15.9.2024 | 03:00
Leitahretið mikla í september 1963
Ritstjóri hungurdiska vinnur nú að samantekt um veðuratburði ársins 1963. Pistillinn hér að neðan hefði átt að verða hluti þeirrar löngu samantektar, en þá hefði verið nauðsynlegt að stytta hann að mun. Því er gripið til þess ráðs að taka hann út fyrir sviga.
Sumarið 1963 var stutt. Vorið var mjög hretasamt og þrátt fyrir allgóða kafla í júní og aftur í ágúst var fremur kalt í veðri, sérlega kalt var í júlí. Fyrir 10. september gerði allmikið hret, þá snjóaði allmikið norðaustanlands og fé fennti en veðurharka var samt ekki mjög mikil - eitt þeirra fjölmörgu hreta sem talsvert er talað um þegar þau gerir, en falla síðan í gleymsku og dá að mestu.
Það hret sem hér er fjallað um varð mun minnisstæðara. Tvennt kom til. Í fyrsta lagi snjóaði óvenju mikið um vestanvert Norðurland og í öðru lagi hitti veðrið í margar af lengstu fjárleitum landsins, sem á þessum tíma var farið í heldur seinna en nú tíðkast. Er óhætt að fullyrða að það er ekki oft sem leitarmenn hafa lent í jafnmiklum erfiðleikum og að þessu sinni. Þurftu jafnvel að hætta við í miðjum klíðum og hrekjast til byggða. Má í þessu tilviki segja að kuldarnir um sumarið - og hið minna hret nærri hálfum mánuði áður hafi bjargað nokkru - talsvert af fé hafði þegar komið sér úr heiðum og afréttum og óvenju fátt þar að finna. Réttir urðu víða ekki svipur hjá sjón. Þetta gerir veðrið trúlega enn eftirminnilegra heldur en myndi verða í sambærilegu veðri sömu daga mánaðarins nú á dögum.
Ritstjóra hungurdiska er það minnisstætt að hann kom upp í Þverárrétt í Borgarfirði daginn eftir að versta veðrið gekk yfir. Þar var þá enn snjór og krapi á jörð (en að bráðna). Hins vegar festi ekki snjó niðri í Borgarnesi.
September var almennt illviðrasamur (um það er fjallað í árspistlinum). Um viku fyrir það veður sem hér er fjallað um gerði óvenjukaldan útsynning með þéttum krapaéljum svo gránaði andartak í éljunum - en tók upp jafnharðan. Segja má að þessi kalda framrás frá Norður-Kanada sem bjó til útsynninginn hafi verið stoðsending illviðrisins sem hér er um fjallað.
Mánudaginn 23.september voru gagnamenn víða á fjöllum, í besta veðri og vel leit út.
Hér má sjá veðurkort sem Morgunblaðið birti þriðjudaginn 24.september. Kortið sýnir stöðuna á hádegi daginn áður. Sagt er í texta að lægðin muni valda rigningu um land allt - en þetta varð miklu verra en svo. Veðurstofan fullsein að átta sig á alvöru málsins - þrátt fyrir að lægðin sé þarna á réttum stað - og styrkur sá sem kortið sýnir. Óhætt mun að fullyrða að tölvuspár nútímans myndu hafa gripið þetta veður - með hversu margra daga fyrirvara getum við þó ekkert sagt um - en ábyggilega óhætt að nefna þrjá eða fjóra daga.
Háloftakortið er nokkuð ískyggilegt.
Kortið gildir á sama tíma, um hádegi mánudaginn 23.september 1963. Hér er auðvitað spurningin hvort hlýja loftið norðvestur af Bretlandseyjum nær að snúast inn á móts við kaldara loft í vestri. Það var það sem gerðist. Lægðin sem um hádegi var um 990 hPa í miðju var skyndilega orðin 965 hPa djúp - innan við sólarhring síðar.
Hér má sjá stöðuna um hádegi þriðjudaginn 24.september. Lægðin við Suðausturland. Hún var í reynd örlítið dýpri heldur en greiningin sýnir - en ekki mikið. Lægsti þrýstingur á veðurstöð mældist í Hólum í Hornafirði 964,4 hPa. Mikill norðanstrengur er yfir öllu landinu og áköf úrkoma norðanlands. Lægðin fór síðan norður með austurströndinni og svo heldur til norðvesturs. Þegar svo var komið skánaði veðrið á Norðausturlandi, en illviðrið hélst vestan til á Norðurlandi - einnig næsta dag. Veðrið varð einna óvenjulegast í Húnavatnssýslum, snjódýpt í lok veðursins mældist 38 cm í Forsæludal.
Við skulum nú fletta blöðunum (aðallega Morgunblaðinu og Tímanum) og sjá hvernig fór. Ritstjórinn reynir að fækka samhljóða frásögnum blaðanna - en þó er nokkuð um endurtekningar, vegna þess að fram koma mismunandi smáatriði. Auk þess er í textanum - þegar upp er staðið - býsna mikill fróðleikur um göngur og leitir og skipan þeirra mála í fjölmörgum landshlutum um og upp úr miðri 20. öld.
Vísir gat sagt fyrstu fregnir af veðrinu strax 24.september:
Í morgun var norðan illviðri um mestan hluta landsins. Hér í Reykjavík var hvassviðri og rigning og víða um land var komin slydda og jafnvel snjókoma. Í morgun snjóaði á Mosfellsheiði og snjókoma var við skíðaskálann í Hveradölum. Þar var hiti um frostmark og var snjór yfir öllu, vegurinn var orðinn mjög háll og áttu bilstjórar á ferð yfir fjallið á hættu að renna út af veginum. Á Þingvöllum var og snjókoma. Snjókoma var víða um Norðurland. Þó var slydda niður við sjávarmál, en strax og kom hærra upp var snjókoma. Til dæmis snjóaði í fjöll í Eyjafirði. Slydda og snjókoma var í Siglufirði, Sauðárkróki og á Ströndum. Þá var snjókoma í Mývatnssveit og á Möðrudalsöræfum. Í Mývatnssveitinni var í morgun 3 stiga hiti, en þó var jörðin orðin hvít.
Tíminn segir frá 25.september - dagsetur fréttina daginn áður.
KH-Reykjavík, 24.september. Veður fór versnandi í nótt, og í dag hefur ríkt norðan hvassviðri um mikinn hluta landsins með slyddu i byggð og víða snjókomu. Nokkrir vegir hafa lokast umferð, og flug hefur legið niðri innanlands í dag nema til Ísafjarðar. Hvassast var í Vestmannaeyjum, ellefu vindstig. Kaldast var eins stigs frost í Möðrudal og Skagafirði. Í Reykjavík var bleytuhríð i dag. Veðrið hefur verið verst um miðbik Norður- og Suðurlands, kaldara á Norðurlandi en hvassara á Suðurlandi. Það fer heldur batnandi um vestanvert landið og færist austur, má búast við enn verra veðri á Norðaustur- og Austurlandi í nótt. Úrkoma var mikil á Norðurlandi í dag, mældist mest í Grímsey 17 mm, 16 mm á Raufarhöfn og 14 á Sauðárkróki. Víðast á láglendi var slydda og 12 stiga, hiti. en víða hríðaði í byggð. Ófært er orðið víða á vegum. Möðrudalsöræfi voru orðin ófær öllum bílum í morgun, svo að Austurlandsvegar er lokaður, og Siglufjarðarskarð varð að sjálfsögðu strax ófært. Á Öxnadalsheiði og Vaðlaheiði var naumast fært nema stórum bílum á keðjum seint í dag, og áætlunarbíllinn, sem gengur frá Ólafsfirði til Eyjafjarðar varð að snúa við á Lágheiði snemma í morgun vegna snjóa. Þæfingsfærð er á Fjarðarheiði og í Oddsskarði. Þorskafjarðarheiði hefur lokast. Brattabrekka er fær bílum með keðjur, Holtavörðuheiði er ófær fólksbílum. Hætt er við talsverðu næturfrosti um mikinn hluta landsins og versnandi veðri á Norðaustur- og Austurlandi. Einnig má búast við meira frosti þegar veðrið gengur niður. Þetta vetrarveður kemur sér sérstaklega illa fyrir þá, sem enn eru í göngum, og réttir hafa sums staðar tafist vegna veðursins. Til dæmis átti að rétta í Fljótsdalsrétt í dag en því varð að fresta til morguns, hvort sem betur viðrar til þess þá. Göngur hófust í gær í Ólafsfirði i besta veðri, en í dag er gangnamönnum þar erfitt um vik.
Morgunblaðið er öllu langorðara 25.september:
Í gær var vonskuveður um land allt með snjókomu eða slyddu. Lokuðust margir fjallvegir norðanlands, vestan og austan, svo sem Siglufjarðarskarð, Þorskafjarðarheiði, Möðrudalsöræfin og Oddsskarð. Vaðlaheiði og Öxnadalsheiði voru þó færar stórum bílum með keðjum og í gærkvöldi var orðið eins ástatt á Holtavörðuheiði, hún var vart fær smábílum. Hellisheiði var vel fær, en dálítið hált þar. Þetta óveður gengur yfir á versta tíma, því víðast hvar á landinu eru göngur og réttir, og hafa gangnamenn fengið versta veður á fjöllum. Sunnanlands, þar sem var slydda á láglendi, en snjókoma á fjöllum og uppsveitum, voru gangnamenn á leið með rekstra sína niður og hrepptu hrakninga. T.d. urðu Biskupstungnamenn að moka sér leið með fjallsafnið niður Bláfellshálsinn í fyrradag og voru í gær á leið niður byggðina í versta veðri. Einnig voru Grímsnesingar að smala Lyngdalsheiði í versta veðri og Gnúpverjar að komast með sitt safn niður að afréttargirðingu. Annars var fé víða farið að sækja mjög heim fyrir óveðrinu. Norðanlands hættu sumir við að fara í göngur í gær, en búast má við að þeir sem eru í margra daga göngum, svo sem Skagfirðingar, eigi í erfiðleikum.
Fréttaritarar Morgunblaðsins víðs vegar um Vestur-, Norður- og Austurland símuðu fréttir af snjókomu, ófærð á fjallvegum og göngum í gær. Fara frásagnir þeirra hér á eftir.
Hrútafirði, 24.september. Á Holtavörðuheiði hefur í dag verið versta veður, ofanhríð og skafrenningur. Áætlunarbílar og flutningabílar hafa þó komist greitt yfir, en í kvöld voru 23 litlir bílar orðnir fastir sunnantil á heiðinni. Eru bílar frá vegagerðinni farnir þeim til aðstoðar og frá Hvammstanga er verið að senda veghefil til að laga þetta.
Ísafirði, 24.september. Snjókoma og mugga hefur verið hér í dag og snjóað alveg niður í byggð. Breiðadalsheiði hefur verið fær bifreiðum að undanförnu og bifreiðar fóru yfir hana í dag. En ýta var uppi á heiðinni síðdegis, því nokkuð mun hafa fennt þar er liða tók á daginn. Hrafnseyrarheiði varð ófær Dýrafjarðarmegin í nótt. Var engin ýta tiltæk, en veghefill reyndi að ryðja leiðina, en varð ekkert ágengt. Áætlunarbíllinn frá Vestfjarðaleið fór frá Ísafirði í morgun, fullskipaður og lagði á Hrafnseyrarheiði um kl. 10:30, en varð að snúa við og kom aftur til Þingeyrar um 2 leytið. Var ætlunin að lítil dráttarvél yrði send til að reyna að ryðja heiðina. Fjallvegir munu allir vera færir í Barðastrandasýslu og lítill sem enginn snjór á Þingmannaheiði, sem oft er erfiðasti fjallvegur þar. Á fjallveginum yfir Hálfdán er lítilsháttar snjór efst, en vegurinn fær. Ég hefi haft spurnir af því að smalamennska og leitir um helgina og gær og fyrradag í fjórðungnum hafa gengið vel og víða hafði fé leitað nær byggð vegna snjókomu hátt til fjalla. Ég talaði við Djúpavík í dag og til Steingrímsfjarðar og var mikil snjókoma á Ströndum og sett niður snjó á Djúpavík í dag. Í vestanverðum fjórðungnum hefur lítið snjóað undanfarið. H.T.
Sauðárkróki, 24.september. Árla dags í dag gerði hér versta veður, norðan hvassviðri með snjókomu og hefur gengið í sjóinn eftir því sem hefur liðið á daginn. Allmargir bátar héðan voru á sjó, en eru nú komnir að landi heilu og höldnu. Einn þeirra tók höfn í Hofsósi. Göngur og fjárréttir standa yfir í Skagafirði þessa dagana og er óvíst hvernig leitarmönnum hefur vegnað síðustu daga í fjallgöngum svo, sem að Stafnsrétt. Svo mikil fannkoma varð seinni hluta dags í dag, að vatnsból bæjarins fylltust af krapi, svo bærinn varð vatnslaus og slátrun í sláturhúsunum stöðvaðist. Vonast er til að þetta lagist með morgninum. jón.
Bæ, Höfðaströnd, 24.september. Hér er grenjandi stórhríð sem nær alveg niður að sjó. Hlýtur því að vera slæmt upp til dala. Í gær voru fyrstu göngur og gekk allt vel, en í dag má búast við að illa gangi, þó ekki hafi borist neinar fregnir af því. Björn.
Siglufirði, 24.september. Hér er komin stórhríð og grátt ofan í fjöru og Siglufjarðarskarð er teppt enn einu sinni. Áætlunarbíllinn fór frá Siglufirði kl.7 í morgun og komst í efsta sneiðinginn Siglufjarðarmegin og sat þar fastur í fönn, enda komin stórhríð á Skarðinu. Beggja vegna vegarins eru gamlir snjóruðningar og því fljótt að skafa í veginn. Um 30 farþegar voru í bílnum, en í honum er talstöð. Bílstjórinn lét fljótt vita hvernig komið var og fór ýta frá Siglufirði og var komin á staðinn kl. um 12:30. Ekki var talið fært að hjálpa bílnum yfir Skarðið eins og var og kom áætlunarbíllinn til Siglufjarðar kl.3:30. Stefán.
Akureyri, 24.september. Í morgun var hvítt ofan að sjó hér, en tók upp á láglendi um miðjan daginn. Nú gránar aftur í rót og hiti er við frostmark. Skv. upplýsingum frá vegagerðinni, er lítil umferð á fjallvegum í dag. Þó var einn bíll að koma vestan yfir Öxnadalsheiði. Þar var keðjufært og vont veður. En heiðin átti að heita fær öllum bílum. Annar bíll var nýkominn yfir Vaðlaheiði og sagði bílstjórinn að heiðin væri engan veginn fær litlum bílum. Skafrenningur er og snjókoma, en vegurinn slarkfær á stórum og sterkum bílum enn. Sv. P.
Grímsstöðum í Mývatnssveit, 24. september. Stórhríð er hér í dag. Gagnamenn lögðu af stað í morgun, en sneru við heim aftur, því ekkert var hægt að athafna sig. Ekki á þó að vera hætta með kindur, ef þetta stendur ekki lengi Snjókoman er mikil nú sem stendur og ef þessu heldur áfram í nótt, verður orðið slæmt á morgun. Innansveitarvegir eru enn færir, en hætt við að fjallvegir séu að teppast Jóhannes.
Grímsstöðum á Fjöllum, 24.september. Í gærkvöldi fór að snjóa hér og hefur verið hríð síðan. Ekki er kominn mikill snjór hér í kring, en umferð lokaðist um Möðrudalsfjallagarðinn, frá Möðrudal og yfir í Jökuldal strax í nótt, og voru bílar varaðir við að leggja í hann. Áætlunarbíllinn milli Akureyrar og Austfjarða stansaði í Reykjahlíð á leið austur og bíður þar eftir að fært verði austur yfir. Fyrstu göngur eru afstaðnar hjá okkur og gengu vel. Í þeim fundust 3 veturgamlir hrútar úti gengnir á Búrfellsheiði. Ekki var þó hægt að koma nema einum til bæja í fyrstu göngum. Hrútarnir eru allir úr Axarfirði. Slátrun úr fyrstu göngum er lokið úti á Kópaskeri. Aðrar göngur eiga að hefjast á morgun, en það lítur illa út með þær, ef veður ekki batnar. B.S.
Egilsstöðum, 24.september, Krapaveður var hér í nótt og snjór til fjalla. Nú má þó heita að autt sé upp í hlíðar. Göngur voru í gær á Fljótsdalsafrétt, en réttinni í dag var frestað vegna illveðurs. Veður var ágætt meðan á göngunum stóð. Í morgun átti að fara í göngur í Fellum, en því var frestað vegna veðurs. Oddsskarð og Fjarðaheiði munu vera orðin ófær. Jónas.
Tíminn heldur áfram 26.september - og byrjar á fróðleik um haustkálf. Þetta var í fyrsta sinn sem ritstjórinn hafði heyrt á slíkt minnst. Í þetta sinn má segja að spádómarnir hafi ræst því veturinn 1963-64 er einhver hinn mildasti og besti sem þekktur er hér á landi frá því mælingar hófust. - En haustið var erfitt.
Hausthretið var óvenjusnemma á ferðinni að þessu sinni, og hrista margir höfuðið með áhyggjur og vetrarkvíða í svip. Tíminn getur hins vegar upplýst ef það mætti verða einhverjum til huggunar að gamlir menn kalla svona hret haustkálf og segja, að því fyrr, sem haustkálfurinn sé á ferðinni, þeim mun betri verði veturinn.
IGÞ, KH, BÓ, Reykjavík, 25.september. Þegar blaðið frétti síðast í gærkveldi, vantaði enn tuttugu og fjóra menn af Eyvindarstaðaheiði. Gangnamenn þar lentu í gífurlegum erfiðleikum vegna snjóa og óveðurs, og er líka sögu að segja af gangnamönnum úr byggðum sunnanlands. Erfiðleikarnir virðast þó hafa orðið mestir á Eyvindarstaðaheiði, sem er mikið landflæmi upp af Skagafirði og Austur-Húnavatnssýslu. Þar gengur margt fé, bæði kindur og hross og nú fór svo, að af þremur flokkum manna, sem ganga heiðina, komst aðeins einn til byggða með fé, annar slapp með erfiðleikum þótt engu yrði smalað og sá þriðji virðist standa í ströngu við að komast til byggða. Gangnamenn á Eyvindarstaðaheiði fengu gott veður á mánudagsmorgun, en aðfaranótt þriðjudags gekk upp með ofsaveður á norðan með gífurlegri fannkomu.
Samt var skipt í göngur að venju í svonefndri Áfangaflá. Hélt austasti flokkur niður með það fé, sem til náðist og komst við illan leik með safn sitt á Gilhagadal seint á þriðjudag. Venjan er að þeir komi með féð að Mælifellsrétt um fimmleytið á þriðjudag og réttað sé þar á miðvikudögum. í þetta sinn urðu þeir að skilja féð eftir á dalnum. Fóru gangnamenn heim til Stefáns bónda í Gilhaga og fengu þar hinar bestu veitingar, en skiptu sér síðan á bæi til gistingar um nóttina. Í morgun fóru þeir svo aftur að fást við féð og höfðu komið því niður að Mælifellsrétt um fjögurleytið í dag. Þar verður það réttað á morgun og seinkar sundurdrættinum um einn dag. Öðru vísi fór um hina flokkana, sem ganga Eyvindarstaðaheiði eða miðflokk og vestflokk. Miðflokkur gengur niður austan Fossár og rekur að Stafnsrétt í Svartárdal í Austur-Húnavatnssýslu. Þeir skildu við vestflokk í Áfangaflá og var þá ekki ljóst, hvort heldur að vestflokksmenn ætluðu að vera næstu nótt í Ströngukvíslarkofa, eða reyndu að brjótast niður að Galtará, þar sem mótreiðarmenn voru væntanlegir.
Miðflokksmenn héldu sem leið lá út heiðina og gistu síðastliðna nótt í Bugakofa. Var ekkert viðlit að reyna að smala fé. enda komið fannfergi, svo það stóð þar sem það var komið. Í morgun héldu svo miðflokksmenn frá Bugakofa og niður að Stafni í Svartárdal. Þangað komu þeir síðdegis og höfðu fengið umbrotafærð fyrir hestana. Þeir sáu nokkurt fé í Bugum og á Háutungum, en færðin var slík að engin leið var að þoka því um fet. Þegar Tíminn hafði símasamband við Stafn í gær var ekkert hross og engin kind komin að Stafnsrétt og er það einsdæmi. Hrossarétt átti að vera þar í dag, og fé átti að réttast á morgun. Fréttaritari Tímans, Björn Egilsson á Sveinsstöðum var í miðflokk, og var nýkominn í Stafn, þegar Tíminn hringdi. Sagði hann blaðinu að miðflokksmenn, sem eru Lýtingar, ætluðu heim enda ekki annað fyrirsjáanlegt en að fresta yrði göngunum.
Fjórtán Seylhreppingar reyndu í gær að smala Reykjafjall og Stafnsgil, en urðu að snúa frá. Þeir gistu í Stafni síðastliðna nótt. Þeir reyndu aftur að smala í dag, en urðu frá að hverfa á ný. Riðu þeir niður Svartárdal og fengu bíl á móti sér að Leifsstöðum, sem flutti þá heim. Björn sagði að miðflokksmenn hefðu verið vel útbúnir og ekkert hefði orðið að. Tveir drengir voru í miðflokk, 1415 ára og tveir lítið eldri og létu þeir ekkert á sig fá i þessari svaðilför. En Björn sagði að veðrið hefði verið þannig, að það hefði verið á mörkunum að þeir rötuðu. Þó eru menn í miðflokk, sem hafa verið í göngum á þessari heiði frá barnæsku. Þeir, sem ekkert hefur spurst til síðan á þriðjudagsmorgun, að þeir skildu við félaga sína í Afangaflá og mynduðu vestflokk, eru flestir Húnvetningar. Hafi þeir gist í Ströngukvíslarkofa, eins og þeir voru að umsegja á þriðjudagsmorgun, er óvíst þeir nái til byggða í kvöld í því umbrotafæri, sem nú er á heiðinni. Miðflokksmenn gista í Stafni í nótt en ríða síðan heim á morgun. Gangnamenn hafa löngum átt góðu atlæti að fagna i Stafni og svo er enn, er flokkur eftir flokk gangnamanna njóta þar gistingar og beina. Veður er nú að lægja á þessum slóðum en bleytuhríð var þar í dag.
Erlingur Davíðsson, ritstjóri á Akureyri, hringdi fyrir Tímann til ýmissa staða norðan- og norðaustan lands í dag. Hann fékk þær fréttir frá Ólafsfirði, að réttað hefði verið í neðri hluta sveitarinnar á mánudag, en fé af Reykjaheiði og Lágheiði var réttað í Reykjarétt í gær. Á réttardaginn var hið versta veður, krapastórhríð, og komu fáir til réttarinnar. Eyfirðingar réttuðu yfirleitt á mánudaginn í blíðskaparveðri, en Hörgdælir og Öxnadælir réttuðu í gær og fengu ruddaveður. Göngum Fnjóskdælinga hafði verið flýtt. Fóru þar fram dagana 13.14. september og fengu þeir ágætt veður í fyrstu og öðrum göngum. Fé var þá óvenju neðarlega.
Á svæðinu frá Fnjóskadal til Mývatnssveitar fengu menn ágætt veður í göngum, sem voru um garð gengnar áður en veðrið skall á. Í dag bárust þær fréttir frá Svartárkoti í Bárðardal að í gærkvöldi hefðu fjórar kindur verið dregnar úr fönn í Víðikeri. Stórfenni er nú í Fram-Bárðardal og á hálendinu fram af dalnum, en rifið á milli. Vont er orðið að koma kindum um jörðina og voru Bárðdælir allir að sinna fé sínu í dag. Frá Reynihlíð berast þær fréttir, að Mývetningar hafi lagt af stað í gær á austurfjöll í göngur. Var ætlunin að smala Grafarlönd og fleiri svæði, en þeir urðu að snúa við vegna veðurs. Þeir fóru aftur af stað í morgun. Þetta eru þriggja daga göngur. Nú er þarna ökklasnjór. Í Axarfirði er búið að ganga nærheiðar og gekk það vel. Snjólaust er í byggð og snjólítið efra. Hólssandur er aftur á móti ófær bifreiðum. Þeir í Þistilfirði höfðu lokið göngum fyrir áhlaupið, en eitt lamb fundu þeir fennt í Djúpárbotnum á Axarfjarðarheiði.
Á Langanesi var lagt af stað í fyrstu göngur í dag. Veður var sæmilegt þar eystra og enginn snjór í byggð. Í gær átti að rétta í Fljótsdalsrétt ,en því varð að fresta þangað til í dag vegna illviðris, eins og segir í blaðinu í dag. Fjárdrætti var óvenju snemma lokið, því að féð var færra en venjulega Leitir á Austurlandi höfðu þó gengið allvel og var að mestu lokið fyrir hretið.
Réttað var í Þverárrétt í Þverárhlíð í dag. Fjárdrætti var lokið kl 13, löngu fyrr en venjulegt er enda var fátt fé í réttinni. Stafholtstungumenn, Þverhlíðingar og Hvítsíðingar rétta í Þverárrétt. og voru þeir í leitum i gær og fyrradag, mánudag gengu þeir Tvídægru og Holtavörðuheiði í ágætu veðri og áttu eftir að ganga á um helming leitarsvæðisins í gær. en þá sást ekkert til að leita fyrir blindbyl og urðu þeir að skilja mikið fé eftir. Farið verður í aðra leit á þessu svæði á föstudag, smalað hestum og kindum á laugardag og sunnudag, réttað hrossum á sunnudag og kindum á mánudag. Leitarmenn úr Mýrarsýslu muna ekki eftir erfiðari fyrstu leitum en núna, og sumir segja, að þetta hafi verið erfiðustu leitir á þessari öld. Mjög fátt fé var í Hítardalsrétt í dag, og stafaði m.a. af því, að ekki hafði tekist að koma 2300 fjár úr Hólsrétt í Hörðudal yfir fjallið í tæka tíð. Verið er að sækja það fé á fjall í dag. Réttað er í Skarðsrétt í Borgarhreppi á morgun, en síðasta réttin í Mýrarsýslu er Hraundalsrétt í Álftahreppi, sem verður á föstudag. Álfthreppingar eru í fjögurra daga göngum inni á afréttunum milli Mýra- og Dalasýslu. Þeir leituðu í góðu veðri á mánudag, en illviðri í gær, í dag er skafrenningur á fjalli, en engar hrakningasögur hafa borist til byggða.
Biskupstungnamenn hrepptu á Kili versta leitarveður í mannaminnum. Þar var iðulaus hríð í þrjá sólarhringa. Leitarmenn héldu þó áfram í hríðinni, en tilviljun ein réði, hvort þeir fundu kindur, og sumu töpuðu þeir aftur. Í gærkvöldi komu þeir úr leitunum. Engin slys urðu á mönnum eða skepnum, en unglingar voru slæptir, og komu þó hressir fram. Á morgun verður farið aftur inn á Kjöl. Mikið af fénu hafði hörfað fram að afréttargirðingunni, vegna illveðurs síðustu dægra. Bílfæri var þungt frá Hveravöllum í Fossrófur, og á Bláfellshálsi varð að moka til að koma bílnum fram. Hrunamenn voru að reka til rétta kl.5 í dag. Í nótt lágu þeir að venju fyrir innan Tungufell. Þeir hrepptu vonskuveður, en gekk þó sæmilega fram. Safnið var lítið, en mikið fé hafði áður verið sótt og réttað. Gnúpverjar komu niður með safnið í dag, en í gær varð ekki smalað fyrir illviðri. Þá var skarðalaus bylur allan daginn, fram til klukkan 6, öll gil fyllti af krapa og snjó, og þurftu leitarmenn að draga lömb og máttarminni kindur upp úr krapaelgnum. Svæðið frá Gljúfurleit að Hólaskógi er ósmalað, en í morgun riðu smalamenn aftur innúr. Um árangur er ekki vitað, og heldur ekki um fjárskaða. Safnið, sem komið er fram, er helmingur á við það vanalega, eða um 3000 fjár og það flest komið fram að afréttargirðingu áður en lagt var á fjall. Ása- og Djúpárhreppingar ferjuðu safnið af Holtamannaafrétti yfir Tungnaá á Haldi á mánudaginn, í sæmilegu veðri, og ráku fram að Galtalæk í gær, í blindbyl. Sigurjón Rist hefur nýlega merkt leiðina inn að Haldi. Rekstrarmenn fylgdu merkjunum og komust fram við illan leik. Í dag réttuðu þeir á Galtalæk. Afrétturinn smalaðist fremur vel.
Landmenn áttu að koma fram á morgun, ef allt hefði farið að skilum, en í gær brutust þeir með safnið úr Laugunum út að Helli í aftakaveðri. Þeir höfðu tvo bíla með sér, annar er nú bilaður á Frostastaðahálsi og hinn fastur í snjó í Dómadal. Fé og mannskapur er nú_ allur við Landmannahelli. Í morgun var gerður út leiðangur úr byggð til að svipast um eftir fjallmönnum, farið á bílum inn að Valahnúkum og gengið þaðan inn að Helli. Leiðangursmenn komu aftur síðdegis og sögðu fréttirnar. Í dag var jarðýta send af stað inn á afréttinn, en hún verður sólarhring að komast inn á Frostastaðaháls, þar sem annar bíllinn situr. Ýtan verður svo notuð til að ryðja fyrir féð, ef með þarf. Rangvellingar koma af fjalli á föstudaginn, ef að vana lætur, en til þeirra hefur ekki spurst. Fjöll eru hvít að sjá úr byggð og grátt niður á Rangárvelli. Engar fregnir eru af Hvolhreppingum, en búist við þeim fram annað kvöld eða á föstudaginn. Þar er einnig grátt í byggð og hríð að sjá til fjalla í gær.
Fljótshlíðingar komu með safnið í gær og fengu slyddubyl seinni part dagsins. Safnið er lítið, því margt af fénu var áður komið fram, en smalamennskan gekk í alla staði vel. Vestur-Eyfellingar eiga að koma fram á morgun, en þeir smala Þórsmörk, Goðaland og Almenninga. Má gera ráð fyrir, að þar hafi kyngt niður snjó, en undir Eyjafjöllum er nú hvít jörð, allt að sjó fram. Í morgun var slyddubylur í byggð. Austur-Eyfellingar smala lítið frá byggð, og Mýrdælingar hafa lokið fyrstu göngum, Álftveringar áttu að koma fram í dag, en klukkan að ganga 7 hafði ekkert til þeirra spurst. Var því gert ráð fyrir, að þeir mundu bíða til morguns. Skaftártungumenn eru væntanlegir á föstudaginn. Fólk á innstu bæjum í sveitinni telur, að veðrið hafi ekki verið ýkjahart á afréttinum. Vestur-Síðumenn, og þeir Meðallendingar, sem eiga upprekstur með þeim, áttu að koma fram í dag, en klukkan að ganga 7 höfðu engar fregnir borist af þeim. Var gert ráð fyrir, og þeir mundu bíða til morguns. Hörkuveður geisaði á afréttinum í þrjú dægur, þar til í dag, að stytti upp með blíðu. Á morgun átti að rétta í Heiðarrétt. Austur-Síðumenn, Fljótshverfingar og Meðallendingar, sem eiga upprekstur með þeim, eru ófarnir í göngur.
GPV-Trékyllisvík, 23.september [á væntanlega að vera 25.] Ekki ætlar að verða endasleppt með ótíðina þetta sumar og erfiðleika af þeim sökum. Hefur að undanförnu verið stórrysjótt og snjóað jafnt í sunnanátt sem norðan. Á mánudaginn var leitað. Þann dag var gott veður, en í gær brá aftur til hins verra. Þegar á daginn leið var komið norðan fárviðri með fannkyngi og í nótt var stórveðurofsi fram undir morgun. Miklar fanndyngjur eru komnar og illfært yfirferðar. Í veðrinu hefur fé fennt og fjárskaðar orðið þótt enn sé ekki full spurt til þess. Á Melum hafa þegar fundist 17 kindur dauðar, sumar þeirra farið í sjóinn. Ráku 8 af þeim í dag. Á Finnbogastöðum í Bæ fundust 2 kindur dauðar. Er viðbúið að meiri skaðar hafi orðið. ... Í dag er veðurhæð minni, en snjókoma og dimmviðri.
KH-Reykjavík, 25. sept. Þyngslafæri er á vegum norðanlands, og um tíma í dag var Langidalur og Svínvetningabraut í V-Húnavatnssýslu alveg lokaðar umferð vegna ófærðar. Næturrútan milli Akureyrar og Reykjavíkur kom frá Akureyri til Blönduóss kl.8 í morgun, hafði þá verið ellefu tíma á ferð. Holtavörðuheiði var orðin sæmilega fær bílum með keðjur í dag.
Morgunblaðið heldur einnig áfram 26.september:
Í Austur-Húnavatnssýslu var versta veður í gær og nótt og alls staðar kominn mikill snjór. Ekki tókst að koma öllu sláturfé til Blönduóss og í dag vantaði 300 kindur í fulla fjártölu. Féð átti að koma úr Vindhælishreppi og Svínavatnshreppi. Allir flytja sláturféð á bílum, en miklir örðugleikar voru vegna snjóþyngsla og hríðar. Vegurinn í Norðurárdal er algjörlega ófær bílum, en í dag er verið að brjótast með fé frá Þverá. Er það rekið niður á Skagastrandarveginn en mun verða tekið þar á bíla. Svínvetningabraut er víða ófær og miklar truflanir hafa orðið á fjárflutningum þaðan. Í dag var reynt að senda bíl eftir fé fram í Vatnsdal, en hann varð að snúa við í Vatnsdalshólum vegna snjóþyngsla. Nokkrir bændur í austanverðum Vatnsdal eru nú að reka sláturfé áleiðis til Blönduóss og mun það verða tekið á bíl norður í Þingi. Ekki er víst, hvort hægt verður að ná fullri fjártölu á morgun.
Mjólkurflutningabílar, sem fóru í Langadal, Svínavatnshrepp, og Vatnsdal komu til Blönduóss 68 klst seinna en venjulega og bíllinn, sem fór fram Langadal komst ekki nema að Gunnsteinsstöðum. Samkvæmt upplýsingum frá Bólstaðahlíð s.l nótt gistu gangnamenn úr Seiluhreppi að Stafni í Svartárdal og fóru þaðan fram á heiði í morgun. Urðu þeir að snúa við vegna snjóþyngsla og gátu hvorki smalað fé né hrossum. Gangnamenn úr Lýtingsstaðahreppi komu einnig niður að Stafni í dag án þess að geta nokkuð smalað. En ekkert er vitað um gangnamenn úr Eyvindarstaðaheiði. Skagfirðingar, sem ætluðu að reka fé úr Skrapatungurétt í gær norður yfir Þverárfjall og Kolugafjall komust ekki nema að Þverá í Norðurárdal, en lögðu á fjallið í morgun.
Hvammstanga, 25. september. Hríðarveður gerði hér seinnipartinn í gær og hélst í nótt með allmikilli snjókomu. Færð er sæmileg eftir aðalvegum. Réttað var í Miðfjarðarétt í fyrradag og var því lokið um hádegi í gær. Fengu menn hið versta veður heim með fjársafnið og komust sumir ekki alla leið vegna veðursins. Í dag er sumstaðar verið að draga fé úr fönn. Fjárleitirnar fóru fram í sæmilegu veðri, en skyggni var ekki sem best. Er leitarmenn voru að leggja á heiðina vildi það slys til að Sigurjón Sigvaldason, bóndi á Urriðaá, féll af hestbaki, er hestur hans fældist Var Sigurjón fluttur í sjúkrahús á Hvammstanga og er líðan hans sæmileg eftir atvikum. Það fannst gangnamönnum tíðindum sæta, að er þeir voru nokkru fyrir norðan mörk Borgfirðinga og Miðfirðinga, hittu þeir leitarmann frá Borgfirðingum með tvo hesta til reiðar. Kvaðst hann hafa átt að leita að Arnarvatni og farið niður með varnargirðingunni, sem er á afréttarmörkunum. Leitarmenn komu honum í skilning um, að hann væri að fara mikið út af réttri leið og fylgdu honum suður fyrir girðingu aftur og í Úlfsvatn, en þar var þá flokkur Borgfirðinga, er dvaldi þar þessa nótt.
Bæ, Höfðaströnd, 25. september. Í fyrrinótt gekk mikið óveður með fannkomu yfir Skagafjörð austanverðan. Urðu af því miklar truflanir á rafmagni og samgöngum, símastaurar brotnuðu og stórt sjóhús fauk og átta menn lentu í erfiðleikum með fé. Síðdegis í gær var enn snjókoma og munu bílar hafa setið fastir víðsvegar í sköflum. Féð er allt komið í hús, og mjög þröngt á því hjá þeim sem ekki eru farnir að slátra. Birni segist svo frá: Rafmagnslaust varð frá Skeiðsfossvirkjun og nálægt Bæ töldum við 12 símastaura, sem höfðu lagst út af. Á Hofsósi hefur rafmagnslína skemmst mikið, og er sums staðar erfitt að aka um götur í þorpinu vegna þess að strengirnir liggja niðri. Af þessum sökum er því sums staðar rafmagnslaust. Á Bæ á Höfðaströnd fauk stórt sjóhús, sem staðið hefur í 3 ættliði, mjög traustlega byggt 1888, gríðarstórt og öflugt hús. Á þriðjudaginn voru menn hér í göngum, en hér eru aðeins eins dags göngur. Voru gangnamenn kaldir og blautir er þeir komu heim, en ekkert hafði orðið að þeim. Hér stendur yfir slátrun, og gekk illa með féð úr dölunum, þar sem átti að slátra í dag. Fóru menn snemma af stað með reksturinn í slyddu og þurftu að moka sig sums staðar með féð gegnum 2 m skafla á leiðinni. Komu þeir til Hofsóss síðdegis og var féð þá orðið slæpt og uppgefið. Við höfðum haft spurnir af því að bílar hafi verið að festast í sköflum úti um vegi. Héraðslæknirinn tjáði mér áðan að hann kæmist ekki út í Fljót nema í bíl með keðjur á öllum hjólum og alls ekki lengra en út í Haganesvík. Vonandi rætist þó úr þessu um leið og lægir.
Patreksfirði, 25. september: Í gær gerði slæmt veður af norðaustri með snjókomu og mátti heita bylur til fjalla. Réttir höfðu farið fram s.l. mánudag og var fé yfirleitt geymt heima við hús, en svo illa vildi til, að á Rauðasandi, Rauðasandshreppi hrakti mikið af fé til sjávar og er vitað þegar að einn bóndi af sex, sem eru á Rauðasandi, missti þar 60 dilka og ær. Var þetta bóndinn í Gröf, Þorvaldur Bjarnason, er varð fyrir þessum skaða. Ennfremur hafa þegar fundist 13 kindur frá Lambavatni, sem höfðu hrakið í skurði. Eins og gefur að skilja er þetta tilfinnanlegt tjón fyrir þá, sem fyrir þessum missi hafa orðið. Trausti.
Grímsstöðum, Mývatnssveit, 25. september. Hér er nú batnandi veður. Gangnamennirnir, sem sneru við heim í gær komu til byggða í gærkvöldi, en lögðu aftur af stað í morgun. Tefjast göngur því um einn dag. Kominn er allmikill snjór og slæmt smölunarveður vegna dimmviðris. Um tíma í gær var skyggni varla meira en 100 m. Nú er smalað suður í Herðubreiðarlindir. Áður fyrr voru þetta 5 daga göngur. En nú er farið á bílum og féð tekið á bíla, svo stundum er hægt að ljúka því á einum degi. Annars er aðalgangnadagurinn á morgun. Eiga menn von á að erfitt verði að reka féð fyrir snjó, en þar sem komið er ágætt veður, ætti það að vera í lagi. Áður en farið var í göngurnar, fann ferðafólk, sem fór suður með Jökulsá tvö lömb við Upptyppinga. En mjög fágætt er að finna fé þar framfrá. Lömbin voru frá Húsavík og kom ferðafólkið með þau til byggða. Í dag ætluðu bílar, bæði langferðabílar og minni bílar að komast austur yfir Möðrudalsöræfi. Komu trukkur og veghefill frá vegagerðinni að austan, og ætluðu að hjálpa bílunum aftur austur yfir, svo vegurinn opnast þá að einhverju leyti. Jóhannes.
Sauðárkróki 25. september. Fjárleitarmenn sem smöluðu heiðarnar fyrir botni Skagafjarðar, hrepptu hið versta veður í gær. Menn í svonefndum austasta flokki höfðu sig við illan leik til byggða en urðu að skilja féð eftir. Rétta átti í Mælifellsrétt en var frestað a.m.k. til morguns ef takast mætti að koma einhverju fé af fjöllum í dag. Gangnamenn í miðflokki á Eyvindarstaðaheiði, sem smala til Stafnsréttar, neyddust til að yfirgefa féð framantil í Einarsdal, en höfðu sig heilir á húfi niður að bænum Stafni í Svartárdal. Leitarmenn á Silfrastaðaafrétt voru snemma að, og komnir niður að Silfrastöðum er veðrið skall á, en þrjá tíma voru þeir að koma safninu niður að réttinni, sem er þó aðeins 2 km vegalengd. Gangnamenn segja mikinn snjó uppi á hálendi og óttast er að fé hafi fennt. Þess skal að lokum getið að fé mun vera með færra móti til fjalla nú, þar sem stórar fjárbreiður leituðu byggða fyrr í haust vegna illviðra. Í dag er hér bleytuhríð, en nokkru hægara en í gær. - Jón
Bíldudal 25. september. Í gærkvöld og nótt snjóaði mikið hér í byggð og er alhvítt niður í byggð. Vegir eru illfærir og urðu menn á leið til Patreksfjarðar að moka á undan bílum sínum. Fréttaritari.
Það var ekki fyrr en þann 27. sem veðrið fór að ganga niður um vestanvert Norðurland og á Vestfjörðum, en hafði áður slaknað á annars staðar. Tíminn 27.september:
IGÞ-BÓ-Reykjavík, 26. september. Áhlaupið mikla sagði mest til sín á Vestfjörðum í dag og kyngdi þar víða niður kynstrum af snjó, sums staðar upp í mið læri á jafnsléttu. Þar urðu miklir fjárskaðar en einnig er óttast um féð á Eyvindarstaðaheiði, sem gangnamenn gáfust upp við að smala. Telja menn mikla hættu á því, að fé sé í fönn þar, enda djúpsnævi í lægðum og giljum. Sunnanlands horfir í dag betur um göngur en þar eru enn flestar stærstu afréttirnar ósmalaðar.
GÓ Sauðárkróki, 26. september. Fjárflutningar tepptust í dag af Skaga vegna ófærðar. Versta veður hefur verið hér síðan í fyrradag, en þá byrjaði að hríða, og síðan hefur ekki stytt upp, en nú er þetta orðið bleytuhríð. Í dag átti að flytja fé af Skaga til slátrunar á Sauðárkróki, en það var ekki hægt, því allt var orðið ófært. Muna menn ekki lengri hríð á þessum slóðum í september. Hefur oft komið hríð einn dag, en aldrei staðið svona lengi. Í Gönguskörðum og í Hjaltadal er allt orðið jarðlaust og fé þar í svelti. Þykir bændum það illt, því flytja átti þetta fé til slátrunar.
Blaðinu barst í gær eftirfarandi símskeyti frá Alexander Stefánssyni, kaupfélagsstjóra og formanni hafnarnefndar í Ólafsvik: Vegna æsifrétta í blaðinu Þjóðviljinn í gær, 25.9., vill formaður hafnarnefndar í Ólafsvík leiðrétta þá frétt, sem er að verulegu leyti röng og villandi. Í norðvestanveðri, er gekk yfir Breiðafjörð í gærmorgun, varð mikið öldurót í Ólafsvik; tjón á nýja hafnargarðinum varð mjög lítið. Skolaðist úr efsta lagi hans á 15 metra kafla fremst á garðinum, en garður þessi sem er byggður úr grjóti, er nú 300 metra langur og um 8 metrar á hæð. Er því eðlilegt, að hann fái mikinn fláa. Búið var að setja stórt grjót utan á fyllinguna fremst, svo að það litla, er skolaðist ofan af garðinum, fór inn í fyllinguna og er þannig að fullu gagni. Það óhapp skeði kl. 8;30 í gærmorgun, að einn bíllinn, ekur grjóti í garðinn, fór í sjóinn. Skeði það þannig, að bifreiðin P-130 var kominn fremst á garðsendann, átti eftir um einn og hálfan metra að endanum, þar sem sturta átti. Kom þá ólag á garðinn, er skolaði frá bílnum að aftan, með þeim afleiðingum, að hann fór niður fyrir. Bílstjórinn, Sverrir Sigtryggsson, komst út úr bílnum um leið og hann seig fram af fyllingunni. Á flóðinu í gærkveldi fór kafari, Stefán Hallgrímsson, er vinnur hér í grjótnáminu, niður og kom vírum á bílinn, en bíllinn lá á hliðinni á 3 metra dýpi. Eftir fyrirsögn kafarans var bílkrani látinn rétta bílinn við. Var hann síðan dreginn upp í fjöruna af jarðýtu og trukk. Var hann kominn á land um klukkan 10 í gærkveldi.
BÓ-Reykjavík, 26. september. Vélbáturinn Björgvin frá Neskaupstað sökk á legunni á Mjóafirði í nótt. Báturinn var 6 tonn. Hann var i áætlunarferð milli Neskaupstaðar og Mjóafjarðar, og var þetta fyrsta áætlunarferð hans.
Morgunblaðið 27.september:
Ísafirði, 25. september. Í gærkvöldi tók að hvessa og herti snjókomu um vestanverða Vestfirði og setti niður mikinn snjó í gærkvöldi og í nótt. Lokuðust fjallvegir, bæði Breiðdalsheiði og Botnsheiði, en um hana liggur vegurinn til Súgandafjarðar og víða, varð mjög erfið færð í byggð, t.d. lokuðust vegirnir til Bolungarvíkur og Súðavíkur, en þeir voru mokaðir í dag. Ráðgert er að moka heiðarnar, þegar styttir upp, en í dag hefur verið lítilsháttar snjókoma. Rafnseyrarheiði var rudd í morgun. Var fengin til þess ýta, sem var að vinna hjá Mjólkárvirkjun. Var hún búin að ryðja heiðina á hádegi. Fór þá áætlunarbifreið Vestfjarðaleiðar frá Þingeyri en þar höfðu farþegarnir gist í nótt. Mun áætlunarbílnum hafa gengið sæmilega í dag, þó nokkur snæðingur sé á fjallvegum í Barðastrandarsýslu. Austin-jeppi úr Reykjavík festist í gærkvöldi á Rafnseyrarheiði en farþegar og bílstjóri komust með öðrum bíl til Rafnseyrar og gistu þar í nótt. Þegar bílstjórinn kom að jeppa sínum í morgun, var vegurinn alauður en bíllinn fullur af snjó. Hélt hann þá af stað til Þingeyrar og rétt þegar hann var kominn í brekkurnar Dýrafjarðarmegin, losnaði undan honum annað afturhjólið og kastaðist bíllinn út af veginum og munaði aðeins um tveimur metrum, að hann félli mikla hæð niður brekkuna. Engin meiðsli urðu á mönnum eða skemmd á bílnum og er nú búið að ná í hann til viðgerðar á Þingeyri. Leitir gengu ágætlega í Reykhólasveit um og eftir helgina, en mjög slæmt veður var í gær og snjókoma mikil og lokaðist Þorskafjarðarheiði. H.T.
Gangnamenn á Eyvindarstaðaheiði, Skagfirðingar og Húnvetningar, komu seint í fyrrakvöld til byggða í einum hóp og höfðu ekkert getað smalað vegna óveðurs á öllu heiðarsvæðinu suður að Hofsjökli. Verður að fresta göngum þar til lægir, og ekki er hægt að vita hvernig fé reiðir af þar fram frá. Sunnanmenn á Landmannaafrétti, 3040 talsins, sem áttu að koma til byggða í gær, voru ókomnir í gærkvöldi og ekki væntanlegir fyrr en í dag. En samkvæmt fréttum frá Galtalæk var veður orðið þurrt, norðankaldi og heldur bjart til fjalla. Í gær var aftur á móti réttað í Hrunamannarétt og Skafthólsrétt í ágætu veðri og Skeiðarrétt á að vera í dag. Fóru Hreppamenn aftur inn fyrir afrekstrargirðinguna í fyrrakvöld og fundu um 100 kindur, sem fluttar voru á bílum til byggða. Ein fannst dauð í krapagili og er hætt við að svo sé um fleiri, að sögn fréttaritara. Fara gangnamenn aftur á fjöll á laugardag. Óttast menn að fé sé í fönn inni á afréttinni.
Mikill snjór á allri Eyvindarstaðaheiði. Fréttaritari blaðsins á Blönduósi átti í gær tal við Sigurjón á Brandsstöðum, einn gangnamanna á Eyvindarstaðaheiði og fékk hjá honum frásögn af göngum. Eyvindarstaðaheiðarmenn lögðu upp á laugardag og fóru þá í venjulegan náttstað í Ströngukvíslarskála. Á sunnudag var éljaveður, en leit gekk þó sæmilega. Á mánudaginn var ágætt veður, en um kvöldið byrjaði að snjóa og var orðið afleitt veður á þriðjudagsmorgun. Allmargir gangnamenn lögðu þá af stað, en urðu að snúa við vegna hríðar. Í gærmorgun var enn mikil hríð og kl.12:30 lögðu allir af stað í einum hóp til byggða án þess að geta smalað. Venjulega eru menn 45 klst að fara þá leið lausríðandi, en nú voru gangnamennirnir 10 klst og komu niður að Fossum í Svartárdal kl.10:30 um kvöldið. Mjög mikill snjór var á allri heiðinni. Á framheiðinni hafði skafið í þykka skafla, en á norðurheiðinni var snjór jafnari og færi verra. Allir gangnamenn voru vel út búnir og leið vel, þrátt fyrir illviðrið. Í framhluta Svartárdals er mjög mikill snjór, en minni norðar. Er alveg óráðið hvað gert verður eða hvenær farið í göngurnar.
Veður í Austur-Húnavatnssýslu fór í gær batnandi en var þó hvergi nærri gott. Mikill snjór er um allt héraðið og samgöngutruflanir miklar. Ganga mjólkurflutningar þar erfiðlega. Sláturflutningar til Blönduóss stóðu yfir langt fram eftir nóttu. En þó tókst ekki að ná fullri fjártölu í gær. Af þeim sökum varð að hætta slátrun fyrr en venjulega. Hins vegar var búist við að slátrun hefjist aftur kl.8 í gærkvöldi, en þá var von á fé úr Vatnsdal. Óttast er að fé hafi fennt víða og margir hafa þegar fundið fé í fönn. Hins vegar hafa ekki verið tök á að fylgjast vel með fénu. Og víða hefur það lítinn haga og stendur sums staðar í svelti. Bj. B.
Frá Vestfjörðum bárust þær fréttir í gær til viðbótar fyrri fjárskaðafréttum, að 9 kindur hefði hrakið í djúpa framræsluskurði á Kirkjubóli í Valþjófsdal og fundist þar dauðar. Hefur veðráttan þar um slóðir tafið mjög fjárrekstra og slátrun og víða þurft að grafa fé úr fönn undanfarna sólarhringa.
Morgunblaðið segir enn af ófærð 28.september:
Norðurleiðin um Langadal í Húnavatnssýslu var alveg lokuð í gær vegna fannfergis. Í Skagafirði urðu bílstjórar að moka sig áfram. Veghefillinn frá Blönduósi var þó að hefja snjómokstur í Langadalnum og Skagafjarðarheflarnir munu aðstoða bíla eftir föngum. Aftur á móti var ekki ófærð á vegunum beggja vegna við þetta ófærðarsvæði, Holtavörðuheiði og Öxnadal. Hefur verið fært fyrir alla bíla til Blönduóss. Frá Austurlandi hafa bæði vöru- og fólksbílar komist til Akureyrar. Veghefillinn fór á undan, en lítil umferð hefur verið. Fjarðarheiði og Oddskarð fyrir austan eru fær. Snjór var yfirleitt minni á Austurlandi en Norðurlandi. Á Vesturlandsleið hefur verið hálka í brekkum í Dalina. Verið er að koma Þorskafjarðarheiði í lag og hraða mokstri vegna fjárflutninga, t.d. í Króksfjarðarnes Einnig eru vegheflar að laga Klettsháls í Austur-Barðastrandarsýslu, en hann er eini trafalinn þar. Sæmilegt er yfir Þingmannaheiði, Dynjandisheiði er fær, en í gær voru Axarfjarðarheiði, Rafnseyrarheiði, Gemlufallsheiði og Breiðadalsheiði allar lokaðar. Þar eru ekki mikil snjóþyngsli og trúlegt að reynt verði að opna vegina. Yfirleitt eru vegir í byggð færir. Í Skagafirði er þó enn bylur og ekki hægt að byrja mokstur. Ekki heldur er mokað á Lágheiði og Siglufjarðarskarði.
Svo virðist sem beinir fjárskaðar hafi orðið minni en á horfðist um tíma, en hretið olli samt verulegum erfiðleikum af margvíslegu tagi. Blöðin héldu áfram að segja frá þeim - og eftirleitum næstu vikuna. Tíminn segir 1.október:
IGÞ-Reykjavík, 30.september. Víða norðanlands er nú snjóþungt og erfitt um beit og horfur á gífurlegu tjóni vegna rýrnunar á dilkum fyrir utan tjón af beinum fjármissi. Snjóalögin eru mest í Skagafjarðar- og Húnavatnssýslum og beitin illsóttari vegna þess að frysti ofan á krapa. Eins og kunnugt er náðist ekki að ganga Eyvindarstaðaheiði, afrétt Skagfirðinga og Austur-Húnvetninga, nema að litlu leyti. Þar skiptir féð þúsundum og að öllum líkindum á hagleysu að mestu. Ástandið er því einna alvarlegast þar. Guðmundur Halldórsson frá Bergsstöðum fréttamaður Tímans í Austur-Húnavatnssýslu var kominn fram að Steiná í Svartárdal síðdegis í dag. Þaðan hringdi hann til blaðsins, og skýrði frá því að í kvöld væri ætlunin að moka snjó af veginum fram að Stafnsrétt og Fossum, sem eru litlu sunnar. Einnig er ætlunin að moka snjó úr Stafnsrétt sjálfri, en töluverður snjór mun vera í henni. Þegar Guðmundur hringdi, stóð yfir smíði á tveim sleðum, sem á að setja aftan í tvær beltisdráttarvélar, er verða í ferðinni upp á Eyvindarstaðaheiði. Einnig verður farið á stórri jarðýtu, sem verður notuð til að ryðja slóð að Ströngukvíslarskála, og verður vagn hafður aftan í henni líka. Upp við Ströngukvíslarskála er svo dráttarvél með vagni, sem skilin var eftir um daginn. Flutt verður hey á þessum farartækjum uppeftir og farangur gangnamanna. Fyrirhugað er að níu menn verði í sjálfri fjárleitinni, fimm Skagfirðingar og fjórir Húnvetningar. Búist er við Skagfirðingunum á bíl vestur í Svartárdal í kvöld. og síðan fari þeir gangandi á heiðina og létti sér ferðina á vélunum. Hins vegar munu Húnvetningarnir fjórir fara ríðandi. Þá eru þrír Húnvetningar farnir upp nú þegar. Lögðu þeir ríðandi af stað upp úr Svartárdal klukkan sjö í morgun og ætluðu fram að Ströngukvísl til að athuga aðstæður, og einkanlega til að kanna ár á leiðinni, og vita hvort þær eru orðnar uppbólgnar af frosti og krapi og illar yfirferðar. Í fyrramálið klukkan átta er svo ætlunin að leggja af stað með vélamar. Á þá að leita fram að Galtará að vestanverðu til að flýta fyrir upp á seinni tímann. Áætlað er að ná til Ströngukvíslarskála annað kvöld á vélunum, en hann er í um fjörutíu kílómetra fjarlægð frá Fossum, innsta bæ í Svartárdal.
Þeir Húnvetningar, sem riðu á undan í morgun eru Sigurjón Guðmundsson, fjallskilastjóri, Fossum, Jósep Sigfússon á Torfustöðum, en hann hefur verið undanleitarforingi í mörg ár á Eyvindarstaðaheiði og Sigurður Sigurðsson, yngri á Leifsstöðum. Talið er að fé á Eyvindarstaðaheiði skipti þúsundum. Að vísu var mikið af því komið niður, vegna þess að sumarið var kalt. Hross eru hins vegar ekki ýkja mörg á heiðinni núna, enda hafa þau sótt meira til byggða á þessu hausti. Bændum er eðlilega ekki rótt út af fé sínu á heiðinni, enda hafa verið frost þar undanfarið ofan á krapahríðina, sem vélaði svo mjög um fyrir mönnum gangnadægrin í síðustu viku. Það má því búast við, að beit sé lítil. Samt telja menn nyrðra að fé sé ekki í bráðri hættu nú orðið, það sem á annað borð er frjálst ferða sinna. Og nú er að vita hverju vélar og menn fá áorkað. Þegar fréttamaður Tímans talaði við Sigurð Guðmundsson, gangnastjóra, á Fossum bróður Sigurjóns fjallskilastjóra, sagði hann að erfitt væri að gera sér grein fyrir því, hve langan tíma tæki að smala heiðina við þær aðstæður, sem nú eru þar, en ekki þýddi að reikna með minna en þremur til fjórum dögum. Að lokum sagði fréttamaður Tímans, sem fer i leitina með mönnunum, að í dag væri sólskin og logn í Svartárdal, er auðfundið að næturfrost mundi fylgja.
HE-Rauðalæk, 30. september. Gert er ráð fyrir, að á annað þúsund fjár hafi orðið eftir á Landmannaafrétti í fyrstu leit, aðallega á mið- og útafréttinum.
KH-Reykjavík. 30. september. Eins og Tíminn hefur áður sagt frá, ætluðu Mývetningar úr uppsveitinni að hefja leitir á Mývatnsöræfum þriðjudaginn sem óveðrið skall á, og urðu þeir að snúa aftur til byggða. Á miðvikudag lögðu gangnamenn aftur upp á öræfin í nokkuð góðu veðri og gekk smölunin vel, þrátt fyrir erfiða færð. Þeir, sem smöluðu lengst inn á öræfin, gistu tvær nætur í gangnakofum og höfðu ágætan aðbúnað þar. Gangnamenn komu til byggða á föstudagskvöld, og var safnið réttað í Hlíðarrétt á laugardag. heldur var færra fé en vanalega, en það stafaði einkum af því, að talsvert var komið í heimahaga áður. Engir fjárskaðar hafa orðið hjá Mývetningum, svo vitað sé, en féð virtist í rýrasta lagi. Enn er hvít jörð í Mývatnssveit, þrátt fyrir þriggja daga sólskin, og 9 stiga frost var þar á sunnudagsnóttina. Austurlandsvegur var opnaður í gær, og kom áætlunarbíll að austan í Reynihlíð í dag.
Morgunblaðið segir einnig frá 1.október:
Blönduósi, 30. september. Gífurlegt fannfergi er nú um meginhluta Austur-Húnavatnssýslu og víða sáralítil jörð fyrir sauðfé. Frá þriðjudagsmorgni og fram á föstudag snjóaði næstum stöðugt, en á miðvikudaginn rigndi sums staðar við og við. Snjókoman var langmest á þriðjudaginn og var þá orðið alhvítt niður að sjó um hádegið. Allir vegir voru orðnir þungfærir, er leið á daginn flestir ófærir næsta dag nema stærstu bílum. Var þá farið að ryðja snjó af vegunum með ýtum og vegheflum og hefur því verið haldið áfram síðan. Flutningar á mjólk og sláturfé hafa gengið erfiðlega og vantar um 800 kindur í fulla sláturfjártölu yfir vikuna. Var þó gert allt sem hægt var, til að ná í sláturféð og flutningar á því stóðu stundum yfir mikinn hluta sólarhringsins. Mjög víða hafa kindur fundist dauðar í skurðum, lækjum og ám, enn enn er lítið hægt að segja um, hve miklir fjárskaðar hafa orðið, því að víða hefur fönnin fyllt skurði, lautir og lækjagil.
Í dag hef ég átt tal við nokkra bændur um ástandið. Sigurjón Björnsson, bóndi á Orrastöðum í Ásum, segir: Á Orrastöðum er víðast jarðlaust, en snapir, þar sem best er. Ófærðin er svo mikil, að á föstudaginn var ég tvær klukkustundir að reka fé hálfs kílómetraleið. Ekkert er hægt að komast um á dráttarvél. Þórður Þorsteinsson, bóndi á Grund í Svínadal: Snjór er svo mikill, að á sex strengja netgirðingu, sem liggur meðfram vegi í gegnum túnið á Grund, eru ekki nema einn til þrír strengir upp úr og á nokkrum stöðum var hún algjörlega í kafi. Stórfannir eru í fjallinu. Á miðvikudaginn rigndi og snjóaði á víxl og þegar frysti kom svo hörð skel á snjóinn, að fé getur ekki krafsað". Guðmundur Einarsson, bóndi á Neðri-Mýrum í Refasveit: Hross brjóta gaddinn, en neyðarástand er að verða með sauðfé. Jónatan Líndal, bóndi á Holtastöðum í Langadal: Fé leið illa í hríðinni, en snjórinn var ekki mjög mikill og nú hafa kindur nokkurn veginn í sig. Dálítið hefur klökknað síðustu dagana." Bjarni Ó. Frímannsson, Efri-Mýrum: Ég er orðinn nær sjötugur og af öðrum þræði finnst mér gaman að hafa lifað svona haust, sem er einsdæmi hér í sveit á þessari öld. Grímur Gíslason. bóndi, Saurbæ í Vatnsdal: Þar sem best er í Vatnsdal líður fé sæmilega síðustu dagana, en á allmörgum bæjum er að mestu jarðlaust nema helst um hádaginn. Þó klökknar ekki það mikið. að auðir toppar sjáist nema þar sem skepnur krafsa. Fé gengur svo hart að jörð. að í kröfsunum er víða nagað niður í mold. Í gær fór ég fram fyrir heiðargirðinguna, sem er norðarlega á Grímstunguheiði til þess að líta eftir stóði, en það er allt á heiðinni enn og margir töldu það í hættu vegna jarðleysis. Snjór var þarna miklu minni en í byggð og hrossin bitu víða úr auðu og gátu vel borið sig yfir. Þau líta ágætlega út. Á Skútaeyrum meðfram Álku hefðu gangamenn víða getað tjaldað í auðu. Snjólétt er að sjá fram heiðina, en á hálsinum vestan Vatnsdals er kafafönn. Þar er jarðlaust að kalla nema þar sem skepnur ná í hrís. Fara átti í seinni göngur á Grímstungu heiði á laugardaginn og koma með stóðið niður í dag. Göngum var frestað. Er ráðgert að leggja upp um næstu helgi. Guðmundur Klemenzson í Bólstaðahlíð: Í fremri hluta Svartárdals er mjög mikill snjór en minnkar eftir því sem norðar dregur. Í Bólstaðarhlíð er lítill snjór og ágæt jörð. Ingvar Jónsson, hreppstjóri, Skagaströnd: Jarðlaust er að kalla nema helst um hádaginn þegar dregur úr frosti snjórinn er orðinn svo harður.
Jónas Bjarnason frá Litladal, sem er elstur allra Húnvetninga, 97 ára, er minnugur vel og segist muna eftir allmörgum stórhríðum um þetta leyti árs, en þær hafi ekki staðið nema stutt og ekki valdið bagalegu jarðleysi í sveitum. Guðmundur Þorsteinsson, Holti í Svínadal: Á laugardaginn fór ég fram á hálsinn milli Svínadals og Sléttárdals, Þar eru stórfannir og næstum engin jörð. Punktstrá, sem stóðu upp úr gaddinum, voru öll ísuð og álíka gild og litlifingur. Þennan dag var glaða sólskin. en samt bráðnaði ekkert utan af stráunum." Jón Pálmason á Þingeyrum: Á haganum í Þingi er lítill snjór og ágæt jörð en meðfram fjallinu er hann meiri og eins þegar kemur fram undir Vatnsdalshóla. A laugardaginn rak Guðmundur Jónsson í Ási nokkur hundruð lömb í hagagöngu að Torfalæk í Ásum vegna hagaleysis heima í Ási. Munu fleiri bændur í Vatnsdal hyggja á sama ráð. Á Torfalæk er ágæt jörð. fyrir heiðargirðinguna í stað til að sækja stóð, sem þar er. Verður það réttað í Auðkúlurétt. Í dag lögðu þrír menn af stað fram á Eyvindarstaðaheiði til þess að huga að fénu. Eins og áður hefur verið sagt í fréttum var ekki hægt að smala í Auðkúluheiðarmenn fóru fram heiðina nema skammt norður fyrir Ströngukvísl. Á morgun fer svo hópur gangnamanna úr Skagafirði og Húnavatnssýslu og fara þeir með jarðýtu og stóran bíl með drifi á öllum hjólum. Á hann að flytja farangur gangnamanna og hey handa gangnahestum. í bakaleiðinni á hann að flytja fé. sem ekki getur gengið, og má búast við, að það verið nokkurt magn. Jarðýtunni er ætlað að ryðja slóð fyrir féð og flytja dráttarvél, sem gangnamenn urðu að skilja eftir á heiðinni um daginn. Í dag er glaða sólskin og logn. Á Blönduósi klökknar lítið á móti sól og alls ekkert í forsælu. B.B.
Í gærkvöldi flutti flutti dr. Halldór Pálsson búnaðarmálastjóri erindi, er var ávarp til bænda og nefndist Á haustnóttum. Ræddi hann í upphafi máls síns um hausthret það er gerði nú um göngurnar, því versta áhlaupi, sem gert hefir á þessari öld, um þetta leyti árs. Lét hann þess getið, að ekki einungis væru garðávextir og annar jarðargróður undir fönn, heldur væri fé víða í fönn ýmist dautt eða lifandi, en annað stæði í svelti. Búnaðarmálastjóri kvaðst vona að skjótt hlánaði, en þótt svo yrði, hefðu bændur orðið fyrir tugmilljónatjóni í áfelli þessu Lægi eitthvert tilfinnanlegasta tjónið í því, hve sláturfénaður allur legði ört af, auk hinna beinu fjárskaða.
Borgarfirði eystra, 29. september. Í fyrrinótt hleypti hér inn miklu brimi og gerði skyndilega hafrót við hafnargarðinn. Vélbátinn Njörð, sem er eign Vigfúsar Helgasonar, sleit upp og rak suður undir Kiðubjörg og brotnaði í spón. Njörður var tæpar 4 lestir og næststærsti fiskibátur hér. Talsverð verðmæti voru i bátnum, þ.á.m. nýr gúmmíbátur.
Tíminn segir af kornrækt 2.október:
BÓ-Reykjavik, 1.október. Kornið hefur að miklu leyti brugðist í ár. Vöxtur og þroski er yfirleitt undir meðallagi, og sumt hefur alls ekki þroskast. Flosi Sigurðsson, fréttaritari blaðsins á Fosshóli, sagði í dag, að ekkert af korni Suður-Þingeyinga hefði náð að þroskast. Það er nú slegið með stönginni og nýtt sem grænfóður, sumir gefa það kúnum með haustbeitinni, aðrir saxa það í votheysgeymslur. í fyrra þresktu Þingeyingar allt sitt korn. Þar er nú frost í jörðu og þiðnar ekki daglangt.
[Í blaðinu er allítarleg frásögn af flugferð yfir heiðar norðanlands þar sem fylgst er með leitarmönnum]
Halldór Pálsson búnaðarmálastjóri skrifar: Eftir stutt og óvenju kalt, en þurrviðrasamt sumar, lét haustið ekki á sér standa. Það heilsaði á jafndægri að hausti með vetrarstórhríð um meirihluta landsins, því versta áhlaupi, sem komið hefur á þessari öld um þetta leyti árs. Enn þá, eftir viku frá því áhlaupið skall á, er feikna fönn ekki aðeins á hálendinu, heldur um flestar sveitir norðanlands og vestan. Víða er fé því nær eða alveg í svelti. Undir fönninni liggur ekki aðeins garðávextir og nokkuð af heyi, heldur óefað mikið af fé, ýmist dautt eða lifandi. Við skulum vona, að hláni fljótlega, en þó svo verði, þá hafa bændur orðið fyrir tugmilljóna tjóni í áfelli þessum. Eitthvert tilfinnanlegasta tjónið liggur í því hve sláturfénaður allur leggur ört af, auk hinna beinu fjárskaða.
Morgunblaðið talar enn um leitir á Eyvindarstaðaheiði 3.október:
Ekki hafði í gær frést neitt af gagnamönnum á Eyvindarstaðaheiði, sem þangað fóru í fyrradag á jarðýtu og tveimur dráttarvélum með hálfbeltum og með tvo sleða auk þess sem sex menn fóru ríðandi, sagði Guðmundur Klemensson í Bólstaðahlíð blaðinu í gær. Sigurður Guðmundsson bóndi og gangnaforingi á Fossi í Svartárdal stjórnar þessum sögulegu leitum og er gert ráð fyrir að gagnamenn komi niður að Stafni í dag. Bæði er allmargt hrossa og fé inni á heiðinni, en búið var áður að smala út fyrir Ströngukvísl. Í fyrradag var Svartárdalur ruddur svo og hreinsaði jarðýta úr almenningnum í Stafnsrétt, en hann var fullur af snjó. Í gær var hláka fyrir norðan og óttast menn að vaxi í ám svo að það geti orðið til baga við fjárleitirnar.
Morgunblaðið segir 5.október frá minni fjársköðum en menn höfðu búist við:
Blönduósi, 4.október Fjárskaðar mun minni en búist hafði verið við. Nokkrar kindur fundust dauðar í lækjum og ám, en fjárskaðar eru að líkindum mun minni en búist var við. Féð leit yfirleitt vel út og virtist ekki hafa liðið hungur. Stafnsrétt hófst við birtu í morgun. Þá var talsvert frost, en blæjalogn. Féð var með fæsta móti og réttinni lokið um hádegi. Réttardagurinn var mjög ólíkur því sem venja er í Stafnsrétt. Aðkomufólk var næstum ekkert, en oftast er þar geysimargt. Snjó hafði verið ýtt með jarðýtu úr almenningnum, en í dilkunum var mikill snjór. Sums staðar hafði verið stungið frá veggjum og snjóhausunum hlaðið upp á þá til að hækka þá upp. Björn
Tíminn segir 6.október frá seinni göngum: [Í blaðinu er einnig allítarleg frásögn Hríðargöngum lýkur. Þar er sagt frá göngum á Eyvindarstaðaheiði].
GJ-Ási í Vatnsdal, 5.október. Í dag leggur fyrri flokkur í seinni göngur, en þeim var frestað vegna snjóa. Nú verður smalað stóði og því sem eftir er af fé. Flokkurinn verður tvær nætur á heiðinni, fer í Öldumóðuskála í kvöld og leitar Kvíslarnar á morgun. Þeir eru fjórir saman. Aðalflokkur leggur af stað í fyrramálið og verður eina nótt í stað tveggja, sem vanalegt er. Stóðréttin að Undirfelli verður á þriðjudaginn að öllu forfallalausu. Nokkrir Vatnsdælingar áttu sæti úti, þegar bylurinn skall á og í dag eru þeir að hirða úr snjónum. Á einum bæ var flöt há á túninu, en hún kemst aldrei inn fyrir hlöðudyr. Flestir eiga eftir að taka upp kartöflur, en snjóskaflinn í kartöflugarðinum hér i Ási er meir en metri á þykkt. Hér hefur verið svo annríkt að stjana við fénaðinn, að enginn tími hefur unnist til að gera sér grein fyrir ástandinu eða skýra frá því fyrr en nú. Í nótt var frostlaust i byggð og snjórinn er farinn að sjatna. Alls staðar er einhver jörð, en sums staðar eru það bara hnottar sem standa upp úr. Áður var snjórinn í hné á jafnsléttu. Hér í Ási hafa sex kindur fundist í fönn, og vitað er að bændur hafa misst eina og eina kind. Allstaðar vantar eitthvað af fé. Sumir ráku fé sitt burt úr heimahögum, þangað sem snjór var minni, og víst er um það, að engan rekur minni til slíkrar ákomu á þessum árstíma hér um slóðir. Í Víðidal er snjór heldur minni. en í Svartárdal er mikil fönn og út í Vatnsnesfjöllunum.
Morgunblaðið segir af göngum á Grímstunguheiði í fregn 8.október:
Ási, Vatnsdal 7. október. Gangnamenn af Grímstunguheiði komu til byggða um kl.16 í dag, eftir að hafa leitað heiðina í annað sinn. Átti ég í dag tal við Lárus Björnsson í Grímstungu, foringja gangnamanna, og sagðist honum svo frá: Mikill snjór var á heiðinni og þungt færi með hesta nema á stórum fönnum. Þær héldu hestum að mestu leyti. Í Forsæludalskvíslum var minni snjór en vestur á heiðinni, og sæmileg jörð. Á vesturheiðinni var knappur hagi, einkum framundir Stórasandi. Nær öll vatnsföll voru lögð þykkum is og ráku gangnamenn stóð á ís yfir Ströngukvísl, sem er lengsta og vatnsmesta upptakakvísl Vatnsdalsár. Segir Lárus að hann viti engin dæmi þess að stóð hafi áður verið rekið á ís yfir kvíslina á þessum árstíma. Í fyrri göngum var skyggni slæmt að nýafstaðinni hríð. Af þeim ástæðum varð fleira fé eftir á heiðinni en venjulega. Sagði Lárus að féð, sem þeir fundu nú, liti ágætlega út, og miklu betur en fé í heimahögum í Vatnsdal.
Krafsjörð hefur alltaf verið sæmileg á heiðinni, en í Vatnsdal mátti heita að féð krafsaði ekkert. Var snjórinn blautur fyrstu dagana, en þegar birti upp var frost á hverri nóttu og kom þá hörð skel á snjóinn. Björn
Mánuði síðar bárust fréttir úr Árneshreppi. Tíminn segir frá 30.október:
GPV-Trékyllisvík, 29.október. Mikil óáran hefur verið í Árneshreppi í sumar. Hefur það haldist áfram í haust, og er útlitið ekki sem best. Búast má við að skera verði niður bústofn bænda, en um þessar mundir eru þó þrír menn norður í Eyjafirði í heykaupum, sem stofnað hefur verið til fyrir forgöngu Búnaðarfélagsins. Víða var töluvert af heyjum úti, þegar hretið skall á 24. og 25. september. Aðallega var það úthey, sem heyjað var eftir höfuðdag, en aldrei gert flæsu á. Þetta hey fór allt í fönn. Hjá flestum er það algerlega ónýtt, enda hefur fé gengið í það. Verða það líklega einu notin af því. ... Síðan i ofviðrinu 24.25. september, hefur verið stöðug ótíð hér Enginn heill dagur góður, heldur stöðugir umhleypingar. Þá setti niður mikinn snjó, svo að allt var á kafi, jarðlaust og vegir ófærir. Það tók tvo daga að ryðja snjó af veginum frá Árnesi til Norðurfjarðar, um 78 km leið. Á tveimur stöðum þurfti að fara í gegnum 23 mannhæða háa skafla. Lengst af hefur verið jarðlaust síðan eða jarðlítið. Gat ekki heitið að tæki neitt upp fyrr en 14. október. eftir að fellibylurinn Flóra fór yfir. Þá komu upp hagahnjótar og stóð það nokkra daga. Oft hefur bleytt í stund úr degi, en úr koman jafnan breyst í snjókomu og skeflt yfir aftur. Nokkuð hefur bleytt í núna síðustu dagana, og snjór sigið töluvert.
Nokkrir fjárskaðar urðu í bylnum, aðallega þó á tveimur bæjum. Á Melum drápust 20 kindur, sem ýmsir áttu og í Bæ 8 kindur. Annars staðar hafa ekki orðið fjárskaðar, þó vantar víða kind og kind, sem sennilega hefur drepist. Nýlega hafa fundist þrjár kindur, sem fennti í leitahretinu. Á Melum fannst ær í skafli. Hafði hún þá verið 3 vikur í fönn. Skeflt hafði yfir hana frammi í fjörugrjóti, þar sem hún var í algeru svelti og sjálfheldu Hún var lifandi, en svo aðframkomin, að lóga varð henni. Fyrir viku kom ær úr skafli, sem var héðan frá Bæ. Hafði hana fennt í djúpum skurði. Í blotanum undanfarna daga hafði þiðnað svo ofan af henni, að hún komst af sjálfsdáðum úr skaflinum. Hún er sæmilega hress, en orðin mögur, enda ekki náð í neitt nema þá mold. Á miðvikudaginn fannst svo þrevetur hrútur frá Munaðarnesi uppi á Krossnesfjalli í fönn. Hann hafði staðið í dýi þegar skefldi yfir hann. Var hann með lífi, en svo aumur, að honum var lógað strax.
Eftir að veðrinu lauk komu nokkrir rólegir dagar. Lýkur hér samantekt hungurdiska um hið eftirminnilega hrakviðri í síðustu viku septembermánaðar 1963.
Flokkur: Vísindi og fræði | Breytt s.d. kl. 23:00 | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (3.1.): 68
- Sl. sólarhring: 1074
- Sl. viku: 2739
- Frá upphafi: 2426596
Annað
- Innlit í dag: 65
- Innlit sl. viku: 2442
- Gestir í dag: 63
- IP-tölur í dag: 63
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Janúar 2025
- Desember 2024
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.