Djúpar lægðir

Nú eru allt í einu komin mánaðamót, júlímánuður 2024 liðinn. Við bíðum með að tala um hann þar til Veðurstofan hefur sent frá sér hið reglubundna yfirlit - og reynum þá að gera grein fyrir hinum óvenjulága loftþrýstingi mánaðarins - sem virðist ætla að halda áfram næstu daga. 

Hver lægðin á fætur annarri hefur verið nærri landinu. Sú sem ræður ríkjum í dag varð sú dýpsta þeirra. Greiningar reiknimiðstöðva segja hana farið niður fyrir 970 hPa í gær - þá á suðvestanverðu Grænlandshafi. Þetta er óvenjulágur þrýstingur í júlímánuði. Í dag (fimmtudaginn 1.ágúst) er lægðin heldur farin að grynnast.

w-blogg010824a

Kortið sýnir stöðuna nú á hádegi (evrópureiknimiðstöðin segir frá). Lægðarmiðjan var þá rétt við 60 gráður norður, 30 gráður vestur og mjakaðist í austur. Þrýstingur í miðju er 984 hPa. Það er lágt í júlí. Sunnan við miðjuna má sjá regnþykkni - það er samfara nýrri bylgju úr vestri sem lægðin er um það bil að grípa. Bylgjan styrkir lægðina og um hádegi á morgun á hún að vera um 977 hPa í miðju, þá um 600 km suður af landinu. Úrkomusvæði bylgjunnar nálgast síðan og fer norðvestur yfir landið. Veldur væntanlega einhverri úrkomu í öllum landshlutum - langmest þó eystra. Nokkuð hvessir um stund. 

Á laugardag hefur lægðin hins vegar grynnst aftur - en heldur sig á svipuðum slóðum. Meiriháttar regnsvæði eiga þá að láta okkur í friði - en alls ekki hægt að lofa þurrki um land allt. 

Önnur styrkingarlægð á síðan að koma úr vestri á sunnudag og ganga inn í gömlu lægðina og dýpkar hún þá enn á ný - aðeins austar en áður. Spá reiknimiðstöðvarinnar segir dýpt í miðju fara aftur niður fyrir 970 hPa á mánudag - þá beint fyrir sunnan land - og þeirri dýpkun fylgir þá enn eitt stóra regnsvæðið sem fer norður og vestur um landið - með mestu úrkomumagni eystra. 

Úrkomuöfgavísar reiknimiðstöðvarinnar eru helst að leggjast á landið suðaustan- og austanvert - en vegna þess að talsverð óvissa er í komutíma og styrk allra þessara framtíðarúrkomusvæða er þeim á þessu stigi ekki mjög að treysta. 

Hvað sem mönnum kann að finnast um úrkomuna er þetta að ýmsu leyti athyglisverð staða og fremur fágæt. Við sem höfum lengi fylgst með veðri og tíð vitum að þetta tíðarfar er hluti af heildarpakkanum - og hljótum að sætta okkur við það. 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Hungurdiskar

Höfundur

Trausti Jónsson
Trausti Jónsson
Höfundur er veðurfræðingur og áhugamaður um veður.

Færsluflokkar

Des. 2024
S M Þ M F F L
1 2 3 4 5 6 7
8 9 10 11 12 13 14
15 16 17 18 19 20 21
22 23 24 25 26 27 28
29 30 31        

Nýjustu myndir

  • w-blogg241224b
  • w-blogg241224a
  • w-blogg211224b
  • w-blogg211224
  • w-blogg121224

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.12.): 26
  • Sl. sólarhring: 417
  • Sl. viku: 1229
  • Frá upphafi: 2421521

Annað

  • Innlit í dag: 20
  • Innlit sl. viku: 1102
  • Gestir í dag: 20
  • IP-tölur í dag: 20

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Eldri færslur

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband