Svalur - og óvenjulegur - ágústmánuður

Ágúst var í svalara lagi hér á landi - miðað við síðustu áratugi. Varðandi stöðuna á einstökum veðurstöðvum vísum við í yfirlit Veðurstofunnar. Hér er hins vegar tafla sem á að sýna stöðuna á einstökum spásvæðum. Höfum samt í huga að þetta eru ekki opinberir reikningar - þeir eru gerðir á ritstjórnarskrifstofum hungurdiska - en þar stenst ekki allt nána skoðun eins og þrautseigir lesendur vita. Á móti kemur að engir aðrir bjóða upp á upplýsingar af þessu tagi. 

w-blogg030924a

Taflan sýnir röðun hita ágústmánaðar á þessari öld - eftir spásvæðum Veðurstofunnar. Á Miðhálendinu er þetta kaldasti ágústmánuður aldarinnar, á Vestfjörðum og Austfjörðum sá þriðjikaldasti (22. hlýjasti), en annars sá næstkaldasti. 

Í þessu tilviki er ástæða svalans tiltölulega einföld. Við landið hefur setið stór kuldapollur, loftið ættað af norðlægum slóðum, annað hvort leifar síðasta vetrar - eða hefur kólnað þar í sumar yfir íshafinu. Það hefur síðan hvað eftir annað leitað til suðurs, oftast meðfram Vestur-Grænlandi og síðan hingað - og þá úr suðvestri. Eitthvað hefur verið um það að loftið hefur einnig komið beint úr norðri. Þessi kuldapollur hefur haldið öllu hlýju lofti frá landinu í ágúst - og reyndar lengst af í júní og júlí líka. 

w-blogg030924b

Kortið sýnir meðalhæð 500 hPa-flatarins í ágúst og vik frá meðaltali (litir). Risastórt lágþrýstisvæði. Það hefur líka beint stöðugum suðvestanáttum til vesturstranda Skotlands og Noregs en á þeim stöðum báðum hefur verið afskaplega úrkomusamt í ágúst - sums staðar met. Á hinn bóginn hefur stöðug og eindregin sunnanátt leikið um Norður-Noreg, allt norður til Svalbarða - önnur afleiðing kuldaframrásarinnar sem við höfum orðið fyrir. 

Vikadreifing hitans sést vel á næsta korti.

w-blogg030924c

Hér má sjá sömu jafnhæðarlínur og á fyrra korti, jafnþykktarlínur eru hins vegar daufar og strikaðar, en þykktarvik eru sýnd í litum. Þau eru almennt jákvæð nema við Ísland. Þykktin mælir hita í neðri hluta veðrahvolfs. Hin almennu hnattrænu hlýindi eiga einhvern þátt í útbreiðslu hlýindanna. Við sjáum að það er rétt á kjarnasvæði kuldans sem hiti er undir meðallagi. Hefði sama staða komið upp fyrir 50 árum hefði kuldinn verið miklu útbreiddari - hann hefði náð mun lengra út fyrir lægðarmiðjuna. En við ættum líka að sjá að hlýindin á Svalbarða eru ekki eingöngu hnattrænni hlýnun að kenna (eða þakka) - heldur einnig óvenjulegri hringrás.

Meðalhæð 500 hPa-flatarins í ágúst virðist vera sú lægsta á mæliskeiðinu (frá 1949) og á tíma sæmilega áreiðanlegra endurgreininga (frá 1940), en ekki munar þó miklu. Svipað var í ágúst 1992. Metið í þrýstingi við sjávarmál er mun meira afgerandi. Meðalþrýstingur í Reykjavík var 994,5 hPa, nærri 5 hPa lægri en lægst hefur verið áður í ágúst. Fimm hPa eru um 40 metrar - munur á 500 hPa hæðarmetinu nú og því næstlægsta er hins vegar um 15 m. Loftið nú hefur því verið um 25 metrum hlýrra nú heldur en þegar ástandið var síðast svipað og nú - það munar rúmu 1°C. Kannski hin hnattræna hlýnun hafi þrátt fyrir allt gefið okkur um einu stigi hlýrri ágústmánuð heldur en við hefðum getað búist við miðað við þrýsti- og hæðarhringrásina. 

Kannski á svipað við um mestallt kortið. En hin hnattræna hlýnun á því ekki nema hluta af Svalbarðahlýindunum - beint. Hin þráláta sunnanátt þar á líka sinn þátt - hann gæti hafa verið stærri en hinn. Ritstjóri hungurdiska verður þó að játa að hann er ekki með reikningslegt samband sunnanátta, hæðar 500 hPa-flatarins og hita á Svalbarða í kollinum, þannig að rétt er að lesendur fari ekki að taka það sem hér er sagt of bókstaflega. 

En þrýstilágmarksmetið hér er merkilegt og hin eindregna útrás lágra, norrænna veðrahvarfa til Íslands. Fyrra meðalþrýstimet ágústmánaðar hreinsað út af borðinu - og ekki bara það heldur er þrýstivikið (-13,0 hPa) meira heldur en nokkurt mánaðarþrýstivik allra mánaða frá maí til september 1822 til 2024 - aðeins mánuðir á vetrarhelmingi ársins eiga stærri mánaðarvik. Ritstjóri hungurdiska hefði jafnvel gengið svo langt fyrir aðeins mánuði síðan að telja vik sem þetta óhugsandi á þessum tíma árs. 

Meðalþrýstingur mánaðanna júní til ágúst í heild var einnig sérlega lágur, 1002,4 hPa. Þetta er lægsti meðalþrýstingur þessara þriggja mánaða frá upphafi samfelldra mælinga 1822. Næstlægstu tölurnar eru 1003,2 hPa, frá 1836 og 1876 - vegna ýmiss konar óvissu telst munurinn á þeim og meðaltalinu nú varla marktækur. 

Ritstjóri hungurdiska hefur fylgst ítarlega með veðri í meir en 60 ár. Reynslan sýnir að það gengur stöðugt á með óvæntum og jafnvel „óhugsandi“ viðburðum - það má heita regla að alhæfingar bregðist - sú regla að alhæfingar bregðist gæti jafnvel brugðist. Framtíðin er sem fyrr algjörlega óráðin. 

Við þökkum BP fyrir kortagerðina að vanda. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • w-blogg251124e
  • w-blogg251124d
  • w-blogg251124c
  • w-blogg251124b
  • w-blogg251124a

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (26.11.): 12
  • Sl. sólarhring: 285
  • Sl. viku: 2258
  • Frá upphafi: 2414688

Annað

  • Innlit í dag: 12
  • Innlit sl. viku: 2079
  • Gestir í dag: 12
  • IP-tölur í dag: 12

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband