Smávegis til minnis um veðrið á fimmtudaginn var

Mjög hlýtt var hér á landi að morgni síðastliðins fimmtudags (5.september), einnig varð óvenjuhvasst á Vestfjörðum og sumstaðar um landið norðanvert. Síðdegis þennan dag varð tölvuhrun á Veðurstofunni - og ritstjóri hungurdiska varð í framhaldinu sambandslaus við gögn í fjóra daga. Vonandi er sambandið nú komið í lag. Í veðrinu áðurnefndan fimmtudag voru ýmis staðbundin vindhraða- og septemberhitamet slegin.

Hæst mældist hitinn 25,1 stig á Seyðisfirði, þetta er landsdægurmet þann 5.september og ritstjóra hungurdiska sýnist að það sé jafnframt fjórði hæsti hiti sem mælst hefur í september. Septemberhitametið var sett á Egilsstöðum 1.september 2017, 26,4 stig. Þann 14.september 1949 mældust 26,0 stig á Dalatanga og 25,8 þann sama mánaðardag árið 1988. Sjálfvirkar stöðvar sem athuga á 10-mínútna fresti voru ekki komnar til sögunnar árið 1988, mest var mælt 8 sinnum á sólarhring, og víða ekki nema þrisvar, t.d. á Seyðisfirði. Þar mældist hiti kl.15 þann 14. september 25,0 stig og var það jafnframt hámarkshiti dagsins.

„Hitabylgjan“ á fimmtudaginn var hreinsaði hins vegar upp athugunartímahámörk (á landsvísu) allar klukkustundir frá og með kl.6 um morguninn til og með kl.13, metið kl.14 er frá Möðruvöllum í Hörgárdal, 24,4 stig, sett í merkilegri hitabylgju þann 4.september 2010.

Mánaðarhitamet voru ekki sett víða (sé miðað við stöðvar sem athugað hafa lengi). Stöðin í Vestdal á Seyðisfirði hefur þó mælt frá 1995. Ekki hefur á þeim tíma mælst hærri hiti þar í september heldur en nú (24,8 stig). Seyðisfjarðarstöðin sjálfvirka byrjaði 2014, eins og áður sagði fór hiti þar í 25,1 stig og hafði mest (í september) farið í 25,0 á mönnuðu stöðinni - eins og áður sagði. Sjálfvirkar mælingar byrjuðu á Skjaldþingsstöðum í Vopnafirði árið 2006, hiti fór þar nú mest í 24,8 stig (milli kl. 7 og 8 að morgni), það er nýtt met á stöðinni - og hærri hiti en mældist nokkru sinni í september á mönnuðu stöðinni á sama stað (og á öðrum stöðvum í Vopnafirði). Sama má segja um Miðfjarðarnes - þar var líka slegið septembermet.

Hitinn á Seyðisfjarðarstöðvunum var einnig hæsti hiti ársins til þessa á stöðvunum. Sama var á Sauðanesvita. Tveimur dögum áður mældist hæsti hiti ársins á Kambanesi (hófleg 15,5 stig) og þann 1. fór hiti í 23,4 stig á Mánárbakka - það er hæsti hiti ársins þar.

Það merkilegasta við þessa hitabylgju er e.t.v hversu öflug hún varð - án þess að hitta „rétt“ í sólarhringinn. Líklegt að hiti hefði orðið enn hærri hefði hún verið á ferð fáeinum klukkustundum síðar - og efni í septemberíslandsmet.

Snarpur vindstrengur fylgdi hlýindunum. Veðrið stóð þó það stutt að það nær aðeins inn á annan (af tveimur) stormdagalistum ritstjóra hungurdiska - þann sem byggir meira á snerpu. Til að komast á þann lista þarf hámarksvindhraði að ná 20 m/s á fjórðungi veðurstöðva landsins. Það rétt tókst nú (27 prósent). Meðalvindhraði sólarhringsins varð hins vegar 8,9 m/s.

Septembervindhraðamet (10-mínútur) voru þó sett á nokkrum stöðvum þar sem nokkuð lengi hefur verið mælt, á Hornbjargsvita (1995), Súðavík (1995), Ísafirði (1998), Bolungarvík (1999) og á Steingrímsfjarðarheiði (1995) og Laxárdalsheiði (2000). Septembervindhviðumet féllu á Súðavík (1995), Flateyri (1997), Steingrímsfjarðarheiði (1995), Laxárdalsheiði (2000) og - merkilegt nokk - á Grundarfirði (2003).


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Jan. 2025
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • w-blogg050125a
  • w-blogg040125ia
  • w-blogg040125b
  • w-blogg040125a
  • w-blogg020125a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.1.): 39
  • Sl. sólarhring: 709
  • Sl. viku: 3788
  • Frá upphafi: 2428619

Annað

  • Innlit í dag: 31
  • Innlit sl. viku: 3380
  • Gestir í dag: 30
  • IP-tölur í dag: 29

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband