Sumareinkunn Reykjavíkur og Akureyrar 2024

Ritstjóri hungurdiska hefur nú reiknað „einkunn“ sumarsins 2024 í Reykjavík og á Akureyri. Aðferðin hefur verið skýrð áður (og er auðvitað umdeilanleg). Sumarið nær hér til mánaðanna júní til ágúst - aðferðin gæti gengið fyrir maí líka en varla september. Hæsta mögulega einkunn í þessu kerfi er talan 48 - ekkert sumar hefur náð slíkum hæðum - hvorki í Reykjavík né á Akureyri, litlu munaði þó á Akureyri 2021, þegar einkunn sumarsins þar var 47. Lægsta mögulega tala er núll, sumarið 1983 komst nærri henni í Reykjavík - einkunn þess sumars var einn. Rétt er að taka fram að einkunnin er háð hverjum stað - hún gefur engan tölulegan samanburð milli stöðva (sem sumardagatalningin sem hér var fjallað um fyrir nokkrum dögum erir frekar).

w-blogg020924a

Sumareinkunn Reykjavíkur 2024 er 14. Það er 10 stigum undir meðallagi. Súlurnar á myndinni sýna einkunn hvers árs. Við sjáum að aðeins tvö önnur sumur síðustu 25 ára fá lægri einkunn heldur en þetta, það voru 2018 (13 stig) og 2013 (12 stig). Munurinn auðvitað ekki marktækur. Sex stig fengust í júní í ár, sömuleiðis í ágúst, en aðeins tvö í júlí. Sumarið 2018 (sem fékk álíka lága einkunn) var öðruvísi að því leyti að þá fékk júní núll stig, júlí tvö (eins og nú), en ágúst hins vegar 11 stig (bjargaði því sem bjargað varð). Árið 2013 dreifðust stigin milli mánaðanna - lítill munur var á þeim.

Það vekur alltaf athygli á sumareinkunnarmyndinni í Reykjavík hversu tímabilaskipting er mikil. Tíuárameðaltal fór lægst niður í 15 stig á árunum 1975 til 1984, en hæst í 32 stig, á árunum 2003 til 2012 - árin 2009 til 2012 skera sig sérstaklega úr fyrir gæði - og 2019 síðan í sama flokki. Þrátt fyrir lakleg sumur í ár og 2018 má segja að sumur hafi síðasta áratug verið alveg á pari við það sem best gerðist áður en kuldaskeiðið alræmda skall á af fullum þunga á sjöunda áratug 20. aldar.

w-blogg020924b

Sumarið telst á þessum kvarða einnig slakt fyrir norðan, fær 15 stig. Af þessum stigum komu 11 í júlí, 4 í júní, en ágúst var hins vegar stigalaus. Það hefur ekki gerst á Akureyri síðan í ágúst 1959.

Heildaútlit línurits fyrir Akureyri er nokkuð annað en fyrir Reykjavík. Lægsta tíu ára meðaltalið er þannig 19 (1966 til 1975) og það hæsta 29 (2000 til 2009) - munar 10 stigum, en 17 í Reykjavík. Ritstjóri hungurdiska túlkar það svo að meiri þráviðri séu syðra heldur en nyrðra - mánuðirnir „sjálfstæðari“ á Akureyri heldur en í Reykjavík. Þannig eru það 6 sumur í Reykjavík sem ekki ná 10 stigum, en aðeins 1 á Akureyri (1985). Ellefu sumur ná 35 stigum eða meira í Reykjavík - en ekki nema sex á Akureyri. Þetta bendir til þess að mánuðir í Reykjavík „vinni“ fremur sem heild heldur en fyrir norðan. Ekki er þó á þessari hegðan byggjandi við langtímaveðurspár - eins og sumarið í fyrra (2023) sýndi glögglega.

Það er nákvæmlega ekkert samband á milli sumareinkunnar nyrðra og syðra. Þó eru fleiri sumur góð á báðum stöðum (samtímis) heldur en vond á báðum. Frábærlega góð á báðum stöðum voru 1931, 1939, 1957, 2004, 2007, 2008 og 2012, en 1959, 1969, 1992 og sumarið í ár voru slök á báðum stöðum - 1983 var ekki sérlega gott á Akureyri heldur - á mörkum hins slaka.

Munum að lokum að þetta er bara ábyrgðarlaus leikur - ekki má nota þessar niðurstöður í neinni alvöru. Svo er september eftir - hann telst formlega til sumarsins í árstíðaskiptingu Veðurstofunnar.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Sept. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30          

Nýjustu myndir

  • w 1963-09-leitavedrid-c
  • w 1963-09-leitavedrid-b
  • w 1963-09-leitavedrid-a
  • w-blogg030924c
  • w-blogg030924b

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.9.): 224
  • Sl. sólarhring: 287
  • Sl. viku: 1630
  • Frá upphafi: 2391670

Annað

  • Innlit í dag: 213
  • Innlit sl. viku: 1473
  • Gestir í dag: 212
  • IP-tölur í dag: 208

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband