2.8.2024 | 19:27
Þrjár nýlegar dembur
Ritstjóri hungurdiska hefur nú litið lauslega á mælingar á þremur miklum skúradembum. Tvær þeirra féllu þann 25. júlí (2024), annars vegar í Borgarfirði, en hins vegar austur í Þjórsárdal. Sú þriðja kom við á Veðurstofunni 1.ágúst.
Til að setja demburnar í samhengi er rétt að rifja upp tvær eldri reykjavíkurdembur. Tökum fram í upphafi að það er ekki fyrr en á allrasíðustu árum að almennt er farið að mæla úrkomuákefð. Úrkoma var yfirleitt aðeins mæld einu sinni eða tvisvar á sólarhring (örfáum sinnum þrisvar). Síriti var þó snemma settur upp í Reykjavík og var hægt að mæla ákefð með honum. Einnig voru síritar lengi á Hveravöllum og Kvískerjum í Öræfum, en rekstur þeirra gekk alla vega. Það var ekki fyrr en um aldamótin síðustu að sjálfvirkum stöðvum fjölgaði - og þar með síritandi mælum. Allskonar erfiðleikar hafa þó komið upp við mælingarnar og verst er að síðustu þrjú árin hefur alls ekki verið farið yfir þær í leit að villum. Sem stendur er því ekki hægt að kalla fram tölur um dembutíðni á landinu eða einstökum stöðvum. Hugtökin demba eða skýfall hafa ekki einu sinni verið skilgreind hér á landi eins og gert hefur verið í öllum nágrannalöndunum.
Ljóst er að ákafar dembur geta valdið umtalsverðum ama og jafnvel stórtjóni þótt þær standi aðeins mjög stuttan tíma. Mikilvægt er því að ná tökum á tíðnirófi þeirra til að hægt sé að hanna frárennsli (í stóru og smáu) - en rétt hönnun er forsenda þess að koma megi í veg fyrir tjón - eða lágmarka ama af því.
Við látum Pál Berþórsson lýsa eigin mælingu á mikilli dembu í Reykjavík 10.júlí 1948, (tekið úr merkri grein Páls: Hvað getur úrfelli orðið mikið á Íslandi? Veðrið 1968 s.52-58:
Það var á júlímorgni árið 1948, að hann gerði ofsalega rigningarskúr strax eftir að úrkoman hafði verið mæld í Reykjavík. Þegar rigningin hafði staðið í klukkutíma, datt mér í hug að fara út og mæla þessa dembu. Hún reyndist vera 17,3 millimetrar, en það þýðir eins og flestum mun kunnugt, að hún hafi skilið eftir sig 17,3 mm djúpt vatn á jafnsléttu, ef ekkert hefði runnið burt eða sigið niður. Þegar þetta gerðist, var enginn síritandi regnmælir á Veðurstofunni, en í allar þær 150 þúsund klukkustundir, sem hann hefur verið í gangi síðan, er aldrei vitað til, að í Reykjavík hafi mælst svo mikið regn á einni stundu.
Getið var um þetta veður í blöðum, m.a. Morgunblaðinu sem segir að þrumuveður hafi fylgt úrhellinu og að þetta hafi verið snemma morguns. Á þessum tíma voru þrjár úrkomumælingar á dag í Reykjavík, kl.6, kl.9 og kl.18. Var nýbúið að mæla kl.6 þegar skúrin féll. Heldur heppilegt allt saman. [Sjá líka pistil hungurdiska um árið 1948].
Að kveldi 16.ágúst 1990 gekk einkennileg skúr yfir Reykjavík. Henni er lýst í pistli á vef Veðurstofunnar um úrkomumet á Íslandi. Þar segir um skúr þessa:
... er rétt að geta óvenjumikillar dembu sem gerði í mæla Veðurstofunnar að kvöldi 16. ágúst 1991. Ekki var þá langt síðan veðurratsjá stofnunarinnar hafði verið tekin í notkun og síðdegis þennan dag kom fremur fyrirferðarlítið ský inn á sjána úr suðsuðaustri og stefndi á ströndina suður og vestur af Selvogi.
Skemmst er frá því að segja að skýið fór yfir Bláfjallasvæðið, Reykjavík og til norðurs, skammt vestur af Akranesi. Mikið úrfelli gerði á litlu svæði í Reykjavík svo frárennsli hafði ekki undan og vatn komst í allmarga kjallara, einkum í námunda við Hlemm. Fyrir tilviljum fór mesta demban því sem næst nákvæmlega yfir Veðurstofuna. Vestast í bænum og austan til rigndi mun minna og ekkert tjón varð þar.
Smáskúrir hafði gert fyrr um daginn, en kl. 21:30 byrjaði skyndilega að hellast úr lofti og þegar úrkomunni lauk kl. 23:40 höfðu, samkvæmt síritanum, fallið 21,2 mm. Klukkustundina frá 21:30 til 22:30 féllu 18,2 mm, hálftímann frá 21:30 til 22:00 13,2 mm, tuttugu mínúturnar frá 21:50 til 22:10 10,4 mm, frá 21:50 til 22:00 féllu 7,2 mm og fimm mínúturnar 21:55 til 22:00 féllu 4,7 mm. Taka verður fram að ekki er víst að klukkan í síritanum hafi verið nákvæmlega rétt og gæti hæglega skeikað 5 til 10 mínútum. Sömuleiðis er ætíð aðeins álitamál hversu nákvæmur aflesturinn er, en varla skeikar miklu.
Hér að ofan var skipt milli tímabila á heilum 10 mínútum. Hæstu 10 mínúturnar hafa væntanlega verið lítillega hærri en áðurnefndir 7,2. Sökum gagnaskorts er óvíst hversu algengar svona dembur eru hér á landi, en fráleitt er að sú mesta hafi einmitt fallið á Veðurstofunni. Í þrumuveðri í júlí 1998 féll geysimikil úrkoma í Stíflisdal og mældist heildarúrkoma dagsins 43,2 mm. Veðurathugunarmaður segir í athugasemdum að mestur hluti úrkomunnar hafi fallið á u.þ.b. 10 mínútum. Líklegt er að mestu dembur hér á landi komi einmitt í þrumuveðrum að sumarlagi.
Í þessum tveimur dembum var úrkomuákefðin annars vegar 17,3 mm/klst (1948) og 18,2 mm/klst (1990). Við vitum ekki um 10-mínútna ákefð 1948, en aðferð sú sem Páll notar í greininni áðurnefndu bendir á að hún hafi líklega verið að minnsta kosti 7 mm, svipað og mældist í úrhellinu 1990 - þar sem klukkustundarákefðin var svipuð. Í sumar (2024) hefur frést af allmiklum dembum. Þann 25. mældist mikil demba á Hvanneyri í Borgarfirði og sama dag gerði einnig mikla dembu austur við Búrfellsstöð í Þjórsárdal. Þrumuveður var samfara dembum þessum - alla vega á Hvanneyri og þar í grennd.
Hér að ofan má sjá 10-mínútna úrkomu á Hvanneyri (grænar súlur) og Búrfelli (rautt) þetta síðdegi, frá kl.14 til kl.22 um kvöldið. Mikla skúr gerði á Hvanneyri upp úr kl.16, mældist hún alls 6,8 mm, þar af 2,6 mm á 10 mínútum. Varla stytti alveg upp fram að skúrinni miklu sem hófst rétt fyrir kl.19. Rúmri klukkustund síðar höfðu fallið 19,9 mm, þar af 19,5 mm á 60 mínútum. Mesta 10-mínútna ákefðin mældist 9,2 mm milli kl.19:30 og 19:40 og 5,8 mm næstu 10-mínúturnar þar á undan.
Pétur Davíðsson, bóndi á Grund í Skorradal benti mér á að í grenndinni væru fáeinar stöðvar reknar af einkaaðilum. Vel má við þessar aðstæður treysta mælingum þeirra (að öðru leyti en því að ritstjóri hungurdiska veit ekki hvernig nánasta umhverfi mælanna er háttað - né hvort þeir eru í löglegri hæð).
Á Horni í Skorradal rigndi hvað ákafast í skúrinni milli kl.16 og 17. - komst upp í um 12,4 mm á klst. Í Meltúni, sem er skammt frá Skeljabrekku, rigndi svipað og á Hvanneyri - og um svipað leyti dags.
Ekki er vitað um svona mikla úrkomuákefð áður í mælingum á Hvanneyri, en athuga ber að ekki hefur verið farið ítarlega yfir þær.
Einnig má sjá mikla skúr við Búrfell á myndinni (rauður ferill). Þar komst 10-mínútna ákefðin reyndar upp í 10,0 mm þegar mest var, en heildarúrkoma varð aðeins minni heldur en á Hvanneyri. Þetta er svipaður atburður. Í báðum tilvikum standa skúrirnar meira en í 10-mínútur, engin vissa er því fyrir því að þær 10-mínútur sem mælirinn velur séu einmitt þær sem hittu á mestu ákefðina. Kannski var hún aðeins meiri en sýnt er.
Síðastliðinn fimmtudag, 1. ágúst, rigndi hressilega í Reykjavík. Ekki er víst að ákefðin hafi verið mest á Veðurstofunni, reyndar ólíklegt, því eitthvað mun hafa flætt í kjallara í skúrinni. Vill til að ekki er mikið um kjallara á Hvanneyri.
Sem stendur eru þrír sjálfvirkir úrkomumælar í notkun við Veðurstofuna. Myndin sýnir úrkomumælingar tveggja þeirra - sá þriðji sýnir efnislega það sama. Ákveðið var að halda sama kvarða og á fyrri mynd. Við sjáum að ákefðin er mun minni heldur en á Hvanneyri og í Búrfelli, allmikil þó, mest 3,7 mm á 10-mínútum og heildar úrkoma á báðum stöðvum í kringum 9 mm á klukkustund. Það er ekki sérlega algengt í Reykjavík. Grænleitu súlurnar sýna mælingar í nýja mælireitnum við Háuhlíð - það er eins og úrkoman hafi byrjað aðeins síðar þar heldur en við mælinn á Veðurstofutúni (rauður ferill) - eða eru klukkur mælanna ekki alveg samstíga? Í báðum tilvikum dreifist mesta úrkoman á tvennar tíu mínútur. Það er því alveg hugsanlegt að mesta 10-mínútna ákefð hafi verið t.d. 5 mm.
En notum þessar myndir - og eldri demburnar tvær - til að norma okkur. Bætum tilfinningu okkar fyrir því hvað er óvenjulegt og hvað ekki. Mjög mikilli úrkomu fylgja ákveðnar breytingar á ásýnd lofts og jarðar - þeir sem oft lenda í slíku læra að mæla ákefðina gróflega með huganum einum saman. Ekki er ritstjóri hungurdiska svo langt kominn í náttúrusambandinu - en hann er samt á leið þangað - og fer enn fram þótt gamall sé orðinn.
Flokkur: Vísindi og fræði | Facebook
Um bloggið
Hungurdiskar
Færsluflokkar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 54
- Sl. sólarhring: 484
- Sl. viku: 2376
- Frá upphafi: 2413810
Annað
- Innlit í dag: 53
- Innlit sl. viku: 2194
- Gestir í dag: 52
- IP-tölur í dag: 51
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Eldri færslur
- Nóvember 2024
- Október 2024
- September 2024
- Ágúst 2024
- Júlí 2024
- Júní 2024
- Maí 2024
- Apríl 2024
- Mars 2024
- Febrúar 2024
- Janúar 2024
- Desember 2023
- Nóvember 2023
- Október 2023
- September 2023
- Ágúst 2023
- Júlí 2023
- Júní 2023
- Maí 2023
- Apríl 2023
- Mars 2023
- Febrúar 2023
- Janúar 2023
- Desember 2022
- Nóvember 2022
- Október 2022
- September 2022
- Ágúst 2022
- Júlí 2022
- Júní 2022
- Maí 2022
- Apríl 2022
- Mars 2022
- Febrúar 2022
- Janúar 2022
- Desember 2021
- Nóvember 2021
- Október 2021
- September 2021
- Ágúst 2021
- Júlí 2021
- Júní 2021
- Maí 2021
- Apríl 2021
- Mars 2021
- Febrúar 2021
- Janúar 2021
- Desember 2020
- Nóvember 2020
- Október 2020
- September 2020
- Ágúst 2020
- Júlí 2020
- Júní 2020
- Maí 2020
- Apríl 2020
- Mars 2020
- Febrúar 2020
- Janúar 2020
- Desember 2019
- Nóvember 2019
- Október 2019
- September 2019
- Ágúst 2019
- Júlí 2019
- Júní 2019
- Maí 2019
- Apríl 2019
- Mars 2019
- Febrúar 2019
- Janúar 2019
- Desember 2018
- Nóvember 2018
- Október 2018
- September 2018
- Ágúst 2018
- Júlí 2018
- Júní 2018
- Maí 2018
- Apríl 2018
- Mars 2018
- Febrúar 2018
- Janúar 2018
- Desember 2017
- Nóvember 2017
- Október 2017
- September 2017
- Ágúst 2017
- Júlí 2017
- Júní 2017
- Maí 2017
- Apríl 2017
- Mars 2017
- Febrúar 2017
- Janúar 2017
- Desember 2016
- Nóvember 2016
- Október 2016
- September 2016
- Ágúst 2016
- Júlí 2016
- Júní 2016
- Maí 2016
- Apríl 2016
- Mars 2016
- Febrúar 2016
- Janúar 2016
- Desember 2015
- Nóvember 2015
- Október 2015
- September 2015
- Ágúst 2015
- Júlí 2015
- Júní 2015
- Maí 2015
- Apríl 2015
- Mars 2015
- Febrúar 2015
- Janúar 2015
- Desember 2014
- Nóvember 2014
- Október 2014
- September 2014
- Ágúst 2014
- Júlí 2014
- Júní 2014
- Maí 2014
- Mars 2014
- Febrúar 2014
- Janúar 2014
- Desember 2013
- Nóvember 2013
- Október 2013
- September 2013
- Ágúst 2013
- Júlí 2013
- Júní 2013
- Maí 2013
- Apríl 2013
- Mars 2013
- Febrúar 2013
- Janúar 2013
- Desember 2012
- Nóvember 2012
- Október 2012
- September 2012
- Ágúst 2012
- Júlí 2012
- Júní 2012
- Maí 2012
- Apríl 2012
- Mars 2012
- Febrúar 2012
- Janúar 2012
- Desember 2011
- Nóvember 2011
- Október 2011
- September 2011
- Ágúst 2011
- Júlí 2011
- Júní 2011
- Maí 2011
- Apríl 2011
- Mars 2011
- Febrúar 2011
- Janúar 2011
- Desember 2010
- Nóvember 2010
- Október 2010
- September 2010
- Ágúst 2010
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.