram á myndinni hér að neðan. Hún kann að virðast nokkuð ógnvekjandi, en grundvallaratriði þó einföld. 

w-blogg260924a

Efri hluti myndarinnar (súlurnar) sýnir úrkomu sunnanlands öll 12-mánaða tímabil á árunum 1872 til 2024 sem hlutfall af ársúrkomu 1971-2000. Það sem fyrst vekur athygli er að úrkoman virðist hafa farið vaxandi. Ef við tökum vöxtinn alveg bókstaflega er hann um 18 prósent á öld (sem er auðvitað ótrúlega mikið). Langlíklegasta skýringin er sú að gögnin séu ekki einsleit - þess má t.d. geta að hlutur snævar í ársúrkomu er meiri á köldum tímabilum heldur en hlýjum, en snjór mælist mun verr heldur en regn - það gæti haft áhrif á þessa yfirgengilegu (sýndar)leitni. Sömuleiðis voru mælar án vindhlífa fram um 1950 - hefur líka áhrif á gögnin. En svo er það hin almenna skoðun að úrkoma aukist með hlýnandi loftslagi. Þessi (sýndar)aukning er langt umfram það sem hitaleitnin nær að skýra (ef við trúum slíkum skýringum). Hitaaukningin á þessu tímabili er um 1,3 stig - úrkomuaukningin ætti því að vera um 14 prósent á stig - fullmikið af því góða. Almennt er talað um 2-3 prósent á stig - þeir svartsýnustu nefna 7 prósent. Æskilegt væri að reyna einskonar leiðréttingar - en sá ís er háll - og ekki tilefni hér til að fara út á hann. 

Við megum taka eftir því að síðustu 12 mánuði hefur úrkoman verið 90 prósent af meðallagi - fór í júní (júlí 2023-júní 2024) niður í 80 prósent. Þetta gæti svosem eitt og sér skýrt stöðuna í lónunum - vegna þess að að auki var sumarið svalt (miðað við það sem verið hefur að undanförnu) og jöklabráðnun (gamlar aukabirgðir af úrkomu) gaf minna heldur en væntingar hafa staðið til þegar orkusalan var ákveðin. Þurrkurinn um þessar mundir er reyndar sá mesti síðan 2010 - þá fór hlutfallstalan lægst í 74. Enn lægri tölur má finna í fortíðinni, t.d. niður í 69 í mars 1965 til febrúar 1966. Allra lægsta talan er 46, í ágúst 1887 til júlí 1888. Við gætum (með kúnstum) leiðrétt hana upp í um það bil 58 - slík tala er alveg hugsanleg nú á tímum (ef við erum óheppin). 

Rauða línan á myndinni nær til lengri tíma, hlutfall síðustu fimm ára. Nú er sú tala nákvæmlega 100 prósent - það segir að úrkoma síðustu fimm ára hefur verið sú sem hún var  venjulega 1971 til 2000. Hún er hins vegar um 5 prósent lægri heldur en meðaltal fyrstu 23 ára aldarinnar. Spurning er við hvaða tímabil lónverðir miða rekstur sinn. - Rétt að taka fram að ég hef enga skoðun á því - (og ekki vit heldur). 

Það eru nokkur eftirtektarverð þurr fimmáratímabil í fortíðinni, en ekkert alveg nýlegt. Það er rétt að gefa þessum tímabilum gaum - ákveðin áhætta fellst í endurkomu þeirra. 

Neðsti ferillinn á myndinni sýnir mismun á hinum ferlunum tveimur - hversu langt er á milli úrkomu síðustu 12 mánaða og síðustu 5 ára. Sé tólfmánaðaúrkoman meiri heldur en fimmáraúrkoman er ákveðið að talan sé jákvæð. Topparnir sýna því þau tilvik vel þegar skipt hefur skyndilega úr löngum þurrkakafla yfir í úrkomutíð - en lágmörkin hið öfuga - þegar skyndilega hefur skipt yfir í þurrka. Hér er enga leitni að sjá - veðrið hefur hegðað sér á svipaðan hátt hvað þetta varðar í 150 ár. 

En hvað veldur þá þessum sveiflum? Það er ekki gott að segja. Gera má tilraun til að leita ástæðurnar uppi. Við látum nægja hér að nefna það sem ritstjórinn telur vega þyngst. Það er þrái (afl) sunnanáttarinnar í háloftunum, (sem er í grunninn tilviljanakenndur að því er virðist). Hann er hægt að mæla á ýmsa lund - við látum skilgreiningar á því eiga sig - trúum bara myndinni hér að neðan.

w-blogg260924b

Lárétti ásinn sýnir styrk sunnanþáttarins (úr einskonar vigurvind ársins). Lóðrétti ásinn er aftur á móti áðurnefnt úrkomuhlutfall. Það er mesta furða hvað sambandið er gott (við látum okkur nægja að fara 100 ár aftur í tímann). Tvö ár skera sig nokkuð úr - 2010 og 2012 en þá var sunnanáttin alveg sérlega rýr í roðinu, en fylgnistuðullinn er þó af sterkvodkastyrk (0,68).

Svo vill til að þetta (allt of) einfalda líkan hittir mjög vel í úrkomu síðustu 12 mánaða, „spáir“ hlutfallinu 90 prósentum - einmitt það sem það hefur verið. Það er því „skortur“ á suðlægum áttum sem veldur þurrviðrinu þráa. 

Með því að bæta fleiri háloftaþáttum við hækkar fylgnistuðullinn - en ekki þó afgerandi. Við að bæta hæð 500 hPa-flatarins við fer hann upp í 0,71 og nemum við langtímaleitnina burt þar að auki fer hann upp í 0,76 - (við náum ekki spírastyrk). Árin tvö 2010 og 2012 færast þó áberandi nær aðfallslínunni. Hár 500 hPa-flötur dregur úr úrkomunni (lægðagangur er minni) - fylgni hæðarinnar og úrkomunnar er marktæk ein og sér - en ekki þó ráðandi. 

Ekki gott að segja hvort þetta svarar einhverju - en ritstjórinn veit þó að hægt er að reikna miklu betur - með mun meira og sterkara vísindabragði - (og brögðum), og ritstjóri hungurdiska vonar auðvitað að einhver taki það verk að sér (orðinn allt of gamall og heiladofinn sjálfur). 


« Síðasta færsla

Bæta við athugasemd

Hver er summan af átta og fjórtán?
Nota HTML-ham

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • w-blogg260924b
  • w-blogg260924a
  • w-blogg230924
  • Slide11
  • Slide10

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (27.9.): 35
  • Sl. sólarhring: 196
  • Sl. viku: 1909
  • Frá upphafi: 2395827

Annað

  • Innlit í dag: 32
  • Innlit sl. viku: 1733
  • Gestir í dag: 31
  • IP-tölur í dag: 30

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband